Hæstiréttur íslands

Mál nr. 265/2005


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Vinnuslys
  • Líkamstjón
  • Sakarskipting
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 8

 

Fimmtudaginn 8. desember 2005.

Nr. 265/2005.

Svavar Guðmundsson

(Kristinn Hallgrímsson hrl.)

gegn

Kaupþingi banka hf.

(Gestur Jónsson hrl.)

 

Skaðabætur. Vinnuslys. Líkamstjón. Sakarskipting. Gjafsókn.

S reisti skaðabótakröfu sína á hendur K á því, að K hafi lagt til gallaðan verkpall til afnota við verk sem S vann við annan mann sem starfsmaður P ehf., en K hafði fengið P ehf. að vinna tiltekið verk í starfsstöðvum sínum. S slasaðist við framkvæmd verksins. Talið var sýnt að röraverkpallur sá er S og samstarfsmanni hans var lagður til afnota við verkið hafi verið haldinn ágöllum og ekki í samræmi við þær kröfur sem bæri að gera. Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglur settar samkvæmt þeim geri einnig ráð fyrir því að sá, sem lánar eða leigir búnað til notkunar við atvinnurekstur, beri ábyrgð á því að hann standist þær kröfur sem beri að gera, en ekki eingöngu atvinnurekendur. K hafi borið að ganga úr skugga um að umræddur pallur væri ekki haldinn ágöllum, áður en hann lánaði hann til verksins. Var talið að brot K á þessum reglum, sem honum hafi átt að vera kunnar, fælu í sérsaknæma og ólögmæta háttsemi af hans hálfu og bæri hann skaðabótaábyrgð á tjóni, sem af því leiddi. Slys það er S varð fyrir hafi orsakast af umræddum ágalla á pallinum og var því fallist á að K bæri skaðabótaábyrgð á tjóni S. S, sem var pípulagningameistari með meira en þrjátíu ára starfsreynslu í iðngreininni, hafði orðið var við að pallurinn væri laus í sér, en ekki tilkynnt það vinnuveitanda sínum, svo sem honum þó bar að gera samkvæmt áðurnefndum lögum. Var hann látinn bera tjón sitt að hálfu leyti sjálfur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson prófessor.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. júní 2005. Hann krefst þess að viðurkennt verði að stefndi sé skaðabótaskyldur vegna vinnuslyss sem áfrýjandi varð fyrir 15. maí 2002. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Áfrýjandi var starfsmaður Pípulagna Finnboga Guðmundssonar ehf., en stefndi hafði samið við félagið sem verktaka um að vinna fyrir sig tiltekið verk í lofti anddyris starfstöðvar sinnar að Austurstræti 5, Reykjavík. Áfrýjandi og samstarfsmaður hans framkvæmdu verkið á vegum félagsins og varð áfrýjandi við það fyrir slysi sem er tilefni máls þessa. Slysið varð þegar hann hugðist fara niður af röraverkpalli, er hann og samstarfsmaður hans höfðu sett saman. Pallurinn sem var um það bil 190 cm hár var í eigu stefnda og lánaður verktakanum til afnota við verkið. Atvik að slysinu eru ekki að fullu upplýst. Af gögnum málsins má ráða að slysið hafi orðið með þeim hætti að áfrýjandi, sem virðist hafa setið á pallgólfi annars enda verkpallsins, hafi stutt sig við enda hans er hann hugðist fara af honum og á stiga er þar var. Við það hafi festingar á gagnstæðum enda pallgólfsins lyfst eða dregist af þverslá þeirri er þær tengdust og þá hafi hinn gagnstæði endi fallið niður á gólf og áfrýjandi runnið niður eftir pallgólfinu og lent á gólfinu.

