Hæstiréttur íslands

Mál nr. 303/2009


Lykilorð

  • Börn
  • Forsjá
  • Umgengni
  • Gjafsókn


                                                        

Fimmtudaginn 3. desember 2009.

Nr. 303/2009.

K

(Valborg Þ. Snævarr hrl.)

gegn

M

(Lárentsínus Kristjánsson hrl.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hdl.)

 

Börn. Forsjá. Umgengni. Gjafsókn.

M og K deildu um forsjá sonar síns. Í héraðsdómi var talið að það þjónaði einstaklingshagsmunum drengsins best að hann byggi áfram á heimili M ásamt þeirri fjölskyldu hans sem þar dveldi. Eftir uppsögu héraðsdóms var að beiðni K dómkvaddur sálfræðingur til að kanna afstöðu drengsins til forsjár og leggja mat á tengsl hans við K og bróður sinn, sem býr á heimili hennar. Var matsgerðin lögð fyrir Hæstarétt auk gagna sem báru með sér að M hefði tálmað með framgöngu sinni umgengni drengsins við K sumarið 2009. Talið var að þótt M hefði með þessari háttsemi ekki virt hagsmuni barnsins nægði það ekki til að fá því breytt að héraðsdómur yrði staðfestur með vísan til forsendna hans. Var M falinn forsjá drengsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. júní 2009. Hún krefst þess að sér verði dæmd forsjá sonar aðila, D, sem fæddur er 3. febrúar 2002, og stefnda gert að greiða frá uppsögu dóms í málinu einfalt meðlag með honum til fullnaðs 18 ára aldurs. Þá krefst hún þess að umgengni stefnda við drenginn verði ákveðin aðra hverja helgi frá föstudegi fram á sunnudagskvöld og dvelji drengurinn jafnt hjá aðilum í vetrarfríum og fimm vikur á heimili stefnda á sumrin. Hann dvelji hjá stefnda um næstu áramót og síðan önnur hver, en á annan og þriðja dag jóla þegar hann njóti ekki áramótaumgengni, í fyrsta sinn 2010. Umgengni um páska skiptist til helminga eftir nánara samkomulagi. Loks krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

Eftir uppsögu héraðsdóms var að beiðni áfrýjanda dómkvaddur sálfræðingur til að kanna afstöðu D til forsjár og leggja mat á tengsl hans við áfrýjanda og bróður sinn C, sem býr á heimili hennar. Matsgerð hans 14. september 2009 hefur verið lögð fyrir Hæstarétt ásamt endurriti af skýrslu hans fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra 15. sama mánaðar, auk gagna sem bera með sér að stefndi tálmaði með framgöngu sinni umgengni A við áfrýjanda sumarið 2009. Þótt stefndi hafi með þessari háttsemi ekki virt hagsmuni barnsins nægir það ekki til að fá því breytt að héraðsdómur verður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Gjafsóknarkostnaður aðila greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.                                 

Dómsorð:

         Héraðsdómur skal vera óraskaður.

         Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

         Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, K, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 500.000 krónur.

         Allur gjafsóknarkostnaður stefnda, M, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 400.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 19. maí 2009:

Mál þetta, sem dómtekið var 27. mars sl., er höfðað af X, kt. 000000-0000, nú til heimilis að […], á hendur Y, kt. 000000-0000, […] í […], með stefnu birtri 4. september 2007.

Endanlegar dómkröfur málsaðila eru samkynja og efnislega samhljóða, en þeir krefjast hvor um sig forsjár sonarins D, kt. 000000-0000, og að gagnaðili verði dæmdur til greiðslu einfalds meðlags með drengnum frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs hans.  Í stefnu krefst stefnandi auk þess að í dómi verði kveðið á um inntak umgengnisréttar drengsins, en einnig um inntak þess réttar gagnvart öðrum börnum aðila, þeim A, kt. 000000-0000, B, kt. 000000-0000, og C, kt. 000000-0000.  Loks krefjast aðilar hvor um sig málskostnaðar úr hendi hins eins og málið sé eigi gjafsóknarmál.

I.

Samkvæmt málsskjölum slitnaði upp úr fjórtán ára sambúð aðila í byrjun júlímánaðar 2007, er stefnandi fór fyrirvaralaust af þáverandi heimili þeirra að […] með börnin fjögur.  Flutti hún í húsnæði foreldra sinna á […] og töldu börnin í fyrstu að um sumarfrí væri að ræða.  Þegar ljóst var að svo var ekki höfðu tvö elstu börnin samband við félagsmálastjóra […] og báðu um aðstoð hans við að komast heim til […].  Liggur fyrir að stefndi sótti börnin þann 11. júlí, en þá var A 14 ára, B 10 ára og D 5 ára, og fór hann með þau samkvæmt eigin ósk þeirra aftur að […], en C, þá 8 ára, kaus að vera eftir hjá móður sinni á […].

Ágreiningslaust er að málsaðilar leituðu nær strax eftir sambúðarslitin eftir aðstoð og ráðgjöf frá félagsmálayfirvöldum í heimabyggð, stefnandi […] en stefndi […], en Fjölskyldudeild þar í bæ fer með barnavernd […].  Verður ráðið af gögnum að nefnd yfirvöld hafi brugðist við með margvíslegum hætti næstu misserin, en einnig lagði […] í byrjun septembermánaðar 2007 til starfsmann sinn, E, til aðstoðar við heimilishald stefnda.

Við upphaf dómsmeðferðar haustið 2007 var af hálfu aðila tekist á um gagnkvæmar kröfur, um hvoru þeirra yrði falin til bráðabirgða forsjá barnanna, en jafnframt höfðu aðilar uppi kröfur um fulla forsjá.

Vegna krafna aðila um bráðaaðgerðir var tveimur elstu börnunum gefið færi á að lýsa eigin sjónarmiðum, sbr. ákvæði 43. gr. barnalaga nr. 76, 2003.  Var aðilum ásamt lögmönnum þeirra kynnt sjónarmið barnanna á dómþingi þann 12. október 2007, en einnig voru þá lögð fram gögn frá barnaverndarnefnd, ásamt umsögnum frá leik- og grunnskólum í […].  Á nefndu þingi urðu lyktir þær að sátt tókst með aðilum þannig, að báðir féllu frá kröfum sínum um bráðaaðgerðir, en að auki afréðu þau að forsjá allra barnanna skyldi áfram vera sameiginleg og að sú búseta sem komist hafði á í júlí það ár skyldi haldast óbreytt.  Héldu börnin A, B og D því áfram búsetu sinni og skólagöngu í […], en C var hjá stefnanda á […], og hóf hann þar skólagöngu.  Meðlagsgreiðslum var hagað í samræmi við þessa skipan mála.  Í niðurlagi sáttarinnar lýsa aðilar því yfir að þeir ætli að stuðla að því að umgengni barnanna verði sem hagfelldust og eðlilegust, og að um það verði haft samráð við félagsmálayfirvöld á […] og á […].  Liggur fyrir að þann 17. desember 2007 ritaði lögmaður stefnanda erindi til nefndra yfirvalda þar sem óskað var eftir liðsinni við að koma á viðunandi umgengni.

Líkt og áður var lýst fylgdust barna- og félagsmálayfirvöld með málsaðilum og börnum þeirra eftir sambúðarslitin í júlí 2007.  Liggur og fyrir að fyrri hluta vetrar 2008 hafði barnaverndarnefnd bein afskipti af þeim börnum sem voru hjá stefnda vegna upplýsinga um vaxandi vanlíðan þeirra.  Segir í greinargerð nefndarinnar, sem gerð var vegna þessa og dagsett er 8. maí 2008, að könnun á málum systkinanna hefði lokið þann 20. febrúar 2008, þannig að á teymisfundi hafi verið tekin ákvörðun um að máli stúlkunnar A skyldi teljast lokið, en að gera þyrfti áætlun um meðferð drengjanna B og D vegna þeirrar vanlíðunar sem upp hefði komið hjá þeim eftir áramótin og virtist tengjast óvissu um fjölskyldumál þeirra.  Segir í greinargerðinni að tekin hafi verið ákvörðun um að fylgst yrði með líðan D í leikskóla, að B fengi viðtöl hjá skólasálfræðingi og að jafnframt væri þörf á því að ræða við föður barnanna, þ.e. stefnda, um að forsjárdeilan kæmi sem minnst niður á börnunum og að þau fengju að njóta eðlilegra samskipta við móður sína.  Lokaorð greinargerðarinnar um umgengnisþáttinn voru að:„... barnavernd myndi ekki taka að sér að skipuleggja umgengni, enda ekki hennar hlutverk, en föður skal bent á að foreldrum gefst kostur á að koma saman á fundi hjá starfsmanni til að ræða fyrirkomulag samvistanna.  Skýrt skyldi þó vera að ef samningur yrði gerður um þetta væri hann algjörlega á ábyrgð foreldranna.“

Á dómþingi hinn 15. nóvember 2007 var af hálfu lögmanns stefnanda lögð fram beiðni um dómkvaðningu matsmanns, til að vinna sérfræðilega álitsgerð um málsaðila og börn þeirra.  Var dr. Rúnar Helgi Andrason sálfræðingur kvaddur til starfans.  Matsskýrsla hans er dagsett 15. maí 2008, en vegna hnökra á umgengni var verkið unnið með hléum.  Matsskýrslan var lögð fram á dómþingi 28. maí sama ár.  Var þá og upplýst um að umgengni barna og málsaðila hefði algjörlega fallið niður, en að vilji væri til þess að þar yrði breyting á.  Var því beint til dómsins að kallaður yrði til sérfróður aðili, sbr. heimildarákvæði 33. gr. barnalaga nr. 76, 2003, þannig að aðilum gæfist færi á að finna viðunandi lausn.  Gekk þetta eftir og var því lýst á dómþingi þann 19. júní sama ár, að málsaðilar hefðu fallist á áætlun sem L sálfræðingur hefði lagt fyrir þau um umgengnina.  Var í framhaldi af þessu ákveðið að hinn dómkvaddi matsmaður gerði viðbótarmat.  Var það mat lagt fram á dómþingi þann 4. september sama ár, en í beinu framhaldi af því var óskað eftir yfirmati af hálfu lögmanns stefnda.  Þann 11. september sama ár voru dómkvaddir sem yfirmatsmenn sálfræðingarnir Gunnar Hrafn Birgisson og Ragna Ólafsdóttir.  Yfirmatsgerð þeirra, sem dagsett er 14. janúar 2009, var lögð fram á dómþingi 27. sama mánaðar, en á því þingi tókst með aðilum réttarsátt um hluta ágreiningsefnisins.  Var með sáttinni ákveðið að forsjá A og B skyldi vera hjá stefnda, en að stefnandi skyldi fara með forsjá C.  Var meðlagsgreiðslum hagað í samræmi við þetta.  Vegna greindra málalykta var upphaflegum dómkröfum málsaðila breytt og kröfugerðin færð í það horf sem hér að framan var lýst.

