Hæstiréttur íslands
Mál nr. 447/2007
Lykilorð
- Líkamsárás
- Sýkna
|
|
Fimmtudaginn 10. apríl 2008. |
|
Nr. 447/2007. |
Ákæruvaldið(Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Líkamsárás. Sýkna.
X var ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa slegið eða fleygt glasi í andlit A fyrir utan veitingahús í miðbæ Reykjavíkur með þeim afleiðingum að hann hlaut skurð á efri vör og tvær framtennur brotnuðu. X neitaði sök en var sakfelldur í héraði með vísan til framburða vitna. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að atvikið hefði gerst innan um hóp fólks. Langur tími hefði liðið þar til lögregla hóf rannsókn en það hefði áhrif á sönnunarmat í málinu og drægi úr vægi myndsakbendingar sem sönnunargagns. Þá var litið til þess að A hefði fengið upplýsingar um nafn X strax eftir líkamsárásina en X var á þeim tíma þekktur handknattleiksmaður. Þá varð ekki litið fram hjá þeim vafa sem hefði hlotist af skýrslugjöf B fyrir lögreglu þar sem fram kom að hann hefði hent glasi í átökum fyrir utan sama veitingahús. Eins og sönnunarfærslu var háttað var ekki talið að ákæruvaldinu hefði tekist að sanna sök X. Hann var því sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og bótakröfu A vísað frá dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 15. ágúst 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu ákærða og greiðslu skaðabóta en þyngingar á refsingu.
Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að viðurlög verði milduð. Þá krefst hann aðallega að bótakröfu verði vísað frá dómi en til vara að bætur verði lækkaðar.
Samkvæmt gögnum málsins var málið dómtekið í Héraðsdómi Reykjavíkur 25. júní 2007 og hinn áfrýjaði dómur upp kveðinn 6. júlí 2007.
Ákærða er gefin að sök sérstaklega hættuleg líkamsárás, með því að hafa aðfararnótt laugardagsins 22. október 2005, fyrir utan veitingahúsið Hverfisbarinn, Hverfisgötu 20 í Reykjavík, veist að A og slegið eða fleygt glasi í andlit hans, með þeim afleiðingum sem lýst er nánar í hinum áfrýjaða dómi. Ákærði hefur frá upphafi neitað sök.
Hinn 24. október 2005 kærði A líkamsárásina til lögreglustjórans í Reykjavík. Viðtalsskýrsla var næst tekin af A 27. september 2006 eða rúmum 11 mánuðum síðar. Fyrsta skýrsla var tekin af ákærða 2. ágúst 2006. Vitnin C og H gáfu fyrst skýrslu hjá lögreglu 8. september 2006. Myndsakbending fór fram hjá lögreglu 25. september 2006 að því er varðaði C og H og að því er snertir A 13. október 2006.
Við þingfestingu málsins neitaði ákærði sem fyrr sök og benti á að annar maður, [...] að nafni, hefði gert það sem í ákæru greinir. Af þessu tilefni var haft uppi á B og hann boðaður til að gefa skýrslu hjá lögreglu 3. maí 2007. Þar skýrði hann svo frá að hann hafi verið fyrir utan Hverfisbarinn og hefðu orðið einhverjar stimpingar við röð fólks sem beið inngöngu. Hafi hann þar kannast við ákærða. Þá segir í lögregluskýrslunni: „Þetta var bara rifrildi framan af en allt í einu upphófust slagsmál og ég var kýldur í andlitið. Ég brást við með því að slá frá mér, en ég var með bjórglas í hendinni. Svo var ég dreginn í burtu og slagsmálin leystust upp. Bjórglasið fór í einhvern og brotnaði þar.“ Áverkavottorð um meiðsl A var borið undir B og er eftirfarandi bókað eftir honum: „Ég ætlaði aldrei að gera eitthvað svona. Ég kastaði glasinu sem varnarviðbrögðum við að vera kýldur sjálfur. Ég kom ekki út af staðnum með glasið í þessum tilgangi. Ég var bara að drekka bjórinn.“
B var á ný boðaður til skýrslugjafar hjá lögreglu 9. maí 2007 þar sem hann upplýsti að hann hefði frétt af málinu hjá I sem iðki handbolta með ákærða. Hefði hann þá áttað sig á að X hefði verið ákærður fyrir það sem hann hefði gert. Aðspurður upplýsti hann einnig að vinur sinn G hefði staðið rétt hjá sér þegar slagsmálin urðu og hefði fylgt sér á brott eftir hann fleygði glasinu.
Í skýrslu G, sem sögð er hafa verið gefin hjá lögreglu 14. eða 15. maí 2007, kom fram að hann hefði verið að skemmta sér við Hverfisbarinn með B þegar átök urðu þar. Hefði B verið kýldur og hann fylgt honum á brott. Hann kvaðst ekki hafa tekið eftir hvort B hefði verið með glas í hendi þegar þetta gerðist. Aðspurður kvaðst hann hafa séð ákærða um kvöldið og ráma í það að hafa séð ákærða í þvögunni fyrir utan staðinn. Framburður G fyrir dómi var á sömu lund.