Í skýrslu Vinnueftirlits ríkisins, sem þegar var tilkynnt um slysið, segir meðal annars að verkpallinum hafi ekki verið vel við haldið og að orsök slyssins hafi verið sú, að krækjur á endum pallgólfsins hafi að hluta til verið uppréttar, þannig að lyfta hafi mátt pallgólfi upp án þess að opna læsingar krækjanna. Var frekari notkun verkpallsins bönnuð þangað til bætt hefði verið úr þessum ágöllum hans. Lögregla var einnig kvödd á slysstað þegar eftir slysið. Í skýrslu lögreglu 21. maí 2002 segir meðal annars að við skoðun á gólfborði pallsins hafi komið í ljós að festing öðru megin hafi verið orðin tærð og héldi því ekki lengur gólfborðinu föstu við átak. Í slysinu hlaut áfrýjandi nokkur meiðsl sem samkvæmt gögnum málsins hafa varanlegar afleiðingar fyrir hann.

II.

Bú Pípulagna Finnboga Guðmundssonar ehf., var tekið til gjaldþrotaskipta 19. apríl 2004 og hefur áfrýjandi lýst skaðabótakröfu vegna líkamstjóns síns í þrotabúið. Kröfu sína um skaðabótaábyrgð vinnuveitanda á tjóni hans rökstyður hann þannig að notaður hafi verið gallaður verkpallur við framkvæmd verksins.

III.

Áfrýjandi reisir skaðabótakröfu sína á hendur stefnda á því, að hann hafi lagt til gallaðan verkpall til afnota við verkið og beri ábyrgð á tjóni hans sem af því leiðir á grundvelli sakarreglunnar. Sýknukröfu sína reisir stefndi einkum á því, að ekki sé haldið fram í málinu að pallurinn hafi verið notaður samkvæmt fyrirmælum hans, heldur hafi það verið ákvörðun áfrýjanda og samstarfsmanns hans að nota verkpallinn. Leggur stefndi áherslu á að áfrýjandi geri ekki grein fyrir því í hverju hin ætlaða saknæma háttsemi hans hafi falist. Er því andmælt að skýrlega komi fram í héraðsdómsstefnu að það hafi verið saknæmt af hálfu stefnda að lána verktakanum pallinn.

IV.

Þótt á skorti, að lýsing áfrýjanda á málsástæðum þeim og öðrum atvikum, sem hann reisir kröfur sínar gegn stefnda á sé nægilega skýr í héraðsdómsstefnu, kemur þar fram að stefndi hafi átt verkpall þann, sem málið varðar, og hafi verið notaður við framkvæmd verksins. Pallurinn hafi verið gallaður og beri stefndi því ábyrgð á tjóni áfrýjanda sem af því leiði. Við aðalmeðferð málsins í héraði var aðdragandi þess að verkpallur í eigu stefnda var notaður við verkið upplýstur nánar. Þannig kemur fram í vitnaskýrslu Unnars Jónssonar fyrir héraðsdómi, en hann var forstöðumaður eignaumsýslu stefnda, er atvik málsins gerðust, að verkpallurinn hafi verið í geymslu í eigu stefnda og verið lánaður verktökum til afnota við slíkar minni háttar verkframkvæmdir. Hann upplýsir að samist hafi svo með honum og fyrirsvarsmanni verktakans, vinnuveitanda áfrýjanda, að hann fengi afnot af pallinum við verkið. Bifreiðastjóri á vegum stefnda sótti svo einingar verkpallsins í geymsluna og kom þeim fyrir á verkstað, þar sem áfrýjandi og samstarfsmaður hans settu þær saman. Greinir vitnið einnig frá því, að stefndi hafi ætlast til að verkpallurinn væri notaður við slík verk, enda keyptur í því skyni.

Í 1. mgr. 2. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 er mælt fyrir um að þau lög gildi um alla starfsemi, þar sem einn eða fleiri menn vinna, hvort sem um sé að ræða eigendur fyrirtækja eða starfsmenn. Undantekningar sem gerðar eru á gildissviði laganna eiga ekki við í máli þessu og telst sá staður, er áfrýjandi slasaðist, vinnustaður hans í skilningi 41. gr. þeirra. Meginregla 13. gr. laga nr. 46/1980 mælir fyrir um, að það sé atvinnurekandi sem tryggja skal að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað, við framkvæmd vinnu og um vélar, tækjabúnað og fleira. Í 46. gr. laganna er meðal annars mælt fyrir um að áhöld tæki og annar búnaður skuli þannig úr garði gerður að gætt sé fyllsta öryggis og að fylgja skuli ákvæðum laga og reglugerða að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi.

