Hæstiréttur íslands
Mál nr. 36/1999
Lykilorð
- Björgunarlaun
- Vátrygging
- Sjóveð
|
|
Föstudaginn 18. júní 1999. |
|
Nr. 36/1999. |
Leó Óskarsson (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) gegn Ólgusjó ehf. (Guðmundur Pétursson hrl.) |
Björgunarlaun. Vátrygging. Sjóveð.
Skipið H, sem húftryggt var hjá vátryggingafélaginu T, varð vélarvana og kom L skipinu til hjálpar og dró það frá landi á skipi sínu A, sem húftryggt var hjá vélbátaábyrgðarfélaginu G. Voru aðilar sammála um að liðsinni L hefði falið í sér björgun í merkingu þágildandi 1. mgr. 164. gr. siglingalaga nr. 34/1985, en ágreiningur reis um það hvort greiðslu til L fyrir björgunina skyldi ákveða á grundvelli reglna siglingalaga um björgunarlaun eða reglu þágildandi 14. gr. laga um bátaábyrgðarfélög nr. 18/1976. Talið var að greiðsla björgunarlauna skips yrði ekki ákveðin eftir sérreglu 14. gr. laga um bátaábyrgðarfélög þegar skip, sem bjargað var, hefði verið tryggt hjá öðru vátryggingafélagi en bátaábyrgðarfélagi. Bar því að greiða L björgunarlaun á grundvelli ákvæða siglingalaga. Var eiganda skipsins H gert að greiða L björgunarlaun, en krafa L um viðurkenningu sjóréttar í H var talin fyrnd og var henni hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. janúar 1999. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 3.000.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 27. september 1996 til greiðsludags og að viðurkenndur verði lögveðréttur fyrir kröfunni í fiskiskipinu Hrauney VE-41, skipaskrárnúmer 918. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Tryggingamiðstöðinni hf. hefur verið stefnt til réttargæslu.
I.
Í héraðsdómi er rakið að skip stefnda, Hrauney, hafi fengið net í skrúfu og orðið vélarvana er það var statt skammt undan Landeyjasandi 27. september 1996. Kom áfrýjandi til hjálpar og dró skip hans, Arnar RE-400, skip stefnda frá landi. Eru málsaðilar sammála um að liðsinni áfrýjanda hafi falið í sér björgun í merkingu þágildandi 1. mgr. 164. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Reglur VIII. kafla laganna um björgun, sem þá giltu, hafa nú verið leystar af hólmi með nýjum, sbr. lög nr. 133/1998.
Arnar er 29,36 rúmlestir að stærð og húftryggður hjá Vélbátaábyrgðarfélaginu Gróttu, en Hrauney VE er 66,28 rúmlestir og húftryggð hjá Tryggingamiðstöðinni hf. Lýtur ágreiningur málsaðila eingöngu að því hvort greiðslu til áfrýjanda fyrir björgunina skuli ákveða á grundvelli reglna siglingalaga um björgunarlaun eða hvort honum beri aðeins þóknun samkvæmt þágildandi 14. gr. laga nr. 18/1976 um bátaábyrgðarfélög. Fari ákvörðun um greiðslu eftir ákvæðum siglingalaga eru málsaðilar sammála um að hæfilegt endurgjald fyrir björgunina sé 3.000.000 krónur, en 500.000 krónur ef greiðslu ber að ákveða samkvæmt 14. gr. laga nr. 18/1976.
II.
