Hæstiréttur íslands
Mál nr. 130/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Börn
- Umgengni
- Aðför
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. febrúar 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 31. janúar 2017 þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að fá son sinn og sóknaraðila, C, tekinn úr umráðum sóknaraðila og afhentan sér með beinni aðfarargerð þannig að umgengni geti farið fram samkvæmt úrskurði sýslumannsins á Norðurlandi eystra 21. desember 2015. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að kröfu varnaraðila verði hafnað. Að því frágengnu krefst hún þess að ,,aðfararheimild varnaraðila muni aðeins eiga við í eitt skipti“ en að öðrum kosti að ,,aðfararheimildinni verði markaður styttri tími.“ Þá krefst sóknaraðili aðallega málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar, til vara að málskostnaður falli niður og að því frágengnu að málskostnaður í héraði verði lækkaður.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Meðal gagna málsins er matsgerð D sálfræðings 25. janúar 2017, sem lögð hefur verið fram í forsjármáli varnaraðila á hendur sóknaraðila. Í henni kemur meðal annars fram að varnaraðili sé vel hæfur til þess að fara með umönnun og umsjá barnsins og að mikilvægt sé að það njóti ríkulegrar umgengni við báða foreldra sína. Að þessu virtu, og þar sem sóknaraðili hefur ekki uppfyllt þá skyldu sína að koma á umgengni barnsins við varnaraðila í samræmi við úrskurð sýslumanns, verður fallist á það með héraðsdómi að skilyrði séu fyrir hendi til þess að umgengni varnaraðila við barnið verði komið á með aðför eftir 50. gr. barnalaga nr. 76/2003, enda verður ekki séð að regluleg umgengni verði tryggð með öðru og vægara móti. Af þeirri niðurstöðu leiðir enn fremur að hafna ber þeirri kröfu sóknaraðila að málinu verði vísað frá dómi á þeim forsendum að samkomulag hafi náðst með aðilum, enda ekkert fram komið um að slíkar sættir hafi náðst. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, A, greiði varnaraðila, B, 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 31. janúar 2017.
Mál þetta, sem barst dómnum 7. desember sl., var tekið til úrskurðar að lokinni gagnaöflunar og málflutningi 6. janúar sl.
Gerðarbeiðandi er B, kt. [...], [...], [...] Reykjavík.
Gerðarþoli er A, kt. [...], [...], [...] Akureyri.
Endanlegar kröfur gerðarbeiðanda eru að sonur aðila, C, kt. [...], verði með beinni aðfarargerð tekinn úr umráðum gerðarþola og afhentur honum, þannig að umgengni geti farið fram samkvæmt úrskurði sýslumannsins í Reykjavík, dagsettum 21. desember 2015, næstu sex mánuði eftir uppkvaðningu úrskurðar, í fyrsta sinn næsta föstudag á eftir uppkvaðningu úrskurðar, eða eftir atvikum í samræmi við aðra umgengni samkvæmt úrskurðinum. Þá krefst gerðarbeiðandi málskostnaðar.
Gerðarþoli krefst þess að kröfu gerðarbeiðanda um aðför verði hafnað. Þá krefst hún málskostnaðar.
I.
Samkvæmt málavaxtalýsingum og framlögðum gögnum hófu málsaðilar óskráða óvígða sambúð nærri áramótunum 2010/2011. Sambúðinni lauk í september 2014, en aðilar höfðu þá eignast drenginn [...], sem fæddur er í september árið 2012. Gerðarþoli hefur farið með forsjá drengsins, en hann er jafnframt með lögheimili hjá henni.
Aðilar lýsa atvikum og samskiptum sínum eftir sambúðarslitin með nokkuð ólíkum hætti. Þó er óumdeilt að gerðarbeiðandi hafði undir lok sambúðarinnar farið í fíkniefnameðferð, í janúarmánuði 2014, og að með aðilum hefur verið ágreiningur um langa hríð um umgengni gerðarbeiðanda við drenginn [...].
Gerðarbeiðandi heldur því fram að umgengni hans við drenginn hafi verið af mjög skornum skammti vegna umgengnistálmana gerðarþola. Gerðarþoli lýsir því hins vegar svo að hún hafi haft vilja til að drengurinn hefði umgengni við gerðarbeiðanda og að slík samskipti hafi verið með þeim á liðnum árum. Hún hafi þó neyðst til að takamarka umgengnina þar sem óvíst hafi verið með allar aðstæður gerðarbeiðanda, þar á meðal vegna fíkniefnaneyslu hans og annarra atvika, sem hafi leitt til vantrausts af hennar hálfu í hans garð. Vegna þess hafi hún sett það skilyrði að gerðabeiðandi legði fram fullgild fíkniefnapróf, og að hann sýndi þannig fram á að hann neytti ekki fíkniefna.