Af 6. gr. reglna nr. 331/1989 um röraverkpalla, sem settar eru meðal annars með stoð í 47. gr. laga nr. 46/1980, leiðir að efni í slíkum verkpöllum skuli vera samkvæmt viðurkenndum stöðlum og ekki skemmt af ryði, annars konar tæringu eða af öðrum ástæðum. Þá segir í 7. gr. í reglunum að gengið skuli svo frá verkpallsgólfi að ekki sé hætta á að einstök borð eða gólfhlutar sporðreisist. Loks segir í 12. gr. reglnanna að öllum hlutum röraverkpalls skuli halda við með fullnægjandi hætti og fyrir hverja notkun skuli helstu hlutar hans yfirfarnir og endurnýjaðir ef þörf er á. Við samanburð á reglum þessum og skýrslum Vinnueftirlits ríkisins og lögreglu verður ekki dregin önnur ályktun en sú, að röraverkpallur sá er áfrýjanda og samstarfsmanni hans var lagður til afnota við verkið hafi verið haldinn ágöllum og ekki í samræmi við þær kröfur sem ber að gera.

Þótt lög nr. 46/1980 geri ráð fyrir sem meginreglu að það sé atvinnurekandi, sem beri ábyrgð á því að fyrirmælum laganna og reglum sem settar eru samkvæmt þeim sé fylgt, leggja lögin einnig skyldur á aðra. Í 29. gr. laganna er mælt fyrir um að sá sem selur afhendir eða sýnir meðal annars verkfæri áhöld, tæki og annað það sem ætlað er til notkunar við atvinnurekstur skuli tryggja að það, sem hér um ræðir sé, þegar það er sýnt eða afhent til notkunar, útbúið með tilskildum hlífðar- og öryggisbúnaði og notkun þess leiði ekki af sér slysa- eða sjúkdómshættu, sbr. VII. kafla laganna. Í 3. mgr. 29. gr. segir, að ef einhver búnaður, sem talinn er upp í 1. mgr. greinarinnar og tilbúinn er til notkunar, sé afhentur áfram, endurseldur, lánaður út eða leigður, gildi þær reglur, sem að framan greinir. Samkvæmt þessum reglum ber sá, sem lánar eða leigir búnað til notkunar við atvinnurekstur einnig ábyrgð á því að hann standist þær kröfur, sem gerðar eru í lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim. Röraverkpallur sá, sem stefndi lánaði til verksins, stóðst ekki þær kröfur sem gera verður til hans þar sem festingar pallgólfsins voru tærðar og komu því ekki í veg fyrir að annar endi þess lyftist eða drægist af þverslá þeirri sem hann var festur við. Stefnda bar að ganga úr skugga um að búnaður þessi væri ekki haldinn þeim ágöllum sem um ræðir áður en hann lánaði hann til slíkra verka. Brot stefnda á þessum reglum, sem honum áttu að vera kunnar, felur í sér saknæma og ólögmæta háttsemi af hans hálfu og ber hann skaðabótaábyrgð á því tjóni, sem af því leiðir. Slys það er áfrýjandi varð fyrir orsakaðist af þeim ágalla á pallinum sem að framan er lýst og er því fallist á að stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni áfrýjanda.

V.

Áfrýjandi, sem er menntaður pípulagningamaður, lýsir því í aðilaskýrslu sinni fyrir héraðsdómi að hann hafi meistararéttindi í iðninni og auk þess meira en þrjátíu ára starfsreynslu í iðngreininni. Hann setti röraverkpallinn saman ásamt samstarfsmanni sínum, sem einnig er pípulagningamaður, með langa reynslu af því starfi. Ekki er upplýst hvor þeirra fór með verkstjórn. Áfrýjanda var ljóst, að verkpallurinn var gamall. Hann lýsir því einnig í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi að verkpallurinn hafi verið eitthvað laus í sér þannig að unnt hefði verið að jaga honum til. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. laga nr. 46/1980 bar honum, er hann varð var við ágalla eða vanbúnað á pallinum, sem leitt gátu til skerts öryggis við framkvæmd verksins, að tilkynna það vinnuveitanda sínum. Þessari skyldu sinnti hann ekki heldur notaði pallinn þrátt fyrir ástand hans. Auk þess gætti hann ekki fullrar varúðar þegar hann hugðist fara niður af verkpallinum með því að taka í eða styðja sig við enda hans með þeim afleiðingum að pallgólfið dróst til og féll niður. Í ljósi þess hve pallurinn var laus í sér verður að gera þær kröfur til áfrýjanda að hann gætti sín sérstaklega. Þar sem áfrýjandi lét undir höfuð leggjast að gæta þessara skyldna sinna verður hann látinn bera tjón sitt að hálfu leyti sjálfur.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað áfrýjanda verður staðfest.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.

