Hæstiréttur íslands

Mál nr. 153/2015


Lykilorð

  • Skuldabréf
  • Ábyrgð
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 22. október 2015.

Nr. 153/2015.

Marta Gunnlaug Ragnarsdóttir

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

gegn

Lánasjóði íslenskra námsmanna

(Sigurbjörn Þorbergsson hrl.)

Skuldabréf. Ábyrgð. Vanreifun. Frávísun máls frá héraðsdómi.

L höfðaði mál á hendur H og M til greiðslu skuldar vegna námslána H. Til skuldarinnar hafði verið stofnað með útgáfu níu skuldabréfa sem M gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir. Í þeim öllum var ákvæði þess efnis að endurgreiðsla lána hæfist þremur árum eftir námslok en stjórn L ákvæði hvað teldust námslok í því sambandi. Í dómi Hæstaréttar kom fram að af hálfu L hefðu ekki verið lögð fram nein gögn um við hvaða tímamark námslok H hefðu verið miðuð en af málatilbúnaði hans væri ljóst hver væri elsti gjalddagi skuldarinnar án þess að gerð væri grein fyrir hvaða atvik lægju að baki þeirri dagsetningu. Var því talið að reifun málsins væri svo áfátt að vísa yrði því frá héraðsdómi, sbr. e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. febrúar 2015. Hún krefst þess aðallega að úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. febrúar 2014, þar sem hafnað var frávísunarkröfu hennar, verði felldur úr gildi og málinu vísað frá héraðsdómi, en til vara að hún verði sýknuð af kröfu stefnda. Í báðum tilvikum krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Að því frágengnu krefst áfrýjandi lækkunar á kröfu stefnda og að málskostnaður verði látinn niður falla.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Mál þetta höfðaði stefndi 12. ágúst og 11. september 2013 á hendur Hjördísi Brynju Mörtudóttur og áfrýjanda óskipt til greiðslu 4.013.038 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 67.502 krónum frá 1. mars 2012 til 1. september sama ár, af 131.830 krónum frá þeim degi til 1. mars 2013, af 202.381 krónu frá þeim degi til 16. júlí sama ár og af 4.013.038 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Í stefnu til héraðsdóms segir að krafan sé vegna námslána áðurnefndrar Hjördísar, en þau hafi verið tryggð með sjálfskuldarábyrgð áfrýjanda. Til skuldarinnar hafi verið stofnað með útgáfu níu skuldabréfa, sem hvert um sig hafi verið tilgreint með númeri og fjárhæð. Að námi loknu hafi lánin verið sameinuð og þeim gefið nýtt sameiginlegt númer, S-921293. Þá segir eftirfarandi í stefnunni: „Vegna verulegra vanskila allt frá gjalddaga þann 1.3.2012 var skuldin öll gjaldfelld samkvæmt heimild í skuldabréfinu sjálfu þann 16.07.2013.“ Um nánari „sundurliðun kröfunnar“ segir að 67.502 krónur hafi gjaldfallið 1. mars 2012, 64.328 krónur 1. september sama ár, 70.551 króna 1. mars 2013 og 3.810.657 krónur 16. júlí sama ár, eða alls 4.013.038 krónur, sem sé stefnufjárhæð málsins. Enn fremur kemur fram í stefnu að málið sé höfðað sem skuldabréfamál eftir ákvæðum XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Á því sé byggt að með áritun sinni á skuldabréfin níu hafi áfrýjandi tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á greiðslu lánsins í samræmi við skilmála þess.

Með hinum áfrýjaða dómi, sem kveðinn var upp 4. desember 2014, var krafa stefnda tekin til greina eins og hún var fram sett, en vörnum var ekki haldið uppi af hálfu aðalskuldara. Frávísunarkröfu áfrýjanda var hafnað með úrskurði héraðsdóms 21. febrúar sama ár.

II

Fyrrgreind níu skuldabréf voru gefin út á tímabilinu frá 19. febrúar 1986 til 17. apríl 1989. Í málinu liggja fyrir bréf aðalskuldara 14. júlí 1997 og 20. apríl 1998, þar sem farið var fram á frestun endurgreiðslna um eitt ár vegna áranna 1997 og 1998. Í héraðsgreinargerð áfrýjanda kom fram að aðalskuldari hafi verið í námi frá hausti 1985 til vors 1989 og aftur frá hausti 1994 til vors 1998, en eftir það hafi hún ekki stundað lánshæft nám.

Í öllum skuldabréfunum var svofellt ákvæði: „Endurgreiðsla lána hefst þremur árum eftir námslok. Stjórn sjóðsins ákveður hvað teljast námslok í þessu sambandi.“ Af hálfu stefnda hafa ekki verið lögð fram nein gögn um við hvaða tímamark námslok lántaka voru miðuð, en af málatilbúnaði hans er ljóst að elsti gjalddagi skuldarinnar var miðaður við 1. mars 2012, án þess að gerð sé grein fyrir hvaða atvik liggi að baki þeirri dagsetningu. Er reifun málsins því svo áfátt, sbr. e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, að fallist verður á aðalkröfu áfrýjanda um vísun þess frá héraðsdómi.

Stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Stefndi, Lánasjóður íslenskra námsmanna, greiði áfrýjanda, Mörtu Gunnlaugu Ragnarsdóttur, samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. desember 2014.

Mál þetta, sem dómtekið var 7. nóvember 2014, var höfðað með stefnu, birtri fyrir Mörtu Gunnlaugu Ragnarsdóttur 12. ágúst 2013 og birtri fyrir Hjördísi Brynju Mörtudóttur 11. september s.á., á hendur þeim til greiðslu skuldar samkvæmt skuldabréfum.

Dómkrafa stefnanda er að stefndu verði gert að greiða stefnanda óskipt (in solidum) 4.013.038 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 67.502 krónum frá 1.3.2012 til 1.9.2012, af 131.830 krónum frá 1.9.2012 til 1.3.2013, af 202.381 krónu frá 1.3.2013 til 16.07.2013, en af 4.013.038 krónum frá 16.7.2013 til greiðsludags. Þá er þess krafist að stefndu verði dæmdar óskipt til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu að mati dómsins, að viðbættum 25,5% virðisaukaskatti.

Af hálfu stefndu Hjördísar Brynju Mörtudóttur er ekki tekið til varna í málinu og engar kröfur gerðar.

Af hálfu stefndu Mörtu Gunnlaugar Ragnarsdóttur er þess krafist að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda. Krefst hún málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.

Í greinargerð stefndu Mörtu Gunnlaugar Ragnarsdóttur var þess aðallega krafist að málinu yrði hvað hana varðar vísað frá dómi. Frávísunarkröfu hennar var hafnað með úrskurði dómsins 21. febrúar 2014.

Málsatvik

Krafa stefnanda á hendur stefndu er vegna námslána, sem stefnda Hjördís Brynja Mörtudóttir tók á árunum 1986 til 1989 hjá stefnanda og tryggð voru með sjálfskuldarábyrgð stefndu Mörtu Gunnlaugar Ragnarsdóttur. Um lántökurnar voru gerð níu skuldabréf sem lýst er í stefnu og lögð voru fram í frumriti við þingfestingu málsins. Í skilmálum allra skuldabréfanna kemur fram að endurgreiðsla lánanna skuli hefjast þremur árum eftir námslok og ákveði stjórn lánasjóðsins hvað teljist námslok í þessu sambandi.

Samkvæmt greinargerð stefndu Mörtu Gunnlaugar hóf stefnda Hjördís Brynja Mörtudóttir lánshæft nám í myndlist haustið 1985 við skólann École des Beaux Arts í Frakklandi og var þar til vors 1986. Eftir að hafa eignast barn í janúar 1987 fór Hjördís Brynja aftur til náms í Frakklandi haustið 1987 og var þar til vors 1988. Að því loknu var hún við nám í Handíða- og myndlistarskólanum í Reykjavík veturinn 1988 til vors 1989. Haustið 1994 fór stefnda Hjördís Brynja til náms í Rudolf Steiner Högskolan í Svíðþjóð. Þaðan lauk hún BA/BED prófi vorið 1998 og hefur ekki stundað lánshæft nám eftir það. Á síðara námstímabilinu tók stefnda Hjördís Brynja námslán hjá stefnanda á grundvelli laga nr. 21/1992, svokallað R-lán.

Frá því er greint í stefnu að áður veitt námslán, þau sem mál þetta varðar, hafi verið sameinuð að námi loknu og gefið nýtt sameiginlegt númer, S-921293. Námslánið sé verðtryggt og miðað við breytingar á lánskjaravísitölu. Vegna vanskila frá gjalddaga þann 1. mars 2012 hafi skuldin öll verið gjaldfelld samkvæmt heimild í skuldabréfunum sjálfum þann 16. júlí 2013.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi sundurliði kröfu sína þannig:

Gjalddagi 1. mars 2012                         67. 502 krónur

Gjalddagi 1. september 2012                               64.328 krónur

Gjalddagi 1. mars 2013                         70.551 króna

Gjalddagi 16. júlí 2013                 3.810.657 krónur

Alls 4.013.038 krónur sem sé stefnufjárhæð málsins. Skuld þessi hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé stefnanda nauðsyn að fá dóm fyrir kröfu sinni. Mál þetta sé rekið sem skuldabréfamál eftir ákvæðum XVII. kafla laga nr. 91/1991 samkvæmt ákvæðum skuldabréfsins.

Stefnandi byggi á því að með áritun sinni á skuldabréfin hafi stefnda Hjördís Brynja Mörtudóttir skuldbundið sig til að greiða skuldina í samræmi við skilmála skuldabréfanna. Byggt sé á því að stefnda Marta Gunnlaug Ragnarsdóttir hafi með áritun sinni á skuldabréfin tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á greiðslu lánsins í samræmi við skilmála þess.

