Hæstiréttur íslands

Mál nr. 70/2014


Lykilorð

  • Lánssamningur
  • Gengistrygging


                                                                                               

Fimmtudaginn 25. september 2014.

Nr. 70/2014.

 

Þorsteinn Theodórsson

(Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.)

gegn

Landsbankanum hf.

(Aðalsteinn E. Jónasson hrl.)

 

Lánssamningur. Gengistrygging.

Þ höfðaði mál gegn L hf. og krafðist endurgreiðslu fjár sem hann taldi sig hafa ofgreitt á grundvelli fjármögnunarleigusamnings aðilanna. Byggði Þ á því að samningurinn hefði verið um lán í íslenskum krónum, sem bundið væri við gengi erlendra gjaldmiðla, og í andstöðu við fyrirmæli laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að bæði samningsverð og leigugreiðslur hefðu verið tilgreindar í erlendum myntum. Hins vegar hefði í samningnum verið kveðið á um að leigugjaldið væri gengistryggt miðað við breytingar erlends gjaldmiðils gagnvart íslenskri krónu. Af efni samningsins yrði þannig ekki ráðið hvort um væri að ræða gilt lán í erlendum myntum eða ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum. Yrði því að líta til fyrirliggjandi gagna um efndir og framkvæmd samningsins. Af þeim varð ráðið að lánsfjárhæðin hefði verið greidd út í íslenskum krónum, auk þess sem Þ hefði greitt afborganir og vexti í íslenskum krónum. Yrði í ljósi þessa að líta svo á að um væri að ræða lán sem ákveðið hefði verið í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla og í andstöðu við fyrirmæli laga nr. 38/2001. Var því fallist á kröfu Þ.  

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 31. janúar 2014. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 10.538.575 krónur með vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. september 2009 til 30. nóvember 2012, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi sneri áfrýjandi, sem er vörubílstjóri, sér til Brimborgar hf. til að kaupa vörubíl og hleðslukrana fyrir bílinn. Til að fjármagna kaupin leitaði hann til SP-Fjármögnunar hf. og undirritaði áfrýjandi og SP-Fjármögnun hf. (nú stefndi Landsbankinn hf.) samning 6. maí 2007 með fyrirsögninni „Fjármögnunarleigusamningur“. Undir rekstri málsins féllst stefndi á það með áfrýjanda að samningur þessi væri í raun lánssamningur en ekki leigusamningur.

Efni samningsins 6. maí 2007 skiptist annars vegar í sérstaka samningsskilmála í átta liðum og hins vegar í almenna samningsskilmála í 25 greinum. Í 1. lið sérstöku skilmálanna kemur fram að samningsverðið sé samtals 20.500.000 krónur sem skiptist í ISK:4.100.000, CHF:156.758 og JPY:15.533.245. Samkvæmt 2. lið er leigutíminn sjö ár og í 5. lið segir að fyrsti gjalddagi sé 5. júlí 2007 og síðasti gjalddagi 5. júní 2014 og fjöldi gjalddaga 84. Í 4. lið segir svo um leigugjaldið: „A I: leiga greidd við undirskrift kr. 4.100.000,- II: Leigugr. júl og ágú 2007 JPY 1.945.538 & CHF 20.462. Samtals kr. 2.109.432, - III: Leigugreiðslur frá ágúst 2007 JPY 162.128/CHF 1705 (Samtals kr. 175.768) IV: 0,50% stofngjald. B. Leigugjaldið er gengistryggt m.v. breytingar erlends gjaldmiðils eða á samsettum gjaldmiðlum ... gagnvart íslenskri krónu. C. Erlendur gjaldmiðill: CHF: 50%, JPY: 50%. G. Libor-vextir við gildistöku samnings þessa eru: CHF: 2,21%, JPY: 0,64%“. Í 5. og 6. mgr. 4. gr. almennu skilmálanna segir að einstakar leigugreiðslur breytist í samræmi við breytingar á vísitölu hins erlenda gjaldmiðils frá grunngengi til þeirrar vísitölu sem í gildi er á hverjum tíma.

Samningnum fylgdi „greiðsluplan“ þar sem fram kom grunngengi hinna erlendu gjaldmiðla og í því var sýnt hverjar greiðslur yrðu á hverjum hinna 84 gjalddaga þar sem fram kom við hvern þeirra hver afborgun yrði og vextir. Tekið var fram að yfirlitið sýndi áætlaðar greiðslur af höfuðstól og vexti, en samningurinn væri gengistryggður.

