Hæstiréttur íslands

Mál nr. 860/2015

Hafþór Halldórsson (Jónas Þór Jónasson hrl.)
gegn
Tryggingamiðstöðinni hf. (Hjörleifur B. Kvaran hrl.)

Lykilorð

  • Vátrygging
  • Slysatrygging
  • Tómlæti
  • Upplýsingaskylda

Reifun

H krafðist viðurkenningar á rétti sínum til fullra bóta úr tryggingu torfæruhjólsins OO-735 vegna líkamstjóns sem hann hlaut við akstur hjólsins á mótorkrossbraut í Vestmannaeyjum. Í málinu var deilt um það hvort H hefði ekið umræddu torfæruhjóli en hjólið var ábyrgðatryggt hjá T. Var það mat héraðsdóms að sannað hefði verið að H hefði lýst því fyrir lögreglu á vettvangi slyssins að hann hefði ekið eigin ökutæki sem ekki var tryggt hjá T. Þá var því hafnað að greiðsla T á bótum fyrir tímabundið atvinnutjón í lok árs 2010 hafi getað talist hafa bundið hendur T vegna frekari bótakrafna sem boðaðar voru í febrúar 2014. Hæstiréttur staðfesti dóm héraðsdóms og tók fram að með vísan til 2. mgr. 47. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga yrði ekki talið að T hefði vegna tómlætis glatað rétti til að falla frá viðurkenningu á bótaskyldu þótt hann hefði fyrst lýst því yfir í febrúar 2014. Var T því sýknað af kröfu H.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. desember 2015. Hann krefst þess að viðurkenndur verði réttur sinn til fullra bóta úr tryggingu torfæruhjólsins OO-735 vegna líkamstjóns sem hann hlaut við akstur hjólsins 25. júlí 2010. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og mál þetta er vaxið og með vísan til 2. mgr. 47. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga verður ekki talið að stefndi hafi vegna tómlætis glatað rétti til að falla frá viðurkenningu á bótaskyldu þótt hann hafi fyrst lýst því yfir 19. febrúar 2014 í kjölfar þess að áfrýjandi leitaði 13. sama mánaðar atbeina stefnda við gagnaöflun um afleiðingar tjónsins. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsenda hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Hafþór Halldórsson, greiði stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf., 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. október 2015.

                Mál þetta, sem var dómtekið miðvikudaginn 16. september sl., er höfðað 23. desember 2014. Stefnandi er Hafþór Halldórsson, Smáragötu 4, Vestmannaeyjum, en stefndi er Tryggingamiðstöðin hf., Síðumúla 24, Reykjavík.

                Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði með dómi óskert greiðsluskylda stefnda úr ábyrgðartryggingu torfæruhjólsins OO-735, vegna líkamstjóns sem stefnandi varð fyrir við akstur hjólsins 25. júlí 2010 á mótorkrossbraut í Vestmannaeyjum. Þá krefst hann málskostnaðar.

                Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.

                Í máli þessu deila aðilar um það hvort stefnandi hafi ekið torfæruhjólinu OO-735 þegar hann varð fyrir slysi 25. júlí 2010, en hjólið var þá ábyrgðartryggt hjá stefnda. Þá er og um það deilt hvort stefndi hafi með bindandi hætti samþykkt bótaskyldu sína í málinu eða að hann hafi glatað rétti til að breyta afstöðu sinni til bótaskyldu vegna tómlætis þar sem hann hafi ekki tilkynnt stefnanda um breytta afstöðu sína strax í kjölfar þess að hafa móttekið þær upplýsingar sem hin breytta afstaða var byggð á.

                Fyrir liggur í málinu að síðdegis þriðjudaginn 25. júlí 2010 voru stefnandi og Andrés Þorsteinn Sigurðsson við akstur torfærubifhjóla á torfæruakstursbraut í Vestmannaeyjum. Stefnandi féll af því hjóli sem hann var á og mun hafa kastast út úr brautinni og slasast eins og nánar er lýst í læknisfræðilegum gögnum í málinu. Stefnandi kvað, í skýrslu sinni fyrir dómi, að hann myndi ekki atvik frá því að hann datt af hjólinu og þar til um kvöldið þegar hann var kominn á slysadeild í Reykjavík, en staðfesti að hann hefði umrætt sinn ekið rauðu og hvítu Honda CRF 450 hjóli í eigu fyrrnefnds Andrésar Þorsteins. Hann kvað að á þessum tíma hafi hann sjálfur átt Honda CRF 450 hjól rautt og hvítt að lit, en skráningarnúmer þess kvaðst hann ekki muna. Það hjól hafi á þessum tíma verið óskráð og ótryggt. Í lögregluskýrslu sem liggur fyrir í málinu og nánar er lýst hér á eftir kemur fram að fastanúmer hjóls þess sem stefnanda átti sé RH-021.

                Andrés Þorsteinn Sigurðsson kvað í skýrslu sinni fyrir dómi að hann og stefnandi hafi á umræddum tíma verið að gera við hjól stefnanda, en í stað þess að ljúka viðgerðinni, hafi þeir farið á akstursbrautina á sitthvoru hjólinu sem bæði hafi verið í eigu vitnisins. Kvað Andrés að stefnandi hafi ekið á rauðu og hvítu Honda CRF 450 hjóli en sjálfur hafi hann ekið á grænu og hvítu Kawasaki hjóli. Andrés kvaðst ekki hafa séð þegar stefnandi féll af hjólinu, en strax í kjölfarið komið þar að og farið að huga að honum. Kvaðst hann hafa hlúð að stefnanda og hafa sagt honum að hreyfa sig ekki. Hann kvað aðspurður að stefnandi hafi ekki svarað honum, en frá honum hafi heyrst eitthvað uml. Þar sem stefnandi hafi legið hafi ekki verið símasamband og kvaðst Andrés hafa tekið það hjól sem næst hafi verið honum, sem hafi verið það hjól sem stefnandi hafi dottið af, og hafa ekið því að stað sem legið hafi hærra og hann hafi vitað að símasamband væri á. Hann hafi hringt á sjúkrabíl og hafi síðan farið á hjólinu til móts við sjúkrabílinn í þeim tilgangi að leiðbeina sjúkraflutningamönnum að slysstaðnum.

