Hæstiréttur íslands

Mál nr. 773/2017

Vörður tryggingar hf. (Eva B. Helgadóttir lögmaður)
gegn
A (Árni Pálsson lögmaður)

Lykilorð

  • Líkamstjón
  • Skaðabótamál
  • Fyrirvari
  • Uppgjör
  • Samningur
  • Varanleg örorka
  • Örorkumat

Reifun

A slasaðist þegar bifreið var ekið yfir fót hennar í janúar 2014. Í júní 2015 greiddi V hf. henni bætur á grundvelli álitsgerðar læknis og lögmanns sem þá lá fyrir, en þeir töldu að slysið hefði ekki haft í för með sér varanlega starfsorkuskerðingu fyrir A. Tók A við bótunum með fyrirvara um mat á varanlegri örorku og aflaði í kjölfarið álits örorkunefndar á afleiðingum slyssins, sem komst að þeirri niðurstöðu að varanleg örorka hennar væri 10%. Höfðaði A þá mál á hendur V hf. til heimtu frekari bóta. Deildu aðilar bæði um gildi fyrirvarans sem A hafði gert við bótauppgjörið og hvort leggja bæri niðurstöðu örorkunefndar til grundvallar. Héraðsdómur taldi að fyrirvari A hefði verið fullgildur og að leggja bæri álit örorkunefndar til grundvallar niðurstöðu um varanlega örorku hennar. Var krafa A því tekin til greina. Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu héraðsdóms að leggja bæri álit örorkunefndar til grundvallar í málinu. Hvað fyrirvarann varðaði vísaði Hæstiréttur til þess að í honum hefði falist nýtt tilboð af hálfu A þess efnis að hún samþykkti ekki uppgjörið að því er laut að varanlegri örorku. Yrði að leggja til grundvallar að V hf. hefði samþykkt það tilboð. Þá hefði uppgjörið farið fram að teknu tilliti til fyrirvarans sem hefði verið ótvíræður og skýr. Hefði uppgjöri vegna líkamstjóns A því ekki verið lokið að því er laut að varanlegri örorku. Var hinn áfrýjaði dómur samkvæmt því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson og Valtýr Sigurðsson fyrrverandi ríkissaksóknari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. desember 2017. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu og aðallega málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að hann verði látinn niður falla.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.

Stefnda slasaðist er bifreið var ekið yfir hægri fót hennar 22. janúar 2014. Áfrýjandi, sem veitt hafði lögboðna ábyrgðartryggingu vegna bifreiðarinnar, viðurkenndi bótaábyrgð vegna þess líkamstjóns sem stefnda varð fyrir í slysinu. Leitað var álits tveggja sérfræðinga, bæklunarskurðlæknis og lögmanns, um mat á tímabundnum og varanlegum afleiðingum slyssins fyrir stefndu og skiluðu þeir áliti 24. maí 2015. Þeir töldu að slysið hefði haft tilgreindar tímabundnar afleiðingar fyrir stefndu og mátu varanlegan miska 15 stig. Í ljósi takmarkaðrar atvinnuþátttöku stefndu síðustu árin fyrir slys var það niðurstaða þeirra að það hefði ekki haft í för með sér varanlega starfsorkuskerðingu fyrir hana. Í kjölfar þessarar niðurstöðu sendi áfrýjandi tölvubréf 11. júní 2015 til lögmanns stefndu þar sem upplýst var um bótatilboð af hálfu félagsins, en það var reist á niðurstöðu í áliti framangreindra sérfræðinga. Bótatilboðinu svaraði lögmaður stefndu með tölvubréfi samdægurs svo, að hann samþykkti tilboðið, en bætti við að hann hefði sett ,,fyrirvara á mati v/varanlegar örorku“. Á blaði sem bar yfirskriftina ,,Fullnaðaruppgjör“ og dagsett var sama dag var undirritun fyrir hönd stefndu, en þar fyrir neðan var ritað: ,,Með fyrirvara um varanlega örorku“. Á tjónskvittun 12. júní 2015, sem áfrýjandi gaf út og undirrituð var eingöngu af starfsmanni hans, kom fram: ,,Lögmaður tjónþola undirritar uppgjör með fyrirvara um varanlega örorku.“ Stefnda beiddist 14. apríl 2016 álits örorkunefndar á afleiðingum slyssins og var niðurstaða nefndarinnar meðal annars sú að varanleg örorka hennar vegna þess væri 10%.