Stefndi verður dæmdur til að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti í ríkissjóð eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Viðurkennt er að stefndi, Kaupþing banki hf., beri skaðabótaábyrgð á helmingi þess tjón sem áfrýjandi, Svavar Guðmundsson, varð fyrir í slysi í starfstöð stefnda að Austurstræti 5, Reykjavík, 15. maí 2002.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað skal vera óraskað.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 250.000 krónur.

Stefndi greiði í ríkissjóð málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti samtals 600.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. apríl 2005.

I

Mál þetta var höfðað 15. september 2004 og dómtekið þann 14. mars 2005.

Stefnandi er Svavar Guðmundsson, kt. 220747-2559, Tunguseli 109, Reykjavík, en stefndu eru Kaupþing Búnaðarbanka hf., kt. 560882-0419, Borgartúni 19, Reykjavík og Þrotabú Pípulagna Finnboga Guðmundssonar ehf., kt. 441193-2709, Hátúni 6 a, Reykjavík. 

Stefndi, Þrotabú Finnboga Guðmundssonar ehf., hélt ekki uppi vörnum í málinu og í þinghaldi 14. mars 2005 féll stefnandi frá kröfum á hendur honum.

Dómkrafa stefnanda er að stefndi, Kaupþing Búnaðarbanki hf., verði dæmdur til að greiða stefnanda 9.340.203 krónur ásamt 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 1.211.680 krónum frá 15. maí 2002 til 15. október 2002 og af 9.340.203 krónum frá þeim degi til 16. október 2004 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti eins og mál þetta sé ekki gjafsóknarmál en stefnandi fékk leyfi til gjafsóknar 8. desember 2003.

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til vara krefst hann verulegrar lækkunar á dómkröfum.  Þá krefst hann þess að stefnandi greiði honum málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti.

Að ósk stefnda, Kaupþings Búnaðarbanka hf., var ákveðið að skipta sakarefni málsins með vísan til 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991.  Eru dómkröfur stefnanda því í þessum þætti málsins þær að viðurkennt verði með dómi að stefndi, Kaupþing Búnaðarbanki hf., sé skaðabótaskyldur vegna vinnuslyss stefnanda 15. maí 2002.  Þá krefst hann málskostnaðar auk virðisaukaskatts eins og mál þetta sé ekki gjafsóknarmál.

Stefndi krefst þess að vera sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti.  

II

Stefnandi lenti í vinnuslysi þann 15. maí 2002 er hann var að vinna sem starfsmaður Pípulagna Finnboga Guðmundssonar ehf. við að setja upp ofn fyrir ofan dyr inngangs í fordyri stefnda, Kaupþings Búnaðarbanka hf., hér eftir nefndur stefndi, þar sem fallið hefur verið frá kröfum á hendur stefnda, þrotabúi Pípulagna Finnboga Guðmundssonar ehf.

Pípulagnir Finnboga Guðmundssonar ehf. tók að sér verk þetta sem verktaki og höfðu árum saman unnið ýmiss konar verk fyrir stefnda.  Um verkið sáu starfsmenn félagsins, stefnandi og Óskar Baldursson.  Vettvangur slyssins var umrætt fordyri sem er í húsinu nr. 5 við Austurstræti Reykjavík.  Við verkið notuðu stefnandi og samstarfsmaður hans vinnupall sem var í eigu stefnda og var nýttur í slík verkefni.  Þegar þeir höfðu lokið við verkið og stefnandi hugðist fara niður af vinnupallinum virðist sem pallurinn hafi sporðreist með þeim afleiðingum að stefnandi datt niður á gólfið og slasaðist illa.  Var hann í kjölfarið fluttur á slysadeild með sjúkrabíl.

