Hæstiréttur íslands

Mál nr. 225/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • EFTA-dómstóllinn
  • EES-samningurinn
  • Ráðgefandi álit


Föstudaginn 13. maí 2011.

Nr. 225/2011.

Lýsing hf.

(Árni Ármann Ármannsson hrl.)

gegn

Smákrönum ehf.

(Haukur Örn Birgisson hrl.)

Kærumál. EFTA-dómstóllinn. EES-samningurinn. Ráðgefandi álit.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var beiðni L hf. um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tilgreind atriði í tengslum við mál S ehf. á hendur L hf. Í málinu var deilt um uppgjör á fjármögnunarleigusamningi. Taldi S ehf. sig hafa greitt L hf. meira en honum hefði borið á grundvelli samningsins en samningurinn var bundinn við gengi erlendra gjaldmiðla. Í héraði byggði S ehf. á því að 13. og 14. gr. laga nr. 38/2011 um vexti og verðtryggingu fælu í sér hindrun á frjálsum fjármagnsflutningum samkvæmt 40. gr. EES-samningsins. Í dómi Hæstaréttar sagði m.a. að L hf. hefði ekki haft uppi þá málsástæðu í greinargerð fyrir héraðsdómi að ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 færu í bága við 36. gr. EES-samningsins um frjálsa þjónustustarfsemi svo sem hann gerði í greinargerð fyrir Hæstarétti. Í ljósi málatilbúnaðar L hf. yrði ekki séð að svör EFTA-dómstólsins við spurningu sem lyti að 36. gr. EES-samningsins gætu nokkru skipt fyrir úrlausn málsins. Þá taldi Hæstiréttur að L hf. hefði ekki sýnt fram á að samningurinn hefði einhver slík tengsl við aðila í öðrum aðildarríkjum EES-samningsins að hann gæti snert efnissvið 40. gr. EES –samningsins. Var úrskurður héraðsdómur því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. apríl 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. mars 2011, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tilgreind atriði í tengslum við mál varnaraðila á hendur honum. Kæruheimild er í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Sóknaraðili krefst þess að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á því hvort „það samrýmist samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, einkum 1., 3., 36., og 40. gr. hans, að í landslögum ríkis sem aðild á að samningnum sé kveðið á um að óheimilt sé að binda skuldbindingar í mynt þess ríkis við gengi erlendra gjaldmiðla“.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Samkvæmt gögnum málsins gerðu aðilarnir haustið 2007 fjármögnunarleigusamning um svokallaðan smákrana af nánar tiltekinni gerð, en sóknaraðili var þar leigusali og varnaraðili leigutaki. Í 2. gr. samningsins var tekið fram að leigugrunnur væri að meðtöldum virðisaukaskatti 7.594.500 krónur, sem tengdur yrði tveimur erlendum gjaldmiðlum, japönsku jeni og svissneskum franka. Af þessari fjárhæð greiddi varnaraðili þegar í stað 2.500.000 krónur, en frá 5. desember 2007 skyldi hann greiða sóknaraðila í mánaðarlega leigu 68.896 krónur í 59 mánuði og yrði sú fjárhæð tengd gengi áðurnefndra erlendra gjaldmiðla í tilteknum hlutföllum. Í því sambandi var meðal annars tekið fram í 10. gr. samningsins að gengi þessara gjaldmiðla væri miðað við samningsdag, 30. október 2007. Þá var þess og getið í ákvæðinu að svonefndir LIBOR vextir á samningsdegi væru 1,46% auk 3,5% álags. Varnaraðili, sem kveðst hafa staðið skil á greiðslum samkvæmt þessum samningi, telur hann í raun hafa verið um peningalán, sem andstætt lögum hafi verið bundið við gengi erlendra gjaldmiðla. Hann höfðaði mál gegn sóknaraðila 8. september 2010 til heimtu nánar tilgreindrar fjárhæðar, sem hann telur sig hafa ofgreitt sóknaraðila af þessum sökum. Undir rekstri málsins krafðist sóknaraðili að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um þau atriði, sem fram koma í áðurgreindri dómkröfu hans fyrir Hæstarétti, en með hinum kærða úrskurði hafnaði héraðsdómur þeirri kröfu.

