Hæstiréttur íslands
Mál nr. 240/2008
Lykilorð
- Bifreið
- Orsakatengsl
- Matsgerð
|
|
Fimmtudaginn 18. desember 2008. |
|
Nr. 240/2008. |
Grétar Þórðarson(Einar Gautur Steingrímsson hrl.) gegn Jakobi Jónssyni og Vátryggingafélagi Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.) |
Bifreiðir. Orsakatengsl. Matsgerð.
G lenti í umferðarslysi í nóvember 1997 og taldi sig hafa hlotið tímabundin og varanleg líkamsspjöll sem rekja mátti til slyssins. Upplýst var að hann hefði sjálfur átt sök á slysinu en bifreið hans var tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu ökutækja hjá V. Fyrir Hæstarétti gerði G kröfu um ómerkingu hins áfrýjaða dóms og byggði á því að héraðsdómur hefði ekki rökstutt niðurstöðu sína og ekkert gagn hefði verið að setu sérfróðra meðdómenda í málinu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að niðurstaða héraðsdóms hefði verið byggð á mati dómsins á sönnunargildi yfirmatsgerðar og öðrum gögnum sem talin voru þar upp og engin frambærileg rök voru því fyrir ómerkingarkröfu G og var henni því hafnað. G byggði kröfu sína um skaðabætur í aðalatriðum á mati dómkvaddra manna frá 23. júní 2004. Yfirmatsmenn töldu hins vegar í matsgerð 3. október 2005 að veikindi G yrðu ekki talin rakin til árekstursins og hafði sú niðurstaða stuðning af áliti örorkunefndar. Þá kom fram í skýrslu lögreglunnar á Ísafirði um áreksturinn að G hefði ekki farið að finna til óþæginda fyrr en upp úr miðjum desember. Ekki var efni til annars en að leggja frásögnina til grundvallar í málinu. Samkvæmt þessu var talið að G hefði ekki tekist sönnun um að heilsubrestur sá sem hann krafðist bóta fyrir yrði rakinn til slyssins. Samkvæmt þessu voru V og J sýknaður af kröfu G.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 29. febrúar 2008, en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 16. apríl 2008. Með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála áfrýjaði hann héraðsdómi öðru sinni 29. apríl 2008. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur. Til vara krefst hann þess að stefndu verði sameiginlega dæmdir til að greiða sér 7.358.365 krónur með 2% ársvöxtum frá 19. nóvember 1997 til 24. júlí 2004 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. júlí 2004 til greiðsludags. Verði ekki fallist á upphafstíma dráttarvaxta gerir hann kröfu um „að krafan verðbætist skv. lánskjaravísitölu til upphafsdags dráttarvaxta og beri auk þess 2% vexti til þess dags.“ Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast þess aðallega að ómerkingarkröfu áfrýjanda verði hrundið, héraðsdómur staðfestur og þeim tildæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti. Til vara krefjast stefndu þess að fjárkrafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður látinn niður falla.
Áfrýjandi kveður kröfu sína um ómerkingu hins áfrýjaða dóms byggjast á því að héraðsdómur hafi ekki rökstutt niðurstöðu sína og „ekkert gagn hafi verið að setu sérfróðra meðdómenda í málinu.“ Í forsendum héraðsdóms kemur fram að niðurstaðan er byggð á mati dómsins á sönnunargildi yfirmatsgerðar 3. október 2005 og öðrum gögnum sem talin eru upp. Engin frambærileg rök eru því fyrir ómerkingarkröfu áfrýjanda og verður henni hafnað.
Svo sem í hinum áfrýjaða dómi greinir tók lögreglan á Ísafirði 30. ágúst 1998 skýrslu af áfrýjanda um áreksturinn 19. nóvember 1997. Þar kvaðst hann hafa farið að finna til óþæginda í hálsi, vinstri öxl og handlegg og fram í brjóstið „upp úr miðjum desember“. Þessi lýsing áfrýjanda á því hvenær hann fyrst fór að finna til þeirra einkenna, sem liggja til grundvallar bótakröfu hans, lá fyrir við gerð þeirra matsgerða sem fram hafa farið og lýst er í héraðsdómi. Í þeim er einnig lýst frásögnum áfrýjanda sjálfs á fundum með matsmönnum og hefur hann þá samkvæmt þeim greint frá þessu á svipaða lund. Eru ekki efni til annars en að leggja þessa frásögn áfrýjanda til grundvallar í málinu.
Fallist er á með héraðsdómi að áfrýjandi beri sönnunarbyrði fyrir því að heilsubrestur sá sem hann krefst bóta fyrir verði rakinn til slyssins og að honum hafi ekki tekist sú sönnun. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sýknu stefndu af kröfu áfrýjanda.
Áfrýjandi verður með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála dæmdur til að greiða stefndu málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Verður hann ákveðinn í einu lagi fyrir bæði dómstig og samkvæmt 2. mgr. 132. gr. laga nr. 91/1991 dæmdur til handa hvoru þeirra fyrir sig.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður um sýknu stefndu, Jakobs Jónssonar og Vátryggingafélags Íslands hf., af kröfu áfrýjanda, Grétars Þórðarsonar.
Áfrýjandi greiði stefndu hvorum fyrir sig samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. nóvember 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var 13. nóvember 2007, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Grétari Þórðarsyni, kt. 150239-2819, Urðarvegi 32, Ísafirði, á hendur Jakobi Jónssyni, kt. 010849-4469, Króki 3, Ísafirði, og Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík, með stefnu sem birt var 29. desember 2006.
Dómkröfur stefnanda eru aðallega að stefndu verði in solidum gert að greiða stefnanda 7.358.365 kr. auk 2% vaxta frá 19.11.1997 til 24.7.2004. Þess er krafist að vextirnir höfuðstólsfærist á 12 mánaða fresti, í fyrst skipti 19.11.1998. Krafist er dráttarvaxta p.a. skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af samanlagðri fjárhæð höfuðstóls og almennra vaxta frá 24.7.2004 til greiðsludags. Til vara, verði ekki fallist á upphafstíma dráttarvaxta, er þess krafist að krafan verðbætist skv. lánskjaravísitölu til upphafsdags dráttarvaxta og beri auk þess 2% vexti til þess dags. Krafist er málskostnaðar að skaðlausu.
Dómkröfur stefndu eru aðallega að stefndu verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og þeim tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins. Til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar og að málskostnaður verði látinn niður falla.