                Í málinu liggur fyrir lögregluskýrsla Sigurbjörns Ingva Þórðarsonar lögreglumanns. Kom hann fyrir dóminn og staðfesti skýrsluna og svaraði spurningum um efni hennar. Kom fram í skýrslu hans fyrir dómi að hann og annar lögreglumaður hafi brugðist við tilkynningu um slys stefnanda og hafi farið á staðinn á sjúkrabifreið. Liggur því fyrir að umræddir tveir lögreglumenn voru einnig sjúkraflutningamenn í umrætt sinn.

                Í fyrrnefndri lögregluskýrslu er frá því greint að er lögregla hafi komið á vettvang hafi Andrés Þorsteinn komið á móti þeim á torfærumótorhjóli og vísað þeim á slysstað. Þar hafi þeir komið að stefnanda og hafi kannað með meðvitund, öndun og hugsanlega áverkastaði. Stefnandi hafi legið á vinstri hlið og hafi verið steinn við hlið hans. Hafi stefnandi svarað þegar talað hafi verið við hann og hafi sagst hafa lítinn mátt í fótum og mikla verki í síðunni vinstra megin. Honum hafi verið sagt að hreyfa sig ekki. Athugað hafi verið með púls og súrefnisupptöku hjá stefnanda og mettunarmælir verið tengdur við hann. Þá kemur fram að 3-5 metrum frá þeim stað sem stefnandi hafi legið hafi verið rautt og hvítt torfæruhjól. Læknir hafi komið að skömmu síðar og hafi tekið við stjórn á vettvangi. Stefnandi hafi verið fluttur í framhaldi á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja til skoðunar.

                Þá kemur fram í skýrslunni að stefnandi hafi, aðspurður um slysið, sagt að hann hefði verið á 40 til 50 km./klst. hraða og hafi ekið á stein í torfærubrautinni. Við það hafi hann fallið af torfæruhjólinu og lent illa. Þá kemur og fram að aðspurður hafi hann sagst hafa verið á sínu torfæruhjóli og að það væri óskráð og ótryggt.

                Í skýrslunni er þess getið að skýrsluritari hafi haft samband við stefnanda nokkrum sinnum til að kalla eftir skráningarnúmeri torfæruhjólsins sem hann hefði ekið umrætt sinn. Stefnandi hafi lofað að veita þessar upplýsingar en ekki staðið við það fyrr en 30. ágúst 2010 þegar hann hafi upplýst að hann hafi umrætt sinn ekið torfæruhjólinu OO-735 sem sé í eigu Andrésar Þorsteins Sigurðssonar. Skráð er að lögregla hafi skoðað umrætt hjól á heimili Andrésar Þorsteins 31. ágúst 2010 og hann hafi þar tjáð lögreglu að er slysið hafi orðið hafi hann og stefnandi verið við akstur í torfærubrautinni á tveimur torfæruhjólum sem bæði hafi verið í eigu hans. Stefnandi hafi verið á rauðu og hvítu hjóli þegar hann hafi fallið en Andrés Þorsteinn á grænu og hvítu hjóli. Er eftir Andrési Þorsteini haft að hann hafi tekið rauða og hvíta hjólið þegar hann hafi farið til móts við sjúkrabifreiðina.

                Í skýrslu sinni fyrir dómi staðfesti Sigurbjörn Ingvi Þórðarson að lögregluskýrsla hans lýsti því réttilega sem stefnandi hafi sagt á vettvangi um það að hann hefði verið á eigin hjóli og að það væri óskráð og ótryggt. Þá staðfesti hann einnig að hann myndi að hjólið sem legið hafi þarna hjá hafi verið rautt og hvítt torfæruhjól. Aðspurður um það hvenær hann hefði gert lögregluskýrslu kvaðst hann hafi tekið niður minnispunkta á staðnum, en hann hafi byrjað að gera hina formlegu skýrslu 31. ágúst 2010, eins og komi fram í upphafi hennar og hafi lokið henni 21. september sama ár, eins og sjá megi í niðurlagi skýrslunnar. Hann kvaðst hafa við gerð skýrslunnar stuðst við skriflega minnispunkta sína sem ritaðir hafi verið á vettvangi slyssins. Sérstaklega aðspurður kvaðst hann ekki hafa leitað skýringa á þeim mismun sem verið hafi á framburði stefnanda á vettvangi og síðar.

                Í læknabréfi Marteins Inga Smárasonar, læknis sem liggur fyrir í málinu kemur m.a. fram að við komu á heilsugæslu hafi stefnandi fundið fyrir verk vinstra megin í brjóstkassa og við hrygg, en einnig verk í vinstri hluta kviðarhols. Hafi hann strax eftir slysið verið tilfinningalaus í fótum en við komu á heilsugæslu hafi tilfinningin þó verið komin til baka. Hafi tölvusneiðmynd sýnt óstöðugt brot í hryggjarliðum brjósthryggjar ásamt brotum á bringubeini og rifbeinum. Hafi stefnandi verið fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur þar sem hann hafi gengist undir aðgerð á Landspítalanum. Þar hafi hann legið í fjóra daga en hafi þá verið fluttur á sjúkradeildina í Vestmannaeyjum, þar sem hann hafi legið inni til 4. ágúst 2010. Í læknabréfinu kemur fram að fyrst eftir slysið hafi stefnandi verið algjörlega lamaður í báðum fótum, en hann hafi verið fljótur að ná bata eftir aðgerð með verkjastillingu og sjúkraþjálfun. Við útskrift hafi hann getað gengið óstuddur og hafi verið orðinn vel sjálfbjarga.