Vísað sé til meginreglu kröfu- og samningaréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga og til meginreglu kröfuréttar um ábyrgðarskuldbindingar. Þá vísi stefnandi til laga nr. 21/1992, einkum II. kafla laganna. Krafa um vexti og dráttarvexti styðjist við reglur III. kafla laga nr. 38/2001 og krafa um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Um varnarþing vísist til ákvæða skuldabréfa og 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt styðjist við lög nr. 50/1988, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og sé því nauðsynlegt fá dæmdan virðisaukaskatt úr hendi stefndu.

Málsástæður og lagarök stefndu Mörtu Gunnlaugar

Sýknukrafan sé í fyrsta lagi á því reist að stefnda sé ekki ábyrgðarmaður á því svokallaða láni sem liggi til grundvallar kröfugerð stefnanda í málinu og hlotið hafi auðkennið S-921293. Stefnandi reki mál þetta samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga nr. 91/1991 til heimtu skuldar samkvæmt þessu tiltekna láni, þótt sá lánssamningur sé ekki lagður fram í málinu, en ekki til heimtu krafna samkvæmt skuldabréfunum sem stefnda ábyrgðist greiðslu á við útgáfu bréfanna.

Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að taka skuli afstöðu til krafna stefnanda á grundvelli upphaflegu skuldabréfanna sé sýknukrafa stefndu byggð á fyrningarreglum.

Samkvæmt ákvæðum skuldabréfanna sem stefnda Marta Gunnlaug hafi gengist í ábyrgð á skyldi endurgreiðsla lána hefjast þremur árum eftir námslok. Því námi sem lánin voru veitt út á hafi lokið árið 1989 eða fyrir 24 árum síðan. Samkvæmt því hafi endurgreiðslur lánanna átt að byrja á árinu 1992. Það hafi að sjálfsögðu verið á ábyrgð stefnanda að fylgja kröfuréttindum sínum eftir, en stefnda Marta Gunnlaug hafi ekki verið krafin um greiðslu á grundvelli ábyrgðarinnar fyrr en með tilkynningu um gjaldfellingu svokallaðs láns nr. S-921293.

Í öllum skuldabréfunum sem lögð séu fram í málinu sé svofellt gjaldfellingarákvæði:

Standi lántaki ekki í skilum með greiðslu afborgana á réttum tíma er lánið allt gjaldfallið án uppsagnar.

Samkvæmt þessu hafi allar kröfur samkvæmt öllum skuldabréfunum verið gjaldfallnar meira en tuttugu árum áður en stefndu Mörtu Gunnlaugu hafi verið tilkynnt sérstaklega um gjaldfellingu láns nr. S-921293. Allar kröfur samkvæmt umræddum skuldabréfum hafi þá fyrir löngu verið fyrndar gagnvart henni sem ábyrgðarmanni. Vísi hún til 5. gr. þágildandi laga um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905, en samkvæmt því ákvæði hefjist fyrningarfrestur kröfu á þeim degi þegar krafan yrði gjaldkræf. Kröfur samkvæmt ábyrgðarskuldbindingum eins og þeirri sem stefnda Marta Gunnlaug hafi undirgengist með áritun á skuldabréfin fyrnist á fjórum árum, sbr. 4. tölul. 3. gr. sömu laga. Raunar gildi einu þótt kröfurnar yrðu felldar undir 4. gr. laganna og fyrningarfrestur teldist vera tíu ár, kröfurnar séu samt allar fyrndar gagnvart stefndu Mörtu Gunnlaugu.

Vísað sé, auk framangreindra lagaákvæða, til almennra reglna sem gildi á sviði kröfu- og samningaréttar um ábyrgðarloforð og snerti aukningu á áhættu ábyrgðarmanns og sjálfstætt gildi loforðs hans gagnvart kröfuhafa. Málskostnaðarkrafa byggist á 130. gr. laga um meðferð einkamála og sé þess krafist að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til kostnaðar stefndu af virðisaukaskatti vegna lögmannskostnaðar.

Niðurstaða

Stefnda Marta Gunnlaug Ragnarsdóttir krefst sýknu í málinu og bendir í fyrsta lagi á það að stefnandi reki mál þetta samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga nr. 91/1991 til heimtu skuldar samkvæmt tilteknu láni, S-921293, þótt sá lánssamningur sé ekki lagður fram í málinu. Það sé ekki höfðað til heimtu krafna samkvæmt skuldabréfunum sem stefnda ábyrgðist greiðslu á við útgáfu bréfanna.

Í málatilbúnaði stefnanda er því lýst að til skuldarinnar hafi verið stofnað með níu skuldabréfum sem tilgreind eru í stefnu með númerum og lögð hafa verið fram í málinu með undirritun stefndu Mörtu Gunnlaugar sem ábyrgðarmanns á þau öll en auk þess einnig sem umboðsmanns skuldarans, stefndu Hjördísar Brynju, á sum þeirra. Í stefnu segir að veitt námslán hafi að námi loknu verið sameinuð og gefið nýtt sameiginlegt númer, S-921293. Mál þetta verður því að telja höfðað til greiðslu skuldar samkvæmt skuldabréfunum níu, sem númerið S-921293 vísar til. Í texta þeirra skuldabréfa er skráður samningur um hina sérstöku málsmeðferð, sbr. nú c-lið 117. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Verður ekki séð að vörnum stefndu Mörtu Gunnlaugar hafi verið áfátt vegna þess að stefnandi höfðar málið sem skuldabréfamál, svo sem honum var heimilt, og er sýknukröfu stefndu á þessum grundvelli hafnað.

