Hæstiréttur íslands

Mál nr. 213/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögbann
  • Riftun


Föstudaginn 11

 

Föstudaginn 11. júní 2004.

Nr. 213/2004.

Adriana ehf. og

Cosmic ehf.

(Jónas A. Aðalsteinsson hrl.)

gegn

Ísflex ehf.

(Björgvin Jónsson hrl.)

 

Kærumál. Lögbann. Riftun.

Í ehf. krafðist þess að lagt yrði lögbann við sölu, dreifingu og afhendingu A ehf. og C ehf. til annarra en Í ehf. á tiltekinni tegund snyrtivara á Íslandi, í íslenskum fríhöfnum og íslenskum flugvélum. Héldu A ehf. og C ehf. því fram að þeim hefði verið heimilt að rifta samningi þeirra við Í ehf. um einkasölu á umræddum snyrtivörum og í framhaldinu taka yfir sölu og dreifingu á snyrtivörunum þar sem síðarnefnda félagið hefði vanefnt samninginn. Talið var að A ehf. og C ehf. yrðu að bera hallann af óskýrleika samningsins auk þess sem félögin hefðu ekki gert líklegt að Í ehf. hefði vanefnt samninginn verulega þannig að það heimilaði riftun hans. Hefði Í ehf. leitt að því nægar líkar að dreifing A ehf. og C ehf. á umræddum vörum hefði brotið gegn lögvörðum rétti þess. Þá yrði að telja nægilega sýnt fram á að háttsemi A ehf. og C ehf. gæti valdið teljandi spjöllum á réttindum Í ehf. ef hann yrði knúinn til að bíða dóms um þau. Auk þessa var talið að A ehf. og C ehf. hefðu ekki leitt að því líkur að reglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna Í ehf. tryggði þá nægilega. Var því fallist á kröfu Í ehf. og sýslumanni gert að leggja lögbann við umdeildum athöfnum A ehf. og C ehf.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 14. maí 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. maí 2004, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að fella úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Kópavogi 5. mars sama árs um að hafna því að leggja lögbann við sölu, dreifingu og afhendingu sóknaraðila til annarra en varnaraðila á No Name snyrtivörum á Íslandi, í íslenskum fríhöfnum og íslenskum flugvélum. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, eins og þeim var breytt með 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að kröfu varnaraðila um lögbann verði hafnað. Þá krefjast þeir að þeim verði dæmdur málskostnaður í héraði ásamt kærumálskostnaði.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og að sóknaraðilum verði óskipt gert að greiða honum kærumálskostnað.

I.

Samkvæmt gögnum málsins seldu sóknaraðilar með kaupsamningi 2. september 2003 varnaraðila „einkasöluumboð“ á No Name snyrtivörum og viðkomandi umbúðum á Íslandi, í íslenskum fríhöfnum og flugvélum. Var umsamið kaupverð 32.500.000 krónur. Í 3. gr. samningsins var meðal annars tekið fram að sóknaraðilar væru skuldbundnir til að selja varnaraðila umræddar vörur næstu 10 árin. Tryggt yrði að verðhækkanir yrðu ekki umfram það sem eðlilegt væri í þjóðfélaginu og að smásöluverð yrði ekki hærra en það væri á sambærilegum vörum á markaðinum. Þá var tekið fram að við samningsgerðina lægi fyrir verðlisti um innkaupsverð varanna til varnaraðila.

