Hæstiréttur íslands
Mál nr. 367/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slitameðferð
- Laun
- Réttindaröð
|
|
Miðvikudaginn 6. júní 2012. |
|
Nr. 367/2012.
|
Ingi Rafnar Júlíusson (Viðar Lúðvíksson hrl.) gegn Glitni hf. (Steinunn Hólm Guðbjartsdóttir hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Laun. Réttindaröð
I lýsti kröfu við slit G hf. á grundvelli ráðningarsamnings og bar því við að krafan væri forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Fallist var á kröfulið vegna launaauka, en henni skipað í réttindaröð við slit G hf. sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Á hinn bóginn var hafnað kröfuliðum vegna ógreidds orlofsfjár og rekstrar bifreiðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Ingibjörg Benediktsdóttir og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. maí 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. maí 2012, þar sem viðurkennd var krafa sóknaraðila við slit varnaraðila að fjárhæð 11.608.600 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 9.266.000 krónum frá 1. nóvember 2008 til 1. desember sama ár, en af 11.608.600 krónum frá þeim degi til 22. apríl 2009, og henni skipað í réttindaröð sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að við slitin verði viðurkennd krafa hans að fjárhæð 20.332.090 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. nóvember 2008 til 22. apríl 2009, og henni aðallega skipað í réttindaröð sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, en til vara sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. sömu laga. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 23. maí 2012 og krefst þess að lýstri kröfu sóknaraðila verði að öllu leyti hafnað og honum gert að greiða málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Fyrir héraðsdómi krafðist sóknaraðili þess að við slit varnaraðila yrði viðurkennd krafa sín að fjárhæð samtals 63.481.914 krónur og henni aðallega skipað í réttindaröð sem forgangskröfu, en til vara sem almennri kröfu. Kröfu þessa sundurliðaði sóknaraðili þannig að ógreiddur launaauki næmi 16.573.400 krónum, iðgjöld til lífeyrissjóðs 3.176.213 krónum, framlög í séreignasjóð 4.764.320 krónum, orlofsfé 668.670 krónum, kostnaður vegna vátrygginga 720.000 krónum, kostnaður vegna síma 2.520.000 krónum, krafa vegna rekstrar bifreiðar 8.054.820 krónum og krafa vegna skólagjalda ásamt launum í námsleyfi 24.400.000 krónum, en við þetta bættust dráttarvextir til 22. apríl 2009 að fjárhæð 2.604.491 króna. Í hinum kærða úrskurði var eingöngu tekin til greina krafa sóknaraðila vegna launaauka, fjárhæð hennar ákveðin 11.608.600 krónur og henni skipað í réttindaröð sem almennri kröfu. Fyrir Hæstarétti unir sóknaraðili við niðurstöðu héraðsdóms um fjárhæð þessa liðar í kröfu sinni, en krefst þess að til viðbótar verði viðurkenndir fyrrnefndir kröfuliðir vegna ógreidds orlofsfjár og rekstrar bifreiðar og nemi krafa hans þá samtals 20.332.090 krónum, sem verði talin forgangskrafa.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar um þau atriði, sem ágreiningur stendur samkvæmt framansögðu um fyrir Hæstarétti, verður niðurstaða hans staðfest.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Ingi Rafnar Júlíusson, greiði varnaraðila, Glitni hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. maí 2012.
Mál þetta er ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila og var beint til dómsins með bréfi varnaraðila 23. ágúst 2010, sem móttekið var 26. sama mánaðar. Vísaði varnaraðili um lagagrundvöll til 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málið var þingfest 1. október 2010 og tekið til úrskurðar 11. apríl 2012.
Sóknaraðili er Ingi Rafnar Júlíusson, Laugarásvegi 62, Reykjavík, en varnaraðili er Glitnir hf., Sóltúni 26, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að krafa hans að fjárhæð 63.481.914 krónur verði viðurkennd við slitameðferð varnaraðila. Krefst hann þess aðallega að kröfunni verði skipað í réttindaröð sem forgangskröfu skv. 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. en til vara sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. sömu laga, í báðum tilvikum sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þá krefst hann málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að staðfest verði sú afstaða slitastjórnar hans að hafna kröfu sóknaraðila, en til vara að krafan verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar.