Helstu málavextir eru að stefnandi lenti í umferðaróhappi á mótum Austurvegar og Pollgötu á Ísafirði hinn 19. nóvember 1997. Í skýrslu sinni hjá sýslumanninum á Ísafirði 30. ágúst 1998, kveðst stefnandi hafa ekið bifreið sinni, LX 187 Nissan Pathfinder, árgr. 1992, vestur Austurveg. Hafi hann stöðvað bifreið sína, er hann varð var við að hvítri Land Rover bifreið var ekið norður Pollgötu. Hann hafi haldið að hann myndi komast yfir götuna áður en bifreiðin kæmi að gatnamótum og ekið aftur af stað, en misreiknað hraða Land Rover bifreiðarinnar og ekið í veg fyrir hana. Stefndi, Jakob Jónsson, ökumaður Land Rover bifreiðarinnar, hafi hemlað en bifreið hans lent á vinstra afturhjóli bifreiðar stefnanda þannig að bifreið stefnanda snerist.
Stefnandi greindi frá því að ísing hafi verið og talsverð hálka. Hann hafi fengið talsverðan hnykk á sig við höggið, en ekki fundið fyrir neinum óþægindum. Þeir hefðu kallað á lögreglu og lögreglumaðurinn, sem þeir ræddu við, sagt þeim að ræða við tryggingarfélag sitt, en þeir hefðu báðir verið tryggðir hjá VÍS. Þeir hefðu farið í umboðsskrifstofu VÍS á Ísafirði og fengið þar eyðublað, sem þeir hefðu fyllt út, sbr. dskj. nr. 5.
Í skýrslu stefnda, Jakobs, um umferðaróhappið hjá sýslumanninum á Ísafirði 8. september 1998, greinir hann frá því að hafa verið á ferð í bifreið sinni, Í-4826, Land Rover, árgr. 1978, er hann sá bifreið Grétars koma vestur Austurveg og stöðva við gatnamót Pollgötu og Austurvegs. Bifreiðinni hafi síðan verið ekið rólega aftur af stað í veg fyrir hann. Hann hafi þá hemlað, en bifreið hans runnið til vinstri í mikilli hálku. Hann hafi farið af hemlum og reynt að beygja frá en um seinan, vinstra framhjól bifreiðar hans hafi lenti á vinstra afturhjóli bifreiðar Grétars.
Stefndi greindi frá því að hann hafi verið á 30 til 35 km/klst. er hann varð var við Grétar og eitthvað verið búinn að draga úr hraða, er bifreiðarnar lentu saman. Við áreksturinn hafi ekki komið mikið högg á bifreið hans en bifreið Grétars hefði kastast til hægri. Mikil hálka hefði verið þegar þetta gerðist.
Í skýrslu stefnanda hjá sýslumanninum á Ísafirði hinn 30. ágúst 1998, sem áður var vísað til, greinir stefnandi frá heilsufari sínu eftir umferðaróhappið, læknisskoðunum og læknismeðferð er hann gekkst undir. Þar segir:
Mætti segir að upp úr miðjum desember [1997] hafi hann farið að finna til óþæginda í hálsi, vinstri öxl og handlegg og fram í brjóstið. Hann kvaðst ekki hafa getað sofið án þess að taka svefntöflur. Hann segir að verkurinn hafi ágerst og 2. janúar sl. [1998] kveðst mætti hafa farið á Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði og hafi þá Friðný Jóhannesdóttir verið vakthafandi læknir. Hann segir að hún hafi skoðað sig og tekið af sér hjartalínurit. Mætti segir að hún hafi sagt sér að hvílast og gaf honum lyf. Mætti kveðst hafa átt pantaða ferð út til Kanaríeyja. Hann kveðst hafa spurt Friðnýju að því hvort hann ætti að hætta við en hún ráðlagi honum að fara út.
Mætti kveðst hafa farið út 7. janúar. Hann segir að þar hafi verkurinn ágerst og þann 9. janúar varð hann að kalla á hjúkrunarfræðing sem þarna var. Hann segir að hún hefði gefið honum verkjalyf og sent sig til sjúkraþjálfara sem var þarna úti. Hann segir að það hafi ekki hjálpað sér. Mætti kveðst hafa verið mjög illa kvalinn úti og mjög slæmur á heimleiðinn en hann kom heim 4. febrúar.
Mætti kveðst hafa farið 6. febrúar til Helga Jónssonar, gigtarlæknis á Dómus Medika. Hann segir að Helgi hefði spurt sig strax hvort hann hefði lent í einhverju óhappi nýlega. Mætti kveðst hafa sagt honum frá því að hann hefði lent í umferðaróhappi þann 19.11. 1997. Mætti segir að Helgi hefði sent sig í allskonar rannsóknir sem ekkert hefði komið út úr þeim.
Mætti segir að Helgi hafi sent sig til Marinós P. Hafstein taugalæknis, en hann er einnig í Dómus Medika. Mætti segir að Marinó hefði fundið það út að það væri einhver truflun á neðsta hálsliðnum. Mætti segir að Marinó hafi talið að þetta væri byrjun á brjósklosi. Hann segir að hann hafi síðan farið til Ísafjarðar og gengið þar til sjúkraþjálfara og miðaðist þjálfunin við byrjun á brjósklosi.
Mættur segir að sér hafi versnað við þetta þannig að sársaukinn hafi ágerst þannig að hann var orðinn sár þjáður. Þann 5. mars var hann sendur til Reykjavíkur til að fara í segulómmyndatöku. Mættur kveðst hafa verði þá svo illa haldinn að það var ekki hægt að mynda hann. Mætti segir að hann hefði farið í heimahús. Hann segir að daginn eftir, 6. mars, hafi hann verið lagður inn á bráðadeild Landspítalans að tilstuðlan Helga Jónssonar læknis. Hann segir að þar hafi hann verið svæfður og myndaður. Mætti segir að Aron Björnsson, taugaskurðlæknir á Sjúkrahúsi Reykjavíkur, [hafi verið] fenginn til að koma og skoða myndirnar. Ekkert fannst á þessum myndum sem gæti skýrt þennan sársauka.
Mætti kveðst hafa verið á Landspítalanum í viku og var hann þá settur á sterkari verkjalyf. Síðan var hann 3 vikur á Rauðakrossheimilinu og gekk þaðan til sjúkraþjálfara. Hann segir að þetta hafi ekki haft nein áhrif.