Stefnda Marta Gunnlaug krefst í öðru lagi sýknu á grundvelli fyrningarreglna og vísar til stuðnings kröfunni til þess að samkvæmt skuldabréfunum skyldi endurgreiðsla skuldarinnar hefjast þremur árum eftir námslok og hefði því átt að hefjast árið 1992. Í greinargerð segir að innheimta hjá stefndu Mörtu Gunnlaugu hafi ekki hafist þá, en í skuldabréfunum sé ákvæði um að lán sé allt gjaldfallið án uppsagnar ef ekki eru staðin skil á greiðslu afborgana á réttum tíma. Því hafi allar kröfur samkvæmt skuldabréfunum verið gjaldfallnar meira en tuttugu árum áður en stefnandi hafi tilkynnt stefndu Mörtu Gunnlaugu um gjaldfellingu láns nr. S-921293. Kröfurnar séu því fyrndar.

Stefnandi byggir málsókn sína á því að elsti gjalddagi í vanskilum á þeirri skuld sem hér er til innheimtu hafi verið 1. mars 2012, en lánið hafi verið gjaldfellt vegna þeirra og eftirfarandi vanskila þann 16. júlí 2013. Samkvæmt þeim gögnum sem stefnandi hefur lagt fram í málinu hóf stefnandi innheimtu lánsins á árinu 1992, á gjalddögum 1. mars og 1. september það ár, og voru þær kröfur greiddar 12. nóvember 1993. Hlé var gert á innheimtu samkvæmt skuldabréfunum níu þar til 1. mars 2012.

Fram kemur í greinargerð stefndu Mörtu Gunnlaugar að stefnda Hjördís Brynja hafi hafið nám að nýju á árinu 1994, sem lokið hafi árið 1998. Af gögnum málsins má ráða að stefnda Hjördís Brynja hafi fengið námslán, sem merkt eru með bókstafnum R hjá stefnanda, meðan á þessu síðara námstímabili stóð og að stefnda Marta Gunnlaug hafi einnig verið ábyrgðarmaður á þeim lánum. Stefnandi hefur lagt fram tvö bréf frá stefndu Hjördísi Brynju til stefnanda, annað frá 14. júlí 1997 og hitt frá 20. apríl 1998, þar sem þess er óskað að endurgreiðslum námslána vegna áranna, annars vegar 1997 og hins vegar 1998, verði frestað um eitt ár. Samkvæmt gögnum málsins hófst innheimta R-lánsins 1. mars 1999 og voru gjalddagar lánsins 1. mars og 1. september ár hvert og síðasti gjalddagi lánsins er 1. september 2011.

Námslán samkvæmt þeim skuldabréfum sem mál þetta snýst um var veitt á grundvelli laga nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki. Í 18. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna sagði að væri skuldari láns samkvæmt þeim lögum jafnframt að endurgreiða námslán samkvæmt lögum nr. 72/1982 eða eldri lögum skyldi hann fyrst endurgreiða að fullu lán sem tekin séu samkvæmt þessum lögum. Með lögum nr. 140/2004 var gerð sú breyting á 18. gr. laga nr. 21/1992, að í 2. mgr. greinarinnar segir nú að ef lánþegi skuldar námslán sem var úthlutað á árunum 1992-2004, svokallað R-lán, og jafnframt námslán samkvæmt lögum nr. 72/1982 eða eldri lögum skal hann fyrst endurgreiða að fullu R-lánið. Greiðslur af eldri námsskuldum frestast þá þar til R-lánið er að fullu greitt. Af frumvarpi til breytingarlaganna og meðferð þess í þinginu þykir mega ráða að ætlun löggjafans hafi verið að við það skyldi miðað hvenær greiðslum R-lána skyldi vera lokið fremur en það hvenær þeim lyki í raun.

Ekki verður fallist á það með stefndu Mörtu Gunnlaugu að ákvæði skuldabréfanna, um það að afborganir skuli hefjast þremur árum eftir námslok og hvernig þeim skuli hagað, feli það í sér að vanskil teljist hafa orðið með þeim áhrifum að afdráttarlaust gjaldfellingarákvæði skuldabréfanna komi til framkvæmda, þegar sá tími kemur án þess að stefnandi geri reka að því að tilkynna ábyrgðarmanni um gjalddaga. Frumkvæðisskyldu stefnanda í þessu efni má m.a. leiða af því að bæði er gert ráð fyrir því í texta skuldabréfanna að það sé stefnandi sem ákveður hvað teljist námslok og þar með hvenær endurgreiðslur hefjist og af því að hann geti veitt undanþágur frá árlegum endurgreiðslum. Í skuldabréfunum segir að heimilt sé að greiða þau upp örar en mælt sé fyrir og lagabreytingin um frestun innheimtu eldri lána, sem gerð var skuldara til hagsbóta, kemur ekki í veg fyrir að skuldari eða ábyrgðarmaður geti greitt upp skuldina áður en til innheimtu hennar kemur, kjósi þeir að gera það.