II.

Samkvæmt gögnum eru málavextir þeir helstir, að aðilar eru báðir aldir upp […] að frátöldum fyrstu barnsárum sínum.  Eftir að grunnskólanámi lauk hófu þau bæði atvinnuþátttöku, stefnandi í heimabyggð, en stefndi í […], við landbúnaðarstörf.  Stefnandi eignaðist stúlkubarnið F árið […], en var ekki í sambúð með barnsföður sínum.  Í ársbyrjun 1993 tókust náin kynni með málsaðilum og eignuðust þau stúlkuna A í október það ár.  Bjuggu þau á fyrstu búskaparárunum í gömlu húsi sem stefnandi átti […], en er fram liðu stundir seldi hún húsið og keypti í framhaldi af því ásamt stefnda stærra húsnæði í bænum.  Af málatilbúnaði aðila verður ráðið að sambúðin hafi á köflum verið stormasöm, en þau eignuðust börn sín á næstu árum, þau B árið 1997, C árið 1999 og D árið 2002.

Árið 2003 afréðu málsaðilar að flytjast búferlum að […], en þar hófu þau myndarlegan búskap, með kýr og sauðfé.  Verður ráðið að á fyrstu árunum og við uppbyggingu búrekstrarins hafi verið mikið álag á heimilið, ekki síst þegar við bættust aðrir erfiðleikar á árinu 2004 vegna elstu dóttur stefnanda, sem þá var 15 ára.  Í læknisvottorði, sem stefnandi lagði fram við rekstur málsins og dagsett er 8. september 2008, er því lýst, að í kjölfar ásakana F, um líkamlegt og andlegt ofbeldi málsaðila gagnvart henni, hafi barnaverndarnefnd kveðið á um það í úrskurði á nefndu ári, að hún skyldi færð af heimilinu og komið fyrir hjá föður sínum á […] og hans fjölskyldu.  Segir frá því í vottorðinu að þrátt fyrir að stúlkan hafi síðar alfarið fallið frá ásökunum sínum hafi erfiðleikar og álag í einkalífi málsaðila, og síðar er við bættist mikil togstreita í kjölfar fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðar, haft markandi áhrif á heilsufar stefnanda.  Hún hafi verið greind með áfallastreituröskun og upp frá því kvíða og þunglyndi.  Vegna þessa hafi stefnandi verið lögð inn á geðdeild FSA þann 5. nóvember 2004.  Segir í vottorðinu að stefnandi hafi verið nauðungarvistuð á geðdeildinni í skamman tíma, en síðan hafi hún dvalið þar sjálfviljug og þegið lyfjameðferð.  Hún hafi útskrifast eftir sjö daga legu, en verið þar áfram í dagvist í tæpar tvær vikur og í framhaldi af því farið reglulega í göngudeildarviðtöl fram að sumri 2007.  Í læknisvottorðinu segir að vegna bættrar líðanar hafi stefnandi hætti töku þunglyndislyfja í lok árs 2005, en notað áfram svefnlyf og samhliða stundað líkamsrækt.  Þá segir að nokkurt bakslag hafi orðið seinni hluta vetrar 2006 og hafi stefnandi um vorið á ný hafið lyfjameðferð.  Er þessu bataferli stefnanda nánar lýst í vottorðinu þannig:  „[...]“

III.

Undir rekstri málsins var aflað frekari gagna en að framan greinir.  Eru þar á meðal umsagnir frá leikskóla yngsta barns málsaðila og frá grunnskólum í […] og á […], en einnig umsagnir og vottorð frá félagsmálayfirvöldum, vottorð lækna og greinargerð L sálfræðings frá 19. júní 2008 vegna liðsinnis hans við að koma á umgengni.  Auk þessa liggja fyrir ítarlegar matsgerðir fyrrnefndra undir- og yfirmatsmanna.  Verður hér á eftir gerð grein fyrir þessum gögnum eftir því sem tilefni er til, en með hliðsjón af endanlegri kröfugerð málsaðila.

Í undirmatsskýrslu dr. Rúnars Helga Andrasonar sálfræðings, sem dagsett er 15. maí 2008, er að nokkru rakin lífssaga málsaðila fyrir og eftir sambúðarslitin sumarið 2007.  Einnig er þar gerð grein frá afskiptum barna- og félagsmálayfirvalda og lýst umsögnum skóla.  Tekið er fram að við álitsgerðina hafi verið stuðst við sálfræðipróf, þ.e. greindarskimun Wechslers, PAI persónuleikapróf og matslistann PCRI.  Þá segir í skýrslunni að matsmaður hafi átt viðtöl við málsaðila og börn þeirra, en einnig við aðila sem gerst þekktu til.

Í skýrslu dr. Rúnars Helga er sérstaklega fjallað um umsögn fyrirsvarsmanna leikskólans […] frá 18. september 2007, um drenginn D.  Segir í skýrslunni að í þessari umsögn sé frá því greint að drengurinn hafi verið í umsjón móður sinnar, stefnanda, á umsagnartímabilinu, þ.e. frá janúar til maí 2007.  Segir að á þessum tíma hafi mætingar drengsins í skólann verið óreglulegar og hann aðeins í eitt skipti komið á réttum tíma.  Tekið er fram að leikskólinn hafi lagt mikla áherslu á að drengurinn mætti á réttum tíma því ella missti hann af mikilvægu starfi á morgnana þar sem hlúð væri að þroska og tengslamyndun barnanna.  Þá segir að á nefndu tímabili hafi drengurinn oft verið leiður, áhugalaus og orkulítill, og að samskipti starfsmanna leikskólans við móður hans hafi einkennst af stressi og pirringi, en hún afsakað sig með þeim hætti að erfitt væri að koma drengnum í ró á kvöldin og væri hann því þreyttur á morgnana.  Í skýrslu matsmannsins segir að í umsögn leikskólans sé frá því greint, að frá ágústmánuði 2007 hafi orðið vart við miklar og jákvæðar breytingar hjá drengnum að því er varðaði áðurnefnd atriði.  Hann hafi komið glaður og ánægður í leikskólann, á tilsettum tíma og tekið þátt í öllu eðlilegu starfi.  Hafi þetta strax skilað sér í bættri líðan og tengslamyndun.  Segir að er þetta gerðist hafi starfsmaður frá […] komið með drenginn í leikskólann, en einnig sótt hann við brottför.  Í skýrslu matsmannsins er tekið fram að hann hafi átt samtal við leikskólastjóra […] í febrúar 2008, er þá hafi staðfest efni umsagnarinnar.  Í viðræðum þeirra hafi það hins vegar komið fram að hið bætta ástand drengsins hefði breyst eftir áramótin til verri vegar.  Til að mynda hafi drengurinn ekki lengur haft áhuga fyrir samverustundum eða hópstarfi og hann allt í einu orðið mótþróagjarnari og lystarlaus, en fram til þess tíma hefði hann verið mjög duglegur að borða.  Þá hafi oft verið erfitt að tala við drenginn, hann verið eins og í eigin heimi, ekki svarað ef hann var spurður um hluti eða hvað væri að.  Hann hafi virkað daufur og verið farinn að einangra sig frá hópnum og stundum skriðið undir borð þegar hann átti að fara að gera eitthvað.  Þegar á heildina er litið hafi drengurinn virkað eins og fyrir sumarfrí, þ.e. daufur og áhugalaus.  Hann hafi ekki sýnt vilja til að koma í leikskólann, ekki séð tilganginn með því og verið farinn að mæta seinna.  Hann hafi ekki rætt um móður sína, en tjáði sig um að hann vildi ekki fara til […].  Í matsskýrslunni er tekið fram að leikskólastjórinn hafi látið það álit í ljós, að D skorti öryggi og festu og nauðsynlegt væri að upplýsa hann um aðstæður og til hvers væri ætlast af honum.

Í lokakafla undirmatsgerðar dr. Rúnars Helga er í samræmi við matsbeiðni fjallað um eftirfarandi álitaefni: „Hæfni foreldra til þess að fara með forsjá barnanna, viðhorf barnanna til foreldra og athugun á daglegum aðstæðum þeirra, aðbúnaði og líðan barnanna, tilfinningalegt samband barnanna við foreldra og aðra sem máli skipta, aðstæður málsaðila og loks áhrif breyttrar forsjárskipunar á börnin.“

Verður hér á eftir vikið að helstu atriðum að því er varðar ofangreind atriði, en með hliðsjón af endanlegri kröfugerð málsaðila.

Að því er varðar hæfni málsaðila til þess að fara með forsjá barnanna og athugun á tengslum ásamt viðhorfi til umgengni segir í matsgerðinni m.a.:

„[...]“

Að því er varðaði athugun dr. Rúnars Helga á viðhorfi barnanna til foreldra sinna er í matsgerðinni til þess vísað að fyrir hafi legið athugun varðandi tvö elstu börnin, A og B og hafi hún reynst óbreytt.  Þau hafi viljað búa hjá föður sínum á […], en bæði hafi þau tjáð matsmanni að þau vildu reglulega umgengni við móður sína.  Og að því er varðaði C leiddi athugun í ljós að hann óskaði skýrt eftir því að búa áfram hjá móður, en hafði jafnframt þá ósk að hann gæti farið reglulega til föður að […] og til að vera í ríkum samskiptum við systkini sín.  Í matsskýrslunni segir að ekki hafi verið falast eftir viðhorfum D sökum ungs aldurs, og ekki síst þar sem hann hefði algjörlega verið frá móður í marga mánuði.  Segir í matinu að slík athugun myndi aðeins leiða í ljós upplýsingar sem ómögulegt væri að túlka eða skilja með óyggjandi hætti.