Varnaraðili gerði með bréfi 19. janúar 2004 athugasemdir við framkvæmd samningsins af hálfu sóknaraðila. Tók hann meðal annars fram að það væri hans mat að upplýsingar þær sem lágu fyrir við kaupin varðandi veltu hafi reynst í verulegum atriðum rangar. Væri hann að íhuga riftun á umræddum kaupum af þessu tilefni og krefjast bóta úr hendi sóknaraðila. Ennfremur tók hann fram að tilkynning sóknaraðila 2. desember 2003 um verðhækkun á innkaupsverði verulegs hluta snyrtivaranna um allt að rúmlega 17% væri skýlaust brot á 3. gr. kaupsamningsins. Yrði ekki fallið frá boðaðri verðhækkun þegar í stað ætti hann ekki annan kost í stöðunni en að rifta kaupsamningnum „á forsendum rangra upplýsinga.“ Sóknaraðilar vísuðu þessum athugasemdum varnaraðila á bug með bréfi 26. janúar 2004. Tóku sóknaraðilar meðal annars fram að þeir ættu samningsbundinn rétt til umræddra hækkana vöruverðs sem þeir hefðu boðað. Yrði ekki hvikað frá þessum hækkunum. Þá litu þeir svo á að varnaraðili hefði með fyrrnefndu bréfi sínu til þeirra rift umræddum kaupsamningi. Væri þessi skilningur ekki réttur væri samningnum rift af hálfu sóknaraðila vegna verulegra vanefnda varnaraðila sem meðal annars fælust í því að „virða ekki og beinlínis hafna rétti“ sóknaraðila til verðhækkana á grundvelli ákvæða 3. gr. samningsins, neita staðfestingu kaupa á vörum uns fallið yrði frá boðaðri hækkun vöruverðsins og að endingu með því að staðfesta á ótvíræðan hátt að þær vanefndir yrðu til frambúðar með tilkynningu varnaraðila um riftun kaupanna.

Varnaraðili mótmælti riftun sóknaraðila á kaupsamningi aðila í bréfi 4. febrúar 2004. Vísaði hann til þess að vanefndir á samningnum hefðu eingöngu orðið af hálfu sóknaraðila. Sóknaraðilar staðfestu hins vegar riftun samningsins með bréfi næsta dag. Þann 29. janúar 2004 hafði sóknaraðilinn Cosmic ehf. tilkynnt viðskiptavinum að vegna ágreinings við varnaraðila hefði sóknaraðilinn ákveðið að taka yfir sölu og dreifingu snyrtivaranna auk þjónustu við viðskiptamenn. Hinn 25. febrúar 2004 óskaði varnaraðili eftir að sýslumaður legði lögbann við allri sölu og/eða hvers konar dreifingu og/eða afhendingu sóknaraðila á No Name snyrtivörum á Íslandi og íslenskum markaði, þar með talið í íslenskum fríhöfnum eða flugvélum, til annarra en varnaraðila. Vísaði varnaraðili til þess að þær athafnir sóknaraðilar að selja og dreifa umræddum snyrtivörum til smásöluverslana hérlendis brytu gróflega gegn lögvörðum rétti hans sem eiganda einkasöluumboðs að umræddum snyrtivörum á íslenskum markaði. Eins og áður segir hafnaði sýslumaður þessari beiðni varnaraðila 5. mars 2004. Varnaraðili krafðist 9. sama mánaðar úrlausnar Héraðsdóms Reykjaness um þessa ákvörðun. Með hinum kærða úrskurði var fallist á þá kröfu.

II.