Í málinu reynir á skýringu laga nr. 18/1976 eftir þá breytingu, sem gerð var á þeim með lögum nr. 116/1993 um breytingar á lagaákvæðum á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna aðildar að samningi um Evrópskt efnahagssvæði. Fyrir þá breytingu gilti sú regla samkvæmt 2. gr. fyrrnefndu laganna að allir þeir, sem áttu vélskip með þilfari, 100,49 rúmlestir eða minni, voru skyldir til að vátryggja þau hjá bátaábyrgðarfélagi, sem starfaði samkvæmt lögunum innan þess svæðis, er skipið var skrásett í. Samábyrgð Íslands á fiskiskipum hafði með höndum eftirlit með starfsemi bátaábyrgðarfélaga og ákvörðunarvald gagnvart þeim um mikilvæga þætti í starfsemi þeirra. Bátaábyrgðarfélög eru gagnkvæm vátryggingafélög og var tekið mið af því í starfsemi þeirra að halda kostnaði svo lágum, sem unnt væri. Þáttur í því var regla 14. gr. laga nr. 18/1976, sem fól meðal annars í sér gagnkvæma skyldu fyrir eigendur allra skipa, sem tryggð voru samkvæmt lögunum, til að hjálpa skipum hvers annars úr háska og að ekki skyldu greidd björgunarlaun, heldur aðeins þóknun til að mæta fjártjóni og kostnaði, sem hjálpin hafi bakað þeim, er hana veitti. Greiðslan skyldi ákveðin af stjórn hlutaðeigandi bátaábyrgðarfélags, ef bæði skipin voru tryggð hjá sama félagi, en ella af stjórn Samábyrgðarinnar. Gagnkvæmar skyldur og samstaða þeirra vátryggingartaka, sem undir lögin féllu, áttu rót sína að rekja til enn eldri löggjafar frá fyrri hluta þessarar aldar.
Við meðferð Alþingis á frumvarpi, er varð að lögum nr. 116/1993, var því lýst í nefndaráliti, að frumvarpinu væri ætlað að samræma ákvæði ýmissa laga á sviði heilbrigðis- og tryggingamála reglum EES samningsins. Helstu breytingar, sem að væri stefnt hvað varðaði lög nr. 18/1976, væru að fella niður einkarétt bátaábyrgðarfélaga til að vátryggja vélskip með þilfari, 100,49 rúmlesta eða minni, og jafnframt að afnema skattaívilnanir, sem bátaábyrgðarfélög hafi notið. Var jafnframt lagt til að breyta lögum um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, þar á meðal að afnema skattaívilnanir félagsins. Frumvarp til laga, sem að þessu stefndi, var samþykkt.
Samkvæmt 2. gr. laga nr. 18/1976 með áorðnum breytingum er nú skylt að vátryggja skip innan stærðarmarka, sem áður er getið um, hjá bátaábyrgðarfélagi, er starfar samkvæmt lögunum, eða hjá öðru vátryggingafélagi, sem hlotið hefur starfsleyfi. Nokkrum öðrum greinum laganna var jafnframt breytt í umrætt sinn, en ekki hróflað við 14. gr. þeirra. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti var því lýst af hálfu áfrýjanda að rúmlega þriðjungur þeirra skipa, sem vátryggingarskylda samkvæmt lögunum tekur til, væri nú tryggður hjá öðrum vátryggingafélögum en bátaábyrgðarfélögum og að einungis fá bátaábyrgðarfélög séu enn starfandi, en flest þeirra hafi hætt starfsemi eða verið sameinuð öðrum eftir setningu laga nr. 116/1993.
Með 13. gr. laga nr. 133/1998, sem getið er í I. kafla að framan, var 14. gr. laga nr. 18/1976 felld úr gildi. Tóku lögin gildi 1. janúar 1999. Gilda eftir það ákvæði VIII. kafla siglingalaga jafnt um björgun skipa, er tryggð eru hjá bátaábyrgðarfélögum, sem annarra skipa.
III.
Aðalreglur um greiðslu björgunarlauna eru þær, sem felast í VIII. kafla siglingalaga. Sú skipan, sem 14. gr. laga nr. 18/1976 hafði að geyma og gilti er atvik þessa máls urðu, er undantekning frá þeirri meginreglu. Á hún svo sem áður er getið rætur í enn eldri löggjöf, sem miðaði að því að gera eigendum smærri skipa í senn skylt og kleift að vátryggja skip sín með sem lægstum tilkostnaði. Liður í því var sú tilhögun að greiða ekki björgunarlaun í þeim tilvikum, sem ákvæðið sneri að, og draga þannig úr hæð iðgjalda.