Í álitsgerð matsmannsins er ytri aðbúnaði barnanna lýst með eftirfarandi hætti:

„Athugun á daglegum aðstæðum, aðbúnaði og líðan barnanna leiddi í ljós að það fer vel um alla þrátt fyrir núverandi aðstæður. Umsögn frá skólum A og B leiddi í ljós að þau standa ágætlega að vígi og hafa frekar bætt sig en hitt. Og samkvæmt umsögn úr leikskóla D þá hefur aðbúnaður hans batnað til muna í vetur og komið meiri regla á veru hans þar. Athugun á stöðu C leiddi í ljós að móðir hefur unnið vel í málum hans og fengið tilheyrandi aðstoð fyrir hann í skóla sökum námserfiðleika. Það sem skyggir helst á líðan barnanna í dag er það rof sem hefur orðið á systkinahópnum. Þau eru greinilega mjög náin hvort öðru og hafa treyst hvert á annað. Nú hafa þau hinsvegar verið aðskilin í nærfellt eitt ár og því mikill söknuður til staðar.“

Í matsskýrslunni lætur dr. Rúnar Helgi það álit í ljós að vegna aðstæðna sé takmarkað hvað hann geti fullyrt um tilfinningaleg tengsl barnanna við foreldra sína og er staðhæft að ástæður þess megi rekja til þess að samvistarslit foreldranna hafi verið með átakalegum hætti, en því til viðbótar hafi orðið rof á tengslum.  Og að því er varðar D sérstaklega segir í skýrslunni um álitaefnið:  „[...]“

Í skýrslunni lætur matsmaðurinn það álit í ljós að tengsl barnanna þriggja á […] við hinn nýja lífsförunaut stefnda, sambýliskonuna E, séu mjög jákvæð.  Þá sé ekki annað að sjá og heyra en að sambúð þeirra sé farsæl.  Segir og að E hafi mætt þörfum barnanna eins vel og unnt sé og hafi hún veitt þeim ákveðna reglufestu í lífinu.  Að því er stefnanda varðar segir að hún uni hag sínum vel á […], en þar hafi hún m.a. leitað sér hjálpar hjá sálfræðingi reglulega til að vinna úr sínum málum.

Að því er varðaði álitaefnið um breytta forsjárskipan drengsins D áréttar matsmaður fyrri afstöðu og segir að í ljósi aðstæðna sé hann nánast eins og óskrifað blað.  Er þetta nánar rökstutt þannig: Hann býr augljóslega við góðan aðbúnað í dag og virðist jafnvel búa við meiri reglufestu en áður. Hinsvegar er ómögulegt að vita hvaða áhrif þessi aðskilnaður frá móður hefur á líðan hans. Faglega myndi matsmaður aldrei ráðleggja slíkt rof á tengslamyndun við móður og hér hefur orðið og er mikilvægt að koma á eðlilegri umgengni sem fyrst. Þeirri spurningu verður hinsvegar vart svarað hvar D sé hollast að búa fyrr en eðlileg umgengni á sér stað við báða foreldra.

Niðurlagsorðin í undirmatsskýrslu dr. Rúnars Helga eru svofelld:

„Eins og komið hefur fram teljast báðir foreldrar hæfir til að fara með forsjá þeirra barna sem hjá þeim eru núna. Tengslamyndun þar á milli er með eðlilegum hætti og báðir foreldrar hafa leitað sér og börnum sínum viðeigandi aðstoðar. Fjárhagslegar aðstæður eru ótryggar hjá báðum aðilum, eða a.m.k. ákveðin óvissa til staðar, en báðir foreldrar hafa sýnt að þau gefast ekkert upp þó á móti blási og því munu þau væntanlega geta mætt því sem koma skal.

Það sem skortir átakanlega í þessu mati er að lagt sé mat á tengslamyndun allra barnanna við báða foreldra en til þess að svo megi verða þarf að koma á reglulegri umgengni. Matsmaður óskaði eftir því við lögmenn að þeim málum yrði komið í farveg í lok janúarmánaðar sl. Mánuði síðar lagði Y og lögmaður hans til umgengni aðra hvora helgi en því miður komst sú umgengni aldrei á. Í símtali við X þann 7. maí sl. sagðist hún aldrei hafa heyrt af þessum tillögum svo það er óvíst hvar málið féll niður.

Í ljósi ofangreindra upplýsinga er lagt til að búseta barnanna verði óbreytt til að byrja með. Hinsvegar er mikilvægt að koma á reglulegri umgengni X við A, B og D og að sama skapi Y við C. Foreldrar þurfa báðir á ráðgjöf að halda í þessum efnum því að skilnaðurinn hefur reynt verulega á sálræna líðan barnanna. Sérstaklega er ástæða til að hafa áhyggjur af D og er erfitt að spá fyrir um viðbrögð hans þegar hann hittir móður sína aftur. Hann gæti allt eins víst hafnað henni í fyrstu sökum tengslaröskunar. Eftir góða umgengni í sumar er ástæða til að meta aftur tengslamyndun barnanna við foreldra sína og taka frekari ákvarðanir í framhaldinu.“

Eins og hér að framan er rakið var matsmaðurinn dr. Rúnar Helgi Andrason fenginn til að gera viðbótarmat eftir að nokkur umgengni hafði með aðstoð fagaðila verið komið á með málsaðilum og börnum þeirra sumarið 2008.  Lætur matsmaðurinn í ljós ályktanir sínar um áðurrakin álitaefni, en mat þetta er dagsett 13. ágúst 2008.  Var það niðurstaðan í nefndu mati að forsjárhæfni aðila væri óbreytt, og þau því sem fyrr bæði talin hæf.  Viðhorf elstu barnanna þriggja til foreldra sinna hafði heldur ekkert breyst að því er varðaði búsetu, en um tilfinningasamband barnanna við foreldra sína segir í álitinu, að það sé umhugsunarvert hve tvö elstu börnin hafna stefnanda ákveðið og að áhyggjuefni sé einnig hvað elsti drengurinn beri miklar reiðitilfinningar til hennar.  Segir og að bæði þessi börn hafi tjáð sig um að þau vildu ekki fara mikið til móður sinnar þegar málarekstrinum væri lokið.  Þá segir í álitinu að C tengist móður sterkari böndum en föður en þó sé tengslamyndun við hann greinilega nokkur og með jákvæðum formerkjum.  Um yngsta drenginn D segir í álitinu eftirfarandi: D sveiflast mjög í afstöðu sinni enda ungur að árum og hefur takmarkaðan skilning á því hvað er í húfi. Hann virðist hafa tekið móður sinni vel þrátt fyrir mikla fjarveru frá henni sl. ár og í viðtali við hann á […] sagðist hann frekar vilja vera hjá móður sinni en föður. Þar spilaði reyndar inn í að C bróðir hans virtist hafa verið að ræða þessi mál við hann og því mögulega haft áhrif á afstöðu hans. ... Tengsl C og D eru sterk og léku þeir sér mikið saman bæði á […] og á […]. C og B virtust hinsvegar ekki ná lengur eins saman og þeir gerðu áður og hafði Y m.a. það á orði.

Matsmaðurinn getur þess í álitinu að jákvæðar breytingar hafi orðið á aðstæðum stefnda þar sem hann hafi eignast barn fyrri hluta sumars 2008 með sambýliskonu sinni.  Er áréttað að samband þeirra virðist gott og ekki sé annað að sjá en að þau ætli að búa sér og börnum sínum gott heimili.

Að því er varðar breytta forsjárskipan er áréttað í umræddu viðbótaráliti, að óráðlegt sé að breyta forsjárskipun elstu barnanna tveggja, þar sem það myndi valda mikilli vanlíðan og spennu hjá þeim ef móðir fengi forræðið.  Þá segir að C hafi sem fyrr lýst þeirri ósk sinni að búa hjá móður, en að breyting þar á myndi ef til vill ekki  ,,hafa veruleg neikvæð áhrif á hann þar sem hann yrði þá meðal systkina sinna og færi í aðstæður sem hann þekkti. Þrátt fyrir það verður að viðurkennast að óskir hans um búsetu eru skýrar þrátt fyrir að það feli í sér nokkurn aðskilnað frá systkinum sínum.“

Um yngsta drenginn D segir loks í viðbótarálitinu:  „D er ungur að árum og því fljótur að aðlagast breyttum aðstæðum. Athugun á tengslamyndun við foreldra bendir til þess að hann geti aðlagast því að búa hjá hvoru þeirra sem er. Það er samt mikilvægt að mati matsmanns að það foreldri sem fari með forsjá D sjái til þess að umgengni við hitt foreldrið verði regluleg og átakalaus.  ... Hann bjó síðastliðinn vetur hjá föður sínum og var umönnun hans þar með miklum ágætum. Þar skipti ekki síst máli aðkoma E að heimilinu sem virðist hafa orðið öllum börnunum til góðs. Það má því óhikað álykta sem svo að D yrði vel borgið áfram á […]. Hinsvegar flækir þetta mál að síðastliðinn vetur var algjör aðskilnaður frá móður. Nú í sumar hefur D farið tvívegis til X og náð á stuttum tíma að mynda góð tengsl við hana. Þetta ber vitni um góða tengslamyndun á milli D og X. Einnig er ástæða til þess að taka tillit til þess hvað bræðurnir D og C hafa náð að tengjast sterkum böndum. Þeir una sér vel saman og var greinilegt á C hvað hann saknaði D í vetur. Í sumar hafa þeir síðan endurnýjað tengsl sín og fór ávallt vel á með þeim þegar matsmaður hitti þá hvort sem var á heimili X eða Y. Í ljósi þessa gæti verið farsælast að rjúfa ekki samband þeirra bræðra heldur velja þeim sama forsjáraðila. Matsmaður telur það ekki síst gagnast hagsmunum C sem annars gæti einangrast of mikið frá systkinum sínum.“

Við aðalmeðferð málsins staðfesti dr. Rúnar Helgi Andrason sálfræðingur efni rakinna undir- og viðbótarmatsgerða, þar á meðal að því er varðaði forsjárhæfni beggja málsaðila.  Að því er varðaði stefnanda sérstaklega bar hann að hún hefði unnið gríðarlega vel úr þeim andlegu veikindum sem hún hefði átt við að stríða um hríð og staðhæfði að þau veikindi háðu henni nú ekki.  Nánar aðspurður um þá niðurstöðu að forsjá drengsins D skyldi vera hjá stefnanda bar vitnið og áréttaði að þar hefði ekki síst ráðið hagsmunir og sálarheill bróður hans C, en einnig hefði verið litið til þess að forsjá tveggja elstu systkinanna hefði í mati hans verið ákvörðuð hjá stefnda.  Þá hefði nefnd niðurstaða einnig tekið mið af þeirri ályktun að D myndi ekki bíða skaða af því að flytjast til móður sinnar.  Matsmaðurinn bar að greind niðurstaða hefði ekki verið reist á gríðarlega sterkum grunni.  Þannig væru ekki fyrir hendi brýnar forsendur til að breyta búsetu D.  Allar aðstæður hans og líf á heimili stefnda, fyrir utan umgengnisþáttinn, væru ágætar.

