Hæstiréttur íslands

Mál nr. 298/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Mánudaginn 1

 

Mánudaginn 1. júlí 2002.

Nr. 298/2002.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Þórir Örn Árnason hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. júní 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júní 2002, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 12. júlí nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júní 2002.

Lögreglan í Reykjavík hefur krafist þess að X verði gert að sæta gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 12. júlí 2002, klukkan 16:00.

Í greinargerð lögreglustjórans í Reykjavík kemur fram að ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík (áfd) hafi nú lokið rannsókn á stórfelldum brotum gegn ávana- og fíkniefnalöggjöf.

Rannsóknin beinist að innflutningi mikils magns fíkniefna til landsins en þann 12. mars s.l. hafi lögreglan lagt hald á um 30 kg af hassi í fyrirtæki hér í borg.

Kærði hafi verið handtekinn 15. apríl sl. og hafi við yfirheyrslur ekki kannast við sakarefnið.

Nokkrir aðilar hafi gefið framburð í málinu og tveir aðrir menn hafi verið látnir sæta gæsluvarðhaldi vegna málsins. Báðir þeir aðilar sem hafi verið látnir sæta gæsluvarðhaldi vegna málsins, auk kærða sjálfs, hafi borið um þátt kærða. [...].

  Hér sé um að ræða mál sem snúist um stærstu fíkniefnasendingu sem lögregla hefur nokkru sinni lagt hald á í einu lagi. Til að bera saman við aðra tegund fíkniefna og varpa ljósi á fjárhagslegt umfang málsins er nefnt að söluandvirði efnisins í “smásölu” myndi vart verða minna en kr. 45.000.000 og jafngilda söluandvirði 18.000 MDMA-taflna varlega áætlað og neysluskammtarnir séu ekki undir 60.000 og líkast til talsvert fleiri, en smásöluverð MDMA-taflna muni vera kr. 2.000 – 2.500 og kr. 1.500 – 2.000 fyrir gramm af hassi.

Krefjist hagsmunir almennings þess að maður sem eigi slíkan þátt í jafn stóru og alvarlegu broti og hér um ræði, stórfelldum innflutningi fíkniefna, gangi ekki laus meðal almennings strax að rannsókn lokinni, heldur sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í málinu. Sé þetta í samræmi við réttarvitund almennings. Eigi þetta því fremur við í máli kærða þar sem um sé að ræða mjög mikið magn fíkniefna og megi þannig gera ráð fyrir að það myndi vekja athygli og andúð almennings ef hann endurheimti nú frelsi sitt.

Telur lögregla að telja verði og reikna með að ef sakborningur sem orðið hafi uppvís af jafn alvarlegu broti og kærði, gengi laus strax að lokinni rannsókn ylli það hneykslun í samfélaginu og særði réttarvitund almennings. Þá verði að telja hættu á því að slíkar niðurstöður kunni að leiða til þess að samkvæmt réttarvitund almennings verði slík brot ekki talin eins alvarleg og áður.

Sé krafa um gæsluvarðhald gerð með hliðsjón af dómaframkvæmd síðustu ára, þar sem sakborningum hafi margsinnis verið gert að sæta gæsluvarðhaldi uns dómur sé uppkveðinn þegar legið hafi fyrir sterkur grunur um að þeir hafi staðið að innflutningi á miklu magni fíkniefna í ágóðaskyni. Verði því með tilliti til almannahagsmuna að telja að áframhaldandi gæsluvarðhald sé nauðsynlegt.

Rannsókn á ætluðu broti kærða gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sé lokið og verði gögnin send til ákærumeðferðar hjá ríkissaksóknara, en brotið geti varðað kærða þungri fangelsisrefsingu ef sannast, en sterkur rökstuddur grunur sé um að kærði hafi gerst sekur um slíkt brot. Verði að telja gæsluvarðhald nauðsynlegt m.t.t. almannahagsmuna.

Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Dómari hefur kynnt sér rannsóknargögn málsins. Um er að ræða sakamál sem varðar innflutning á u.þ.b. 30 kg af hassi. Er það eitt mesta magn af hassi sem lögregla hefur lagt hald á og varðar það almannaheill. Gögn málsins benda sterklega til að kærði hafi átt hlut að þessum innflutningi. Aðrir sakborningar málsins sem sæta gæsluvarðhaldi hafa borið um þátt kærða í málinu og eru framburðir þeirra samhljóða um hlutdeild kærða. Verður að fallast á það með fulltrúa lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um að eiga verulegan þátt í stórfelldum innflutningi fíkniefna. Þegar litið er til rannsóknargagna þykir fullnægt því skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 að um sterkan grun sé að ræða. Gæti brot það sem kærði er grunaður um aðild að varðað hann allt að 12 ára fangelsisrefsingu ef sannaðist samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Það brot sem kærði er sterklega grunaður um aðild að er svo alvarlegt og varðar svo þungri refsingu, ef sannast, að áframhaldandi gæsluvarðhald er nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Þykir því vera uppfyllt skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til að kærði sæti gæsluvarðhaldi vegna málsins þar til dómur gengur í því og er krafa lögreglustjóra því tekin til greina eins og hún er fram sett.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans þó eigi lengur en til föstudagsins 12. júlí nk. kl. 16.00.