II

Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila telur hann að 13. gr. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, eins og þessi ákvæði hafa verið skýrð í dómaframkvæmd, feli í sér hindrun á frjálsum fjármagnsflutningum samkvæmt 40. gr. EES-samningsins. Ákvæði laganna um bann við gengistryggingu valdi því að innlend fjármálafyrirtæki sem hafi aflað sér fjár með erlendum lánum geti ekki tryggt raungildi lánsfjárhæðarinnar með sama hætti og fjármálafyrirtæki sem fjármagni sig í íslenskum krónum. Fjármálafyrirtækjum sem taki erlend lán sé þar með gert óhægt um vik að bjóða upp á lán í íslenskum krónum þar sem þau eigi erfiðara með að tryggja verðgildi útlána sinna. Þannig verði öll áhættustýring, sem miði að því að halda jafnvægi milli erlendra og innlendra eigna, vandkvæðum bundin, en auk útlánaáhættu þurfi þessi fyrirtæki að bera gengisáhættu. Þessi fjármálafyrirtæki verði því fyrir auknum kostnaði og áhættu vegna óvissu, jafnvel þótt þau reyni að verja sig fyrir breytingum á ytri aðstæðum. Að þessu leyti sé aðstaða þeirra önnur og lakari en fjármálafyrirtækja sem fjármagna sig á innlendum markaði. Þetta sé til þess fallið að draga úr kosti íslenskra fjármálafyrirtækja á að afla sér lánsfjár erlendis og dragi einnig úr áhuga erlendra fjármálafyrirtækja á að fjármagna innlend fjármálafyrirtæki, nema þá hugsanlega með verulega auknum kostnaði, sem hafi áhrif á lánskjör til viðskiptavina. Þetta telur sóknaraðili fela í sér hindrun á frjálsum fjármagnsflutningum.

III

Í greinargerð sóknaraðila fyrir héraðsdómi var ekki byggt á þeirri málsástæðu, sem höfð er uppi í greinargerð hans í kærumáli þessu, að ákvæði 13. gr. og 14. gr. laga nr. 38/2001 fari í bága við ákvæði 36. gr. EES-samningsins um frjálsa þjónustustarfsemi. Að því virtu verður ekki séð að svör EFTA-dómstólsins við spurningum sem að 36. gr. EES-samningsins lúta geti nokkru skipt fyrir úrlausn málsins.

Báðir málsaðilar eiga heimili á Íslandi og var samningurinn, sem deila þeirra snýr að, bæði gerður og framkvæmdur hér á landi. Sóknaraðili hefur ekki sýnt fram á að samningurinn hafi einhver slík tengsl við aðila í öðrum aðildarríkjum EES-samningsins að hann geti snert efnissvið 40. gr. EES-samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga yfir landamæri á Evrópska efnahagssvæðinu. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.

Rétt er að ákvörðun um málskostnað í héraði vegna þessa þáttar málsins bíði efnisúrlausnar þar, en sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Lýsing hf., greiði varnaraðila, Smákrönum ehf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. mars 2011.

Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi hinn 21. mars sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Smákrönum ehf., Álfhólsvegi 85, Kópavogi á hendur Lýsingu hf., Ármúla 3, Reykjavík, með stefnu birtri 8. september 2010.

Stefnandi krefst þess að stefndi greiði sér aðallega 2.069.505 kr., en til vara 1.228.920 kr. með nánar tilgreindum vöxtum og kostnaði. Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.

