Hæstiréttur íslands
Mál nr. 72/2015
Lykilorð
- Líkamstjón
- Sjúklingatrygging
- Varanleg örorka
- Matsgerð
- Málskostnaður
- Vextir
- Fyrning
|
|
Fimmtudaginn 24. september 2015. |
|
Nr. 72/2015.
|
A (Óðinn Elísson hrl.) gegn Sjúkratryggingum Íslands (Erla S. Árnadóttir hrl.) |
Líkamstjón. Sjúklingatrygging. Varanleg örorka. Matsgerð. Málskostnaður. Vextir. Fyrning.
Í málinu greindu A og S fyrst og fremst á um hvort tjón A af völdum mistaka við lyfjagjöf hjá heilsugæslustöð í júní 2007 hefði valdið varanlegri skerðingu á getu hennar til að afla sér vinnutekna samkvæmt 1. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Til stuðnings því að svo væri vísaði A einkum til matsgerðar dómkvaddra manna þar sem talið var að varanleg örorka hennar væri 5%. S hélt því aftur á móti fram að ákvörðun sín frá 2011, sem staðfest hafði verið af úrskurðarnefnd almannatrygginga 2012, væri byggð á vönduðu mati sérfróðra manna í samræmi við lögákveðið hlutverk S og vægi það mat þyngra en mat hinna dómkvöddu manna. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skæru dómstólar úr um sönnunargildi þeirra gagna sem fyrir þá væru lögð. Talið var að ákvörðun S samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laga nr. 111/2000 yrði ekki jafnað til álitsgerðar örorkunefndar á grundvelli 10. gr. skaðabótalaga. Matsgerð sérfróðra manna, sem dómkvaddir hefðu verið, hafi að öðru jöfnu ríkt sönnunargildi í einkamálum sökum þess að þeir skulu vera óvilhallir og gefa báðum aðilum, matsbeiðanda og matsþola, kost á að gæta hagsmuna sinna við matið, sbr. 3. mgr. 61. gr. og 2. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991. Sama eigi ekki við um ákvörðun S þótt hún væri byggð á sérfræðilegu mati. Niðurstaða hinna dómkvöddu matsmanna um varanlega örorku A væri ítarlega rökstudd og í samræmi við 2. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Var því fallist á mat þeirra um að varanleg örorka A væri 5%. Var úrskurður úrskurðarnefndar almannatrygginga því ógiltur og bætur til A ákvarðaðar með hliðsjón af 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Við ákvörðun málskostnaðar var tekið tillit til þóknunar hinna dómkvöddu matsmanna. Loks var ekki fallist á með S að vextir, sem krafa A hafði borið á nánar greindu tímabili, væru fallnir brott vegna fyrningar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. janúar 2015. Hún krefst þess að úrskurður úrskurðarnefndar almannatrygginga 16. janúar 2012 í máli nr. 98/2011 verði felldur úr gildi og stefnda verði gert að greiða sér aðallega 4.892.523 krónur, en til vara 2.299.135 krónur, í báðum tilvikum með 4,5% ársvöxtum af nánar greindum fjárhæðum frá 22. júní 2008 til 18. nóvember 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að áfrýjanda verði dæmdar bætur í samræmi við varakröfu hennar og málskostnaður felldur niður.
I
Mál þetta á rætur að rekja til þess að áfrýjandi hlaut varanlegan vefjaskaða í hægri handlegg þegar mistök urðu við lyfjagjöf á heilsugæslustöð 22. júní 2007. Af því tilefni sótti hún 1. desember 2008 um bætur úr hendi stefnda á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Stefndi svaraði umsókninni 19. febrúar 2010 þar sem sagði að ekki væri „annað að sjá en um mistök eða gáleysi starfsmanns hafi verið að ræða“ og ætti atvikið því undir 1. tölulið 2. gr. laganna. Í framhaldinu gekkst áfrýjandi undir mat hjá tveimur sérfróðum starfsmönnum stefnda og birtust niðurstöður þeirra í ákvörðun hans 17. janúar 2011. Þar kom fram að „stöðugleikapunktur“ vegna atviksins, sem áður greinir, væri ákveðinn 1. september 2008 og ætti áfrýjandi rétt til bóta vegna tímabundins atvinnutjóns, þjáningabóta og bóta vegna varanlegs miska. Hins vegar hefði áfrýjandi, sem starfaði við dagskrárgerð hjá [...], upplýst á svonefndum matsfundi að hún teldi afleiðingar atviksins ekki myndu hafa nein áhrif á tekjur sínar miðað við þáverandi starf og hefði hún hugsað sér að halda áfram í því starfi. Síðan sagði: „Störf hennar í gegnum tíðina hafa verið svipuð að því leytinu til að matsmenn telja heldur ekki að afleiðingar sjúklingatryggingaratburðar hefðu haft nein áhrif á hæfi hennar til tekjuöflunar á þeim vettvangi. Að öllu virtu telst varanleg örorka vegna sjúklingatryggingaratburðar því engin vera.“ Hinn 19. janúar 2011 greiddi stefndi áfrýjanda bætur í samræmi við framangreinda ákvörðun sína.
Áfrýjandi kærði ákvörðun stefnda til úrskurðarnefndar almannatrygginga 1. mars 2011. Síðar sama ár fór hún fram á að dómkvaddir yrðu tveir óvilhallir og sérfróðir menn til þess að meta afleiðingar áðurgreinds atviks. Skiluðu hinir dómkvöddu menn ítarlegri matsgerð 12. október 2011 þar sem talið var að „stöðugleikapunktur“ vegna atviksins væri einu ári eftir það, 22. júní 2008. Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir forsendum og niðurstöðum matsgerðarinnar þar sem fjallað var um mat á varanlegri örorku áfrýjanda af völdum atviksins samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Niðurlagsorðin í þeim hluta matsgerðarinnar voru svohljóðandi: „Matsmenn telja að það líkamstjón sem sjúklingatryggingaatvikið olli, og nú hefur verið metið til 5 miskastiga, hafi áhrif á vinnugetu matsbeiðanda í dag en að auki hefur líkamstjónið dregið úr möguleikum hennar á starfsvali í framtíðinni og möguleikum hennar á framgangi í starfi. Það eru því meiri líkur en minni á því að afleiðingar mistakanna 22.06.2007 valdi henni tekjutapi í framtíðinni, miðað við það sem sennilega hefði orðið ef lyfjagjöfin hefði verið gerð á réttan hátt. Að öllum gögnum virtum og m.v.t. viðtals og læknisskoðunar á matsfundi er varanleg örorka metin 5%.“
Úrskurðarnefnd almannatrygginga kvað upp úrskurð í tilefni af kæru áfrýjanda 16. janúar 2012. Var ákvörðun stefnda um bætur til handa áfrýjanda staðfest, þar á meðal sú niðurstaða að hún hefði ekki orðið fyrir varanlegri örorku.