Kallað var á lögreglu sem kom á staðinn og í lögregluskýrslu er haft eftir samstarfsmanni stefnanda að gólfborð pallsins hafi sporðreist og við það hafi stefnandi fallið niður af pallinum.  Kemur fram í skýrslunni að við skoðun á gólfborði pallsins hafi komið í ljós að festing öðru megin hafi verið orðin tærð og því ekki haldið gólfborðinu föstu við átak.

Lögreglan kallaði á Vinnueftirlit ríkisins sem kom á staðinn og er atvikinu þar lýst þannig að stefnandi hafi sest á enda pallgólfsins og við það hafi gagnstæður endi þess lyfst og gólfið við það hrunið niður.  Þá kemur fram í skýrslu Vinnueftirlitsins, undir kaflanum tæki og búnaður, að umræddum palli hafi ekki verið haldið vel við og meðal annars hafi verið gat á pallgólfinu sem hægt hafi verið að stíga í gegnum auk þess sem ekki hafi verið á honum handrið.  Orsök slyssins kveður Vinnueftirlitið vera að krækjur á endum pallgólfsins hafi að hluta til verið uppréttar, þannig að lyfta hafi mátt pallgólfinu upp án þess að opna læsingar krækjanna. 

Vísaði Vinnueftirlitið í reglur nr. 331/1989 um rörapalla og bannaði frekari notkun vinnupallsins uns bætt hefði verið úr ágöllum hans, eða hann tekinn úr notkun.

Stefnandi kveðst hafa verið lengi að jafna sig eftir slysið og aldrei náð fullri heilsu.  Hann kveðst vera með óþægindi í vinstri úlnlið.  Þá sé hann með verki í hálsi og herðum sem leiði í framhandleggi.  Auk þess sé hann með mikla verki í baki og sé ljóst að hann geti ekki unnið framar sem pípulagningarmaður.   Þá sé hann þunglyndur vegna afleiðinga slyssins og hafi hugleitt að svipta sig lífi. 

Að ósk stefnanda mat Atli Þór Ólason læknir líkamstjón stefnanda af völdum slyssins og var niðurstaða hans í matsgerð, dagsettri 7. júní 2004, að tímabundið atvinnutjón stefnanda frá 15. maí 2002 til 14. október 2002 væri 100%,  og að stefnandi hafi verið batnandi án þess að vera rúmliggjandi á sama tímabili.  Þá mat hann stöðugleikapunkt vera 14. október 2002.  Varanlegur miski væri 20%, varanleg örorka 30% og hefðbundin varanleg læknisfræðileg örorka 20%.

Eins og rakið hefur verið var tekin sú ákvörðun að skipta sakarefni málsins, sbr. 31. gr. laga nr. 91/1991 og er í þessum þætti málsins eingöngu til úrlausnar hvort stefndi er skaðabótaskyldur gagnvart stefnanda vegna slyssins.

III

Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á því að stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni því sem hann varð fyrir vegna umrædds slyss og beri honum því að greiða stefnanda fullar skaðabætur í samræmi við ákvæði skaðabótalaga nr. 50/1993.

Kveður stefnandi að notkun pallsins sem hann hafi dottið af hafi orðið honum til stórfells tjóns og á grundvelli sakarreglunnar beri stefndi ábyrgð á tjóni stefnanda enda öll skilyrði sakarreglunnar uppfyllt í málinu.  Engar hlutlægar eða huglægar ábyrgðarleysisreglur eigi við og því fari fjarri að um óhappatilvik hafi verið að ræða þar sem slysið verði einungis rakið til ónothæfs vinnupalls. 

Í íslenskum skaðabótarétti hafi verið talið að eigandi og/eða notandi gallaðs vinnutækis beri ábyrgð á því tjóni sem hljótist af notkun þess og hafi þetta verið staðfest í fjölda dóma Hæstaréttar.  Orsök slyssins hafi verið gallaður vinnupallur í eigu stefnda og sé það bæði staðfest í lögregluskýrslu og skýrslu Vinnueftirlitsins.