Við fyrirtöku málsins 10. febrúar sl. lagði stefndi, Lýsing ehf., hér eftir sóknaraðili, fram beiðni um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins  á eftirfarandi:

„Hvort það samrýmist samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, einkum 1., 3., 36., og 40. gr. hans, að í landslögum ríkis sem aðild á að samningnum sé kveðið á um að óheimilt sé að binda skuldbindingar í mynt þess ríkis við gengi erlendra gjaldmiðla?“

Af hálfu stefnanda, Smákrana ehf., hér eftir varnaraðili, er þess krafist að beiðni sóknaraðila um að leitað verði ráðgefandi álits verði hafnað. Þá er krafist málskostnaðar vegna þessa þáttar málsins.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Í upphafi tekur sóknaraðili fram að samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar í málum nr. 153/2010 og 92/2010 frá 16. júní 2010, beri að túlka 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu á þann veg að ekki sé heimilt að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla.

Sóknaraðili telur að ákvæði vaxtalaga, samkvæmt nefndum niðurstöðum Hæstaréttar, stangist á við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum sem tók gildi hér á landi 1. janúar 1994. Tekið er fram að í þessum tilgreindu málum var ekki byggt á því sem málsástæðu að það samrýmdist ekki ákvæðum EES-samningsins að banna það að binda skuldbindingar í mynt ríkis við gengi erlendra gjaldmiðla. Hvorki var óskað eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins við rekstur málanna fyrir héraðsdómi né Hæstarétti. Dómar Hæstaréttar taka því ekki með neinu móti á þessu álitaefni. Jafnframt er tekið fram, að ekki er verið að óska eftir áliti EFTA-dómstólsins á tilteknum dómum Hæstaréttar. Aðeins er verið að óska eftir því að EFTA-dómstóllinn gefi álit sitt á því hvort það samrýmist samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, einkum 1., 3., 36., og 40. gr. hans, að í landslögum ríkis sem aðild á að samningnum sé kveðið á um að óheimilt sé að binda skuldbindingar í mynt þess ríkis við gengi erlendra gjaldmiðla.

Í fyrsta lagi tekur sóknaraðili fram  að ein af meginreglum EES-samningsins er að fjármagnsflutningar skuli vera frjálsir. Sú meginregla er sett fram í 4. kafla samningsins. Í 40. gr. segir að engin höft skuli vera milli samningsaðila á flutningum fjármagns í eigu þeirra sem búsettir eru í aðildarríkjum EB eða EFTA né nokkur mismunun, byggð á ríkisfangi eða búsetu aðila, eða því hvar féð er notað til fjárfestingar.

Stefndi telur að 13. og 14. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 eins og ákvæðin voru túlkuð í framangreindum dómum Hæstaréttar frá 16. júní 2010 feli í sér hindrun á frjálsum fjármagnsflutningum samkvæmt EES-samningnum.

Ákvæði 13. og 14. gr. vaxtalaga um bann við gengistryggingu gera það að verkum að innlendar lánastofnanir sem hafa fjármagnað sig með erlendum lánum geta ekki tryggt raungildi lánsfjárhæðarinnar með sama hætti og lánastofnanir sem fjármagna sig í íslenskum krónum. Lánastofnunum sem fjármagna sig með erlendum lánum er þar með gert erfiðara um vik að bjóða upp á lán í íslenskum krónum þar sem fyrirtækin eiga erfiðara með að tryggja verðgildi útlánasafnsins. Þannig verður öll áhættustýring sem gengur út á jafnvægi milli erlendra og innlendra eigna vandkvæðum bundin. Slíkar lánastofnanir þurfa því að hafa meira fyrir því að verja sig fyrir breytingum á ytri aðstæðum en aðilar sem fjármagna sig á innlendum markaði. Þetta er til þess fallið að draga úr áhuga aðila á að sækja sér fjármagn til aðila sem eru staðsettir í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Slíkt felur í sér hindrun á frjálsum fjármagnsflutningum.