Fyrir liggur að gerðarbeiðandi lagði þann 16. október 2014 fram beiðni hjá sýslumanninum í Hafnarfirði um umgengni við son sinn, og þá með vísan til 47. gr. barnalaga nr. 76, 2003.
Í málsskjölum, sem lögð hafa verið fyrir dóminn af hálfu gerðarbeiðanda, kemur m.a. fram að í kjölfar nefndrar beiðni um umgengni hafi aðilar margsinnis lagt fram gögn og greinargerðir hjá sýslumönnum, fyrst hjá sýslumanninum í Hafnarfirði, en síðar hjá sýslumanninum í Reykjavík, en nú Höfuðborgarsvæðinu eftir sameiningu embættanna. Einnig liggja fyrir sambærileg gögn, sem eru tilkomin vegna krafna gerðarbeiðanda um dagsektir og aðför, sem beindust gegn gerðarþola. Þá eru á meðal gagna vottorð um sáttameðferðir aðila hjá sýslumanni, sbr. ákvæði 33. gr. a laga nr. 76, 2003, en þau eru dagsett 25. febrúar 2015, 14. mars 2016 og 9. nóvember 2016.
Fyrir liggur að við meðferð fyrrgreindra embætta var málið sent, þann 27. mars 2015, til umsagnar sérfræðings í fjölskyldufræðum, sem ritaði rökstudda umsögn, en hún er dagsett 19. maí nefnt ár. Í niðurstöðukafla umsagnarinnar er það lagt til að sonur málsaðila, drengurinn [...], hefji aðlögun með umgengni hjá gerðarbeiðanda í skamman tíma, en að regluleg umgengni verði síðan viðvarandi með reglubundnum hætti. Það skilyrði er þó sett að gerðarbeiðandi skili reglulega fíkniefnaprófum. Nánar leggur sérfræðingurinn það til að umgengnin hefjist með sex vikna aðlögun drengsins og þá þannig að hann verði einu sinni í viku hjá gerðarbeiðanda í fjórar klukkustundir, sem síðan verði aukin í sjö klukkustundir. Eftir það verði drengurinn í eins og hálfs sólarhrings umgengni hjá gerðarbeiðanda aðra hverja helgi, en eftir aðrar þrjá vikur verði umgengnin aukin í tvo sólarhringa og þá einnig aðra hverja helgi. Og eftir þrjár vikur þaðan í frá verði helgarumgengni drengsins hjá gerðarbeiðanda frá föstudegi til mánudags.
Af gögnum verður ráðið að aðilum hafi verið kynnt umsögn fjölskyldusérfræðingsins, gerðarbeiðanda þann 29. júní, en gerðarþola þann 6. júlí 2015, og að þau hafi þá bæði samþykkt tilhögun umgengninnar í öllum aðalatriðum. Verður ráðið að fyrsta og annað stig tillagna sérfræðingsins um umgengnina hafi að mestu gengið eftir sumarið 2015. Þá verður ráðið af gögnum að sýslumaður hafi staðfest samkomulag aðila um umgengnina þann 10. júlí sama ár.
Samkvæmt gögnum hafði lögregla afskipti af gerðarbeiðanda haustið 2015 og virðist barnaverndarnefnd hafa verið gert viðvart um að hann hafi verið í miður góðu ástandi. Óumdeilt er að vegna þessa varð tímabundið hlé á umgengni gerðarbeiðanda við drenginn [...]. Eftir það virðist umgengnin hafa hafist á nýjan leik, en þá á ný miðað við fyrsta stig fyrrnefndrar tillögu fjölskyldusérfræðingsins, þ.e. þann 27. september, 1. október, 2. október og 5. nóvember 2015. Var um að ræða nokkurra klukkustunda umgengni drengsins í hvert sinn, en gerðarbeiðandi hafði þá sýnt fram á með vottorðum lækna að hann hefði ekki neytt fíkniefna, en þar um hafði verið gerð leit í þvagprufum hans.
Gerðarþoli lýsir atvikum nánar svo að þann 7. nóvember hafi það verið ætlan aðila að drengurinn gisti á heimili gerðarbeiðanda samkvæmt þriðja áfanga í tillagna sérfræðings, en að af því hafi ekki orðið þar sem veruleg áfengislykt hafi þá verið af gerðarbeiðanda og hann jafnframt neitað að fara á lögreglustöð til að staðreyna fullyrðingu hennar um áfengisdrykkju. Af hálfu gerðarbeiðanda er því haldið fram að þessi lýsing gerðaþola sé orðum aukin.