II
Í máli þessu greinir aðila fyrst og fremst á um hvort tjón áfrýjanda af völdum atviksins 22. júní 2007 hafi valdið varanlegri skerðingu á getu hennar til að afla sér vinnutekna samkvæmt 1. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000. Til stuðnings því að svo sé vísar áfrýjandi einkum til matsgerðar hinna dómkvöddu manna sem gerð er grein fyrir að framan. Aftur á móti heldur stefndi því fram að ákvörðun sín, sem staðfest hafi verið af úrskurðarnefnd almannatrygginga, sé byggð á vönduðu mati tveggja sérfróðra manna í samræmi við lögákveðið hlutverk stefnda. Það mat eigi að vega þyngra en mat hinna dómkvöddu manna, meðal annars í ljósi þess að tekjur áfrýjanda hafi aukist frá því sem áður var.
Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skera dómstólar úr um sönnunargildi þeirra gagna sem fyrir þá eru lögð. Eftir 2. mgr. 15. gr. laga nr. 111/2000 ber stefnda að taka afstöðu til bótaskyldu á grundvelli 1. mgr. 1. gr. og 1. töluliðar 2. gr. laganna og ákveða fjárhæð bóta að undangenginni gagnaöflun. Ekki er þar frekar mælt fyrir um hvernig þetta skuli gert, en af öðrum ákvæðum lagagreinarinnar verður ráðið að það sé í verkahring starfsmanna stefnda að taka afstöðu til bótaskyldu og ákveða bótafjárhæð, eftir atvikum á grundvelli mats. Þegar af þeirri ástæðu verður ákvörðun stefnda samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laga nr. 111/2000 ekki jafnað til álitsgerðar örorkunefndar á grundvelli 10. gr. skaðabótalaga, en í lokamálslið 2. mgr. hennar segir að um hæfi nefndarmanna til þess að fara með mál skuli fara eftir reglum um sérstakt hæfi dómara.
Matsgerð sérfróðra manna, sem dómkvaddir hafa verið, hefur að öðru jöfnu ríkt sönnunargildi í einkamálum sökum þess að þeir skulu vera óvilhallir og gefa báðum aðilum, matsbeiðanda og matsþola, kost á að gæta hagsmuna sinna við matið, sbr. 3. mgr. 61. gr. og 2. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991. Sama á sem fyrr segir ekki við um ákvörðun stefnda þótt hún sé byggð á sérfræðilegu mati.
Niðurstaða hinna dómkvöddu matsmanna um varanlega örorku áfrýjanda er ítarlega rökstudd og að auki í samræmi við 2. mgr. 5. gr. skaðabótalaga þar sem segir að þegar tjón vegna örorku er metið skuli líta til þeirra kosta sem tjónþoli á til að afla sér tekna með vinnu sem sanngjarnt er að ætlast til að hann starfi við. Í því sambandi verður að taka tillit til þess að áfrýjandi býr við takmarkað starfsöryggi sem dagskrárgerðarmaður og vaxandi tekjur hennar á undanförnum árum segja lítið til um hvernig henni muni ganga að afla sér vinnutekna þegar lengra líður á starfsævina. Samkvæmt öllu framansögðu er fallist á mat hinna dómkvöddu manna um að varanleg örorka áfrýjanda sé 5%. Það breytir ekki þeirri niðurstöðu um svo óverulega örorku áfrýjanda þótt hún hafi komið fram í sjónvarpsþáttum þar sem hún þurfti í afmörkuðum tilvikum að beita báðum höndum við að leysa af hendi þrautir og önnur verkefni.
Með skírskotun til þess, sem að framan greinir, er tekin til greina krafa áfrýjanda um ógildingu úrskurðar úrskurðarnefndar almannatrygginga 16. janúar 2012.
Við útreikning á aðalkröfu áfrýjanda um bætur er tekið mið af heildarlaunum fréttamanna í Félagi fréttamanna árin 2004 til 2006. Þar sem áfrýjandi hefur ekki starfað sem fréttamaður og ekki sýnt fram á að svo verði í náinni framtíð er ekki unnt að fallast á að bætur til hennar skuli miðuð við þessi laun. Samkvæmt því hefur hún ekki fært sönnur á að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur hennar en kveðið er á um 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Varakrafa áfrýjanda er reist á fyrrnefnda ákvæðinu og sé frá talinn kostnaður við matsgerð hinna dómkvöddu manna hefur stefndi ekki mótmælt þeirri kröfu sérstaklega. Verður hún því lögð til grundvallar við ákvörðun bóta til áfrýjanda.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga skal sá sem bótaábyrgð ber á líkamstjóni greiða skaðabætur fyrir sjúkrakostnað og annað fjártjón tjónþola. Meðal þess er kostnaður við að staðreyna tjónið. Sé dómsmál höfðað telst þóknun matsmanns til málskostnaðar, sbr. e. lið 1. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991. Af þeim sökum verður þóknun hinna dómkvöddu matsmanna, en matsgerðar þeirra var aflað í aðdraganda málshöfðunar, dregin frá varakröfu áfrýjanda og tillit tekið til hennar við ákvörðun málskostnaðar.
