Hæstiréttur íslands
Mál nr. 619/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Barnavernd
- Vistun barns
- Ómerking
- Gjafsókn
|
|
Föstudaginn 21. nóvember 2008. |
|
Nr. 619/2008. |
A(Oddgeir Einarsson hdl.) gegn Barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar (Einar Hugi Bjarnason hdl.) |
Kærumál. Barnavernd. Vistun barns. Ómerking. Gjafsókn.
Með úrskurði héraðsdóms var mælt fyrir um að barnið B yrði vistað utan heimilis forsjárforeldris í 12 mánuði, sbr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Talið var að þar sem ekki hafði verið gætt ákvæðis 3. mgr. 55. gr. barnaverndarlaga um að ávallt skyldi gefa barni kost á að tjá sig áður en leyst er úr máli fyrir dómi væri óhjákvæmilegt að ómerkja hinn kærða úrskurð og leggja fyrir héraðsdómara að bæta úr þessum annmarka. Tekið var fram að umrætt ákvæði yrði að skýra eðli málsins samkvæmt og með hliðsjón af 2. mgr. 46. sömu laga, með þeim hætti að þessi skylda væri bundin við að barnið yrði talið hafa þroska og aldur til að tjá sig um málið, en því skilyrði þótti fullnægt í málinu enda barnið á 14. aldursári.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. nóvember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 31. október 2008, þar sem varnaraðila var heimilað að vista barn sóknaraðila, B, utan heimilis sóknaraðila í 12 mánuði frá 6. október 2008 að telja. Kæruheimild er í 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að kröfu varnaraðila um vistun barnsins utan heimilis í 12 mánuði, frá og með 6. október 2008 að telja, verði hafnað. Til vara krefst sóknaraðili þess að hinn kærði úrskurður verði ómerktur um annað en gjafsóknarkostnað og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið fyrir á ný. Að því frágengnu er þess krafist að sá tími, sem markaður er í hinum kærða úrskurði, verði styttur. Þá krefst hún kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila án tillits til gjafsóknar sem hún nýtur fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Sóknaraðili vísaði málinu til Héraðsdóms Reykjaness 13. október 2008 og gerði þá kröfu að úrskurður varnaraðila 6. október 2008 um að dóttir sóknaraðila, B, skyldi vistuð utan heimilis í allt að tvo mánuði, yrði felldur úr gildi. Þegar málið var tekið fyrir 22. október 2008 lagði varnaraðili fram greinargerð og krafðist þess að staðfestur yrði úrskurður hans frá 6. sama mánaðar, sem byggst hefði á b. lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga, en einnig að dómurinn úrskurðaði að stúlkan yrði vistuð utan heimilis sóknaraðila í 12 mánuði frá 6. október 2008 að telja, með heimild í 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga. Í greinargerð sem lögð var fram 24. október síðastliðinn mótmælti sóknaraðili þeirri kröfu.
Í málinu liggja fyrir upplýsingar um að B hafi, með heimild í 3. mgr. 46. gr. barnaverndarlaga, verið skipaður talsmaður. Í skýrslu talsmannsins 12. júní 2008 kemur fram að hún hafi hitt stúlkuna utan heimilis og rætt við hana um „lífið og tilveruna“. Segir í niðurstöðu skýrslunnar að talsmaðurinn hafi átt „gott spjall“ við stúlkuna og hún hafi verið „dugleg að segja frá sér.“ Talsmaður stúlkunnar leitaði ekki eftir afstöðu hennar til þess að hún skyldi vistuð utan heimilis. Þá er ekki að finna gögn í málinu um að leitað hafi verið eftir afstöðu stúlkunnar til dómkrafna í máli þessu eftir að það kom fyrir Héraðsdóm Reykjaness.