Fyrir liggur að gerðarbeiðandi sótti drenginn [...] í leikskóla þann 18. desember 2015, að sögn í samráði við sýslumann, en í framhaldi af því var drengurinn hjá honum í umgengni í fjóra sólarhringa. Gerðarþoli heldur því fram að þessi ráðstöfun hafi verið gerð án samráðs við hana.
Samkvæmt gögnum kvað sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu upp úrskurð, hinn 21. desember 2015, á grundvelli fyrrnefndrar beiðni gerðarbeiðanda frá 16. október 2014. Í úrskurðinum eru málsatvik rakin, en einnig er þar vísað til umsagna sérfræðinga, gagna frá lögreglu varðandi atvikið í september 2015. Þá er í úrskurðinum greint frá því að gerðarbeiðandi hafi reglulega skilað læknisvottorðum til staðfestingar á því að hann neytti ekki fíkniefna. Segir í úrskurðinum að gerðarbeiðandi hafi gengt þessu boði og að sýslumaður hafi fengið það staðfest með vottorðunum, en einnig samkvæmt viðræðum við lækni. Er til þess vísað, að skil á slíkum vottorðum geti hafa liðkað fyrir trausti gerðarþola í garð gerðabeiðanda, en að ekki væri þörf á fleiri slíkum vottorðum, enda hefði niðurstaða prófana ekki gefið tilefni til slíks. Að þessu öllu sögðu segir í úrskurðinum, að taka beri upp umgengni drengsins við gerðarbeiðanda, og þá þannig að drengurinn eigi að hafa reglulega umgengni við gerðarbeiðanda aðra hverja helgi frá föstudegi til mánudags fram til fimm ára aldurs, en að frá þeim aldri verði hún frá fimmtudegi til mánudags. Og um nánari framkvæmd segir að gerðarbeiðanda beri að sækja drenginn í skóla/leikskóla við upphaf umgengni og koma honum þangað aftur á mánudagsmorgni. Í úrskurðinum er einnig m.a. kveðið á um sumarumgengni og hátíðarumgengni. Um það síðarnefnda segir m.a. að drengurinn eigi að dvelja hjá gerðarbeiðanda annað hvert ár með nánar tilteknum hætti, þ. á m. um jólin 2016 frá 26. desember til 2. janúar 2017.
Gerðarþoli kærði úrskurð sýslumanns til Innanríkisráðuneytisins þann 12. febrúar 2016. Með úrskurði ráðuneytisins 23. júní sama ár var úrskurður sýslumanns efnislega staðfestur. Í millitíðinni hafði gerðarbeiðandi beðið sýslumann um álagningu dagsekta samkvæmt 48. gr. barnalaganna og þá með vísan til viðvarandi umgengnistálmana gerðarþola. Að lokinni málsmeðferð kvað sýslumaðurinn upp úrskurð sinn þann 25. apríl 2016. Var þar fallist á kröfu gerðarbeiðanda um að dagsektir yrðu lagðar á gerðarþola og var fjárhæðin tiltekin 6.000 krónur á dag og þá frá dagsetningu úrskurðarins, allt þar til gerðarþoli hefði látið af á umgengnistálmunum sínum.
Samkvæmt gögnum var þann 26. september 2016 tekin fyrir hjá sýslumanninum á Norðurlandi eystra fjárnámsbeiðni gerðarbeiðanda vegna dagsektagreiðslna gerðarþola. Gerðinni var lokið sem árangurslausri þann 20. október sama ár, sbr. ákvæði VIII. kafla laga nr. 90, 1989.
Með stefnu þingfestri 30. júní sl. höfðaði gerðarbeiðandi forsjármál gegn gerðarþola. Í málinu krefst gerðarbeiðandi þess aðallega að honum verði falin forsjá drengsins [...], en til vara að málsaðilar fari saman með forsjá hans. Gerðarþoli skilaði greinargerð sinni þann 1. september sl. og hafði þá m.a. uppi andstæðar kröfur. Forsjármál aðila er nú til meðferðar fyrir dómi, en samkvæmt yfirlýsingum lögmanna stendur gagnaöflun yfir og þar á meðal er beðið eftir skýrslu dómkvadds matsmanns.