Fallist er á kröfu áfrýjanda um 4,5% ársvexti af höfuðstól dómkröfunnar til 18. nóvember 2011 og dráttarvexti frá þeim degi til greiðsludags. Stefndi heldur því fram að vextir, sem krafa áfrýjanda hafi borið á tímabilinu frá 22. júní 2008 til 3. desember 2009, séu fallnir brott vegna fyrningar. Samkvæmt 28. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda gilda lögin um þær kröfur sem stofnast eftir 1. janúar 2008 og samkvæmt 3. gr. þeirra er almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda fjögur ár, þar á meðal krafna um vexti. Í 1. mgr. 16. gr. laganna segir að fyrningu sé slitið þegar kröfuhafi leggur málið til ákvörðunar fyrir stjórnvald sem hefur sérstakt ákvörðunarvald til þess að ljúka deilu um ágreininginn. Þar sem áfrýjandi sótti um bætur til stefnda 1. desember 2008 er krafa hennar um vexti, sem stofnaðist eftir gildistöku laga nr. 150/2007, ekki fyrnd og verður hún því tekin til greina óbreytt.
Eftir þessum málsúrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Felldur er úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar almannatrygginga 16. janúar 2012 í máli áfrýjanda, A, gegn stefnda, Sjúkratryggingum Íslands.
Stefndi greiði áfrýjanda 1.712.835 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 22. júní 2008 til 18. nóvember 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 2.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. október 2014.
Mál þetta var höfðað 3. desember 2013 og dómtekið 29. september 2014.
Stefnandi er A, [...], [...].
Stefndi er Sjúkratryggingar Íslands, Laugavegi 114, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að úrskurður úrskurðarnefndar almannatrygginga nr. 98/2011, kveðinn upp 16. janúar 2012, verði felldur úr gildi og að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 4.892.523 kr. ásamt 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 4.306.223 kr. frá 22. júní 2008 til 18. nóvember 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu af kröfum stefnanda. Þá krefst stefnandi málskostnaðar. Til vara krefjast stefndu þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði felldur niður.
I.
Málavextir
Í máli þessu er óumdeilt að stefnandi hlaut varanlegan vefjaskaða í hægri olnbogabót þegar mistök urðu við lyfjagjöf á heilsugæslustöðinni í [...] þann 22. júní 2007. Þann 1. desember 2008 sótti hún um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu með tilkynningu til stefnda Sjúkratrygginga Íslands. Með bréfi dags. 19. febrúar 2010 samþykkti stefndi að um bótaskylt atvik væri að ræða sem félli undir bótasvið 1. tölul. 2. gr. áðurnefndra laga.
Í kjölfarið gekkst stefnandi undir örorkumat hjá stefnda og voru varanlegar afleiðingar metnar af B lækni og C lögfræðingi. Þann 17. janúar 2011 lá fyrir ákvörðun stefnda sem var tekin á grundvelli matsgerðar fyrrnefndra matsmanna. Matsmenn komust að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski stefnanda væri 5 stig en varanleg örorka engin.
Með bréfi dags. 1. mars 2011 kærði stefnandi ákvörðun stefnda um mat á varanlegum afleiðingum sjúklingatryggingaratviksins (hér eftir nefnt atvikið) til úrskurðarnefndar almannatrygginga. Jafnframt óskaði stefnandi eftir dómkvaðningu matsmanna til að meta varanlegan miska og örorku stefnanda með bréfi til Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 7. júní 2011. Dómkvaddir voru þeir D læknir og E lögmaður. Matsgerð þeirra lá fyrir þann 12. október 2011. Niðurstöður hennar voru þær að varanlegur miski stefnanda væri 5 stig og varanleg örorka 5%.
Með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, dagsett 18. október 2011, krafðist stefnandi bóta á grundvelli matsgerðarinnar frá 12. október 2011 en þeirri umleitan var hafnað af hálfu stefnda. Vísaði stefndi til þess að tekin hefði verið stjórnvaldsákvörðun sem fæli m.a. í sér mat á afleiðingum sjúklingatryggingar-atburðarins og að á þeim grundvelli hefði stefndi greitt stefnanda fullnaðarbætur.
Þann 16. janúar 2012 lá fyrir úrskurður úrskurðarnefndar almannatrygginga í málinu, nr. 98/2011. Nefndin staðfesti ákvörðun stefnda um að varanlegur miski stefnanda væri 5% og varanleg örorka engin.
Með bréfi dagsettu 26. júní 2013 óskaði stefnandi eftir því að stefndi endurskoðaði afstöðu sína en því var hafnað með svarbréfi stefnda 11. september 2013.
Stefnandi telur að hún hafi ekki fengið tjón sitt að fullu bætt og höfðaði því mál þetta.
II.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir kröfu sína á því að stefnda beri að greiða stefnanda bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu í samræmi við matsgerð dómkvaddra matsmanna, dags. 12. október 2011. Þá vísar stefnandi til þess að bætur samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu skuli fara eftir skaðabótalögum nr. 50/1993, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000. Ágreiningur aðila snúist um mat stefnda á varanlegri örorku stefnanda.
Stefnandi byggir á því að matsgerð sú sem stefndi framkvæmdi hafi ekki sýnt með fullnægjandi hætti fram á raunverulegt tjón stefnanda hvað varði varanlega örorku. Stefnanda hafi því verið nauðsynlegt að fá dómkvadda matsmenn til þess meta örorku vegna atviksins og hnekkja mati stefnda. Almennt teljist matsgerð dómkvaddra matsmanna verulega sterkt sönnunargagn um þau atriði sem hún nái til.
Stefnandi byggir á því að hún hafi hlotið varanlega örorku vegna atviksins, andstætt niðurstöðu matsgerðar Sjúkratrygginga Íslands þar sem varanleg örorka stefnanda hafi ekki verið talin vera fyrir hendi. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eigi tjónþoli rétt á bótum fyrir varanlega örorku sökum líkamstjóns, eftir að heilsufar er orðið stöðugt, hafi tjónið valdið varanlegri skerðingu á getu til að afla atvinnutekna.
