Hæstiréttur íslands

Mál nr. 224/2016

Ezike Cajetan og Guðbjörg Lilja Magnúsdóttir (Davor Purušic hdl.)
gegn
íslenska ríkinu (enginn)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Flýtimeðferð

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var beiðni E og G um flýtimeðferð máls sem þau hyggjast höfða gegn I og Ú. Vísað var til þess að brottvísun E úr landi kæmi ekki í veg fyrir að hann gæti höfðað almennt einkamál til ógildingar á úrlausnum stjórnvalda. Var því ekki talið fullnægt því skilyrði 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að brýn þörf væri á skjótri úrlausn málsins.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Helgi I. Jónsson og Hjördís Hákonardóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 17. mars 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. mars 2016, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um flýtimeðferð í fyrirhuguðu dómsmáli þeirra á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að gefa út stefnu og heimila flýtimeðferð. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki ekki átt þess kost að láta málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð fram gögn um að sóknaraðilinn Ezike Cajetan hafi 25. febrúar 2016 sótt um frestun réttaráhrifa úrskurðar kærunefndar útlendingamála 11. sama mánaðar, sbr. 6. mgr. 33. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002. Hefur því erindi ekki verið svarað, þrátt fyrir að tveir mánuðir séu liðnir frá því að beiðnin var send.

Í 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 koma fram þau skilyrði sem fullnægja þarf svo mál geti sætt flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laganna. Málið þarf í fyrsta lagi að varða ákvörðun eða athöfn stjórnvalds, eða verkfall, verkbann eða aðrar aðgerðir, sem tengjast vinnudeilu, og fara eftir almennum reglum laga nr. 91/1991. Þá þarf í öðru lagi að vera brýn þörf á skjótri úrlausn málsins, enda hafi hún í þriðja lagi almenna þýðingu eða varði stórfellda hagsmuni þess sem hyggst höfða málið.

Dómsmál það er sóknaraðilar vilja höfða varðar ákvörðun stjórnvalds í skilningi 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 og er fyrstnefnda skilyrði lagaákvæðisins því fullnægt.

Sóknaraðilar rökstyðja brýna þörf á skjótri úrlausn málsins með því að brottvísun sóknaraðilans Ezike hefði þær afleiðingar að hagsmunir þeirra af málsókninni fari forgörðum. Samkvæmt 2. málslið 60. gr. stjórnarskrárinnar getur enginn komið sér hjá að hlýða yfirvaldsboði í bráð með því að skjóta máli til dóms. Þessi meginregla birtist jafnframt í 6. mgr. 33. gr. laga nr. 96/2002 þar sem fram kemur að málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið fresti ekki framkvæmd hennar. Myndi brottvísun ekki koma í veg fyrir að hann gæti höfðað almennt einkamál til ógildingar á úrlausnum stjórnvalda. Þar sem að ekki hafa verið færð fram önnur haldbær rök fyrir því að aðkallandi sé fyrir sóknaraðila að fá flýtimeðferð er ekki fullnægt því skilyrði 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 að brýn þörf sé á skjótri úrlausn málsins. Þegar af þeirri ástæðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. mars 2016.

I

Með bréfi, dagsettu 4. mars 2016, sem barst dómstólnum sama dag, fer Davor Purusic héraðsdómslögmaður þess á leit við dóminn að mál sem umbjóðendur hans, Ezike Cajetan, fæddur [...] 1982, nígerískur ríkisborgari og Guðbjörg Lilja Magnúsdóttir, kt. [...], Vallarási 4, Reykjavík, hyggjast höfða á hendur íslenska ríkinu til ógildingar á úrskurði kærunefndar útlendingamála í máli nr. 46/2016, frá 11. febrúar 2016, sæti flýtimeðferð samkvæmt ákvæðum XIX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Í bréfinu er þess óskað að kveðinn verði upp úrskurður ef erindinu er synjað.

II

Samkvæmt meðfylgjandi stefnu krefjast stefnendur þess „hvort fyrir sig, að ógiltur verði með dómi sá úrskurður Kærunefndar útlendingamála, frá 11. febrúar 2016 í máli nr. 46/2016, að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar frá 7. ágúst 2015 og ógildingar á ákvörðun Útlendingastofnunar í máli nr. 2014-00241, frá 7. ágúst 2015, að brottvísa Ezike Cajetan, f.d. [...] 1982, ríkisborgara Nígeríu, frá Íslandi og banna honum endurkomu til landsins í 2 ár.“ Þá krefjast báðir stefnendur málskostnaðar, ásamt virðisaukaskatti, að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.