Aðila greinir í fyrsta lagi á um gildi þess fyrirvara, sem stefnda gerði við bótauppgjörið í júní 2015 og í öðru lagi, ef talið verður að fyrirvarinn hafi þau réttaráhrif sem stefnda heldur fram, um það hvort leggja beri til grundvallar niðurstöðu örorkunefndar um varanlega örorku eða álit þeirra sérfræðinga sem áður greinir.

Í svari stefndu við bótatilboði áfrýjanda, sem rakið er að framan, kom fram að hún samþykkti tilboðið en gerði þó fyrirvara um matið á varanlegri örorku. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga fólst í fyrirvara stefndu nýtt tilboð þess efnis að hún samþykkti ekki uppgjörið að því er laut að varanlegri örorku. Verður lagt til grundvallar að áfrýjandi hafi samþykkt þetta tilboð, enda bundinn af 48. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga, og fór uppgjörið 12. júní 2015 fram að teknu tilliti til fyrirvarans. Fyrirvarinn var ótvíræður og nægilega skýr, einkum í ljósi þess að bótatilboðið miðaði við að engin varanleg örorka hefði leitt af slysinu. Eins og atvikum var háttað var uppgjöri vegna líkamstjónsins ekki lokið að því er laut að varanlegri örorku. Vegna fyrirvarans var stefndu heimilt að afla nánari gagna um ætlaða varanlega örorku hennar vegna slyssins og þegar þau lágu fyrir krefjast bóta fyrir þennan þátt á grundvelli þeirra.  

Fallist er á með vísan til forsendna héraðsdóms að leggja beri niðurstöðu örorkunefndar um 10% varanlega örorku stefndu vegna slyssins til grundvallar uppgjöri.

Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, sem ákveðst eins og í dómsorði greinir.

Áfrýjandi greiði málskostnað fyrir Hæstarétti eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi greiði 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð.

Allur gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun lögmanns hennar, 800.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. nóvember 2017.

                Mál þetta höfðaði A, […], með stefnu birtri 20. janúar 2017 á hendur Verði tryggingum hf., Borgartúni 25, Reykjavík.  Málið var dómtekið 26. október sl. 

                Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða henni bætur að fjár­hæð 2.641.629 krónur með 4,5% vöxtum frá 22. janúar 2014 til 4. ágúst 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. 

                Stefnandi krefst málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en henni var veitt gjafsókn 22. nóvember 2016.

                Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar. 

                Stefnandi slasaðist er bifreið ók yfir hægri fót hennar á bílastæði við verslun á […] þann 22. janúar 2014.  Bifreiðin var tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda. 

                Áverkum stefnanda er lýst í læknisvottorðum sem lögð voru fram. 

                Í vottorði Ómars Þorsteins Árnasonar bæklunarskurðlæknis, dags. 15. apríl 2014, segir:  „... hún hlaut opið liðhlaup í stóru tá hægri fótar.  Bíllinn rakst einnig á hægri mjöðm og hafði hún verki á mjaðmasvæði...   Um er að ræða alvarlegan áverka.  Áverkinn á mjúkparta fótarins er verulegur og mjög líklega mun alvarlegri en lið­hlaupið í stóru tánni.  Það tekur oft langan tíma fyrir mjúkpartana að gróa og oftar en ekki verður mikil örvefsmyndun í fætinum sem gerir það að verkum að sjúklingarnir ná ekki fullum bata ...“

