Hæstiréttur íslands

Mál nr. 231/2017

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Guðmundur Þórir Steinþórsson fulltrúi)
gegn
X (Theodór Kjartansson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Þorgeir Ingi Njálsson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. apríl 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. apríl 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 18. apríl 2017 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að honum verði ekki gert að sæta einangrun, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess aðallega að varnaraðila verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi til 20. apríl 2017 og einangrun meðan á því stendur, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Fullægt er skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þess að varnaraðila verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi og einangrun meðan á því stendur, sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga, þann tíma sem kveðið er á um í úrskurði héraðsdóms. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. apríl 2017.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að X fæddur [...] 1981, [...]  ríkisborgara, verði með úrskurði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 4. maí 2017, kl. 16:00. Þá er þess krafist að honum verði gert að sæta einangrun á tímabilinu frá 6. til 20. apríl 2017, kl. 16:00. 

Í greinargerð með kröfunni segir að lögreglustjóranum á Suðurnesjum hafi borist tilkynning frá tollgæslunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar síðdegis 26. mars síðastliðinn um að kærði hefði verið stöðvaður á tollhliði vegna gruns um að hann kynni að hafa fíkniefni falin í fórum sínum við komu hans til landsins með flugi [...] frá Brussel í Belgíu.

Í kjölfar leitar á kærða hafi vaknað grunur um að hann kynni að hafa fíkniefni falin innvortis. Í viðræðum lögreglu við kærða hafi hann játað að hafa falin innvortis 900-1000 g af kókaíni. Hafi kærði staðfest frásögn sína við skýrslutöku um kvöldið og verið færður til sneiðmyndatöku. Í ljós hafi komið að kærði hafi haft töluvert magn aðskotahluta innvortis. Alls hafi kærði skilað frá sér 89 pakkningum sem innihéldu samtals 865,71 g af kókaíni. Lögregla hafi við rannsókn málsins yfirheyrt kærða einu sinni. Hafi kærði greint frá því að hann væri bótaþegi í heimalandi sínu og að hann fengi 1.300 evrur á mánuði til að framfleyta sér frá [...] yfirvöldum. Viðurkenndi kærði að hafa flutt fíkniefnin hingað til lands og að hann hefði átt að fá 4.000 evrur að launum fyrir það. Enn fremur greindi kærði frá því að hann hefði áður komið hingað til lands, en þá sem ferðamaður. Neitaði kærði því að hann hefði flutt fíkniefni til landsins í þeirri ferð. Lögregla hafi unnið því að reyna að upplýsa um samverkamenn kærða hér á landi og erlendis. Í því skyni hafi lögregla meðal annars sent fyrirspurnir til erlendra löggæsluyfirvalda og aflað dómsúrskurða. Lögregla vinni nú úr þeim gögnum sem henni hafa borist auk þess sem lögregla bíði eftir að fá frekari gögn afhent sem talið er að geti varpað frekara ljósi á málið. Eru þar á meðal gögn er varða meinta samverkamenn kærða hér á landi en rannsókn lögreglu hafi leitt í ljós að sterkur grunur sé fyrir hendi um að mál kærða tengist öðrum málum er varði innflutning á fíkniefnum sem séu til rannsóknar hjá lögreglu. Rannsókn málsins sé því í fullum gangi og telji lögregla sig þurfa frekara svigrúm til að vinna nánar úr þeim gögnum sem hún hafi undir höndum og upplýst geti um framangreind atriði auk þess sem fyrir liggur frekari gagnaöflun hér á landi og erlendis um þau atriði og önnur.

Mál þetta snúist um innflutning á hættulegum fíkniefnum sem að mati lögreglu hafi verið flutt hingað til lands í þeim tilgangi að selja þau til ótiltekins fjölda fólks. Að mati lögreglustjóra sé fyrir hendi rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst brotlegur við ákvæði laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Liggi við allt að 12 ára fangelsi. Séu þannig uppfyllt skilyrði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 fyrir því að kærða verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar. Rannsókn málsins sé í fullum gangi og miði vel, en sé á viðkvæmu stigi og telji lögreglustjóri að enn sé til staðar hætta á að kærði kunni að torvelda rannsóknina gangi hann laus, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni. Þá telji lögregla einnig hættu á að kærði verði beittur þrýstingi og að reynt verði að hafa áhrif á hann, af hendi meintra samverkamanna hans, gangi hann laus, á þessu stigi rannsóknar hjá lögreglu. Séu þannig uppfyllt skilyrði a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Jafnframt megi telja að hætta sé á að kærði muni reyna að komast úr landi eða leynast og koma sér þannig undan málsókn eða fullnustu refsingar verði honum ekki gert að sæta gæsluvarðhaldi áfram vegna aðildar sinnar að málinu. Byggi sú afstaða á að kærði sé erlendur ríkisborgari og virðist ekki eiga nein tengsl við landið. Hann eigi hér hvorki fjölskyldu né stundi atvinnu. Sé einsýnt að tilgangur ferðarinnar hingað til lands hafi ekki sá að setjast hér að. Telji lögreglustjóri því jafnframt uppfyllt skilyrði b. liðar 1. mgr. 95. laga nr. 88/2008 til að kærða verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi. Vísast í þessu skyni m.a. til dóma Hæstaréttar Íslands í málunum nr. 595/2011 og nr. 746/2015. Verði að horfa til stöðu kærða í málinu, það er að hann hefur játað innflutning á töluverðu magni fíkniefna og kunni að hljóta þungan fangelsisdóm fyrir aðild sína að málinu.

Kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi og einangrun frá 27. mars síðastliðinn og sé að mati lögreglustjóra ekki völ á vægari úrræðum. Er tímalengd hins umkrafða gæsluvarðhalds þannig ekki úr hófi miðað við alvarleika brotsins, stöðu rannsóknarinnar og framgang hennar hjá lögreglu.

Með vísan til alls framangreinds, a. og b. liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/ 2008 um meðferð sakamála, 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana og fíkniefni telji lögreglustjóri brýna rannsóknar- og refsivörsluhagsmuni standa til að fallist verði á kröfuna og kærða verði gert að sæta áfram gæsluvarðhald til fimmtudagsins 4. maí 2017, kl. 16:00. Þess er einnig krafist að kærða verði gert að sæta einangrun, sbr. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, á tímabilinu frá 6. til 20. apríl 2017, kl. 16:00, með vísan til framangreindra rannsóknarhagsmuna. 

Samkvæmt því sem að framan er rakið og gögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um brot sem varðað getur allt að 12 ára fangelsi. Rannsókn málsins er enn á viðkvæmu stigi og beinist nú að ætluðum samverkamönnum kærða hér á landi og erlendis. Gangi kærði laus þykir hætta á að hann muni torvelda rannsókn málsins með því að skjóta undan sönnunargögnum eða hafa áhrif á samseka. Þá er kærði erlendur ríkisborgari, sem ekki virðist hafa nein tengsl við landið, en fram hefur komið að hann á hvorki fjölskyldu hér á landi né stundar hér atvinnu. Þykir því jafnframt hætta á að kærði muni reyna að komast úr landi eða leynast og koma sér þannig undan málsókn fari hann frjáls ferða sinna. Með vísan til a. og b. liða 1. mgr. 95. gr. og b. liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, er því fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærða verði gert að sæta áfram gæsluvarðahaldi og einangrun með þeim hætti sem greinir í úrskurðarorði.

  Úrskurð þennan kveður upp Jón Höskuldsson héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kærða, X, fæddum [...] 1981, er gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 18. apríl 2017, kl. 16:00.

Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.