Hæstiréttur íslands
Mál nr. 523/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Kæra
- Frávísun frá Hæstarétti
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. júlí 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júlí 2016, þar sem sóknaraðila var gert að eyða afritum af rafrænum gögnum sem talin eru upp í skjali sem skipaður verjandi varnaraðila sendi sóknaraðila 10. maí 2016 og haldlögð voru við húsleit á skrifstofu varnaraðila 29. febrúar sama ár. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Í 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 er mælt fyrir um að í skriflegri kæru til Hæstaréttar eigi að greina hvaða úrskurður sé kærður, kröfu um breytingu á honum og ástæður sem kæra er reist á. Í kæru sóknaraðila er í engu vikið að þeim ástæðum sem kæran er reist á, heldur segir aðeins að um rök fyrir kröfu sinni vísi sóknaraðili til greinargerðar sem send verði Hæstarétti. Samkvæmt þessu eru slíkir annmarkar á kærunni að vísa verður málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15 júlí 2016
Mál þetta hófst með því að dómnum barst bréf frá sóknaraðila 9. júní 2016. Málið var tekið til úrskurðar 1. júlí 2016 að loknum munnlegum málflutningi.
Sóknaraðili er X, [...], [...] Reykjavík, en varnaraðili er héraðssaksóknari, Skúlagötu 17, 101 Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að felld verði úr gildi synjun héraðssaksóknara 24. maí 2016 við því að eyða afritum af rafrænum gögnum sem talin eru upp í yfirlitsskjali sem skipaður verjandi sóknaraðila sendi héraðssaksóknara 10. maí 2016 og haldlögð voru við húsleit á skrifstofu sóknaraðila 29. febrúar 2016, og að héraðssaksóknari verði skyldaður til að eyða þessum gögnum.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað, og enn fremur að hafnað verði kröfu sóknaraðila um að héraðssaksóknari verði skyldaður til að eyða öllum afritum af nefndum gögnum.
I.
Héraðssaksóknari hefur til rannsóknar mál sem barst peningaþvættisskrifstofu embættisins 24. febrúar 2016 á grundvelli 17. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 64/2006. Ætlað brot er talið varða við 155. gr., 248. og 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Sóknaraðili sem starfar sem héraðsdómslögmaður var skipaður verjandi eins þriggja grunaðra í málinu 26. febrúar. Þegar hann mætti 29. febrúar til skýrslutöku hjá lögreglu með skjólstæðingi sínum, var honum tilkynnt að hann væri sjálfur handtekinn og hefði réttarstöðu sakbornings í málinu.
Í kjölfarið lagði varnaraðili fram beiðnir um húsleitir á skrifstofu og heimili sóknaraðila og var fallist á þær með úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur sama dag í málunum nr. R-[...] og R-[...]/2016. Engar sérstakar takmarkanir voru á húsleitarheimildunum, nema að þær voru bundnar við muni og gögn sem kynnu að hafa sönnunargildi í því máli sem til rannsóknar er.
Gerð var haldlagningarskýrsla um það sem lagt var hald á. Sóknaraðili kveður engan óháðan eftirlitsmann hafa verið viðstaddan húsleitina, en þó var viðstödd, að ósk sóknaraðila, [...] héraðsdómslögmaður. Bókað var í húsleitarskýrslu að lögmaðurinn og sóknaraðili hafi bæði verið samvinnufús og ekki gert athugasemdir við framkvæmd leitarinnar.
Allar tölvur sóknaraðila voru speglaðar að öllu leyti og hald lagt á möppur.
Að kvöldi 29. febrúar 2016, eftir að húsleitir höfðu farið fram, var tekin skýrsla af sóknaraðila. Að sögn, vegna trúnaðarskyldu sinnar gagnvart skjólstæðingi sínum, öðrum sakborningi í málinu, tjáði sóknaraðili sig ekki um samskipti sín við hann. Var því tekin skýrsla af honum fyrir dómi daginn eftir, 1. mars 2016. Í kjölfar þess var sóknaraðili að kröfu varnaraðila, hnepptur í gæsluvarðhald með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur sama dag í málinu nr. R-[...]/2016, til 4. mars 2016. Sóknaraðila var sleppt úr haldi 3. mars 2016.
