Hæstiréttur íslands
Mál nr. 69/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Sakarefni
- Lögvarðir hagsmunir
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. janúar 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar 2016 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Í héraðsdómsstefnu krefst sóknaraðili þess aðallega að viðurkennd verði skaðabótaskylda varnaraðila á tjóni sem sóknaraðili telur sig hafa orðið fyrir vegna þess að aflahlutdeild í gulllaxi hafi ekki verið úthlutað á grundvelli veiðireynslu sem hann hafi öðlast frá 16. ágúst 2006 til 15. ágúst 2009. Þá hefur sóknaraðili uppi þrjár varakröfur og eru tvær þeirra samhljóða aðalkröfunni að öðru leyti en því að vísað er til veiðireynslu sem hann hafi öðlast annars vegar frá 28. maí 2007 til 27. maí 2010 og hins vegar frá 8. júní 2007 til 7. júní 2010. Með þriðju varakröfunni er síðan krafist viðurkenningar á skaðabótaskyldu varnaraðila á tjóni sóknaraðila „vegna vanrækslu ... á því að úthluta aflahlutdeild í gulllaxi á tímabilinu eftir 7. júní 2010 og fram að því að aflahlutdeild í gulllaxi var úthlutað þann 26. ágúst 2013.“ Í stefnunni er síðastgreinda krafan rökstudd á svofelldan hátt: „Þriðja varakrafa stefnanda er sett fram ef dómurinn skyldi ekki fallast á aðrar dómkröfur stefnanda, en þó komast að þeirri niðurstöðu að ráðherra hafi borið að úthluta aflamarki á öðru tímamarki en því, sem aðrar dómkröfur stefnanda taka til, en þó áður en ráðherra úthlutaði aflahlutdeild 26. ágúst 2013 með reglugerð nr. 662/2013. Byggir stefnandi þriðju varakröfu sína á öllum sömu röksemdum og færðar eru fram fyrir öðrum dómkröfum stefnanda og vísar til þeirrar umfjöllunar.“
Í hinum kærða úrskurði var komist að þeirri niðurstöðu að sóknaraðili hefði ekki leitt nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni, gert grein fyrir því í hverju tjón hans fælist og hver tengsl þess væru við ætlað skaðaverk. Af þeim sökum var málinu vísað frá héraðsdómi á þeim grundvelli að sóknaraðili hefði ekki sýnt fram á að hann ætti lögvarða hagsmuni af úrlausn um framangreindar viðurkenningarkröfur sínar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.
II
Ágreiningur málsaðila snýst um það hvenær ráðherra hafi verið skylt að lögum að ákveða þann heildarafla sem veiða mætti af gulllaxi. Með 6. gr. reglugerðar nr. 768/2013 um breytingu á reglugerð nr. 662/2013 um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2013/2014 var sett nýtt ákvæði til bráðabirgða við síðarnefndu reglugerðina þar sem fiskiskipum, sem aflareynslu höfðu meðal annars í gulllaxi innan íslenskrar fiskveiðilögsögu á tímabilinu 16. ágúst 2010 til 15. ágúst 2013, var úthlutað aflahlutdeild í þeirri tegund á grundvelli aflareynslu þeirra, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Í samræmi við bráðabirgðaákvæðið fengu fiskiskip sóknaraðila úthlutað samtals um 10,8% aflahlutdeildar í heildarafla fyrir gulllax.
Samkvæmt aðalkröfu sóknaraðila telur hann að ráðherra hafi borið skylda til þess, að fengnum tillögum Hafrannsóknarstofnunar, að ákveða heildarafla á gulllaxi þegar fyrir fiskveiðiárið 2009/2010 og úthluta aflahlutdeild til fiskiskipa á grundvelli aflareynslu þeirra síðustu þriggja veiðitímabila þar á undan. Ef aflahlutdeild hefði verið ákveðin með þessum hætti byggir sóknaraðili á því að aflahlutdeild hans hefði orðið 26,1442% í stað um 10,8%. Varakröfur sóknaraðila eru reistar á þeirri sömu forsendu að ráðherra hafi borið að ákveða heildarafla fyrir gulllax fyrr en gert var, en í tveimur þeirra er sem fyrr segir vísað til aflareynslu á öðrum og síðari tímabilum og er sú aflahlutdeild, sem sóknaraðili telur að hefði átt að koma í sinn hlut, þar af leiðandi lægri.