Samkvæmt gögnum leitaði gerðarbeiðandi þann 24. október 2016 til sýslumannanna á Norðurlandi eystra og á Höfuðborgarsvæðinu með beiðni um sáttameðferð, sbr. ákvæði fyrrgreindrar 33 gr. a barnalaganna, í því skyni að reyna að koma skikk á umgengni drengsins [...]. Af þessu tilefni voru málsaðilar boðaðir á sáttafund hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, þann 9. nóvember 2016. Samdægurs ritaði sáttamaður sáttavottorð, en þar segir m.a. að gerðarþoli hafi lagst gegn því að afhenda drenginn í umgengni til gerðarbeiðanda nema með því skilyrði að hann sýndi fram á edrúmennsku sína með fíkniefnaprófum, og þá þannig að sýnin yrðu tekin undir eftirliti læknis. Í vottorði sáttamannsins segir að gerðarbeiðandi hafi hafnað þessari síðast greindu kröfu gerðarþola, enda væri hún tilefnislaus, en þar um hafi hann vísað til þess að ekkert stjórnvald hefði talið þörf á slíkum aðgerðum. Þar fyrir utan hefði hann lagt fram um tuttugu slík læknisvottorð á fyrri stigum málarekstursins til þess að þóknast gerðarþola.
Við þingfestingu máls þessa, þann 14. desember sl., var því lýst yfir af hálfu lögmanna að vilji væri fyrir hendi hjá aðilum að leita sátta um dagsetningu á umgengni drengsins [...] og þá varðandi jól og áramót, en einnig um nánari framkvæmdaratriði og þá með hliðsjón af áðurgreindum úrskurði sýslumanns frá 21. desember 2015. Vegna þessa og samkvæmt beiðni var málsmeðferðinni frestað til 19. sama mánaðar, en síðan til 6. janúar sl. Þrátt fyrir sáttaumleitanir dómara í þinghaldi sem þá var haldið tókst ekki endanleg sátt með aðilum.
II.
Gerðarbeiðandi vísar um atvik máls til áðurrakinna framlagðra gagna, allt frá því að aðilar slitu hinni óskráðu sambúð sinni í septembermánuði 2014. Hann byggir kröfu sína um nauðsyn aðfarargerðar á því að hann vilji með framgangi hennar tryggja lögbundinn rétt drengsins, [...], til að umgangast báða foreldra sína. Hann byggir og á því að gerðarþoli hafi með framferði sínu ítrekað beitt umgengnistálmunum, en hún hafi m.a. virt staðfestan samning aðila frá 10. júní 2015 um umgengni með aðlögum að vettugi. Hið sama hafi hún gert gagnvart ákvörðunum stjórnvalda, þ.m.t. úrskurð sýslumanns um umgengni frá 21. desember 2015, úrskurð sýslumanns um dagsektir frá 25. apríl 2016 og úrskurð Innanríkisráðuneytisins frá. 23. júní 2016.
Gerðarbeiðandi byggir á því að með lýstu framferði hafi gerðarþoli ítrekað misbeitt valdi forsjár og lögheimilisforeldris og m.a. gengið svo langt að kalla til lögreglu þegar gerðarbeiðandi hafi sótt drenginn þegar hann hafi átt að hafa umgengni við hann. Gerðarbeiðandi byggir á því að allar þessar aðgerðir gerðarþola hafi haft þau áhrif að hann hafi ekki geta byggt upp þau nánu tengsl við son sinn, líkt og hann hafi kosið, og þá allt frá því að gerðarþoli hóf tálmanirnar haustið 2014. Hann staðhæfir að samband þeirra feðga hafi verið mjög sterkt og náið á meðan að sambúð aðila varði.
Gerðarbeiðandi byggir á því að þeir feðgar eigi ekki að gjalda þess hvernig gerðarþoli hafi ákveðið að haga sér, en þar hafi ráðið óbilgirni hennar og neikvæðni í hans garð, og þá með því að veita henni færi á að takmarka umgengnina enn frekar. Að því leyti bendir hann á að sýslumaður og sérfræðingar hafi komist að þeirri niðurstöðu að umgengnin sé drengnum nauðsynleg og mikilvæg.
Gerðarbeiðandi byggir á því að það þjóni hagsmunum drengsins að umgangast báða foreldra sína, en af þeim sökum sjái hann sér ekki annað fært en að fara fram á að umgengni verði heimiluð og komið á með aðför, og þá í sex mánuði eftir uppkvaðningu úrskurðar. Um nánara tímabil umgengninnar og um framkvæmd hennar vísar gerðarbeiðandi sérstaklega til áðurnefnds úrskurðar sýslumanns frá 21. desember 2015.