Í skýrslu sinni hjá lögreglu 9. maí 2007 upplýsti ákærði hvernig hann hefði frétt að B tengdist málinu. Kvaðst hann eftir útgáfu ákæru hafa hitt B á förnum vegi í miðbænum. Hefði B minnst atvik að fyrra bragði og viðurkennt fyrir honum að það hefði verið hann sem henti glasi í mann.
D yfirdyravörður á Hverfisbarnum bar við aðalmeðferð málsins 7. júní 2007 að B hefði unnið hjá sér tvær til þrjár helgar nokkru eftir að atvik máls þessa urðu. Hann hefði þá sagt sér að „einhverjum helgum þarna á undan“ hefði hann slegið einhvern með glasi fyrir utan.
B gaf þann framburð fyrir rétti 7. júní 2007 að hann minntist þess ekki að hafa haft glas í hendi heldur hefði hann kýlt einhvern með krepptum hnefa á hægri hlið höfuðs. Hann útskýrði misræmið í framburði sínum með því að þetta hefði verið „matað upp í [sig] frá lögreglumönnum“.
Lögreglufulltrúi sá, er tók skýrslur af B, bar fyrir dómi að við skýrslutöku hefðu B ekki verið gefnar neinar forsendur. Aðspurður kvaðst hann ekki minnast þess að B hefði viljað leiðrétta framburð sinn um að hafa haldið á bjórglasi er til átaka kom fyrir utan Hverfisbarinn.
Af hálfu ákæruvalds var á því byggt í málflutningi fyrir Hæstarétti að óvissa væri um tímasetningu þeirra atvika sem B hefði lýst. Þeirri spurningu var beint til saksóknara hvort gengið hefði verið úr skugga um hvort fleiri en ein líkamsárás fyrir utan Hverfisbarinn hefði verið skráð í dagbók lögreglu um það leyti er atvik máls þessa gerðust. Kvað saksóknari að það hefði ekki verið athugað.
Fram er komið hjá ákærða og vitnum að atvikin hafi gerst innan um hóp fólks. Langur tími leið þar til lögregla hóf rannsókn og hefur það áhrif á sönnunarmat í málinu. Þá dregur það einnig úr vægi myndsakbendingar sem sönnunargagns, þar sem vitnum er ætlað að bera kennsl á sakborning, að hún fer fram svo löngu eftir að atburðir urðu. Líta verður til þess að A fékk upplýsingar um nafn ákærða hjá dyraverði Hverfisbarsins strax eftir líkamsárásina. Í gögnum málsins liggja fyrir upplýsingar um að ákærði hafi á þessum tíma verið þekktur handknattleiksmaður. Loks verður ekki fram hjá þeim vafa litið sem skapast við skýrslugjöf B sem fær að nokkru leyti stoð í framburði vitna.
Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála verður Hæstiréttur að meta hvort ákæruvaldinu hafi tekist að færa fram nægilega sönnun um sök ákærða, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sbr. 45. og 46. gr. sömu laga. Eins og sönnunarfærslu er háttað hefur slík sönnun ekki tekist. Samkvæmt því verður ákærði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Samkvæmt 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 verður kröfu A vísað frá héraðsdómi.
Allur sakarkostnaður málsins í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.
Kröfu A er vísað frá héraðsdómi.
Allur sakarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði, Guðmundar B. Ólafssonar hæstaréttarlögmanns, eins og þau voru ákveðin í hinum áfrýjaða dómi svo og málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júlí 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var 7. júní sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 2. apríl 2007 á hendur X, kt. [...], [...], Reykjavík, fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 22. október 2005, fyrir utan veitingahúsið Hverfisbarinn, A hlaut sentímetra langan skurð á efri vör og tvær framtennur brotnuðu.
Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Einkaréttarkrafa:
Af hálfu A, kt., [...], er krafist skaðabóta að fjárhæð 857.537 auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 22. október 2005 til 2. september 2006, en með dráttarvöxtum frá þeim degi samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Þá krefst hann lögmannsþóknunar að fjárhæð kr. 119.520.
Málavextir
Mánudaginn 24. október 2005 kom til lögreglunnar í Reykjavík A og kærði yfir því að hann hefði orðið fyrir líkamsárás aðfaranótt laugardagsins næsta á undan við krána Hverfisbarinn við samnefnda götu hér í borg. Í skýrslu sem hann gaf þá kvaðst hann hafa verið á leið út af staðnum ásamt kærustu sinni, H, og vinkonu hennar, C. Þegar þau hefðu verið á stigapalli milli hæða þegar að kom maður sem var ofurölvi og hrasaði maðurinn utan í stúlkurnar. Kvaðst A hafa tekið í piltinn og hrist hann til og sagt honum að vera ekki svona ölvaður. Hefðu dyraverðir þá komið að og sagt að þeir vildu ekki vandræði og skyldi hann fara út. Maður þessi hafi elt þau út og voru þá nokkrir vinir hans með honum. Hefðu mennirnir slegið hring um kærandann og hefði maðurinn fyrrnefndi slegið hann í andlitið með hálfpotts bjórglasi. Hefði höggið komið á efri vörina. Dyravörður hefði þá komið og skotið yfir hann skjólshúsi, eins og þar segir. Þá hefði annar dyravörður komið og haldið árásarmanninum um stund. Kærandinn gaf upp nafn árásarmannsins, X, hjá einum dyravarðanna, sem hann sagði að héti D. Kvaðst hann hafa farið á slysadeild til þess að fá gert að áverkanum og þar hafi verið saumuð fimm spor í efri vör undir nefinu. Þá hefði hann leitað til tannlæknis þar sem tvær tennur í efri gómi og ein tönn í neðri gómi voru skemmdar.