Stefnandi vísar til þess að í matsgerð stefnda sé mat á varanlegri örorku ekki rökstutt ítarlega, heldur sé nánast einvörðungu lagt til grundvallar að atvikið hafi ekki áhrif á tekjur stefnanda í núverandi starfi sem dagskrárstjóri hjá [...] né í störfum af svipuðum toga. Stefnandi hafi bent á að á matsfundi hjá Sjúkratryggingum Íslands hafi hún sagt að ástand sitt hefði ekki áhrif á hluta af vinnu sinni hjá [...], þ.e. umsjón með morgunþætti frá níu til tólf virka daga, en sá þáttur af vinnu stefnanda sé einfaldastur. Aftur á móti hafi stefnandi margvíslegar aðrar skyldur á vinnustað sínum það sem eftir lifi vinnudagsins þar sem reyni mun meira á hana. Ekki hafi verið tekið nægilegt tillit til þess í matsgerð stefnda.
Stefnandi telur óásættanlegt að stefndi miði við að varanleg örorka hennar sé engin þar sem stefnandi kveðst vera með viðvarandi verkjaseyðing og pirring í hægri handlegg, niður í miðjan framhandlegg og aðeins upp í upphandlegg sem aukist við allt álag. Stefnandi kveður úthald verulega skert og hún eigi erfitt með allt grip og að lyfta hlutum. Einkennin hái henni bæði í vinnu og í daglegum athöfnum, en stefnandi eigi í erfiðleikum með að sinna ýmsum störfum og þurfi oft að taka sér hlé frá vinnu sökum verkja til þess að hvíla hægri handlegg. Þá sé stefnandi ófær um að skrifa mikið og eigi erfitt með að vinna við tölvu.
Stefnandi leggur áherslu á að mat á varanlegri örorku sé einstaklingsbundið og vísar í því samhengi til þess að fræðimenn séu almennt sammála um að við mat á varanlegri örorku þurfi að taka tillit til ýmissa atriða sem hafa áhrif á framvindu í lífi tjónþola, að teknu tilliti til líkamstjóns. Meðal þess sem ber að líta til er eðli líkamstjónsins og afleiðinga þess fyrir tjónþola, aldurs, menntunar, færni, starfsréttinda, og heilsufars- og atvinnusögu fyrir atvik, fyrirætlanir hvað varði nám og vinnu um það leyti sem slys eða atvik gerist og fleiri atriða. Ekki verði séð af matsgerð stefnda að tekið hafi verið tillit til allra framangreindra atriða við mat á varanlegri örorku stefnanda.
Stefnandi byggir á því að í mati á varanlegri örorku felist framtíðarspá um tekjuöflunarhæfi, en ætíð séu til staðar ákveðnir óvissuþættir. Um sé að ræða spá á getu til þess að afla launatekna til 67 ára aldurs, en ljóst sé að stefnandi eigi langan starfsaldur fram undan. Því sé ekki hægt að útiloka að sú færniskerðing sem stefnandi búi við vegna atviksins muni hafa áhrif á atvinnuþátttöku og tekjuöflunarhæfi í framtíðinni.
Stefnandi byggir á því að fyrirliggjandi matsgerð dómkvaddra matsmanna sé mun ítarlegri og betur rökstudd. Vísar stefnandi í tiltekna kafla matsgerðar því til stuðnings. Hún gefi mun betri mynd af því tjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir en matsgerð stefnda og því mati hafi ekki verið hnekkt með yfirmatsgerð. Sönnunargildi matsgerðar stefnda sé mun rýrara en fyrirliggjandi matsgerð dómkvaddra matsmanna. Í því sambandi vísar stefnandi til þess að matsgerðar stefnda hafi verið einhliða aflað af stefnda og hún verið samin af starfsmönnum stefnda.
Stefnandi vísar til þess að bótaákvörðun samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu fari eftir skaðabótalögum, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga um sjúklingatryggingu. Tjónþoli geti þannig gert kröfur í samræmi við ákvæði skaðabótalaganna og stefnda beri að sama skapi skylda til þess að greiða bætur í samræmi við ákvæði skaðabótalaga. Geri skaðabótalög ráð fyrir því að bætur vegna líkamstjóns nái meðal annars yfir sjúkrakostnað og annað fjártjón sem af því hljótist, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Telur stefnandi að greiðsluskylda stefnda á grundvelli sjúklingatryggingar nái meðal annars til þess að greiða sjúkrakostnað og annað fjártjón í skilningi skaðabótalaga. Stefnanda hafi verið nauðsynlegt að fá dómkvadda óháða matsmenn til þess að meta örorkuna. Af þeim sökum beri stefnda að greiða kostnað af matsgerðinni og þeirri gagnaöflun sem hafi verið nauðsynleg til þess að hægt væri að framkvæma hana.
Dómkröfur stefnanda eru á því byggðar að stefnanda beri fullar skaðabætur úr hendi stefnda og skulu skaðabætur taka mið af matsgerð. Uppgjör vegna þjáninga- og miskabóta hafi farið fram 19. janúar 2011. Dómkröfur stefnanda sundurliðast svo:
Varanleg örorka skv. 5.-8. gr. skaðabótalaga, m.v.
árslaun upp á 6.311.334 kr. og stuðull 13,646 kr. 4.306.223
Annað fjártjón (sjúkrakostnaður) kr. 586.300
Eftir stendur því dómkrafan: kr. 4.892.523
Við útreikning á varanlegri örorku sé tekið mið af heildarlaunum fréttamanna í Félagi fréttamanna árin 2004-2006 samkvæmt upplýsingum kjararannsóknarnefndar opinberra starfsmanna. Launin hafi verið uppreiknuð að stöðugleikadegi og bætt hafi verið við 11,5% lífeyrissjóðsframlagi vinnuveitanda samkvæmt kjarasamningi. Annað fjártjón sé kostnaður stefnanda við öflun matsgerðar með vísan til reikninga frá dómkvöddum matsmönnum. Höfuðstóll dómkröfunnar sé því 4.892.523 kr. Auk þess beri stefnda að greiða stefnanda vexti af 4.306.223 kr. frá stöðugleikadegi 22. júní 2008 til 18. nóvember 2011 og dráttarvexti frá þeim degi til greiðsludags en frá þeim degi hafi mánuður liðið frá því að stefnandi sendi stefnda kröfu um uppgjör.