I
Sóknaraðili máls þessa var starfsmaður varnaraðila við fall bankans í októbermánuði 2008. Í málinu liggur fyrir upphaflegur ráðningarsamningur milli aðila, sem samkvæmt efni sínu er ótímabundinn og gildir frá 1. júní 2000. Samningurinn er undirritaður og dagsettur 14. ágúst sama ár. Kemur fram í samningnum að sóknaraðili sé ráðinn á svið markaðsviðskipta (Verðbréfa) hjá varnaraðila. Gagnkvæmur uppsagnarfrestur er þrír mánuðir. Um laun er sagt að þau nemi 250.000 krónum á mánuði eða sem samsvari 3.000.000 króna á ári, en inn í launatöluna hafi verið felldar nánar greindar samningsbundnar aukagreiðslur. Tekið er fram að ekki sé greitt sérstaklega fyrir unna yfirvinnu. Launin skyldu greidd fyrirfram 1. dag hvers mánaðar. Þá er kveðið á um greiðslu í lífeyrissjóð en tekið fram að eftir þriggja ára starf greiði bankinn 7% af mánaðarlaunum til viðbótar í séreignarsjóð að vali starfsmanns. Mælt er fyrir um 24 daga orlofsrétt og að um tryggingar fari eftir ákvæðum kjarasamnings Sambands íslenskra bankamanna, en helstu atriði eru tilgreind í ráðningarsamningnum. Kemur þar meðal annars fram að nánar tilgreind vátrygging starfsmanns taki gildi um leið og hann hefji störf en falli úr gildi um leið og hann hætti störfum. Þá er í ráðningarsamningi kveðið á um að starfsmaður skuli eiga kost á endurmenntun í samræmi við reglur um námsstuðning við starfsmenn. Ekki þykir ástæða til að tæpa á fleiri ákvæðum ráðningarsamningsins, en ekki er þar getið sérstakra hlunninda.
Skrifleg breyting var gerð á ráðningarsamningi 14. mars 2001 þar sem mælt var fyrir um að grunnlaun skyldu vera 191.185 krónur á mánuði eða 2.294.220 krónur á ársgrundvelli og að auki skuli starfsmaður njóta mánaðarlegra „sérgreiðslna“ að fjárhæð 62.000 krónur eða samtals 744.000 krónur á ári. Þá er mælt fyrir um 40.000 króna markmiðsbónus á mánuði. Mælt er fyrir um að breytingin taki gildi frá 1. janúar 2001 og sérstaklega tekið fram að aðrir þættir samningsins breytist ekki.
Í málinu liggur fyrir samningur sóknaraðila, sem starfsmanns Markaðsviðskipta varnaraðila við varnaraðila. Samningurinn er dagsettur 4. október 2001 en öðlaðist gildi 1. júlí það ár og tekur til greiðslna sem starfsmaður fær umfram föst grunnlaun sín. Kemur fram að starfsmaður fái greitt tiltekið hlutfall af skilgreindum tekjustofnum gjaldeyrismiðlunar (FX hluta) og verðbréfamiðlunar (VBR hluta) en þetta munu hafa verið tveir þættir í starfsemi markaðsviðskiptasviðs varnaraðila þar sem sóknaraðili var starfsmaður. Er grundvöllur til útreiknings hvors hluta fyrir sig skilgreindur nokkuð ítarlega í samningnum en ekki þykir ástæða til að rekja þær skilgreiningar hér. Er loks skilgreint að launaaukahlutfall sóknaraðila af FX, samkvæmt nefndri skilgreiningu skuli vera 0,03%, en af VBR 0,25%. Í samningnum er kveðið á um að launaauki sé greiddur mánaðarlega eftirá með þeim hætti að t.d. launaauki vegna september sé greiddur 1. nóvember og fyrir október sé greitt 1. desember o.s.frv.