A var látinn taka þátt í myndsakbendingu 13. október sl., að viðstöddum verjanda ákærða. Var þá raðað upp fyrir hann níu andlitsmyndum af ungum mönnum úr safni lögreglunnar. Benti hann á mynd af ákærða og sagði hann vera árásarmanninn.
Í málinu er vottorð Hlyns Þorsteinssonar sérfræðings á slysadeild Fossvogsspítala. Segir þar að A hafi verið með 1 cm skurð á efri vör sem náði í gegnum vörina. Þá hafi sést að tvær framtennur í honum voru brotnar um þvert til helminga eða svo. Sárið á vörinni hafi verið saumað fimm sporum. A mun hafa leitað til tannlæknis vegna áverka á tönnunum en ekki er vottorð í málinu um þá frá tannlækninum. Aftur á móti eru í reikningi frá honum til A tilgreind þessi verk: „bráðahjálp“, „uppbygging + stifti, framtönn“, „málmlaus postulínskróna“ og „rótfyllingarmeðferð 1 gangur“.
Ákærði gaf skýrslu í málinu hjá lögreglu 2. ágúst sl.. Hann kannaðist við að hafa verið á Hverfisbarnum á þeim tíma sem um ræðir. Hann kvaðst ekki muna hvernig þetta byrjaði en sagðist hafa verið í einhverjum smástympingum við ungan mann inni á Hverfisbarnum sem hefðu haldið áfram út fyrir staðinn og þar hefðu hann og félagi hans haldið áfram að rífast við hann. Eftir það hefði hann farið á knæpuna Sólon og þar hefðu vinir unga mannsins komið og nefbrotið hann en hann ekki hafa kært það þar sem hann taldi að þetta væri eitthvert fyllerísrugl á honum og þessum unga manni. Hann sagði það vera rangt sem segði í kæru A að hann og um fjórir vinir hans hefðu elt A út og slegið þar hring um hann. Hann segist aðeins hafa verið þarna með einum vini sínum, E, sem sé maður einfættur. Ákærði neitaði að hafa slegið til A með bjórglasi og hefðu aðeins verið stympingar einhverjar á milli þeirra, ekki högg.
C gaf skýrslu í málinu hjá lögreglu 8. september sl. Sagðist hún haf séð A hrista einhvern strák til við anddyrið og heyrt hann segja við hann „ertu fullur, ertu fullur“. Hefði hún séð að strákurinn varð reiður á svipinn og fór að ýta frá .sér. A hefði þá ýtt stráknum frá sér en strákurinn hrökklast of langt og dottið niður stigann en fólk gripið hann. Kvaðst hún svo hafa séð að einhverjir héldu A og H en dyraverðir náð síðan að slíta þau laus og hefðu þau þá komið út. Hefðu þau beðið fyrir utan eftir vinkonu þeirra en strákurinn, sem A hafði hrist til, hefði komið út ásamt vinum sínum út og þeir gengið að A og H. Kvaðst C hafa farið og haldið aftur af stráknum en heyrt að félagar hans voru að reyna að espa A upp en á árangurs. Strákurinn, sem hún hélt aftur af, hefði hrópað eitthvað á A og þá fór A að svara honum. Kvaðst hún þá hafa sleppt stráknum og hann ruðst fram fyrir hana og kastað glasi í andlitið á A. Hefðu vinir hans þá hrint A yfir keðju sem þarna er strengd og ráðist að honum, fjórir saman. Hefði dyravörður svo komið og skakkað leikinn. A og H hefðu svo farið upp á slysadeild með leigubíl. Hún kvaðst myndu geta þekkt þann sem kastaði glasinu á mynd og lýsti honum þannig að hann væri um 185 cm á hæð, grannur og grannur í framan, dökkskolhærður og stutthærður.
C var látin taka þátt í myndsakbendingu 25. september sl., að viðstöddum lögmanni ákærða. Var þá raðað upp fyrir hana níu andlitsmyndum af ungum mönnum úr safni lögreglunnar. Benti hún á mynd af ákærða og sagði hann líkastan þeim sem barið hefði A.