Við flutning var af hálfu gerðarbeiðanda vísað til þess að þrátt fyrir að sátt hefði nýverið tekist með aðilum um umgengnina hafi tímamörk samvista þeirra feðga ekki að öllu leyti verið virt af hálfu gerðarþola og þá samkvæmt efni margnefnds úrskurðar sýslumanns. Gerðarbeiðandi staðhæfir að hann hafi í raun gengist inn á sáttina af ótta við að hann fengi að öðrum kosti alls enga umgengni við drenginn um síðastliðin jól og ármót, lík og gerst hafði ári áður. Þá sé það ætlan hans að gerðaþoli hafi gengist inn á sáttina sökum þessa forsjármáls, sem hann hafi höfðað gegn henni og þar sem dómkvaddur matsmaður hafi verið tekinn til starfa. Þannig hafi gerðarþoli einfaldlega séð sér hag í því að fallast á nokkra umgengni að undanförnu, en að hann óttist að hún muni taka upp fyrri tálmanir sínar þegar matsmaður hefur lokið starfi sínu, þrátt fyrir að framlögð læknisvottorð hafi skýrlega sýnt að fíkniefnaneysla hans sé ekki til staðar og þrátt fyrir afdráttarlausa úrskurði stjórnvalda um rétt drengsins til umgengi.
Um lagarök vísar gerðarbeiðandi til 1. mgr. 50. gr. barnalaga nr. 76, 2003. Að því leyti vísar hann og til úrskurða sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 21. desember 2015 og Innanríkisráðuneytisins frá 23. júní 2016. Að auki vísar hann til úrskurðar sýslumanns um dagsektir frá 25. apríl 2016 og loks árangurslauss fjárnáms sýslumannsins á Norðurlandi eystra frá 20. október 2016, sbr. að því leyti 2. mgr. áðurnefndrar 50. gr. barnalaga og XIII. kafla aðfararlaga nr. 90, 1949. Jafnframt vísar hann til meginreglna barnaréttar, sbr. 2. mgr. 1. gr., 45. gr. 1. og 2. mgr. 46. gr., 47. og 48. gr.
Um málskostnaðarkröfu vísar gerðarbeiðandi til 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91, 1991, svo og til laga nr. 50, 1988 um virðisaukaskatt.
Gerðarþoli byggir á því að kröfum gerðarbeiðanda beri að hafna þar sem skilyrði 50. gr. barnalaganna, nr. 76, 2003, séu ekki uppfyllt í máli þessu. Gerðarþoli vísar til þess að í frumvarpi að barnalögum segir um 50. gr. að skilyrði þess að dómari geti heimilað að umgengni verði komið á með aðfarargerð sé að umgengni sé tálmað þrátt fyrir að fyrir liggi úrskurðir um dagsektir og fjárnám. Hún byggir á því að þannig sé gert ráð fyrir að aðeins geti komið til aðfarar samkvæmt lagagreininni að aðrar og viðurhlutaminni aðgerðir hafi ekki skilað tilætluðum árangri. Svo sé ekki í þessu máli.
Gerðarþoli tekur fram að því sé ekki á móti mælt af hennar hálfu, að hún hafi staðið í vegi fyrir umgengni gerðarbeiðanda við drenginn [...] um nokkurt skeið. Hún staðhæfir að tálmanir hennar hafi þó ekki verið að ástæðulausu, enda hafi hún haft miklar áhyggjur af fíkniefnaneyslu gerðarbeiðanda. Hún hafi þannig ekki treyst sér til að afhenda drenginn í umgengni til gerðabeiðanda nema að vera viss um að hann væri örugglega ekki í neyslu.
Gerðarþoli bendir á að það sé og ein af skyldum hennar sem forsjáraðili drengsins að vernda og gæta hagsmuna hans, sbr. 28. gr. barnalaga nr. 76, 2003. Gerðarþoli heldur því fram að gerðarbeiðandi hafi notað fíkniefni áður en þau hófu samband sitt, en að auki liggi fyrir að hann hafi gert það á þriggja mánaða skeiði á meðan á sambúð þeirra stóð og þá farið í meðferð. Hún áréttar að vegna þessa hafi hún ekki treyst sér til þess að senda drenginn í umgengni til gerðarbeiðanda fyrst eftir samvistarslitin.