Með setningu laga nr. 116/1993 var einkaréttur bátaábyrgðarfélaga til að vátryggja þessi skip felldur niður, þótt skylda til að vátryggja þau héldist. Með lögunum var þó ekki brugðist nema að nokkru leyti við því að tilhögun laga nr. 18/1976 er sérstaks eðlis og um margt ólík því, sem gildir um vátryggingar almennt. Samkvæmt 2. gr. laganna er nú heimilt að uppfylla tryggingarskyldu hjá öðru vátryggingafélagi og með þeim skilmálum, sem settir eru í lögunum, eins og þar hermir. Er þó ljóst að ýmis ákvæði laganna geta ekki átt við um önnur vátryggingafélög en bátaábyrgðarfélög, sem taka að sér að vátryggja minni skip en 100,49 rúmlestir. Dæmi þess er meðal annars að finna í 1. mgr. 8. gr., þar sem segir að ráðherra ákveði að fengnum tillögum Samábyrgðarinnar og bátaábyrgðarfélaganna hámark þeirrar áhættu, sem hvert bátaábyrgðarfélag tekur á eigin reikning í hverju skipi. Annað slíkt dæmi er sú regla 14. gr. að stjórn Samábyrgðarinnar ákveði þóknun samkvæmt greininni ef skipin, sem hlut eiga að máli, eru ekki bæði tryggð hjá sama félagi. Ákvörðunarvald félagsins felur í sér frávik frá almennum reglum og helgast af nánum tengslum þess við bátaábyrgðarfélög og starfsemi þeirra, sem áður var vikið að. Staða félagsins gagnvart bátaábyrgðarfélögum nær ekki til þess að úrskurða um ágreining þeirra við önnur vátryggingafélög eða einhverja enn aðra.
Skýring stefnda á gildissviði 14. gr. laga nr. 18/1976 eftir þær breytingar, sem gerðar voru með lögum nr. 116/1993, leiðir í raun til þeirrar niðurstöðu að undantekningarregla um björgunarlaun yrði rýmkuð út fyrir þann hóp, sem áður átti samstöðu í skjóli einkaréttar bátaábyrgðarfélaga og gagnkvæmra skyldna vátryggingartakanna. Stefndi hefur sjálfur kosið að hverfa frá þátttöku í slíkri tilhögun og haldbær rök eru ekki fram komin til að fallast á að lagabreytingin geti leitt til slíkrar niðurstöðu. Þá hefur stefndi ekki lagt fram gögn til stuðnings því að vátryggingariðgjöld hans hjá Tryggingamiðstöðinni hf. hafi tekið mið af því að björgunarlaun yrðu ekki greidd, reyndi á slíkt. Að virtu öllu því, sem að framan er rakið, verður fallist á með áfrýjanda að greiðsla fyrir björgun skips verði ekki ákveðin eftir sérreglu 14. gr. laga nr. 18/1976 í því tilviki að skipið, sem bjargað var, hafi verið tryggt hjá öðru vátryggingafélagi en bátaábyrgðarfélagi, enda verður ekki litið svo á að 21. gr. laganna, sbr. 17. gr. laga nr. 116/1993, fái því breytt. Ber þá að greiða björgunarlaun, sem ákveðin verða eftir ákvæðum siglingalaga. Verður stefndi samkvæmt því dæmdur til að greiða áfrýjanda 3.000.000 krónur, en af málflutningi stefnda verður ráðið að samkomulag um fjárhæð björgunarlauna nái ekki til vaxta eða upphafstíma þeirra. Ekki liggur fyrir hvenær áfrýjandi krafði stefnda um greiðslu og verður stefnda því gert að greiða dráttarvexti frá birtingu héraðsdómsstefnu. Krafa áfrýjanda um viðurkenningu sjóveðréttar í Hrauney er fyrnd, sbr. 201. gr. siglingalaga, og verður henni hafnað. Skal stefndi greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Stefndi, Ólgusjór ehf., greiði áfrýjanda, Leó Óskarssyni, 3.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 22. júní 1998 til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 850.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 21. desember 1998.