Um meðferð þessa máls fyrir dómi gilda ákvæði XI. kafla barnaverndarlaga, þar sem fjallað er um meðferð mála fyrir dómi samkvæmt 27. gr. og 28. gr. laganna. Þar er í 61. gr. tekið fram að ákvæði X. kafla laganna skuli einnig gilda um meðferð máls eftir því sem við geti átt og að því marki sem ekki sé mælt fyrir um frávik í ákvæðum XI. kafla. Í X. kafla er að finna ákvæði 55. gr., þar sem segir í 3. mgr. að ávallt skuli gefa barni kost á að tjá sig um mál sem það varði þótt það gerist ekki aðili þess. Þegar ákvörðun barnaverndarnefndar samkvæmt 1. mgr. 27. gr. er borin undir dóm með heimild í 2. mgr. 27. gr. getur reynt á hvort gætt hafi verið ákvæðis 2. mgr. 46. gr. laganna þar sem kveðið er svo á að við málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd skuli gefa barni kost á að tjá sig um mál sem það varði í samræmi við aldur þess og þroska og taka réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn máls og að ávallt skuli gefa barni sem náð hafi 12 ára aldri kost á að tjá sig um mál. Ef á hinn bóginn er leitað úrskurðar héraðsdóms um ráðstöfun samkvæmt 28. gr. laganna, þar sem ákvörðun verður ekki tekin nema með atbeina dómstóls, ber samkvæmt 3. mgr. 55. gr. að gefa barni kost á að tjá sig áður en leyst er úr máli fyrir dómi, en telja verður eðli málsins samkvæmt og með hliðsjón af 2. mgr. 46. gr. laganna að þessi skylda sé bundin við að barn verði talið hafa aldur og þroska til að tjá sig um málið.
Í máli þessu er uppi krafa um vistun B utan heimilis foreldra í tólf mánuði frá 6. október 2008 að telja. Ákvæði 3. mgr. 55. gr. barnaverndarlaga eiga hér við samkvæmt framansögðu. Héraðsdómi var skylt að gefa B, sem er á 14. aldursári, kost á að tjá sig um málið áður en úr því var leyst. Það var ekki gert og verður af þeim sökum ekki hjá því komist að ómerkja hinn kærða úrskurð og leggja fyrir héraðsdóm að bæta úr greindum annmarka á meðferð málsins.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er ómerktur og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar og úrskurðar á ný.
Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar 200.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 31. október 2008.
Með úrskurði varnaraðila 6. október 2008 var með vísan til b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 tekin sú ákvörðun að taka barnið B af heimili sínu og sóknaraðila og vista barnið utan heimilis í allt að tvo mánuði frá og með 6. október 2008. Með beiðni, dagsettri 13. október 2008, sem móttekin var hjá Héraðsdómi Reykjaness daginn eftir, bar sóknaraðili úrskurð varnaraðila undir dóminn, sbr. 3. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga.
Dómkröfur sóknaraðila eru þær að felldur verði úr gildi úrskurður varnaraðila dags. 6. október 2008, um að B, kt. [...], verði tekin af heimili sínu og vistuð utan heimilis í allt að tvo mánuði frá og með 6. október 2008. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Varnaraðili krefst þess að Héraðsdómur Reykjaness staðfesti úrskurð varnaraðila frá 6. október 2008 um að heimilt sé að vista B utan heimilis sóknaraðila í tvo mánuði. Þá hefur varnaraðili gert þá viðbótarkröfu fyrir dómi að úrskurðað verði að B verði vistuð utan heimilis sóknaraðila í 12 mánuði frá 6. október 2008 að telja, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 80/2002. Ekki er krafist málskostnaðar.
Af hálfu sóknaraðil er þess krafist að hafnað verði viðbótarkröfu varnaraðila um 12 mánaða vistun barnsins utan heimilis.
Málið var tekin til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 24. október sl.
I.
Í framlögðum úrskurði varnaraðila frá 6. október 2008 eru málavextir ítarlega raktir. Verður nú stiklað á stóru í þeirri frásögn og höfð hliðsjón af öðrum gögnum málsins. B er 13 ára gömul stúlka sem er í 8. bekk [...]skóla. Sóknaraðili er móðir hennar og fer hún með forsjá hennar. B er í engu sambandi við föður sinn en móðir hennar sakaði föðurinn um að hafa beitt stúlkuna kynferðislegu ofbeldi á fyrstu æviárum hennar. B á eldri bróður, sem fæddur er 1984, og býr hann á heimilinu tímabundið. Sóknaraðili og sonur hennar eru bæði öryrkjar en sóknaraðili hefur lent í 5 bílslysum um ævina. Auk þess á sóknaraðili við stoðkerfisvandamál að stríða, skjaldkirtilsvandamál, er með gigt og grindarlos auk þess að eiga í vanda vegna hálsáverka og glímir við ofnæmi.