                Í málinu liggur fyrir vottorð sjúkraþjálfara sem lýsir endurhæfingu sem stefnandi naut frá 6. ágúst til 17. september 2010. Stefnandi var óvinnufær vegna slyssins, frá slysdegi til áramóta 2010/2011.

                Í gögnum málsins má sjá að lögmaður stefnanda óskaði eftir gögnum frá stefnda um torfæruhjólaslys stefnanda með tölvubréfi 6. október 2010. Í svari stefnda 12. október 2010 kemur fram að stefnandi hafi enga tryggingu skráða hjá félaginu. Í málinu liggur fyrir skrifleg slysatilkynning til stefnda dags. 15. október 2010, sem send var stefnda með tölvupósti lögmanns stefnanda sama dag. Þar er ekki getið um fastanúmer þess vélhjóls sem stefnandi ók, en í tölvubréfi lögmanns stefnanda greinir að umrætt vélhjól sé í eigu Andrésar Þorsteins Sigurðssonar. Þann 25. október 2010 var upplýst í tölvubréfi að vélhjólið hefði fastanúmerið OO-735. Í kjölfarið urðu frekari samskipti og féllst stefndi á greiðsluskyldu í tölvubréfi 9. nóvember 2010 og greiddi 27. desember sama ár bætur að fjárhæð 2.895.140 krónur vegna tímabundins atvinnutjóns stefnanda frá 23. október 2010 til 19. nóvember sama ár.

                Með tölvubréfi 13. febrúar 2014 sendi lögmaður stefnanda til stefnda afrit nánar tilgreindra læknisfræðilegra gagna og óskaði eftir að aðilar kæmu sér saman um matsmenn til að meta afleiðingar slyssins.

                Stefndi svaraði bréfinu 19. sama mánaðar og fylgdi svarinu afrit af lögregluskýrslu þeirri sem fyrr er rakin og er jafnframt upplýst að stefnda hafi borist lögregluskýrslan í mars 2011. Kom og fram að á grundvelli þess sem fram kæmi í skýrslunni teldi stefndi nú ósannað að stefnandi hefði ekið vélhjólinu nr. OO-735 þegar hann hafi slasast og væri stefndi því ekki bótaskyldur.

                Lögmaður stefnanda mótmælti framangreindri afstöðu og vísaði m.a. til þess að stefndi hafi þegar samþykkt bótaskyldu í málinu og yrði að teljast við þá yfirlýsingu bundinn. Enda hafi stefndi ekki tilkynnt stefnanda um breytta afstöðu sína fyrr en þremur árum eftir að hafa að eigin sögn móttekið þá lögregluskýrslu sem hann byggi breytta afstöðu sína á.

                Stefnandi bar afstöðu stefnda undir úrskurðarnefnd í Vátryggingamálum. Taldi nefndin ósannað í málinu að stefnandi hafi í umrætt sinn ekið vélhjólinu OO-735. Þá taldi nefndin að síðbúin tilkynning stefnda um breytta afstöðu leiddi ekki til þess að félagið teldist bundið við upphaflega afstöðu sína.

                Málsaðilar áttu í frekari samskiptum en tókst ekki að leiða ágreining sinn til lykta og var mál þetta höfðað í kjölfarið.

II

                Stefnandi kveðst byggja á því að slys hans sé bótaskylt úr slysatryggingu ökumanns torfæruhjólsins OO-735 hjá stefnda. Hafi hann ekið bifhjólinu er hann hafi slasast mjög alvarlega 25. júlí 2010. Hafi stefndi viðurkennt greiðsluskyldu í málinu með bindandi og fyrirvaralausum hætti á árinu 2010 og hafi greitt stefnanda bætur vegna tímabundins atvinnutjóns samkvæmt 2. gr. laga nr. 50/1993, án nokkurs fyrirvara eða skilyrða varðandi greiðsluskyldu eða um ökumann torfæruhjólsins. Kveðst stefnandi vísa hér sérstaklega til Hrd. Nr. 421/1995.

                Með tölvupósti 6. október 2010 hafi stefnda verið tilkynnt um slys stefnanda. Þann 15. október 2010 hafi stefnda með viðhengi í tölvupósti verið send skrifleg tilkynning um slysið. Hafi stefnda þá sérstaklega verið tilkynnt að vátryggingataki væri Andrés Þorsteinn Sigurðsson. Að beiðni stefnda hafi stefnandi svo sent viðbótarupplýsingar um skráningarnúmer þess torfæruhjóls sem um ræddi. Í framhaldinu hafi verið hafist handa við gagnaöflun vegna launataps stefnanda. Þann 27. desember 2010 hafi stefndi greitt 2.895.140 krónur vegna tímabundins atvinnutjóns stefnanda.