Mál þetta höfðaði Leó Óskarsson, kt. 040853-3599, Kögurseli 14, Reykjavík, fyrir sína hönd og áhafnar v/b Arnars RE 400, þeirra Ragnars Sigurbjörnssonar, kt. 090951-7269, Möðrufelli 3, Reykjavík og Magnúsar Gíslasonar, kt. 100967-3599, Háeyrarvöllum 42, Eyrarbakka, með stefnu birtri 22. júní 1998 á hendur Ólgusjó ehf., kt. 630196-2059, Illugagötu 43, Vestmannaeyjum. Málið var dómtekið 23. nóvember sl.
Stefnandi krefst greiðslu á kr. 3.000.000 með dráttarvöxtum frá 27. september 1996 til greiðsludags og að viðurkenndur verði lögveðréttur fyrir kröfunni í m/b Hrauney VE-41. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti af málflutningsþóknun.
Stefndi krefst sýknu gegn greiðslu á kr. 500.000 auk vaxta skv. 7. gr. vaxtalaga frá 27. september 1996 til greiðsludags. Þá krefst hann þess að málskostnaður verði felldur niður.
Stefnandi stefndi Tryggingamiðstöðinni hf., kt. 660269-2079, til réttargæslu, en Hrauney VE var húftryggð hjá félaginu.
Skip stefnda, Hrauney VE-41, var að draga net skammt undan landi við Landeyjasand 27. september 1996. Um klukkan 16:00 festist netatrossa í skrúfu bátsins og tók hann að reka að landi. Í stefnu er því lýst að foráttubrim hafi verið og 4-5 vindstig af vestri eða suðvestri. Arnar RE 400 kom til hjálpar og tókst í annarri atrennu að draga Hrauney VE frá landi. V/b Gullborg tók síðar við drætti Hrauneyjar, en síðast dró lóðsinn bátinn að bryggju í Vestmannaeyjum.
Hrauney VE 41 er 66,28 rúmlestir að stærð. Eins og að framan er getið er hún tryggð húftryggingu hjá réttargæslustefnda Tryggingamiðstöðinni hf. Arnar RE 400 er 29 rúmlestir. Hann er húftryggður hjá Vélbátaábyrgðarfélaginu Gróttu. Báðir eru bátarnir innan stærðarmarka 2. gr. laga nr. 18/1976 um bátaábyrgðarfélög. Bátaábyrgðarfélag Vestmannaeyja, sem stofnað var 1862, hætti starfsemi fyrir nokkrum árum.
Aðilar eru sammála um að verk það er skipverjar á Arnari RE unnu hafi verið slíkt sem nefnt er björgun í 1. mgr. 164. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Ágreiningur aðila lýtur eingöngu að því hvort ákveða beri stefnanda björgunarlaun samkvæmt reglum siglingalaga, þ.e. þóknun ákveðna eftir þeim atriðum sem talin eru í 1. mgr. 165. gr., eða hvort stefnendum beri eingöngu þóknun skv. 14. gr. laga nr. 18/1976 um bátaábyrgðarfélög. Þá deila aðilar ekki sérstaklega um fjárhæðir, en leggja til grundvallar að aðalkrafa stefnanda feli í sér kröfu um eðlileg björgunarlaun samkvæmt reglum siglingalaga, en að krafa stefnda feli í sér hæfilega þóknun samkvæmt lögum um bátaábyrgðarfélög.
Auk þeirrar staðhæfingar að aðgerðir áhafnar Arnars RE hafi verið björgun ber stefnandi fram þrjár meginmálsástæður til grundvallar kröfum sínum. Í fyrsta lagi að 14. gr. laga nr. 18/1976 sé bundin við það að skip séu tryggð hjá bátaábyrgðarfélagi, en Hrauney VE hafi verið tryggð hjá Tryggingamiðstöðinni hf., sem er ekki bátaábyrgðarfélag. Þá telur stefnandi að aðstæður allar hafi breyst verulega síðustu ár þannig að 14. gr. geti ekki lengur átt við. Loks telur stefnandi að ákvæðið feli í sér brot á 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. stjórnskipunarlög nr. 97/1995, með því að eigendum fiskiskipa sé mismunað eftir stærð skipanna og hjá hvaða félagi þau séu vátryggð. Þá telur stefnandi að ekki sé unnt að fela stjórn Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum úrskurðarvald um fjárhæð þóknunar eins og gert sé.
