Hæstiréttur íslands

Mál nr. 856/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Varnarþing
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


Miðvikudaginn 7. janúar 2015

Nr. 856/2014.

Lánasjóður íslenskra námsmanna

(Jóhannes Sigurðsson hrl.)

gegn

Jóni S. Ólasyni og

Kristínu S. Jónsdóttur

(Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.)

Kærumál. Varnarþing. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli L á hendur J og K, til heimtu skuldar á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar þeirra, var vísað frá dómi á þeirri forsendu að það hefði verið höfðað á röngu varnarþingi. Hæstiréttur taldi að L hefði verið heimilt að sækja mál sitt á heimilisvarnarþingi J og K samkvæmt meginreglu 1. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991 þar sem ákvæði í skuldabréfi því sem um ræddi og í skjali með upplýsingum til ábyrgðarmanna hefðu falið í sér samning aðilanna um að reka mætti tiltekin mál um lögskipti þeirra á tilgreindu varnarþingi, en í hvorugu tilviki hefði verið kveðið á um skyldu til þess. Þá var ekki fallist á með J og K að L hefði brostið heimild til málsóknarinnar. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. desember 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 4. desember 2014, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um frávísun málsins frá héraðsdómi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Samkvæmt gögnum málsins gaf sonur varnaraðila út skuldabréf til sóknaraðila 6. apríl 2011, þar sem fjárhæð skuldarinnar, 13.592.349 krónur, virðist hafa verið færð inn við námslok og var hún bundin vísitölu neysluverðs. Í skuldabréfinu var meðal annars ákvæði um að heimilt væri að reka mál út af því fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Varnaraðilinn Jón S. Ólason gekk í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuldinni með áritun á skuldabréfið, en ábyrgð hans var takmörkuð við 7.000.000 krónur, þó þannig að sú hámarksfjárhæð skyldi taka breytingum eftir vísitölu neysluverðs. Varnaraðilinn Kristín S. Jónsdóttir tók jafnframt á sig sjálfskuldarábyrgð fyrir skuldinni með yfirlýsingu, sem hún undirritaði 7. janúar 2012, en fjárhæð ábyrgðar hennar var takmörkuð á sama hátt og ábyrgð varnaraðilans Jóns. Í yfirlýsingunni var ekkert ákvæði um varnarþing ef til málsóknar kæmi vegna ábyrgðarinnar, en þar sagði á hinn bóginn að varnaraðilinn Kristín hafi kynnt sér ákvæði skuldabréfsins og sætt sig við það að öllu leyti. Við veitingu þessara ábyrgða undirrituðu varnaraðilarnir hvort fyrir sitt leyti yfirlýsingu, sem stafaði frá sóknaraðila og hafði að geyma samkvæmt yfirskrift sinni upplýsingar til ábyrgðarmanns samkvæmt 5. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Í þessum yfirlýsingum var þess meðal annars getið að risi ágreiningur um ábyrgð gæti ábyrgðarmaður „sent inn erindi til stjórnar LÍN og eftir atvikum borið úrskurð stjórnar undir Málskotsnefnd LÍN“, en að auki ætti hann „þess alltaf kost að bera ágreining varðandi ábyrgðarskuldbindinguna undir héraðsdóm Reykjavíkur samkvæmt ákvæðum umrædds skuldabréfs.“