Skilja verður dómkröfur sóknaraðila svo að í raun leiti hann ekki annars með þeim en viðurkenningar á skaðabótaskyldu varnaraðila vegna fyrrgreinds athafnaleysis ráðherra. Þótt sóknaraðili hafi að ástæðulausu gert fleiri kröfur en eina og fellt inn í orðalag þeirra atriði, sem varða málsástæður um hvaða aflareynslu ráðherra hefði átt að leggja til grundvallar ákvörðun sinni um úthlutun aflahlutdeildar, kemur það ekki að sök ef frá er talin þriðja varakrafa sóknaraðila. Úr því að hann hefur kosið að miða aðrar kröfur sínar við aflareynslu á öðrum tímabilum er sú krafa vanreifuð og verður henni af þeim sökum vísað frá héraðsdómi, sbr. d. og e. liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
III
Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að höfða mál til að leita viðurkenningardóms um kröfu, enda hafi aðili lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands. Áskilnaður ákvæðisins um lögvarða hagsmuni hefur í dómum Hæstaréttar verið skýrður á þann hátt að sá, sem höfðar mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu, verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni, gera grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við atvik máls.
Eins og áður er rakið byggir sóknaraðili á því að fiskiskip hans hafi átt að fá umtalsvert hærri hlutdeild við úthlutun aflaheimilda í gulllaxi. Óumdeilt er að slík aflahlutdeild feli í sér fjárhagsleg verðmæti fyrir útgerðir þeirra fiskiskipa sem úthlutun fá. Þá hefur varnaraðili ekki mótmælt útreikningum sóknaraðila á aflahlutdeild þeirri, sem hann telur sig hafa átt rétt á að fá úthlutað, miðað við þau tímabil aflareynslu sem hann leggur til grundvallar kröfum sínum. Af málatilbúnaði sóknaraðila má ráða að hann telji fjárhagslegt tjón sitt nema mismuninum á framlegð þeirrar aflahlutdeildar, sem honum var úthlutað, og þeirri sem hann hefði notið ef ráðherra hefði ákveðið að úthluta henni fyrr en gert var. Með þessu hefur sóknaraðili fært nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni, gert grein fyrir í hverju það hafi verið fólgið og hver séu tengsl þess við málsatvik. Vegna þess stendur 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 því ekki í vegi að leyst verði úr aðalkröfu sóknaraðila og tveimur fyrri varakröfum hans fyrir dómi. Verður því lagt fyrir héraðsdóm að taka þær kröfur til efnisúrlausnar.
Úrlausn um málskostnað í héraði bíður efnisdóms.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Vísað er frá héraðsdómi þriðju varakröfu sóknaraðila, Þorbjörns hf., en að öðru leyti er lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfur hans til efnisúrlausnar.
Varnaraðili, íslenska ríkið, greiði sóknaraðila 300.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar 2016.
Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 11. janúar 2016, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Þorbirni hf., Hafnargötu 12, Grindavík, á hendur íslenska ríkinu, Arnarhvoli, Reykjavík, með stefnu birtri 12. júní 2015.
Stefnandi krefst þess aðallega að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda á tjóni stefnanda vegna þess að aflahlutdeild í gulllaxi var ekki úthlutað til stefnanda á grundvelli veiðireynslu sem hann öðlaðist frá 16. ágúst 2006 til 15. ágúst 2009.
Fyrsta varakrafa stefnanda er að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda á tjóni stefnanda vegna þess að aflahlutdeild í gulllaxi var ekki úthlutað til stefnanda á grundvelli veiðireynslu sem hann öðlaðist frá 28. maí 2007 til 27. maí 2010.
Önnur varakrafa stefnanda er að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda á tjóni stefnanda vegna þess að aflahlutdeild í gulllaxi var ekki úthlutað til stefnanda á grundvelli veiðireynslu sem hann öðlaðist frá 8. júní 2007 til 7. júní 2010.
Þriðja varakrafa stefnanda er að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda á tjóni stefnanda vegna vanrækslu stefnda á því að úthluta aflahlutdeild í gulllaxi á tímabilinu eftir 7. júní 2010 og fram að því að aflahlutdeild í gulllaxi var úthlutað þann 26. ágúst 2013.
Í öllum tilvikum krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða honum málskostnað.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.
I
Stefnandi kveðst vera frumkvöðull í veiðum á gulllaxi og hafði ráðstafað miklum tíma og fjármunum í slíkar veiðar. Hann hafi byggt upp þekkingu og markaði fyrir afurðir gulllax og telur að hagsmunum sínum sé verulega raskað í ljósi ákvörðunar ráðherra um að úthlutun aflahlutdeildar í gulllaxi hafi ekki verið byggð á veiðireynslu þriggja síðustu ár. Með þessari háttsemi hafi stefndi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið stefnanda tjóni.