Samkvæmt gögnum málsins hækkuðu grunnlaun sóknaraðila, sem og fyrrnefndar hlutfallstölur í tvígang árið 2003 þannig að í lok ársins voru grunnlaun hans 400.000 krónur, FX hlutfall 0,18% og VBM hlutfall 0,35%.
Þá var gerð breyting á ráðningarsamningi á árinu 2004, sem gilda skildi frá 1. júlí það ár. Er þar mælt fyrir um grunnlaun og sérgreiðslu, en heildarkjör sögð 475.000 krónur á mánuði eða 5.700.000 krónur á ári. Þá er svofellt ákvæði: „Bónushlutur í hlutfalli af FMX skal ver 0,20% og af VBM 0,40%.“
Ekki liggja fyrir í málinu upplýsingar um það hvort umrætt hlutfall hafi hækkað frá því viðauki frá 1. júlí 2004 tók gildi, en af gögnum má ráða að föst laun hafi tekið hækkunum frá þeim tíma þó ekki liggi fyrir hvenær það hafi nákvæmlega gerst, en sjá má að föst mánaðarlaun sóknaraðila voru 559.019 krónur áður en samningur aðila frá 3. mars 2008 tók gildi sem rakinn verður nánar hér síðar. Sá samningur haggaði hins vegar ekki þeim launaaukasamningi sem lýst er hér að framan og verður ekki annað séð en að hann hafi enn verið í gildi þegar sóknaraðili lét af störfum fyrir varnaraðila. Fyrir liggur í málinu ódagsett skjal sem stafar frá Borghildi Kr. Magnúsdóttur í launadeild varnaraðila sem ber yfirskriftina „Ógreitt uppgjör vegna bónus Markaðsviðskipta“ og varðar sóknaraðila. Kemur þar fram að bónushlutur sóknaraðila í október vegna ágústmánaðar sé 4.964.800 krónur, í nóvember vegna september 9.266.000 krónur og í desember vegna október 2.342.600 krónur, eða samtals 16.573.400 krónur, en þessi fjárhæð samsvarar kröfu sóknaraðila um greiðslu launaauka vegna nefndra mánaða árið 2008. Borghildur kom fyrir dóminn og staðfesti í skýrslu sinni að hún hefði útbúið skjöl eins og að framan er lýst m.a. vegna sóknaraðila og kannaðist hún við form skjalsins og framsetningu þó hún gæti ekki staðfest þær tölur sem þar kæmu fram. Ragnar Torfi Geirsson fyrrum forstöðumaður launasviðs varnaraðila kom fyrir dóminn og kvað umræddar tölur vera í samræmi við upplýsingar sem hann hefði úr launadeild varnaraðila. Kom fram í skýrslum beggja þessara vitna að launadeildinni hafi verið sendar tölur sem sýna hafi átt grundvöll bónusgreiðslu og síðan hafi hlutfall hvers starfsmanns af þeirri heildartölu verið reiknað í samræmi við samning hvers fyrir sig.
Sóknaraðili hefur lagt fram skýrslu sem ber heitið „Viðbótargögn vegna kröfulýsingar í Glitni banka hf.“ og ber undirtitilinn „Vegna launakrafna starfsmanna Markaðsviðskipta á hendur Glitni banka hf.“. Skýrslan er dagsett 16. desember 2009. Kemur fram í formála að um sé að ræða frekari gögn vegna kröfu starfsmanna vegna vangoldinna launa fyrir september og október 2008 og eru gögnin sögð eiga við alla starfsmenn sem tilheyrt hafi Markaðsviðskiptum og fengið hafi hlutdeild í tekjum Markaðsviðskipta skv. samningum. Þá kemur fram að skýrslan sé samantekt gagna sem unnin hafi verið reglulega vegna tekjumælinga Markaðsviðskipta Glitnis banka hf. ásamt skýrslum sem unnar hafi verið í tengslum við skoðun slitastjórnar á tilurð tekna sem liggi til grundvallar útreikningi á launagreiðslum. Í skýrslunni er gerð sundurliðuð grein fyrir þeim tekjum sem mynduðu grunn til mánaðarlegra útreikninga kaupaukagreiðslna frá byrjun árs 2007 til loka októbermánaðar 2008. Þá fylgir fyrrnefndri skýrslu í viðauka skýrsla um tekjumælingar Markaðsviðskipta Glitnis en þar er útskýrt og skilgreint hvernig þær mælingar fóru nánar fram og hver viðmið var stuðst við. Ekki þykir ástæða til að rekja umrædd gögn nánar.