Eins og að framan greinir halda sóknaraðilar því fram að varnaraðili hafi vanefnt samning þeirra meðal annars með því að hafna rétti þeirra samkvæmt ákvæði 3. gr. samningsins um verðhækkanir á umræddum snyrtivörum. Hafi þeim því verið heimilt að rifta samningnum og í framhaldinu taka yfir sölu og dreifingu á snyrtivörunum. Varnaraðili hefur hins vegar haldið því fram að umræddar verðhækkanir séu skýlaust brot á samningnum. Orðalag umrædds samningsákvæðis, sem rakið er hér að framan, felur ekki skýrlega í sér hversu miklar verðhækkanir geti verið um að ræða. Verða sóknaraðilar að bera hallann af óskýrleika samningsins að þessu leyti en ekki hefur verið leitt í ljós að rætt hafi verið um verðhækkanir í tengslum við samningsgerðina. Þá verður ekki talið að varnaraðili hafi gefið sóknaraðilum tilefni til riftunar kaupsamnings aðila með því einu að gera athugasemdir við framkvæmd hans, sbr. áðurnefnt bréf varnaraðila frá 19. janúar 2004. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður ekki talið að sóknaraðilar hafi gert líklegt að varnaraðili hafi vanefnt samning aðila verulega þannig að það hafi heimilað riftun hans. Hefur varnaraðili leitt að því nægar líkur að dreifing sóknaraðila á umræddum vörum brjóti gegn lögvörðum rétti hans. Þá verður að telja að nægilega sé sýnt fram á að háttsemi sóknaraðila gæti valdið teljandi spjöllum á réttindum varnaraðila ef hann yrði knúinn til að bíða dóms um þau. Sóknaraðilar hafa ekki leitt að því líkur að reglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna varnaraðila tryggi þá nægilega. Samkvæmt öllu framanröktu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Cosmic ehf. og Adriana ehf., greiði óskipt varnaraðila, Ísflex ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. maí 2004.

Mál þetta var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjaness 19. mars 2004.  Sóknaraðili er Ísflex ehf., kt. 651077-0289, Starmýri 2, Reykjavík en varnaraðilar eru Cosmic ehf., kt. 621297-8219 og Adriana ehf., kt. 600901-2730, bæði til heimilis að Hjallabrekku 1, Kópavogi. 

             Dómkröfur sóknaraðila eru þær að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Kópavogi 5. mars 2004 um að synja um lögbann í lögbannsmálinu nr. 3/2004 og að lagt verði fyrir sýslumann að leggja lögbann við allri sölu og/eða hverskonar dreifingu og/eða afhendingu varnaraðila á No Name snyrtivörum á Íslandi og Íslenskum markaði, þar með talið í íslenskum fríhöfnum eða íslenskum flugvélum, til annarra en sóknaraðila.  Lögbannið verði lagt á gegn þeirri tryggingu er sýslumaður meti nægilega.  Þá gerir sóknaraðili kröfu um málskostnað.

             Varnaraðilar krefjast þess aðallega að kröfum sóknaraðila á hendur þeim verði hafnað og að synjað verði um að leggja á hið umkrafða lögbann.  Þá krefjast varnaraðilar málskostnaðar.  Til vara er þess krafist að umfang gerðarinnar verði takmarkað verulega frá því sem kröfur sóknaraðila gera ráð fyrir og í því tilviki verði málskostnaður látinn falla niður. 

I.

             Helstu málsatvik eru þau að varnaraðilar seldu sóknaraðila með kaupsamningi 2. september 2003 umboð fyrir einkasölu á No Name snyrtivörum og viðkomandi umboðum á Íslandi, í íslenskum fríhöfnum og íslenskum flugvélum.  Umsamið kaupverð var 32.500.000 krónur sem sóknaraðili hefur að fullu staðið skil á.  Samkvæmt kaupsamningnum framleiða varnaraðilar umrædda vöru og hanna og framleiða umbúðir utan um þær.  Vörurnar koma frá New York og er þeim pakkað þar. Samkvæmt kaupsamningnum skuldbinda varnaraðilar sig til þess að selja sóknaraðila umræddar vörur og umbúðir í að minnsta kosti næstu 10 árin.  Sóknaraðili er því með einkasöluumboð á sölu og dreifingu varanna hérlendis, í verslanir og til annarra smásöluaðila.  Þá segir í 3. grein kaupsamningsins að seljandi skuldbindi sig til að tryggja að verðhækkanir verði ekki umfram það sem eðlilegt sé í þjóðfélaginu og að smásöluverð á vörunni verði ekki hærra en smásöluverð á sambærilegri vöru á markaði.