H, kærasta A, gaf skýrslu í málinu 8. september sl. Sagði hún þau þrjú hafa verið stödd í anddyri á staðnum þar sem eru tröppur niður á neðri hæð og tröppur upp á efri. Hefði strákur oltið niður tröppurnar og beint á hana. A hefði tekið í strákinn og hrist hann til og sagt í glensi „ertu fullur?“. Hefði hann svo ýtt við stráknum og hann hratað niður tröppurnar en verið gripinn þannig að datt ekki. Dyraverðirnir hefðu sagt við þau að þau skyldu að fara út. Strákurinn hefði hins vegar gripið í peysuermina á A og fingur hennar en þau náð að slíta sig laus og farið út en strákur orðið eftir inni. Þau hefðu ætlað að hinkra eftir vinkonu þeirra en dyrnar þá verið opnaðar og strákurinn komið út ásamt þremur eða fjórum vinum sínum og þeir umkringt A, nema strákurinn sem datt á hana. Hefði C haldið honum upp við vegg. Hefðu þeir gert hróp að A og reynt að æsa hann upp en A haldið ró sinni. Strákurinn sem C hélt aftur af hefði þá að öskrað eitthvað á A og A öskrað eitthvað á móti. Hefði strákurinn ruðst fram hjá C og kastað glasi í andlitið á A. Hefðu þeir allir svo veist að A og tekið hann yfir keðju sem er þarna og þeir allir lent í jörðinni ásamt A og halda eitthvað áfram að lemja A. Dyraverðir hefðu komið strax og tekið þá af A. Þau hefðu svo farið í leigubíl á slysadeild. Hún kvað þann sem kastaði glasinu hafa verið yfir 180 cm á hæð, grannur í vexti og mjór í framan, með brúnt hár, aðeins liðað og meðalsítt. Einnig hefði hann verið með skakkar framtennur, sem voru klesstar saman, og minnti hana á hamstur. Kvaðst hún viss um að geta þekkt hann aftur af mynd ef hún sæi tennurnar. Einhver þarna á staðnum hefði sagt hann vera handboltamann og heita X og væri fæddur 1981, að hana minnti.
H var látin taka þátt í myndsakbendingu 25. september sl., að viðstöddum lögmanni ákærða. Var þá raðað upp fyrir hana níu andlitsmyndum af ungum mönnum úr safni lögreglunnar. Benti hún á mynd af ákærða og sagði hann líkastan þeim sem barið hefði unnusta hennar. Ef hún gæti séð tennur hans gæti hún sagt til um það með vissu.
D dyravörður gaf skýrslu hjá lögreglu 25. júlí í fyrra. Kvaðst hann muna eftir þessu atviki og kvaðst vera viss um það að „X handboltastrákur“ hefði slegið ungan mann í andlitið með glasi. Kvaðst hann hafa verið innan dyra og komið út og séð ungan mann, allan blóðugan, og brotið glas hjá honum en ákærða standa beint andspænis honum. Fannst honum eins og hann hefði séð ákærða slá unga manninn en ekki vera viss um að ákærði hefði þá verið með glas í hendi. Hann sagði einhverja hafa staðið þarna hjá þeim, sem hann áleit vera einhverja sem þekktu annan hvorn þeirra.
Verður nú gerð grein fyrir því sem fram hefur komið í meðferð málsins fyrir dómi.
Við þingfesting málsins neitaði ákærði allri sök og kvað hann annan mann hafa gert þetta, [...] að nafni. Í skýrslu sinni í aðalmeðferð málsins hefur ákærði sagt að þeim A, sem ákærði þekkti ekki, hafi lent saman í anddyrinu og orðið úr stympingar. Hafi þeir munnhöggvist og hrint hvor öðrum og það leitt til þess að þeir hafi verið reknir út af staðnum og kveðst hann þá ekki hafa verið með glas í hendi. Eftir það hafi þeir haldið þessu eitthvað áfram fyrir utan en hann kveðst svo hafa gengið burt og farið yfir á Sólon. Hann segir einhvern hóp hafa fylgt sér út þegar hann var rekinn út. Ekki muni hann hverjir það hafi verið. Hann kveðst svo hafa frétt að maðurinn væri búinn að kæra. Hann kveðst hafa verið ölvaður en ekki mikið þó. Hann kveðst hafa verið einn á Hverfisbarnum í þetta sinn en hann segist þó hafa komið þangað með handboltafélögum sínum, 2 3 stundum áður en þetta gerðist. Hefðu þeir komið í rútu frá Akureyri eftir kappleik þar og hefðu þeir drukkið á leiðinni. Hann kveðst hafa verið tíður gestur á Hverfisbarnum á þessum tíma. Hann segist hafa seinna rætt við mann að nafni [...] og hafi [...] þá sagt sér að hann hefði gert þetta, kastað glasi. Hann segir félaga [...] þessa vera með sér í handbolta. Hann kveðst vita til þess að [...] þessi hafi verið inni á Hverfisbarnum að skemmta sér í umrætt sinn. Ákærði segir margt fólk hafa verið fyrir utan Hverfisbarinn í þetta sinn eins og venjulega. Hann kveðst engin önnur átök hafa séð fyrir utan Hverfisbarinn og engan annan átt samskipti við þar. Ákærði segir aðspurður að E, vinur hans hafi verið með honum á Hverfisbarnum og séu þeir mjög góðir vinir. Hafi E komið þangað með hópnum og farið með eða komið á eftir yfir á Sólon. Ákærði segist ekki minnast þess að hafa reynt að hringja í A eftir atburðinn, sbr. hér á eftir.