Sóknaraðili hefur lýst sig alfarið saklausan í málinu og telur kröfu um gæsluvarðhald yfir honum haldlausa með öllu og rökstuðning þar fyrir því að hann skuli sæta gæsluvarðhaldi í engu samræmi við gögn málsins og framburð annarra sakborninga í málinu.
II.
Sóknaraðili kveðst telja húsleit þá sem fram fór á skrifstofu hans 29. febrúar sl., úrskurð þann sem lá henni til grundvallar, og framkvæmd húsleitarinnar ekki standast 70. og 71. gr. stjórnarskrár, sbr. 6. og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.
Fyrir liggi að leit á lögmannsstofunni m.a. í skjalasafni sóknaraðila og haldlagning þar á gögnum, hlutrænum sem rafrænum, teljist skerðing á þeim réttindum sem mælt sé fyrir um í 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár, sbr. 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, um friðhelgi einkalífs, fjölskyldu, heimilis og bréfaskipta. Þá verði ekki talið að skerðingin eigi sér næga stoð í lögum og geti ekki talist hafa verið nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi. Til stuðnings þessu vísar sóknaraðili á dóma mannréttindadómstóls Evrópu í málum Niemietz gegn Þýskalandi 16. desember 1992, Sallinen o.fl. gegn Finnlandi, 27. september 2005 og Tamosius gegn Bretlandi 19. september 2002.
Sóknaraðili telur þannig í samræmi við sjónarmið úr þessum dómum, að úrskurðurinn hafi verið allt of víðtækur og hann hafi átt að takmarka. Einnig hafi þess ekki verið gætt að tryggja að ekki yrði brotið gegn trúnaði lögmanns gagnvart skjólstæðingum hans við leit á skrifstofu hans. Þá telur sóknaraðili að skortur sé á reglum í íslenskum lögum um það hvernig standa skuli að aðgerðum sem þessum til þess að varðveita trúnaðarupplýsingar um samskipti lögmanns og skjólstæðinga hans. Veikt og óljóst lagaákvæði þar að lútandi sé að finna í 2. málslið 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008. Þar sé hins vegar í engu vikið að því hvernig húsleit við þær aðstæður sem koma til skoðunar í ákvæðinu skuli fara fram og hvernig tryggja skuli réttindi lögmanns, sem er sakborningur í máli, og skjólstæðinga hans sem ekki eiga hlut að því máli, við þær aðstæður. Loks hafi það áhrif við matið ef lagt er hald á rafræn gögn í vörslum lögmannsins enda þótt gögnin hafi að geyma trúnaðarupplýsingar um skjólstæðinga lögmannsins sem ekki tengjast rannsókn á neinn hátt.
Þá var með framanröktu einnig brotið gegn 70. gr. stjórnarskrár, sbr. 6. gr. mannréttindasáttamála Evrópu, þar sem skertur hafi verið sá trúnaður sem sóknaraðila hafi verið sýndur sem sérfræðingi. Slíkt geti haft þær afleiðingar að erfiðara reynist að halda á viðhlítandi hátt uppi lögum og rétti og vernda þannig þau réttindi sem tryggð eru í 70. gr. stjórnarskrár og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá hafi aðgerðin haft í för með sér neikvæð áhrif á starfsheiður kæranda sem lögmanns, og þjóns réttarríkisins, jafnt í augum viðskiptavina sem almennings.
Sóknaraðili kveðst hafna viðbárum héraðssaksóknara í synjun sinni 24. maí 2016 er lúti að því að meðhöndlun gagnanna í formi eyðingar geti kallað á að sönnunargögn spillist og að gætt hafi verið meðalhófs með speglum tölvanna í stað haldlagningar. Þessi sjónarmið breyti í engu lagalegum og stjórnarskrárvörðum kjarna málsins um að húsleitin sjálf, úrskurður um hana og framkvæmd hennar standist ekki.
III.
Varnaraðili kveðst fallast á að haldlagning sé skerðing á þeim réttindum sem mælt sé fyrir um í 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar sbr. 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs, fjölskyldu, heimilis og bréfaskrifta og að ákvæðin taki einnig til vinnustaðar leitarþola.
Varnaraðili bendi á að þar sem húsleitirnar fóru fram á grundvelli úrskurða Héraðsdóms Reykjavíkur geti þær ekki farið í bága við 71. gr. stjórnarskrárinnar. Jafnframt hafi framkvæmd þeirra verið í hvívetna vönduð og þess gætt að raska sem minnst starfsemi sóknaraðila. Þá hafi verið reynt að hraða leit eins og kostur var, m.a. með speglun á tölvubúnaði.