Nánar segir stefnandi varðandi jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar að eigendum fiskiskipa sé mismunað eftir því hjá hvaða félagi þau sé tryggð og eftir stærð þeirra. Ákvörðun björgunarlauna vegna stærri skipa fari eftir ákvæðum siglingalaga. Skv. 5. mgr. 164. gr. skeri dómur úr um fjárhæð verði málsaðilar ekki á eitt sáttir. Kveðst stefnandi byggja á því að engin rök standi lengur til þess að hafa tvískipt kerfi við uppgjör björgunarlauna, en þau sjónarmið sem lágu að baki lögum nr. 18/1976 eigi ekki lengur við. Bátaábyrgðarfélögin séu að mestu hætt starfsemi og önnur tryggingafélög hafi tekið við tryggingum skipanna. Ójafnræði sem í þessu felist leiði til skerðingar á öryggi skipa og ekki síst þeirra sem leggi sig í hættu við björgunarstörf.
Þá sé stjórn Samábyrgðarinnar falið úrskurðarvald um björgunarlaun þegar viðkomandi skip séu ekki tryggð hjá sama félagi. Samábyrgðin sé ekki óháður úrskurðaraðili og telur stefnandi að ekki sé unnt að fela henni úrskurðarvald. Því geti ekki aðrir en dómstólar dæmt þá kröfu sem hann hafi uppi í þessu máli. Því beri að ákveða þóknun fyrir björgun Hrauneyjar VE eftir ákvæðum 164. og 165. gr. siglingalaga, enda styðjist ákvæði þessi við hefð og hafi að geyma viðurkenndar meginreglur til ákvörðunar björgunarlauna.
Stefndi mótmælir skilningi stefnanda á 2. og 14. gr. laga nr. 18/1976. Telur hann að ekki séu sett önnur skilyrði en um stærð skipanna. Heimilt sé að húftryggja þessi skip hjá tryggingafélögum sem hafi starfsleyfi, en bæði réttargæslustefndi og Vélbátaábyrgðarfélagið Grótta hafi starfsleyfi. Bæði skipin sem í hlut eigi séu tryggð skv. lögum um bátaábyrgðarfélög.
Stefndi telur 14. gr. laganna byggða á skýrum, málefnalegum forsendum og taki hún til allra eigenda skipa að tiltekinni stærð. Telur hann að löggjafinn hafi heimild til slíkra almennra takmarkana. Bendir hann á að það sé lögmál í vátryggingum að beint samband sé á milli tjóna og iðgjalda. Lægri björgunarkostnaður komi skipaeigendum til góða í lægri iðgjöldum. Þetta tilvik sé því ekki sambærilegt því þegar stærri skip eigi í hlut.
Loks telur stefndi að framsal ákvörðunarréttar um fjárhæð björgunarlauna til stjórnar Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum byggist á málefnalegum grundvelli.
Loks bendir stefndi á að regla samhljóða 14. gr. hafi verið í lögum frá 1938 og ekki hafi verið hróflað við ákvæðinu er lögum nr. 18/1976 var breytt með lögum nr. 116/1993.
Stefndi hefur ekki uppi andmæli um fjárhæð björgunarlauna sérstaklega ef fallist yrði á með stefnanda að þau skuli ákveðin samkvæmt reglum siglingalaga. Hann telur hins vegar að einungis beri að greiða þóknun sem mælt er fyrir um í margnefndri 14. gr. Býður hann fram greiðslu á kr. 500.000, með vöxtum eins og fram kemur í dómkröfum hans. Fjárhæð þessi er ekki studd neinum gögnum, en sætir heldur ekki andmælum.
Niðurstaða
Árið 1976 var síðast gerð heildarendurskoðun á lögum og reglugerð um bátaábyrgðarfélög. Voru þá sett lög nr. 18/1976 og reglugerð nr. 367/1976. Lögunum var breytt í nokkrum atriðum með lögum nr. 116/1993 og reglugerð nr. 376/1976 var leyst af hólmi með reglugerð nr. 673/1994 um skylduvátryggingu fiskiskipa.