Gerðarþoli bendir á að við meðferð umgengnismálsins hjá sýslumanni hafi sérfræðingur komið að málum, en í framhaldi af því hafi náðst samkomulagi um umgengnina. Hún bendir á að það skilyrði hafi verð sett fyrir umgengni gerðarbeiðanda, að hann sýndi fram á edrúmennsku sína með reglulegum fíkniefnaprófum. Hún staðhæfir að eftir að samkomulagið komst á hafi umgengnin í raun og veru verið komin vel af stað, enda hafi hún þá haft traust á gerðarbeiðanda. Verulegir hnökrar hafi hins vegar komið upp haustið 2015. Þar um vísar gerðarþoli til símtals, sem henni hefði borist frá barnaverndarnefnd, en með því hefði hún haft fregnir um að gerðarbeiðandi hefði verið handtekinn fyrir heimilisofbeldi og að hann hefði verið í annarlegu ástandi. Vegna þessa hafi orðið um mánaðarhlé á umgengninni, en hún síðan hafist aftur, en þó í minna mæli en áður, enda hefði gerðarbeiðandi í eitt skiptið komið ölvaður til að sækja drenginn í umgengni. Af þessu tilefni hafi hún neitað að afhenda drenginn í umgengnina, en því til viðbótar hefði gengið á ýmsu í samskiptum aðila. Gerðarþoli vísar til þess að í raun hafi krafa hennar ávalt verið hin sama, þ.e. gerðarbeiðandi sýndi fram á edrúmennsku sína áður en hann fengi drenginn í umgengni.
Gerðarþoli byggir á því að nú séu aðstæður breyttar þar sem höggvið hafi verið á þann hnút sem deila aðila hafi verið komin í. Hún bendir á að nýverið hafi með samkomulagi hennar og gerðarbeiðanda umgengnin komist á. Hún staðhæfir að síðustu þrjú skiptin sem drengurinn hafi farið í umgengni til gerðarbeiðanda hafi allt gengið vel og áfallalaust fyrir sig. Það sé og von hennar að umgengnin haldi áfram að ganga þannig fyrir sig, enda hafi hún ekki í hyggju að standa í vegi fyrir umgengni gerðarbeiðanda við drenginn.
Í ljósi alls framangreinds áréttar gerðarþoli að ekki séu skilyrði fyrir því að fallast á kröfur gerðarbeiðanda um aðför og þá með þeim hætti sem krafa hans hljóðar. Hún byggir og á því, að eins og málum sé nú komið séu ekki lengur forsendur fyrir því að úrskurðað verði um að drengurinn verði tekinn úr umráðum hennar og hann afhentur gerðarbeiðanda þannig að umgengnin geti farið fram.
Gerðarþoli andmælir því sérstaklega að úrskurðað verði um opna heimild til aðfarar á næstu sex mánuðum, enda sé um alltof langan tíma að ræða. Hún bendir á að úrskurður sýslumanns um dagsektir miðist eingöngu við að umgengnin verði komið á. Því séu ekki lagaskilyrði fyrir því að aðfaraheimildin taki til lengri tímabils en úrskurðurinn um dagsektirnar kvað á um. Hún bendir jafnframt á að margt geti gerst á sex mánaða tímabili. Því geti það ekki verið drengnum fyrir bestu að svo afdrifaríkt úrræði verði úrskurðað til svo langs tíma og þá þannig að gerðarbeiðandi geti fengið úrræðinu beitt án nánari athugunar á því hvers vegna afhending fari e.t.v. ekki fram.
Við flutning var það áréttað að gerðarþoli hefði ekki í hyggju að standa í vegi fyrir reglulegri umgengni drengsins við gerðarbeiðanda. Það væri og vilji hennar að umgengninni yrði framvegis háttað í samræmi við fyrirliggjandi úrskurði sýslumanns og Innanríkisráðuneytisins. Af hennar hálfu var og á það bent að áður en krafa gerðarbeiðanda í þessu máli var þingfest fyrir dómi hafi umgengnin í raun verið komin á, með fyrrgreindu samkomulagi aðila. Þannig hefði hún farið fram í lok nóvember sl., í einn sólarhring, en síðan með næturgistingum hjá gerðarbeiðanda, en að því leyti hefði verið höfð hliðsjón af efni áðurnefndra úrskurða yfirvalda. Loks hefðu aðilar náð samkomulagi um um jóla- og áramótaumgengi drengsins. Þá væri það ætlan gerðarþola að fara í einu og öllu eftir margnefndum úrskurðum stjórnvalda, sýslumanns og ráðuneytis.
Um lagarök vísar gerðarþoli til ákvæða barnalaga, nr. 76, 2003, einkum áðurnefndrar 50. gr., en um málskostnað vísar hún til XXI. kafla laga nr. 90, 1991.
III.