Varnaraðili kveður leitarheimildir hafa afmarkast við leit á munum sem tengdust rannsókn málsins og gögn sem gæfu til kynna tengsl sóknaraðila við aðra sakborninga málsins. Sóknaraðili hafi jafnframt verið viðstaddur leitina ásamt lögmanni sem, við skýrslutöku eftir leit, var skipaður verjandi hans.
Varnaraðili bendir á að samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 450/2002, verði ekki úrskurðað um lögmæti húsleitar sem þegar hefur farið fram enda sé gert ráð fyrir öðrum úrræðum til að fá skorið úr um lögmæti húsleitar, eftir atvikum í sakamáli eða höfðun einkamáls til heimtu skaðabóta.
Varnaraðili kveðst telja að þegar metið sé hvort ástæða sé til að haldlagning haldi eða ekki, verði horft til þeirra skilyrða er fram komi í 1. mgr. 68. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, og í þessu máli verði einvörðungu litið til þess hvort hér sé fullnægt því skilyrði að haldlögð gögn geti haft sönnunargildi í sakamáli. Varnaraðili telur ekki hægt að útiloka að það eigi við um hin haldlögðu gögn en frekari rannsóknar sé þörf á því. Þar til slíkri rannsókn sé lokið sé hvorki unnt að fullyrða né útiloka að gögnin hafi sönnunargildi í hugsanlegu sakamáli út af ætluðum brotum í málinu.
Varnaraðili telur að meðalhófs hafi verið gætt, með því að í stað þess að framkvæma leit á staðnum, með tilheyrandi innsiglun á skrifstofunni, hafi verið tekið afrit af tölvum sóknaraðila og þess því gætt að valda sem minnstri röskun á starfsemi leitarþola. Spegilafrit sem tekið hafi verið af tölvum sóknaraðila sé í ritvörðu formi sem feli í sér að ekki sé hægt að breyta því líkt og farið sé fram á með eyðingu einstakra skjala og mappa. Sé því ekki unnt að eyða hluta hins speglaða afrits. Öll meðhöndlun þessara gagna í formi eyðingar geti kallað á að sönnunargögn spillist eða að talið verði að átt hafi verið við þau.
IV.
Heimild rannsakenda til að leggja hald á muni er að finna í 68. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008 þar sem segir að leggja skuli hald á muni, þar á meðal skjöl, ef ætla megi að þeir, ellegar hlutir eða upplýsingar sem þeir hafa að geyma, hafi sönnunargildi í sakamáli, að þeirra hafi verið aflað á refsiverðan hátt eða að þeir kunni að vera gerðir upptækir. Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. er lögreglu heimilt að leggja hald á muni án dómsúrskurðar nema ákvæði 2. mgr. greinarinnar eigi við. Í 72. gr. laganna segir að aflétta skuli haldi þegar þess sé ekki lengur þörf og í síðasta lagi þegar máli er endanlega lokið nema ákvæði a- til c-liðar 1. mgr. greinarinnar eigi við.
Samkvæmt 3. mgr. 69. gr., sbr. 2. mgr. 102. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, getur eigandi eða vörsluhafi munar, sem lögregla hefur lagt hald á, borið lögmæti haldlagningar undir dómara. Ekki verður fallist á það að niðurstaða Hæstaréttar í málinu nr. 450/2002 girði fyrir að sóknaraðili geri þá kröfu sem hann gerir í máli þessu, sem er í eðli sínu krafa um að haldi verði aflétt, eins og varnaraðili raunar túlkar kröfugerðina, sem hann og hefur ekki gert athugasemdir við.
