Print

Mál nr. 119/2014

Lykilorð
  • Kærumál
  • Aðild
  • Lögvarðir hagsmunir
  • EES-samningurinn
  • Ráðgefandi álit
  • EFTA-dómstóllinn

                                     

Miðvikudaginn 26. febrúar 2014.

Nr. 119/2014.

Landvernd

Náttúruverndarsamtök Íslands

Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og

Hraunavinir

(Skúli Bjarnason hrl.)

gegn

Vegagerðinni

(Þórður Bogason hrl.)

Kærumál. Aðild. Lögvarðir hagsmunir. EES-samningurinn. Ráðgefandi álit. EFTA-dómstóllinn.

Með skírskotun til dóms Hæstaréttar 21. nóvember 2013 í máli nr. 677/2013 var hafnað beiðni náttúruverndarsamtakanna L o.fl. um að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tiltekin atriði í tengslum við mál sem rekið var á hendur V því til viðurkenningar að tilgreindar framkvæmdir V við lagningu nýs Álftanesvegar væru ólögmætar. Í dómi Hæstaréttar var talið að þegar metið væri hvort L o.fl. hefðu lögvarða hagsmuni af því að hafa uppi fyrir dómstólum kröfu, sem lyti að því hvort vegaframkvæmdir V væru ólögmætar, skipti ekki máli hvort á slíkt reyndi í dómsmáli sem rekið væri eftir almennum reglum laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála eða sérlögum eins og nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 10. febrúar 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. febrúar 2014, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tiltekin atriði í tengslum við mál, sem sóknaraðilar reka á hendur varnaraðila því til viðurkenningar að tilgreindar framkvæmdir varnaraðila við lagningu nýs Álftanesvegar séu ólögmætar. Kæruheimild er í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Sóknaraðilar krefjast þess að framangreind beiðni þeirra verði tekin til greina. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar óskipt úr hendi sóknaraðila.

Þegar metið er hvort sóknaraðilar hafi lögvarða hagsmuna af því að hafa uppi fyrir dómstólum kröfu sem lýtur að því hvort þær vegaframkvæmdir varnaraðila, sem um ræðir í málinu, séu ólögmætar skiptir ekki máli hvort á slíkt reynir í dómsmáli sem rekið er samkvæmt almennum reglum laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála eða sérlögum eins og nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Samkvæmt þessu en að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. febrúar 2014.

Mál þetta, sem 31. janúar sl. var tekið til úrskurðar um hvort leita skyldi ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins, var höfðað 10. júní 2013 af Landvernd, Skúlatúni 6, Reykjavík, Náttúruverndarsamtökum Íslands, Hringbraut 121, Reykjavík, Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands, Austurgötu 29b, Hafnarfirði og Hraunavinum, Garðatorgi 7, Garðabæ gegn Vegagerðinni, Borgartúni 5-7, Reykjavík.

 Í stefnu gera stefnendur þær dómkröfur að viðurkennt verði með dómi að fyrirhuguð framkvæmd Vegagerðarinnar um lagningu svokallaðs nýs Álftanesvegar milli Hafnafjarðarvegar og Bessastaðavegar, sem Vegagerðin auglýsti með útboði hinn 7. ágúst 2012, sé ólögmæt. Þá er krafist greiðslu málskostnaðar.

Stefndi krefst aðallega frávísunar málsins frá héraðsdómi, en til vara sýknu af öllum kröfum stefnenda og greiðslu málskostnaðar.

Í þinghaldi 20. janúar sl. höfðu stefnendur uppi beiðni um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í málinu. Stefndi mótmælti kröfunni. Var málið munnlega flutt um ágreining um hvort leitað yrði ráðgefandi álits EFTA dómstólsins. Auk kröfu um að hafnað verði kröfu sóknaraðila um öflun ráðgefandi álits krefst varnaraðili málskostnaðar af þessum þætti. 

I

Skipulagsstofnun úrskurðaði 22. maí 2002 um nýja lagningu nýs Álftanesvegar og samhliða lengingu Vífilstaðavegar í Garðabæ. Sveitafélagið Garðabær gaf 7. apríl 2009 út framkvæmdaleyfi til handa stefnda fyrir lagningu stofnbrautar Álftanesvegar frá Hafnafjarðarvegi í Endigal að bæjarmörkum við sveitarfélagið Álftanes. Varnaraðili efndi 7. ágúst 2012 til útboðs vegna framkvæmdarinnar við gerð Álftanesvegar milli Hafnafjarðarvegar og Bessastaðavegar. Sóknaraðilar telja þá framkvæmd ólögmæta og hafa uppi viðurkenningardómkröfur er að henni lúta. Varnaraðili byggir frávísunarkröfu sína á því að sóknaraðilar hafi ekki lögvarða hagsmuni af dómkröfum sínum í málinu. Sóknaraðilar hafa óskað eftir ráðgefandi áliti EFTA dómstólsins til að leiða í ljós lögvörðu hagsmuni sína.