Samkvæmt framlögðum gögnum rituðu forsvarsmenn leikskólans […] nýja umsögn um drenginn D þann 25. maí 2008.  Fjallar hún m.a. um líðan drengsins fyrri hluta árs 2008, en hún var send lögmanni stefnda.  Segir þar m.a.:  „Hegðan D breyttist þegar móðir hans hafði samband við hann í síma, eins og við fréttum síðar í febrúarmánuði.  Í lok febrúar var D farinn að jafna sig og taka þátt í því sem verið var að gera í skólanum.  D varð aftur glaður og kom ánægður í skólann.  Í dag gengur mjög vel í skólanum og D er í góðu jafnvægi.  Honum líður vel núna, er ánægður, miklu opnari, frjálslegri og tilbúinn að spjalla við starfsmenn og segja frá því sem hann er að gera.  D sýnir nú miklar framfarir í hópstarfi og öðru skipulögðu starfi.  Hann er mjög vinsæll í hópnum og á auðvelt með að leika við bæði stúlkur og drengi.“

Með úrskurði héraðsdóms uppkveðnum 5. ágúst 2008 var bú málsaðila, X og Y, tekið til opinberra skipta.  Lauk skiptum í búinu samkvæmt skiptayfirlýsingu skiptastjóra 20. nóvember sama ár á þann veg, að stefndi yfirtók allar eignir, þ.e. fasteignir sem og lausafé, sem tilheyrðu búrekstrinum á […].  Jafnframt yfirtók stefndi allar skuldirnar, en þær eru verulegar.  Hefur stefndi haldið áfram búrekstri sínum á jörðinni, og heldur hann þar heimili ásamt sambýliskonu sinni, nefndri E, sem þangað hafði komið haustið 2007.  Liggur fyrir að með þeim tókust góð tengsl, en þau eignuðust barn saman um mitt árið 2008.  Fyrir átti E drenginn G, sem fæddur er árið 2003.  Býr fjölskyldan öll á […] ásamt áðurnefndum börnum málsaðila, A, B og D.

Stefnandi hefur frá sambúðarslitunum haldið heimili á […] ásamt syni aðila C.  Í fyrstu bjuggu þau í húsi foreldra hennar, en þann 2. október 2008 tók stefnandi á leigu fjögurra herbergja íbúð, 94,4 m² í fjölbýlishúsi við […], ásamt áðurnefndri dóttur sinni, F, en hún á nú ungt barn.  Stefnandi hefur verið í föstu starfi frá haustdögum 2007.

Að kröfu lögmanns stefnda voru dómkvaddir til yfirmats þann 11. september 2008 þau Gunnar Hrafn Birgisson og Ragna Ólafsdóttir, sálfræðingar.  Matsgjörð þeirra er dagsett 14. janúar 2009, en henni til grundvallar eru m.a. öll áðurrakin gögn.  Að auki öfluðu yfirmatsmennirnir nýrra gagna, gerðu sálfræðileg próf, áttu viðræður við málsaðila á heimilum þeirra og við börnin, en einnig við sambýliskonu stefnda og elstu dóttur stefnanda, F.  Í yfirmatsgerðinni er sérstaklega fjallað um viðræður yfirmatsmannanna við K kennara við […], um drenginn D, en hann var þá í fyrsta bekk.  Er tekið fram að kennarinn hafi áður kennt þremur eldri systkinum drengsins og því þekkt vel til fjölskyldu hans.  Haft er eftir kennaranum að D sé tápmikill, en „lokaður persónuleiki“ og því geti reynst erfitt að átta sig á hvernig honum líður.  Segir að kennarinn ætli að drengurinn sé í nokkuð þokkalegu jafnvægi, en að dagamunur sé þar á, suma daga sé hann dapur og hafi hann fengið grátköst, skriðið undir borð og lítið viljað tjá sig.  Þá segir að drengurinn þurfi mjög oft að fara á klósettið, og er haft eftir kennaranum að það séu ef til vill merki um óöryggi og vanlíðan hans.  Aðra daga sé hann mjög glaður og ánægður og hafi þeim skiptum fækkað sem hann hafi skriðið undir borð.  Hann fari rólega af stað í námi en sé áhugasamur þegar einbeiting og athygli séu til staðar.  Segir frá því, að það sé álit kennarans að hann sé „að vakna“ hvað varðar námið, hann vinni m.a. vel í myndmennt, sé virkur í íþróttatímum og standi félagslega vel og sækist bæði drengir og stúlkur eftir félagsskap hans.  Einnig er haft eftir kennaranum að allur aðbúnaður drengsins sé góður, klæðnaður í ágætu lagi, vettlinga vanti stundum, en annars sé hann alltaf hlýlega klæddur.  Hann komi alltaf með gott og hollt nesti í skólann og vel sé gætt að skóladóti, að það sé í töskunni og ekkert vanti.  Haft er eftir kennaranum að samskipti kennarans við föður og stjúpmóður séu í ágætu lagi og að virkt tölvusamband sé þeirra í milli.  Tekið er fram að frá haustdögum 2008 og fram að áramótum hafi kennarinn ekki verið í neinum samskiptum við móður drengsins, stefnanda, en að þau hafi verið fyrir hendi áður fyrr vegna kennslu annarra barna málsaðila.  Lokaorðin í matsgerð yfirmatsmannanna um viðræður þeirra við nefndan kennara eru eftirfarandi:

„[...]“

Í yfirmatsskýrslunni er því lýst að við matsgerðina hafi matsmennirnir átt viðræður við fleiri fagaðila er komið hefðu að málum aðila síðustu misserin.  Er þar m.a. getið um fyrrnefndan L sálfræðing, en einnig M sálfræðing, en hann hefur átt fjölmörg ráðgjafar- og stuðningsviðtöl við stefnanda vegna ágreiningsmála hennar og stefnda.

Í yfirmatsskýrslunni er vísað til ofangreindra gagna, en í framhaldi af því er fjallað um áðurlýst álitaefni.  Þykir rétt að rekja skýrsluna efnislega þar um, og þá sérlega að því er varðar endanlega kröfugerð aðila um forsjá drengsins D og um umgengni allra barnanna.  Í skýrslunni segir m.a:

„Hæfni aðila málsins hvors um sig til að hafa með höndum forsjá barna þeirra fjögurra, allra og/eða hvers þeirra um sig.

Yfirmatsmenn taka undir það með matsmanninum dr. Rúnari Helga Andrasyni sálfræðingi að foreldrarnir séu báðir hæfir til að fara með forsjá barna sinna.  Við athugun þessa fegruðu foreldrarnir nokkuð mynd sína og virðast sjá frekar bresti hvors annars en þeirra eigin.  Y telur X  hafa reynt að skemma samband hans við börnin og taka þau frá honum.  X  telur Y hafa haldið þremur börnunum frá henni og sakar hann um að hann rækti ekki samband sitt við C sem skyldi.  Þannig treysta foreldrarnir hvort öðru ekki og vantraust þeirra hefur m.a. þau áhrif á börnin að þau verða óörugg um framtíð sína.  Fyrir vikið verða þau ósátt við annað foreldrið og finnst þau tilneydd til að taka afstöðu með öðru þeirra.

Fyrir utan það ástand sem tengist deilum foreldranna og því að regluleg umgengni hefur ekki komist á þá virðist báðum foreldrum hafa tekist að skapa viðunandi heimilisaðstæður fyrir þau börn sem hjá þeim búa.  C virðist líða vel hjá móður og hún hefur leitað eftir stuðningi fyrir hann og ráðgjöf fyrir sjálfa sig á […].  X er mjög miður sín yfir því hve samband hennar við þrjú barnanna hefur verið lítið frá því hún flutti á […].  Líðan „[...]“.

Y neitar „[...]“.

Yfirmatsmenn telja foreldrana hæfa til að fara með forsjá barnanna með stuðningi frá samfélagi og fjölskyldu.  Þeir telja að miðað við þróunina sem verið hefur í fjölskyldunni og þær aðstæður sem hafa skapast við búsetu barnanna og þá litlu umgengni sem verið hefur sé faðir betur til þess fallinn að fara með forsjá A, B og D en móðir, og að sömuleiðis sé móðir betur til þess fallin að fara með forsjá C en faðir.  Fyrrnefndu börnin þrjú hafa aðlagast vel aðstæðum hjá föður og óráðlegt er að mati matsmanna að raska þeim stöðugleika sem þar hefur skapast.  C nýtur sín vel hjá móður og hefur aðlagast vel aðstæðum á […].  Matsmenn telja að jafn óráðlegt væri að raska högum hans eins og hinna barnanna með því að flytja búsetuna.

Yfirmatsmenn telja að veikleikar foreldra sem umönnunaraðila komi helst fram í því hve getulítil þau hafa verið í að koma á umgengni.  Það að umgengni hefur legið niðri er farið að bitna á sambandi systkinanna innbyrðis og á tilfinningalegum tengslum barnanna við foreldrana.

