Hæstiréttur íslands

Mál nr. 327/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómari
  • Vanhæfi


Fimmtudaginn 26

 

 

Fimmtudaginn 26. júní 2008.

Nr. 327/2008.

Benedikt Steingrímsson

(Ingvar Sveinbjörnsson hrl.)

gegn

Húsfélaginu Hringbraut 2c

Grétari Guðnasyni

Jóhönnu M. Sveinsdóttur

Ingigerði Karlsdóttur

Njáli Haraldssyni

Þorsteini Hálfdánarsyni og

Ástu Sigurðardóttur

(enginn)

Kærumál. Dómarar. Vanhæfi.

B kærði úrskurð héraðsdóms þar sem héraðsdómari vék sæti í máli B gegn varnaraðilum. Varnaraðilar höfðuðu mál 12. apríl 2005 á hendur meðal annars B vegna nánar tiltekinna annmarka sem þau töldu hafa komið fram á fjöleignarhúsi að Hringbraut 2c í Hafnarfirði. B var byggingarstjóri við verkið. Með dómi héraðsdóms, sem kveðinn var upp af meðal annars héraðsdómara var B sýknaður af kröfum varnaraðila með þeim rökum einum að ekki yrði talið að aðfinnslur við byggingu hússins, sem gerðar voru í matsgerð dómkvaddra manna, væru þess eðlis að þær féllu undir sakarábyrgð hans. Með dómi Hæstaréttar 13. mars 2008 var héraðsdómur ómerktur um kröfur varnaraðila á hendur B og málinu vísað að því leyti heim í hérað á ný. Að gengnum dómi Hæstaréttar var sama héraðsdómara og fyrr úthlutað málinu. Í dómi Hæstaréttar sagði að þegar metið væri hvort dómendur, sem leystu úr málinu með héraðsdóminum 28. mars 2007, hefðu þar tekið slíka afstöðu til sakarefnisins að vanhæfi þeirra varðaði yrði að líta til þess að þar var hvorki fjallað sjálfstætt um ábyrgð B á hverjum lið í dómkröfum varnaraðila né tekið svo að séð yrði nægilegt mið af þeim almenna grundvelli fyrir ábyrgð B, sem fjallað var um í dómi Hæstaréttar. Að því virtu gátu forsendur fyrir sýknu B í þessum héraðsdómi ekki verið fallnar til þess að draga mætti með réttu í efa hæfi dómendanna til að fara með málið á nýjan leik, sbr. g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. júní 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. maí 2008, sem sóknaraðili kveðst hafa fengið vitneskju um 3. júní sama ár, en með úrskurðinum vék Gunnar Aðalsteinssson héraðsdómari sæti í máli varnaraðila á hendur sóknaraðila. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og sér dæmdur kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Varnaraðilar höfðuðu mál þetta með stefnu 12. apríl 2005 á hendur sóknaraðila, Fjarðarmótum ehf. og Hafnarfjarðarbæ til heimtu skaðabóta, sem endanlega urðu að fjárhæð samtals 8.033.000 krónur, vegna nánar tiltekinna annmarka, sem þau töldu hafa komið fram á fjöleignarhúsi að Hringbraut 2c í Hafnarfirði. Hús þetta var smíðað af Fjarðarmótum ehf. og var sóknaraðili byggingarstjóri við það verk. Varnaraðilar, að Húsfélaginu Hringbraut 2c frátöldu, höfðu keypt fjórar íbúðir í húsinu af Fjarðarmótum ehf. með tilheyrandi hlutdeild í sameign og töldu að rekja mætti þessa annmarka ýmist til þess að vikið hafi verið frá samþykktum uppdráttum af húsinu, vanrækt hafi verið að fylgja lögum eða reglugerðum um frágang húsbygginga eða iðnmeistarar við framkvæmdina eða starfsmenn þeirra hafi ekki lokið henni svo að fullnægjandi væri tæknilega og faglega. Varnaraðilar báru fyrir sig að fyrrnefnt félag bæri ábyrgð á þessu sem seljandi íbúða og hlutdeildar í sameign hússins, Hafnarfjarðarbær vegna ófullnægjandi eftirlits byggingarfulltrúa með smíð hússins og vanrækslu hans um að láta úttekt á því fara réttilega fram og sóknaraðili sökum starfa hans sem byggingarstjóra, en með honum stefndu varnaraðilar Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til réttargæslu vegna ábyrgðartryggingar, sem hann hafði tekið í tengslum við þessi störf. Dómur var kveðinn upp í málinu 28. mars 2007 í Héraðsdómi Reykjaness af Gunnari Aðalsteinssyni héraðsdómara og tveimur sérfróðum meðdómsmönnum. Þar voru sóknaraðili og Hafnarfjarðarbær sýknaðir af kröfum varnaraðila, en Fjarðarmótum ehf. gert að greiða varnaraðilanum Húsfélaginu Hringbraut 2c 414.000 krónur með nánar tilteknum dráttarvöxtum. Fjarðarmót ehf. undi þeim dómi og greiddi varnaraðilanum í samræmi við hann 21. ágúst 2007. Varnaraðilar undu jafnframt héraðsdómi að því er aðra varðaði en sóknaraðila, en þau áfrýjuðu dóminum gagnvart honum með kröfum um greiðslu sömu fjárhæða og þau gerðu í héraði að frádreginni greiðslu frá Fjarðarmótum ehf. Með dómi Hæstaréttar 13. mars 2008 í máli nr. 318/2007 var héraðsdómur ómerktur um kröfur varnaraðila á hendur sóknaraðila og málinu vísað að því leyti heim í hérað til málflutnings og dómsálagningar á ný. Að gengnum dómi Hæstaréttar var sama héraðsdómara og fyrr úthlutað málinu. Hann vék sæti í því með hinum kærða úrskurði á þeirri forsendu að hann hafi með sýknu sóknaraðila í fyrri dómi í málinu tekið afstöðu til sakarefnisins á þann hátt að hann væri vanhæfur til að fara áfram með það.

