Hæstiréttur íslands

Mál nr. 578/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Lögræði
  • Birting


Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. október 2009.

Nr. 578/2009.

A

(Kristján Stefánsson hrl.)

gegn

SP Fjármögnun hf.

(Steinar Þór Guðgeirsson hrl.)

 

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Lögræði. Birting.

Úrskurður héraðsdóms um gjaldþrotaskipti á búi A var felldur úr gildi þar sem skipuðum lögráðamanni hans hafði ekki verið birt fyrirkall um að krafan yrði tekin fyrir á dómþingi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. október 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. september 2009, þar sem bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili var sviptur fjárræði ótímabundið með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 10. janúar 2008 og B skipuð lögráðamaður hans 18. sama mánaðar. Með bréfi 2. júlí 2009 krafðist varnaraðili þess að bú sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Héraðsdómur Reykjaness gaf úr fyrirkall til sóknaraðila 13. ágúst 2009 um að krafan yrði tekin fyrir á dómþingi fimmtudaginn 3. september 2009 klukkan 11.00. Fyrirkallið var birt sóknaraðila mánudaginn 17. ágúst það ár klukkan 21.00. Þegar krafa varnaraðila var tekin fyrir á dómþingi 3. september 2009 var þing ekki sótt af hálfu sóknaraðila. Málið var tekið til úrskurðar samdægurs og hinn kærði úrskurður upp kveðinn viku síðar.

Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að fjárhaldsmanni hafi ekki verið kunnugt um fyrrnefndan úrskurð um gjaldþrot fyrr en sóknaraðili var boðaður til skýrslutöku hjá skiptastastjóra með ábyrgðarbréfi dagsettu 15. september 2009. Samkvæmt gögnum Íslandspósts hf. er afhending þess bókuð 18. sama mánaðar klukkan 8.47, en helst verður ráðið af gögnunum að sóknaraðili hafi veitt því viðtöku þann dag klukkan 17.09. Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að fyrirsvarmanni hafi borist þessi vitneskja síðdegis sama dag.

Samkvæmt 3. mgr. 17. gr.  laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, kemur lögráðamaður fram sem fyrirsvarsmaður ólögráða manns sem brestur hæfi til að ráðstafa sakarefninu, en samkvæmt 1. mgr. 82. gr. fyrrnefndu laganna ber að birta stefnu og aðrar tilkynningar fyrir fyrirsvarsmanni ólögráða aðilans. Fyrirkall um að krafa varnaraðila yrði tekin fyrir á dómþingi 3. september 2009 var því ranglega birt sóknaraðila sjálfum. Það að eigi var sótt þing af hans hálfu gat því ekki haft réttaráhrif samkvæmt 2. mgr. 70. gr. laga nr. 21/1991. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er úr gildi felldur.

Varnaraðili, SP Fjármögnun hf. greiði sóknaraðila, A, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. september 2009.

Málið var  þingfest 3. september sl. og tekið til úrskurðar sama dag. SP Fjármögnun hf., kt. 620295-2219, Sigtúni 42, Reykjavík, krefst þess í málinu að bú A, kt. […],[…], verði tekið til gjaldþrotaskipta.

Skiptabeiðandi kveðst eiga kröfu á hendur skuldara sem að viðbættum dráttarvöxtum og kostnaði nemi  krónum. Gögn í málinu sýna að árangurslaust fjárnám var gert hjá skuldara 23. júní 2009. Skiptabeiðni var móttekin af héraðsdómi 3. júlí 2009.

Fyrirkall ásamt skiptakröfu var löglega birt fyrirsvarsmanni skuldara en þegar krafa skiptabeiðanda var tekin fyrir á gjaldþrotaþingi þann 3. september sl. var þing ekki sótt af hálfu skuldara. Það ber skv. 2. mgr. 70. gr. laga nr. 21/1991 að túlka þannig, að skuldari viðurkenni fullyrðingu skiptabeiðanda um að hann standi í skuld við skiptabeiðanda sem hann sé ófær um að standa skil á. Því telst fullnægt skilyrðum 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 til að verða við kröfu skiptabeiðanda og er því bú skuldarans tekið til gjaldþrotaskipta

Úrskurðurinn er kveðinn upp af Arnfríði Einarsdóttur, héraðsdómara.     

ÚRSKURÐARORÐ:

Bú A, kt. […], er  tekið til gjaldþrotaskipta.