Mál B var flutt frá [...] til Reykjanesbæjar í janúar 2008. Málið hafði þá verið unnið sem barnaverndarmál hjá Félagsmálaráði X frá árinu 2003 og hafði borist þaðan frá Félags- og skólaþjónustu Y, þar sem málið hafði verið í vinnslu frá árinu 2001. Þegar B hóf nám í 2. bekk í [...]skóla á Z fór fljótlega að bera á slakri mætingu í skólann. Kennari hennar reyndi ítrekað að ná sambandi við móður en það gekk erfiðlega. Árið 2003 var óskað eftir af Félagsmálaráði X að barnið yrði lagt inn á unglingageðdeild Landspítalans (BUGL) vegna djúpstæðs kvíða og sérkennilegrar hegðunar. Hún var þó ekki lögð inn en rannsókn gerð og í niðurstöðu segir að B sé með góða meðalgreind en hafi töluverð einkenni áráttu og þráhyggju og að hún væri illa stödd félagslega þannig að hún ætti erfitt með aðlögun í hópi jafnaldra. Þá kemur einnig fram að B átti í miklum aðskilnaðarkvíða við móður sína og var skólasókn orðin stopul af þeim sökum. Hún var með kvíðaeinkenni og sérkennilega hegðun þar sem hún átti það til að gefa frá sér ískurhljóð og fara í hin ýmsu hlutverk eins og að leika dýr, oft í lengri tíma. BUGL mælti með því að fjölskyldan fengi öflugan stuðning frá félagsþjónustunni í formi stuðningsfjölskyldu, persónulegs ráðgjafa og færi í þjálfun í félagsfærni hjá BUGL.
Í maí 2003 fór B í könnunarviðtal í Barnahúsi þar sem móðir hennar hafði áhyggjur af því að hún tæki þátt í eða ætti upptök að kynferðislegum leikjum. Í framhaldi af því fór B í meðferð og greiningu í Barnahúsi. Fram kom að B átti enga vini en stóð sig vel námslega. Fram kom að vandi B var djúpstæður og helst var nefnt að hún væri gjörn á að draga sig til baka eða inn í skel sína og einnig var hún með líkamlegar umkvartanir. Hún átti við vandamál tengd þunglyndi að stríða og einnig vandamál í félagslegum samskiptum.
Í byrjun árs 2005 fór B í fóstur til hjónanna C og D í [staðsetning]. Stúlkan hafði þá áður verið í sumardvöl hjá þeim hjónum árið 2004. Fram kemur í gögnum málsins að ástæða þess að B var send í fóstur var sú að félagsmálayfirvöld á X töldu að sóknaraðili réði ekki við uppeldishlutverkið og virtist óeðlilega háð dóttur sinni þrátt fyrir stuðningsúrræði á vegum [...]kaupstaðar. Einnig var skólasókn stúlkunnar verulega ábótavant og móðir sá ekki til þess að hún mætti í skólann. Haustið 2003 var m.a. fenginn skólaliði úr [...]skóla til að aðstoða þær mæðgur á morgnana. Þetta úrræði gekk vel til að byrja með en fljótlega fór að halla undan fæti og sóknaraðili fór að tilkynna stúlkuna veika eða svaraði ekki þegar skólaliðinn mætti á morgnana til að fara með stúlkuna í skólann. Frá janúar 2005 til vors 2007 dvaldi B í áðurnefndu fóstri og var hún til fyrirmyndar á þeim tíma. Gekk henni mjög vel í námi og mætti mjög vel í skólann. Fram kemur í umsögn frá skólanum á Þ að stúlkan væri vel gerð, tillitssöm og námfús. Henni er lýst sem félagslega sterkri og vinsælli á meðal skólafélaga. Fram kom í samtölum við fósturforeldra B að stúlkan hafi aldrei beðist undan að mæta í skólann né kvartað undan verkjum. Þá hafi ekkert komið fram um að hún væri kvalin eða gæti ekki mætt í skólann. Fram kemur í umsögn fósturforeldra að við komu B hafi B og sóknaraðili rakið fyrir fósturforeldrum langa sjúkrasögu B. Það hafði því komið þeim verulega á óvart hversu hraust hún reyndist vera. Móðir samþykkti ekki áframhaldandi vistun utan heimilis og fór því stúlkan aftur heim til sóknaraðila vorið 2007.