             Með bréfi 19. janúar 2004 kvartaði sóknaraðili við varnaraðila.  Segir meðal annars í bréfinu að varnaraðilar hafi gefið rangar upplýsingar við söluna um veltu, bæði um magn sölu og kostnað við starfsmannahald.  Þá hafi varnaraðilar gefið í skyn að nægilegar birgðir væru til í landinu en í ljós hafi komið að vöruskortur hafi verið frá byrjun september 2003 og fram í miðjan október 2003 sem hafi leitt til helmingssamdráttar í sölu á því tímabili.  Þá hafi varnaraðilar tilkynnt rúmlega 17% hækkun á smásöluverði sem sé skýlaust brot á 3. grein kaupsamnings aðila enda sú verðhækkun langt umfram eðlilegar verðhækkanir í þjóðfélaginu.  Vegna alls þessa íhugi sóknaraðili riftun á kaupunum og verði ekki fallið frá boðaðri verðhækkun eigi sóknaraðili ekki annars kost en að rifta umræddum kaupum. 

             Varnaraðilar svöruðu bréfi sóknaraðila 26. janúar 2004.  Þar eru öllum umkvörtunum sóknaraðila vísað alfarið á bug.  Er sagt að sóknaraðilar muni ekki hvika frá fyrirhuguðum hækkunum enda þótt fallist hafi verið á að fresta hækkunum um nokkrar vikur.  Þá segir í bréfinu að varnaraðilar líti svo á að sóknaraðili hafi með bréfi sínu 19. janúar 2004 rift kaupsamningi aðila.  Er jafnframt lýst yfir riftun af hálfu varnaraðila vegna verulegra vanefnda af hálfu sóknaraðila.  Þær vanefndir felist meðal annars í því að virða ekki rétt varnaraðila til hækkunar á vörunum, neita að kaupa vörur af varnaraðila fyrr en fallið hafi verið frá boðaðri hækkun og að endingu með því að gefa ótvírætt í skyn að vanefndir verði til frambúðar. 

             Þann 29. janúar 2004 sendu varnaraðilar bréf til fyrrum viðskiptamanna sinna og segir meðal annars í því:  „Eins og þér eruð kunnugt veitti Cosmic ehf. fyrirtækinu Ísflex ehf. umboð til að selja No Name snyrtivörur okkar hér á landi í september að liðnu ári.  Komið hefur í ljós að samstarf fyrirtækjanna hefur ekki gengið eftir á þann hátt sem nauðsynlegt er í þágu vörumerkisins No Name, viðskipta með snyrtivörur og þjónustu við viðskiptamenn.  Fulltrúar félagana hafa skipst á skoðunum um það efni og í framhaldi af því hefur Cosmic ehf. ákveðið að taka við sölu, dreifingu snyrtivaranna og þjónustu við viðskiptamenn.  Undirritaðar munu hafa samband við þig á næstu dögum vegna málsins.”

             Undir þetta bréf skrifa Kristín Stefánsdóttir sem eigandi og Ester Jóhannsdóttir sem skrifstofustjóri.

             Með bréfi 4. febrúar 2004 mótmælti sóknaraðili einhliða riftun varnaraðila á kaupsamningi aðila. 

             Varnaraðilar svöruðu bréfi sóknaraðila 5. febrúar 2004.  Er riftun þar ítrekuð og tilkynnt að varnaraðilar munu hefja smásölu á umræddum vörum. 

             Lögbannsbeiðni sóknaraðila var móttekin hjá sýslumanninum í Kópavogi 25. febrúar 2004.  Beiðnin var tekin fyrir þann 5. mars 2004 og var  lögbanni hafnað.

II.

             Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að með kaupsamningi aðila 2. september 2003 hafi hann keypt umboð til einkasölu á No Name snyrtivörum.  Hann einn eigi rétt á því að selja og dreifa umræddum snyrtivörum á íslenskan markað.  Með kaupunum hafi sóknaraðili verið að kaupa meðal annars viðskiptavild sem séu eigna­réttindi er njóti verndar 72. gr. stjórnarskrár nr. 33/1944, sbr. 10. gr. laga nr. 97/1995.