II
Stefnandi krefst þess aðallega að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda á tjóni stefnanda vegna þess að aflahlutdeild í gulllaxi var ekki úthlutað til stefnanda á grundvelli veiðireynslu sem hann öðlaðist frá 16. ágúst 2006 til 15. ágúst 2009. Stefnandi setur fram þrjár varakröfur þar sem krafist er viðurkenningar skaðabótaskyldu á sama grunni miðað við önnur tímamörk, í fyrsta lagi miðað við veiðireynslu stefnanda frá 28. maí 2007 til 27. maí 2010, í öðru lagi frá 8. júní 2007 til 7. júní 2010 og í þriðja lagi „á tímabilinu eftir 7. júní og fram að því að aflahlutdeild í gulllaxi var úthlutað þann 26. ágúst 2013“.
Stefnandi byggir kröfur sínar á 1. mgr. 3. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Samkvæmt því ákvæði hafi stefnda verið skylt að hlutdeildarsetja gulllaxstofninn í síðasta lagi fyrir fiskveiðiárið 2009/2010, sem er aðalkrafan. Í fyrstu varakröfu byggir stefnandi á því að stefnda hafi verið skylt að hlutdeildarsetja gulllaxstofninn eftir að hann tók ákvörðun um að stöðva veiðarnar með tilkynningu dags. 27. maí 2010, í annarri varakröfu stefnanda er byggt á því að stefnda hafi borið að hlutdeildarsetja stofninn frá því leyfi til veiða voru felld úr gildi hinn 7. júní 2010 og þriðja varakrafa stefnanda byggir á því, ef dómurinn skyldi ekki fallast á aðrar dómkröfur stefnanda, en þó komast að þeirri niðurstöðu að stefnda hafi borið að úthluta aflahlutdeild á öðru tímamarki en því sem aðrar dómkröfur stefnanda taka til, en þó áður en ráðherra úthlutaði aflahlutdeild 26. ágúst 2013. Í öllum tilvikum byggir stefnandi á því að stefnda hafi borið að úthluta aflahlutdeild á grundvelli aflareynslu síðustu þriggja veiðitímabila þar á undan, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 116/2006.
Stefnandi byggir á því að hann hafi haft veiðireynslu sem hann telur að taka hefði átt tillit til fyrr en gert var, enda var hann frumkvöðull í þessum veiðum. Með því háttalagi stefnda að miða við 2013/2014 (og veiðireynslu þriggja fiskveiðiára þar á undan) hafi aðrar útgerðir getað hafið veiðar á gulllaxi og þannig skapað sér veiðireynslu. Það hafi komið þeim útgerðum til góða er hlutdeildarsetningin hafi verið ákveðin fyrir árið 2013/2014. Stefnandi kveður að þetta hafi haft þá þýðingu að skip stefnanda hafi fengið úthlutað samanlagt 10,8% aflahlutdeild fyrir fiskveiðiárið 2013/2014, en hefðu fengið úthlutað samanlagt 26,1442% aflahlutdeildar á grundvelli aflareynslu á tímabilinu frá 16. ágúst 2006 til 15. ágúst 2009. Samkvæmt fyrstu varakröfu hefði skip stefnanda fyrir fiskveiðiárið 2013/2014 fengið úthlutað samanlagt 20,8285% aflahlutdeildar í stað 10.8%. Samkvæmt annarri varakröfu hefðu skip stefnanda fengið úthlutað samanlagt 19,8469% aflahlutdeildar. Ekki er tilgreint í umfjöllum um þriðju varakröfu hvað stefnandi hefði fengið úthlutað miðað þær forsendur sem þar eru tilgreindar.
Skaðabótakrafa stefnanda byggir á því að stefndi hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið honum tjóni. Um tjón það sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir segir svo í stefnu: „Tjón stefnanda af háttsemi ráðherra felst í því að eftir úthlutun á aflahlutdeild í gulllaxi eru veiðiheimildir hans aðeins hluti þess sem hlutdeild hans var í veiðum áður en grípa þurfti til takmarkana á veiðum og ekki nægar til að halda úti þeim veiðum eða tryggja hráefni fyrir þá markaði sem stefnandi hafði byggt upp.“ Þá hefur stefnandi reiknað út hve mikla aflahlutdeild hann telji sig hafa átt að fá og það sem hann fékk, samanber hér að framan. Þá segir stefnandi í stefnu að hann telji „óumdeilanlegt að fjárhagsleg verðmæti felist í aflaheimildum og aukinni aflahlutdeild. Leiddi þessi vanræksla til tjóns fyrir stefnanda.“ Engin gögn voru lögð fram með stefnu málsins til rökstuðnings ætluðu tjóni stefnanda.