Ágreiningur stefnanda lýtur að því hvort úrskurður kærunefndar útlendingamála í máli nr. 46/2016  hafi lagastoð. Telja stefnendur að úrskurðurinn fari í bága við 71. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög nr. 62/1994. Þá hafi kærunefnd útlendingamála ekki virt meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Fram kemur í beiðni lögmanns stefnenda að stefnendur telji sig hafa verulega hagsmuni af því að fá úr málinu skorið fyrir dómstólum þar sem niðurstaðan skipti sköpum fyrir líf þeirra og ekki sé unnt að fá hana fram nema fyrir atbeina dómstóla. Verði beiðninni synjað, muni réttaráhrifin þegar hafa áhrif á þann hátt að stefnanda, Ezike, verði gert að yfirgefa landið með þeim afleiðingum að þeir hagsmunir sem stefnendur ætla sér að verja með málsókninni muni fara forgörðum. Telja stefnendur að skilyrði 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, um brýna þörf á skjótri úrlausn málsins sem varði stórfellda hagsmuni þeirra séu uppfyllt og því beri að verða við kröfu þeirra um flýtimeðferð málsins fyrir dómstólnum.

III

Í 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, segir að aðili sem hyggst höfða mál vegna ákvörðunar eða athafnar stjórnvalds eða verkfalls, verkbanns eða annarra aðgerða sem tengjast vinnudeilu, og það færi ella eftir almennum reglum þeirra laga, geti óskað eftir því að málið sæti flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laganna. Skilyrði þess er að brýn þörf sé á skjótri úrlausn, enda hafi hún almenna þýðingu eða varði stórfellda hagsmuni aðila. Við mat á því hvenær brýn þörf sé á skjótri úrlausn dómstóla og hvenær úrlausn hafi almenna þýðingu eða varði stórfellda hagsmuni, verður að líta til atvika hverju sinni. Þar sem umrætt ákvæði felur jafnframt í sér afbrigði frá almennum málsmeðferðarreglum einkamálalaga verður að skýra það þröngri lögskýringu.

Óumdeilt er að fyrirhuguð málshöfðun stefnenda lýtur að ákvörðun stjórnvalds, í þessu tilviki úrskurði kærunefndar útlendingamála, og yrði málið rekið eftir almennum reglum einkamálalaga, féllist dómurinn ekki á að málið sætti flýtimeðferð. Dómurinn telur hins vegar að ekki séu uppfyllt önnur skilyrði hins tilvitnaða ákvæðis. Jafnframt verður að telja verulegan vafa leika á um aðild annars stefnenda, Guðbjargar Lilju, enda var hún ekki aðili að því stjórnsýslumáli sem hér er til umfjöllunar og lýtur úrskurður kærunefndar útlendingamála því ekki að henni. 

Líkt og að framan greinir staðfesti kærunefnd útlendingamála 11. febrúar sl. ákvörðun Útlendingastofnunar frá 7. ágúst 2015 um brottvísun Ezike Cajetan frá Íslandi og endurkomubann í tvö ár. Af gögnum málsins verður ekki séð að stefnandi hafi óskað eftir því að kærunefnd útlendingamála frestaði réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar, sbr. 6. mgr. 33. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002. Má hann því búast við því að verða vísað úr landi og breytir engu þar um hvort mál hans fái flýtimeðferð fyrir dóminum, sbr. einnig tilvitnað ákvæði útlendingalaga. Hins vegar á stefnandi þess kost að reka málið fyrir íslenskum dómstólum sem venjulegt einkamál  þótt hann sé ekki staddur hér landi. 

Með vísan til ofanritaðs verður hvorki séð að brýn þörf sé á skjótri úrlausn dómsins, né að hagsmunir stefnanda séu svo stórfelldir í skilningi 1. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 að rétt sé að verða við kröfu um að mál þetta verði rekið sem flýtimeðferðarmál. Beiðninni er því hafnað og synjað um útgáfu stefnu í málinu.

Ingimundur Einarsson dómstjóri kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Hafnað er beiðni um flýtimeðferð í fyrirhuguðu dómsmáli Ezike Cajetan og Guðbjargar Lilju Magnúsdóttur gegn íslenska ríkinu og Útlendingastofnun og synjað um útgáfu stefnu í málinu.