Hæstiréttur íslands

Mál nr. 274/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Föstudaginn 18

 

Föstudaginn 18. maí 2007.

Nr. 274/2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Jón Höskuldsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. maí 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 12. júní 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verið felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Ákærði hlaut skilorðsbundinn dóm 5. desember 2006 vegna sambærilegra brota og hann er nú kærður fyrir. Hann er undir rökstuddum grun um að hafa fyrir þann dóm og skömmu eftir hann gerst sekur um auðgunarbrot og svo aftur í þessum mánuði um tvö þjófnaðarbrot. Að þessu gættu og með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á að skilyrði c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur. Ekki eru efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

 

                   Úrskurður Héraðsdóms Reykja­víkur 15. maí 2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að dómurinn úrskurði að X, [kt. og heimilisfang], sæti gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 12. júní 2007, kl. 16:00.

Í greinargerð kemur fram að hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu séu til meðferðar nokkur mál sem varða meint brot kærða í Reykjavík:

M. 010-2006-49567.

Þann 3. október 2006 hafi verið tilkynnt um þjófnað í versluninni Hagkaup í Kringlunni.  Kærði hafði tekið vörur að verðmæti kr. 386.  Kærði viðurkenndi brotið á vettvangi.

M. 010-2006-54402.

Þann 26. október 2006 var lögregla kvödd að versluninni Pétursbúð við Ránargötu 15 vegna tilraunar til ráns. Þangað hafði komið inn maður með nælonsokk yfir höfði og skipað afgreiðslukonu að setja peninga úr sjóðsvél í poka. Afgreiðslukonan neitaði því og kvaðst hafa þekkt kærða í sjón í gegnum sokkinn. Kærði hljóp af vettvangi eftir að honum var ljóst að afgreiðslukonan hafði ræst viðvörunarkerfi. Afgreiðslukonan þekkti kærða við myndsakbendingu daginn eftir. Kærði var handtekinn sama kvöld og yfirheyrður daginn eftir þar sem hann neitaði sök.  Kærði kvaðst ekki hafa verið að verki og kvaðst hafa verið staddur í Keiluhöllinni í Öskjuhlíð. Fyrir liggja símagögn þar sem fram kemur að kærði var ekki staddur í Öskjuhlíðinni á þeim tíma sem hið meinta brot var framið.  

M. 007-2007-00754.

Aðfaranótt 4. janúar sl. barst lögreglu tilkynning um að maður hefði verið að reyna að brjóta upp hraðbanka við Laugaveg 116 og maðurinn væri þar nálægur. Lögreglumenn fóru að manninum, sem reyndist vera kærði, en hann var þá með gúmmíhanska á höndunum og hélt á kúbeini.  Kærði var ósamvinnuþýður við lögreglumenn og greindi frá því að hann hefði ætlað að nota kúbeinið til að opna blaðabunka. Við athugun á vettvangi mátti sjá ummerki um að reynt hefði verið að opna hraðbankann með áhaldi. Sjáanlegar skemmdar voru á hraðbankanum og búið var að líma bréfmiða fyrir sjónsvið eftirlitsbúnaðar hjá tækinu.  Kærði var yfirheyrður morgunin eftir en hann gaf ósennilegar skýringar á ferðum sínum eða meintu athæfi við hraðbankann.  Munnvatn fannst á framangreindum pappírsmiða sem lögregla lagði hald á.  Kærði neitaði lögreglu um heimild til taka munnvatnssýni eða að ljósmyndir yrðu teknar af honum og fékkst slík heimild með dómsúrskurði.  Fyrir liggur niðurstaða DNA greiningar sem staðfestir að munnvatn úr minnismiðanum var úr kærða.

M. 007-2007-06002.

Að morgni 28. janúar sl. var tilkynnt um yfirstandandi innbrot í tannlæknastofu að  Hátúni 8.  Brotin hafði verið rúða í húsnæðinu, farið þar inn og rótað í hirslum og stolið tveimur stafrænum myndavélum og 10-15 þúsund í peningum. Blóð fannst á vettvangi og skófar.  Lögreglumenn urðu varir við kærða á gangi í nágrenninu skömmu síðar. Við leit á kærða fundust merkispjöld frá tannlæknastofunni. Kærði var blóðugur þegar lögreglumenn töluðu við hann. Við yfirheyrslu 2. febrúar sl. neitaði kærði að tjá sig um sakarefnið.  Fyrir liggur niðurstaða DNA greiningar þess efnis að blóð úr kærða fannst á vettvangi.