Jafnvel þó að lánveitingar í erlendum myntum séu ekki bannaðar á Íslandi telur sóknaraðili að bann vaxtalaga við gengistryggingu íslenskra lána feli í sér hindrun á flæði fjármagns milli Íslands og annarra EES-ríkja. Þetta getur takmarkað áhuga á lántökum frá aðilum sem staðsettir eru í öðrum aðildarríkjum EES. Það sýnir einnig þversögn í löggjöf að banna gengistryggingu lána en heimila að lán séu miðuð við einstaka erlenda hlutabréfavísitölu eða safn af erlendum hlutabréfavísitölum, sbr. heimild í 2. mgr. 14. gr. vaxtalaga, en slík tenging felur bæði í sér gengis- og markaðsáhættu. 

Sóknaraðili telur því að 13. og 14. gr. vaxtalaga, eins og ákvæðin voru túlkuð með nefndum dómum Hæstaréttar frá 16. júní sl., feli í sér brot á skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum. Á það skal bent að bæði EFTA-dómstóllinn og Evrópudómstóllinn hafa skilgreint hindranir á frelsisákvæðum samninganna mjög rúmt.

Í öðru lagi telur sóknaraðili að 13. og 14. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 eins og ákvæðin voru túlkuð í nefndum dómum frá 16. júní 2010 feli í sér hindrun á frjálsri þjónustustarfsemi samkvæmt EES-samningnum og vísar til 36. gr. samningsins. Á sama hátt og áður var rakið gera ákvæði 13. og 14. gr. vaxtalaga um bann við gengistryggingu lánastofnunum sem hafa fjármagnað sig með erlendum lánum erfiðara um vik að bjóða þjónustu sína en aðilum sem fjármagna sig á innlendum markaði. Slíkt bann kann að letja íslenskar lánastofnanir að sækja sér fjármagn erlendis frá. Það takmarkar möguleika þessara aðila að bjóða upp á lánastarfsemi hér á landi. Bann við gengistryggingu kann því að fela í sér hindrun á þjónustufrelsinu fyrir lánastofnanir staðsettar hér á landi og neytendur, enda getur bannið haft þau áhrif að framboð á lánsfjármagni fyrir neytendur verði takmarkað.

Í þriðja lagi tekur sóknaraðili fram að ákvæði 6. gr. EES-samningsins og 1. og 2. mgr. 3. gr. samnings um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls hafa það að markmiði, ásamt ýmsum öðrum ákvæðum EES-samningsins, að tryggja samræmi í framkvæmd, beitingu og skýringu sameiginlegra reglna innan alls Evrópska efnahagssvæðisins. Þetta er í samningnum nefnt einsleitni. Í 1. gr. EES-samningsins er kveðið á um að markmið samningsins sé að mynda einsleitt efnahagssvæði og til að ná því markmiði skulu samningsaðilar m.a. stuðla að því að fjármagnsflutningar séu frjálsir á milli aðila.

Að lokum tekur sóknaraðili fram að samkvæmt 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins getur héraðsdómstóll, í máli þar sem taka þarf afstöðu til skýringa á EES-samningnum, bókunum með honum, viðaukum við hann, eða gerðum sem í viðaukum er getið, úrskurðað um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. Að framan hefur verið rakið mikilvægi þess að dómstólar leiti álits EFTA-dómstólsins til að stuðla að samkvæmni og einsleitni í skýringum á ákvæðum EES-samningsins og þar með á samræmdri framkvæmd samningsins á öllu hinu evrópska efnahagssvæði.