                Stefnandi telji hvað sem öðru líði, að afturköllun stefnda á yfirlýsingu um greiðsluskyldu sé allt of seint fram komin. Geti stefndi ekki afturkallað viðurkenningu sína um greiðsluskyldu meira en 3 árum eftir að greiðsluskylda hafi verið viðurkennd. Stefndi hafi réttlætt þennan drátt sinn með því að honum hafi ekki borist lögregluskýrsla málsins fyrr en í febrúar 2011, eftir að hann hafi greitt stefnanda bæturnar fyrir tímabundið atvinnutjón. Engu að síður hafi afstaða stefnda til greiðsluskyldu verið áfram óbreytt og hafi það ekki verið fyrr en með tölvupósti félagsins 19. febrúar 2014, um 3 árum eftir að lögregluskýrslan hafi borist félaginu, að stefnanda hafi verið tilkynnt um breytta afstöðu stefnda til greiðsluskyldu. Hafi stefndi engar skýringar gefið á þessum drætti og hvers vegna viðurkenning hans á greiðsluskyldu hafi ekki verið afturkölluð strax eftir að umrædd lögregluskýrsla hafi borist félaginu í febrúar 2011. Megi augljóst vera að hafi stefnda yfir höfuð verið heimilt með bindandi og lögmætum hætti, gegn mótmælum stefnanda, að afturkalla yfirlýsingu sína um greiðsluskyldu í málinu, hefði slíkt þurft að gerast í beinu framhaldi þess að stefndi hafi fengið lögregluskýrsluna í hendur. Hins vegar hafi stefndi sýnt af sér slíkt tómlæti í málinu, að afturköllun greiðsluskyldu geti aldrei komið til greina svona löngu seinna, sbr. ólögfestar reglur kröfu- og samningaréttar um tómlætisáhrif og ákvæði laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, einkum 22. gr., 23. gr., 31. og 94. gr. laganna.

                Stefndi byggi breytta afstöðu sína til greiðsluskyldu á því að stefndi hafi á slysdegi ekki verið ökumaður torfæruhjólsins OO-735, án þess að tilgreina hver það hafi þá verið eða hvaða hjóli stefnandi hafi þá átt að hafa ekið. Stefnandi telji einsýnt að stefnda hafi ekki tekist að sanna þessa síðbúnu staðhæfingu sína, en hana byggi hann eins og fyrr greini einvörðungu á umræddri lögregluskýrslu. Sé efni hennar skoðað sjáist að hún styðji ekki breytta afstöðu stefnda til greiðsluskyldu.

                Í slysinu hafi stefnandi hlotið þungt höfuðhögg er hann hafi kastast af hjólinu, en auk þess hafi hann verið mjög alvarlega slasaður á baki, brjósti o.fl. Þá hafi hann augljóslega verið í losti og í engu ástandi til þess að gefa skýrslu í málinu. Muni hann lítið eftir samtali sínu við lögregluna eftir slysið og alls ekki eftir því að hafa greint þannig frá slysinu að hann hafi verið á sínu eigin hjóli, en þá frásögn hafi stefnandi ekki staðfest með undirritun sinni. Í málinu séu engin gögn sem renni stoðum undir það að stefnandi hafi verið á sínu torfæruhjóli er hann hafi slasast.

                Þegar lögreglan hafi tekið skýrslu af stefnanda 31. ágúst 2010, eftir að hann hafi losnað af spítalanum, hafi hann greint svo frá atvikum að hann hefði er hann slasaðist ekið torfæruhjóli Andrésar Þorsteins OO-735 og hafi Andrés staðfest þá frásögn stefnanda sama dag. Engin eiginleg lögreglurannsókn hafi farið fram á slysavettvangi og liggi engar myndir fyrir af slysstað eða af umræddum tveimur torfæruhjólum Andrésar, sem hann og stefnandi hafi verið á. Umrædd lögregluskýrsla hafi svo ekki verið gerð fyrr en 21. september 2010 eða tæpum 2 mánuðum eftir slysið, en engar skýringar séu á því hvers vegna það hafi dregist svo lengi að ganga frá skýrslunni. Af öllu framangreindu megi ljóst vera, að ósönnuð sé með öllu sú síðbúna staðhæfing stefnda, að stefnandi hafi ekki ekið hjólinu OO-735 er hann hafi slasast heldur einhverju öðru ótilgreindu torfæruhjóli. Þvert á móti megi það teljast sannað, að stefnandi hafi ekið rauðu og hvítu torfæruhjóli Andrésar (OO-735), sbr. lögregluskýrslu, þar sem fram komi að við hlið stefnanda hafi legið rautt og hvítt torfæruhjól og framburður stefnanda og Andrésar hjá lögreglunni 31. ágúst 2010, um að stefnandi hafi er hann hafi slasast ekið þessu tiltekna rauða og hvíta torfæruhjóli Andrésar.

                Stefndi starfi samkvæmt lögum nr. 56/2010, um vátryggingastarfsemi. Í lögunum séu gerðar margvíslegar kröfur til starfa stefnda, þar á meðal sé kveðið á um að stefndi þurfi að hafa sérstakt starfsleyfi vegna vátryggingarstarfsemi sinnar. Stefnandi telji að í málinu verði að horfa sérstaklega til stöðu og sérþekkingar stefnda, við mat á lögmæti hinnar breyttu afstöðu hans. Stefndi hafi á að skipa hópi sérfræðinga á þeim sviðum sem hann starfi á, þar á meðal flokki lögmanna, en ríkar kröfur séu gerðar til nákvæmni og vandvirkni í vinnubrögðum þeirra. Í þessu ljósi telji stefnandi að stefndi geti ekki breytt fyrri ákvörðun og borið eitthvað fyrir sig í febrúar 2014, sem sérfróðum starfsmönnum hans hafi verið kunnugt um 3 árum áður.

                Viðurkenning stefnda á greiðsluskyldu og aðgerðarleysi hans í kjölfarið hafi gefið stefnanda tilefni til að treysta því, að ekki væri þörf á frekari aðgerðum til að færa sönnur á atvik máls og hafi jafnframt gefið honum réttmætar væntingar um að hann fengi greiddar fullar bætur á grundvelli örorkumats sem, allt fram í febrúar 2014, hafi verið gengið út frá að aðilar myndu sameiginlega standa að því að afla. Hefði stefndi strax í febrúar 2011, þegar hann hafi fengið lögregluskýrsluna í hendur, kynnt stefnanda breytta afstöðu sína til greiðsluskyldu, hefði stefnandi haft möguleika á því að upplýsa málið frekar, svo sem með því að hlutast til um að teknar yrðu skýrslur af vitnum og með skoðun á þeim torfæruhjólum sem um ræði í málinu. Aðgerðarleysi stefnda hafi hins vegar ekki veitt stefnanda neitt tilefni til slíks, þvert á móti. Í febrúar 2014 hafi auðvitað verið allt of seint að ætla að hlutast til um frekari rannsókn á slysinu. Halla af sönnunarskorti sem af þessu aðgerðarleysi stefnda leiði verði stefndi að bera, en ekki stefnandi.

