Hæstiréttur íslands
Mál nr. 695/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Kæruheimild
- Frávísun frá Hæstarétti
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. október 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 19. sama mánaðar. Kærð er ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 27. september 2016, þar sem héraðsdómsmál nr. E-2470/2016: Sigmar Vilhjálmsson og Sjarmur og Garmur ehf. gegn Stemmu hf. var fellt niður að því er varðar Sjarm og Garm ehf. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til k. liðar 1. mgr. 143. gr. og 144. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi, en til vara að hún verði ómerkt og héraðsdómi gert að kveða upp úrskurð í málinu.
Varnaraðili krefst þess að máli þessu verði vísað frá Hæstarétti. Þá krefst hann kærumálskostnaðar óskipt úr hendi sóknaraðila og Daða Bjarnasonar héraðsdómslögmanns.
Með vísan til c. liðar 1. mgr. 105 gr. laga nr. 91/1991 ákvað héraðsdómari í þinghaldi 27. september 2016 að fella niður héraðsdómsmál nr. E-2470/2016: Sigmar Vilhjálmsson og Sjarmur og Garmur ehf. gegn Stemmu hf. að því er varðar Sjarm og Garm ehf. að kröfu lögmanns einkahlutafélagsins eftir umboði frá stjórnarformanni þess.
Svo sem áður greinir kvað héraðsdómari ekki upp úrskurð um að málið yrði fellt niður hvað varðar Sjarm og Garm ehf., heldur tók hann ákvörðun um það, sem færð var í þingbók, sbr. 3. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt ótvíræðu orðalagi í upphafi 1. mgr. 143. gr. laganna eru það eingöngu úrskurðir héraðsdómara um nánar tilgreind efni, sem geta sætt kæru til Hæstaréttar, en ekki ákvarðanir hans um þau. Brestur því heimild fyrir kæru sóknaraðila. Þegar af þeirri ástæðu verður málinu vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila málskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Sóknaraðili, Sigmar Vilhjálmsson, greiði varnaraðila, Stemmu hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.