Eins og fyrr var tæpt á gerðu málsaðilar með sér nýjan ráðningarsamning 3. mars 2008 sem gilda skildi frá 1. þess mánaðar. Samkvæmt samningnum var starfsheiti sóknaraðila forstöðumaður hjá „Capital Markets Iceland“ og starfsheiti næsta yfirmanns sagt vera framkvæmdastjóri. Ekki liggur annað fyrir en að þetta sé hið enska heiti á Markaðsviðskiptadeild varnaraðila. Tekið er fram í samningnum að hann sé gerður til að endurnýja áður gerða ráðningarsamninga milli aðila og til staðfestingar á umsömdum ráðningarkjörum. Áður gerðir ráðningarsamningar falli úr gildi við undirritun hans utan bónussamningur eins og nánar er lýst hér síðar.
Í ráðningarsamningnum er vísað til þess að starfsmaður sé félagsmaður í Sambandi íslenskra bankamanna og er kjarasamningur þess félags til fyllingar ákvæðum samningsins. Uppsagnarfrestur samningsins er sagður 18 mánuðir. Skuli uppsögn vera skrifleg og miðast við mánaðarmót.
Í kafla samningsins sem ber yfirskriftina „Laun og önnur hlunnindi“ kemur fram að föst laun skuli vera 1.700.000 krónur á mánuði, sem svari til 20.400.000 króna á ári og séu þau greidd mánaðarlega fyrirfram. Þá kemur fram að stefnt sé að því að gera viðbótarsamning um árangurstengingu starfsmanns en fram að því sé núgildandi bónussamningur í gildi. Miðað við það sem fyrir liggur í gögnum málsins verður að skilja það svo að hér sé vísað í samning aðila frá 4. október 2001 sem gerð er grein fyrir hér fyrr með þeim breytingum og viðbótum sem sá samningur hefur sætt og einnig er fjallað um hér að framan.
Í ráðningarsamningunum segir svo:
„4.4. Starfsmaður fær afhentan GSM síma í eigu bankans. Skal notkun greidd af bankanum samkvæmt reikningi. Ef starfsmanni er sagt upp störfum þá heldur hann þessum réttindum í 18 mánuði eftir að uppsagnarfresti lýkur.
4.5. Starfsmaður hefur rétt til fullra ótakmarkaðra afnota af bifreið sem bankinn útvegar honum að verðmæti allt að 8 milljónir. Ef starfsmanni er sagt upp störfum þá heldur hann þessum réttindum í 18 mánuði eftir að uppsagnarfresti lýkur.
[ ]
4.7. Ef starfsmaður kýs að fara í framhaldsnám þá skal bankinn greiða skólagjöld allt að 4 milljónum auk þess sem starfsmaður skal eiga þess kost að halda 50% af föstum launum sínum á meðan á námi stendur. Ef starfsmanni er sagt upp þá heldur hann þessum réttindum í 18 mánuði eftir að uppsagnarfresti lýkur.“
Kveðið er á um að greiðslur í lífeyrissjóð skuli vera í samræmi við kjarasamninga og því sé framlag bankans 6% af launum en starfsmaður greiði 4%. Þá er kveðið á um að þar sem starfsaldur sóknaraðila sé meiri en þrjú ár greiði bankinn að auki 7% framlag í séreignasjóð. Um orlof gildi ákvæði kjarasamninga en fjöldi orlofsdaga við ráðningu sé 30. Þá er kveðið á um að um tryggingar starfsmanna fari eftir ákvæðum kjarasamnings.