             Sóknaraðili hafnar því alfarið að varnaraðilar geti rift umræddum kaup­samningi enda hafi sóknaraðili á engan hátt vanefnt samninginn.  Afhending hins selda og greiðsla kaupverðs hafi farið fram.  Þá hafi varnaraðilar ekki lagt fram endur­greiðslu á kaupverðinu eða sýnt fram á að þeir hafi greiðslugetu til endurgreiðslu þess.  Varnaraðilar hafi hins vegar lýst því einhliða yfir að þeir munu ekki taka starfsmann til baka er flust hafi frá varnaraðilum yfir til sóknaraðila við kaupin en um það hafi verið samið í 4. grein kaupsamningsins. 

             Athafnir varnaraðila brjóti gegn lögvörðum rétti sóknaraðila sem eiganda einkasöluumboðs af umræddum snyrtivörum.  Telur sóknaraðili að skilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann og fl. sé fullnægt.

             Sóknaraðila sé nauðsyn á að stöðva áframhaldandi réttarbrot varnaraðila með lögbannsaðgerð þar sem sóknaraðili hafi keypt einkasöluumboð til næstu 10 ára á umræddum vörum.  Skaðabætur nægi ekki einar sér til að tryggja hagsmuni sóknaraðila.  Hann verði jafnframt að stöðva áframhaldandi brot varnaraðila á einkasölusamningnum. 

             Varðandi tilvísun sýslumanns til 2. tl. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 verði ekki séð að hagsmunir varnaraðila í málinu séu meiri en hagsmunir sóknaraðila.  Í þessu sambandi vísar sóknaraðili til þess að hann hafi að fullu staðið skil á umsömdu kaupverði. 

             Um lagarök vísar sóknaraðili til laga nr. 31/1990, aðallega 24. gr. laganna svo og annarra ákvæða í 4. kafla þeirra laga.  Þá vísar sóknaraðili til reglna á sviði samninga-, kaupa- og kröfuréttar svo og til laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. 

III.

             Varnaraðilar benda á að þeir séu rétthafar vörumerkisins No Name og framleiðendur þeirra vara.  Að baki rekstri varnaraðila og No Name vörumerkisins liggi 17 ára þrotlaus vinna við vöruþróun og markaðssetningu.  Varnaraðilar hafi lagt allt undir í þeirri vinnu og náð töluverðum árangri.

             Kaupsamningi aðila hafi verið rift vegna verulegra vanefnda sóknaraðila.  Þær vanefndir felist meðal annars í því að virða ekki og beinlínis hafna samningsbundnum rétti varnaraðila til hækkunar verðs, neita staðfestingu kaupa á vörum uns fallið verði frá boðaðri verðhækkun og með því að staðfesta á ótvíræðan hátt að þær vanefndir verði til frambúðar.  Þessi þvingunaraðferð sýni hversu langt sóknaraðili sé tilbúinn að ganga í því skyni að hindra varnaraðila í því að nýta sér samningsbundinn rétt til hækkunar vöruverðs.  Í öðru lagi felist vanefndir sóknaraðila í því að stuðla ekki að efndum kaupanna á fullnægjandi hátt sem hafi haft í för með sér dvínandi sölu umræddra vara og missi viðskiptasambanda.  Í þriðja lagi hafi sóknaraðili ekki greitt skuld vegna kaupa á vörulager samkvæmt kaupsamningi aðila þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar að lútandi. 

             Samkvæmt almennum reglum kröfuréttar þurfa ekki að koma til samþykki gagnaðila eða staðfesting dómstóla til þess að riftun hafi réttaráhrif.  Samkvæmt þessu sé ljóst að sóknaraðili eigi ekki lögvarðan rétt til þeirra réttinda sem sé grundvöllur lögbannskröfunnar.  Í þessu sambandi benda varnaraðilar á að kaupsamningur aðila sé mjög persónulegs eðlis og krefjist náins samstarfs og gagnkvæmra efnda yfir langan tíma.  Varnaraðilar telja að í slíku samningssambandi sé aðeins unnt að krefjast bóta komi til þess að annar hvor aðili efni ekki samninginn af sinni hálfu.  Sóknaraðili hafi á engan hátt sannað eða gert sennilegt að sala varnaraðila á vörum brjóti gegn lögvörðum rétti sóknaraðila líkt og ákvæði 1. mgr. 24. gr. lögbannslaga áskilji.  Samkvæmt skýru orðalagi greinarinnar hvílir sönnunarbyrðin um að þetta skilyrði sé uppfyllt á sóknaraðila.