Mætti kveðst hafa farið síðan heim til Ísafjarðar, þann 3. apríl, að höfðu samráði við Aron Björnsson lækni og gengið þar til sjúkraþjálfara á Fjórðungssjúkrahúsinu. Mætti segir að ákveðið hefði verið að breyta þjálfuninni og þjálfunin miðuð við að hann hefði lent í slysi.
Mætti segir að fljótlega hafi hann fundið fyrir bata.
Mætti kveðst hafa verið að smá lagast síðan og sé nú orðinn alveg laus við verkina.
Mætti kveðst hafa verið skipstjóri á mb Orranum og hætt þar þann 1. nóvember [1997] og ætlað að skipta um vinnu. Hann kveðst ekki hafa getað gert neitt fyrr en hann fór að vinna 20. apríl [1998] á Hlíf en hann kveðst alls ekki hafa verið orðinn góður.
Mætti kveðst bæðir vera með slysa- og ökumannstryggingu hjá VÍS. Hann kveðst hafa sett sig í samband við umboðsskrifstofu VÍS á Ísafirði út af veikindum þessum í byrjun ágúst [1998]. Hann segir að sér hafi verið bent á að gefa skýrslu hjá lögreglu.
Mætti segir að aðal læknir sinn í þessum meiðslum hafi verið Helgi og allar ákvarðanir sem teknar voru í samráði við hann.
Með matsbeiðni, dags. 6. júlí 1999, óskuðu Vátryggingafélag Íslands hf. og Haraldur Örn Ólafsson hdl. eftir mati Ragnars Jónssonar bæklunarskurðlæknis og Atla Þórs Ólasonar bæklunarskurðlæknis á afleiðingum umferðarslyssins 19. nóvember 1997, bótaþætti samkvæmt lögum nr. 50/1993. Matsgerðin er dags. 11. nóvember 2000. Undir kaflaheitinu Samantekt-Álit segir m.a.:
Að mati Ragnars Jónssonar eru einkenni Grétars ekki afleiðing umferðaróhappsins 19.11.1997.
Grétar var einkennalaus í 3-4 vikur eftir slysið og mælir það eindregið gegn því og útilokar að um sé að ræða hálstognun eða áverka á hálstaugar sem skýri einkenni Grétars. Svo langur einkennalaus tími eftir umferðaróhappið útilokar að umferðaróhappið sé orsök einkenna hans. Slíkt samrýmist ekki meingerð slíks áverka. Það er því hrein tilviljun að einkenni Grétars hefjast nokkrum vikum eftir umferðaróhappið og eru ekki nein orsaka tengsl þar á milli.
Að mati Ragnars Jónssonar er ekki þörf á nýju mati taugasjúkdómalæknis til mats á sjúkdómsgreiningu. Rannsóknir og meðferð hefur farið fram í samráði við taugasjúkdómalæknis og sérfræðings í heila- og taugaskurðlækningum og er því ekki þörf á frekari rannsóknum til að sýna fram á hugsanlegt samband við umferðaróhappið 19.11. 1997.
Langlíklegast er að um sé að ræða sjúkdóm sem er af óþekktri orsök og kallast Neuralgic amyotrophy, þ.e. einhvers konar bólgusjúkdómur í taugarótum.
Sjúkdómur þessi einkennist af miklum verkjum, sem eru um axlir, upphandlegg, framhandlegg og í brjóstkassa. Verkurinn er mjög sár, stingandi djúpur og þreytandi. Er stundum í öðrum griplim eða báðum (í 1/3 tilfella). Er algengari í hægra griplim en þeim vinstri hjá rétthentum. Verkurinn versnar ekki við hreyfingu handleggs eða höfuðs, hnerra eða hósta. Máttleysi kemur oft í kjölfar verksins.
Sjúkdómurinn er algengari hjá körlum og er algengastur á miðjum aldri.
Verkirnir eru oft það slæmir að þeir svara oft illa hefðbundnum verkjalyfjum.
Taugarit er yfirleitt eðlilegt en vöðvarit óeðlilegt í um fjórðung tilfella. Sinaviðbrögð oft upphafin eða daufari.
Gangur sjúkdómsins er yfirleitt sá að einkenni réna á nokkrum vikum. Verulegur bati verður yfirleitt innan þriggja mánaða.
Að mati Ragnars Jónssonar er því ekki um að ræða tímabundið atvinnutjón, veikindi í skilningi skaðabótalaga, miska né varanlega örorku vegna afleiðinga umferðaróhappsins 19.11. 1997.
Að mati Atla Þórs Ólasonar er ekki útilokað að einkenni Grétars séu afleiðing umferðaróhappsins 19.11. 1997. Atli telur að leita beri eftir áliti taugasjúkdómalæknis varðandi sjúkdómsgreiningu í ljósi þess að heila- og taugaskurðlæknir og gigtarlæknir telja einkenni tengjast umferðaróhappinu, en Ragnar Jónsson hafi bent á taugasjúkdóm (neuralgic amyotrophy), sjúkdóm sem í þessu máli hefur ekki verið nefndur til sögunnar, sem hugsanlega skýringu á einkennum Grétars.
Með bréfi, sem barst örorkunefnd 19. desember 2000, óskaði Vátryggingafélag Íslands hf. álits nefndarinnar samkvæmt 10. gr. laga nr. 50/1993 um stefnanda. Álitsgerðin er dagsett 25. september 2001 og segir þar undir fyrirsögninni Niðurstöður:
Tjónþoli lenti í umferðarslysi 19. nóvember 1997. Hann kenndi sér einskis meins eftir slysið en í desembermánuði fór hann að finna fyrir þreytu og verkjum, átti erfitt með svefn er líða tók að jólum. Um jól og áramót 1997 var hann kominn með slæma verki í vinstri öxl og fram í brjóst vinstra megin og leitaði því læknis. Hann fór síðan til Kanaríeyja þar sem hann dvaldist í fjórar vikur og versnað líðan hans þar. Hann var fljótlega eftir komuna til Íslands skoðaður af læknunum Helga Jónssyni og Marinó P. Hafstein, sem töldu að hann kynni að vera með ertingu á VII taugarót í hálsi. Hann var lagður inn á Landspítalann, lyflækningadeild, þar sem gerð var meðal annarra rannsókna segulómskoðun en sú rannsókn sýndi fyrst og fremst fram á slitbreytingar í neðri hluta hálshryggjar en ekki neitt brjósklos eða annað sem þrýsti á taugarætur. Var ekki talið að nein aðgerð yrði tjónþola að gagni og var hann því meðhöndlaður með sjúkraþjálfun og verkjalyfjum. Verkirnir gengu síðan hægt og rólega yfir. Tjónþoli, sem skömmu fyrir slysið hafði misst vinnuna, hóf síðan vinnu sem aðstoðarforstöðumaður á öldrunarheimili í apríl 1998. Í lögregluskýrslu sem skrifuð var 31. ágúst 1998 kemur fram að tjónþoli var þá orðinn einkennalaus og í viðtali hjá örorkunefnd kom einnig fram að tjónþoli kveðst hafa jafnað sig alveg.