Með bréfum 10. janúar 2013 tilkynnti sóknaraðili varnaraðilum að bú sonar þeirra hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 11. október 2012, en hann stæði í skuld við sóknaraðila vegna námsláns, sem varnaraðilar hafi tekið ábyrgð á, og yrði kröfu vegna lánsins beint að þeim af þessum sökum. Var tiltekið í bréfinu til varnaraðilans Jóns að fjárhæð ábyrgðar hans næmi 7.735.019 krónum, en í bréfinu til varnaraðilans Kristínar að ábyrgð hennar stæði í 7.522.053 krónum. Varnaraðilarnir beindu af þessu tilefni ódagsettu erindi til stjórnar sóknaraðila, þar sem þau fóru þess efnislega á leit að horfið yrði frá gjaldfellingu skuldabréfsins og syni þeirra gefinn kostur á að greiða skuld sína eftir ákvæðum þess. Stjórn sóknaraðila hafnaði þessu með ákvörðun 3. júlí 2013, sem áréttuð var með annarri ákvörðun 17. október sama ár. Varnaraðilar kærðu þessa ákvörðun til málskotsnefndar samkvæmt 5. gr. a. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna, sbr. 3. gr. laga nr. 67/1997. Með úrskurði 5. júní 2014 felldi málskotsnefndin þessar ákvarðanir stjórnarinnar úr gildi, en samkvæmt forsendum hans var sú niðurstaða reist á því að fella bæri niður ábyrgð varnaraðilanna á skuld sonar þeirra með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

Sóknaraðili höfðaði mál þetta fyrir Héraðsdómi Vesturlands 22. júlí 2014 og krafðist þess að fyrrgreindur úrskurður málskotsnefndarinnar yrði felldur úr gildi. Með hinum kærða úrskurði var orðið við kröfu varnaraðila um að málinu yrði vísað frá dómi.

II

Varnaraðilar hafa reist kröfu sína um frávísun málsins frá héraðsdómi annars vegar á því að niðurstaða málskotsnefndar samkvæmt 5. gr. a. laga nr. 21/1992 sé endanleg gagnvart sóknaraðila og geti hann þess vegna ekki leitað eftir því að henni verði hnekkt fyrir dómi. Í þessu sambandi vísa varnaraðilar til þess að sóknaraðili hafi í stöðluðum upplýsingum til ábyrgðarmanns, sem varnaraðilarnir undirrituðu samkvæmt áðursögðu, aðeins greint frá því að ábyrgðarmaður gæti borið ágreining um skuldbindingu sína undir dóm en einskis hafi verið getið um slíka heimild sóknaraðila, tiltekið hafi verið í grein 5.10.5. í úthlutunarreglum sóknaraðila, sem ráðherra hafi staðfest með auglýsingum nr. 533/2010 og 640/2011, að úrskurðir nefndarinnar væru endanlegir og leiddi þetta jafnframt af því að málskotsnefndin væri æðra stjórnvald, sem eftir almennum reglum bindi hendur sóknaraðila með ákvörðunum sínum.

Um þessar röksemdir varnaraðila er þess að gæta að ótvírætt er af orðalagi 3. mgr. 5. gr. a. laga nr. 21/1992 að gert er ráð fyrir heimild sóknaraðila til að höfða fyrir sitt leyti mál til að fá hnekkt úrskurði málskotsnefndarinnar. Í 2. mgr. sömu lagagreinar er einnig tekið fram að úrskurðum nefndarinnar verði ekki skotið til annars stjórnvalds. Verður í þessu ljósi að skilja áðurnefnd ákvæði í úthlutunarreglum sóknaraðila svo að með þeim hafi verið átt við að úrskurðir nefndarinnar væru endanlegir á stjórnsýslustigi. Framangreind ákvæði 3. mgr. 5. gr. a. laga nr. 21/1992 víkja jafnframt til hliðar almennum reglum, sem kynnu að öðrum kosti að hafa staðið því í vegi að sóknaraðila teldist heimilt að bera úrskurði málskotsnefndarinnar undir dóm. Þá verður að gæta að því að í skjali frá sóknaraðila með upplýsingum til ábyrgðarmanns, sem varnaraðilar vísa samkvæmt áðursögðu til, kom skýrlega fram að þær væru gefnar vegna fyrirmæla 5. gr. laga nr. 32/2009. Með því lagaákvæði er sú skylda lögð á herðar lánveitanda að upplýsa ábyrgðarmann fyrir fram um áhættu, sem fylgt geti ábyrgð, en til slíkra upplýsinga telst meðal annars ábending um leiðir, sem ábyrgðarmanni standi til boða til að fá leyst úr ágreiningi vegna ábyrgðar, sbr. i. lið 1. mgr. ákvæðisins. Í upplýsingum um þetta er ekkert tilefni til að geta um úrræði lánveitanda til að fá leyst úr slíkum ágreiningi. Að þessu öllu virtu eru engin efni til að vísa málinu frá héraðsdómi á þeim grunni að sóknaraðila bresti heimild til málsóknarinnar.