M. 007-2007-06026

Að morgni 28. janúar sl. var tilkynnt um yfirstandandi innbrot á verkstæði Samraf að Hátúni 6b.  Brotin hafði verið rúða í húsnæðinu og rótað til í hirslum. Stolið hafði verið skiptimynnt að fjárhæð kr. 3.000 og síma. Blóð og skófar fannst á vettvangi. Skófarið var sams konar og í innbroti í húsnæðina við hliðina, sbr. mál nr. 007-2007-06002. Við yfirheyrslu 2. febrúar sl. neitaði kærði að tjá sig um málið. Fyrir liggur niðurstaða DNA greiningar þess efnis að blóð úr kærða fannst á vettvangi.

M. 007-2007-06405

Aðfaranótt 30. janúar sl. var tilkynnt um yfirstandandi innbrot í Hátún 6b og gerandi væri á staðnum. Þegar lögreglumenn komu á vettvang sáu þeir til manns á hlaupum frá staðnum.  Hljóp maðurinn í átt að Laugavegi. Talið var líklegt að maðurinn væri kærði en vitað var um heimili hans að Skúlagötu 56. Fóru lögreglumenn þangað og urðu varir við taupoka sem var útataður í blóði. Fyrir utan útihurð á heimili kærða var skópar sem vitað var til að hafði ekki verið þar skömmu áður. Kærði var handtekinn skömmu síðar í bakgarði við húsið. Við yfirheyrslu síðar sama dag neitaði kærði að tjá sig um málið en sagðist hafa verið heima hjá sér um nóttina.

M. 007-2007-33943

Aðfaranótt laugardagsins 12. þ.m. var tilkynnt um innbrot í hjálpartækjaverslunina Adam & Evu við Hverfisgötu 82. Rúða hafði verið brotin í versluninni. Lagt var hald á upptöku úr eftirlitsmyndavélakerfi sem sýnir mann fara inn í verslunina og taka muni sem lágu ofan á borði verslunarinnar. Lögreglumenn hafa borið kennsl á kærða á upptökunni, sbr. upplýsingaskýrsla Alberts Arnar Sigurðssonar rannsóknarlögreglumanns dags. í dag. Kærði var yfirheyrður í gær vegna málsins. Kærði neitaði að tjá sig um málið en viðurkenndi að hann væri maðurinn á upptökunni.

M. 007-2007-34156

Aðfaranótt sunnudagsins 13. þ.m. var tilkynnt um innbrot í sömu hjálpartækjaverslun (sjá mál nr. 007-2007-33943). Krossviðsplata, sem notuð hafði verið til að byrgja eftir rúðubrotið frá því nóttina áður, hafði verið rifin úr. Lagt var hald á upptöku úr eftirlitsmyndavélakerfi sem sýnir mann fara inn í verslunina og taka þaðan tiltekna muni. Við skoðun á upptökunni sést að kærði er maðurinn í versluninni. Við yfirheyrslu í gær neitaði kærði að tjá sig um málið en viðurkenndi að vera maðurinn sem sést á upptökunni.

Kærði hafi verið handtekinn kl. 13:40 í gær eftir að starfsfólk fyrrnefndrar hjálpartækjaverslunar hafði óskað eftir lögregluaðstoð. Kærði hafði komið inn í verslunina á opnunartíma en starfsfólk þekkti hann af upptökunni.  

Kærði hafi verið sakfelldur fyrir auðgunarbrot og fíkniefnabrot, sbr. dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember sl. í máli nr. S-1624/2006, þar sem ákvörðun refsingar var frestað skilorðsbundið í 2 ár.  Með vísan til brotaferils kærða síðustu mánuði, sem virðist vera að færast í aukana þessa dagana, er það mat lögreglu að kærði muni halda áfram afbrotum gangi hann laus og því nauðsynlegt að hann sæti gæsluvarðhaldi á meðan rannsókn er ólokið og þar til ákvörðun um saksókn liggur fyrir og mál er til meðferðar fyrir héraðsdómi.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, er þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um aðild að 8 málum sem hafa verið til rannsóknar af hálfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Flest þessara brota tengjast þjófnuðum, en eitt þeirra er vegna tilraunar til ráns. Fyrir liggur að kærði, þó ungur sé, hefur samkvæmt sakarvottorði í þrígang gengist undir sáttir vegna brota á lögum um ávana og fíkniefni. Þá var hann 5. desember sl. dæmdur vegna brota á 244. gr. laga 19/1940 og vegna brota á lögum um ávana og fíkniefni. Af þessu öllu er ljóst að varnaraðili er undir rökstuddum grun um að hafa margítrekað brotist inn í verslanir og fyrirtæki. Svo sem rannsóknargögn málsins og sakarferill kærða veita óræka vísbendingu um þykir hætta á að kærði muni halda áfram brotastarfsemi, sé hann frjáls ferða sinna. Ákæruvald hefur lýst yfir að rannsókn þeirra mála sem nú eru til meðferðar verði lokið á næstunni og séu allar líkur á að ákæra verði gefin út fyrir 12. júní nk. Með vísan til þessa verður fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 12. júní 2007, kl. 16:00.