Örorkunefnd telur að gangur einkenna og meðferðar sé þess eðlis að ekki sé hægt að rekja þau til umrædds umferðarslyss. Nefndarmenn telja ekki samrýmast eðli hálshnykks sem tognunaráverka, að tjónþoli skuli hafa verið einkennalaus í nokkrar vikur eftir slysið og síðan fari líðan hans hægt versnandi. Miklu líklegra er að tjónþoli hafi fengið sjúkdóm sem ýmist er nefndur „neuralgic amyotropy/brachial neuritis“. Sjúkdómur þessi er sjaldgæfur, veldur slæmum verkjum án tengsla við áverka og reyndar lömunum og oft vöðvarýrnunum. Hann greinist stundum með vöðvariti en ekki alltaf. Yfirleitt ganga verkir þeirra sjúklinga sem þennan sjúkdóm fá yfir og flestir þeirra ná sér alveg. Tjónþoli hefur náð sér alveg eins og bæði kemur fram í lögregluskýrslu 31. ágúst 1998 og við skoðun hjá örorkunefnd 4. maí 2001.
Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða örorkunefnda, að tjónþoli hafi hvorki hlotið varanlegan miska né varanlega örorku vegna afleiðinga umferðarslyssins 19. nóvember 1997.
Með bréfi til héraðsdóms, dags. 24. október 2003, fór lögmaður stefnanda þess á leit að dómkvaddir yrðu tveir hæfir og óvilhallir menn til að meta varanlegan miska og varanlega örorku stefnanda skv. skaðbótalögum nr. 50/1993 vegna umferðarslyssins 19. nóvember 1997. Þá segir í matsbeiðninni: „Þess er óskað að metið verði hver líkleg framvinda mála hjá matsbeiðanda verði á vinnumarkaði og líklegar tekjur hans, ef slysið hefði ekki borið að höndum annars vegar, og með sama hætti líklega framvindu miðað við núverandi stöðu mála að teknu tilliti til slyssins. Þess er óskað að matsmenn meti hver sé varanleg örorka matsbeiðanda og varanlegur miski.“
Á dómþingi hinn 14. nóvember 2003 voru þeir Júlíus Valsson gigtlæknir og Páll Sigurðsson prófessor dómkvaddir til að framkvæma umbeðið mat. Matsgerð þeirra er dagsett 23. júní 2004 og er niðurstaða þeirra að varanlegur miski stefnanda á grundvelli 4. gr. skaðabótalaga séu fimm stig, en varanleg örorka stefnanda á grundvelli 5. gr. skaðabótalaga tuttugu stig.
Með bréfi til héraðsdóms, dags. 1. desember 2004, fór stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., þess á leit að dómkvaddir yrðu þrír sérfróðir og óvilhallir matsmenn, tveir læknar og einn lögfræðingur, til þess að meta að hvaða marki matsþoli hafi orðið fyrir líkamstjóni sem rekja mætti til óhapps er hann varð fyrir hinn 19. nóvember 1997. Nánar tiltekið var óskað eftir mati á eftirgreindum atriðum:
A.Matsefni sem ekki voru lögð fyrir undirmatsmenn í dómkvaðningu þann 14. nóvember 2003.
1. Hlaut matsþoli tognunaráverka á hálsi (hálshnykk) í umferðarslysinu 19. nóvember 1997?
2. Hlaut matsþoli aðra áverka sem læknisfræðilega séð verða sannanlega raktir til umferðaóhappsins 19. nóvember 1997?
3. Hver er varanlegur miski matsþola í dag sem eingöngu er að rekja til umferðaróhappsins 19. nóvember 1997?
4. hver er varanleg örorka matsþola í dag sem eingöngu er að rekja til umferðaróhappsins 19. nóvember 1997?
B.Matsefni sem lögð voru fyrir undirmatsmenn í dómkvaðningu þann 14. nóvember 2003.
Á dómþingi hinn 14. janúar 2005 voru Ingvar Sveinbjörnsson lögfræðingur, Sigurður Thorlacius, heila- og taugalæknir, og Stefán Dalberg bæklunarlæknir, dómkvaddir til að framkvæma umbeðið mat. Matsgerð þeirra er dagsett 3. október 2005. Þar segir undir fyrirsögninni Samantekt:
Fyrir slysið 19.11.1997 var yfirmatsþoli heilsuhraustur fyrir utan þau heilsufarslegu vandamál sem að framan greinir.
Slysdagur er sagður 19.11.1997 með þeim skýringum sem að framan greinir. Engar samtímaheimildir eru til í heilsufarsskrá um einkenni eftir tognunaráverka á háls, bak eða axlir. Í skýrslu yfirmatsþola dags. 17.11.1997 (svo) og tjóntilkynningu um slysið er ekki getið um tognunareinkenni eftir hnykk.
Sjálfur greinir yfirmatsþoli svo frá að hann hafi fengið hnykk við áreksturinn 19.11.1997 en ekki fundið til neinna einkenna eða verkja og ekki farið að finna fyrir einkennum fyrr en um miðjan desember 1997.
Í heilsufarsskrá er skráð koma til læknis 02.12.1997 og var sú heimsókn vegna blóðsykursrannsóknar. Engra verkja er getið. Í læknisheimsókn 04.12.1997 er rætt um brjóstverk og rannsóknarniðurstöður. Ekki er getið tognunareinkenna eftir slysið 19.11.1997. Í læknisvitjun 02.01.1998 er ekki getið um einkenni eftir tognunaráverka en skráð er að koman sé vegna brjóstverks. Var hvellaumur við skoðun við palp yfir og milli rifja yfir vinstra brjóst. Nótan er svohljóðandi: „Fann f. brjóstverk v. megin í thorax aðfararnótt 26.12, finnst verkur hjaðna ef nær að losa vind, tók svefnpillu og lagaðist. Aftur um kl. 17, var þá að keyra. Verkur nánast staðbundinn, lýsir þó verk utanvert á v. olnboga, en getur ekki sagt að tengist hinum. Ekki móður. Fékk álíka verk f 15b árum“.