Til stuðnings kröfu um frávísun bera varnaraðilar hins vegar fyrir sig að sóknaraðili sé bundinn af því að höfða mál um sakarefnið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur vegna skilmála í skuldabréfinu frá 6. apríl 2011 og fyrrgreinds ákvæðis í skjali sóknaraðila um upplýsingar til ábyrgðarmanns, en af þeim sökum hafi verið óheimilt að höfða þetta mál á heimilisvarnarþingi varnaraðila fyrir Héraðsdómi Vesturlands.

Eins og áður greinir var tekið fram í skuldabréfinu 6. apríl 2011 að heimilt væri að reka mál út af því fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Þá var í skjali sóknaraðila með upplýsingum til ábyrgðarmanns mælt svo fyrir að ábyrgðarmaður ætti þess alltaf kost að bera ágreining um skuldbindingu sína undir sama dómstól. Bæði þessi ákvæði fólu í sér samning aðilanna um að reka mætti tiltekin mál um lögskipti þeirra fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, sbr. 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991. Í hvorugu tilviki var kveðið á um skyldu til þess. Sóknaraðila var því frjálst að nýta sér ekki samningsbundna heimild sína samkvæmt skuldabréfinu til að reka mál á hendur varnaraðilum fyrir þeim dómstól og sækja þess í stað mál sitt á heimilisvarnarþingi þeirra eftir meginreglu 1. mgr. 32. gr. sömu laga.

Samkvæmt framansögðu standa engin rök til að vísa máli þessu frá héraðsdómi. Hinn kærði úrskurður verður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Rétt er að ákvörðun málskostnaðar í héraði vegna þessa þáttar málsins bíði efnisdóms, en varnaraðilum verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðilar, Jón S. Ólason og Kristín S. Jónsdóttir, greiði óskipt sóknaraðila, Lánasjóði íslenskra námsmanna, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 4. desember 2014.

Mál þetta var höfðað 22. júlí 2014 og tekið til úrskurðar 12. nóvember sama ár. Stefnandi er Lánasjóður íslenskra námsmanna, Borgartúni 21 í Reykjavík, en stefndu eru Jón S. Ólason og Kristín S. Jónsdóttir bæði til heimilis að Reynigrund 28 á Akranesi.

Stefnandi hefur höfðað málið til þess að felldur verði úr gildi úrskurður málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna, dagsettur 5. júní 2014, í máli nr. L-50/2013. Með þeim úrskurði var felldur úr gildi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmann frá 3. júlí og 17. október 2013 og ábyrgð stefndu á námsláni Óla Kr. Jónssonar nr. G-118518 felld niður.

Stefndu krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til vara að stefndu verði sýknuð af kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Krafa stefndu um frávísun málsins er til úrlausnar hér.

Stefnandi krefst þess að þeirri kröfu verði hrundið og að málskostnaður bíði efnisdóms.

Af hálfu stefnanda segir að Stefnandi, Lánasjóður íslenskra námsmanna (LÍN), sé opinber stjórnsýslustofnun sem starfi eftir lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna nr. 21/1992 og hafi það hlutverk að tryggja þeim sem falla undir lögin tækifæri til náms án tillits til efnahags, sbr. 1. gr. laganna.