Fyrir liggur að samkvæmt heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., tók Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í varnaraðila, vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd.
Skilanefnd varnaraðila sagði sóknaraðila upp störfum með uppsagnarbréfi 24. október 2008 frá og með þeim degi með vísan til þess að rekstur bankans hefði stöðvast. Uppsagnarfrestur er í bréfinu sagður samkvæmt kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja og taki hann gildi frá næstu mánaðarmótum. Ekki var krafist vinnuframlags af hálfu sóknaraðila á uppsagnarfresti. Þá var vísað til þess að vegna tilboðs Nýja Glitnis banka hf. til sóknaraðila um starf sé ekki gert ráð fyrir greiðslum til hans á uppsagnarfresti. Tekið var fram að bærist krafa frá sóknaraðila um greiðslu frá varnaraðila vegna starfslokanna áskildi varnaraðili sér rétt til að taka tillit til þeirra greiðslna sem sóknaraðila hefði þegið frá öðrum launagreiðendum á uppsagnarfresti.
Varnaraðila var 24. nóvember 2008 veitt heimild til greiðslustöðvunar með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur. Með lögum nr. 44/2009, sem breytti nokkrum ákvæðum laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, var varnaraðili tekinn til slita og skyldi upphaf þeirra miðast við 22. apríl 2009 þegar lögin öðluðust gildi. Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði 12. maí sama ár slitastjórn sem annast meðal annars meðferð krafna á hendur bankanum. Hún gaf út innköllun til skuldheimtumanna félagsins 26. maí 2009 og lauk kröfulýsingarfresti 26. nóvember sama ár. Í samræmi við ákvæði 102. gr. laga nr. 161/2002 eins og greininni var breytt með lögum nr. 44/2009 fer að meginstefnu um meðferð krafna á hendur fjármálafyrirtæki sem er til slitameðferðar eftir ákvæðum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Sóknaraðili lýsti þann 26. nóvember 2009 kröfu að fjárhæð 85.136.195 krónur við slitameðferðina og krafðist þess aðallega að krafan nýti stöðu í réttindaröð samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 að því marki sem hún teldist hafa gjaldfallið eftir frestdag en að öðru leyti teldist hún forgangskrafa samkvæmt 1. tl. 112. gr. sömu laga. Til vara krafðist hann þess að öll krafan nyti stöðu í réttindaröð eftir síðarnefnda lagaákvæðinu.
Slitastjórn varnaraðila tilkynnti sóknaraðila með bréfi 4. desember 2009 að samþykktar launagreiðslur hefðu þegar verið inntar af hendi en að hinni lýstu kröfu væri að öðru leyti hafnað. Gefinn var frestur til andmæla sem bæri í síðasta lagi að hafa uppi á skiptafundi sem ákveðinn var 17. desember 2009. Sóknaraðili mótmælti afstöðu slitastjórnar með rafbréfi 8. desember 2009 og á fundinum. Annar fundur var haldinn 24. mars 2010 til lausnar ágreinings m.a. um kröfu sóknaraðila. Kom þar fram að slitastjórn hafnaði kröfunni alfarið. Ekki reyndist unnt að jafna ágreining og ákveðið að sendi kröfuna til úrlausnar héraðsdóms. Eins og fyrr greinir var ágreiningi aðila vísað til dómsins með bréfi varnaraðila 23. ágúst 2010, sem móttekið var 26. sama mánaðar.