Í heimsókn 05.01.1998 er líðan sögð betri. Í heilsufarsskrá er síðan ekkert bókað um stoðkerfisvandamál og hálshnykk fyrr en með læknabréfi Helga Jónssonar frá 18.03.2003.
Í sjúkradagpeningavottorði Friðnýjar Jóhannesdóttur dags. 06.03.1998 [er] ekki getið um hálshnykk og heiti sjúkdóms skráð syndrome C7 sin. Yfirmatsþoli er sagður óvinnufær með öllu. Lýst er verk frá herðablaði sem nái niður í vinstri olnboga. Ekkert sást við skoðun en það var sársauki við hreyfingar á vinstri öxl og hálsi.
Í áverkavottorði Friðnýjar Jóhannesdóttur frá 28.09.1998 er getið um hálshnykk frá 16.11.1997 og áverkar skráðir hálshnykkur og syndrome C7 sin. Þess er getið að einkenni yfirmatsþola hafi komið 02.01.1998 og að það verði að telja þau afleiðingu af slysi 16.11.1997. Fyrir þennan tíma hafi hann ekki haft einkenni frá hálsliðum og þess getið að einkenni séu nú að mestu gengin til baka.
Matsmenn telja ljóst af þessu sem nú hefur verið rakið og að framan er getið í kaflanum um slysið að það er ekki fyrr en í febrúar eða mars 1998 að farið er að tengja einkenni yfirmatsþola við bílslys í nóvember 1997.
Niðurstaða undirmatsmanna er að yfirmatsþoli hafi hlotið hálshnykk en ljóst er við skoðun í dag að hann ber engin merki um afleiðingar hálstognunar. Einkennum við læknisskoðun 17.03.2005 er lýst hér að framan.
Við læknisskoðun Ragnars Jónssonar og Atla Þórs Ólasonar dags. 19.11.1999 er ekki getið neinna einkenna frá hálsi og höfði en lýst er verk út í herðasvæði vinstra megin og í öxlina og efst í brjóstkassa vinstra megin en ekki upphandlegg auk verks utanvert í vinstri vísifingri.
Við læknisskoðun lækna örorkunefndar, Magnúsar Páls Albertssonar og Ísaks G. Hallgrímssonar dags. 04.05.2001 er lýst ónotum eða þreytu milli herðablaðanna. Hreyfigeta í baki, öxlum og olnboga var og eðlileg. Ekki er lýst neinum þreifieymslum.
Við læknisskoðun Júlíusar Valssonar dags. 27.04.2004 er lýst einkennum frá hálsi og herðum. Vægir verkir eru fram í brjóst og handlegg og stundum fram í fingur vinstra megin. Þreifieymslum er lýst í hálsi og aðlægum svæðum og í baki. Axlaliðir eru sagðir eðlilegir.
Með hliðsjón af ofangreindu telja matsmenn með öllu óupplýst að yfirmatsþoli hafi hlotið tognunaráverka í slysinu 19.11.1997. Nær óþekkt er að einkenni eftir tognunaráverka komi fram nokkrum vikum eftir slys og eru dæmi um það í tilvikum þegar einkenni vegna alvarlegra áverka og/eða sjúkdóma hafa í byrjun skyggt á einkenni eftir tognunaráverka. Um slíkt er ekki að ræða í þessu máli en yfirmatsþoli var heilsuhraustur fyrir slysið 19.11.1997. Einkenni um tognunaráverka koma fram strax eða á næstu tveimur dögum eftir tognunaráverka.
Einkenni yfirmatsþola voru ekki fyrr en í febrúar eða mars 1998 tengd slysinu 19.11.1997 og þau voru í upphafi í engu lík einkennum eftir tognun í hálsi. Sjúkdómur sá sem síðar var greindur af gigtlækni getur skýrt einkenni yfirmatsbeiðanda að mestu leyti eða öllu og þarf ekki að tengjast slysi.
Einkenni yfirmatsþola í dag eru ekki dæmigerð einkenni eftir tognun í hálsi. Einkenni frá vinstri öxl er unnt að skýra með tilvísun til einkenna um axlarklemmu. Einkenni þessi í öxl geta komið til eftir áverka en svo þarf þó ekki að vera og það sem þau koma til löngu eftir slysið er ekki unnt að tengja þau slysinu. Önnur einkenni er unnt að skýra sem ósértæk algeng einkenni án tengsla við slys.
Niðurstaða yfirmatsmanna er því sú að ekki er unnt að tengja núverandi einkenni við slysið 19.11.1997.
Ef meta á einkenni, sem lýst er við skoðun á matsfundi 17.03.2005, til varanlegs miska telja matsmenn að þau samsvari 5. stigum og er þá horft til miskataflna örorkunefndar.
Yfirmatsmenn hafa skoðað hvort þau einkenni sem yfirmatsþoli lýsir á matsfundi hafi skert starfsgetu hans eða með öðrum orðum hvort að um sé að ræða varanlega örorku. Yfirmatsþoli var 58 ára á slysdegi og hafði skömmu fyrir slysið verið sagt upp störfum. Er hann lét af störfum var hann skipstjóri og hafði um langan tíma verið á sjó, fyrst sem háseti og síðan sem stýrimaður og/eða skipstjóri. Ljóst er af því sem framkom í viðtali við yfirmatsþola að meintar afleiðingar slyssins hafa ekki haft áhrif á starfsgetu í núverandi starfi og telja matsmenn engar líkur að svo verði það sem eftir lifir starfsævi. Af bréfi Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Öldunnar frá 20.08.2001 má ráða að möguleikar á sambærilegu starfi á sjó fyrir yfirmatsþola voru afar litla í heimabyggð. Í ljósi aldurs yfirmatsþola telja matsmenn hæpið að yfirmatsþoli hefði leitað eftir plássi utan Vestfjarða. Hvað sem möguleikum á sambærilegu starfi líður telja matsmenn núverandi einkenni eða einkenni eins og þeim er lýst á fyrri stigum allt frá árinu 1999 ekki þess eðlis að þau eigi að hafa mælanleg áhrif á starfsgetu skipstjórnarmanna um borð í íslenskum fiskiskipum. Álit sitt í þessum efnum byggja matsmenn á því að hér er um að ræða væg einkenni. Vinnuálag skipstjórnarmanna í fiskiskipum er ekki slíkt að útilokað er að þessi einkenni hafi áhrif á starfsgetu. Störf skipsstjórnarmanna eru og ekki þess eðlis að þessi einkenni eigi að hafa merkjanleg áhrif á vinnugetu þótt þau geti vissulega haft óþægindi í för með sér. Með hliðsjón af þessu telja yfirmatsmenn að ekki sé um að ræða varanlega örorku af völdum þeirra einkenna sem yfirmatsþoli hefur í dag og hann tengir slysinu 19.11.1997.