                Í vottorði Rúnars Reynissonar, læknis á […], dags. 3. mars 2015, segir m.a.:  „Nú, rúmum 13 mánuðum eftir slysið, er A enn með talsverðar eftirstöðvar eftir þetta slys.  Hún er alltaf með dálítinn bláma á hægri ristinni og hann eykst í kulda.  Hún er með skert blóðflæði í hægri ristinni og mjög kulvís á henni.  Er einnig með breytta skynjun í tánni, dofin innanvert á henni og upp á ristina, en hún er ofurviðkvæm fremst á tánni...  Hún getur til dæmis ekki gengið eðlilega ef hún er á sokkunum eða berfætt, þarf þá að ganga á jarkanum.  Skárra ef hún er í góðum skóm.  Þarf að nota númeri stærri skó en fyrir slysið, sem veldur því að skórinn á vinstri fæti er að jafnaði of rúmur.  Á erfitt með ýmis heimilisverk ...“

                Til að undirbúa bótauppgjör sammæltust aðilar um að fela Sveinbirni Brands­syni bæklunarskurðlækni og Eiríki Elís Þorlákssyni lektor að meta miska og örorku stefnanda. Þeir skiluðu áliti 24. maí 2015. 

                Í álitinu var stefnandi talin hafa verið óvinnufær frá slysdegi til 1. júní 2014 og væri það tímabil þjáningabóta, þar af 3 vikur rúmliggjandi.  Varanlegur miski var talinn 15 stig en varanleg örorka engin. 

                Þann 11. júní 2015 sendi stefndi lögmanni stefnanda bótatilboð með tölvu­pósti.  Í svarpósti lögmanns stefnanda sama dag segir að í viðhengi sé „samþykkt bótatilboð, ég set þó inn fyrirvara á mati v/varanlega Örorku“.  Lögmaðurinn skrifaði undir uppgjörsblað sem bar fyrirsögnina Fullnaðaruppgjör.  Þar undir setti hann þennan texta:  „Með fyrirvara um varanlega örorku“ og setti stafina sína undir. 

                Með þessu uppgjöri voru greiddar þjáningabætur og bætur fyrir varanlegan miska, auk lögmannskostnaðar.  Ekkert var sagt um varanlega örorku á skjalinu, en eins og áður segir töldu álitsgjafar að hún væri engin. 

                Á sérstakri tjónskvittun, dags. 12. júní 2016, var greiðslan sundurliðuð og í lokin sagt:  „Greiðsla þessi er fullnaðar- og lokagreiðsla vegna þessa tjóns og allar kröfur vegna málsins eru að fullu greiddar.“  Síðan segir:  „Lögmaður tjónþola undir-ritar uppgjör með fyrirvara um varanlega örorku.“  Undir þessa kvittun ritaði starfs­maður stefnda, en hvorki stefnandi né lögmaður hennar. 

                Stefnandi óskaði eftir mati örorkunefndar þann 25. febrúar 2016.  Í áliti nefndarinnar, dags. 29. júní 2016, er varanleg örorka stefnanda metin 10%.  Í kjölfarið krafðist stefnandi frekari greiðslu úr hendi stefnda, sem neitaði. 

                Í álitsgerð Sveinbjörns Brandssonar og Eiríks Elíss Þorlákssonar segir um varanlega örorku stefnanda:  „Við mat á varanlegri örorku er þannig rétt að hafa í huga framtíðarmöguleika við tekjuöflun tjónþola.  Fyrir liggur að tjónþoli hefur nýtt starfsgetu sína mjög takmarkað til um 8 ára.  Hún starfar 16 klukkustundir á mánuði við liðveislu.  Telja verður að hún geti enn sinnt þeirri eða sambærilegri  vinnu með sömu tekjur þrátt fyrir það slys sem hér um ræðir.  Að teknu tilliti til framangreindra þátta og tjónstakmörkunarskyldu verður vart séð að hún verði fyrir tekjuskerðingu vegna slyssins og er því varanleg örorka hennar engin (núll) metin.“