             Þá telja varnaraðilar ljóst að engin réttindi sóknaraðila muni spillast enda þótt lögbann nái ekki fram að ganga.  Sala á No Name snyrtivörum muni halda áfram komi ekki til lögbanns.  No Name vörumerkið og sú viðskiptavild sem varnaraðilar hafi byggt upp á því merki í gegnum árin muni viðhaldast.  Komi hins vegar til lög­banns sé ljóst að sú viðskiptavild muni skaðast verulega þannig að óvíst sé um framtíð merkisins og umrædd réttindi fari þá til spillis.  Jafnvel þó að það yrði niðurstaða í hugsanlegu dómsmáli að sóknaraðili eigi þann rétt sem hann telur sig eiga myndu réttindi hans til einkasölu á No Name snyrtivörum á Íslandi engan veginn spillast við það að hann bíði dóms um þau.  Þannig telja varnaraðilar ljóst að ofangreint skilyrði 1. mgr. 24. gr. lögbannslaga sé ekki uppfyllt.

             Varnaraðilar telja að réttareglur um skaðabætur tryggi hagsmuni sóknaraðila nægilega í málinu.  Telja varnaraðilar að ákvæði 1. tl. 3. mgr. 24. gr. lögbannslaga standi því í vegi að lögbann það sem krafist sé nái fram að ganga.

             Varnaraðilar benda á að stórfelldur munur sé á hagsmunum sóknaraðila af því að lögbann nái fram að ganga og hins vegar hagsmunum varnaraðila af að fyrirbyggja lögbann.  Vísa varnaraðilar aftur til þess að varnaraðilar hafi unnið að uppbyggingu No Name vörumerkisins og viðskiptavildar vegna þess í um 17 ár.  Lögbann gæti eyðilagt þá vinnu algjörlega og skaðað hagsmuni varnaraðila gífurlega.  Hafa beri í huga að þessi markaður sé viðkvæmur, persónuleg sambönd skipti miklu máli og að samkeppni sé mikil á markaðnum.  Tryggja þurfi stöðugt og öruggt framboð af vörum til smásala.  Mjög erfitt og kostnaðarsamt geti verið að komast inn á markaðinn aftur.  Hagsmunir sóknaraðila af framgangi gerðarinnar séu hins vegar engir í ljósi þess að hann geti ekki gert kröfu um efndir samningsins, þrátt fyrir að fallist yrði á rök hans um að skilyrði riftunar væru fyrir hendi.

            

             Verði fallist á að gerðin nái fram að ganga gera varnaraðilar kröfu um til vara að hún verði framkvæmd með öðrum og vægari hætti heldur en krafa sóknaraðila geri ráð fyrir.  

IV.

             Í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1920 segir að lögbann megi leggja við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn einstaklings eða fyrirsvarsmanns félags eða stofnunar.  Skilyrði lögbanns eru þrjú.  Að gerðarbeiðandi sanni eða geri sennilegt að athöfnin brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans, að gerðarþoli hafi þegar hafist handa eða muni gera það og að réttindi gerðarþola muni fara forgörðum eða spillast, verði gerðarþoli knúinn til þess að bíða dóms um þau.  Öll skilyrðin þrjú verða að vera uppfyllt og sönnunarbyrðin um að svo sé hvílir á gerðarbeiðanda.