Í yfirlýsingu um bindandi kauptilboð, sem aðilar undirrituðu sama dag og samninginn, er tekið fram að kaupverðið sé „verðtryggt/óverðtryggt/gengistryggt“ á sama hátt og leigugreiðslur samningsins.

Allt fram að ársbyrjun 2009 greiddi áfrýjandi af láninu en þá höfðu afborganir hækkað svo að hann gat ekki staðið í skilum. Stefndi tók bifreiðina úr vörslu áfrýjanda og seldi hana 8. september 2009 og var söluandvirði hennar fært sem innborgun á samning aðila.

II

Ágreiningur aðila málsins lýtur nú eingöngu að því hvort lánssamningurinn 6. maí 2007 sé skuld í erlendri mynt eða íslenskum krónum sem bundnar séu gengi erlends gjaldmiðils með ólögmætum hætti samkvæmt 13. gr., sbr. 14. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Enginn tölulegur ágreiningur er í málinu.

Eins og ítrekað hefur komið fram í dómum Hæstaréttar skal við úrlausn þess hvort um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum sé að ræða eða ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum fyrst og fremst litið til forms og meginefnis þeirra gerninga sem liggja til grundvallar skuldbindingunni. Í því sambandi skiptir einkum máli hvernig sjálf skuldbindingin er tilgreind í samningnum. Lánssamningur sá, sem hér um ræðir, ber yfirskriftina „Fjármögnunarleigusamningur“. Eins og að framan greinir var samningsverðið tilgreint ISK:4.100.000, CHF:156.758 og JPY: 15.533.245, samtals 20.500.000 krónur. Þá voru leigugreiðslur einnig tilgreindar í framangreindum myntum en samtala þeirra í íslenskum krónum kom einnig fram. Þessi ákvæði samningsins benda til þess að hér sé um erlent lán að ræða. Aftur á móti var í samningnum einnig kveðið á um að leigugjaldið væri gengistryggt miðað við breytingar erlends gjaldmiðils gagnvart íslenskri krónu. Í greiðsluáætlun stefnda, sem var fylgiskjal með samningnum, kom einnig fram, að yfirlitið sýndi áætlaðar greiðslur af höfuðstól og vexti og að samningurinn væri gengistryggður. Engin þörf var á að kveða á um gengistryggingu ef lánið var í raun í erlendri mynt eins og stefndi heldur fram að samningurinn kveði á um. Hér var því um misræmi að ræða í samningnum og hann kvað ekki afdráttarlaust á um það hvort hann væri um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum eða ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum.

 Þar sem efni samningsskilmálanna er ekki ljóst verður að líta til gagna um framkvæmd og efndir samningsins. Gögn málsins bera með sér að stefndi greiddi út lánsfjárhæðina í íslenskum krónum 9. maí 2007. Þá liggur einnig fyrir að áfrýjandi greiddi afborganir og vexti í íslenskum krónum. Aðilar efndu því báðir skuldbindingar sínar í þeim gjaldmiðli. Að þessu gættu hefur stefndi ekki leitt í ljós að um erlent lán hafi verið að ræða. Samkvæmt því verður að líta svo á að hér sé um að ræða lán sem ákveðið var í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við fyrirmæli laga nr. 38/2001. Stefndi verður því dæmdur til að greiða áfrýjanda kröfu hans ásamt vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði, en eins og að framan greinir er ekki tölulegur ágreiningur með aðilum og vaxtakröfu áfrýjanda er ekki mótmælt.

Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði. Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fyrir Hæstarétti fer eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndi, Landsbankinn hf., greiði áfrýjanda, Þorsteini Theodórssyni, 10.538.575 krónur með vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. september 2009 til 30. nóvember 2012 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði 600.000 krónur. Stefndi greiði áfrýjanda 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð. Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 600.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. janúar 2014.

I

Mál þetta, sem var dómtekið 18. desember sl., er höfðað af Þorsteini Theódórssyni, Fjallalind 18, Kópavogi, með stefnu, birtri 15. janúar sl., á hendur Landsbankanum hf., Austurstræti 11, Reykjavík.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða stefnanda 10.538.575 kr. auk vaxta Seðlabanka Íslands samkvæmt 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 8. september 2009 til 30. nóvember 2012, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 3872001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.

Dómkröfur stefnda eru þær að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara er þess krafist að dómkröfur stefnanda á hendur stefnda verði lækkaðar verulega. Að auki krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.