                Í áliti örorkunefndar segir:  „Tjónþoli var 46 ára á slysdegi.  Hún starfaði þá við liðveislu í hluta starfi og hélt því áfram rúmum fjórum mánuðum eftir slysið.  Tjónþola var sagt upp störfum í júlí 2015 og hefur ekki unnið launuð störf eftir það.  Tjónþoli hefur verið metin til meira en 75% örorku hjá Tryggingastofnun frá 2003.  Tjónþoli er með félagsliðapróf frá menntaskóla og var við slík störf frá árinu 2009 en hafði áður unnið við ræstingar.  Örorkunefnd telur að afleiðingar slyssins hafi enn dregið úr möguleikum tjónþola til að fá atvinnu og afla sér atvinnutekna og með vísan til alls ofangreinds er varanleg örorka hennar vegna slyssins 10%-tíu af hundraði.“

                Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi telur að tjón sitt vegna slyssins þann 22. janúar 2014 hafi ekki verið bætt að fullu.  Bifreiðin […] hafi verið tryggð hjá stefnda. 

                Stefnandi byggir á því að hún hafi gert fyrirvara við mat á varanlegri örorku.  Hún hafi ekki lýst því yfir að hún teldi að greiðsla stefnda væri fullnaðargreiðsla.  Hún áskildi sér rétt til að láta meta varanlega örorku á nýjan leik. 

                Stefnandi bendir á að tjónskvittun, dags. 12. júní 2015, sé einhliða yfirlýsing stefnda. 

                Stefnandi byggir á því að bætur fyrir varanlega örorku er hún hlaut í umræddu slysi hafi ekki verið greiddar.  Hún byggir kröfu sína á mati örorkunefndar og vísar til 1. mgr. 10. gr. skaðabótalaga um heimild sína til að leggja málið fyrir örorkunefnd. 

                Kröfu um bætur fyrir varanlega örorku reisir stefnandi á 2. mgr. 1. gr. og 5.-7. gr. skaðabótalaga.  Útreikningur bótakröfu er útskýrður nákvæmlega í stefnu.  Þar sem fjárhæð stefnukröfu er ekki mótmælt þarf því ekki að reifa hann. 

                Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi segir að þegar gengið var frá bótagreiðslu til stefnanda hafi lögmaður hennar einungis gert almennan fyrirvara við mat á varanlegri örorku.  Engin gögn liggi fyrir um hvernig hafi átt að skýra þennan fyrirvara.  Byggir stefndi á því að fyrirvarinn sé haldlaus, hann sé ekki ótvíræður.  Ekki sé ljóst að hverju hann lúti.  Vísar stefndi þessu til stuðnings til dóma Hæstaréttar í málum nr. 576/2013 og 391/2015. 

                Stefndi kveðst byggja á því að ekki sé unnt að dæma stefnanda frekari bætur nema með endurupptöku bótauppgjörs samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga.  Þau skilyrði séu ekki uppfyllt.  Engar breytingar hafi orðið á heilsu stefnanda. 

                Stefndi byggir á því að álit örorkunefndar hnekki ekki fyrri álitsgerð.  Segir hann að ekkert í lögum segi að leggja skuli meiri áherslu á niðurstöðu örorkunefndar en álitsgerðina, sönnunarmatið sé frjálst.  Niðurstaða örorkunefndar sé síður rökstudd en álitsgerðin, sem sé bæði vandaðri og ítarlegri.  Ekki verði séð af áliti örorkunefndar hvaða þættir hafi leitt til þess að varanleg örorka sé metin 10 stigum hærri en áður.  Niðurstaðan sé ekki rökstudd. 