Um lagarök vísar stefnandi til ákvæða laga um sjúklingatryggingu nr. 111/2000, skaðabótalaga nr. 50/1993 og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um aðild málsins er vísað til III. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, 44. gr. laga nr. 30/2004. Um varnarþing vísast til ákvæða V. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Varðandi málskostnað vísar stefnandi til ákvæða 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt byggist á ákvæðum laga nr. 50/1988. Um útreikning bótakröfu er vísað til skaðabótalaga nr. 50/1993. Um vexti á dómkröfu stefnanda er vísað til 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og um dráttarvexti til ákvæða 6. og 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
III.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að miða skuli bótaskyldu stefnda vegna atviksins þann 22. júní 2007 við ákvörðun stefnda, dags. 17. janúar 2011 og úrskurð úrskurðarnefndar almannatrygginga, dags. 16. janúar 2012 enda sýni gögn málsins fram á að stefnandi búi ekki við skerta getu til að afla atvinnutekna vegna sjúklingatryggingaratburðarins.
Stefndi mótmælir því að skilyrði 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 séu uppfyllt í tilviki stefnanda. Stefndi bendir á að rökstuðningur í ákvörðun stefnda frá 17. janúar 2011 sé fullnægjandi enda komi þar fram að tjónþoli hafi sjálf upplýst á matsfundi að hún teldi afleiðingar atviksins ekki hafa nein áhrif á tekjur sínar miðað við núverandi starf sem dagskrárgerðarkona hjá [...] og að hún hafi hugsað sér að halda áfram því starfi. Störf hennar hafi verið svipuð í gegnum tíðina að því leytinu til að matsmenn telji ekki að afleiðingar sjúklingatryggingaratburðar hefðu haft nein áhrif á hæfi hennar til tekjuöflunar á þeim vettvangi. Stefndi vísar til þess að mat sem þetta sé ávallt framtíðarspá og því sé ekki mögulegt að leggja annað til grundvallar en áform, núverandi starf og forsögu. Forsaga stefnanda, núverandi starf og framtíðaráform hennar liggi fyrir, samkvæmt fyrirliggjandi gögnum. Þá hafi einnig verið tekið tilliti til eðlis líkamstjóns, afleiðinga þess fyrir tjónþola, aldurs og menntunar, sem sé á sama sviði og núverandi starf hennar. Stefndi veki jafnframt athygli á því að tekið hafi verið tillit til þeirra einkenna sem hrjá stefnanda vegna atviksins með því að meta henni 5 stiga miska. Gera þurfi skýran greinarmun á því hvort líkamleg einkenni hafi áhrif á hæfi til að afla tekna eða ekki, þ.e. hvort um læknisfræðilega eða fjárhagslega örorku sé að ræða.
Stefndi hafnar þeim rökum matsmanna að meiri líkur en minni séu á því að afleiðingar atviksins myndu valda stefnanda tekjutapi í framtíðinni miðað við það sem hefði sennilega orðið ef lyfjagjöfin hefði verið gerð á réttan hátt. Bendir stefndi á að tekjur tjónþola hafa ekki dregist saman á þeim tæpu sex árum sem liðin séu frá atvikinu, heldur hafi þær þvert á móti aukist til muna. Stefndi vísar í greinargerð með frumvarpi því er varð að skaðabótalögum nr. 50/1993 þar sem segir að það sem ráði úrslitum við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku sé hvort tjónþoli tapi tekjum til frambúðar. Þá segir einnig að annars vegar verði að meta hvaða atvinnutækifæri tjónþoli hefði átt ef hann hefði ekki orðið fyrir tjóni og hins vegar atvinnutækifæri eftir líkamstjón. Í því skyni verði hverju sinni að afla upplýsinga um atvinnu hans og tekjur fyrir og eftir tjónsatvik. Að því er varði atvinnutækifæri eftir líkamstjón sé vakin athygli á því að í 2. mgr. sé berum orðum vikið að því að líta skuli til þess hvort ætla megi að tjónþoli eigi kost á vinnu sem sanngjarnt sé að ætlast til að hann starfi við. Við slíkt sanngirnismat komi einkum til álita andlegir og líkamlegir hæfileikar tjónþola, verkkunnátta hans, menntun og aldur. Þá verði fyrst og fremst að leggja til grundvallar upplýsingar sem séu fyrir hendi þegar ljóst þyki að tjónþoli geti ekki náð frekari bata.
Stefndu benda á að af fyrirliggjandi gögnum í málinu sé ljóst að líkamstjónið virðist ekki há stefnanda í störfum hennar í sjónvarpi við hinar ýmsu aðstæður, sem jafnvel fullfrískir einstaklingar gætu átt í erfiðleikum með að valda, svo sem sjá megi í sjónvarpsþáttunum [...] sem sýndir voru á [...] [...] 2012 og lagðir eru fram þessu til stuðnings. Stefndi telji að þessir þættir, sem teknir hafi verið upp fimm árum eftir atvikið, sýni svo ekki verði um villst, að stefnanda séu allir vegir færir í störfum sínum í fjölmiðlum, enda hafi þarna verið dæmi um ýmsar krefjandi aðstæður þar sem hún þurfti að beita hægri hendi af miklum krafti auk þess sem hún hafi unnið í kulda, bæði á sjó og jöklum.
Þá bendir stefndi einnig á að mat hinna dómkvöddu matsmanna frá 12. október 2011, sanni ekki að varanleg örorka stefnanda af völdum slyssins sé í raun meiri en miðað sé við í ákvörðun stefndu þar sem matsgerðir um örorku í líkamstjónamálum séu ekki nein nákvæmnisvísindi og byggist meira og minna á huglægum viðhorfum matsmanna, þar sem munað geti verulegu á niðurstöðum eftir matsmönnum, þótt verið sé að meta sömu einkenni og aðstæður. Athygli sé vakin á því að í matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna, í ákvörðun stefndu frá 17. janúar 2011 og í úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga frá 16. janúar 2012, sé verið að meta sömu einkenni og aðstæður, en engar nýjar og ófyrirsjáanlegar afleiðingar sjúklingatryggingaratburðarins hafa komið fram frá ákvörðun stefnda.