Tiltekin skilyrði séu sett í lögunum fyrir veitingu námslána, en m.a. sé gerð krafa um tryggingar í formi ábyrgða, ef námsmenn teljist ekki lánshæfir samkvæmt reglum stjórnar sjóðsins, sbr. 5. mgr. 6. gr. laga um sjóðinn. Af því leiði að stefnanda sé beinlínis óheimilt að veita lán úr sjóðnum til þeirra námsmanna sem teljist ekki lánshæfir, nema lögð sé fram viðunandi ábyrgð. Sonur stefndu hafi sótt um námslán árið 2011. Hann hafi ekki talist lánshæfur og því gerð krafa um viðunandi ábyrgð. Stefndi Jón hafi gengist undir sjálfskuldarábyrgð á námslánum sonar síns. Nánar tiltekið sé um að ræða sjálfskuldarábyrgð vegna skuldabréfs nr. G-118518, dags. 6. apríl 2011 þar sem hámarksfjárhæð ábyrgðar er tilgreind kr. 7.000.000. Stefnda Kristín hafi síðan gengist í viðbótarábyrgð vegna sama láns, dags. 7. janúar 2012, þar sem hámarksfjárhæð ábyrgðar sé tilgreind kr. 7.000.000.

Bú sonar aðila hafi verið  tekið til gjaldþrotaskipta 11. október 2012. Hinn 10. janúar hafi stefnandi sent stefndu tilkynningu um gjaldþrotið en þá hafi staða skuldar Óla við stefnanda numið 10.461.666 krónum.

Með erindi, dags. 31. maí 2013 óskuðu stefndu, ásamt syni sínum, lántakanum, eftir því við stjórn stefnanda að gefið yrði út skuldabréf til lántakans og honum veittur kostur á því að greiða af því sem og að krafa vegna dráttarvaxta yrði felld niður.

Stjórn stefnanda hafnaði erindi stefndu og lántakans með ákvörðun, dags. 3. júlí 2013.

Stefndu óskuðu eftir endurupptöku á ákvörðun stjórnar stefnanda á gjaldfellingu námslánsins, með erindi dags. 5. september 2013.

Í ákvörðun stjórnar stefnanda frá 17. október 2013 var fallist á að endurupptaka málið. Stjórn stefnanda hafnaði hins vegar beiðni stefnenda um afturköllun á gjaldfellingu og innheimtu lánsins með almennum hætti. 

Stefndu kærðu þessar ákvarðanir stjórnar stefnanda til málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna, með kæru, dags. 1. október 2013.

Málskotsnefndin kvað upp úrskurð í málinu þann 5. júní 2014, þar sem framangreindar ákvarðanir stjórnar stefnanda frá 3. júlí 17.október 2013 í máli stefndu voru felldar úr gildi, en í forsendum úrskurðarins er tekið fram að með vísan til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 beri að fallast á kröfur stefndu um niðurfellingu ábyrgðar þeirra.

Stjórn stefnanda setti í kjölfarið fram beiðni um frestun réttaráhrifa úrskurðarins með erindi, dags. 13. júní 2014. Með úrskurði, dags. 26. júní féllst málskotsnefndin á að fresta réttaráhrifum úrskurðarins þar til niðurstaða dómstóla liggur fyrir, en frestunin er bundin því skilyrði að málið verði borið undir dómstóla innan 30 daga frá frestuninni og óskað verði eftir flýtimeðferð málsins.

Stefnandi telur að úrskurður málskotsnefndarinnar í málinu sé ekki í samræmi við lög, en standi niðurstaða málskotsnefndarinnar er ljóst að það hefur í för með sér veruleg fjárhagsleg áhrif fyrir sjóðinn.

Kjarni þessa máls lúti að því hvort sjálfskuldarábyrgð stefndu standist lög, eða hvort atvik séu með þeim hætti að ábyrgð stefndu teljist niður fallin. Atvik málsins séu óumdeild, en kröfur stefnanda byggi á því að málskotsnefndin hafi ranglega túlkað ákvæði laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna nr. 21/1992, laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009, laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936 og skilmála þeirra ábyrgðarsamninga sem stefndu gengust undir gagnvart stefnanda. Krafa um ógildingu úrskurðarins byggi stefnandi á ákvæði 3. mgr. 5. gr. a. laga um sjóðinn. Þá vísar stefnandi til almennra reglna stjórnsýsluréttar, kröfuréttar og samningaréttar.