Í áðurnefndum dómi Hæstaréttar var meðal annars vísað til þess að kröfur varnaraðila hafi í samtals fimmtán liðum snúið að annmörkum, sem þau teldu vera á fjöleignarhúsinu að Hringbraut 2c og að rekja mætti til margvíslegra mismunandi ástæðna. Héraðsdómur hafi á hinn bóginn leyst úr þessum kröfum að því er varðaði sóknaraðila með þeim rökum einum að ekki yrði talið að aðfinnslur við byggingu hússins, sem gerðar hafi verið í matsgerðum dómkvaddra manna, væru þess eðlis að þær féllu undir sakarábyrgð hans. Sú röksemdafærsla fyrir niðurstöðu þótti ótæk, enda hefði þurft að taka hvern einstakan matslið til sjálfstæðrar skoðunar með tilliti til ábyrgðar sóknaraðila sem byggingarstjóra á þeim grundvelli, sem nánari grein var gerð fyrir í dómi Hæstaréttar. Þegar metið er hvort dómendur, sem leystu úr málinu með héraðsdóminum 28. mars 2007, hafi tekið þar slíka afstöðu til sakarefnisins að vanhæfi þeirra varði til að fara með það á nýjan leik, verður að líta til þess að þar var hvorki fjallað sjálfstætt um ábyrgð sóknaraðila á hverjum lið í dómkröfum varnaraðila né tekið svo að séð verði nægilegt mið af þeim almenna grundvelli fyrir ábyrgð byggingarstjóra, sem fjallað var um í dómi Hæstaréttar. Að því virtu geta forsendur fyrir sýknu sóknaraðila í þessum héraðsdómi ekki verið fallnar til þess að draga megi með réttu í efa hæfi dómendanna til að fara með málið á nýjan leik, sbr. g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt því verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.

Ekki eru efni til að dæma varnaraðila til greiðslu kærumálskostnaðar, enda verður ekki séð af gögnum málsins að þau hafi gert athugasemdir við hæfi héraðsdómarans fyrir sitt leyti.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. maí 2008.

Mál þetta var höfðað með stefnu sem þingfest var 27. apríl 2005 og með framhaldsstefnu sem þingfest var 28. júní 2006. Málin voru sameinuð 1. nóvember 2006 í eitt mál og það dómtekið 1. mars 2007.

 Stefnendur eru Húsfélagið Hringbraut 2c, Hafnarfirði, Grétar Guðnason, Jóhanna M. Sveinsdóttir, Ingigerður Karlsdóttir, Njáll Haraldsson,  Þorsteinn Hálfdánarson og Ásta Sigurðardóttir en stefndu eru Fjarðarmót ehf., Benedikt Steingrímsson bygginga­stjóri og Hafnarfjarðarbær. Sjóvá-Almennum tryggingum hf. er stefnt til réttargæslu.

                Málið var dæmt í héraði 28. mars 2007. Stefnendur undu dómi hvað stefndu Fjarðarmót ehf. og Hafnarfjarðarbæ varðar en áfrýjuðu málinu varðandi þátt stefnda Benedikts Steingrímssonar. Hæstiréttur ómerkti héraðsdóm að því er varðar úrlausn um kröfu stefnenda á hendur stefnda Benedikt og var málinu að því leyti vísað heim í hérað til málflutnings og dómsálagningar að nýju.

                Undirritaður dómari, sem var dómsformaður í málinu og hefur fengið málinu úthlutað á ný, telur að með því að sýkna stefnda Benedikt af skaðabótakröfu stefnenda hafi dómarinn  tekið afstöðu til sakarefnisins með þeim hætti að hann sé vanhæfur til að fara áfram með málið og víkur því sæti í því ex officio.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð

                Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari víkur sæti í málinu ex officio.