Yfirmatsmenn telja nauðsynlegt fyrir báða foreldra að nýta sér faglega ráðgjöf til að styrkja sig í foreldrahlutverkinu og að koma á reglulegri umgengni til framtíðar.  Báðir foreldrarnir hafa reyndar leitað sér aðstoðar og fengið faglega hjálp fyrir börnin sem búa hjá þeim hvoru um sig, en áherslan beggja vegna mætti vera meiri á það að umgengnin komist í gott lag.  Mikilvægt er að hafa það hugfast að umgengnisréttur barnanna verði að fullu virtur.

Viðhorf barnanna, hvers fyrir sig, til aðila málsins svo og athugun á daglegum aðstæðum barnanna, aðbúnaði og líðan.

...

D er sáttur við foreldra sína og var í ójafnvægi eftir aðskilnað við móður sína.  Hann virðist vera að ná betri tökum á tilverunni en söknuður gætir til móður.  Það er vel hugsað um grunnþarfir drengsins á heimili föður.

Tilfinningalegt samband barnanna við aðila málsins svo og aðra ættingja sína í fjölskyldum hvors aðila fyrir sig.

...

D virðist tengdur báðum foreldrum sínum tilfinningalega og erfitt er að greina þar á milli.  Tilfinningar hans virðast litast af því að hann saknar móður sinnar mjög en á hinn bóginn virðist hann mjög sáttur hjá föður og trúlegt er að hann myndi sakna föður álíka mikið ef þeir feðgar hefðu verið aðskildir jafn lengi og mæðginin.  Honum finnst líka gaman að vera með C og það virðist kært á milli þeirra.  D líður vel hjá föður og finnst gaman í sveitinni.  Hann kann vel við að haf margt fyrir stafni og hefur það.  Drengurinn finnur góðan stuðning frá báðum foreldrum sínum, stjúpmóður og systkinum.  Best finnst honum að tala við móðurafa sinn en þeir eru nafnar, móðurina X og bróðurinn C.  Hann kveðst hlusta mest á pabba og mömmu þegar það þurfi að skamma hann.  Hann talar vel um G, son stjúpmóðurinnar, en þeir eru á sama reki.  D kveðst vilja búa hjá móður og heimsækja föður.  Hann kveðst óhræddur að skipta um skóla.  Yfirmatsmenn telja að það myndi hafa röskun í för með sér fyrir D að flytja frá föður og úr því umhverfi sem hann hefur aðlagast vel og nýtur sín í.  Þeir efast þó ekki um að vel geti farið um D hjá móður sinni.

Aðstæður málsaðila, félagsleg staða, atvinna o.s.frv.

Aðstæður málsaðila eru ólíkar.  Móðir býr á […] þar sem hún leigir íbúð með eldri dóttur sinni og barni hennar.  Sambúð mæðgnanna gengur vel og er án efa styrkur fyrir C að hafa systur sína og frænda á heimilinu.  Hann kemur úr stórum systkinahópi og mikil viðbrigði fyrir hann að vera skyndilega án þeirra.  X er uppalin á […], þar á hún vini en foreldrar hennar eru fluttir en eiga hús á staðnum og eru bakland fyrir hana og börnin.  X hefur fasta atvinnu.  Þar sem bú X og Y hefur ekki verið gert upp er ekki hægt að fullyrða um fjárhagsstöðu þeirra.  Y býr í sveit þar sem börnin eru sátt að búa.  Hann er í sambúð með konu og hafa þau eignast barn saman.  Hún hefur gengið börnunum á heimilinu í móðurstað.  

Hvaða áhrif ætla megi að breytt forsjáskipan muni hafa á börnin hvert um sig?

...

D er tengdur báðum foreldrum sínum, systkinum öllum, stjúpmóður og syni hennar jákvæðum tilfinningaböndum.  Hann myndi trúlega geta dafnað vel bæði hjá föður og móður að því gefnu að hann fengi að hafa reglulega og rúma umgengni við það foreldri sem hann byggi ekki hjá.  Drengurinn er vel aðlagaður hjá föður og í því umhverfi sem hann býr í í sveitinni.  Hann saknar þó móður sinnar og móðurfjölskyldunnar svo sem eðlilegt er eftir verulegan aðskilnað og úr því sambandsleysi þarf að bæta.  Yfirmatsmenn telja þó óráðlegt að drengurinn verði látinn skipta um búsetu og flytjast til móður.  Þeir telja meiri rök standa til þess að D búi áfram hjá föður og njóti áfram þeirra kosta sem hann hefur búið við en að séð verði til þess með fulltingi fagfólks að komið verði á reglulegri umgengni við móður hið fyrsta.“

Sálfræðingarnir Gunnar Hrafn Birgisson og Ragna Ólafsdóttir staðfestu yfirmatsgerðina fyrir dómi og gerðu grein fyrir einstökum atriðum varðandi matið.

Gunnar Hrafn áréttaði að drengurinn D væri tengdur báðum foreldrum sínum en saknaði eðlilega stefnanda vegna mjög takmarkaðra tengsla þeirra.  Var það ætlan vitnisins að hið sama hefði gilt gagnvart stefnda ef mál hefðu í upphafi skipast á annan veg.  Vitnið bar að niðurstaða yfirmatsins hefði ráðist af heildarmati og þá þannig að aðstæður drengsins þegar á heildina væri litið hefðu verið talin betri hjá stefnda.  Vitnið lýsti þeirri skoðun, að báðir aðilar hefðu sýnt vilja til að finna lausn á þeim umgengnisvandkvæðum sem upp hefðu komið og áréttað að mjög brýnt væri að finna lausn þar á og að fagaðilar kæmu að málum.  Bar vitnið að viðunandi lausn myndi ekki síst gagnast yngstu drengjum málsaðila.

Ragna Ólafsdóttir bar að undanfarin ár hefði verið heilmikið álag á börnum málsaðila vegna umræddra samvistaslita.  Hefði D, líkt og systkini hans á heimili föður, verið án nægjanlegra tengsla við stefnanda í langan tíma og væri augljóst að drengurinn saknaði móður sinnar.  Drengurinn þurfi á móður sinni að halda og verði að líta á orð hans um búsetu í því samhengi, ekki síst vegna ungs aldurs hans og hinna alvarlegu tengslarofa.  Vitnið bar að þrátt fyrir þetta hefði með tímanum meiri ró komist á líf aðila, en einnig á tilfinningalíf drengsins.  Væru tengsl drengsins við báða aðila jákvæð og góð og var það ætlan vitnisins að svo hefði einnig verið fyrir samvistaslitin.

Vitnið áréttaði niðurstöðu yfirmatsins, að best færi á því að forsjá drengsins D yrði hjá stefnda.  Vitnið bar að til grundvallar niðurstöðunni hefðu legið hagsmunir drengsins sjálfs, og þar á meðal þeir að fá að alast upp með eldri systkinum sínum á […].  Hann væri augljóslega mjög tengdur þeim, ekki síst systur sinni.  Vitnið lýsti þeirri skoðun, að styrkur stefnda væri meiri en stefnanda að því er varðaði ýmsar grunnþarfir barnanna, ekki síst þeirra eldri.  Nefndi vitnið m.a. uppeldis- og tilfinningalegar þarfir barnanna, en einnig við að örva þau og setja þeim mörk.  Í því viðfangi nefndi vitnið að stefnandi hefði glímt við veikindi á árum áður og ætlaði að þau hefðu svolítið markað samband barnanna við hana.  Vitnið tók fram að stefnandi hefði augljóslega styrkst heilmikið með árunum, sbr. orðræða matsmanna við sálfræðing sem hún hefði leitað til undanfarin misseri.  Vitnið lýsti þeirri skoðun sinni að áðurraktir erfiðleikar í samskiptum stefnanda og eldri barnanna gætu falið í sér hættu fyrir yngsta barnið, D, en bar að sú hætta væri þó ekki nægjanleg rök fyrir því að færa forsjá drengsins til stefnanda.  Þvert á móti þyrftu málsaðilar og börnin öll á faglegri aðstoð að halda til að finna viðunandi lausn á þessum samskiptum og þar á meðal á umgengninni.  Vitnið bar að ekki hefði verið annað að heyra en að stefndi teldi slíka aðstoð nauðsynlega og væri viljugur til að þiggja hana, líkt og stefnandi.  Var það og álit vitnisins að nauðsynlegt væri að hlúa betur að tengslum bræðranna D og C þannig að þeir mættu tengjast aftur á sama hátt og verið hefði fyrir sambúðarslitin.  Vitnið skýrði frá því að í frásögn D um daglegt líf sitt og fjölskyldunnar á […] hefði honum m.a. verið tíðrætt um fósturbróður sinn G, son fósturmóðurinnar E.  Kvaðst vitnið hafa ályktað sem svo að þeir tveir væru orðnir töluverðir mátar, en eins og frásögn kennara drengjanna benti til kæmi það fyrir að þá greindi á.  Vitnið kvaðst ekki hafa fundið að um óvild væri að ræða, heldur frekar eins og að ófriður ríkti, líkt og á milli systkina.  Í þessu samhengi vísaði vitnið til þess að drengirnir væru mjög ungir að árum og ætlaði að í skólanum leyfðu þeir sér eftir atvikum meira gagnvart hvor öðrum heldur en við aðra krakka.

Vitnið K kennari, við grunnskólann í […], staðfesti fyrir dómi það sem eftir henni var haft í skýrslu yfirmatsmanna hér að framan.  Bar vitnið í öllum aðalatriðum á sama veg um líðan D í skólanum, um aðbúnað hans, virkni og hæfileika.  Nánar aðspurt um samskipti drengsins við fósturbróður sinn G vísaði vitnið til þess að sá síðarnefndi væri árinu yngri en önnur börn í bekknum.  Allnokkrir erfiðleikar hefðu skapast í bekknum vegna veru G þar, en hann ætti við erfitt skap að stríða.  Væri hegðun drengsins á stundum slík að hann flygi á önnur börn í bekknum og þá ekki síst á D.  Bar vitnið að sú hegðun væri ef til vill ekki meiri en stríðni milli systkina, en kvaðst þó ekki hafa merkt að sérstakt kærleikssamband væri þeirra í milli.

Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilar skýrslur, en vitnaskýrslur þau L sálfræðingur, F, dóttir stefnanda, H móðir stefnanda, og vitnin I og J.  Áður eru raktar vitnaskýrslur undir- og yfirmatsmanna svo og vitnaskýrsla K kennara við […].

V.

Stefnandi styður kröfur sínar um að hún eigi að fá forsjá drengsins D fyrst og fremst þeim rökum, að hann sé miklu tengdari henni en stefnda, bæði tilfinningalega og á allan hátt.  Þá geti hún búið drengnum mun betra atlæti á heimili sínu á […] en stefndi á […], en þar reki hann stórt bú.  Þá njóti hún víðtækari stuðnings ættingja heldur er stefndi.

Máli sínu til stuðnings vísar stefnandi til viðbótarmats dr. Rúnars Helga, en þar komi m.a. fram að mjög sterk tengsl séu milli hennar og drengsins.  Hafi það og berlega komið í ljós eftir að umgengni hófst með þeim mæðginum á ný eftir langt hlé.  Stefnandi bendir á að í matsskýrslum og vitnisburðum matsmanna sé tengslum þessum lýst á sama veg.  Einnig sé þar vikið að því að tengsl drengsins við bróður sinn C, sem sé næstur honum í aldri, séu mikil.  Þessu til viðbótar vísar stefnandi til þess sem fram hafi komið um eigin vilja drengsins, um að flytjast á heimili hennar á […].

Stefnandi byggir á því að líta verði til heildarhagsmuna nefndra drengja, ekki síst hvað sé D fyrir bestu þegar til lengri tíma sé litið.  Staðhæfir stefnandi að verði henni dæmd forsjá D muni það styrkja allan systkinahópinn.

Stefnandi bendir á að samkvæmt yfirmatsgerðinni séu nokkrir hnökrar á samskiptum D og fósturbróður hans, a.m.k. sé ekki jákvætt andrúmsloft þeirra í milli, sbr. umsögn og vitnisburður kennara þeirra.  Á það er og bent að í yfirmatsgerðinni sé því haldið fram að D geti vel spjarað sig á nýjum vettvangi, á […], en hann sé vel í stakk búinn til að takast á við breytingar og að þær myndu ekki valda honum neinum skaða.  Þá er til þess vísað að í yfirmatsgerðinni sé því haldið fram að hún sé fullkomlega hæf sem foreldri og sé það í samræmi við önnur gögn er greini m.a. frá því að heilsufar hái henni á engan hátt.  Megi og til þess líta að afstaða stefnda hafi að þessu leyti breyst til batnaðar þar eð hann líti ekki lengur svo á að hún sé óhæf eða geðsjúk.

Við munnlegan flutning var af hálfu stefnanda lögð áhersla á, að þegar litið sé til allrar forsögu málsins megi ætla að líklegra sé að hún muni fara eftir umgengnisákvæðum heldur en stefndi.  Hafi það þegar sýnt sig, en hún hafi lagt sig fram við að fara eftir tillögum L sálfræðings varðandi umgengnina.  Telur stefnandi að horfa verði til þess að þegar umgengni sé tálmuð megi líta til ákvæða 2. mgr. 34. gr. barnalaganna.  Verði að ætla að vissar efasemdir hafi verið hjá stefnda um umgengnina, eða a.m.k. hafi svo verið lengi framan af.

Varðandi umgengnisþáttinn er af hálfu stefnanda lögð áhersla á, að á hvorn veginn sem forsjáin dæmist, verði hún ákveðin reglubundin hálfsmánaðarlega, sbr. að því leyti sú áætlunargerð sem L sálfræðingur lagði til sumarið 2008.  Umgengni barnanna yrði síðan lengri yfir sumarið, og til skiptis um hátíðisdaga.  Af hálfu stefnanda er gerð krafa um að börnin fari öll saman í umgengnina, en því lýst yfir að verði ekki á það fallist sé þessi þáttur málsins lagður í mat dómsins.

Um lagarök vísar stefnandi til V. og VI. kafla barnalaganna nr. 76, 2003, einkum 31. gr. og 34. gr., um varnarþing til 37. gr. sömu laga.  Um málskostnað er vísað til 1. tl. 130. gr., sbr. 129. gr., laga nr. 91, 1991.

Stefndi byggir dómkröfu sína um að hann eigi að fá forsjá D aðallega á því að velferð og hagsmunir hans sé mun betur borgið með þeirri skipan mála, en um rökstuðning er aðallega vísað til matsgerðar yfirmatsmanna.  Er staðhæft að stefndi geti búið drengnum betra atlæti heldur en stefnandi við núverandi aðstæður, en auk þess njóti hann stuðnings ættingja í ríkara mæli en stefnandi.  Er á það bent að drengurinn búi við traust heimilislíf, ekki síst eftir að núverandi sambýliskona stefnda kom inn á heimili þeirra síðari hluta árs 2007.  Þá er til þess vísað að D hafi sterk tengsl við þau systkini er dvelji á heimilinu á […] og séu þau tengsl ekki síðri en samband hans við bróðurinn C.  Þá séu þeir feðgar vel tengdir tilfinningalega.

Varðandi umgengnisþátt málsins er af hálfu stefnda vísað til þess að gögn bendi til þess að allar aðstæður stefnanda ásamt heilsufari hafi farið batnandi hin síðari misseri.  Var við flutning í ljósi þessa áréttuð sú afstaða sem fram hafði komið við skýrslugjöf, að stefnandi ætti að hafa ríkan umgengnisrétt við þau börn sem stefndi hefði nú forsjá yfir og ættu lögheimili á […].  Þá ætti hið sama að gilda um drenginn D fengi hann forsjá hans.  Varðandi fyrrnefndu börnin var þeirri afstöðu lýst að eftir atvikum væri farsælast barnanna vegna að farið yrði varfærnislega af stað og gæti það sama átt við drenginn C, er byggi hjá stefnanda á […].  Stefndi áréttaði aðrar kröfur sínar í málinu.

Um lagarök var af hálfu stefnda vísað til meginreglna barnaréttar svo og ákvæða barnalaga nr. 76, 2003, einkum 2. mgr. 34. gr., en kröfuna um málskostnað byggir hann á 130. gr., sbr. 1. mgr. 129. gr., laga nr. 91, 1991, sbr. 1. mgr. 38. gr. barnalaganna.

VI.

1.  Samkvæmt 31. gr. barnalaga nr. 76, 2003, sbr. 1. gr. laga nr. 69, 2006, fara foreldrar sameiginlega með forsjá barna sinna eftir skilnað og slit sambúðar nema annað sé ákveðið.  Skulu foreldrar ákveða hjá hvoru þeirra barn skuli eiga heimili.

Í 1. mgr. 34. gr. barnalaganna er kveðið á um að þegar foreldra greinir á um forsjá barns skeri dómari úr málinu með dómi.  Við úrlausn ágreinings skal dómari samkvæmt 2. mgr. lagagreinarinnar kveða á um hjá hvoru foreldri forsjá barns verði eftir því sem barni er fyrir bestu.  Er hér um grundvallarreglu barnaréttar að ræða.  Samkvæmt lagagreininni geta dómstólar þó eigi mælt fyrir um sameiginlega forsjá barns með dómi þegar ágreiningur er með foreldrum.

Í máli þessu deila aðilar m.a. um forsjá drengsins D, sem nú er sjö ára.  Deilan hefur staðið um nokkurt skeið og hefur hún á köflum verið sviptingasöm. 

Liggur fyrir að við upphaf deilunnar haustið 2007 var ágreiningur með aðilum um bráðabirgðaforsjá fjögurra barna, um endanlega forsjá þeirra, um umgengnisrétt og um eignir fjölskyldunnar á bújörðinni […].  Fljótlega tókst réttarsátt um búsetu barnanna og hefur nefndur drengur, D, haldið áfram búsetu sinni hjá stefnda ásamt eldri systkinum sínum, A og B, en næstyngsti drengurinn, C, fluttist til stefnanda á […] í júlí nefnt ár.

Verulegar breytingar hafa orðið á aðstæðum og fjölskyldulífi málsaðila frá samvistaslitum þeirra, en eins og áður hefur komið fram býr stefnandi nú ásamt nefndum syni og tvítugri dóttur sinni og barni hennar í leiguíbúð í fjölbýlishúsi á […].  Stefndi hefur aftur á móti haldið áfram búskap á umræddu lögbýli ásamt fyrrnefndum börnum aðila, en einnig sambýliskonu og tæplega ársgömlu barni þeirra og sex ára syni hennar.  Fyrir liggur að búskiptum málsaðila lauk síðla árs 2008.

Hér fyrir dómi hafa aðilar hvor með sínum hætti lýst í aðilaskýrslu atvikum frá sínum sjónarhóli.  Í því viðfangi er til þess að líta að við úrlausn einkamála hafa staðhæfingar aðila um atvik almennt ekki sönnunargildi fyrir dómi, nema um sé að ræða atriði sem honum er óhagstætt, sbr. 1. mgr. 50. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála.  Við úrlausn um sönnun atvika verður í þessu máli því að taka afstöðu til þess, hvort staðhæfingar aðilanna fái nægjanlega stoð í sönnunargögnum sem aflað hefur verið við rekstur þess, en að því er varðar sönnunargildi vitnisburðar verður m.a. að hafa í huga afstöðu vitna, t.d. til aðila.  Að öðru leyti verður skorið úr ágreiningi eftir mati á þeim gögnum sem fram hafa komið í málinu, samkvæmt almennum reglum VI. kafla laga nr. 91, 1991.

2.  Niðurstaða meirihluta dómsins:

Ágreiningslaust er að í frumbernsku drengsins D sinnti stefnandi honum fremur en stefndi og réð þar helst verkaskipting þeirra á þáverandi heimili, […].  Verður ráðið að allnokkur breyting hafi orðið þarna á er drengurinn var tæplega þriggja ára.  Kom það til af því að stefnandi veiktist síðla árs 2004, en stefndi mun í framhaldi af því hafa orðið virkari í allri daglegri umönnun drengsins.  Frá samvistaslitum aðila sumarið 2007 hefur drengurinn, eins og áður var rakið, dvalið á æskuheimilinu og gengið í leik- og grunnskóla í sveitarfélaginu.  Hann hefur haft mjög takmarkaða umgengni við stefnanda, en hún mun fyrst hafa komist á sumarið 2008 með aðstoð fagaðila.