Á grundvelli trúnaðarreglu í 10. gr. EB-samningsins hefur dómstóll EB þróað regluna um skylduna til að skýra landsrétt í samræmi við Evrópurétt. Leiða má hið sama af trúnaðarreglu í 3. gr. EES-samningsins og dómaframkvæmd EFTA-dómstólsins. Íslenskir dómstólar hafa löngum fylgt þessari braut og skýrt landsrétt í samræmi við Evrópurétt. Að framan hefur einnig verið bent á að íslenskir dómstólar leggja mikið upp úr því við skýringu á ákvæðum EES-samningsins að þeim beri að hafa hliðsjón af ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins, enda hvílir í raun slík skylda á íslenskum dómstólum, en samkvæmt bókun 35 við EES-samninginn og 3. gr. laga nr. 2/1993 skal skýra lög og reglur til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Hefð er fyrir því hér á landi að dómstólar, Hæstiréttur Íslands þar með talinn, fylgi fordæmum Hæstaréttar. Frá því eru undantekningar. Dómstólar hafa vikið frá fyrri fordæmum í tilvikum þar sem erlendir dómstólar (t.d. EFTA-dómstóllinn eða Mannréttindadómstóll Evrópu) hafa komist að öndverðri niðurstöðu.

Í því máli sem hér er fyrir dómi er deilt um uppgjör á fjármögnunarleigusamningi sem varnaraðili er með hjá sóknaraðila. Við mat á því hvernig uppgjörinu skal háttað skiptir miklu máli hvort umþrættur samningur teljist vera leigusamningur eða lánssamningur, og þar með hvort samningurinn fellur undir ákvæði vaxtalaga eður ei. Einnig er álitamál hvort framangreind ákvæði vaxtalaga samrýmist áður tilgreindum ákvæðum EES-samningsins. Sóknaraðili telur víst að fyrir hendi sé réttlætanlegur vafi um túlkun þessara reglna. Sóknaraðili telur einnig að niðurstaða um framangreint skipti miklu máli hvað varðar sakarefni þessa máls.

Að öllu framanvirtu telur sóknaraðili nauðsynlegt að afla ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á því hvort það samrýmist samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, einkum 1., 3., 36., og 40. gr. hans, að í landslögum ríkis sem aðild á að samningnum sé kveðið á um að óheimilt sé að binda skuldbindingar í mynt þess ríkis við gengi erlendra gjaldmiðla.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Af hálfu varnaraðila er á því byggt að hvorki formleg né efnisleg skilyrði séu fyrir hendi í málinu þannig að unnt sé að verða við kröfu sóknaraðila.

Um að formlegum skilyrðum sé ekki fullnægt: Beiðni sóknaraðila um ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins er sett fram með vísan til 34. gr. samnings um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, með síðari breytingum, og 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Varnaraðili telur að réttilega sé á það bent af sóknaraðila að samkvæmt 34. gr. ESE-samningsins hafi EFTA-dómstóllinn lögsögu til að gefa ráðgefandi álit varðandi túlkun á EES-samningnum. Þá er rétt að geta þess að 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 vísar til þess að dómari geti í samræmi við tilvitnað ákvæði EES-samningsins kveðið upp úrskurð um að leitað verði ráðgefandi álits þegar afstöðu þarf að taka til skýringar á EES-samningnum, bókunum með honum, viðaukum við hann eða gerðum sem í viðaukunum er getið.

Varnaraðili telur af framansögðu ljóst, að EFTA-dómstólinn hafi aðeins lögsögu til að gefa ráðgefandi álit varðandi túlkun á EES-samningnum og þeirri löggjöf sem af honum leiðir. Í þessari takmörkun felst að EFTA-dómstóllinn verður ekki spurður um skýringu landsréttar.

Ein afleiðing þess, að það er ekki á valdsviði EFTA-dómstólsins að skýra reglur landsréttar, er sú að það skiptir verulegu máli hvernig spurningum er hagað, þegar óskað er ráðgefandi álits. Í beiðni sóknaraðila um ráðgefandi álit er leitað ráðgefandi álits um eftirfarandi: „Hvort það samrýmist samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, einkum 1., 3., 36. og 40. gr. hans, að í landslögum ríkis sem aðild á að samningnum sé kveðið á um að óheimilt sé að binda skuldbindingar í mynt þess ríkis við gengi erlendra  gjaldmiðla?“

Af hálfu varnaraðila er á því byggt, með vísan til framangreinds, að spurningin sem leitað er ráðgefandi álits um sé utan valdsviðs EFTA-dómstólsins. Vísast um þetta til máls Harðar Einarssonar E-1/01 þar sem ein af spurningunum sem beint var til EFTA-dómstólsins í því máli laut að því hvort ákvæði 14. gr. EES-samningsins ættu, samkvæmt EES-rétti, að gilda framar ósamrýmanlegu ákvæði í landslögum.