Með hliðsjón af fyrrgreindum lagabreytingum og námsferli Hjördísar Brynju þykir ljóst hvers vegna hlé varð á innheimtu námsláns samkvæmt skuldabréfunum sem mál þetta snýst um, frá því innheimta hófst á árinu 1992 þar til henni var fram haldið á árinu 2012. Gögn málsins bera með sér að stefnda Marta Gunnlaug væri einnig ábyrgðarmaður fyrir greiðslu R-lánsins. Hún mátti vita að til innheimtu hins eldra, verðtryggða en vaxtalausa S-láns, myndi koma.

Fyrir liggur að innheimta stefnanda á því láni hófst árið 1992. Þótt afborgun af láninu samkvæmt gjalddögum á því ári hafi dregist, þá var láninu samkvæmt gögnum málsins komið í skil í nóvember 1993. Endurgreiðslur S-lánsins voru því hafnar og lánið í skilum áður en stefnda Hjördís Brynja mun hafa hafið nám að nýju og töku nýrra námslána, R-lána samkvæmt lögum nr. 21/1992. Eftir að síðara námstímabilinu lauk var, að veittum umbeðnum fresti, fyrst krafist endurgreiðslu á R-lánum, samkvæmt skýrum lagafyrirmælum svo sem fyrr er rakið, áður en innheimtu S-lánsins var haldið áfram þann 1. mars 2012. Þegar stefndu Mörtu Gunnlaugu var tilkynnt með bréfi, dags. 17. júlí 2013, að S-lánið hefði verið gjaldfellt, þá voru þrír gjalddagar komnir í vanskil eftir að innheimta hófst að nýju. Þær kröfur voru ekki fyrndar þegar mál þetta var þingfest í september 2013. Í máli þessu eru atvik ólík þeim sem fyrir hendi voru í máli stefnanda gagnvart öðrum lántaka sem fjallað var um í dómi Hæstaréttar í máli nr. 242/2010, og lögmaður stefndu Mörtu Gunnlaugar vísaði til við málflutning, að því leyti að lánið sem hér um ræðir var ekki í vanskilum og þar af leiðandi ekki gjaldfallið þegar innheimta þess hófst að nýju árið 2012.

Stefnda Hjördís Brynja Mörtudóttir hefur ekki tekið til varna í málinu. Með undirritun sinni á skuldabréfin tókust báðar stefndu á hendur óskipta ábyrgð á endurgreiðslu lánsins til stefnanda.

Stefnandi hefur með gögnum sýnt fram á hvernig krafa hans er til komin, sundurliðuð og útreiknuð í samræmi við yfirlit sem lagt er fram í málinu af hans hálfu, allar gjaldfallnar afborganir eru í stefnu tilgreindar ásamt gjalddaga, svo og eftirstöðvar miðað við þann dag þegar lánið var gjaldfellt 16. júlí 2013. Í stefnu kemur fram hvernig lánið sé verðtryggt og þar er að finna upplýsingar um það hvernig skuldin er til komin. Þykir stefnandi með framlögðum gögnum hafa sýnt fram á réttmæti kröfu sinnar gagnvart báðum stefndu og verður fallist á kröfu hans eins og hún er fram sett og stefndu gert óskipt að greiða stefnanda umkrafða skuld.

Með vísun til 1. mgr. og 2. mgr. 130. gr.laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, verður stefndu gert að greiða stefnanda óskipt málskostnað, sem, að teknu tilliti til þess að ákvörðun um málskostnað var látin bíða efnisúrlausnar málsins þegar leyst var úr frávísunarkröfu stefndu Mörtu Gunnlaugar, er hæfilega ákveðinn 350.000 krónur að viðbættum virðisaukaskatti.

Dóminn kvað upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð

Stefndu, Hjördís Brynja Mörtudóttir og Marta Gunnlaug Ragnarsdóttir, greiði stefnanda, Lánasjóði íslenskra námsmanna, óskipt (in solidum) 4.013.038 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 67.502 krónum frá 1.3.2012 til 1.9.2012, af 131.830 krónum frá 1.9.2012 til 1.3.2013, af 202.381 krónu frá 1.3.2013 til 16.07.2013, en af 4.013.038 krónum frá 16.7.2013 til greiðsludags.

Stefndu greiði stefnanda óskipt í málskostnað 350.000 krónur að viðbættum virðisaukaskatti.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. febrúar 2014.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefndu Mörtu Gunnlaugar Ragnarsdóttur 28. janúar 2014, var höfðað með stefnu, birtri fyrir henni 12. ágúst 2013 og birtri fyrir Hjördísi Brynju Mörtudóttur 11. september s.á., á hendur þeim til greiðslu skuldar samkvæmt skuldabréfum.