Þá vísar stefndi til þess að eftir að matsgerð dómkvaddra matsmanna hafi legið fyrir hafi verið tekin afstaða til kæru vegna ákvörðunar stefnda hjá óvilhöllum úrskurðaraðila, úrskurðarnefnd almannatrygginga, og hafi þá legið fyrir bæði ákvörðun stefnda frá 17. janúar 2011 og matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna frá 12. október 2011. Niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga, hafi verið sú að ákvörðun stefnda skyldi staðfest.
Stefndi telji því að ekki skuli miðað við matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna enda séu ekki fyrir hendi neinar upplýsingar sem styðji við röksemdir sem liggja að baki mati þeirra á 5% örorku stefnanda, heldur liggi þvert á móti fyrir sönnunargögn sem sýni fram á að stefnandi hafi verið fullfær um að sinna þeim störfum sem matsmennirnir töldu hana ekki geta sinnt. Því sé með fullri sanngirni hægt að rökstyðja og ætla að stefnandi geti sinnt starfi fréttamanns eða öðru því starfi sem hugur hennar standi til, rétt eins og starfi umsjónarmanns [...] sjónvarpsþáttanna og miða skuli við ákvörðun stefndu frá 17. janúar 2011.
Stefndi bendir á að í matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna sé enginn rökstuðningur að baki því til hvaða þátta hafi verið litið við niðurstöðu um stöðugleikadag. Í ákvörðun stefnda sé það hins vegar tekið fram með skýrum hætti, þ.e. að teknu tilliti til framburðar stefnanda á matsfundi. Stefndi leggi því áherslu á að stöðugleikadagur sé réttilega miðaður við 1. september 2008.
Stefndi hafnar kröfu stefnanda um að hann greiði fyrir matsgerð dómkvaddra matsmanna enda hafi legið fyrir ákvörðun stefnda í málinu þar sem varanlegar afleiðingar sjúklingatryggingaratburðarins hafi verið metnar og því sé óþarft að fá mat dómkvaddra matsmanna. Þá hafi ákvörðunin verið staðfest af úrskurðarnefnd almannatrygginga eins og fyrr segi.
Stefndi gerir þá kröfu til vara að verði fallist á það með stefnanda að stefndi sé bótaskyldur vegna varanlegrar örorku, verði dómkröfur lækkaðar þar sem útreikningur stefnanda sé haldinn verulegum annmörkum og sé kröfum stefnanda andmælt sem of háum.
Stefndi mótmæli því árslaunaviðmiði sem stuðst sé við í stefnu enda hafi ekkert verið lagt fram í málinu sem styðji það að víkja eigi frá meginreglu skv. 7. gr. laga nr. 50/1993, þ.e. að árslaun skuli teljast vera meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag sem tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðist við. Stefnandi hafi auk þess ekki fært nein rök fyrir því hvers vegna miða ætti við heildarlaun fréttamanna í Félagi fréttamanna í stað þess að miða við meðalatvinnutekjur tjónþola. Stefndi bendir á að samkvæmt gögnum frá Ríkisskattstjóra, sem liggi fyrir í málinu, skuli miða við upphæðina 2.352.481 kr. nema stefnandi sýni fram á annað. Í stefnu liggur fyrir útreikningur að baki þessari fjárhæð. Þá mótmælir stefndi stöðugleikadegi í útreikningi stefnanda.
Stefndi mótmæli jafnframt vaxtakröfum stefnanda á þeim grundvelli að vextir sem séu eldri en fjögurra ára frá birtingardegi stefnu séu fyrndir. Birtingardagur stefnu hafi verið 3. desember 2013 og séu því allir vextir sem krafan hafi borið fyrir þann tíma fyrndir, sbr. 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905, sbr. 28. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Stefndi bendi á að bótauppgjör 19. janúar 2011 rjúfi ekki fyrningu samkvæmt 6. gr. laga nr. 14/1905. Þá sé upphafstíma bótakröfu andmælt og talið að miða skuli við dómsuppsögu enda séu slíkir annmarkar á útreikningi stefnanda að ekki geti legið fyrir fyrr en við dómsuppsögu hver rétt fjárkrafa sé, verði á annað borð á hana fallist. Til vara krefst stefndi þess að upphaf dráttarvaxta sé mánuði eftir að stefna var birt stefnda.
Um lagarök er vísað til laga um sjúkratryggingu, nr. 111/2000, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007, eldri laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1950, skaðabótalaga nr. 50/1993 og meginreglu skaðabótaréttar. Um málskostnaðarkröfu er vísað til 21. kafla laga nr. 91/1991.
IV.
Niðurstaða
Stefnandi byggir á því að hún hafi ekki fengið fullar sjúkratryggingabætur úr hendi stefnda vegna líkamstjóns sem hún hlaut við atvik það sem varð þann 22. júní 2007. Stendur ágreiningur aðila um það hvort hún eigi réttmæta kröfu til þess að fá bætur greiddar vegna varanlegrar örorku. Uppgjör bóta vegna þjáninga og varanlegs miska fór fram 19. janúar 2011. Varanlegur miski var metinn 5 stig en við það mat var litið til varanlegs vefjaskaða í hægri olnbogabót og kraftminnkunar. Var niðurstaða stefnda, úrskurðarnefndar almannatrygginga og hinna dómkvöddum matsmanna, samhljóða hvað þetta varðar.
Í tilefni umsóknar stefnanda um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000 gekkst hún undir læknisskoðun hjá B á matsfundi þann 5. júlí 2010. Í ákvörðun stefnda sem byggð er á mati læknisins og C lögfræðings er að finna lýsingu stefnanda á stöðugum einkennum frá hægri handlegg. Einkennin samanstandi m.a. af einkennilegum dofa, viðkvæmni við ákveðinni snertingu, kulvísi, dofatilfinningu í kulda og mikilli kraftskerðingu sem geri það að verkum að hún treysti ekki hægri hendi til átaka. Sökum þessa eigi hún erfitt með að skrifa langan texta og hafi fengið að taka próf í Háskóla Íslands á tölvu. Þá hafi einkennin áhrif á daglegt líf og valdi svefntruflunum.
