Hæstiréttur íslands
Mál nr. 120/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Miðvikudaginn 3. mars 2010. |
|
Nr. 120/2010. |
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Alda Hrönn Jóhannsdóttir fulltrúi) gegn X (Haukur Örn Birgisson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. a. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. febrúar 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. mars 2010. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 24. febrúar 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 3. mars 2010 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími og honum verði ekki gert að sæta einangrun.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Það athugist að hinn kærði úrskurður var, svo sem fyrr greinir, kveðinn upp miðvikudaginn 24. febrúar 2010. Varnaraðili kærði úrskurðinn með kæru sem stimpluð er um móttöku af Héraðsdómi Reykjaness föstudaginn 26. febrúar 2010. Gögn málsins bárust Hæstarétti mánudaginn 1. mars 2010 klukkan 15.45. Þegar sérstaklega er höfð hliðsjón af hinum stutta gæsluvarðhaldstíma má ljóst vera að nauðsynlegt var að reka kærumál þetta með meiri hraða en hér var greint, þar sem réttur varnaraðila til að kæra úrskurðinn hefur annars litla þýðingu fyrir hann.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 24. febrúar 2010.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 3. mars 2010, kl. 16.00.
Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu segir að Y, kt. [...], hafi verið stöðvaður í tollhliði við reglubundið eftirlit er hann hafi komið til landsins með flugi nr. AEU-902 frá Kaupmannahöfn, Danmörku, fimmtudaginn 11. febrúar s.l., vegna gruns um að hann hefði fíkniefni meðferðis í farangri sínum. Við eftirlit hafi fundist rúm 800 g af kókaíni falin í ferðatösku hans. Við rannsókn lögreglu hafi komið í ljós að kærði hafi pantað farmiða Y hingað til lands og sé símanúmer kærða sett við bókun flugmiðans. Telur lögregla rökstuddan grun til að ætla að kærði kunni að vera viðriðinn innflutning fíkniefnanna og hann hafi m.a. komið að skipulagningu hans.
Rannsókn máls þessa sé í fullum gangi. Meðal þess sem rannsaka þurfi sé aðdragandi ferðar Y utan og hingað til landsins og tengsl Y við kærða og aðra hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi og/eða erlendis, auk annarra atriða. Það magn fíkniefna sem lögregla hafi þegar haldlagt þyki benda til þess að efnin hafi verið ætluð til sölu og dreifingar og háttsemi hans kunni að varða við ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, auk ákvæði laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Lögregla telur að ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hann laus.
Þess sé krafist að kærða verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu skv. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008. Þá er þess jafnframt krafist að kærða verði gert að sæta takmörkunum sbr. a- til f-liða 1. mgr. sömu greinar.
Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni telur lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 3. mars 2010, kl. 16.00.
Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um aðild að innflutningi fíkniefna og getur meint brot varðað fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins er í fullum gangi. Haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins með því að koma sönnunargögnum undan eða hafa áhrif á samseka. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er því fallist á kröfur lögreglustjóra, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 3. mars nk. kl. 16:00.
Kærða er gert að vera í einangrun meðan á gæslu stendur.