Þá byggir varnaraðili einnig á því að spurningin sem beint er til EFTA-dómstólsins falli utan efnissviðs EES-samningsins, þar sem efnahags- og peningamál, þar með talin vaxtamál, séu undanskilin efnissviði hans. Í 46. gr. EES-samningsins er einungis kveðið svo á að samningsaðilar skuli skiptast á skoðunum og upplýsingum um framkvæmd hans og áhrif samstarfsins á efnahagsstarfsemi og framkvæmd í efnahags- og peningamálum. Þeir geti enn fremur rætt stefnu, ástand og horfur í efnahagsmálum, en þessi skipti á skoðunum og upplýsingum fari fram án nokkurra skuldbindinga. Af þessu leiði að hafna beri kröfu sóknaraðila um ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins.

Varðandi tilvísun sóknaraðila til 36. gr. EES-samningsins, í spurningunni sem sett er fram, skal tekið fram að í greinargerð sóknaraðila til héraðsdóms er ekki byggt á því að 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 brjóti í bága við regluna um frjálst flæði þjónustu á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 36. gr. EES-samningsins. Á því er byggt af hálfu varnaraðila að nýjum málsástæðum verði ekki komið að í beiðni um öflun álits hjá EFTA-dómstólnum, eins og sóknaraðilar freisti nú að gera.

Um að efnislegum skilyrðum sé ekki fullnægt: Hæstiréttur hefur í dómi sínum 7. júní 2005 í máli nr. 212/2005 (Íslenska ríkið gegn HOB víni ehf.), dregið á greinargóðan hátt saman þau skilyrði sem talið er að verði að uppfylla til þess að tilefni verði talið til að leita ráðgefandi álits. Þessi skilyrði eru; a) að nægilega liggi fyrir að skýring ákvæða EES-samningsins hafi raunverulega þýðingu fyrir úrslit málsins b) að staðreyndir málsins liggi nægilega skýrt fyrir til þess að það komi til greina að leita álits c) að fyrir hendi sé réttlætanlegur vafi um túlkun þeirra EES-reglna sem við geta átt með hliðsjón af sakarefninu.

Á því er byggt af hálfu varnaraðila að hvorki sé uppfyllt það skilyrði að skýring ákvæða EES-samningsins hafi raunverulega þýðingu fyrir úrslit málsins né að fyrir hendi sé réttlætanlegur vafi um túlkun þeirra EES-reglna sem við geta átt með hliðsjón af sakarefninu.

Í fyrsta lagi telur varnaraðili blasa við í málinu að EES-reglur eigi ekki við um þann ágreining sem fyrir liggur í héraðsdómsmálinu nr. E-5216/2010 og að þær geti ekki haft þýðingu fyrir niðurstöðu málsins.

Í beiðni sóknaraðila um ráðgefandi álit er sem fyrr segir vísað til 1., 3., 36. og 40. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og þeirri spurningu varpað fram hvort það samrýmist tilgreindum ákvæðum samningsins, „að í landslögum ríkis sem aðild á að samningnum sé kveðið á um að óheimilt sé að binda skuldbindingar í mynt þess ríkis við gengi erlendra gjaldmiðla?“.