Svör við spurningum í matsbeiðni:
A.Vísað er til þess sem að framan er rakið um það að yfirmatsþoli hafi hvorki tognað í hálsi eða hlotið aðra áverka í umferðarslysi 19.11.1997 sem læknisfræðilega séð verði raktir til umferðarslyssins 19.11.1997.
B.Vísað er til þess sem rakið er hér að ofan. Matsmenn telja ekki tengsl milli umferðarslyssins 19.11.1997. Hvað varðar núverandi einkenni og líklega þróun mála hjá yfirmatsþola eftir umferðarslysið 19.11. 1997 er og vísað til þess sem að framan er rakið.
Stefnandi kveðst í fyrsta lagi byggja á almennu skaðabótareglunni en ljóst sé að virða verði hegðun stefnda, Jakobs, til sakar að hafa ekið aftan á bifreið stefnanda. Í öðru lagi er byggt á 90. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, en Jakob sé skráður eigandi ökutækisins sem olli tjóninu, sbr. 88. gr. sömu laga. Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., vátryggði ökutækið og beri því að höfða málið á hendur félaginu in solidum með stefnda, Jakobi, sbr. 97. gr. umferðarlaga.
Vísað er til þess að í málinu sé deilt um orsakasamband. Byggt er á því að slaka megi á sönnun um orsakasamband þegar bótaskylda er sönnuð, að minnsta kosti ef sök er sönnuð eins og í þessu máli. Þannig beri að tryggja að sá sem fyrir tjóni verður fái fullar bætur. Sönnunarvandi eigi ekki að veita þeim sem ábyrgð ber á líkamstjóni einskonar réttarstöðu sakbornings. Stjórnarskráin (72. gr.) geri ráð fyrir að mönnum séu tryggðar fullar bætur. Ekki sé heimilt að láta þann sem ábyrgð ber njóta vafans um orsakasamband með þeim hætti að sá sem fyrir tjóni verður geti lent í að fá tjónið ekki að fullu bætt.
Tölulega gerir stefnandi grein fyrir kröfu sinni með eftirfarandi hætti miðað við 24. júní 2004:
|
Þjáningabætur |
239.730 kr. |
|
Varanlegur miski 5% |
281.425 kr. |
|
Varanleg örorka 20% |
14.244.187 kr. |
|
Lækkun bóta vegna aldurs- |
7.406.977 kr. |
|
Samtals, stefnufjárhæðin |
7.358.365 kr. |
Stefndu byggja á því að orsakatengsl skorti milli umferðarslyssins og tjóns, sem krafist er bóta fyrir. Ekki sé unnt að gera stefndu ábyrga fyrir tjóni sem þeir hafa ekki valdið. Stefnanda beri að sanna að orsakatengsl séu milli líkamseinkenna sem hrjá hann og slyssins, en það hafi hann ekki gert.
Varðandi varakröfu um lækkun á dómkröfum stefnanda vísa stefndu til þess að matsgerðin, sem lögð er til grundvallar kröfum stefnanda, feli ekki í sér mat á tímabili þjáningabóta. Hafna verði því kröfu um þjáningabætur. Stefndu geri ekki tölulegar athugsemdir við kröfu stefnanda um miskabætur.
Stefndu mótmæla vaxtakröfum stefnanda. Þá er upphafstíma dráttarvaxtakröfu mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.
Stefnandi gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að hann hefði verið í algjörum órétti er umræddur árekstur varð. Hann kvaðst hafa verið hálfvankaður eftir áreksturinn, höggið hefði verið mikið. Hann hefði þó ekki verið brotinn og því haldið að hann hefði sloppið. Hann hefði ekki lent í árekstri fyrr og ekki haldið að hann hefði slasast þannig að hann þyrfti að fara upp á sjúkrahús „eða neitt svoleiðis“.
Stefnandi kvaðst hafa verið með áverka eftir áreksturinn á vinstri öxlinni. Hann hefði lent út í hliðina á bifreiðinni þegar höggið kom, en ekið hefði verið aftanvert á bifreið hans vinstra megin og bifreiðin snúist 180 gráður.
Stefnandi kvaðst hafa leitað til læknis 2. desember 1997 vegna þess að hann hafi haldið að verkur, sem hann var með, væri hjartaverkur. Hann hafi fengið verk fyrir brjóstið, er leiddi út í vinstri höndina, og ekki áttað sig á þessu. Hann hefði þá ekki tengt verkinn við umræddan árekstur.
Stefnandi kvaðst enn vera með verki í vinstri öxl og fyrir brjósti vinstra megin þegar á reynir og hann þreytist. Hann geti ekki enn legið á vinstri öxl.
Stefnandi kvaðst ekki hafa reynt að fá vinnu á sjónum eftir slysið. Hann hefði fengið létta vinnu í landi. Meðan hann var veikur hefði annar skipstjóri verðið ráðinn á skipið [Orra ÍS-20 hjá Básafelli sem hann áður stjórnaði]. Ekki væri auðvelt að fá slíka stöðu.
Vísað var til dskj. nr. 9, sem er læknisvottorð varðandi stefnanda, útgefið 13. október 1998 af Helga Jónssyni sérfræðingi í gigtsjúkdómum. Spurt var hvers vegna hann hefði leitað til gigtlæknis á þessum tíma, þ.e. í febrúar 1998. Stefnandi sagði að þegar hann var á Kanaríeyjum í janúar 1998 hafi verkir í brjóstinu og bakinu orðið óþægilegir. Hann hafi verið illa haldinn af þeim þær fjórar vikur sem hann var þar. Hann hafi hringt í mág sinn, Einar Stefánsson augnlækni, og beðið hann að útvega sér góðan lækni til að fara til strax og hann kæmi heim frá Kanaríeyjum.
