Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-67
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Endurupptaka
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 22. maí 2023 leitar þrotabú ACE Handling ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að kæra úrskurð Landsréttar 9. maí 2023 í máli nr. 251/2023: Hilmar Ágúst Hilmarsson gegn þrotabúi ACE Handling ehf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Með úrskurði Landsréttar var fallist á beiðni gagnaðila um endurupptöku málsins fyrir héraðsdómi á grundvelli b-liðar 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 en með úrskurði héraðsdóms hafði beiðninni verið hafnað. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að kröfugerð og málatilbúnaðar leyfisbeiðanda hafi verið svo vanreifaður að héraðsdómi hefði verið rétt að vísa máli hans á hendur gagnaðila frá dómi án kröfu.
4. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða hins kærða úrskurðar sé bersýnilega röng. Hann telur ranga þá forsendu í dómi Landsréttar að „aðeins að litlu leyti“ hafi verið útskýrt af hverju greiðslur til gagnaðila hafi falið í sér ólögmætar lánveitingar í skilningi laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Í stefnu hafi verið farið nákvæmlega yfir hverja og eina greiðslu auk þess sem rakið hafi verið að ekkert í bókhaldi ACE Handling ehf. staðfesti að félagið hefði skuldað gagnaðila fé. Þá hafi staða gagnaðila í félaginu verið ágætlega skýrð í stefnu og gögnum málsins sem og grundvöllur kröfunnar.
5. Að virtum gögnum málsins verður talið að á úrskurði Landsréttar kunni að vera þeir ágallar að rétt sé að samþykkja beiðni um kæruleyfi á grundvelli 3. málsliðar 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni um kæruleyfi er samþykkt.