Dómkrafa stefnanda er að stefndu verði gert að greiða stefnanda óskipt (in solidum) 4.013.038 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 67.502 kr. frá 1.3.2012 til 1.9.2012, af 131.830 kr. frá 1.9.2012 til 1.3.2013, af 202.381 kr. frá 1.3.2013 til 16.07.2013, af 4.013.038 kr. frá 16.7.2013 til greiðsludags. Þá er þess krafist að stefndu verði dæmdar óskipt til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu að mati dómsins, að viðbættum 25,5% virðisaukaskatti.

Af hálfu stefndu Hjördísar Brynju Mörtudóttur er ekki tekið til varna í málinu og engar kröfur gerðar.

Af hálfu stefndu Mörtu Gunnlaugar Ragnarsdóttur er þess aðallega krafist að málinu verði hvað hana varðar vísað frá dómi, en til vara er þess krafist að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu samkvæmt mati dómsins eða samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti.

Stefnda Marta Gunnlaug Ragnarsdóttir er sóknaraðili í þeim þætti málsins sem hér er til úrskurðar og krefst frávísunar málsins frá dómi hvað hana varðar og málskostnaðar að skaðlausu. Stefnandi er varnaraðili í þessum þætti málsins og krefst þess að frávísunarkröfunni verði hafnað.

Í upphafi þinghalds til málflutnings um frávísunarkröfuna óskaði lögmaður stefnanda eftir að fá að leggja fram skjöl. Að fram komnum mótmælum lögmanns stefndu var ákveðið, með vísun til meginreglu 2. mgr. 100. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, að fleiri skjöl yrðu ekki lögð fram í málinu áður en leyst hefði verið úr kröfu um frávísun. 

Málsatvik

Krafa stefnanda er vegna námslána, sem stefnda Hjördís Brynja Mörtudóttir tók á árunum 1986 til 1989 hjá stefnanda og tryggð voru með sjálfskuldarábyrgð stefndu Mörtu Gunnlaugar Ragnarsdóttur. Um lántökurnar voru gerð níu skuldabréf sem lýst er í stefnu og lögð voru fram í frumriti við þingfestingu málsins. Í skilmálum allra skuldabréfanna kemur fram að endurgreiðsla lánanna skuli hefjast þremur árum eftir námslok og ákveði stjórn lánasjóðsins hvað teljist námslok í þessu sambandi. Frá því er greint í stefnu að veitt námslán hafi verið sameinuð að námi loknu og gefið nýtt sameiginlegt númer, S-921293. Námslánið sé verðtryggt og miðað við breytingar á lánskjaravísitölu. Vegna vanskila frá gjalddaga þann 1. mars 2012 hafi skuldin öll verið gjaldfelld samkvæmt heimild í skuldabréfunum sjálfum þann 16. júlí 2013. Samkvæmt greinargerð stefndu Mörtu Gunnlaugar hóf Hjördís Brynja nám að nýju haustið 1994 og lauk því vorið 1998.

Málsástæður og lagarök stefnanda fyrir dómkröfum sínum

Stefnandi sundurliði kröfu sína þannig:

Gjalddagi 1. mars 2012                            67. 502 krónur

Gjalddagi 1. september 2012                   64.328 krónur

Gjalddagi 1. mars 2013                            70.551 krónur

Gjalddagi 16. júlí 2013                    3.810.657 krónur

Alls 4.013.038 krónur sem sé stefnufjárhæð málsins. Skuld þessi hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé stefnanda nauðsyn að fá dóm fyrir kröfu sinni. Mál þetta sé rekið sem skuldabréfamál eftir ákvæðum XVII. kafla laga nr. 91/1991 samkvæmt ákvæðum skuldabréfsins.

Stefnandi byggi á því að með áritun sinni á skuldabréfin hafi stefnda Hjördís Brynja Mörtudóttir skuldbundið sig til að greiða skuldina í samræmi við skilmála skuldabréfanna. Byggt sé á því að stefnda Marta Gunnlaug Ragnarsdóttir hafi með áritun sinni á skuldabréfin tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á greiðslu lánsins í samræmi við skilmála þess.

Vísað sé til meginreglu kröfu- og samningaréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga og til meginreglu kröfuréttar um ábyrgðarskuldbindingar. Þá vísi stefnandi til laga nr. 21/1992, einkum II. kafla laganna. Krafa um vexti og dráttarvexti styðjist við reglur III. kafla laga nr. 38/2001 og krafa um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Um varnarþing vísist til ákvæða bréfsins sjálfs og 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt styðjist við lög nr. 50/1988, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og því nauðsyn að fá dæmdan virðisaukaskatt úr hendi stefndu.

Við þingfestingu leggi stefnandi fram til sönnunar kröfum sínum skuldabréf, greiðsluyfirlit, innheimtubréf og fleiri skjöl en áskilji sér rétt til að leggja fram frekari gögn og hafa uppi frekari málsástæður gefist tilefni til.