Vitnið B hefur komið fyrir dóm í tilefni af því að ákærði hafði við þingfestingu málsins bent á mann að nafni [...] og sagt hann vera þann sem slegið hefði A. Fór fram nokkur lögreglurannsókn í tilefni af því. Sagði B í lögregluskýrslu 3. maí að hann hefði verið staddur fyrir utan Hverfisbarinn og hefðu þar verið einhverjar stympingar við biðröðina og ákærði átt þátt í þeim. Hefði þetta svo orðið að slagsmálum og kvaðst B þá hafa verið kýldur í andlitið. Hefði hann brugðist við með því að slá frá sér með bjórglasi sem lent hefði í einhverjum og brotnað við það. Ekki kom fram hjá honum hvenær þetta atvik hefði gerst. B var aftur yfirheyrður um mál þetta 9. maí. Sagðist hann hafa frétt af því hjá sameiginlegum kunningja þeirra ákærða, að ákærði væri hafður fyrir sök í þessu líkamsárásarmáli. Hefði hann áttað sig fljótlega á því að hann væri sekur um þetta en ekki ákærði. Kvaðst hann ekki muna dagsetninguna nákvæmlega en vera viss um að rugla þessu saman við annað tilvik, enda hefði hann aðeins einu sinni lent í slíku. Hann sagði svo frá að hann hefði „fleygt frá“ sér glasinu og að það hefði komið í hliðina á höfði mannsins en ekki í andlitið. Hann kvað vin sinn, G, hafa verið staddan þarna. Fyrir dómi hefur B skýrt svo frá að hann hafi eitt sinn komið út af Hverfisbarnum þegar þar hafi verið þvaga, kannski 20 manns, og æsingur úti fyrir, rifrildi en engin slagsmál. Hafi G verið með honum, vinur hans. Kveðst hann hafa farið að rífast við einhverja þarna og hafi einhver kýlt hann. Segist hann hafa kýlt þann mann með krepptum hnefa til baka og heldur hann að höggið hafi komið vinstra megin í höfuð mannsins, á gagnauga eða nálægt því, en ekki beint framan á andlitið. Þá hafi G gripið inn í dregið hann í burtu. Ekki muni hann til þess að hafa verið með glas í hendi. Aðspurður hvernig hann geti tímasett þennan atburð segir hann að hann sé „bara nokkuð viss um að þetta sé þetta kvöld“, enda hafi hann hitt ákærða þarna fyrir utan. Segist hann kannast við ákærða vegna þess að vinur hans sé með ákærða í handbolta. Hann kveðst hafa heyrt um það fyrir nokkrum mánuðum að ákærði hefði verið sakaður um þessa árás. Hann segist ekki hafa átt í neinum útistöðum inni á Hverfisbarnum eða séð nein átök þar inni. Þá segist hann ekki muna til þess að hafa séð ákærða þar inni. Hann segir alla hafa verið að slást þarna fyrir utan. Vitni þetta hafði sagst í lögregluskýrslu, sem tekin var af honum eftir að málið var þingfest, hafa verið með bjórglas í hendi og er honum bent á það. Hann segist ekki hafa verið bjórglas þegar hann kom út af knæpunni. Segir hann að lögreglumaðurinn, hafi „matað ofan í“ hann að hann hefði verið með bjórglas.
Vitnið G segir þá B hafa farið út af Hverfisbarnum eitt sinn og þá hafi verið margt fólk fyrir utan í þvögu, ef til vill 10 manns, og áflog í gangi. Hafi B lent í hópnum og kveðst hann hafa þurft að aðskilja B og einhvern annan tvisvar sinnum. Hafi B verið kýldur og hann þá slegið frá sér í sjálfsvörn. Kveðst hann ekki hafa séð nákvæmlega þegar B gerði þetta en hafa dregið B í burtu með sér. Ekki hafi hann séð B með glas. Hann segist ekki geta tímasett þennan atburð nákvæmlega en þetta hafi verið fyrir tveimur árum. Þá muni hann ekki nákvæmlega hvenær um nótt þetta hafi verið. Hann segir þá ákærða vera kunningja og að þeir hafi æft saman fótbolta. Kveðst hann hafa séð ákærða þetta umrædda kvöld inni á knæpunni.
A hefur skýrt frá því að hann hafi verið búinn að drekka 3 4 bjóra þegar atburðurinn varð og muni hann atvik vel. Hafi hann verið á leið á millihæðina á Hverfisbarnum og á leið út ásamt kærustu sinni. Hafi ákærði þá komið niður, ölvaður, dottið á kærustuna. Kveðst hann þá hafa tekið í peysu hans og sagt við hann að vera ekki svona fullur og svo ýtt honum frá. Hafi aðrir þá gripið ákærða í stiganum en þau farið út af staðnum, H kærasta og C. Eftir að út var komið hafi ákærði komið þar með fjóra vini sína og þeir slegið hring um vitnið og hrakyrt hann. Kveðst hann þá hafa spurt þá hvort þeir væru „hetjur núna“ og litið í kringum sig. Hafi hann séð að ákærði var með glas, sá eini þeirra sem var með glas, og þeir skipst á einhverjum orðum. Hafi hann svo litið til hliðar og í því hafi hann fengið glasið í andlitið. Hafi ákærði þá verið „í sjónlínu“ eins og hann orðar það og mjög nálægt. Hann segist þó ekki hafa séð greinilega hvort að ákærði kastaði eða sló með glasinu. Glasið hafi brotnað á andliti hans og hann fallið við höggið á keðju sem þarna er strengd á staura. Hann kveðst aldrei hafa séð ákærða fyrr en þarna á Hverfisbarnum. Hann kveðst vera viss um að sá sem sló hann sé sá sami og hann átti í útistöðum við inni fyrir. Hann segir að mannsöfnuður hafi verið þarna utandyra en ekki hafi verið átök þarna önnur en þau sem hann lenti í, hvað sem síðar geti hafa orðið. Hann kveðst engan hafa slegið þarna. Segir hann dyraverði hafa komið um leið og hann hafði verið sleginn og veitt honum vernd. Hann segist hafa skorist á efri vör í gegn og misst tennur. Þá hafi hann fengið sýkingu í tennurnar nokkrum mánuðum síðar og stokkbólgnað. Hann segir tennurnar enn vera lausar og hafi tannlæknirinn sagt að hann gæti þurft að fara aftur í aðgerð út af þessu, einu sinni eða tvisvar á ævinni.