II

Málavextir

Hinn 6. maí 2007 gerðu stefnandi og SP-fjármögnun, sem síðar sameinaðist stefnda, með sér samning nr. 1700193 sem ber yfirskriftina Fjármögnunarleigusamningur. Samningur aðila er tvískiptur. Annars vegar er um að ræða sérstök samningsákvæði þar sem leigumunur, leigutími, notkunarstaður, leigugjald, gjalddagar, greiðslustaður, vátryggingar og sérstök ákvæði/baktryggingar eru sérstaklega tilgreind í köflum I til VIII. Hins vegar er um að ræða almenna samningsskilmála SP-fjármögnunar vegna fjármögnunarleigu, sem vísað er til í sérstökum samningsákvæðunum, og eru þeir sérstöku samningsákvæðunum til fyllingar.

Samkvæmt ákvæðum samningsins leigði stefnandi af stefnda vörubifreið. Í I. kafla samningsins kemur fram að samningurinn nái til „BA-256 Volvo FM 6x4, með Zetterberg palli ásamt BH-0303 HIAB 244E8-HIPTO Hleðslukrana árgerð 2007“ samkvæmt meðfylgjandi reikningum merktum sem fylgiskjal nr. I með samningnum. Samningsverð var sundurliðað þannig: „ISK: 4.100.000, CHF: 156.758 [svissneskir frankar]  og JPY:15.533.245 [japönsk jen] (Samtals 20.500.000 kr.)“. Var seljandi/umboðsmaður tilgreindur sem Brimborg hf. Samkvæmt I.I kafla samningsins var leigutími sjö ár. Ákvæði um leigugjald var að finna í IV. kafla samningsins. Þar kom fram í lið A.I að við undirskrift samningsins væru greiddar samtals 4.100.000 kr. Í lið A.II var kveðið á um að leigugjald í júlí og ágúst 2007 væri „JPY 1.945.538 & CHF 20.462 Samtals kr. 2.109.432“. Í lið A.III var kveðið á um að leigugreiðslur frá ágúst 2007 væru „JPY 162.128/CHF 1705 (Samtals kr. 175.768)“. Í lið C kom fram að leigugjaldið væri „gengistryggt m.v. breytingar erlends gjaldmiðils eða á samsettum gjaldmiðlum (tilgr. í C.) gagnvart íslenskri krónu“. Í lið C var kveðið á um að erlendur gjaldmiðill væri CHF: 50% og JPY: 50%. Í lið G var kveðið á um að LIBOR-vextir við gildistöku samningsins væru CHF: 2,21% og JPY: 0,64%. Í kafla V voru ákvæði um gjalddaga leigu og í kafla VI ákvæði um greiðslustað.

Stefndi keypti vörubifreiðina og hleðslukranann af Brimborg hf., á samtals 20.500.000 kr. og er reikninga vegna þeirra viðskipta að finna í málinu. Er stefnandi skráður á reikningana sem rekstraraðili en hann mun upphaflega hafa leitað til Brimborgar hf. um kaup á vörubifreið. Með samningnum fylgdi yfirlýsing um bindandi kauptilboð þar sem stefnandi lofaði stefnda að afla eigi síðar en þremur mánuðum fyrir lok frumleigutíma bindandi kauptilboðs í leigu munanna. Voru ákvæði um hvernig kaupverð skyldi greitt. Þá fylgdi með samningnum greiðsluáætlun þar sem miðað er við leigu í svissneskum frönkum annars vegar og hins vegar í japönskum jenum. Í almennum skilmálum var að finna nánari ákvæði vegna fjármögnunarleigunnar.

Stefnandi stóð ekki í skilum með afborganir og fór svo að lokum að bifreiðin var tekin úr hans vörslum. Seldi stefndi bifreiðina og var söluverðmæti hennar fært sem innborgun á samning aðila.

Stefnandi heldur því fram að umræddur fjármögnunarleigusamningur sé í raun lánssamningur sem eigi undir lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, þar á meðal óundanþægt bann laganna við að binda fjárskuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Stefndi mótmælti því í greinargerð sinni til réttarins að umræddur samningur væri lánssamningur. Aðilar voru hins vegar sammála um að fresta meðferð málsins þar til niðurstaða Hæstaréttar í máli stefnda gegn Flugastraumi ehf. lægi fyrir en þar reyndi m.a. á hvort sambærilegur fjármögnunarleigusamningur, sem SP-fjármögnun hafði gert við Flugastraum ehf., væri í raun lánssamningur. Með dómi Hæstaréttar, 12. desember sl., í máli nr. 430/2013 komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að umræddur fjármögnunarleigusamningur hefði samkvæmt efni sínu og framkvæmd samningsaðila öll helstu einkenni lánssamnings og yrði því að líta svo á að SP-fjármögnun hf. hefði veitt umræddu einkahlutafélagi lán sem SP-fjármögnun hf. hefði kosið að klæða í búning leigusamnings. Í kjölfar dómsins féllst stefndi á það með stefnanda að fjármögnunarleigusamningur sá sem um er deilt í þessu máli væri í raun lánssamningur. Stefndi byggir hins vegar á því að lánið sé í erlendri mynt og því lögmætt erlent lán. Er sá ágreiningur til úrlausnar í máli þessu. Þá greinir aðila á um hvort stefnandi eigi rétt á endurgreiðslu úr hendi stefnda fari svo að lánið verði talið fara í bága við ákvæði laga nr. 38/2001.