Stefnandi sagði að verkurinn, sem hann hafði, hefði legði djúpt þegar verst lét. Hann hafi átt erfitt með að staðsetja hvar hann var. Hann hafi ekki átt erfitt með að klæðast, verkurinn hefði ekki legið utarlega heldur djúpt inni. Verkurinn hefði komið út í vísifingri vinstri handar. Hann kvaðst ekki hafa fengið verki í hnakkann, ekki verið stífur um hnakkann, ekki heldur fljótlega eftir slysið. Hann sagði að verkurinn hefði náð hámarki tveimur mánuðum eftir slysið, eða í febrúar 1998. Hann kvaðst ekki hafa sama gripkraft í vinstri hendinni og hann hafði áður.
Stefnandi kvaðst hafa farið til sjúkraþjálfara, þegar hann var á Kanaríeyjum, án þess að það hafi hjálpað honum. Hann hafi fengið sprautur við verknum, þegar hann var síðar á Landspítalanum, en ekki skánað við það.
Vísað var til þess að af gögnum málsins, dskj. nr. 13, verði ráðið að fyrst 4. desember 1997 hafi hann í viðtali við lækni kvartað um brjóstverk. Aðspurður kvaðst stefnandi ekki muna hvenær hann fann fyrst fyrir brjóstverk eftir slysið. Hann kvaðst hafa legið þjáður heima í desember 1997 [ frá 4. sama mánaðar] án þess að fara til læknis. Frá 4. til 26. desember hefði líðan hans versnað. Hann kvaðst ekki muna að hafa á þessum tíma neytt lyfja til að slá á verkinn. Þegar hann var beðinn um að sigla Orra Ís-20 til Spánar, í desember 1997, hafi hann ekki treyst sér til þess vegna heilsuleysis.
Vísað var til dskj. 18, sem er greinargerð Elísar Ólafssonar læknis, dags. 11. júlí 2001. Bent var á að þar er greint frá því að stefnandi hafi tjáð lækninum að hann hafi rúmri viku eftir slysið farið að finna fyrir óþægindum í vinstri öxl og í brjósti, verkurinn hafi versnað jafnt og þétt og um jólaleytið 1997 hafi hann ekki getað sofið vegna verkja. Stefnandi sagði að sennilega hafi hann í lok nóvember 1997 byrjað að finna fyrir þessu.
Stefnandi sagði að ekkert hefði verið um að vera hjá honum um mánaðamótin nóvember/desember 1997. Hann hafi ekki haft fjárhagslegar áhyggjur, ætlað að slappa af fram í febrúar og ekki ætlað að taka ákvarðanir um framhaldið fyrr en eftir þann tíma.
Páll Sigurðsson prófessor, dómkvaddur matsmaður svo sem áður var getið, kom fyrir rétt og staðfesti að hafa, ásamt Júlíusi Valssyni lækni, unnið matsgerðina, sem liggur fyrir í málinu og dagsett er 23. júní 2004.
Júlíus Valsson læknir, dómkvaddur matsmaður, kom fyrir rétt og staðfesti að hafa, ásamt Páli Sigurðssyni prófessor, unnið matsgerðina, sem liggur fyrir í málinu og dagsett er 23. júní 2004. Hann sagði m.a. að þeir hefðu skoðað málið gaumgæfilega, málið væri óvenjulegt. Fyrir hefði legið álit þriggja valinkunnra sérfræðinga, sem allir hefði verið sammála um að þetta tengdist slysinu. Hann og Páll hefðu verið sammála þeim. Þó að sjúkdómsgangurinn hafi ef til vill ekki verið dæmigerður þá hafi ekkert annað komið til greina. Ragnar Jónsson læknir hafi nefnt meinið Neuralgic amyotrophy. Með ólíkindum væri þó að svo sjaldgæfur sjúkdómur kæmi upp á sama tíma eða fljótlega eftir slysið, einnig væri margt sem passaði ekki við það, t.d. hefði sjúkdómurinn skyndilega lagst með þunga á stefnanda, sem væri ekki dæmigert fyrir Neuralgic amyotrophy. Það skipti raunar ekki máli, slysið hefði valdið meini stefnanda hvort sem var. Um hálstognun gæti verið að ræða, sem lagst hefði á stefnanda með svo óvenjulegum hætti.
Vísað var til þess að í matsgerðinni væri lagt til grundvallar að stefnandi hafi hlotið slæman hálshnykk við slysið og spurt var á hverju það væri byggt. Júlíus sagði að áreksturinn hefði verið harður, miklar skemmdir á bifreiðum, auk þess hafi einkenni á stefnandi verið mikil þegar þau komu fram. Þá komi fram í greinargerðum manna, sem sáu stefnanda miklu fyrr en matsmenn, að um mjög slæman hnykk hafi verið að ræða.
Spurt var hvort hugsanlegt væri að stefnandi hefði getað haft þau einkenni, sem lýst er í matsgerð, án þess að hafa lent í slysi eða öðru hnjaski. Júlíus sagði að svo gæti verið. Mein, sem hér um ræðir, gæti hafa myndast án áverka, en það væri ólíklegt. Matsmönnum hafi þótt yfirgnæfandi líkur á því að slysið hefði valdið meini stefnanda.
Júlíus kvaðst ekki hafa skýringu á því hvers vegna einkenni um tognun hefðu ekki fyrr komið fram en raun var á. Í rauninni hefði það verið hið óvenjulega í málinu.
Spurt var hvort tognun á öxl hefði komið til álita. Júlíus sagið að svo hefði ekki verið. Stefnandi hefði ekki „haft sögu um högg á öxlina“ og hann hefði ekki haldið fast um stýrið við áreksturinn. Hann hefði heldur ekki kvartað yfir verk í öxlinni strax á eftir.
Stefán Dalberg læknir, dómkvaddur yfirmatsmaður, kom fyrir rétt og staðfesti að hafa, ásamt Sigurði Thorlacius lækni og Ingvari Sveinbjörnssyni hæstaréttarlögmanni, unnið yfirmatsgerðina sem liggur fyrir í málinu og dagsett er 3. október 2005. Hann sagði m.a. að ekkert hefði komið fram við skoðun yfirmatsmanna á matsþola sem benti til þess að hann hefði tognað á hálsi. Einkenni um axlarklemmu hafi komið fram. Stefnandi hefði þá farið í segulómun sem staðfest hefði axlarklemmu hjá honum.