Um haustið 2007 hóf Br aftur skólagöngu í [...]skóla á X. Fljótlega fór að bera á miklum fjarvistum. Þegar leið á haustið jukust fjarvistir og í nóvember 2007 var sett fram áætlun um meðferð máls samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga. Þann 20. nóvember barst önnur tilkynning um að stúlkan hafi ekki mætt í skólann í einn mánuð samfellt. Sóknaraðili útskýrði fjarvistir með veikindum. Ákveðið var að starfsmenn Xkaupstaðar færu í vitjun á heimili þeirra mæðgna en sóknaraðili hringdi áður og afboðaði. Eftir það var ítrekað reynt að ná sambandi við sóknaraðila en ekkert gekk. Þann 27. nóvember 2007 fóru starfsmenn félagsmálaráðs að heimili mæðgnanna ásamt lækni og lögreglu. Markmiðið var að fjarlægja barnið af heimilinu. Móðir neitaði að hleypa starfsmönnum inn og neyddist lögreglan til þess að brjóta upp lás á hurðinni. Kemur fram í greinargerð frá Xkaupstað að ástand á heimilinu hafi verið mjög slæmt, dregið var fyrir alla glugga og lágu mæðgurnar saman á dýnu inni í svefnherbergi. Í framhaldi voru mæðgurnar fluttar á bráðamóttöku LSH þar sem haldinn var fundur með mæðgunum og ættingjum þeirra. Ekki varð af því að barnið væri fjarlægt frá móður og eftir fundinn fóru mæðgurnar með ættingjum til Reykjanesbæjar þar sem þær eru búsettar nú. Á fundi með ættingjum B á geðdeild LSH bauðst E bróðir B til að aðstoða við að koma stúlkunni í skóla. Það hefur ekki gengið eftir.
Félagsmálaráð Xkaupstaðar gerði áætlun um meðferð máls sem átti að gilda frá 3. desember til 3. febrúar 2008. Var farið fram á í þessari áætlun að sóknaraðili sæi til þess að stúlkan mætti í skólann og sinnti námi. Þessi áætlun gekk ekki eftir og var mikið um fjarvistir og var stúlkan ítrekuð tilkynnt veik.
Þann 8. apríl barst tilkynning til varnaraðila frá [...]skóla í Reykjanesbæ þar sem skólasókn stúlkunnar var tilkynnt verulega ábótavant. Fleiri tilkynningar hafa borist varnaraðila þar sem kennarar lýsa áhyggjum sínum af mætingu stúlkunnar. Á vorönn 2008 voru haldnir nokkrir fundir með sóknaraðila í því skyni að reyna að aðstoða sóknaraðila við að koma stúlkunni í skóla. Þessir fundir hafa ekki borið árangur og endaði einn fundurinn með því að sóknaraðili gekk á dyr. Sóknaraðili hefur borið við ýmsum heilsufarslegum ástæðum fyrir því að B geti ekki mætt í skólann. Hún sé með gigtarsjúkdóm, mígreni og astma og einnig hafi hún átt í erfiðleikum með miklar blæðingar sem sóknaraðili segir að tengist húsnæði því sem þær hafi búið í á X. Í málinu liggja fyrir vottorð þeirra lækna sem stundað hafa stúlkuna. Kemur fram í þeim að veikindi hennar séu ekki slík að þau hamli skólagöngu. Þó kemur fram í bréfi eins læknis að veikindi stúlkunnar geti heft skólagöngu hennar en einungis meðan á tíðablæðingum stendur.