Með lögunum og reglugerðinni 1976 var landinu öllu skipt í 8 svæði, auk Vestmannaeyja, og var starfandi eitt bátaábyrgðarfélag á hverju svæði. Allir eigendur fiskiskipa með fullu þilfari allt að 100, 49 brl. að stærð voru skyldir að húftryggja báta sína í félagi viðkomandi svæðis, og viðkomandi félagi var almennt skylt að taka alla slíka báta í tryggingu. Þannig var í gildi gagnkvæm vátryggingarskylda fyrir þennan hluta fiskiskipaflotans.
Þá var í 14. gr. laga nr. 18/1976 mælt fyrir um gagnkvæma skyldu fiskiskipa þessara „ til að hjálpa hvert öðru úr háska.” Þessi skylda náði raunar til stærri hóps með því að skylda þessi hvíldi einnig á öllum skipum sem ríkissjóður eða ríkisstofnanir gerðu út, svo og skipum sem vátryggð voru hjá Samábyrgð Íslands á fiskiskipum. Ákvæði þetta er enn í gildi óbreytt, en því var ekki breytt er breytingar voru gerðar á lögum nr. 18/1976 á árinu 1993, sem síðar verður vikið að. Um þóknun fyrir veitta aðstoð og ákvörðun hennar segir síðan orðrétt:
„Greiðslu fyrir slíka hjálp verður ekki krafist eftir venjulegum björgunarreglum, heldur skal hún ákveðin af stjórn hlutaðeigandi félags, ef bæði skipin eru tryggð hjá sama félagi, ella af stjórn Samábyrgðarinnar. Greiða skal aðeins það fjártjón og þann tilkostnað, sem hjálpin hefur bakað þeim, er hana veitti, og aldrei getur greiðslan orðið hærri en vátryggingarfjárhæð skipsins, sem hjálpina þáði. Ákvæði laga nr. 25/1967 og 66/1963 um hlutdeild skipshafnar í björgunarlaunum breytist í samræmi við ákvæði greinar þessarar.”
Bæði Hrauney VE og Arnar RE eru þilfarsbátar innan við 100,49 brl. Er því skylt að húftryggja þá samkvæmt lögum um bátaábyrgðarfélög nr. 18/1976. Heimilt er að húftryggja hjá þeim félögum sem hafa starfsleyfi, auk þeirra bátaábyrgðarfélaga sem starfandi eru. Hvort sem tryggt er hjá bátaábyrgðarfélagi eða öðru tryggingafélagi er um að ræða tryggingu á grundvelli lagaskyldu skv. lögum nr. 18/1976. 14. gr. laganna gildir því um bæði skipin og um aðstoð sem þau kunna að veita hvort öðru. Ekki verður leyst úr því í þessu máli hvort skilmálar er réttargæslustefndi og stefndi hafa samið um séu í ósamræmi við reglugerð nr. 673/1993, en skv. 1. mgr. 2. gr. þeirra skal vátryggt með þeim skilmálum sem reglugerðin kveður á um.
Þá verður einnig að hafna því að vegna breytinga á öllum aðstæðum geti lögin ekki átt við lengur. Staðan nú er nokkuð breytt frá því sem gilti fyrst eftir gildistöku laga nr. 18/1976, sem raunar hafði staðið lítið breytt frá 1938. Breytingin sem fólst í lögum nr. 116/1993 var gagnvart vátryggingartökum í raun sú ein að einkaréttur bátaábyrgðarfélaga til húftrygginga viðkomandi fiskiskipa var aflagður, auk þess sem gerðardómsákvæði var fellt úr lögunum. Hins vegar var ekki hróflað við öðrum ákvæðum laganna, þannig er enn skylt að húftryggja þessi skip og ákvæði því um björgun sem deilt er um í þessu máli var ekki breytt.
Loks ber stefnandi það fyrir sig að með margnefndri 14. gr. sé brotið gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, sbr. 65. gr., sbr. 3. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995. Eigendum fiskiskipa sé mismunað um ákvörðun björgunarlauna eftir því hjá hvaða félagi sé vátryggt og eftir stærð skipsins.