             Í þessu máli liggur fyrir að sóknaraðili keypti rekstur af varnaraðilum og greiddi fyrir 32.500.000 krónur.  Samkvæmt kaupsamningi aðila skyldi sóknaraðili hafa einkasöluumboð á No Name snyrtivörum á Íslandi, íslenskum fríhöfnum og íslenskum flugvélum til 10 ára. Af kaupsamningi má ráða að hið selda var fyrst og fremst viðskiptavild því vörulager eða aðrar eignir voru ekki innifaldar í þessu verði.

             Eins og rakið er hér að framan kom upp ágreiningur milli aðila um túlkun á kaupsamningi.  Sá ágreiningur snerist aðallega um hvort varnaraðilum væri heimilt að hækka vöruverð en einnig um hvort varnaraðilar hafi gefið upp réttar veltutölur er kaup voru gerð.  Þessi ágreiningur leiddi til þess að varnaraðilar riftu kaupunum með bréfi 26. janúar 2004 og hófu sjálfir sölu á snyrtivörunum.  Töldu varnaraðilar riftun heimila á grundvelli verulegra vanefnda sóknaraðila á kaupsamningi. 

             Af gögnum málsins verður hins vegar ekki séð að sóknaraðili hafi vanefnt samninga aðila verulega.  Hann hélt að vísu að sér höndum með greiðslu á lager eftir að ágreiningur reis með aðilum.  Að öðru leyti hafa varnaraðilar ekki sýnt fram á vanefndir sóknaraðila.  Umkvartanir sóknaraðila í bréfi 19. janúar 2004, sem leiddu til riftunar varnaraðila, verða á engan hátt túlkaðar sem vanefndir eins og varnaraðilar halda fram. 

             Kaupsamningur aðila telst því í gildi.  Sala varnaraðila á No Name snyrtivörum brýtur gegn þessum kaupsamningi og lögvörðum hagsmunum sóknaraðila samkvæmt kaupsamningnum. Þá hefur sóknaraðili sýnt nægilega fram á að háttsemi varnaraðila geti valdið spjöllum á réttindum sóknaraðila samkvæmt kaupsamningnum. Nægir í því sambandi að nefna að sóknaraðili hefur greitt kaupverð án þess að hafa tryggingu fyrir því að fá það endurgreitt. Þó að fallast megi á með varnaraðilum að miklir hagsmunir þeirra séu í húfi, verður ekki litið fram hjá því að þeir seldu þessi réttindi án þess að gera nokkurn fyrirvara í kaupsamningi um hvernig með skyldi fara ef ágreiningur risi um túlkun á kaupsamningi. Þá hafa varnaraðilar ekki leitt að því líkur að reglur um skaðabætur fyrir röskun hagsmuna sóknaraðila tryggi hann nægilega.

Varakrafa varnaraðila er ekki nægilega rökstudd og verður því ekki tekin til greina

 Að öllu þessu athuguðu eru ekki efni til annars en að verða við kröfu sóknaraðila um að fella úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Kópavogi 5. mars 2004 og gera honum að leggja lögbann við þeim athöfnum varnaraðila sem í úrskurðarorði greinir, gegn tryggingu úr hendi sóknaraðila, sem sýslumaður ákveður.

             Eftir þessari niðurstöðu verður varnaraðilum gert að greiða sóknaraðila málskostnað að fjárhæð 200.000 krónur.

             Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐAROÐ:

             Felld er úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Kópavogi 5. mars 2004 um að hafna kröfu sóknaraðila, Ísflex ehf., um lögbann á hendur varnaraðilum, Cosmic ehf. og Adriana ehf.

             Lagt er fyrir sýslumann gegn tryggingu, sem hann metur nægilega úr hendi sóknaraðila, að leggja lögbann við sölu, dreifingu eða afhendingu varnaraðila á No Name snyrtivörum á Íslandi, íslenskum fríhöfnum og íslenskum flugvélum, til annarra en sóknaraðila.

             Varnaraðilar greiði sóknaraðila 200.000 krónur í málskostnað.