Þann 28. maí sl. fengust þær upplýsingar frá skólanum að B hafi verið tilkynnt veik í alls 292 stundir og fengið leyfi í 77 stundir síðan hún hóf nám í [...]skóla í byrjun desember 2007. Á haustönn hefur mæting hennar á engan hátt batnað og er úrskurður varnaraðila gekk 6. október sl. hafði stúlkan aðeins mætt 8 daga í skólann á haustönn.
Á barnaverndarnefndarfundi þann 9. júní 2008 samþykkti sóknaraðili eftirfarandi stuðningsúrræði: Að barninu yrði skipaður talsmaður, að stúlkunni yrði útveguð sálfræðiviðtöl og að stúlkunni yrði útvegaður barnalæknir sem væri tengiliður hennar við heilbrigðiskerfið almennt. Móðir samþykkti ekki sveitadvöl fyrir stúlkuna eins og lagt var til. Þá samþykkti móðir að gangast undir foreldrahæfnismat.
Í júní 2008 var Helgi Viborg sálfræðingur fenginn til að gera foreldrahæfnismat á sóknaraðila. Helgi reyni ítrekað að ná til sóknaraðila en án árangurs. Þegar hann náði loks í hana átti sóknaraðili erfitt með að koma til fundar við hann vegna veikinda. Helgi bauðst þá til að koma heim til sóknaraðila en hún neitaði því. Þau náðu þó saman á fundi 19. ágúst 2008 á skrifstofum Reykjanesbæjar. Í foreldrahæfnismati kemur fram að sóknaraðili eigi við mikil veikindi að stríða. Einnig kemur fram að hún eigi við tilfinningavanda að stríða sem einkennist af spennu og áhyggjum og samkvæmt persónuleikaprófi sé líklegt að hún noti líkamleg einkenni til þess að komast hjá því að takast á við sálfræðilegan vanda sinn. Marg oft hafi verið rætt við sóknaraðila um hvort möguleiki sé á því að veikindi hennar séu af andlegum toga en hún hafi ávallt neitað því. Sóknaraðili kom sálfræðingnum fyrir sem slæm fyrirmynd fyrir dóttur sína og telur sálfræðingurinn að hún sé vanhæf til að sinna skyldum sínum sem uppalandi. Niðurstöður sýni að sjúklingur eins og hún sé að öllu jöfnu með lítinn meðferðarvilja og vinni því ekki af heilindum að eigin bata og sé einungis líkleg til að samþykkja tillögur barnaverndaryfirvalda telji hún sig ekki komast undan því.
Í ljósi alls þessa ákvað varnaraðili að grípa til neyðarráðstöfunar samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga. Segir í úrskurði nefndarinnar að þær mæðgur lifi mjög félagslega einangruðu lífi og séu óeðlilega tengdar. Grunur sé um að einangrun B sé að aukast og aðstæður hennar orðnar þær sömu og þegar hún bjó á X en þá hafi þurft að kalla á lögreglu til að aðstoða við inngöngu á heimilið. Stúlkan hafi mætt takmarkað í skólann undangengnar vikur og móðir hafi neitað alfarið að sálfræðingur og barnaverndarstarfsmenn kæmu í heimsókn á heimilið. Samvinna við sóknaraðila hafi ekki verið góð og hafi hún oftar en einu sinni gengið út af fundum bæði hjá starfsmönnum barnaverndarnefndar og af fundum barnaverndarnefndar. Þá sé mjög erfitt að ná til sóknaraðila símleiðis. Í forsendum úrskurðar varnaraðila segir að sóknaraðili komi nú fyrir sjónir sem slæm fyrirmynd fyrir dóttur sína og að hún sé á þessari stundu vanhæf til þess að sinna skyldum sem uppalandi. Því sé mikilvægt að B búi á öðru heimili á meðan sóknaraðili sé að vinna í sínum málum svo hún geti í framtíðinni tekið að sér uppeldishlutverk gagnvart dóttur sinni. Einnig sé mikilvægt að gera ítarlega greinargerð á þörfum og stöðu B og það sé mat barnaverndarnefndar að slíkt mat geti ekki farið fram meðan stúlkan búi á heimili sóknaraðila. Nauðsynlegt sé að aðskilja þær til að hægt sé að meta á raunhæfan hátt þarfir og stöðu stúlkunnar.