Við mat á sök verði sérstaklega að líta til þess að stefnandi hafi ekki ráðið hvaða verk hann skyldi vinna eða hvernig.  Hann hafi fengið skipanir frá sínum vinnuveitanda, Pípulögnum Finnboga Guðmundssyni ehf.  Þá verði að líta til hættueiginleika starfsins vegna þeirra vinnubragða sem viðhöfð hafi verið.

Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á reglum skaðabótaréttarins.  Sé byggt á sakarreglunni varðandi vanbúnað vinnupallsins. Þá sé byggt á reglum um húsbóndaábyrgð, einkum reglunni um ábyrgð vinnuveitanda á tjóni sem beinlínis megi rekja til bilaðs og eða gallaðs tækis sem notað sé í starfsemi vinnuveitanda.  Enn fremur sé byggt á reglunni um ábyrgð eiganda bilaðs og/eða gallaðs tækis á tjóni sem af því hljótist.  Þá sé vísað til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.  Um varnarþing vísar stefnandi til 33. gr. laga nr. 91/1991 og um málskostnað til 21. kafla laga nr. 91/1991 og um virðisaukaskatt af málskostnaði til laga nr. 50/1988.

IV

Stefndi kveðst eiga erfitt með að svara málsástæðum stefnanda þar sem framsetning þeirra sé óljós. Einkum eigi þetta við varðandi tilgreiningu bótagrundvallar.  Þar komi fram að notkun vinnupallsins hafi leitt til stórfells tjóns og að á grundvelli sakarreglunnar beri stefndi skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda.  Af þessu verði dregin sú ályktun að stefnandi byggi á því að um sök sé að ræða.  Hins vegar skorti algerlega að greina frá því í hverju sökin sé fólgin.  Hver hafi verið sú háttsemi sem stefndi, eða menn sem hann beri ábyrgð á, hafi viðhaft og leitt hafi til tjóns stefnanda.  Þess sé í engu getið í stefnu heldur aðeins byggt á að í íslenskum skaðabótarétti hafi verið talið að eigandi og/eða notandi gallaðs vinnutækis beri ábyrgð á því tjóni sem kunni að hljótast af notkun þess og sagt að þessi regla hafi verið staðfest í fjölmörgum dómum Hæstaréttar og loks fullyrt að orsök slyss stefnanda hafi verið sú að vinnupallur í eigu stefnda hafi verið gallaður.  Megi af orðalagi þessu ráða að grundvöllur bótakröfu stefnanda á hendur stefnda byggist á eignarhaldi á gölluðum vinnupalli.  Geti hér ekki verið átt við annað en hlutlæga bótareglu.

Verði engar ályktanir dregnar af stefnu um hver sök stefnda sé.  Verði því ekki annað séð en að bótagrundvöllurinn gagnvart honum sé hlutlæg ábyrgð sem byggist þá á þeirri forsendu að nægilegt sé að tjón verði rakið til notkunar gallaðs tækis til að fella ábyrgð á eiganda þess.  Stefndi mótmælir því að slíkri réttarreglu sé fyrir að fara samkvæmt íslenskum lögum.  Til þess að til slíkrar bótaábyrgðar geti stofnast þurfi stefndi að hafa notað viðkomandi tæki í eigin rekstri og sú notkun leitt til tjóns.

Því sé mótmælt að regla um hlutlæga ábyrgð eiganda gallaðs tækis hafi verið staðfest í fjölda dóma Hæstaréttar.  Staðreyndin sé sú að í þeim dómum þar sem ábyrgð án sakar hafi verið lögð á eiganda gallaðs tækis sé eignarhald tækisins ekki meginforsenda við úrlausnina og í þeim fáu dómum sem hafi gengið um þetta atriði hafi aðstæður verið hættulegri og sérstæðari en í máli þessu.  Hér sé aðstaðan sú að um hafi verið að ræða vinnupall sem sé aðeins 190 cm á hæð sem stefnandi hafi sjálfur sett saman.  Gat hafi verið á gólfi pallsins og ástand hans þannig að stefnandi hafi mátt sjá að ekki væri öruggt að starfa við hann.  Megi telja fráleitt að stefnandi hafi sýnt fram á að skilyrði hlutlægrar ábyrgðar séu fyrir hendi í málinu.