Samkvæmt sérfræðigögnum býr D yfir ágætri aðlögunarhæfni.  Þá hefur hann góð tengsl við öll systkini sín, en einnig er viðhorf hans og tengsl við foreldra sína jákvætt.  Sýnir þetta að áliti meirihluta dómsins, eins og við mátti búast, að drengnum þykir vænt um foreldra sína og vill vera hjá þeim báðum.  Þá er óumdeilt að drengurinn saknar stefnanda og þráir meiri samvistir við hana.  Í ljósi þessa svo og þeirrar togstreitu sem drengurinn hefur orðið vitni að á heimilum aðila og vegna ungs aldurs hans, getur að áliti meirihluta dómsins ætlaður vilji hans til búsetu ekki ráðið úrslitum við úrlausn málsins.

Að ofangreindu virtu svo og staðfestum niðurstöðum undir- og yfirmatsskýrslna verður fallist á að báðir málsaðilar séu hæfir til að fara með forsjá D.

Í nefndum sérfræðiálitum kemur meðal annars fram að persónulegir eiginleikar málsaðila eru ólíkir.  Segir í yfirmati og sérfræðivitnisburðum fyrir dómi m.a. að stefndi búi almennt yfir meiri styrk en stefnandi til að rækja uppeldis- og foreldrahlutverkið, og að hann sé sér í lagi hæfur til að annast þau þrjú systkini, sem hjá honum búa, en þar á meðal er drengurinn D  Í nefndum gögnum er einnig vikið að tilteknum veikleikum í fari stefnda og segir að þar sé helst um að ræða nokkurn skort á innsæi hvað varðar eigin tilfinningar og næmni í persónulegum samskiptum.  Hinir sérfróðu aðilar tiltaka ennfremur styrkleika og veikleika sem stefnandi býr yfir, en nefna það einnig, að hún hafi að líkindum öðlast meiri styrk undanfarin misseri.  Er það álit látið í ljós, að hún ráði vel við hlutverk sitt sem umönnunaraðili drengsins C.  Í yfirmatinu segir og um báða málsaðila að þeir séu ,,þýðlyndir og ekki harðlyndir.“

Í samanburði á þeim þáttum, er varða persónulega eiginleika aðila, kemur að öllu ofangreindu virtu, að áliti meirihluta dómsins, ekki fram sá munur að eiginleikar annars þeirra skari það verulega fram úr eiginleikum hins að úrslitum ráði í málinu varðandi kröfuna um forsjá drengsins D.  Það er hins vegar niðurstaða matsmanna að helstu veikleikar málsaðila sem foreldra séu hversu getulitlir þeir hafa reynst við að koma á viðunandi umgengni barna sinna.  Hefur þetta ástand samkvæmt röktum skýrslum matsmanna þegar bitnað á sambandi systkinanna innbyrðis og tilfinningalegum tengslum eldri barnanna þriggja við foreldrana.  Fyrir dómi lýstu aðilar lífshlaupi sínu og samlífi, hvor með sínum hætti, en einnig einstökum einkalífsvandkvæðum.  Áherslumunur var nokkur með aðilum, en einnig stóð þar stundum staðhæfing gegn staðhæfingu.  Verður að áliti meirihluta dómsins ekki leyst úr álitaefni máls þessa á slíkum málatilbúnaði.

Ágreiningslaust er að báðir aðilar hafa að undanförnu sótt sér ráðgjöf til að styrkja sig í foreldrahlutverkinu.  Þá lýsa þeir samvinnuvilja við að koma umgengninni í betra lag.  Er það álit yfirmatsmanna að þrátt fyrir fyrrnefnda hnökra sé ekki ástæða til að óttast að aðilar virði ekki við núverandi aðstæður niðurstöðu um umgengni þegar hún liggur endanlega fyrir.

Samkvæmt nefndum gögnum og vætti undir- og yfirmatsmanna hafa jákvæð tengsl skapast milli D og E, sambýliskonu stefnda, en óumdeilt er, að hún hefur tekið fullan þátt í umönnun drengsins frá hausti 2007.  Fyrir dómi kom hún fyrir sem ábyrg og tilfinningalega tengd drengnum.  Einnig benda gögn málsins að áliti meirihluta dómsins frekar til þess að samskipti sonar sambýliskonunnar og D séu eftir atvikum góð.  Þá kemur fram að skólaaðlögun D hafi í heildina gengið vel, að framfarir í námi séu eðlilegar og samskipti við félaga í jafnvægi.  Er það samdóma álit þeirra sérfræðinga sem fengnir hafa verið til að kynna sér málið, en einnig annarra sem gerst þekkja til, að D hafi á heimili stefnda tekið eðlilegum framförum í þroska og að hann uni sér þar vel.  Eins og áður er lýst saknar hann þó móður sinnar og þráir eðlilega meiri samvistir við hana.  Telur meirihluti dómsins að unnt sé að koma til móts við þær þarfir drengsins án þess að raska því jafnvægi og þeim stöðugleika sem nú ríkir hjá honum.

Þegar allt ofangreint er virt er það niðurstaða meirihluta dómsins að það þjóni einstaklingshagsmunum drengsins D best að hann búi áfram á heimili stefnda ásamt þeirri fjölskyldu hans sem þar dvelur.  Er það því niðurstaðan, að virtri fyrrnefndri grundvallarreglu barnaréttar, að stefndi skuli einn fara með forsjá drengsins, enda leiðir sú tilhögun til minnstrar röskunar á lífi hans eins og málum er komið.

Stefnandi skal í ljósi greindrar niðurstöðu greiða einfalt meðlag með D frá uppkvaðningu dómsins til 18 ára aldurs hans.

3.  Niðurstaða minnihluta dómsins, dr. Sigrúnar Sveinbjörnsdóttur sálfræðings varðandi forsjá drengsins D:

Það er álit minnihluta dómsins að neðanskráðar niðurstöður matsmanna á persónulegum eiginleikum málsaðila gefi sterklega til kynna að orð stefnanda um ráðríki stefnda í hennar garð, þar með talið ákvarðanir um fóstureyðingu, meðferð fjár, svo sem stækkun bús og að meina henni aðgang að peningum eigi við rök að styðjast. Sé svo má leiða að því líkum að stefnandi hafi búið við andlegt ofbeldi af hálfu stefnda um árabil, en slíku álagi fylgir andlegt niðurbrot og skert sjálfsmynd.

Í niðurstöðum úr persónuleikamati (PAI) sem undirmatsmaður dr. Rúnar H. Andrason lagði fyrir stefnda 11. janúar 2008 segir m.a.: „[...]“  Niðurstöður tveggja persónuleikaprófa og eins þunglyndiskvarða sem yfirmatsmenn Gunnar Hrafn Birgisson og Ragna Ólafsdóttir lögðu fyrir stefnda 23. nóvember 2008 benda til hins sama.  Telja matsmenn útkomu á fyrra persónuleikaprófinu (Eysencks) ,,..gefa trúverðuga mynd af persónugerð hans”, en þar eru tölulegar niðurstöður þær m.a „[...]“

Í yfirmatsgerð er m.a. haft eftir L sálfræðingi um málsaðila: ,,..þar sem Y þurfi að sinna miklum verkum til að halda búi sínu gangandi hafi athygli hans ekki verið mikil á börnunum. Hann skorti nokkuð lagni við þau og tekur dæmi um að eftir að Y hafði ekki séð C í langan tíma þá hafi hann heilsað honum stuttlega og án þess að taka utan um hann loksins þegar þeir hittust og sagt honum að setjast inn í bíl”.

Í framlögðum gögnum er að áliti minnihluta dómsins ekkert sem bendir til þýðlyndis stefnda heldur þvert á móti og greinilegt að stefnda er ekki lagið að auðsýna tilfinningar og setja sig í annarra spor, ennfremur verður ekki séð að stefndi hafi lagt vinnu í að auka eigið innsæi og efla um leið hæfni sína í samskiptum við aðra né verður svo af gögnum skilið að hugur hans standi til þess. 

Í niðurstöðum úr persónuleikamati (PAI) sem undirmatsmaður dr. Rúnar H. Andrason lagði fyrir stefnanda (X) 18. janúar 2008 segir m.a: „[...]“.  Niðurstöður tveggja persónuleikaprófa og eins þunglyndiskvarða sem yfirmatsmenn Gunnar Hrafn Birgisson og Ragna Ólafsdóttir lögðu fyrir stefnanda 22. nóvember 2008 benda til hins sama.  Telja matsmenn útkomu á fyrra persónuleikaprófinu (Eysencks) ,,..gefa trúverðuga mynd af persónugerð hennar” en þar eru tölulegar niðurstöður þær m.a. „[...]“ og einnig er ljóst að stefnandi hefur lagt mikið á sig til að efla sjálfstraust og endurheimta þrek og hefur í því skyni leitað aðstoðar fyrir sig persónulega til M sálfræðings.

Að teknu tilliti til þess sem hér að framan greinir telur minnihluti dómsins að stefnandi sé hæfari til að sinna foreldraskyldum við drenginn D en stefndi. 