                Niðurstaða

                Stefnandi krefst skaðabóta vegna tjóns síns af slysi, sem stefndi viðurkennir að hann eigi að bæta.  Stefndi byggir á móti á því annars vegar að tjónið sé fullbætt, hins vegar á því að stefnda hafi tekið við bótum og ekki gert nægan fyrirvara um að bæturnar væru ekki full greiðsla. 

                Stefnandi krefst bóta vegna varanlegrar örorku samkvæmt 2. mgr. 1. gr. skaða­bótalaga, þ.e. bóta fyrir varanlega skerðingu á getu til að afla vinnutekna.  Stefnandi gekk ekki heil til skógar þegar slysið varð.  Hafði hún verið metin til 75% örorku á árinu 2004 vegna vefjagigtar, en ekki er ljóst í gögnum málsins hvort það mat var enn í gildi á slysdegi.  Hún aflaði nokkurra tekna fyrir slysið. 

                Aðilar sammæltust um að fela sérfræðingi í bæklunarskurðlækningum og háskóla­kennara í lögfræði að meta afleiðingar slyss stefnanda.  Þeir töldu að varanleg örorka væri engin, en ágreiningur er ekki um aðra þætti í mati þeirra.  Stefnandi leitaði þá til örorkunefndar, sem taldi að varanleg örorka væri 10%.  Hér að framan er orðrétt að finna kjarnann í rökstuðningi bæði álitsgjafanna og örorkunefndar. 

                Í fyrrnefnda álitinu er talið að stefnandi geti sinnt sambærilegri vinnu og hún hafði sinnt fyrir slysið og að vart yrði séð að hún yrði fyrir tekjuskerðingu.  Hér er ekki litið til þess að varanlegir áverkar stefnanda eru nokkrir og ekki leyst úr því hvort þeir muni hamla henni við vinnu.  Ekki er fjallað um hvort áverkarnir geti þrengt enn kosti hennar um tekjuöflun. 

                Í áliti örorkunefndar er aftur á móti talið að vegna afleiðinga slyssins hafi enn dregið úr möguleikum stefnanda til að fá atvinnu og afla sér vinnutekna.  Þetta er ekki ítarlegt, en dregur fram það sjónarmið að möguleikar stefnanda til að afla tekna séu nokkuð skertir eftir slysið, enn minni en þeir voru áður.  Er það einnig augljóst af lýsingum á áverkum stefnanda í gögnum málsins. 

                Þegar litið er til þessara álita verður ekki fallist á það með stefnda að fyrr­nefnda álitsgerðin sé betur unnin eða rökstudd heldur en álit örorkunefndar.  Verður að leggja álit nefndarinnar til grundvallar. 

                Eftir að fyrrnefnt álit lá fyrir greiddi stefndi bætur samkvæmt því og tók stefnandi við þeim.  Lögmaður hans gerði fyrirvara, en stefndi telur hann haldlausan.  Því beri að líta svo á að stefnandi hafi viðurkennt viðtöku fullra bóta og geti ekki krafið um meira. 

                Lögmaður stefnanda tók við bótum og gerði þessa athugasemd:  „Með fyrir­vara um varanlega örorku.“  Þessi athugasemd kom til vitundar stefnda og verður því að skýra hvað í þessu felst, eða hvort og þá hvaða breyting verði á samkomulagi aðila um bótagreiðsluna. 