Stefndi byggir á því að hann hafi ráðið fagmenn sem verktaka til að vinna fyrir sig tiltekið verk.  Það hafi verið unnið án nokkurs samráðs við hann og án þess að hann hafi haft nokkuð um framgang verksins að segja eða framkvæmd.  Starfsmenn Pípulagninga Finnboga Guðmundssonar ehf. hafi komið á verkstað og kosið að notast við verkpall í eigu stefnda.  Hafi stefnandi og samstarfsmaður hans sett saman pallinn en starfsmenn stefnda ekkert komið þar nærri eða borið ábyrgð á því.

Af gögnum málsins verði ráðið að stefnandi sé pípulagningarmeistari og hafi yfir 30 ára starfsreynslu sem slíkur.  Geri stefndi ráð fyrir því að í störfum sínum þurfi stefnandi að notast við vinnupalla eins og þann sem hér um ræðir og eigi því að þekkja til uppsetningar slíkra vinnutækja.  Reynsla stefnanda sé mun meiri en starfsmanna á vegum stefnda.  Í skýrslu Vinnueftirlitsins komi fram að gat hafi verið á gólfi umrædds verkpalls og galli talinn vera á festingum hans.   Sé byggt á því af hálfu stefnda að ágallar þessa vinnupalls hefðu átt að vera augljósir kunnáttumanni eins og stefnanda og því hafi honum mátt vera ljóst að notkun pallsins gæti fylgt hætta.  Stefnandi kaus samt að nota pallinn.  Telur stefndi að þótt komist yrði að þeirri niðurstöðu að eignarhald á gölluðum vinnupalli feli í sér saknæma háttsemi og leiði til bótaskyldu stefnda verði að telja að reglur um áhættutöku og eigin sök leiði hvorar fyrir sig til algers brottfalls bótaréttar. Eins og kunnugt sé eigi slíkar reglur við þótt bótaskylda byggi á sakarlíkindareglu eða sé jafnvel byggð á hlutlægum grunni.

Um lagarök byggir stefnandi á meginreglum skaðabótaréttar.  Um málskostnað vísar stefndi til 130. gr. laga nr. 91/1991 og um virðisaukaskatt á málskostnað á lögum nr. 50/1988.

V

Eins og rakið hefur verið er einungis til umfjöllunar hvort stefndi beri ábyrgð á tjóni stefnanda sem hann varð fyrir er hann féll af vinnupalli 15. maí 2002.  Óumdeilt er að umræddur vinnupallur var í eigu stefnda og verkið unnið af verktakanum, Pípulögnum Finnboga Guðmundssonar ehf., sem stefnandi vann hjá.  Stefnandi var því ekki starfsmaður stefnda við verkið og enginn starfsmaður stefnda kom að þessu verki nema að því leyti að ráða verktakann til starfsins og upplýsa hvað gera þyrfti.  Verður stefndi því ekki skaðabótaskyldur á þeim forsendum að starfsmenn hans hafi valdið stefnanda tjóni á saknæman hátt.

Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á hendur stefnda á sakarreglunni og þar sem notkun pallsins sem stefnandi féll af hafi orðið stefnanda til stórfells tjóns beri stefndi ábyrgð á tjóninu enda öll skilyrði sakarreglunnar uppfyllt.  Ekki er þessi fullyrðing rökstudd neitt frekar og ekki ljóst af málatilbúnaði stefnanda í hverju stefndi sýndi af sér saknæma háttsemi sem leiddi til tjóns stefnanda.

Stefnandi byggir á því að orsök slyssins hafi verið gallaður vinnupallur og hafi verið talið í íslenskum skaðabótarétti að eigandi og/eða notandi gallaðs vinnutækis beri ábyrgð á tjóni sem hljótist af notkun þess.  Af þessu verður ráðið að stefnandi byggi kröfur sínar á því að stefndi beri hlutlæga ábyrgð á tjóni stefnanda sem eigandi vinnupallsins.