Með 2. mgr. 23. gr. laga nr. 27/1938 var lögfest ákvæði efnislega á sömu lund og núgildandi 14. gr. laga nr. 18/1976. Þá var aðstaðan sú að ákvæðið gilti innbyrðis milli allra skipa sem tryggð voru hjá vátryggingafélögum skv. lögunum, svo og skipa sem tryggð voru hjá Samábyrgð Íslands á fiskiskipum. Þannig var þegar í upphafi lögfest að ákvæðið væri ekki bundið við báta innbyrðis sem tryggðir voru hjá sama félagi. Þó var aðstaðan sú að bátaábyrgðarfélögin tóku ekki að sér aðrar vátryggingar en húftryggingar þær sem skyldubundnar voru, auk þess sem endurtryggingar voru fyrir öll félögin hjá Samábyrgð Íslands á fiskiskipum. Þannig var nokkur samstaða með þeim félögum sem önnuðust húftryggingar hinna minni fiskiskipa. Þróunin eftir síðari heimstyrjöld mun hafa verið á þann veg að sífellt stærri hluti fiskiskipaflotans, annarra en togara, var stærri en svo að hann væri háður skyldutryggingunni. Þannig var skyldutryggingin aldrei bundin við tegundir skipa, veiðiaðferðir eða annað, heldur aðeins við stærð mælda í lestum. Þá var skyldan eðlilega bundin við skip skráð hér á landi sem ætluð voru til fiskveiða.
Bátaábyrgðarfélögin eru gagnkvæm tryggingafélög. Flest önnur tryggingafélög sem nú starfa hér á landi eru hins vegar hlutafélög.
Björgunarlaun eða þóknun skv. 14. gr. laga um bátaábyrgðarfélög eru í flestum tilvikum hér við land greidd til útgerða skipa, sem gerð eru út til annars en björgunarstarfa aðallega. Eru fæst skipin með sérstakan sérhæfðan búnað til björgunarstarfa.
Tilgangur sérreglunnar er að halda iðgjöldum húftryggingarinnar lægri en ella. Er björgunarskylda lögð á skipin innbyrðis, ríkari skylda en felst í almennu reglunni í 163. gr. siglingalaga. Útgerðir þessara skipa njóta því að því er ætla verður lægri iðgjalda, en á móti kemur að greiðsla björgunarlauna kemur ekki til greina nema bjargað sé skipi sem stærra er en 100,49 brl, eða opnum bát. Málið er ekki flutt og reifað um spurninguna hvort þessi skipan feli í sér ólögmæta mismunun gagnvart áhöfnum skipanna.
Í þessari skipan felst ekki mismunun gagnvart útgerðarmönnum skipa sem bjarga öðrum skipum sem regla 14. gr. gildir um. Regla þessi á sér sögulegar skýringar og forsendur hennar eru ekki brostnar þrátt fyrir nokkrar breytingar á vátryggingamarkaði. Það er ekki á valdi dómstóla að kveða upp úr um hvort reglan er heppileg eða sanngjörn eða ekki, en hún brýtur ekki í bága við 65. gr. stjórnarskrárinnar.
Stefnandi krefst björgunarlauna og er þeirri kröfu hafnað. Verður að dæma málið í samræmi við kröfugerð stefnda, þ.e. að dæma hann til greiðslu á kr. 500.000, sem þóknun fyrir aðstoð skv. 14. gr. laga nr. 18/1976. Vextir verða dæmdir eins og stefndi krefst, en dráttarvextir frá dómsuppkvaðningu. Fjárhæðin verður dæmd stefnanda Leó Óskarssyni, en ekki verður leyst úr því í þessu máli hvern hlut í henni aðrir í áhöfninni eiga. Málskostnaður verður felldur niður.
Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefndi, Ólgusjór ehf., greiði stefnanda, Leó Óskarssyni, kr. 500.000 með vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga frá 27. september 1996 til 21. desember 1998, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.
Málskostnaður fellur niður.