Hæstiréttur íslands

Mál nr. 523/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


                                     

Fimmtudaginn 25. september 2008.

Nr. 523/2008.

Sýslumaðurinn á Akureyri

(Eyþór Þorbergsson, fulltrúi)

gegn

X

(Sigmundur Guðmundsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. C. liður 1. mgr.

103. gr. laga nr. 19/1991.

 

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. og c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. september 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 20. september 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 26. september 2008 kl. 13.30. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar en til vara að varnaraðila verði gert að sæta farbanni.

Fallist verður á með héraðsdómi að fram sé kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi framið afbrot sem fangelsisrefsing er lögð við. Að þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 20. september 2008.

Mál þetta barst dómnum í dag og var tekið til úrskurðar samdægurs.

Sýslumaðurinn á Akureyri krefst þess að kærða, X, kt. [...] með skráð lögheimili að [...], Reykjavík, sæti gæsluvarðhaldi til 30. september n. k., klukkan 14:30.

Kærði krefst þess að kröfunni verði hafnað, en varðhaldinu ella markaður skemmri tími en krafist er.    

I.

Kærða var handtekin í gær ásamt karlmanni fæddum árið 1977. Lögregla rannsakar nú meint brot þeirra gegn 181. gr., 231. gr., 244, gr.  257. gr. og 259. gr. almennra hegningarlaga.  Upplýst virðist vera að kærðu hafi brotist inn í tilgreint húsnæði á Akureyri og haldið þar til um einhvern tíma, svo og í tilgreindan sumarbústað á Svalbarðs­strönd. Lögreglu grunar að kærða hafi brotist inn í fleiri sumarbústaði, en kærða neitar því. Þá virðist liggja fyrir að í gær hafi kærða tekið fjórhjól ófrjálsri hendi. Á palli þess var nokkuð magn af DVD myndum, sem lögreglu grunar að sé þýfi.

Í kröfu sýslumanns er tekið fram að kærða hafi ásamt fyrrnefndum manni dvalið hér um slóðir í 4-5 vikur án þess að hafa fastan samastað og án atvinnu. Kvartað hafi verið undan þeim og þeim vísað út úr verslunum vegna gruns um þjófnaði.

Rannsóknari telur að kærða geti torveldað rannsókn málsins haldi hún frelsi sínu óskertu, svo sem með því að hafa áhrif á samseka. Þá megi ætla að framhald verði á brota­starfsemi kærðu, verði henni sleppt. Þá sé bent á að kærða gæti áformað að fara úr landi áður en málum þessum sé lokið.    

II.

Rannsókn málsins er á frumstigi. Lögregla grunar kærðu um innbrot í fleiri sumarbústaði en hún kannast við og verður að fallast á að þær grunsemdir kunni að eiga við rök að styðjast. Þá er fallist á að ætla megi að kærða muni halda áfram brotum meðan máli hennar er ekki lokið. Þykir verða að fallast á að skilyrði 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, sbr. a-lið og c-lið ákvæðisins, séu uppfyllt. Verður krafa sýslumanns því tekin til greina, en gæsluvarðhaldi markaður skemmri tími en krafist er, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

                Kærða, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 26. september n.k., klukkan 13:30.