                Við mat á lögmæti breyttrar afstöðu áfrýjanda til greiðsluskyldu verði jafnframt að horfa til hagsmuna stefnanda í málinu og góðrar trúar hans, sem leiði auk framangreinds til þess að áfrýjandi hljóti að teljast bundinn af upphaflegri afstöðu sinni til greiðsluskyldu. Meginreglur samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi loforða og efndir fjárskuldbindinga leiði til sömu niðurstöðu. Horfa verði jafnframt til þess að stefnandi hafi gert ráðstafanir og hafi stofnað til umtalsverðs kostnaðar vegna viðurkenningar stefnda á greiðsluskyldu í málinu. Hafi hann ráðið lögmann í vinnu fyrir sig með tilheyrandi kostnaði og hafi einnig lagt út í kostnað við gagnaöflun vegna örorkumatsins sem hann hafi talið sig vera á leið í.

                Í stefnu kemur fram að stefnandi byggi á ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993, með áorðnum breytingum og skilmálum slysatryggingar stefnda. Einnig lögum nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, einkum 22. gr., 23. gr., 31. og 94. gr., og lögum nr. 56/2010, um vátryggingastarfsemi. Varðandi sérfræðiábyrgð starfsmanna stefnda vísist til sakarreglu og húsbóndaábyrgðarreglu skaðabótaréttar. Einnig sé byggt á meginreglum samninga- og kröfuréttar um tómlætisáhrif, réttmætar væntingar og skuldbindingargildi loforða og samninga. Varðandi viðurkenningarkröfu stefnanda vísist til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Um málskostnað vísist til XXI. kafla sömu laga. Um virðisaukaskatt vísist til laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

                Við munnlegan málflutning kvaðst lögmaður stefnanda, í tilefni athugasemda stefnda, einnig vísa til ákvæða umferðarlaga nr. 50/1987.

III

                Í greinargerð sinni vísar stefndi til þess að í þeim kafla stefnu sem fjalli um helstu lagatilvísanir sé ekki byggt á ákvæðum umferðarlaga nr. 50/1987 og sé ekki vikið að ákvæðum þeirra laga í meginköflum stefnunnar. Vandséð sé því hvort málatilbúnaður stefnanda uppfylli skilyrði f. liðar 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem kveði á um, að í stefnu skuli vera tilvísun til helstu lagaákvæða eða réttarreglna sem stefnandi byggi málatilbúnað sinn á.

                Stefndi telji samt sem áður nauðsynlegt að byggja varnir sínar á því ákvæði umferðarlaganna sem fjalli um slysatryggingu ökumanns og hvort stefnandi hafi verið slysatryggður sem ökumaður ökutækis, í þessu tilviki torfæruhjóls, þegar hann hafi lent í slysinu 25. júlí 2010. Ennfremur hvort það ökutæki sem stefnandi hafi ekið hafi verið tryggt hjá stefnda.

                Stefndi kveðst vísa til þess að samkvæmt 1. mgr. 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 skuli hver ökumaður sem ökutæki stjórni vera tryggður sérstakri slysatryggingu. Í 2. mgr. þessarar lagagreinar sé kveðið á um að vátryggingin skuli tryggja bætur fyrir líkamstjón af völdum slyss, sem ökumaður verði fyrir við stjórn ökutækis enda verði slysið rakið til notkunar ökutækis í merkingu 88. gr.

                Stefndi haldi því fram og byggi sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi, þegar tjónsatvikið átti sér stað 25. júlí 2010, verið ökumaður eigin torfæruhjóls, nánar tiltekið RH-021, sem sé af gerðinni Honda CRF 450 og að torfæruhjólið hafi á þessum tíma verið óskráð og ótryggt. Stefndi byggi sýknukröfu sína á framburði stefnanda og skráningu Sigurbjörns Inga Þórðarsonar, lögreglumanns sem komi fram í lögregluskýrslu sem liggi fyrir í málinu. Þar skrái lögreglumaðurinn m.a. eftir samtal við stefnanda á slysstað: „Aðspurður um hver væri eigandi torfæruhjólsins sagði Hafþór að hann hefði verið á sínu torfæruhjóli (RH-021). Aðspurður um tryggingar á torfæruhjólinu sagði Hafþór að það væri óskráð og ótryggt.

                Í skýrslunni segi einnig :

                „Hafði undirritaður símasamband við Hafþór nokkrum sinnum til að fá hjá honum upplýsingar um skráningarnúmerið á torfæruhjólinu hans eftir umferðaróhappið. Þegar rætt var við Hafþór þá sagðist hann ætla að koma þessum upplýsingum sem fyrst til lögreglu en gekk ekki eftir. Upplýsingar fengust að lokum frá Hafþóri mánudaginn 30.08.2010. Samkvæmt því sem Hafþór gefur upp þá hafi hann verið á torfæruhjólinu OO-735 sem er í eigu Andrésar Þorsteins Sigurðssonar.

