Hæstiréttur íslands
Mál nr. 216/2004
Lykilorð
- Ávana- og fíkniefni
|
|
Fimmtudaginn 4. nóvember 2004. |
|
Nr. 216/2004. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari) gegn Björgvin Ómarssyni (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Ávana- og fíkniefni.
B játaði að hafa haft hass, tóbaksblandað kannabisefni og amfetamín í vörslum sínum. Fyrir Hæstarétti krafðist hann þess að refsing, sem honum var gerð með héraðsdómi, yrði milduð. Með vísan til sakarferils B og 1. mgr. 77. gr. almennra hegningarlaga var staðfest niðurstaða héraðsdóms um 60 daga fangelsisvist B.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. apríl 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess nú að héraðsdómur verði staðfestur.
Ákærði krefst þess að refsing, sem honum var gerð með héraðsdómi, verði milduð.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms og 1. mgr. 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 verður hann staðfestur.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Björgvin Ómarsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 75.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. mars 2004.
Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 20. janúar 2004 á hendur Björgvin Ómarssyni, kt. 210871-5199, Furugrund 56, Kópavogi, fyrir fíkniefnabrot í Reykjavík á árinu 2003 með því að hafa haft eftirtalin fíkniefni í vörslum sínum á dvalarstað sínum að Dvergshöfða 27, Reykjavík:
Fimmtudaginn 16. október 10,58 g af hassi og 2,78 g af tóbaksblönduðu kannabisefni.
Föstudaginn 17. október 7,70 g af hassi og 0,13 g af tóbaksblönduðu kannabisefni.
Fimmtudaginn 23. október 3,71 g af hassi.
Laugardaginn 22. nóvember 0,96 g af amfetamíni og 0,34 g af hassi.
Fimmtudaginn 11. desember 0,26 g af amfetamíni og síðar sama dag 22,56 g af hassi.
Eru brot þessi talin varða við 2. gr. sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og jafnframt að ofangreind fíkniefni, auk tveggja MDMA taflna, sem lögreglan lagði hald á við rannsókn lögreglumáls nr. 010-2003-26943, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar 233/2001.
Verjandi ákærða krafðist þess, að ákærða yrði dæmd vægasta refsing sem lög. leyfa. Einnig krafðist hann hæfilegrar þóknunar að mati dómsins.
Ákærði hefur skýlaust játað brot sín og samþykkt upptökukröfur ákæruvalds að því leyti sem fíkniefni voru í hans vörslum.
Farið var með mál þetta samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.
Sannað er með játningu ákærða sem studd er öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Ákærði er fæddur í ágúst 1971. Hann hefur alls átta sinnum hlotið dóma eða gengist undir sáttir vegna brota á ákvæðum laga nr. 65/1974, þar af hefur hann í tvígang hlotið óskilorðsbundinn fangelsisdóm og í eitt sinn óskilorðsbundið varðhald.
Í ljósi sakarefnis í máli þessu og sakarferils ákærða er refsing hans ákveðin fangelsi í 60 daga. Ákærði sæti upptöku á 44,89 g af hassi, 2,91 g af tóbaksblönduðu hassi og 1,22 g af amfetamíni. Samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 skal gera upptæk til ríkissjóðs efni er lögin taka til og aflað hefur verið á ólögmætan hátt eða eru á annan hátt í ólögmætri vörslu. Ákærði hefur borið því við að 2 MDMA töflur, er krafist sé upptöku á, hafi ekki verið í hans vörslum og að hann kannist ekki við þær. Rannsóknargögn lögreglu sýna ekki ótvírætt fram á tilurð þeirra. Við svo búið verður ákærði ekki látinn sæta upptöku á töflum þessum.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 40.000 krónur.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Björgvin Ómarsson, sæti fangelsi í 60 daga.
Ákærði sæti upptöku á 44,89 g af hassi, 2,91 g af tóbaksblönduðu hassi og 1,22 g af amfetamíni.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 40.000 krónur.