                Aðilar gerðu samning.  Stefndi samþykkti að greiða og stefnandi að taka við sem fullri greiðslu tilgreindri fjárhæð sem var reiknuð eftir niðurstöðu áðurnefndrar álitsgerðar.  Þeir samþykktu að vera bundnir af niðurstöðu álitsgerðarinnar um varanlegar afleiðingar slyssins.  Þetta var staðfest með undirritun þar til bærs starfs­manns stefnda og lögmanns stefnanda.  Umboðsmaður stefnanda ritaði áðurgreind orð á blaðið.  Eftir hljóðan þessara orða hefur lögmaðurinn ekki samþykkt þann þátt samkomulagsins sem laut að bótum fyrir varanlega örorku.  Í samkomulaginu var ekki gert ráð fyrir neinum slíkum bótum í samræmi við niðurstöðu álitsgerðarinnar.  Hann hefur ekki samþykkt að engar bætur skyldu greiddar fyrir varanlega örorku.  Þessi merking orðanna er augljós og hlaut stefnda, sem hefur starfsleyfi samkvæmt lögum nr. 100/2016 um vátryggingastarfsemi, að vera hún ljós.  Orðin eru ótvíræð og þarfnast ekki frekari útskýringa eða afmörkunar.  Samkomulag tókst því ekki um fullnaðaruppgjör. 

                Stefndi vísar einkum til tveggja dóma Hæstaréttar frá síðustu misserum, þar sem fyrirvari sem lögmaður gerði um bótagreiðslur var talinn haldlítill, dóma í málum nr. 576/2013 og 391/2015.  Fyrirvararnir sem gerðir höfðu verið í þessum tilvikum voru ekki nákvæmlega eins orðaðir og fyrirvarinn sem hér reynir á.  Í fyrrnefnda málinu var fyrirvarinn svohljóðandi:  ,,Gerður er fyrirvari við mat á miska og varanlegri örorku.“  Hæstiréttur taldi að tjónþoli hafi með þessu „... áskilið sér rétt til frekari bóta ef varanlegur miski eða varanleg örorka yrði meiri en talið var í áliti [matsmanna] vegna síðari breytinga.  Eðli máls samkvæmt verður fyrirvarinn á hinn bóginn ekki skýrður svo að áfrýjandi hafi áskilið sér rétt til endurupptöku bóta­ákvörðunar vegna þess að matið, sem hún var reist á, kynni að vera rangt.“ 

                Ekki er augljóst hvers vegna Hæstiréttur telur að skýra verði fyrirvarann svo að hann taki einungis til þeirrar aðstöðu að heilsufar tjónþola breytist til hins verra eftir að matsgerð er unnin.  Vegna 11. gr. skaðabótalaga er slíkur fyrirvari óþarfur, nema ætlunin sé að víkja frá skilyrðum ákvæðisins.  Fyrirvarinn sem hér er deilt um er ekki samhljóða áðurnefndum fyrirvörum og aðstæður ólíkar.  Fyrirvarinn er stuttur, en eins og áður segir er merking hans augljós.  Bætur voru greiddar vegna slyss, en engar vegna varanlegrar örorku.  Fyrirvarann er ekki hægt að skýra á annan hátt en að stefnandi hafi lýst því yfir að hún félli ekki frá rétti sem hún teldi sig eiga til bóta fyrir varanlega örorku með því að taka við bótum fyrir aðra liði.  Fyrirvarinn verður metinn fullgildur.  Verður því að dæma stefnda til að greiða stefnanda bætur fyrir varanlega örorku er hún hlaut í umræddum slysi.  Ekki er ágreiningur um fjárhæðir og verður stefndi því dæmdur til að greiða 2.641.629 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir. 

                Stefnandi hefur gjafsókn.  Málskostnaðarreikningur lögmanns hennar er óhóflegur og verður ekki lagður til grundvallar.  Útlagður kostnaður nemur 350.910 krónum, en málflutningsþóknun ákveðst með virðisaukaskatti 1.250.000 krónur.  Þetta ber að greiða úr ríkissjóði.  Stefnda verður gert að greiða 1.600.000 krónur í máls­kostnað til ríkissjóðs. 

                Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. 

Dómsorð

                Stefndi, Vörður tryggingar hf., greiði stefnanda, A, 2.641.629 krónur með 4,5% vöxtum frá 22. janúar 2014 til 4. ágúst 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. 

                Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 1.600.910 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

                Stefndi greiði 1.600.000 krónur í málskostnað til ríkissjóðs.