II

Sóknaraðilar vísa til þess að í ljósi frávísunarkröfu varnaraðila um að sóknaraðilar hafi ekki lögvarða hagsmuni í málinu og í ljósi afdráttarlausra skuldbindinga Íslands samkvæmt EES-samningnum um frjáls félagasamtök, sem hafi það að markmiði að stuðla að umhverfisvernd, hafi alltaf hagsmuna að gæta í málum sem þessu, óski sóknaraðilar eftir því að leitað verði ráðgefandi álits EFTA dómstólsins, um skýringu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Sóknaraðilar óska eftir að leitað verði álits hjá EFTA dómstólnum á því hvort ekki beri að skýra 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 2011/92/ESB um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið, sbr. áður 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 85/447/EBE, með síðari breytingum, og 1. og 3. mgr. 11. gr. tilskipunar 2011/92/ESB, áður 1. og 3. mgr. 10. gr. a tilskipunar 85/337/EBE, með síðari breytingum, sbr. einnig 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, þannig að sóknaraðilar, sem séu fern viðurkennd umhverfisverndarsamtök, hafi lögvarða hagsmuni í málinu. Einnig sé vísað til áskilnaðar í 1. málsl. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar um rétt til að bera mál undir dómstóla, hvort sem þau teljist einkaréttarlegir hagsmunir eða opinberir og 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Þá sé óskað álits EFTA dómstólsins á því hvort Ísland teljist hafa innleitt ofangreindar tilskipanir með fullnægjandi hætti. Loks beri að afla álits dómstólsins á hugsanlegri skaðabótaskyldu íslenska ríkisins ef innleiðing Evrópuréttar hafi ekki verið með fullnægjandi hætti.

Sóknaraðilar leggi áherslu á að þó svo niðurstaða liggi fyrir í Hæstarétti í máli nr. 677/2013 um að ekki skuli leitað ráðgefandi álits um lögvarða hagsmuni vegna lögbannsmáls sem rekið sé fyrir dómstólum, sé um tvö aðskilin mál að ræða. Um hafi verið að ræða álitamál um hvernig beri að túlka lögvarða hagsmuni tengda lögbannsmáli í tengslum við lög um kyrrsetningu og lögbann, nr. 31/1990 og hvort í tilskipuninni felist skuldbindingar að því er það varði. Tilskipunin kveði hins vegar skýrt á um rétt frjálsra félagasamtaka, sem hafi umhverfisvernd að markmiði, til réttlátrar málameðferðar og í því felist að þau hafi alltaf hagsmuni í málum sem þessu eins og segi í henni. Sé vísað til kvörtunar stefnenda til ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, 6. desember 2013 um ófullnægjandi innleiðingu á tilskipuninni. Hin ætlaða ófullnægjandi innleiðing varði m.a. það að umhverfisverndarsamtökum hafi einungis verið fenginn réttur að lögum til að kæra ákvarðanir stjórnvalda en ekki aðgerðir eða aðgerðarleysi þeirra, sem málið snúist í grunninn um. Sú kæruleið útiloki ekki aðgang að dómstólum í vissum tilvikum að mati sóknaraðila. 

III

Varnaraðili mótmælir því að aflað verði ráðgefandi álits EFTA dómstólsins í málinu. Hæstiréttur hafi með dómi í máli nr. 677/2013 skorið úr því úrlausnarefni sem hér sé til meðferðar. Deilt sé um hvort sóknaraðilar hafi lögvarða hagsmuni af því sakarefni sem mál þetta snúist um, en að því lúti frávísunarkrafa varnaraðila. Með dómi í framangreindu máli hafi Hæstiréttur í ítarlegum rökstuðningi komist að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki. Mál það hafi vissulega snúist um áskilnað um lögvarða hagsmuni á grundvelli laga nr. 31/1990. Efnislegt inntak ákvæða um lögvarða hagsmuni í þeim lögum sé hins vegar á sama veg og í lögum nr. 91/1991 og eigi því öll sömu sjónarmið við í máli þessu og í máli nr. 677/2013. Niðurstaða Hæstaréttar hafi verið sú að ekki leiki svo mikill vafi á því hvort skuldbindingar Íslands á grundvelli svonefnds Árósarsamnings og tilskipunar 2011/92/ESB, sem falið hafi í sér endurútgáfu á tilskipun 85/337/EBE með síðari breytingum, hafi verið skýrar og ótvíræðar og því ekki uppi sá vafi í málinu að nauðsynlegt væri að leita ráðgefandi álits EFTA dómstólsins um þau efnisatriði er beiðnin laut að. Öll sömu sjónarmið eigi við í máli þessu. 