Í VIII. kafla barnalaga nr. 76, 2003 er m.a. kveðið á um rétt barna til umgengni. Í lagakaflanum eru einnig ákvæði um samninga foreldra og úrskurði sýslumanna um umgengni. Þá eru þar ákvæði um hvernig megi framfylgja ákvörðunum um umgengni, en þar um er vísað til dagsekta og fjárnáms fyrir dagsektum.
Um það hvernig megi koma á umgengni með aðför er kveðið á um í 50. gr. barnalaganna, en með breytingarlögum nr. 61, 2012, 28. gr., er hún svohljóðandi:
Tálmi forsjármaður umgengni þrátt fyrir úrskurð um dagsektir og fjárnám fyrir ógreiddum dagsektum getur héraðsdómari, að kröfu þess sem rétt á til umgengni við barn, heimilað að henni verði komið á með aðfarargerð.
Dómari getur, að kröfu þess sem rétt á til umgengni við barn, úrskurðað að umgengni verði komið á með aðför í eitt skipti eða að umgengni á vissu tímabili verði komið á með aðfarargerð.
Ekki verður af aðför nema gerðarbeiðandi sé sjálfur viðstaddur gerðina.
Um meðferð máls og framkvæmd aðfarar gilda að öðru leyti ákvæði 45. gr.
Eins og hér að framan hefur verið rakið voru málsaðilar í óskráðri óvígðri sambúð um nokkurra ára bil, en samvistum þeirra lauk haustið 2014. Þá var sonur þeirra, [...], tveggja ára. Hefur gerðarþoli farið með forsjá drengsins æ síðan og hefur hann í samræmi við það átt lögheimili hjá henni, nú síðast á Norðurlandi.
Fyrir liggur að gerðarbeiðandi lagði fljótlega eftir samvistarslitin fram beiðni hjá sýslumanni í heimabyggð, í október mánuði 2014, um að ákvarðað yrði um umgengni hans við drenginn og þá vegna ágreinings aðila þar um. Eftir gagnaöflun og málsmeðferð úrskurðaði sýslumaður um ágreininginn þann 21. desember 2015. Var sá úrskurður að lokum staðfestur efnislega með úrskurði Innanríkisráðuneytisins þann 23. júní 2016.
Áður rakin málsgögn bera þess merki að veruleg togstreita hafi verið með aðilum undanfarin ár um umgengni sonar þeirra. Aðilar hafa jafnan útskýrt sjónarmið sín í greinargerðum, en að auki hafa þeir lagt fram umbeðin vottorð og skilríki og þá ekki síst gerðarbeiðandi.
Lögfest er að sýslumanni beri að taka ákvarðanir sínar að virtum gögnum og eftir því sem barni er fyrir bestu.
Málsgögn lágu samkvæmt framansögðu öll fyrir þegar sýslumaður og Innanríkisráðuneytið úrskurðuðu um kröfu gerðarbeiðanda um umgengni, í lok árs 2015 og í júní 2016. Hið sama gilti þegar sýslumaður úrskurðaði um dagsektargreiðslur gerðarþola hinn 25. apríl 2016 vegna umgengistálmana hennar, og ennfremur við fjárnám sýslumanns, þann 20. október sl., vegna ógreiddra dagsekta. Gerðin reyndist árangurslaus.
Samkvæmt framansögðu hafa allir úrskurðir stjórnvalda fallið gerðarbeiðanda í vil.
Fyrir liggur að gerðarbeiðandi hefur höfðað forsjármál gegn gerðarþola, en þar krefst hann aðallega fullrar forsjár drengsins [...]. Gerðarþoli skilaði greinargerð sinni í málinu 1. september sl., og tekur til varna. Vegna þessa máls hefur þegar verið dómkvaddur matsmaður, en að sögn lögmanna aðila er ætlað að hann skili skýrslu sinni, m.a. um hagi málsaðila, síðar í þessum mánuði.
Samkvæmt vottorði sérfróðs sáttamanns sýslumanns, sbr. ákvæði fyrrgreindrar 33 gr. a barnalaganna, hafnaði gerðarþoli því í viðtali þann 9. nóvember sl., að afhenda drenginn í umgegni til gerðarbeiðanda. Þar um er skráð að gerðarþoli hafi vísað til fyrri skilyrða sinna um gerðarbeiðandi legði fram vottorð læknis um að hann hefði ekki neytt fíkniefna.
