Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-5

A (Steingrímur Þormóðsson lögmaður)
gegn
Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og B hf. (Kristín Edwald lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Matsmenn
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.

2. Með beiðni 10. janúar 2024 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 15. desember 2023 í máli nr. 332/2022: A gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og B hf. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um viðurkenningu á óskiptri skaðabótaskyldu gagnaðila vegna þess líkamstjóns sem hún varð fyrir í umferðarslysi 12. febrúar 2013.

4. Í málinu lágu fyrir ein álitsgerð og tvær matsgerðir, undir- og yfirmat, um orsakatengsl milli slyssins og einkenna leyfisbeiðanda. Aðila greindi á um sönnunargildi matsgerðanna, en leyfisbeiðandi taldi að leggja bæri undirmatsgerð til grundvallar, annars vegar vegna vanhæfis yfirmatsmanna og hins vegar þar sem yfirmatsmenn hefðu reist niðurstöður á forsendum sem leyfisbeiðandi hefði hrakið með matsgerð vélaverkfræðings um líklegan hraða bifreiðar gagnaðilans B hf. þegar árekstur varð. Í dómi Landsréttar var því hafnað að yfirmatsmenn hefðu verið vanhæfir af því að þeir hefðu áður tekið að sér í miklum mæli að gera „sameiginleg utanréttarmöt” fyrir gagnaðila Sjóvá-Almennar tryggingar hf. Þá var rakið að matsgerð vélaverkfræðingsins hefði verið í samræmi við fyrirliggjandi gögn um að ekki hefði verið um harðan árekstur að ræða. Yfirmatsgerðin var því lögð til grundvallar en þar var komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri unnt að rekja einkenni leyfisbeiðanda til slyssins. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að ekki væri fullnægt skilyrðum um að taka til greina kröfu leyfisbeiðanda um viðurkenningu á bótaskyldu gagnaðila þar sem orsakatengsl milli bifreiðaslyssins og tjóns leyfisbeiðanda væru ósönnuð.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrlausn málsins hafi verulegt almennt gildi fyrir þá sem verða fyrir líkamstjóni í slysum og þurfi að sækja rétt sinn gegn vátryggingarfélagi. Einnig byggir leyfisbeiðandi á því að málið hafi fordæmisgildi um hæfi dómskvaddra matsmanna en hún telur að yfirmatsmenn hafi verið vanhæfir vegna fjárhagslegra tengsla við gagnaðila Sjóvá-Almennar tryggingar hf. Enn fremur heldur leyfisbeiðandi því fram að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni hennar. Loks telur hún að ástæða sé til að ætla að málmeðferð á lægri dómstigum hafi verið stórlega ábótavant og dómur Landréttar bersýnilega rangur að efni eða formi.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að þau fjölmörgu atriði sem leyfisbeiðandi nefnir í beiðni sinni bendi til að annmarki hafi verið á málsmeðferð eða að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.