IV

Í máli þessu, sem rekið er samkvæmt lögum nr. 91/1991, er meðal annars um það deilt hvort hagsmunir sóknaraðila, sem allir eru náttúruverndarsamtök, af því að dæmt verði um lögmæti framkvæmda við lagningu nýs Álftanesvegar, teljist lögvarðir í merkingu tilskipunar 2011/92/ESB og hvaða þýðingu hún hafi á áskilnað um lögvarða hagsmuni í lögum nr. 91/1991. Hefur sóknaraðili óskað eftir ráðgefandi áliti EFTA dómstólsins um hvort beri að skýra tilgreindar tilskipanir Evrópusambandsins á þann veg að sóknaraðili teljist hafa lögvarða hagsmuni af máli þessu.

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 677/2013 höfðu sóknaraðilar krafist þess að lagt yrði lögbann við framkvæmdum varnaraðila við lagningu nýs Álftanesvegar þar til skorið yrði úr lögmæti þeirra framkvæmda fyrir dómstólum. Sýslumaður synjaði kröfunni. Var synjun sýslumanns á kröfunni meðal annars studd þeim rökum að sóknaraðilar ættu ekki sjálfir lögvarða hagsmuni sem gerðinni væri ætlað að tryggja. Höfðuðu sóknaraðilar mál samkvæmt V. kafla laga nr. 31/199 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. til að fá afstöðu sýslumanns hrundið og kröfðust þess að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA dómstólsins í málinu hvort sóknaraðilar ættu, í skilningi tilgreindra tilskipana Evrópusambandsins, lögvarinn rétt til að krefjast lögbanns á framkvæmdirnar. Héraðsdómur hafði hafnað beiðni sóknaraðila um að leita ráðgefandi álits. Í dómi Hæstaréttar kom fram að skuldbindingar Íslands á grundvelli svonefnds Árósasamnings, sem öðlast hefði gildi 2001, og tilskipunar 2011/92/ESB um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kynni að hafa á umhverfið skýrar og ótvíræðar og því væri ekki uppi sá vafi í málinu að nauðsynlegt væri að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um þau efnisatriði sem beiðni sóknaraðila laut að. Vísaði Hæstiréttur í því sambandi til þess svigrúms sem Árósasamningurinn eftirléti aðildarríkjunum við að meta hvor af tveimur leiðum, stjórnsýsluleið eða dómstólaleið, hentaði betur í viðkomandi aðildarríki til að tryggja almenningi aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum og hvaða leið íslenski löggjafinn hefði valið í þeim efnum. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur um að hafna beiðni náttúruverndarsamtakanna um leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins.

Að mati dómsins hefur dómur Hæstaréttar í máli nr. 677/2013 fullt fordæmisgildi fyrir mál það sem hér er til meðferðar og málsatvik sambærileg. Er eini munurinn sá að í máli nr. 677/2013 reyndi á lögvarða hagsmuni út frá reglu 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990, á meðan lögvarðir hagsmunir í þessu máli byggja á grundvallarreglu laga nr. 91/1991. Er að mati dómsins um sambærilegan lagagrundvöll að ræða að þessu leyti til. Með sama hætti og í máli nr. 677/2013 er ekki uppi sá vafi í málinu um skýringar á hinum tilgreindu tilskipunum Evrópusambandsins að nauðsynlegt sé að leita ráðgefandi álits EFTA dómstólsins í málinu. Verður beiðni sóknaraðila því hafnað.

Ákvörðun málskostnaðar af þessum þætti bíður næstu úrlausnar dómsins.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Hafnað er beiðni sóknaraðila, Landverndar, Náttúruverndarsamtaka Íslands, Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands og Hraunavina, um öflun ráðgefandi álits EFTA dómstólsins í máli þessu.