Um varanlega örorku stefnanda segir í matinu: „Tjónþoli upplýsti sjálf á matsfundi að hún teldi afleiðingar atburðarins ekki myndu hafa nein áhrif á tekjur sínar miðað við núverandi starf. Störf hennar í gegnum tíðina hafa verið svipuð að því leytinu til að matsmenn telja heldur ekki að afleiðingar slyssins hefðu nein áhrif á hæfi hennar til tekjuöflunar á þeim vettvangi. Að öllu virtu telst varanleg öroka vegna sjúklingatryggingaratburðar því engin vera.“ Staðfesti B þessa niðurstöðu fyrir sitt leyti við aðalmeðferð málsins.
Stefnandi var ósátt við niðurstöðuna og taldi að ekki hefði verið tekið nægilegt tillit til þess hversu mikil áhrif viðvarandi einkenni hefðu á starfsgetu hennar. Hún væri úthaldsminni og ætti í erfiðleikum við allt grip og að lyfta þungum hlutum. Þar af leiðandi ætti hún í erfiðleikum með að sinna ýmsum störfum, svo sem tölvuvinnu, og væri ófær um að skrifa mikið. Fór stefnandi fram á dómkvaðningu matsmanna til þess að meta afleiðingar sjúklingatryggingaatviksins og liggur mat D, læknis og E lögmanns fyrir í málinu dagsett 12. október 2011.
Við mat á varanlegri örorku líta matsmennirnir til þess að líklegt sé að stefnandi hefði haldið áfram vinnu á vettvangi fjölmiðla hefði atvikið ekki átt sér stað enda eigi hún sér langa sögu á þeim vettvangi og hafi aflað sér háskólamenntunar á því sviði. Þá segir í matsgerðinni: „Matsbeiðandi hefur á síðustu árum aðallega unnið við dagskrágerð í útvarpi en eðli starfa af þeim toga leiðir tæplega til þess að hægt sé að telja atvinnuöryggi mikið eða tryggt, enda byggir líftími útvarpsefnis á vinsældum þess samkvæmt mælingum og áherslum þeirra sem bera ábyrgð á dagskrástjórn hverju sinni. Um það leyti sem atvikið gerðist hafði matsbeiðandi áform um að halda áfram háskólanámi í blaða- og fréttamennsku og sá fyrir sér að eiga starfsferil í fjölmiðlum. Hún er fastráðin dagskrárgerðarmaður hjá [...] og stýrir vinsælum morgunþætti en metnaður hennar og áhugi stendur til að fá starf sem fréttamaður. Hún vill vinna sig upp í fréttamannsstarf en hefur ekki treyst sér til að sækja um þar sem hún á í erfiðleikum við að halda á míkrafón í hægri hendi og vinna á tölvu. Þá er ljóst að einkenni sem atvikið olli versna í kulda en starf fréttamanns gerir eðlilega kröfu til að hann fari út úr húsi og á vettvang fréttaefnis.“ Niðurstaða matsmanna var sú að líkamstjón það sem atvikið olli hafi áhrif á vinnugetu stefnanda og dragi úr möguleikum hennar á starfsvali í framtíðinni ásamt möguleikum á framgangi í starfi. Það séu því að þeirra mati meiri líkur en minni á því að afleiðingar atviksins valdi henni tekjutapi í framtíðinni og sé varanleg örorka því metin 5%.
Fyrir dómi lýsti stefnandi starfi sínu í dag. Hún kvaðst hafa umsjón með útvarpsþætti sem væri þriggja og hálfs tíma vinna á dag. Hún ynni í átta tíma við tölvu, m.a. við handritsgerð og að klippa efni. Hún ynni líka við sjónvarp og hefði haft umsjón með tilteknum þáttum á dagskrá [...]. Hún þreyttist því við að skrifa á tölvu og væri almennt séð úthaldsminni enda fæli vinnan í sér aukið álag. Væri hún því þreytt og pirruð þegar heim kæmi. Kraftleysi í hægri hönd væri enn til staðar og hefði síst batnað. Hún kvaðst enn búa við sömu einkenni og áður þó að verkir hafi breyst eitthvað.
Stefnandi byggir alfarið á niðurstöðu matsgerðar hinna dómkvöddu matsmanna en stefndi byggir á mati því sem lá til grundvallar ákvörðun stefnda frá 17. janúar 2011 sem var staðfest með úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga þann 16. janúar 2012.
Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er það hlutverk dómara að taka afstöðu til þess hvaða sönnunargögn hann leggur til grundvallar niðurstöðu dóms. Metur dómari þannig sönnunargildi þeirra matsgerða sem vísað hefur verið til, sbr. 2. mgr. 66. gr. laganna svo og annarra gagna. Meðal gagnanna eru myndbrot frá árinu 2012 úr sjónvarpsþáttunum [...] sem sýndir voru á [...] og stefnandi stjórnaði en þau gögn voru ekki á meðal matsgagna.
Að mati dómsins teljast ákvörðun stefnda og matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna sterk sönnunargögn um þau atriði sem þau ná til hafi réttum aðferðum verið beitt við framkvæmd þeirra og þau sýnilega ekki byggð á röngum forsendum. Mat hinna dómkvöddu matsmanna hefur þannig ekki sjálfkrafa ríkara sönnunargildi en ákvörðun stefnda.
Stefnandi telur mat á varanlegri örorku í ákvörðun stefnda rýra sönnunargildi hennar enda sé rökstuðningur takmarkaður og ekki eins ítarlegur og rökstuðningur í matsgerð dómkvaddra matsmanna. Sé nánast eingöngu lagt til grundvallar að sjúklingatryggingaratburðurinn hafi ekki áhrif á tekjur stefnanda í núverandi starfi né í störfum af svipuðum toga. Stefnandi hefur hins vegar hvorki dregið í efa að faglega hafi verið staðið að læknisskoðun né haldið því fram að forsendur sem ákvörðunin er byggð á séu rangar. Hins vegar hafi ekki verið tekið nægilegt tillit til þeirra einkenna og færniskerðingar sem stefnandi gerði grein fyrir og þjáist af enn í dag.
