Hæstiréttur íslands
Mál nr. 121/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Miðvikudaginn 3. mars 2010. |
|
Nr. 121/2010. |
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Alda Hrönn Jóhannsdóttir fulltrúi) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. febrúar 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. mars 2010. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. febrúar 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 5. mars 2010 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Við rannsókn lögreglu hefur meðal annars komið fram að hringt hafi verið til Kaupmannahafnar í mann þann sem handtekinn var í Leifsstöð með fíkniefni 11. febrúar 2010 úr almenningssíma við Smáratorg í Kópavogi á tilteknum tíma. Eftirlitsmyndavélar eru taldar sýna að maður, sem lögreglumenn báru kennsl á sem varnaraðila, hafi talað í almenningssímann á sama tíma. Aðrar upplýsingar sem fram hafa komið í málinu tengja varnaraðila við manninn á þann veg að lögregla var farin að fylgjast með varnaraðila vegna málsins áður en framangreint atvik átti sér stað. Með vísan til þessa verður fallist á með sóknaraðila að fram sé kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili kunni að eiga þátt í innflutningi fíkniefnanna. Er skilyrðum 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 því fullnægt til að verða við kröfu sóknaraðila. Verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. febrúar 2010.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 5. mars 2010, kl. 16.00.
Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum segir að Y, kt. [...], hafi verið stöðvaður í tollhliði við reglubundið eftirlit er hann hafi komið til landsins með flugi nr. AEU-902 frá Kaupmannahöfn, Danmörku, fimmtudaginn 11. febrúar s.l., vegna gruns um að hann hefði fíkniefni meðferðis í farangri sínum. Við eftirlit hafi fundist rúm 800 g af kókaíni falin í ferðatösku hans. Hafi rannsókn lögreglu leitt í ljós að sterkur rökstuddur grunur sé á að kærði muni hafa verið í samskiptum við Y í því skyni að skipuleggja ferð hans utan og að hafa látið hann hafa síma til fararinnar. Telji lögregla rökstuddan grun til að ætla að kærði kunni að vera viðriðinn innflutning fíkniefnanna og m.a. komið að skipulagningu hans.
Rannsókn máls þessa sé í fullum gangi. Meðal þess sem rannsaka þurfi sé aðdragandi ferðar Y utan og hingað til landsins og tengsl Y við kærða og aðra hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi og/eða erlendis auk annarra atriða. Tveir menn sæti nú gæsluvarðhaldi vegna málsins. Það magn fíkniefna sem lögregla hafi þegar haldlagt þyki benda til þess að efnin hafi verið ætluð til sölu og dreifingar og háttsemi hans kunni að varða við ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk ákvæði laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Lögregla telji að ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hann laus.
Þess sé krafist að kærða verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi skv. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008. Þá sé þess jafnframt krafist að kærða verði gert að sæta takmörkunum sbr. a- til f-liða 1. mgr. sömu greinar.
Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni telur lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 5. mars 2010 kl. 16.00.
Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um aðild að innflutningi fíkniefna og getur meint brot varðað fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins er í fullum gangi. Haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins með því að koma sönnunargögnum undan eða hafa áhrif á samseka. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er því fallist á kröfur lögreglustjóra, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 5. mars 2010, kl. 16:00.
Kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.