Þegar dómstólar hafa fjallað um sambærileg mál er jafnan áréttað, ef um slíkt ræðir, að dráttur á rannsókn máls, sérstaklega ef hann er umtalsverður, brjóti gegn réttindum þess er fyrir verður, sem varin eru af 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, samanber lög nr. 62/1994. Einnig má draga þá ályktun að slíkur dráttur geti leitt til þess að haldi verði aflétt, burtséð frá því hvort haldlögð gögn eða munir, geti hugsanlega haft sönnunargildi í máli því sem til rannsóknar er, ef rannsókn er ekki lokið. Því verður litið svo á að brot á málshraðareglu geti leitt eitt og sér til þess að aflétta beri haldi, sbr. sjónarmið í dómum Hæstaréttar í málunum nr. 682, 683 og 685/2011. Það eru því ekki einhlít rök að það að rannsókn sé ekki lokið komi í veg fyrir að haldi sé aflétt, eins og varnaraðili virðist byggja á. Hitt er einnig grundvallaratriði að á rannsakanda hvílir sú skylda að hann verður að gera það sennilegt að haldlagning hafi verið nauðsynleg hvort sem það er í tiltekinn tíma eða í öndverðu, samanber ákvæði 72. gr. laga nr. 88/2008 um að það beri að aflétta haldi þegar þess er ekki lengur þörf, enda sé hér um að ræða íþyngjandi þvingunarúrræði sem skerða alla jafna mjög réttindi þess er fyrir verður.
Varnaraðili fullyrðir að leitarheimildirnar hafi afmarkast við leit af munum sem tengdust málinu og hafi leitin beinst að því að haldleggja gögn sem gætu veitt upplýsingar um samskipti sóknaraðila við aðra sakborninga. Það breytir því ekki að dómsúrskurðir þeir sem til grundvallar lágu voru afar víðtækir líkt og tíðkanlegt er, burtséð frá réttmæti þess í hverju tilviki, og fólu í sér að engin þau gögn sem sóknaraðili hafði í sínum vörslum voru undanþegin og engar hirslur, læstar eða ólæstar, sem sóknaraðili hafði yfir að ráða á heimili sínu og skrifstofu voru undanþegnar leit. Jafnframt beindist a.m.k. önnur heimildin, án nokkurs vafa, að persónulegum upplýsingum um skjólstæðinga sóknaraðila.
Sóknaraðili hefur lagt fram lista yfir þau gögn, sem afrituð voru úr tölvum hans, og sem hann krefst að verði eytt. Um er að ræða alls 2058 möppur auk skjala sem undir þeim eru vistuð. Þar kennir ýmissa grasa eins og gefur að skilja. Svo dæmi séu tekin, bera möppurnar heiti eins og, einelti á vinnustað, kannabisræktun, forræðismál, hótanir, Stígamót, og gjarnan eru síðan nöfn viðkomandi skjólstæðinga tilgreind við heitið, ef mappan ber ekki sjálf nafn viðkomandi skjólstæðings. Við lauslega yfirferð á þessum listum verður í fljótu bragði ekki séð að neitt þeirra geti skírskotað til þess sakarefnis sem til rannsóknar er hjá varnaraðila og varð tilefni haldlagningar þessara gagna.
Dómurinn lítur svo á, sbr. framangreint, að sönnunarbyrði hvíli á varnaraðila fyrir því að gera það a.m.k. sennilegt að haldlögð gögn geti haft sönnunargildi í málinu. Þá byrði hefur hann ekki axlað í málinu heldur virðist einungis byggt á því að tengsl sóknaraðila við einn sakborninga í málinu, réttlæti þær viðurhlutamiklu aðgerðir sem varnaraðili réðst í gagnvart sóknaraðila. Varnaraðili hefur aukinheldur ekki gert að umfjöllunarefni í málatilbúnaði sínum fullyrðingar lögmanns sóknaraðila um að sé ekkert í rannsóknargögnum málsins og framburði annarra sakborninga sem geti réttlætt umrædda haldlagningu og raunar ekkert sem hægt sé að segja að bendli sóknaraðila við málið. Þess í stað er einungis sagt, að það eigi eftir að sannreyna hvort eitthvað geti verið í þessum gögnum sem tengi aðila saman, með saknæmum hætti. Fulltrúi varnaraðila gat við munnlegan málflutning, ekkert sagt til um það hvenær slíkri skoðun myndi ljúka.
Fyrsta málsgrein 22. gr. laga nr. 77/1998, um lögmenn, geymir meginregluna um þagnarskyldu þeirra en þar segir: „Lögmaður ber þagnarskyldu um hvaðeina sem honum er trúað fyrir í starfi sínu. Starfsmaður lögmanns er einnig bundinn þagnarskyldu um slík trúnaðarmál sem hann kann að komast að vegna starfa sinna.“ Þessi skylda er ríkur þáttur í þeirri trúnaðarskyldu sem lögmenn hafa gagnvart skjólstæðingum sínum. Þessi skylda er einn af mikilvægustu þáttum réttarríkisins og horfir til réttaröryggis borgaranna. Hún skírskotar þannig ekki einungis til hagsmuna skjólstæðings lögmanns heldur jafnframt til almannahagsmuna.