A kveðst hafa farið í myndsakbendingu og þá bent á mynd af ákærða. Hann segir dyraverðina á staðnum hafa sagt sér hvað árásarmaðurinn héti og svo hefði hann fengið að vita hjá öðrum að viðkomandi væri íþróttamaður. Hann segir ákærða hafa reynt að hringja þessa helgi, en hann hafi ekki svarað í símann. Hafi hann séð númerið sem hringt var úr og látið númer 118 rekja það fyrir sig. Hann sér ákærða í dóminum og segist þar kenna árásarmanninn.
C hefur skýrt frá því hún hafi verið með þeim A og H á Hverfisbarnum í umrætt sinn. Hafi þau A staðið við stigann við útganginn og beðið eftir vinkonu vitnisins. Hafi hún séð að A var með mann í taki og segja eitthvað við hann brosandi. Hafi A svo ýtt manninum sem hafi hrasað aftur á bak en maðurinn strax verið gripinn og reistur við. Þau hafi svo farið út og staðið fyrir utan og beðið eftir vinkonu þeirra. Maðurinn og vinir hans hafi komið saman út og slegið hring um A og skammast við hann. Hafi A ekki svarað. Vitnið kveðst á meðan hafa haldið manninum fyrrnefnda frá A. Þegar A að endingu svaraði þeim hafi maðurinn ruðst fram fyrir vitnið og kveðst hún hafa séð hann kasta glasi beint í andlitið á A og glasið brotna við það. Hún segist þó ekki vera alveg viss hvort glasið brotnaði á andliti A eða við það að detta í götuna. Heldur hún að þetta hafi verið hálfs lítra bjórglas. Nánar aðspurð um þetta atvik segist hún hafa snúið að A og maðurinn staðið fyrir aftan hana en svo ruðst fram fyrir hana. Giskar vitnið á að maðurinn hafi ekki verið meira en einn eða einn og hálfan metra frá A þegar hann kastaði glasinu. Eftir að hann gerði það hafi þeir þá allir ráðist á A og þeir allir dottið yfir keðjuna sem þarna er og fallið í götuna. Segir vitnið að sá sem kastaði glasinu sé sami maðurinn og sá sem lenti í útistöðum við A inni á kránni. Sér vitnið ákærða í réttinum og segist alveg viss um að hann sé sá maður. Hún segist ekki hafa séð að annað fólk ætti í áflogum fyrir utan enda fáir verið þar sem þau stóðu. Hún segir dyravörð hafa komið strax að og skakkað leikinn. Hún kveðst hafa verið búin að drekka eitthvað af bjór en muna vel atvikin. Vitnið segist hafa fengið að vita það löngu seinna hver maðurinn væri. Vitnið segist hafa tekið þátt í myndsakbendingu og þá bent á mynd af ákærða.
H, kærasta A, hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að hún hafi verið á Hverfisbarnum með þeim A og C. Hún segir þau hafa staðið við útganginn á staðnum þar sem er stigi, bæði upp og niður. Hafi maður dottið niður stigann og á vitnið. Hafi A þá tekið í manninn, hrist hann lítillega og spurt í gamni hvort hann væri fullur. Hafi hann svo ýtt manninum frá sér sem hafi við það dottið niður hinn stigann en strax verið gripinn. Hafi maðurinn komið og gripið í peysuermina á A en þau svo farið út. Hafi þau beðið fyrir utan eftir að vinkona vitnisins kæmi einnig út. Hafi maðurinn þá komið út með þremur eða fjórum vinum sínum og þeir allir farið að rífast við A. C hafi reynt að halda manninum frá með því að snúa í hann bakinu en A verið stilltur. Maðurinn hafi þá sagt eitthvað við A sem þá hafi orðið æstur og svarað. Við það hafi maðurinn ruðst fram hjá C, öðru hvoru megin, og hent hálfpotts bjórglasi í andlit A og þeir allir þá ráðist á hann svo að hann féll yfir keðjuna. Glasið hafi brotnað en hún er ekki viss hvort það brotnaði á andliti A eða við það að skella í götunni. Dyraverðir hafi komið þegar að og tekið mennina af A. Vitnið kveðst hafa staðið við hlið A og snúið að manninum þegar hann henti glasinu og hafi ekki verið meira en um einn eða einn og hálfur metri á milli hans og A. Segist vitnið vera viss um það að þessi maður hafi verið sá sami og A lenti í útistöðum við inni á veitingastaðnum. Sér hún ákærða í réttinum og segir hann vera þann mann. Hún kveðst ekki hafa séð þennan mann fyrir atburðinn en dyraverðirnir hafi sagt þeim hvað hann héti. Hún segist svo hafa farið með A á slysadeild. Hún kveðst hafa tekið þátt í myndsakbendingu og hafa þá bent á mynd af ákærða.