III
Stefndi hafnar því að honum hafi verið skylt að ákveða hlutdeildarsetningu gulllaxstofnsins fyrir fiskveiðiárið 2009/2010. Stefndi telur að honum hafi verið rétt að ákveða hlutdeildarsetningu fyrst fyrir árið 2013/2014 og við þá hlutdeildarsetningu hafi borið að miða við veiðireynslu þriggja fiskveiðiára þar á undan í samræmi við 1. mgr. 9. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 116/2006.
IV
Stefnandi reisir málatilbúnað sinn á heimild í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.
Þar segir að hafi stefnandi lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands geti hann leitað viðurkenningardóms um kröfur sínar í þeim efnum. Áskilnaður ákvæðisins um lögvarða hagsmuni hefur verið skýrður á þá leið að sá sem krefst viðurkenningar á skaðabótaskyldu verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni og gera grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við ætlað skaðaverk. Verður að gera kröfu um það að í stefnu sé fjallað með skýrum hætti um þessi atriði þannig að rök séu færð fyrir því að skilyrðum um lögvarða hagsmuni sé fullnægt, samanber til dæmis dóm Hæstaréttar í málinu nr. 448/2015.
Við aðalmeðferð málsins hélt stefnandi því fram að það skilyrði, hvort leiddar hafi verið nægilegar líkur að tjóni, sé sönnunaratriði sem sé á forræði málsaðila og vísaði til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 57/2011. Á það fellst dómurinn ekki samanber til hliðsjónar meðal annars dóm Hæstaréttar í málinu nr. 361/1999, en þar var krafist viðurkenningar skaðabótaskyldu vegna ólögmætis tilgreindra stjórnvaldsákvarðana. Í því máli kom ekki fram frávísunarkrafa af hálfu stefnda. Hæstiréttur vísaði sjálfkrafa frá héraðsdómi kröfunni um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnanda. Einnig vísast til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 664/2014 sem verður að skýra svo að það sé ekki á forræði málsaðila hvort nægar líkur hafi verið leiddar að því að skilyrðum 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála sé fullnægt.
Því er ekki á móti mælt að fjárhagsleg verðmæti felast í aflaheimildum. Hins vegar gerir ákvæði 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála ráð fyrir því að stefnandi leiði nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni og geri grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við ætlað skaðaverk. Að mati dómsins dugar ekki að tilgreina að „óumdeilanlegt“ sé að fjárhagsleg verðmæti felist í aflahlutdeildum, frekar en að gera kröfu um missi hagnaðar, án þess að frekari rökstuðningur fylgi því í stefnu, samanber tilvitnaðan dóm. Þótt aflaheimildir séu fjárhagsleg réttindi sem geta gengið kaupum og sölum er ekkert í stefnu málsins sem gefur það til kynna að ætlunin hafi verið að selja aflaheimildirnar. Auk þess hefði þá ekki þurft að höfða viðurkenningarmál þar sem unnt hefði verið að notast við markaðsverðið og þannig gera fjárkröfu í málinu.
Til þess að aflahlutdeildin, það er þessi fjárhagslegu verðmæti, skapi stefnanda tekjur þarf stefnandi að leggja í kostnað. Í engu er gerð grein fyrir slíkum kostnaði en eins og mál þetta liggur fyrir verður að telja það mikilvægt, þar sem stefnandi hefur upplýst í stefnu að hann sé frumkvöðull í þessum veiðum og hafi ráðstafað miklum fjármunum til að byggja upp þekkingu og aflað sérstakra markaða fyrir afurðina. Verið getur að fjárfestingar stefnanda séu það miklar að tekjur af aflahlutdeildinni dugi ekki til að mæta honum, en stefnandi tilgreinir í stefnu að sú 10,8% aflahlutdeild sem hann fékk úthlutað „hafi ekki verið nægar til að halda úti þeim veiðum eða tryggja hráefni fyrir þá markaði sem stefnandi hafði byggt upp.“ Skilyrði 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála er einungis að stefnandi leiði líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni, geri grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við ætlað skaðaverk. Dómur telur að það hafi ekki verið gert. Til hliðsjónar er hér vísað til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 371/2005 þar sem krafist var viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefnda, íslenska ríkisins, vegna kvótasetningar á löngu og keilu, en í stefnu málsins er ætlað tjón sérstaklega rökstutt.
Með vísan til þess sem að framan greinir er það niðurstaða dómsins, að málatilbúnaði stefnanda sé þannig háttað að skilyrðum 25. gr. laga um meðferð einkamála sé ekki fullnægt, þ.e. að stefnandi hafi ekki leitt nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni, gert grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við ætlað skaðaverk.
Með vísan til þess sem að framan greinir er málinu vísað frá dómi án kröfu. Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað svo sem greinir í úrskurðarorði.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Málinu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Þorbjörn hf., greiði stefnda, íslenska ríkinu, 500.000 kr. í málskostnað.