Stefndu krefjast aðallega frávísunar máls þessa. Byggt er annars vegar á því að samkvæmt skilmálum ábyrgðar þeirra feli niðurstaða málskostsnefndar stefnanda í sér endanlega niðurstöðu um ágreiningsefni er lúta að ábyrgð þeirra og hins vegar að verði ákvarðanir málskotsnefndarinnar bornar undir dómstóla skuli það mál rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Byggja stefndu hvort tveggja á 9. grein blaðs með upplýsingum til ábyrgðarmanna, dskj. nr. 7 og 9, en skjöl þessi eru samhljóða.

Um sé að ræða einhliða yfirlýsingu stefnanda til stefnda um þá skilmála sem hann hafi ákveðið að gilda skuli um ábyrgðina, sem og upplýsingar skv. 5. gr. laga nr. 32/2009. Lagt sé fyrir ábyrgðarmann að árita skilmála stefnanda um samþykki sitt. Við samþykki ábyrgðarmanns á skilmálunum verði þeir hluti af ábyrgðarsamningi milli aðila, sbr. ákvæði í niðurlagi þeirra.  Sú staðreynd að skjalið geymi gagnkvæman samning milli aðila um þau efnisatriði sem það fjallar um skipti máli við túlkun þess. Skjalið markar skýrlega réttindi og skyldur beggja aðila að því er varði þau atriði sem fjallað sé um í því.

Af gögnum málsins verði ráðið að ábyrgðarsamningur stefnda Jóns Sigurðar standi saman af skuldabréfi á dskj. nr. 6 og samþykktum skilmálum á dskj. nr. 7, en ábyrgðarsamningur stefndu Kristínar samanstandi af yfirlýsingu um sjálfskuldaábyrgð dskj. nr. 8 og samþykktum skilmálum dskj. nr. 9. Skilmálar ábyrgða þeirra séu þannig ekki algerlega sambærilegir.

Stefndu benda á, og byggja á því, að það sé undantekning frá meginreglu laga nr. 21/1991 um lánasjóða íslenskra námsmanna að lán til námsmanns sem stundi lánshæft nám og nái markmiðum um námsframvindu, sé bundið skilyrði um ábyrgð af hálfu þriðja aðila, sjá 5. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 1. gr. laga nr. 78/2009.

Aðeins í því undantekningartilviki að námsmaður teljist ekki lánshæfur megi skilyrða veitingu námsláns við að ábyrgð sé lögð fram. Samkvæmt 7. mgr. 6. gr. sé stjórn stefnanda falið vald til að ákveða hvaða skilyrði lántakendur og ábyrgðarmenn skuli uppfylla. Í því felist að það sé sett í vald stjórnarinnar að ákveða hvað felist í hugtakinu „lánshæfur“ og þar með hvenær ábyrgðarmanna sé þörf. Einnig sé stjórn stefnda veitt vald til að setja skilmála fyrir ábyrgðarmenn, sbr. 5. og 7. mgr. 6. gr. og 2. mgr. 16. gr. laganna. Þannig hafi löggjafinn alfarið sett það í hendur stjórnar stefnanda að setja skilmála um ábyrgðir.

Stjórn stefnanda hafi gert það með tvennum hætti, annars vegar með því að setja úthlutunarreglur sem samþykktar séu af ráðherra, sbr. 2. mgr. 16. gr. og hins vegar með því að útbúa skjöl um ábyrgðina, sbr. þau skjöl sem liggi frammi í málinu, sbr. 1. mgr. greinar 5.3.2. í úthlutunarreglum stefnanda, en ákvæði þau sem lúti að ábyrgðarmönnum séu óbreytt milli ára í úthlutunarreglunum.