Hlynur Þorsteinsson læknir hefur komið fyrir dóminn og staðfest vottorðið sem hann hefur gefið í málinu. Hann segir áverkann á A geta stafað af því að glasi hafi verið kastað í andlit honum. Áverki sem þessi geti hafa komið þótt glasið hafi ekki brotnað á andliti mannsins. Þá segir hann að áverkinn gæti líka hafa orðið af hnefahöggi.
D dyravörður á Hverfisbarnum í umrætt sinn hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að hann hafi staðið fyrir utan dyrnar. Hafi hann þá séð þrjá til fjóra menn standa umhverfis mann þarna og þeir virst vera að spjalla saman til að byrja með. Hafi ákærði, sem vitnið þekkti deili á, staðið fyrir framan manninn. Hann kveðst svo hafa svo heyrt glas brotna og þá snúið sér við og þá séð manninn standa alblóðugan í framan og þá þrjá eða fjóra í kringum hann, en ákærða fyrir framan manninn. Kveðst hann hafa farið manninum til hjálpar og gengið á milli manna til þess að honum yrði ekki gert frekara mein. Minnir hann að maðurinn eða mennirnir hafi fallið í götuna. Hann man ekki til þess að önnur átök hafi verið í gangi þarna þegar þetta gerðist. Vitnið segist ekki hafa þekkt B á þessum tíma og ekki hafa tekið eftir honum þarna. Aftur á móti segir hann að B hafi seinna unnið hjá honum þarna tvær eða þrjár helgar, um mánuði eftir atburðinn, og hann þá sagt frá því að hann hefði, „einhverjum helgum“ áður slegið einhvern með glasi. Nánar aðspurður um það hvernig mennirnir stóðu þegar hann sneri sér við segir hann að þeir hafi myndað hálfhring utan um hann en keðjan verið fyrir aftan hann. Hann kveðst ekki minnast þess að neinn hafi fallið til jarðar. Eitthvað hafi verið þarna af fólki og kveðst hann ekki muna sérstaklega eftir vinkonum mannsins sem sleginn var.
Gísli Þorsteinsson, lögreglufulltrúi, sem tók skýrslu af B 3. og 9. maí sl., hefur komið fyrir dóm. Hann segir það ekki rétt að B hafi verið gefnar einhverjar forsendur að ganga út frá í skýrslugjöfinni. Sé skýrslan gerð eftir frásögn hans.
E hefur skýrt frá því að hann hafi verið á Hverfisbarnum í umrætt sinn, að hann heldur. Segir hann að menn hafi verið þar „mjög fullir og vitlausir“. Segist hann hafa hitt ákærða fyrir utan staðinn seint, um klukkan 3 eða 4. Hann segir margt fólk hafa þarna en hann kveðst ekki hafa orðið var við átök milli manna. Þeir ákærði hafi spjallað eitthvað saman en hann kveðst svo hafa farið með vinum sínum niður í bæ en ákærði hafi ekki orðið samferða. Hann kveðst hafa verið vel kenndur þegar þetta var. Hann kveðst aðspurður hafa hitt ákærða á Sólon seinna um kvöldið, eins og hann orðar það. Hann vill þó ekki útiloka það, aðspurður, að ákærði hafi orðið samferða á Sólon, enda kveðst hann hafa verið í stórum hópi manna, um 15 manna alls.
J dyravörður á Hverfisbarnum í umrætt sinn hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að margt fólk hafi þá verið þar að skemmta sér. Hann kveðst hafa séð ákærða og A vera að rífast í dyrunum og kannaðist vitnið við þá báða í sjón. Hafi A gengið út og ákærði einnig stuttu síðar. Ekki kveðst hann muna til þess að ákærði hafi verið með glas. Þegar vitnið fór út, 2 5 mínútum síðar, hafi A verið alblóðugur í framan og brotið glas legið þar hjá. Hann segist ekki hafa séð ákærða þarna en einhverjir hefðu sagst hafa séð hann henda glasinu, að hann minnir. Hann kveðst því ekki hafa séð nein átök heldur aðeins það sem gerðist eftir þau. Hann kveðst ekki vita til þess að önnur átök en þessi hafi átt sér stað á þessum tíma.