III

Málsástæður stefnanda

   Af hálfu stefnanda er á því byggt að umræddur samningur hafi falið í sér lán í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla og þar með ólögmæta gengistryggingu samkvæmt 14., sbr. 13. gr. laga nr. 38/2001. Vísar stefnandi til þess að í lánssamningnum og gögnum sem honum tengist, t.d. reikningum og greiðsluáætlun, komi fjárhæð samningsins fram í íslenskum krónum. Þá komi fram í 5. mgr. 4. gr. almennra samningsskilmála samningsins að einstaka leigugreiðslur breytist í samræmi við breytingar á vísitölu hins erlenda gjaldmiðils frá grunngengi skv. lið IV.D til þeirrar vísitölu sem í gildi sé á hverjum tíma.

Stefnandi byggir því á að stefndi hafi fengið ofgreiddar 10.538.575 kr. vegna samnings hans við stefnanda sem sé endaleg dómkrafa máls þessa. Hinn 8. september 2009 hafi andvirði vörubifreiðarinnar BA-256 verið fært sem innborgun inn á hinn umþrætta samning og telur stefnandi að krafa hans á hendur stefnda hafi stofnast þann dag. Beri stefnda að endurgreiða stefnanda þá fjárhæð ásamt vöxtum og dráttarvöxtum.

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga. Kröfu um vexti, þ.m.t. dráttarvexti og vaxtavexti, styður stefnandi við reglur 4. gr., 1. mgr. 6. gr. og 12. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, með síðari breytingum. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður stefnda

        Af hálfu stefnda er á því byggt að umræddur lánssamningur sé lögmætt erlent lán sem uppfylli skilyrði VI. kafla laga nr. 38/2001, þar á meðal ákvæði 13. og 14. gr. Samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar í málum nr. 551/2011, 524/2011 og 50/2012, líti rétturinn svo á að ef tilgreining á lánsfjárhæð á lánaskjali er í erlendri mynt sé um lögmætt erlent lán að ræða. 

        Varakrafa stefnda er á því byggð að fjárkrafa stefnanda sé of há. Stefnandi reikni út kröfu sína á grundvelli niðurstöðu Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 frá 15. febrúar 2012 og máli nr. 464/2012 frá 18. október 2012, þannig að greiðsla á hverjum gjalddaga á vöxtum sé fullnaðargreiðsla og að stefndi geti ekki krafið stefnanda um þá vexti sem vangreiddir hafi verið. Stefndi mótmælir útreikningi stefnanda og telur að endurreikna beri lánið í samræmi við ákvæði 18. gr. laga nr. 38/200. Stefndi telur að við endurreikning eigi að reikna vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 frá lántökudegi. Stefndi vísar til meginreglu kröfuréttar um að kröfuhafi sem fengið hafi minna greitt en hann hafi átt rétt til í lögskiptum við skuldara, eigi tilkall til viðbótargreiðslu. Atvik séu ekki með þeim hætti í tilviki stefnanda að víkja beri frá framangreindri meginreglu. Þá mótmælir stefndi vaxtakröfum stefnanda og telur ekki forsendur til að dæma vexti frá fyrra tímamarki en dómsuppsögu.

        Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, einkum 1.-4. gr. og 13., 14. og 18. gr. Stefndi vísar til 3. gr. og 20. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Einnig er vísað til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og meginreglna samninga- og kröfuréttar. Krafa stefnda um málskostnað byggist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

IV

Niðurstaða

                Í máli þessu deila aðilar um hvort samningur þeirra frá 6. maí 2007 hafi falið í sér gilt lán í erlendum gjaldmiðlum eða lán í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiða, og þar með ólögmæta gengistryggingu samkvæmt 14. gr., sbr. 13. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu féllst stefndi undir meðferð málsins á að samningurinn, sem ber yfirskriftina fjármögnunarleigusamningur, væri í raun lánssamningur. 