Rétt er að taka hvert þessara ákvæða sem nefnd eru í beiðninni til sérstakrar skoðunar. Í 1. mgr. 1. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið segir að markmið þessa samstarfssamnings sé að stuðla að stöðugri og jafnri eflingu viðskipta- og efnahagstengsla samningsaðila við sömu samkeppnisskilyrði og eftir sömu reglum með það fyrir augum að mynda einsleitt Evrópskt efnahagssvæði sem nefnist hér á eftir EES. Þá segir í 2. mgr. sama ákvæðis að til að ná þeim markmiðum sem sett eru í 1. mgr. skuli samstarfið í samræmi við ákvæði samningsins m.a. fela í sér frjálsa þjónustustarfsemi og frjálsa fjármagnsflutninga.

Einnig er í beiðni sóknaraðila vísað til 3. gr. samningsins þar sem fram kemur að samningsaðilar skuli gera allar viðeigandi almennar eða sérstakar ráðstafanir til að tryggja að staðið verði við þær skuldbindingar sem af samningi þessum leiðir. Þeir skulu varast ráðstafanir sem teflt geta því í tvísýnu að markmiðum samnings þessa verði náð. Þeir skulu enn fremur auðvelda samvinnu innan ramma samnings þessa.

Bæði þessi ákvæði eru í I. kafla samningsins sem ber heitið Markmið og meginreglur. Á því er byggt af hálfu varnaraðila að fráleitt sé að tilvísun til þessara almennu ákvæða geti varðað sakarefni þessa máls.

Þá vísar sóknaraðili einnig til 36. gr. samningsins þar sem segir orðrétt: „Innan ramma ákvæða samnings þessa skulu engin höft vera á frelsi ríkisborgara EB og EFTA-ríkja til að veita þjónustu á yfirráðasvæði samningsaðila enda þótt þeir hafi staðfestu í öðru aðildarríki EB eða EFTA-ríki en sá sem þjónustan er ætluð.“

Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að í IX. –XI. viðauka eru sérstök ákvæði um frelsi til að veita þjónustu. Það ber skýran vott um veikburða málatilbúnað sóknaraðila að ekki er gerð tilraun til að vísa til þeirra gerða sem um er getið í viðaukum þessum og rökstyðja með einhverjum hætti að vaxtalögin brjóti í bága við þær.

Að lokum vísar sóknaraðili til 40. gr. samningsins en þar kemur eftirfarandi fram: „Innan ramma ákvæða samnings þessa skulu engin höft vera milli samningsaðila á flutningum fjármagns í eigu þeirra sem búsettir eru í aðildarríkjum EB eða EFTA-ríkjunum né nokkur mismunun, byggð á ríkisfangi eða búsetu aðila eða því hvar féð er notað til fjárfestingar. Í XII. viðauka eru nauðsynleg ákvæði varðandi framkvæmd þessarar greinar.“

Í 36. gr. samningsins er kveðið á um meginregluna um frjálst flæði þjónustu og í 40. gr. er að finna grunnregluna um frjálsar fjármagnshreyfingar. Báðar þessar meginreglur eiga eingöngu við þegar unnt er að sýna fram á að þjónustustarfsemi eða fjármagn fer yfir landamæri. Af hálfu sóknaraðila hefur ekki verið bent á neinn dóm hvorki EFTA-dómstólsins né EB-dómstólsins sem gefa tilefni til að reglan eigi við þegar um lánaviðskipti milli innlendra aðila er að ræða. Í héraðsdómsmálinu nr. E-5216/2010 er hvorki um það að ræða að fjármagn eða þjónusta hafi farið yfir landamæri né er til staðar mismunun byggð á ríkisfangi eða búsetu aðila eða því hvar féð er notað til fjárfestingar. Að mati varnaraðila er því augljóst að á hvoruga meginregluna reynir í dómsmálinu. Í málinu er einfaldlega um það að ræða að íslenskur lögaðili lánar öðrum íslenskum lögaðila fjármuni til kaupa á smákrana. Skýring tilgreindra ákvæða EES-samningsins hefur því enga þýðingu fyrir úrslit málsins. Tekið skal sérstaklega fram að engu máli getur skipt í þessu sambandi þó svo að sóknaraðili hafi fjármagnað sig á erlendum lánamörkuðum, enda er það varnaraðila með öllu óviðkomandi.