Stefndu byggja einnig á því að úrskurðir málsskotsnefndar skv. 5. gr. a. í lögum nr. 21/1991 feli í sér úrlausn æðra sett stjórnvalds og sérstakrar úrskuðarnefndar á stjórnsýslustigi sem sé almennt ætlað að vera bindandi fyrir stjórn stefnanda svo sem ákvæði 2. mgr. 5. gr. a. beri með sér. Í 2. mgr. 5. gr. a sé það fellt undir mat og ákvörðun stjórnar stefnanda, að uppfylltum skilyrðum 2. mgr., að ákveða hvort hún kjósi að fara fram á það við málskotsnefndina að réttaráhrifum úrskurðar verði frestað í því skyni að leita megi eftir endurskoðun hans af hálfu dómstóla.

Stefndu telja að í framangreindum lagaákvæðum felist að stjórn stefnanda hafi hvort tveggja heimild að lögum til að setja reglur og skilmála um ábyrgðir ábyrgðarmanna sem og að til þess að ákveða hvort ábyrgðarmenn eigi að njóta án undantekninga þess hagræðis að fá úrlausn í ágreiningi sínum við stjórn stefnanda fyrir málskotsnefndinni.

Stefndu telja jafnframt að skýra beri ákvæði ábyrgðarskilmála þeirra með þeim hætti að þau njóti alls vafa, sé talið að fyrir hendi sé vafi um túlkun þeirra. Þetta byggi í fyrsta lagi á þeirri grundvallarreglu að stefnandi sé stjórnvald sem hafi sérfræðiþekkingu á lánveitingum og ábyrgðum, sem og reglum stjórnsýslulaga, og hafi samið skilmála þá sem um ræðir einhliða. Í öðru lagi á því að ákvörðun um að skilyrða lánveitingu við ábyrgð af hálfu ábyrgðarmanns, sem og ákvörðun um að hlíta ekki niðurstöðu málskotsnefndar, eru undantekningar. Í þriðja lagi vegna þess að hlutverks sem stefnanda sé afmarkað í lögum sem lánveitandi sem hafi það markmið að tryggja námsmönnum framfærslu á námstíma, og geti stefndu tekið undir það með stefnanda að skoða verði ábyrgðir þeirra í því samhengi. Það samhengi sé augljóslega til þess fallið að fella áhættu og vafa er snýr að stofnun og gildi ábyrgðar á stefnanda.

Að síðustu benda stefndu á ákvæði i-liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Í ákvæðinu sé lánveitanda gert skylt að upplýsa ábyrgðarmenn um þær leiðir sem honum standi til boða til þess að fá leyst úr ágreiningi um ábyrgð. Telja verði að stefnandi hafi verið að uppfylla þá lagaskyldu í 8. gr. skilmálablaðs, dskj. nr. 7 og 9.

Í ákvæðinu sé sú skylda lögð á stefnanda að taka afstöðu til þess hvaða úrræði það séu sem „leysa úr ágreingini“ um ábyrgð ábyrgðarmanns og upplýsa ábyrgðarmann um það.  Hafi það verið vilji eða afstaða stjórnar stefnanda að úrskurðir málskotsnefndar væru ekki bindandi fyrir hana í einhverjum tilvikum, hafi stjórninni borið skylda til að gera grein fyrir því og setja fyrirvara um það að úrskurðir nefndarinnar ættu ekki í öllum tilvikum að fela í sér úrlausn ágreinings.  Í stað þess að setja slíkan fyrirvara sé hið gangstæða í raun gert, með því að láta við það sitja að tiltaka að það sé kostur ábyrðarmannsins að bera úrskurði málskostnefndar undir dómstóla. Þögn um að til þess geti komið að stjórn stefnanda geri það sama sé óviðeigandi og villandi, hafi það verið ásetningur stjórnar stefnanda að ábyrgðarmaður gæti ekki treyst því að niðurstaða málskotsnefndar í ágreiningi hans við stjórn stefnanda, sem væri ábyrgðarmanni hagstæð, væri endanleg úrlausn ágreinings hans við stjórnina.

Með vísan til framanritaðs sé það afstaða stefndu að skilmálar ábyrgðar þeirra hafi verið með þeim hætti að þau hafi mátt treysta því að niðurstaða málskotsnefndarinnar hafi verið endanlega niðurstaða í ágreiningi þeirra við stjórn stefndu og því verði með vísan til ákvæða 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991, að vísa málinu frá dómi.