Auk þeirra atriða sem að framan var lýst er að áliti minnihluta dómsins mikilvægt að líta til þess, að tilfinningatengsl stefnanda og drengsins D hafa staðist umtalsvert álag vegna aðskilnaðar og virðast gædd meiri hlýju en greina má á milli drengsins og stefnda.  Stefnandi virðist hafa næmari skilning á tilfinningalegum þörfum drengsins en stefndi og vera færari en hann að veita tilfinningalega umhyggju.  Með velferð drengsins í huga vegur þetta atriði þyngra en styrkleikar stefnda, sem virðist færari en stefnandi að halda aga.  Félagatengsl D við öll systkinin virðast góð en þó sterkust við þann bróður sem þegar er í umsjá móður, enda þeir næstir í aldri.  D er eitt systkinanna fjögurra sem telst tengdur báðum foreldrum, hvoru þeirra á sinn hátt, en hann hefur þó sjálfur óskað þess að búa hjá móður og þeim bróður sem hjá móður býr.  Til framtíðar litið má telja hættu á að D þroski ekki sambandið við móður sína sér til góðs ef hann býr áfram hjá stefnda, en bent hefur verið á að drengurinn heyri umtal um móður sína á heimili föður sem ekki er æskilegt, og álitið að því lengur sem hann býr á heimili föður án faglegrar íhlutunar sem miði að því að sætta alla aðila, sé líklegt að hann geri neikvæð viðhorf á heimili föður í garð móður að sínum.  Svo sem ítrekað kemur fram í gögnum hafa tilraunir undangenginna ára til að koma á og viðhalda jákvæðum samskiptum milli heimilanna tveggja mistekist og í ljósi þess má telja ólíklegt að fagleg íhlutun nú með fjölskyldumeðlimunum á heimilunum tveimur muni skila ásættanlegum árangri.  Búi D hins vegar hjá móður má telja góðar líkur á að hann muni viðhalda sambandi við stefnda og dvelja reglulega á heimili hans, stundum jafnvel til lengri tíma svo sem um sumur, a.m.k. á meðan stefndi býr í sinni sveit, þar sem drengurinn er heimavanur, enda hefur stefnandi lýst vilja sínum til að stuðla að slíkri umgengni.  Til framtíðar litið má ætla að D viðhaldi góðum tengslum við foreldrana báða búi hann hjá móður en að hætta gæti verið á tengslarofum við móður búi hann að óbreyttu hjá föður.

Með allt ofangreint í huga fellst minnihluti dómsins á kröfu stefnanda um að henni verði fengin forsjá drengsins D. 

Í ljósi niðurstöðu meirihlutans hér að framan um forsjána tekur minnihlutinn að því virtu undir lokaniðurstöðuna í 4. hluta um inntak umgengnisréttar og málskostnað.

4.  Af hálfu stefnanda er í stefnu gerð krafa um að kveðið verði á um inntak umgengnisréttar allra barna málsaðila, þeirra D, C, B og A.  Krafa þessi er einnig í samræmi við málatilbúnað stefnda fyrir dómi.

Að virtri áður rakinni niðurstöðu meirihluta dómsins um forsjá barnsins D og með hliðsjón af þeirri sátt sem tókst með aðilum fyrir dómi um forsjá annarra barna þeirra er það niðurstaða dómsins að við ákvörðun um inntak umgengnisréttar, sbr. 4. mgr. 34. gr. barnalaga, beri að horfa til þess sem börnunum er talið vera fyrir bestu, hverju og einu.  Dómarar leggja hins vegar áherslu á að aðilar geta ávallt hagrætt umgengninni með samkomulagi sín í milli, enda hafi þau hagsmuni barnanna að leiðarljósi.  Við ákvörðun nefnds réttar verður að áliti dómsins m.a. að horfa til aldurs barnanna, til aðstæðna þeirra og foreldranna og til búsetu.  Þá verður ekki horft fram hjá þeim erfiðleikum sem börnin og aðilar hafa strítt við hin síðustu misserin, líkt og ítarlega er lýst í undir- og yfirmatsgjörðum hinna dómkvöddu matsmanna.  Að öllu þessu virtu skal umgengnin vera sú sem hér á eftir verður rakin.

Stefnandi skal hafa umgengni við D og stefndi við C aðra hverja helgi frá því strax að loknum skóla á föstudögum og fram á sunnudagskvöld, enda hamli hvorki færð né veður ferðalögum.  Er rétt að foreldrar leggi báðir jafnt til þegar kemur að því að aka drengjunum á milli staða og mætast eftir atvikum á miðri leið eða hagi málum með öðrum hætti samkvæmt samkomulagi.  Umgengninni skal hagað þannig að drengirnir dvelji saman á heimilum aðila.  Umgengnin skal í fyrsta sinn vera á heimili stefnanda föstudaginn 5. júní 2009.  Á sumrin skal umgengni D vera samfellt fimm vikur hjá stefnanda og skal C vera jafnlengi hjá stefnda, allt eftir nánara samkomulagi hverju sinni, í fyrsta skipti sumarið 2009.  Á meðan víkur hin reglulega umgengni.  Vegna sumarsins 2010 skal dagsetning samvistaskipta ákveðin fyrir 1. apríl það ár, en náist ekki samkomulag fyrir 10. apríl hafi stefnandi sjálfdæmi þar um, en stefndi næst er ekki verður samkomulag og þannig koll af kolli.  Í vetrarfríum frá skóla skal umgengnin skiptast jafnt milli aðila.  Umgengni D og C á stórhátíðum skal vera þannig að bræðurnir verði saman hjá stefnanda á öðrum og þriðja degi jóla 2009 en þá um áramótin hjá stefnda, árið eftir snúist þetta við og síðan áfram koll af kolli.  Umgengni um páska skiptist til helminga eftir nánara samkomulagi.

Að því er varðar umgengni eldri barna aðila er til þess að líta að B verður 12 ára í ágúst en A 16 ára í október á þessu ári.  Liggur fyrir að verulegir hnökrar hafa verið í samskiptum þessara barna við stefnanda frá samvistarslitum sumarið 2007.  Að virtum skýrslum undir- og yfirmatsmanna telur dómurinn ólíklegt að aðilar nái að koma nauðsynlegum tengslum í viðunandi horf án faglegrar aðstoðar, en í því efni verður ekki horft framhjá vilja og rétti þessara barna.  Er í því viðfangi m.a. litið til 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna, sbr. auglýsingu nr. 18, 1992.  Að þessu virtu og þar sem hin faglega aðstoð hefur ekki verið veitt er það ákvörðun dómsins, sbr. heimildarákvæði 4. mgr. 34. gr. in fine barnalaganna, og með hliðsjón af hagsmunum nefndra barna, að hafna því að ákvarða inntak umgengnisréttarins.  Er litið svo á að aðilum sé fært að leita réttar síns um umgengni með úrskurði ef ekki vill betur innan skamms tíma þegar hin faglega aðstoð hefur verið veitt, sbr. ákvæði 47. gr. barnalaganna.

Með vísan til 1. mgr. 44. gr. barnalaga verður ákveðið að áfrýjun fresti ekki framkvæmd dómsins.

Eftir atvikum og með hliðsjón af 2. ml. 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91, 1991 þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málarekstri þessum. 

Báðir aðilar hafa gjafsókn, sbr. bréf dóms- og kirkjumálaráðuneytis, sem dagsett eru 22. október 2007 og 10. janúar 2008. 

Af hálfu lögmanna málsaðila hafa verið lagðir fram sundurliðaðir málskostnaðarreikningar ásamt yfirlitum yfir útlagðan kostnað.  Er krafist þóknunar vegna vinnu lögmannanna, af hálfu stefnanda frá 9. ágúst 2007 til 27. mars á þessu ári fyrir samtals 85,25 klukkustundir, en af hálfu stefnda frá 5. júlí 2007 til sama tíma á þessu ári fyrir samtals 91 klukkustund.  Fyrir hverja klukkustund áskilur lögmaður stefnanda sér 13.000 krónur og er þóknunin þannig 1.108.250 krónur, en við þá fjárhæð leggjast 271.521 króna í virðisaukaskatt.  Að auki er útlagður kostnaður vegna læknisvottorðs tiltekinn 29.000 krónur.  Fyrir hverja klukkustund áskilur lögmaður stefnda sér frá 15.800 til 17.500 krónur eftir tímabilum og er þóknunin þannig 1.500.500 krónur, en við þá fjárhæð leggjast 367.622 krónur í virðisaukaskatt.  Að auki er útlagður kostnaður vegna flugferða tiltekinn 123.490 krónur og vegna móta annarra lögmanna 30.380 krónur. 

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er málflutningsþóknun lögmanns hennar, Arnars Sigfússonar hdl., þykir, þegar aðstaðan í máli þessu er virt í heild ásamt umfangi þess, þar á meðal fjöldi þinghalda, þeim mikilvægu hagsmunum sem um var deilt, en einnig með hliðsjón af fyrrnefndum reikningi og loks að virtum dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 136/2009 varðandi tímagjald, hæfilega ákveðinn 840.000 krónur og hefur þá ekki verið lagður á virðisaukaskattur.  Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála tekur dómurinn ekki afstöðu til útlagðs kostnaðar.

Gjafsóknarkostnaður stefnda, sem er málflutningsþóknun lögmanns hans, Lárentsínusar Kristjánssonar hrl., þykir, að öllu ofangreindu virtu ásamt ferðatíma, hæfilega ákveðinn 952.000 krónur og hefur þá ekki verið lagður á virðisaukaskattur.  Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála tekur dómurinn ekki afstöðu til útlagðs kostnaðar.

Fyrir uppkvaðningu dóms þessa var gætt ákvæða 115. gr. laga nr. 91, 1991, sbr. framlagðar yfirlýsingar lögmanna aðila þar um.

Dóm þennan kveða upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari og meðdómsmennirnir Þorgeir Magnússon sálfræðingur og dr. Sigrún Sveinbjörnsdóttir sálfræðingur.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Y, skal fara með forsjá drengsins D.

Stefnandi skal greiða einfalt meðlag með D frá uppkvaðningu dómsins til 18 ára aldurs hans.

Regluleg umgengi stefnanda við D og stefnda við C skal vera aðra hverja helgi á föstudögum og fram á sunnudagskvöld, þannig að þeir dvelji saman til skiptis á heimilum málsaðila.  Á sama hátt dvelji drengirnir jafnt hjá aðilum í vetrarfríum og fimm vikur á heimili stefnanda á sumrin og jafnlangan tíma á heimili stefnda.  Umgengni D og C á stórhátíðum skal vera þannig að bræðurnir verði saman hjá stefnanda á öðrum og þriðja degi jóla 2009 en þá um áramótin hjá stefnda, árið eftir snúist þetta við og síðan áfram koll af kolli.  Umgengni um páska skiptist til helminga eftir nánara samkomulagi.

Hafnað er kröfu um að ákveða inntak umgengnisréttar vegna barnanna A og B.

Áfrýjun fresti ekki framkvæmd dóms þessa.

Málskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, X, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Arnars Sigfússonar hdl., 842.600 krónur.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnda, Y, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Lárentsínusar Kristjánssonar hrl., 952.600 krónur.