Málsástæður og lagarök stefndu Mörtu Gunnlaugar fyrir frávísunarkröfu sinni

Í stefnu segi að málið sé rekið sem skuldabréfamál eftir ákvæðum XVII. kafla laga nr. 91/1991. Af stefnunni og fram lögðum skjölum sé ljóst að kröfur stefnanda í málinu séu reistar á skjali sem hjá stefnanda hafi fengið númerið S-921293. Þetta komi fram á dómskjölum og sé einnig reifað í stefnunni. Þar sem sjálft kröfuskjalið sé ekki lagt fram í málinu sé augljóslega ekki hægt að reka málið eftir XVII. kafla laga nr. 91/1991 og beri þess vegna að vísa málinu frá dómi samkvæmt g-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

Í skuldabréfunum, sem Marta Gunnlaug sé ábyrgðarmaður á, segi að endurgreiðsla lána hefjist þremur árum eftir námslok. Stefnandi leggi þó ekki fram nein gögn um það hvenær sjóðurinn líti svo á að lántakandinn hafi lokið náminu sem lánin hafi verið veitt út á. Þetta sé alvarleg vanreifun í ljósi þess að kröfugerð stefnanda virðist miðast við að fyrsti gjalddagi heildarskuldarinnar hafi verið 1. mars 2012, sem sé algerlega óútskýrt í málatilbúnaðinum. Þessi annmarki á málatilbúnaðinum fari í bága við e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og beri að vísa málinu frá dómi af þeirri ástæðu einnig.

Við málflutning kom enn fremur fram af hálfu stefndu að krafan væri sennilega fyrnd. Svo virtist sem endurgreiðslur hefðu átt að hefjast 1992 en krafa stefnanda byggi á því að fyrsti gjalddagi hafi verið 1. mars 2012. Komið hafi í ljós að S-lánið sem krafan byggi á sé ekki skuldabréf heldur plagg í reikningshaldi, en í stefnu sé vísað til skuldabréfs í eintölu. Ekki sé unnt að koma að efnisvörnum í málinu vegna vanreifunar þess í stefnu.

Andmæli stefnanda við frávísunarkröfu stefndu Mörtu Gunnlaugar

Stefnandi mótmæli því að krafan sé vanreifuð. Skuldabréfunum níu sem byggt sé á sé lýst í stefnu og þau lögð fram. Til að auðvelda útreikning sé við upphaf endurgreiðslu heildarupphæð lána uppreiknuð og skráð undir S-númeri, en ekki sé gefið út nýtt skuldabréf. Krafan sé byggð á upphaflegu skuldabréfunum, sem gerð sé grein fyrir í stefnu. Þetta sé skýrt í stefnunni þar sem segi að veitt námslán hafi verið sameinuð. Lánveitingin sem fengið hafi S-númer hafi byggt á lögum nr. 72/1982.

Hjördís Brynja hafi síðar tekið námslán, svokallað R-lán, á grundvelli laga nr. 21/1992, en samkvæmt 18. gr. þeirra laga beri að greiða lán samkvæmt þeim lögum upp áður en komi að endurgreiðslu lána sem veitt hafi verið samkvæmt lögum nr. 72/1982. Greiðslu R-lánsins hafi lokið 2012 og fyrsti gjalddagi S-lánsins því verið 1. mars 2012, sem sé fyrsti vanskiladagur lánsins, eins og gerð sé grein fyrir í stefnu. Marta Gunnlaug hafi einnig verið ábyrgðarmaður á R-lánum Hjördísar Brynju og hafi það ekki átt að koma henni á óvart hvernig innheimtu yrði háttað. Óþarft hafi verið að reifa það frekar í stefnu hvernig fyrsti gjalddagi S-lánsins kæmi til og komi það því ekki í veg fyrir að stefndu geti tekið til varna hvernig málið sé fram sett í stefnu.

Stefnandi byggi á því að málið sé skuldabréfamál og uppfylli skilyrði sem slíkt á grundvelli skuldabréfanna níu sem lögð hafi verið fram í málinu. Þá mótmæli stefnandi því að það geti varðað frávísun þótt málsóknin uppfyllti ekki skilyrði XVII. kafla laga um meðferð einkamála, það varði því aðeins að stefndu kæmu fleiri vörnum að en ella.

Niðurstaða

Skuldabréfin níu, sem málshöfðun stefnanda byggir á, eru tilgreind í stefnu með númerum og fjárhæðum og voru þau lögð fram í frumritum við þingfestingu málsins. Í stefnu kemur fram að veitt námslán hafi verið sameinuð að námi loknu og gefið nýtt sameiginlegt númer, S-921293. Af hálfu stefndu er á því byggt að kröfur stefnanda í málinu séu reistar á skjali sem hjá stefnanda hafi fengið númerið S-921293. Þar sem slíkt kröfuskjal sé ekki lagt fram í málinu sé ekki hægt að reka málið eftir XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og beri þess vegna að vísa málinu frá dómi samkvæmt g-lið 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála.