Í forsendum úrskurðar varnaraðila segir að lítill samstarfsvilji hafi verið hjá sóknaraðila og ekki orðið neinn sýnilegur árangur í málinu. Á Xi hafi verið reynt að fá tilsjónarmanneskju til þess að koma stúlkunni í skólann en sá stuðningur hafi ekki skilað árangri. Þá hafi bróðir stúlkunnar gert samning um að koma stúlkunni í skólann en það hafi heldur ekki skilað árangri. Samstarf við sóknaraðila hafi verið erfitt og hún mjög á móti afskiptum barnaverndarnefndar. Fram hafi komið að sóknaraðili hafi ekki í hyggju að taka á þessum mikilvæga þætti í lífi barnsins, þ.e.a.s. að mæta í skóla. Í samskiptum við sóknaraðila hafi verið áberandi að hún útskýri sína líðan og stúlkunnar út frá veikindum og hafi hún litla innsýn í aðstæður og stöðu stúlkunnar. Varnaraðili hafi ítrekað neitað því að vista stúlkuna utan heimilis en eftir því hafi margoft verið leitað af barnaverndaryfirvöldum.
II.
Eins og að framan er rakið hafa afskipti barnaverndarnefnda af sóknaraðila og dóttur hennar staðið í mörg ár. Áhyggjur barnaverndarnefnda, nú síðast varnaraðila, hafa fyrst og fremst snúið að því að B hefur ekki sótt skóla með eðlilegum hætti og eins hefur varnaraðili áhyggjur af andlegri heilsu stúlkunnar vegna þeirra aðstæðna sem hún býr við heima hjá sér og lýst er hér að framan.
Í málinu hefur nægjanlega komið fram að barnaverndaryfirvöld hafa reynt öll vægari úrræði til þess að koma málum í rétt horf en án árangurs. Tilsjónarmaður var fenginn til að mæta á heimili stúlkunnar á morgnana til að koma henni í skóla en það gekk ekki vegna andstöðu sóknaraðila. Sóknaraðili hefur neitað starfsmönnum varnaraðila um að heimsækja heimili þeirra mæðgna og hefur ekki þegið aðstoð sálfræðings sem til stóð að talaði við sóknaraðila og barn hennar.
Þá hefur komið fram í málinu að á meðan stúlkan var í fóstri frá janúar 2005 til vors 2007 gekk henni allt í haginn, var nánast aldrei veik og stundaði skóla og félagslíf tengt skólanum.
Að öllu framansögðu virtu verður talið að heimilisaðstæður B hafi verið óviðunandi þrátt fyrir að varnaraðili hafi leitað allra úrræða til að aðstoða sóknaraðila. Hafa barnaverndaryfirvöld ekki náð árangri í viðleitni sinni til að skapa stúlkunni betri uppeldisskilyrði vegna andstöðu sóknaraðila að þiggja aðstoð. Af þeirri sögu sem rakin er hér að framan má ráða að sóknaraðili er ekki í stakk búin að sjá barni sínu fyrir sómasamlegu uppeldi. Krafa varnaraðila um vistun utan heimilis í 12 mánuði frá 6. október 2008 verður því tekin til greina, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 80/2002. Vistun í styttri tíma þykir ekki koma til álita eins og málavöxtum er háttað en af gögnum málsins og skýrslu sóknaraðila fyrir dómi, þar sem hún afneitaði öllum vanda sínum, verður ekki annað ráðið en að langt sé í land að hugarfarsbreyting verði hjá sóknaraðila.
Rétt þykir að málskostnaður falli. Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, sem er þóknun lögmanns hennar, Oddgeirs Einarssonar hdl., 400.000 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, greiðist úr ríkissjóði.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Fallist er á kröfu varnaraðila, Barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar, að barnið B, verði vistuð utan heimilis síns í 12 mánuði frá 6. október 2008 að telja.
Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, sem er þóknun lögmanns hennar, Oddgeirs Einarssonar hdl., 400.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.