Stefán sagði að stefnandi hafi tjáð yfirmatsmönnum að hann hefði um miðjan desember 1997 fundið fyrir verkjum [sem raktir voru til umferðarslyssins 19. nóvember 1997], þ.e. að liðnar hafi verið þrjár til fjórar vikur frá slysinu. Hann sagði að við skoðun matsmanna hafi ekki komið fram að stefnandi hefði verk í hnakka, hann hefði haft eðlilegar hreyfingar í hálsi og engin eymsli, hvorki þreifieymsli í vöðvum né hálshryggjartindum.
Sigurður Thorlacius læknir, dómkvaddur yfirmatsmaður, kom fyrir rétt og staðfesti að hafa, ásamt Stefáni Dalberg lækni og Ingvari Sveinbjörnssyni hæstaréttarlögmanni, unnið umrædda yfirmatsgerð. Hann sagði m.a. að af öllum frumgögnum í málinu og lýsingum yfirmatsþola yrði ráðið að hann hefði ekki haft nein einkenni fyrr en talsverðum tíma eftir slysið. Óhugsandi hefði því verið að rekja mein hans til slyssins.
Vísað var til þess er segir í yfirmatsgerðinni á bls. 16: Sjúkdómur sá sem síðar var greindur af gigtlækni getur skýrt einkenni yfirmatsbeiðanda að mestu leyti eða öllu og þarf ekki að tengjast slysi. Spurt var hvaða sjúkdóm yfirmatsmenn hefðu þar verið vitna til. Sigurður kvaðst ekki muna þessa stundina nákvæmlega hvað átt var við, en fyrir liggi að um slitbreytingar í hálshryggnum var að ræða.
Vísað var til þess að yfirmatsþoli hefði fengið taugaverk niður í vísifingur vinstri handar og spurt var, hver hefði verið ástæðan að áliti yfirmatsmanna. Sigurður sagði að það gæti hafa verið umræddar slitbreytingar í hálshryggnum, en yfirmatsþoli hefði ekki fengið verkinn fyrr en u.þ.b. mánuði eftir slysið.
Elías Ólafsson læknir gaf skýrslu fyrir rétti. Lagt var fyrir hann dskj. nr. 18, sem áður var vikið að. Hann staðfesti að skjalið kæmi frá honum. Hann sagði m.a. að langlíklegast væri að umræddur verkur, sem þjáði stefnanda, tengdist umferðarslysinu 19. nóvember 1997.
Magnús Páll Albertsson læknir gaf skýrslu fyrir rétti. Hann staðfesti að hafa, ásamt Ísak G. Hallgrímssyni lækni og Ragnari H. Hall hæstaréttarlögmanni, unnið álitsgerð örorkunefndar um stefnanda, sem dagsett er 25. september 2001, og fram kemur á dskj. nr. 20. Hann sagði m.a. að stefnandi hafi tjáð þeim á matsfundi að hann hefði náð sér að öllu leyti.
Ályktunarorð: Stefnandi byggir á því að hann hafi þjáðst tímabundið, hlotið varanleg líkamsspjöll og skerðingu á getu til að afla vinnutekna vegna líkamsáverka, sem hann hafi fengið í umferðarslysi 19. nóvember 1997. Upplýst er að hann átti sjálfur sök á slysinu með ógætilegum akstri, en bifreið hans var tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu ökutækja.
Á stefnanda hvílir að sanna að hann hafi orðið fyrir tjóni og hvert tjón hans er. Þá ber stefnanda að sanna að mein hans verði rakið til umferðarslyssins. Einnig er til þess að líta að orsakatengsl milli tjóns og þeirrar háttsemi, sem bótaábyrgð styðst við, er óhjákvæmilegt skilyrði fyrir skaðabótarétti.
Rakið hefur verið í lýsingu málavaxta að stefnandi kenndi sér einskis meins fyrst eftir áreksturinn og haft er eftir honum í skýrslutöku um slysið hjá sýslumanninum á Ísafirði hinn 30. ágúst 1998, að upp úr miðjum desember 1997 hafi hann fundið til óþæginda í hálsi, vinstri öxl og vinstri handlegg og fram í brjóstið. Greinir hann frá því að honum hafi versnað og hann orðið sárþjáður. Hann hafi verið lagður inn á bráðadeild Landspítalans hinn 6. mars 1998 og verið þar í viku á sterkum verkjalyfjum. Hann hafi farið heim til Ísafjarðar hinn 3. apríl 1998, verið í sjúkraþjálfun og fljótlega skánað eftir að þjálfunin var miðuð við að hann hefði lent í slysi. Hann hafi smám saman lagast og væri nú alveg laus við verkina.
Af gögnum málsins, og jafnframt í ljósi misvísandi tímamörkunar stefnanda á upphafi þjáninga sinna, verður ekki ótvírætt álitið að bifreiðaáreksturinn 19. nóvember 1997 hafi valdið meini stefnanda. Aflað hefur verið matsgerða eins og rakið hefur verið í lýsingu málavaxta. Krafa stefnanda er í aðalatriðum reist á mati dómkvaddra matsmanna frá 23. júní 2004. Yfirmatsmenn telja hins vegar í matsgerð sinni frá 3. október 2005 að veikindi stefnanda verði ekki rakin til árekstursins hinn 19. nóvember 1997. Hefur sú niðurstaða stuðning af áliti örorkunefndar frá 25. september 2001 og áliti Ragnars Jónssonar læknis, er fram kemur í matsgerð hans og Atla Þórs Ólasona læknis hinn 11. nóvember 2000.
Yfirmatsgerðin er ítarleg og hefur stefnandi ekki sýnt fram á galla á henni. Að öllu jöfnu hlýtur sönnunargildi yfirmatsgerðar þriggja matsmanna, sem ekki hefur verið hnekkt, að vega þyngra við mat á sönnun en undirmatsgerð tveggja matsmanna. Verður yfirmatsgerðin því lögð til grundvallar dómi í máli þessu.
Samkvæmt framansögðu verða stefndu sýknuð af kröfum stefnanda.
Stefnanda verður gert að greiða stefndu málskostnað sem ákveðst eins og í dómsorði greinir.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari, Guðrún Rósa Sigurðardóttir, heila- og taugasjúkdómalæknir, og Örnólfur Valdimarsson bæklunarskurðlæknir kveða upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndu, Jakob Jónsson og Vátryggingafélag Íslands hf., eru sýkn af kröfum stefnanda, Grétars Þórðarsonar.
Stefnandi greiði stefndu sameiginlega 200.000 krónur í málskostnað.