Fyrir dómi lýstu annars vegar B læknir og hins vegar dómkvaddir matsmenn D læknir og E lögmaður þeim forsendum sem lágu til grundvallar niðurstöðu þeirra. Allir lýstu þeir því að um heildstætt mat hafi verið að ræða þar sem öðrum þræði var byggt á frásögn stefnanda sjálfrar um forsögu, núverandi starf og framtíðaráform. Í rökstuðningi þeirra fyrir niðurstöðu um varanlega örorku eru dregin fram tiltekin atriði sem ráða niðurstöðu þeirra. Að áliti dómsins þykir það ekki rýra sönnunargildi ákvörðunar stefnda að dregin hafi verið fram önnur og færri atriði en í niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna. Fyrir liggur að læknisskoðun fór fram í báðum tilvikum svo og viðtal við stefnanda.
Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993 á tjónþoli rétt á bótum fyrir varanlega örorku ef líkamstjón veldur varanlegri skerðingu á getu til að afla vinnutekna. Er þá litið til þess hvort og í hvaða mæli aflahæfi tjónþolans skerðist til framtíðar litið en örorkumat samkvæmt greininni er fjárhagslegt og einstaklingsbundið. Þau atriði sem ráða mestu við mat þetta eru staða tjónþolans fyrir slys, eðli líkamstjónsins og varanleg áhrif þess svo og möguleikar tjónþola á að halda fyrra starfi eða finna sér nýtt starf.
Varðandi eðli líkamstjóns stefnanda er niðurstaða mats læknanna B og D í öllum meginatriðum sú sama en rúmt ár var á milli læknisskoðana. Hvorki er að finna ytri einkenni á hægri hendi og handlegg né vöðvarýrnun. Hreyfigeta var eðlileg í efri útlimum, þ.e. öxlum, olnbogum, úlnliðum og fingrum. Skynjun í griplimum var eðlileg, þ.e. sinaviðbrögð og húðskyn. Gripkraftur var þó ekki prófaður sérstaklega af hinum dómkvöddu matsmönnum. Framkvæmdar voru tvenns konar kraftmælingar í tengslum við læknisskoðun B. Önnur sýndi mun meiri gripkraft í hægri hönd en hin lítinn mun á milli handa.
Fyrir liggur að þegar atvikið átti sér stað átti stefnandi ekki að baki langa atvinnusögu. Hún stundaði nám í stjórnmálafræði með fjölmiðlafræði sem aukagrein og útskrifaðist [...] 2005. Með náminu vann hún á einkareknum útvarpsstöðvum í hlutastarfi. Eftir útskrift vann hún að öllu leyti við útvarpsstöð til áramóta 2005 en þá fór hún til útlanda í spænskunám fram til júlí 2006. Frá ágúst 2006 vann hún á dagblaði við sölu auglýsinga. Stefnandi starfaði þar þegar atvikið varð en hafði auk þess umsjón með útvarpsþætti á [...] um helgar.
Framtíðaráform stefnanda eru óbreytt og hún hyggst starfa áfram á vettvangi fjölmiðla. Hana hefur að eigin sögn ávallt dreymt um að verða fréttamaður en árið 2009 hóf hún meistaranám í blaða- og fréttamennsku og lauk þar tilteknum einingum. Hún hefur hins vegar aldrei starfað sem fréttamaður og voru í sjálfu sér engin teikn um það þegar atvikið átti sér stað.
Af því sem rakið hefur verið og fram kom í skýrslutöku af stefnanda ásetti hún sér eftir tjónsatvikið að halda sínu striki þrátt fyrir að hin viðvarandi einkenni hafi gert henni erfitt fyrir í ýmsu tilliti. Þar sem hún væri rétthent hafi hún sem fyrr beitt hægri hendi við vinnu sína en gætti þess að hvíla hana og nota vinstri hendi þegar þörf krefði. Að þessu leyti hefur stefnandi takmarkað tjón sitt eins og henni hefur verið unnt. Nú rúmum sjö árum eftir atvikið er hún fastráðin á [...] en starfið er erilsamt og stærsti hluti vinnu hennar fer fram á tölvu. Á árinu 2012 tók hún að sér gerð sjónvarpsþátta við ýmsar krefjandi aðstæður sem útheimti beitingu beggja handa við ýmsar þrautir og verkefni. Fram kom í skýrslu stefnanda að hún hafi viljað sanna sig og hafi „látið vaða“ enda ekki talið sig hafa aðra kosti í stöðunni.
Það er stefnandi sem ber sönnunarbyrði fyrir því að hún eigi réttmæta kröfu á bótum fyrir varanlega örorku. Þarf hún því að sanna að þau einkenni sem hún glímir við í dag hafi áhrif á getu hennar til að afla tekna til framtíðar. Fyrir liggur að tekjur hennar hafa aukist frá því sem áður var og vinnuframlag hennar í dag er síst minna en það var fyrir atvikið. Þá er ekki að sjá að möguleikar stefnanda til ákveðinna verkefna hafi skerst sem vissulega er því að þakka að hún hefur bætt við sig í námi og er þrautseig að eðlisfari. Vegna þeirra varanlegu einkenna sem há munu stefnanda til framtíðar voru henni eins og fyrr sagði ákvarðaðar bætur fyrir varanlegan miska. Að mati dómsins hefur stefnandi hins vegar ekki sýnt fram á með fullnægjandi hætti að tjónsatvikið hafi dregið úr möguleikum hennar og getu til þess að afla tekna í framtíðinni og þannig valdið henni fjárhagslegu tjóni. Verður niðurstaða ákvörðunar stefnda og úrskurður almannatrygginga um að varanleg örorka stefnanda sé engin því lögð til grundvallar. Að þessu virtu ber að sýkna stefnda af kröfu stefnanda.
Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp þennan dóm.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Sjúkratryggingar Íslands skal vera sýkn af kröfum stefnanda, A.
Málskostnaður fellur niður.