Niðurstaða
Ákærði hefur frá upphafi neitað sök. Fyrir liggur þó að þeim A lenti saman inn á Hverfisbarnum og ákærða og vitnum ber saman um það að þeir hafi átt þar í útistöðum utan dyra eftir að þeim hafði verið vísað út. Ákærði segist hins vegar hafa horfið á braut án þess að til átaka kæmi með þeim. Tvö vitni, sem dómarinn álítur vera trúverðug, þær H og C, hafa eindregið borið það að maðurinn, sem hafði lent í útistöðum við A, hafi kastað glasi í andlit hans fyrir utan Hverfisbarinn. Í myndsakbendingu hjá lögreglu, sem eðlilega var staðið að, bentu þær á mynd af ákærða meðal mynda af níu mönnum. Töldu þær þá mynd líkjast mest manninum sem þetta hefði gert. Sagðist H þó þurfa að sjá tennurnar í manninum til þess að vera viss, en hún hefur sagt þær hafa verið mjög skakkar. Þær hafa séð ákærða við aðalmeðferð málsins og segjast báðar vera vissar um að hann sé þessi maður. Fyrir liggur að ákærði er með áberandi skakkar framtennur. A, sem dómarinn metur einnig trúverðugan, hefur borið það að maðurinn, sem hann hafði lent í útistöðum við inni á kránni, hafi staðið mjög nálægt honum og hafa litið til hliðar en í því hafi maðurinn slegið hann með glasinu eða hent því í hann, þótt hann sæi þetta ekki greinilega. Í myndsakbendingu hjá lögreglu, sem eðlilega var staðið að, benti hann á mynd af ákærða meðal mynda af níu mönnum og sagði hana vera af árásarmanninum. Hann hefur séð ákærða við aðalmeðferð málsins og segir hann vera þann mann. Þá hefur dyravörðurinn D, sem þekkti ákærða og var staddur þarna utandyra, sagst hafa heyrt brothljóð og þá snúið sér við og séð manninn alblóðugan í framan og þrjá eða fjóra menn í kringum hann, en ákærða fyrir framan hann. Dómurinn álítur vitni þetta trúverðugt.
Viðbára ákærða um það að annar maður, B, hafi ráðist á A en ekki hann, hefur verið athuguð. Hefur B verið óstöðugur í frásögn sinni, eins og fram er komið, og auk þess hefur hann sagt að glasið hafi ekki komið í andlit mannsins heldur á hliðina á höfðinu. Loks þykir vera talsverð óvissa um tímasetningu þessa atviks. Þykir dóminum óhætt að slá því föstu að þetta vætti hafi ekki þýðingu í málinu.
Dómurinn telur, þrátt fyrir neitun ákærða, að það sé sannað með vætti vitnanna fjögurra, að hann hafi kastað glasi í andlitið á A og valdið því að hann skarst á efri vör og því að tvær framtennur í honum brotnuðu um þvert. Árás ákærða var hættuleg og telst þetta brot hans varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.
Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður
Ákærði hefur áður ekki gerst sekur um refsilagabrot. Árás hans var fólskuleg og olli umtalsverðu líkamstjóni. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði. Rétt þykir að fresta framkvæmd fjögurra mánaða af refsingunni og ákveða að sá hluti hennar falli niður að liðnum 2 árum frá dómsbirtingu, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Af hálfu A er þess krafist að ákærði verði dæmdur til þess að greiða honum skaðabætur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38, 2001 frá 22. október 2005, að liðnum einum mánuði frá birtingu kröfunnar en með dráttarvöxtum frá þeim tíma til greiðsludags skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga.
Sundurliðast krafan sem hér segir:
1. Miskabætur skv. 26. gr. skaðabótalaga kr. 500.000
2. Þjáningabætur í 12 daga @ kr. 1.070 -- 12.840
3. Tímabundið atvinnutjón -- 162.400
4. Tannlæknakostnaður -- 170.300
5. Útlagður lyfja- og lækniskostnaður skv. reikningum -- 11.997
Samtals kr. 857.537
Bótakröfu þessari þykir vera í hóf stillt og fjárhagstjón A er jafnframt stutt gögnum. Ber að dæma ákærða til þess að greiða honum þessa fjárhæð ásamt almennum vöxtum frá 22. október 2005 til 1. september 2006 en eftir það með dráttarvöxtum til greiðsludags.
Þá er af hálfu A krafist lögmannsþóknunar að fjárhæð kr. 119.520 samkvæmt 4. mgr. 172. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991 svo og frekari þóknunar að mati dómsins vegna meðferðar málsins fyrir dómi. Ber með vísan til þessa lagaákvæðis að dæma ákærða til þess að greiða A alls 170.000 krónur í skaðabætur vegna kostnaðar við það að halda fram kröfunni, ásamt vöxtum eins og að ofan greinir.
Dæma ber ákærða til þess að greiða verjanda sínum, Guðmundi Ólafssyni hrl. 250.000 krónur í málsvarnarlaun, sem dæmast með virðisaukaskatti og 56.815 krónur í annan sakarkostnað.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 6 mánuði. Frestað er því að framkvæma fjóra mánuði af refsingunni og fellur sá hluti hennar niður að liðnum 2 árum frá dómsbirtingu, haldi ákærði almennt skilorð.
Ákærði greiði A 1.027.537 krónur í skaðabætur með almennum vöxtum frá 22. október 2005 til 1. september 2006 en eftir það með dráttarvöxtum til greiðsludags.
Ákærði greiði verjanda sínum, Guðmundi Ólafssyni hrl. 250.000 krónur í málsvarnarlaun og 56.815 krónur í annan sakarkostnað.