Ekki er deilt um að slysið varð þegar annar endi gólfs vinnupallsins lyftist upp og hrundi niður með þeim afleiðingum að stefnandi féll niður af vinnupallinum.  Um örsök slyssins verður að líta til skýrslu Vinnueftirlits ríkisins sem hefur samkvæmt 81. gr. laga nr. 46/1980 lögbundnu hlutverki að gegna að rannsaka orsakir slysa sem þessa.  Í skýrslu Vinnueftirlitsins eru orsakir slyssins sagðar vera þær að krækjur á endum pallgólfsins hafi verið að hluta til uppréttar, þannig að lyft hafi mátt gólfinu upp án þess að opna læsingar krækjanna. Ekkert kemur fram í skýrslu Vinnueftirlitsins um að festing væri tærð eins og fullyrt er í lögregluskýrslu og ekkert liggur fyrir um það í málinu hvers vegna krækjur á endum pallgólfsins voru að hluta til uppréttar.  Af skýrslu Vinnueftirlitsins verður ráðið að ágallar á vinnupallinum hafi verið þeir að honum hafi ekki verið vel við haldið, gat hafi verið á gólfi hans sem hægt hafi verið að stíga í gegnum og ekki hafi verið á honum handrið. 

Samkvæmt framansögðu var ýmsu ábótavant varðandi vinnupallinn sem stefnandi notaði við vinnu sína umrætt sinn og fullnægði hann ekki þeim reglum sem settar hafa verið um slíka vinnupalla eins og rakið er í skýrslu Vinnueftirlitsins.  Notkun hans var hins vegar á ábyrgð vinnuveitanda stefnanda, Pípulagna Finnboga Guðmundssonar ehf.  Stefnandi er þaulreyndur pípulagningamaður og vanur því að setja saman vinnupalla.  Verður að gera þær kröfur til hans sem fagmanns að hann gæti þess að setja pallinn rétt saman og ef hann var í einhverjum vafa um að pallurinn væri öruggur bar honum að tilkynna það ef hann taldi óforsvaranlegt að nota hann.  Öðru vísi gat stefndi ekki haft vitneskju um að pallurinn væri haldinn ágöllum.

Það er talin almenn regla í íslenskum rétti að vinnuveitandi beri hlutlæga bótaábyrgð gagnvart starfsmanni sínum ef hann slasast í starfinu vegna bilunar eða galla tækis sem vinnuveitandinn á og verður að ætla að sú regla eigi aðeins við verði slys rakið til bilunar eða galla í tækinu en gildi almennt ekki um slys af völdum notkunar tækis.  Í þessu máli eru aðstæður aðrar þar sem stefnandi var ekki starfsmaður stefnda og hefur stefnandi engin haldbær rök fært fram fyrir því að eignarhald vinnupallsins út af fyrir sig geri stefnda skaðabótaskyldan, jafnvel þótt slysið verði rakið til vanbúnaðar hans. Ákvörðun um að nota pallinn var alfarið á ábyrgð vinnuveitanda hans.  Þá hefur skýrslu Vinnueftirlits ríkisins ekki verið hnekkt og samkvæmt henni verða orsakir slyssins raktar til þess að krækjurnar voru ekki læstar og er ekki loku fyrir það skotið að þess hafi ekki verið gætt við uppsetningu vinnupallsins en ábyrgð á því báru stefnandi og samstarfsmaður hans, sem settu pallinn saman.  Þykir stefnandi ekki hafa lagt fram haldbær gögn sem staðfesta svo óyggjandi sé að slys hans verði rakið til þess að umræddur vinnupallur hafi verið haldinn ágöllum.

Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda.  Þrátt fyrir þá niðurstöðu þykir rétt að málskostnaður verði felldur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda að fjárhæð krónur, 790.200 krónur, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, sem þykir hæfilega ákveðin 650.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.

Af hálfu stefnanda flutti málið Grímur Sigurðarson hdl. en af hálfu stefnda flutti málið Gestur Jónsson hrl.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Kaupþing Búnaðarbanka hf., er sýknaður af öllum kröfum stefnanda, Svavars Guðmundssonar.

Málskostnaður fellur niður.  Gjafsóknarkostnaður stefnanda að fjárhæð 790.200 krónur, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, sem þykir hæfilega ákveðin 645.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.