                Rætt var við Andrés Þorstein að heimili hans þar sem við skoðuðum torfæruhjólið OO-735, 31.08.2010 vegna málsins og sagði hann að þeir hafi verið þarna tveir á mótorkrossbrautinni á torfæruhjólum frá honum. Annað er rautt og hvítt en hitt er grænt og hvítt. Hafþór var á rauða og hvíta þegar hann féll. Andrés hafi komið að honum og kannað með ástandið og hringt eftir aðstoð. Andrés sá ekki þegar Hafþór féll að eigin sögn. Andrés hafi farið á torfæruhjólinu sem Hafþór var á móti sjúkrabifreiðinni til að vísa þeim leiðina og þá var græna og hvíta torfæruhjólið liggjandi um 3 metra frá Hafþóri.“

                Þessar lýsingar stefnanda og félaga hans séu ótrúverðugar. Í fyrsta lagi skuli bent á að framburður aðila og vitna á vettvangi sé mun traustari en sá framburður sem gefinn sé síðar. Þá sé það ekki traustvekjandi að það hafi tekið lögreglu með eftirrekstri rúman mánuð að fá uppgefið númer þess bifhjóls sem stefnandi hafi sagst hafa ekið er tjónsatvikið hafi átt sér stað. Engin skýring sé fram komin hvers vegna stefnandi hafi gefið upp fastanúmer eigin torfæruhjóls á slysstað og hafi getið þess að það væri óskráð og ótryggt ef svo hafi ekki verið. Engin skýring hafi verið gefin á því hvers vegna stefnandi hafi breytt þessum framburði sínum mánuði síðar og hafi þá talið sig hafa verið á skráðu og tryggðu lánstorfæruhjóli. Þá sé engin skýring gefin á því hvers vegna Andrés hafi þurft að skipta um hjól og fara af sínu hjóli (græna og hvíta) á hjól Hafþórs (rauða og hvíta) til að fara á móti sjúkrabifreiðinni. Þá sé fullyrðing Andrésar um að græna og hvíta hjólið hafi legið við hlið Hafþórs röng ef mið sé tekið af lögregluskýrslunni en þar sé fullyrt að „um 3- 5 metra frá þeim stað þar sem Hafþór lá var rautt og hvítt torfæruhjól.“

                Lögmaður stefnanda hafi sent stefnda fyrirspurn 6. október 2010, með ósk um ljósrit gagna vegna torfæruhjólaslyss stefnanda og þar komi fram að stefnandi hafi talið hjólið tryggt hjá stefnda. Fyrirspurninni hafi verið svarað 12. október s.á. og tilkynnt að engin trygging væri skráð hjá stefnda á kennitölu stefnanda. Að fengnum þessum upplýsingum hafi stefnandi útfyllt og sent stefnda tjónstilkynningu 15. október 2010. Veki það furðu að stefnandi sem þá hafi fengið upplýsingar um að hann hafi ekki tryggingar hjá stefnda skuli fylla út tjónstilkynningu þar sem hvorki komi fram ökutæki sem hlut hafi átt að máli né hver hafi verið skráður tryggingartaki. Lögmaður stefnanda hafi sent stefnda tjónstilkynninguna sama dag og hafi tekið fram að eigandi hjólsins sem stefnandi hafi verið á hafi að sögn stefnanda verið Andrés Þorsteinn Sigurðsson. Af þessu verði ráðið að stefnandi hafi kosið að tilkynna ekki um það torfæruhjól sem hann hafi ekið þegar slysið hafi átt sér stað og um skráðan eiganda þess fyrr en gengið hafi verið úr skugga um hvort hans eigið torfæruhjól væri tryggt hjá stefnda. Á grundvelli tilkynningar lögmannsins hafi málið fengið hefðbundna meðferð hjá stefnda og hafi stefnanda m.a. verið greiddar bætur vegna tímabundins atvinnutjóns.

                Stefnandi haldi því annars vegar fram að komist hafi á skuldbindandi loforð og samningur milli stefnanda og stefnda við það að stefnandi hafi viðurkennt bótaskyldu með greiðslu tímabundins atvinnutjóns samkvæmt 2. gr. laga nr. 50/1993 og hins vegar að stefndi geti ekki afturkallað þetta loforð sitt rúmum þremur árum eftir greiðslu þessara bóta. Þá telji stefnandi að stefndi hafi fyrirgert rétti sínum til höfnunar frekari bóta fyrir tómlæti. Þá sé því haldið fram að stefndi hafi sönnunarbyrði fyrir því að stefnandi hafi ekki ekið torfæruhjólinu OO-735 í umrætt sinn. Stefndi hafni þessum sjónarmiðum sem röngum.

                Stefndi taki undir það meginsjónarmið að vátryggingarfélögum sé skylt að byggja afstöðu sína til bótaskyldu á lögum, skilmálum og fyrirliggjandi upplýsingum um málsatvik. Það þurfi að gera án ástæðulauss dráttar og að ekki sé heimilt að breyta þeirri afstöðu tjónþola í óhag eftir geðþótta eða nýju mati á fyrirliggjandi gögnum. Sömuleiðis að tjónþoli skuli vera tímanlega upplýstur um slíkar breytingar.

                Í þessu dómsmáli séu atvik hins vegar með þeim hætti, að viðurkenning stefnda á bótaskyldu hafi byggt á röngum og ósönnum upplýsingum sem stefnandi sjálfur hafi látið í té um tildrög slyssins. Af óskýrðum ástæðum hafi rangar upplýsingar borist um skráningarnúmer þess torfæruhjóls sem stefnandi hafi ekið, fyrir milligöngu lögmanns hans. Það væri fráleit niðurstaða ef vátryggingarfélag væri bundið af fyrri viðurkenningu bótaskyldu við slíkar aðstæður. Önnur niðurstaða myndi t.d. leiða til þess að ef tjónþoli eða vátryggður myndi með sviksamlegum hætti fá bótaskyldu viðurkennda, gæti vátryggingarfélag ekki breytt sinni afstöðu nema að mjög þröngum skilyrðum uppfylltum. Þá þurfi sömuleiðis að gera þann greinarmun að þetta dómsmál snúist ekki um heimfærslu málsatvika til vátryggingarverndar skv. skilmálum eða túlkun á lögum heldur viðurkenni stefnandi fyrir lögreglu á vettvangi að ökutæki hans sé óskráð og ótryggt. Í dómsmáli þessu freisti stefnandi þess að fá viðurkenningardóm fyrir rétti til bóta vegna líkamstjóns úr vátryggingu ökutækis sem engan hlut hafi átt að máli, á þeim grundvelli að félagið hafi sýnt af sér ætlað tómlæti við að benda stefnanda á staðreyndir sem honum hafi augljóslega verið kunnar, enda varði upplýsingarnar hann sjálfan og samskipti hans við lögreglu.