Í öðru lagi er á því byggt að því fari fjarri að til staðar sé réttlætanlegur vafi um túlkun þeirra reglna EES-samningsins sem sóknaraðili vísar til í beiðni sinni. Bent skal á að EB-dómstóllinn hefur margsinnis ítrekað það í dómsúrlausnum sínum að innlendan réttarágreining skal ekki dæma eftir reglum Evrópuréttarins. Við slíkar aðstæður eiga dómstólar aðildarríkjanna að beita landsrétti sínum, enda sé ekkert í málinu sem gefur vísbendingu um að tiltekin athöfn tengist tveimur eða fleiri aðildarríkjum eða að hún sé gerð þvert á landamæri. Þetta er nákvæmlega sú staða sem uppi er í héraðsdómsmálinu nr. E-5216/2010, þar sem fjármagnið/lánsféð sem um ræðir fluttist aldrei yfir landamæri. Af þessu leiðir að EES-reglurnar eiga ekki við.

Með vísan til alls þess sem að framan hefur verið rakið er þess krafist af hálfu varnaraðila að beiðni sóknaraðila um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins verði hafnað.

 Niðurstaða

Í 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins) segir að ef mál sé rekið fyrir héraðsdómstóli þar sem þurfi að taka afstöðu til skýringa á samningi um Evrópska efnahagssvæðið, bókunum með honum, viðaukum við hann eða gerðum sem í viðaukunum sé getið, geti dómari í samræmi við 34. gr. samnings EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, kveðið upp úrskurð um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu á því. Samkvæmt 34. gr. samnings EFTA-ríkjanna hefur EFTA-dómstóllinn lögsögu til að gefa ráðgefandi álit varðandi túlkun á ESS-samningnum.

Sóknaraðili vísar til tveggja dóma Hæstaréttar Íslands frá nr. 153/2010 og 92/2010 frá 16. júní 2010, þar sem fram kemur að túlka beri 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu á þann veg að ekki sé heimilt að verðtryggja lán í íslenskum krónum með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Sóknaraðili telur að ákvæði vaxtalaga, samkvæmt nefndum niðurstöðum Hæstaréttar, stangist á við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum sem tók gildi hér á landi 1. janúar 1994. Ætla verður að Hæstiréttur Íslands hefði leitað ráðgefandi álits í ofangreindum málum hefði hann talið þörf á því.

Í máli þessu lánar sóknaraðili, Lýsing hf., varnaraðila, Smákrönum ehf., fjármuni til að kaupa krana. Málsaðilar deila um það hvort fjármögnunarsamningurinn sé, samkvæmt efni sínu, lánssamningur eða leigusamningur. Dómari telur að tilgreind ákvæði ESS-samningsins í spurningu sóknaraðila hafi ekki þýðingu fyrir úrslit málsins. Hér er um innlendan réttarágreining að ræða. Ekkert í málinu gefur vísbendingu um að lánveitingin tengist tveimur eða fleiri aðildarríkjum eða að hún sé gerð þvert á landamæri. Engu máli skiptir þótt sóknaraðili fjármagni lán sín erlendis frá. Ágreiningurinn er eftir sem áður á milli tveggja íslenskra lögaðila og varðar túlkun á samningi þeirra á milli. Því er kröfu sóknaraðila hafnað.

Rétt þykir að ákvörðun málskostnaðar varnaraðila bíði efnisdóms.

Sigrún Guðmundsdóttir kvað upp úrskurð þennan.

ú r s k u r ð a r o r ð

Kröfu, Lýsingar hf., um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í málinu, er hafnað.

Málskostnaður bíður efnisdóms.