Í stefnu er sameiningu veittra námslána ekki lýst með þeim hætti að gefið hafi verið út sérstakt skjal, sem málshöfðunin byggist á, þegar lánin fengu sameiginlegt númer. Þótt það sé villandi að í stefnu er vísað til gjaldfellingarheimildar í skuldabréfinu sjálfu og að málið sé rekið sem skuldabréfamál samkvæmt ákvæðum skuldabréfsins, þykir ljóst þegar stefnan er lesin í heild sinni að þar muni vera um ritvillur að ræða. Í umfjöllun í stefnunni um kröfuna og skuldbindingar stefndu er að öðru leyti talað um skuldabréfin og augljóslega er þar átt við þau níu skuldabréf sem lýst er í stefnunni og lögð voru fram við þingfestingu málsins. Verður því ekki fallist á að vísa beri málinu frá vegna þess að ekki sé gerð grein fyrir helstu sönnunargögnum í stefnu, sbr. g-lið 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála.  

Af hálfu stefndu er því haldið fram að stefnandi leggi ekki fram nein gögn um það hvenær sjóðurinn líti svo á að lántakandinn hafi lokið náminu sem lánin hafi verið veitt út á. Yfirlit sem stefnandi lagði fram með stefnu ber það með sér að það hafi verið 12. febrúar 1992 sem lánin hafi verið sameinuð. Í stefnu kemur fram að lánin hafi verið sameinuð að námi loknu. Upplýsingar um þetta atriði eru því komnar fram í málatilbúnaði stefnanda.

Stefnda Marta Gunnlaug telur ekki unnt að koma að efnisvörnum í málinu vegna vanreifunar í stefnu. Það sé algerlega óútskýrt í málatilbúnaðinum að kröfugerð stefnanda virðist miðast við að fyrsti gjalddagi heildarskuldarinnar hafi verið 1. mars 2012. Þetta sé alvarleg vanreifun og fari málatilbúnaðurinn í bága við e-lið 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála.

Framlögð gögn bera það með sér að stefnda Hjördís Brynja hafi verið í skuld við stefnanda vegna námslána sem merkt eru með bókstafnum R og voru með gjalddaga í mars og september árin 2010 og 2011. Samkvæmt því sem stefnandi upplýsti við málflutning skýrir innheimta þeirrar skuldar það hvernig fyrsti gjalddagi skuldarinnar, sem þetta mál varðar, er fundinn. Fallast má á það með stefndu að gefa hefði mátt í stefnu skýrari og gagnorðari lýsingu á því hvernig fyrsti gjalddagi kröfunnar er fundinn. Þar er látið við það sitja að vísa í kafla um lagarök meðal annars til laga nr. 21/1992 um lánasjóð íslenskra námsmanna, en ekki er tekið sérstaklega fram í stefnunni að stefnda Hjördís Brynja hafi síðar fengið námslán á grundvelli þeirra laga. Þrátt fyrir þetta þykja þær málsástæður sem stefnandi byggir málsókn sína á, og samhengi þeirra málsástæðna, koma nægilega skýrt fram í stefnu þannig að ekki fari milli mála hvert sakarefnið er. Stefnukrafan er sundurliðuð í stefnunni, þar eru allar gjaldfallnar afborganir tilgreindar ásamt gjalddaga, svo og eftirstöðvar miðað við þann dag þegar lánið var gjaldfellt 16. júlí 2013. Í stefnu kemur fram hvernig lánið sé verðtryggt og þar er að finna upplýsingar um það hvernig skuldin er til komin. Varðar þessi annmarki á stefnu því ekki frávísun málsins frá dómi.

Við efnislega meðferð málsins hafa báðir málsaðilar tækifæri til að koma að sjónar­miðum og gögnum varðandi gjalddaga kröfunnar og réttmæti hennar. Sama gildir um þau atriði sem stefnda telur að upplýsa þurfi betur en hvor aðili ber samkvæmt almennum sönnunarreglum hallann af því að hafa ekki lagt fram fullnægj­andi gögn til sönnunar staðhæfingum sínum.

Með vísan til alls þessa er ekki fallist á þau rök stefndu Mörtu Gunnlaugar að vörnum verði áfátt af hennar hálfu sökum þess að krafa stefnanda sé ekki nægilega reifuð í stefnu eða að málið eigi af öðrum ástæðum, sem tilgreindar eru af hálfu stefndu, að sæta frávísun vegna vanreifunar. Samkvæmt þessu ber að fallast á kröfu stefnanda og hafna frávísunarkröfu stefndu Mörtu Gunnlaugar. 

Í samræmi við þá niðurstöðu er kröfu stefndu Mörtu Gunnlaugar um málskostnað í þessum þætti málsins hafnað. Stefnandi gerir ekki kröfu um málskostnað í þessum þætti málsins.  

Úrskurðinn kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Frávísunarkröfu stefndu,  Mörtu Gunnlaugar Ragnarsdóttur, er hafnað.