                Varðandi þá málsástæðu stefnanda að komist hafi á skuldbindandi samningur um greiðslu skaðabóta með greiðslu bóta fyrir tímabundið atvinnutjón bendi stefndi á 30. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga en þar sé fjallað um réttaráhrif þess þegar svikum sé beitt við samningsgerð. Réttaráhrifin séu þau að löggerningur skuldbindi ekki þann mann sem hafi gert hann, ef hann hafi verið fenginn til þess með svikum og sá sem við löggerningnum hafi tekið, hafi sjálfur beitt svikum. Í 2. mgr. lagagreinarinnar segi að hafi sá, sem tekið hafi við löggerningnum, sviksamlega skýrt rangt frá atvikum, sem ætla hafi mátt að skipt hefðu máli um löggerninginn, eða hann hafi sviksamlega þagað yfir slíkum atvikum, skuli líta svo á, sem gerningurinn hafi verið gerður fyrir þau svik, nema það sannist, að þessi atriði hafi engin áhrif haft um það, að löggerningurinn hafi verið gerður.

                Í stefnu fjalli stefnandi um almennar sönnunarreglur og telji stefndi að þar sé flestu snúið á hvolf. Í málinu liggi fyrir lögregluskýrsla þar sem lögregla hafi tiltekinn framburð eftir stefnanda. Sönnunarbyrði um að þar sé rangt eftir honum haft eða annað í þá veru hvíli að sjálfsögðu á stefnanda en ekki stefnda. Sönnunargildi lögregluskýrslna sé meira en þeirra skýringa sem stefnandi hafi borið fram eftir á og þar sem því, sem þar komi fram, hafi ekki verið hnekkt teljist sannað að stefnandi hafi ekið óskráðu og óvátryggðu torfæruhjóli þegar hann hafi slasast. Jafnvel þótt litið yrði framhjá framangreindu séu seinni tíma skýringar stefnanda og Andrésar Þorsteins afar ótrúverðugar svo ekki sé meira sagt. Virðist frásögn þeirra eftir á vera þess efnis að Andrés Þorsteinn hafi komið að stefnanda þar sem hann hafi legið eftir slysið, lagt sitt torfæruhjól um þrjá metra frá hinum slasaða og síðan tekið torfæruhjólið sem stefnandi hafi fallið af og hafi ekið því til móts við lögreglu. Ekki þurfi að hafa mörg orð um trúverðugleika þessa samanborið við þá atburðarrás að stefnandi hafi fallið af því óvátryggða hjóli sem legið hafi þrjá metra frá honum þegar lögreglan hafi komið á vettvang.

                Loks byggir stefndi afstöðu sína á ótvíræðu áliti Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum en í því segi m.a.: „Af gögnum málsins má ráða að verulegur vafi er uppi um hvort M (stefnandi) greindi rétt frá þegar hann segist hafa ekið á bifhjólinu OO 735 þegar hann slasaðist og er það í andstöðu við það sem hann segir við lögreglu á vettvangi slyssins og virðist einnig vera í andstöðu við aðstæður á vettvangi eins og lögreglan lýsir þeim. V (stefndi) getur ekki verið bundinn af röngum upplýsingum þrátt fyrir að þessi tími hafi liðið frá því V (stefndi) móttók upplýsingarnar þar til hann tilkynnti lögmanni M (stefnanda) um breytta afstöðu sína. Slíkt verður hvorki með skýrum hætti leitt af ákvæðum laga um vátryggingarsamninga eða dómum Hæstaréttar.“

                Með vísan til alls framanritaðs sé þess krafist að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

                Stefndi kveðst vísa máli sínu til stuðnings til laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004, skaðabótalaga nr. 50/1993, sem og meginreglna skaðabótaréttarins og almennra reglna kröfuréttar. Ennfremur sé vísað til umferðarlaga nr. 50/1987 og laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Málskostnaðarkrafa stefnda byggi á 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  

IV

                Fyrir liggur að sú ökumannstrygging sem stefnandi vísar til í málatilbúnaði sínum er lögboðin ökumannstrygging ökutækis samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/987. Þó rétt sé hjá stefnda að tilvísun til umræddra laga skorti í stefnu bætti lögmaður stefnanda að nokkru úr því við munnlegan málflutning þó sú lagatilvísun hafi verið nokkuð almenns eðlis. Í málatilbúnaði stefnda er athygli dómsins vakin á því að framangreindur ágalli kunni að eiga að leiða til frávísunar málsins af sjálfsdáðum, en krafa var ekki gerð um slíkt. Þar sem ekki verður séð að umræddur ágalli á málatilbúnaði stefnanda hafi komið niður á vörnum stefnda þykir ekki ástæða til að vísa máli þessu frá dómi af sjálfsdáðum.