Verði ekki fallist á framangreint er á því byggt að í 9. gr. skilmálanna á dskj. nr. 7 og 9 felist að bera eigi ágreining milli aðila undir Héraðsdóms Reykjavíkur. Málið sé því höfðað á röngu varnarþingi og því beri að vísa því frá dómi. Varðandi tilvísun í skuldabréf sem finna má í  ákvæðinu tekur stefnda Kristín fram að hún hafi ekkert skuldabréf undirritað. Í skuldabréfi því sem stefndi Jón Sigurður undirritaði er ákvæði um að mál vegna skuldabréfsins megi reka fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Telja verður að það ákvæði hafi takmarkaða þýðingu í máli þessu, enda er mál þetta ekki risið er út af umræddu skuldabréfi. 

NIÐURSTAÐA

Í samningum málsaðila 6. apríl 2011 og 7. janúar 2012 er samhljóða ákvæði um að rísi ágreiningur vegna skuldabréfanna sé heimilt að reka mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Stefndu krefjast meðal annars frávísunar málsins þar sem það hafi verið höfðað utan umsamins varnarþings.

Stefndu vísa til þess að í lánssamningi þeim, sem stefnandi byggir á, hafi verið samið um varnarþing í samræmi við 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991 á þann veg að ágreiningsmál vegna hans megi reka fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Stefnandi mótmælir frávísun með þeim rökum að aðeins sé um heimildarákvæði að ræða sem fyrirbyggi ekki að mál verði höfðað á heimilisvarnarþingi áfrýjanda. Við munnlegan málflutning taldi stefnandi ennfremur að slíkt samningsákvæði um varnarþing yrði að vera mjög skýrt orðað ætti það að binda aðila. Stefndu væru sjálfskuldarábyrgðarmenn, sem ekki hefðu haft neitt um skilmála lánasamningsins að segja, væri því alltaf heimilt að höfða mál gegn þeim á heimilisvarnarþingi.

Skjal það sem krafa stefnanda er byggð á er skuldabréf upphaflega frá 6. apríl 2011 þar sem Ólafur Kristján Jónsson er nefndur sem lántakandi og stefndi Jón Sigurður Ólason tiltekinna sem ábyrgðarmaður. Samþykkti sjálfskuldarábyrgðarmaður samninginn með undirskrift sinni. Þann 8. janúar 2012 gekkst stefnda Kristín Sigríður Jónsdóttir einnig undir að verða ábyrgðarmaður fyrir Óla Kristján Jónsson.

Í texta á skuldabréfinu segir: „Rísi mál útaf skuldabréfi þessu er heimilt að reka það fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.“ Einnig kemur fram á framlögðu dómskjali nr. 9 þar sem er að finna upplýsingar til ábyrgðarmanna að ábyrgðarmaður geti alltaf borið ágreining varðandi ábyrgðarskuldbindingar undir héraðsdóm Reykjavíkur. 

Orðalag þetta er skýrt. Samkvæmt því er um gagnkvæmt og bindandi ákvæði að ræða. Sjálfskuldarábyrgðarmenn eru aðilar að samningnum og bundnir af ákvæðum hans og geta jafnframt eftir atvikum reist rétt á þeim. Stefndu kröfðust  frávísunar vegna varnarþingsákvæðisins þegar í greinargerð sinni til héraðsdóms.

Samkvæmt 3. mgr. 42. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, er aðilum rétt að semja um meðferð máls í hverri þinghá sem er. Gegn andmælum stefndu verður málið því ekki rekið hér fyrir dómi og þegar af þeirri ástæðu verður málinu vísað frá dómi. 

Eftir þessum málsúrslitum og með vísan til 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn svo sem greinir í úrskurðaroði.

Allan V. Magnússon, dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Lánasjóður íslenskra námsmanna, greiði stefndu 200.000 krónur í málskostnað.