Um heimildir til verðtryggingar sparifjár og lánsfjár fer eftir 14. gr. laga nr. 38/2001. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að verðtryggja lánsfé í íslenskum krónum við vísitölu neysluverðs, sem Hagstofa Íslands reiknar, eða hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna sem ekki mæla breytingar á almennu verðlagi. Ekki er heimilt að verðtryggja lánsfé í íslenskum krónum á þann hátt að það sé bundið við gengi erlendra gjaldmiðla eða á annan hátt en þann sem sérstaklega er heimilaður í lögunum, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar Íslands í málunum nr. 92/2010, 153/2010, 603/2010, 604/2010, 30/2011, 31/2011 og 155/2011. Lán í erlendri mynt falla hins vegar ekki undir reglur um heimildir til verðtryggingar lánsfjár í íslenskum krónum. Í dómum Hæstaréttar í málum nr. 551/2011 og 552/2011 var fjallað um þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar við úrlausn þess hvort um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum sé að ræða eða ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum. Hafa þau sjónarmið verið staðfest í síðari dómum réttarins, t.d í málum nr. 757/2012 og nr. 194/2013. Samkvæmt framangreindum dómum er fyrst og fremst litið til forms og meginefnis þeirra gerninga sem liggja til grundvallar skuldbindingunni. Nokkur atriði eru nefnd í því sambandi, þ.e. heiti skuldbindingarinnar í fyrirliggjandi samningi, hverning lánsfjárhæðinni sé tilgreind og hvort vaxtakjör séu í samræmi við það að um erlent lán sé að ræða.

Hvað varðar heiti skuldbindingarinnar er til þess að líta að samningur aðila ber einungis yfirskriftina „fjármögnunarleigusamningur“. Er ekki vísað til gengistryggingar eða annars í heiti samningsins. Veitir þetta atriði því ekki vísbendingu í málinu um hvort um lán í erlendum gjaldmiðlum sé að ræða eða ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum.

Hvað varðar tilgreiningu á lánsfjárhæðinni er til þess að líta að fram kemur í I. kafla hins umþrætta samnings að samningsverð sé 4.100.000 íslenskar krónur, 156.758 svissneskir frankar og 15.533.245 japönsk jen. Samtals sé samningsverðið 20.500.000 kr. Í kafla IV eru ákvæði um „leigugjald“. Þannig kemur fram í lið A.I að „leiga“ greidd við undirskrift sé 4.100.000 kr. Í lið A.II kemur fram að „leigugreiðslur“ í júlí og ágúst 2007 séu 1.945.538 japönsk jen og 20.462 svissneskir frankar (samtals 2.109.432 kr.). Í lið A.III kemur fram að „leigugreiðslur“ frá ágúst 2007 séu 162.128 japönsk jen og 1.705 svissneskir frankar (samtals 175.768 kr.). Í lið B kemur fram að „leigugjaldið“ sé gengistryggt m.v. breytingar erlends gjaldmiðils eða á samsettum gjaldmiðlum (tilgreint í C) gagnvart íslenskri krónu. Í lið C kemur fram að erlendur gjaldmiðill sé svissneskir frankar og japönsk jen í jöfnum hlutföllum. Það að lánsfjárhæðin og afborganir af henni („leigugreiðslur“) séu tilgreindar í hinum erlendu gjaldmiðlum gefur vísbendingu um að um sé að ræða erlent lán og skiptir þá ekki máli þótt hugtakið gengistrygging sé jafnframt notað í samningum.

Hvað varðar vaxtakjör er til þess að líta að í þessu máli eru vextir tilgreindir sem LIBOR-vextir 2,21% vegna skuldbindingarinnar í svissnesku frönkunum og 0,64% vegna skuldbindingarinnar í japönskum jenum. Rennir það jafnframt stoðum undir að hér sé um erlent lán að ræða.

Þegar framangreind atriði eru metin heildstætt telur dómurinn að umræddur samningur sem stefnandi gerði við SP-fjármögnun hf., 7. maí 2007, hafi verið um lán í erlendum myntum. Sú staðreynd að greitt hafi verið af láninu í íslenskum krónum skiptir ekki máli um niðurstöðuna þegar skýrt kemur fram í samningnum að skuldin sé í erlendri mynt. Verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnanda í máli þessu.

                Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Af hálfu stefnanda flutti málið Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.

Af hálfu stefnda flutti málið Hrannar Jónsson hdl.

                Dóminn kvað upp Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð

        Stefndi, Landsbanki Íslands hf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Þorsteins Theodórssonar, í máli þessu.

        Málskostnaður fellur niður.