                Stefnandi krefst viðurkenningar á því að stefndi beri óskerta greiðsluskyldu úr ábyrgðartryggingu bifhjólsins OO-735 sem var tryggt hjá stefnda. Samkvæmt almennum reglum um sönnun í málum sem þessum ber stefnandi, sem tjónþoli, sönnunarbyrði fyrir því að tjón verði rakið til atvika eða aðstæðna sem stefndi getur borið ábyrgð á. Stefnandi vísar um þetta atriði til þess að vegna síðbúinna viðbragða stefnda í kjölfar móttöku lögregluskýrslu í málinu hafi stefnandi farið á mis við möguleika til að afla frekari sönnunargagna um málsatvik enda hafi hann enga ástæðu haft til að halda slíkum gögnum til haga þar sem stefndi hafi þegar viðurkennt bótaskyldu. Stefnandi hefur að mati dómsins ekki fært fram fullnægjandi rök fyrir því hver þau sönnunargögn kynnu að vera sem farið hafi forgörðum vegna framangreinds. Eru því ekki efni til að létta sönnunarbyrði af stefnanda af umræddum ástæðum, hvorki í heild né að hluta.

                Í málinu liggur fyrir lögregluskýrsla þar sem skráð er eftir stefnanda að hann hafi er slysið átti sér stað verið ökumaður á eigin vélhjóli, sem verið hafi óskráð og ótryggt. Óumdeilt er í málinu að stefnandi átti á þessum tíma torfæruhjólið RH-021 sem er samskonar hjól og vélhjól Andrésar Þorsteins Sigurðssonar, OO-735, sem tryggt var hjá stefnda. Lögreglumaður sá sem skýrsluna tók staðfesti efni hennar fyrir dómi og að hún hefði verið skráð eftir minnispunktum sem hann ritaði hjá sér á vettvangi. Þá kvaðst hann og muna að stefnandi hafi gefið honum ofangreindar upplýsingar á vettvangi.

                Stefnandi hefur ekki fært fram skýringar á því hvers vegna hann veitti lögreglumanninum framangreindar upplýsingar á vettvangi, utan að hann hefur borið því við að hann hafi slasast alvarlega og hafi því ekki verið í ástandi til að gefa skýrslu. Fyrrnefndur lögreglumaður ber á hinn bóginn að stefnandi hafi vissulega verið kvalinn en hann hafi verið með meðvitund og hafi svarað spurningum hans. Fær þessi framburður lögreglumannsins um meðvitundarstig stefnanda einnig stoð í lýsingum læknabréfs Marteins Inga Smárasonar læknis, en þar er því m.a. lýst að stefnandi hafi ekki haft tilfinningu í fótum en sú tilfinning hafi verið komin til baka þegar hann hafi komið á heilsugæslu. Þá er því og lýst að stefnandi hafi fundið til nánar greindra verkja. Umræddar upplýsingar um tilfinningu og verki stefnanda geta eðli máls samkvæmt ekki hafa komið frá neinum öðrum en honum sjálfum.

                Með hliðsjón af því sem að framan er ritað er það mat dómsins að sannað sé að stefnandi hafi lýst því fyrir lögreglu á vettvangi slyssins að hann hafi ekið eigin ökutæki, en óumdeilt er að stefndi tryggði engin ökutæki í eigu stefnanda á umræddum tíma. Þykir síðari frásögn stefnanda og vitnisins Andrésar Þorsteins Sigurðssonar ekki hnekkja fyrrgreindri sönnun, enda engar trúverðugar skýringar bornar fram um ástæðu þess að stefnandi hafi á vettvangi slyssins lýst því ranglega á hvaða ökutæki hann var og hvers vegna hinn síðari framburður væri þá réttari.

                Þá ber að hafna því að greiðsla stefnda á bótum fyrir tímabundið atvinnutjón í lok árs 2010 geti, eins og hér stendur á, talist binda hendur hans vegna frekari bótakrafna sem boðaðar voru í febrúar 2014. Liggur ekki fyrir að stefnandi hafi gert frekari kröfur fyrr en þá og telur dómurinn ekki forsendur til að fallast á þá fullyrðingu stefnanda að stefndi hafi mátt gera sér grein fyrir að frekari bótakröfur yrðu hafðar uppi. Liggur og fyrir að stefndi tilkynnti stefnanda í beinu framhaldi af kröfu um atbeina að frekari gagnaöflun að hann teldi ný gögn sýna fram á að á honum hvíldi ekki greiðsluskylda vegna slyssins. Verður ekki fallist á að réttur stefnda til að bera fyrir sig upplýsingar úr umræddum gögnum geti talist hafa fallið niður fyrir tómlæti eða að á stefnda hafi hvílt sérstök skylda til að upplýsa stefnanda um breytta afstöðu sína til bótaskyldu, fyrr en kröfu um greiðslu frekari bóta hafi verið beint gegn félaginu. Það er því ekki fallist á með stefnanda að reglur um tómlæti eða tilvitnaðar reglur laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga um skyldu til tilkynninga geti, eins og hér stendur á, orðið til þess að stefndi teldist hafa firrt sig rétti til að bera fyrir sig upplýsingar sem fram koma í lögregluskýrslu sem liggur fyrir í málinu.

                Þegar framangreint er virt er það mat dómsins að stefnanda hafi ekki tekist sönnun þess í máli þessu að hann hafi verið ökumaður bifhjólsins OO-735 er hann slasaðist 25. júlí 2010. Ber því að sýkna stefnda og dæma stefnanda til greiðslu málskostnaðar, sem þykir hæfilega ákveðinn sú fjárhæð sem nánar greinir í dómsorði.

                Af hálfu stefnanda flutti málið Jónas Þór Jónasson hrl. en af hálfu stefnda Hjörleifur B. Kvaran hrl.

                Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

                Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., er sýkn af kröfu stefnanda, Hafþórs Halldórssonar, í máli þessu.

                Stefnandi greiði stefnda 558.000 krónur málskostnað.