Ljóst má vera að hin haldlögðu gögn hafa að geyma trúnaðarupplýsingar skjólstæðings til lögmanns síns um einkahagi sína, samanber þá aðstöðu sem lýst er í 2. mgr. 119. gr., sbr. síðari málslið 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Það á raunar einnig við um hugsanlegar upplýsingar er varða málið sjálft sem um ræðir, þ.e. ef þær skyldi vera að finna í einhverjum þessara gagna.
Það er viðurkennt að horft verði til dóma mannréttindadómstóls Evrópu þegar skýrð eru mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar sem eiga sér hliðstæðu í mannréttindasáttamála Evrópu. Hið sama gildir um almenn lagaákvæði eins og 2. málslið 1. mgr. 68. gr., samanber b-lið 2. mgr. 119. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Samkvæmt dómi í málinu nr. 13710/88, frá 16. desember 1992: Niemietz gegn Þýskalandi, var út frá 2. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmálans, sem á sér hliðstæðu í 71. gr. stjórnarskrárinnar, orðuð af dómstólnum sú meginregla að til að leit væri heimil á lögmannsstofu, yrði það skilyrði að vera uppfyllt að nauðsyn krefðist þess að þvílík skerðing, eins og sú sem í ótakmarkaðri húsleitarheimild fælist, færi fram á réttindum lögmanns og skjólstæðings hans í lýðræðislegu þjóðfélagi.
Um strangar kröfur í þessum efnum má og tiltaka málið nr. 50882/99 frá 27. september 2005, Sallinen o.fl. gegn Finnlandi, þar sem lögmaðurinn sem í hlut átti var sjálfur sakaður um alvarlegan glæp, en í dómnum var það skilyrði sett að lög sem heimila húsleit og haldlagningu þyrftu að vera fyrirsjáanleg og þá skýr. Þar var og lögð áhersla á að hvorki dómari né óháður eftirlitsmaður fylgdist með aðgerðum eftir að heimild var veitt til þeirra.
Í þessum málum er og fundið að því ef húsleitar- og haldlagningarheimildir eru of víðtækar, en einnig lögð áhersla á að strangari kröfur verði gerðar ef rannsókn beinist að einkahagsmunum einstaklinga.
Dómurinn telur að með haldlagningu á þeim gögnum sem um ræðir hafi framangreindum sjónarmiðum um mikilvægi trúnaðarskyldu lögmanna með öllu verið varpað fyrir róða. Jafnframt að haldlagning varnaraðila hafi verið allt of víðtæk. Í svari héraðssaksóknara við kröfu sóknaraðila var skýring þess að ekki var hægt að eyða gögnum einkum tæknilegs eðlis, þ.e. eins og áréttað var við munnlegan málflutning, að ekki sé unnt að eyða hluta hins speglaða afrits. Öll meðhöndlun þessara gagna í formi eyðingar geti kallað á að sönnunargögn spillist eða að talið verði að átt hafi verið við þau. Ekkert annað í málinu, en þessar staðhæfingar fulltrúa varnaraðila, styður í raun þetta.
Burtséð frá því hvort þessi sé raunin eður ei, geta slík tæknileg vandamál ekki, andspænis brýnum mannréttindum, heimilað að gögn sem fyrir fram má næstum örugglega gefa sér að geti aldrei tengst því máli sem verið er að rannsaka, séu haldlögð.
Því er það niðurstaða dómsins að burtséð frá þeim meintu rannsóknarhagsmunum sem varnaraðili byggir hald sitt á, séu aðrir hagsmunir í málinu sem að framan eru raktir mun ríkari og leiði til þess að fallist verður á kröfu sóknaraðila.
Varnaraðili hefur ekki gert ágreining um kröfugerð og að hann verði dæmdur til að eyða þessum gögnum, ef fallist yrði á kröfur sóknaraðila, enda felist í því aflétting á haldi. Ekki var gerð krafa um málskostnað af hálfu aðila.
Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ
Héraðssaksóknara er skylt að eyða afritum af rafrænum gögnum sem talin eru upp í yfirlitsskjali sem skipaður verjandi sóknaraðila sendi héraðssaksóknara 10. maí 2016 og haldlögð voru við húsleit á skrifstofu sóknaraðila 29. febrúar 2016.