Aðfarabeiðni gerðarbeiðanda var þingfest 14. desember sl. Hann gerir þær kröfur að sonur aðila verði með beinni aðfarargerð tekinn úr umráðum gerðarþola og afhentur honum, þannig að umgengni geti farið fram í samræmi við margnefndan úrskurð sýslumanns frá 21. desember 2015, næstu sex mánuði eftir uppkvaðningu úrskurðar, í fyrsta sinn næsta föstudag á eftir uppkvaðningu úrskurðar, eða eftir atvikum í samræmi við aðra umgengni samkvæmt úrskurðinum. Um lagarök vísar hann m.a. til 2. mgr. 50. gr. barnalaga nr. 76, 2003.
Að virtum áðurröktum gögnum og ákvæði 50. gr. barnalaga eru að áliti dómsins hin formlegum skilyrði fyrir gerðinni uppfyllt.
Umgengni snýst um samveru og önnur persónuleg samskipti barns við það foreldri sem það á ekki lögheimili hjá. Ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna styðja við þann rétt.
Við meðferð þessa máls var upplýst að aðilar hefðu nýverið náð nokkru samkomulagi um lýstan ágreining og að umgengni sonar þeirra [...] og gerðarbeiðanda hefði í kjölfarið verið nokkur að undanförnu. Var þannig upplýst að umgengni þeirra feðga hefði farið fram dagana 26. og 27. nóvember á síðasta ári, en að auki sólarhringana 9. til 12. desember sl., og er það síðarnefnda í samræmi við úrskurð sýslumanns frá 21. desember 2015. Loks hafi umgengnin farið fram dagana 27. desember til 2. janúar sl. Verður ráðið að við þessa síðast greindu umgengni hefði verið tekið mið af efni margnefnds úrskurðar sýslumanns frá 21. desember 2015, en að þar hefði þó verið hnikað til um einn sólarhring með sérstöku samkomulagi aðila þar um.
Fyrir dómi hafa málsaðilar reifað andstæð sjónarmið, þ. á m. um tilurð og tilefni þeirrar umgegni sem nú nýverið hefur komist og þá ekki síst um síðastliðin jól og áramót.
Samkvæmt 5. mgr. 28. gr. barnalaga er foreldri sem fer eitt með forsjá barns síns skylt að stuðla að því að barn njóti umgengni við hitt foreldri sitt nema umgengnin sé andstæð hag og þörfum þess að mati dómara eða lögmælts stjórnvalds.
Ber gerðarþola, sem forsjárforeldri, samkvæmt þessu að sjá til þess að umgengnin komist á.
Samkvæmt framansögðu er óumdeilt að gerðarþoli fylgdi ekki nema að takmörkuðum leyti lögmætum og rökstuddum úrskurði sýslumanns frá 21. desember 2015 varðandi umgegni drengsins [...]s og gerðabreiðanda. Verður ráðið að breyting hafi þar fyrst orðið á eftir að gagnöflun í fyrrgreindu forsjármáli aðila var hafin, þ. á m. með dómkvaðningu og starfi matsmanns.
Samkvæmt yfirlýsingum lögmanna aðila fyrir dómi hefur hin nývirka umgengni gengið vel og er fullyrt að aðilar hafi a. m. k. til þessa verið sáttir við framkvæmdina. Til þess er að líta, að umgengni gerðarbeiðanda og drengsins [...] um síðustu jól og áramót var takmarkaðri, en segir í margnefndum úrskurði sýslumanns.
Þegar ofangreint er virt heildstætt er það niðurstaða dómsins, að eigi sé varhugavert, og þá til að tryggja réttmæta umgengni gerðarbeiðanda við drenginn [...] um tíma, að fallast á kröfur gerðarbeiðanda í máli þessu samkvæmt 50. gr., sbr. 45. gr. barnalaga nr. 76, 2003, ef með þarf.
Í ljósi þessarar niðurstöðu verður gerðarþoli úrskurðaður til að greiða gerðarbeiðanda 450.000 krónur í málskostnað, sbr. ákvæði 1. mgr. 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91, 1991, sbr. ákvæði 84. gr. laga nr. 90, 1989, og hefur þá verið tekið tillit til skyldu til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Gerðarbeiðanda, B, er heimilt með beinni aðfarargerð að fá drenginn [...]tekinn úr umráðum gerðarþola, A, þannig að umgengni geti farið fram samkvæmt úrskurði sýslumanns, dagsettum 21. desember 2015, næstu sex mánuði eftir uppkvaðningu úrskurðar, í fyrsta sinn föstudaginn 10. febrúar 2017, og eftir atvikum í samræmi við aðra umgengni samkvæmt úrskurðinum.
Gerðarþoli greiði gerðarbeiðanda 450.000 krónur í málskostnað.