Varnaraðili hefur lagt fram skjal með yfirliti yfir launagreiðslur varnaraðila til sóknaraðila á árunum 2007 til 2008, en sóknaraðili hefur ekki borið brigður á réttmæti þess skjals eða upplýsinga sem þar koma fram. Kemur þar m.a. fram að laun sem varnaraðili greiddi sóknaraðila í októbermánuði 2008 hafi numið samtals 6.888.545 krónum. Má ætla að laun þessi hafi verið greidd 1. október 2008 í samræmi við ákvæði ráðningarsamnings um að laun skuli greiða fyrirfram 1. dag mánaðar. Er það í samræmi við staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra vegna umrædds mánaðar sem sóknaraðili hefur lagt fram þar sem kemur fram að varnaraðili hafi greitt sóknaraðila laun alls að fjárhæð 6.890.495 krónur. Sá 1.950 króna munur sem er á þessum fjárhæðum þykir ekki vera slíkt frávik að máli skipti. Umrædd launagreiðsla skiptist í föst laun, að fjárhæð 1.700.000 krónur, bónusgreiðslu að fjárhæð 4.964.800 krónur og greiðslu vegna hlunninda að fjárhæð 223.745 krónur. Síðastnefnd greiðslu mun vera verðmæti bifreiðahlunninda sem sóknaraðili átti rétt á samkvæmt ráðningarsamningi sínum. Varnaraðili hefur og lagt fram í málinu þrjá launaseðla sóknaraðila. Er sá fyrsti dagsettur 18. febrúar 2009 og ber með sér að vera greiðsla á mismuni launa sóknaraðila í nýju starfi hjá Íslandsbanka hf. og umsaminna launa við varnaraðila, að fjárhæð 483.005 krónur fyrir hvern mánuð frá og með nóvember 2008 til og með febrúar 2009. Fram kemur og á sama launaseðli að frá áramótum hafi verið greidd „ígildi bifreiðahlunninda“ að fjárhæð 1.566.215 krónur. Þessi fjárhæð er nákvæmlega sjöföld sú mánaðarlega greiðsla sem aðilar eru sammála um að verðmeta bifreiðahlunnindin sem um ræðir. Þá liggja einnig fyrir launaseðlar vegna greiðslu sömu fjárhæðar vegna mars og aprílmánaðar 2009. Í málinu liggur fyrir tölvupóstur Ragnars Torfa Geirssonar þar sem hann kveður sóknaraðila hafa haft til umráð bifreið á fyrstu tveimur mánuðum uppsagnarfrests, en síðan hafi hann fengið ígildi bifreiðahlunninda greidd sem laun í fjóra mánuði.
Sóknaraðili lagði fram greinargerð sína í þinghaldi 1. desember 2010 og var krafa hans þá um viðurkenningu á greiðslu að fjárhæð 81.881.910 krónur. Var í fyrsta lagi um að ræða greiðslu vegna vangoldinna mánaðarlauna á uppsagnarfresti að fjárhæð tæpar 16 milljónir króna, en sóknaraðili hafði þá dregið frá 14,6 milljónir króna sem hann kvaðst hafa fengið greiddar frá Nýja Glitni banka hf. á uppsagnarfresti. Þá krafðist hann greiðslu orlofs, kostnaðar vegna trygginga, síma, afnota og reksturs bifreiðar og greiðslu skólagjalda. Þá krafðist hann greiðslna í lífeyrissjóð og dráttarvaxta. Einnig gerði hann kröfu um ógreiddan launaauka að fjárhæð 16.573.400 krónur. Í greinargerð sóknaraðila er í engu getið þeirra greiðslna sem varnaraðili kveðst hafa innt af hendi til sóknaraðila og lýst er hér að framan.
Undir rekstri málsins féll sóknaraðili frá kröfu um greiðslu mánaðarlauna að fjárhæð 15.999.996 krónur og stóð þá eftir sú krafa sem hann hefur nú uppi í málinu. Um breytingu á kröfugerð var vísað til þess að í ljós hafi komið að sóknaraðili hafi þegið greiðslur á uppsagnarfresti sem hafi verið umfram þau mánaðarlaun sem hann skyldi njóta samkvæmt samningi við varnaraðila, sbr. staðgreiðsluskrá sem sóknaraðili lagði fram að áskorun varnaraðila.
II
Í greinargerð sinni vísar sóknaraðili um málsatvik og málsástæður til kröfulýsingar sinnar, en þar greinir að krafa sóknaraðila byggi á samningum sóknaraðila og varnaraðila um launakjör sóknaraðila. Samkvæmt ráðningarsamningi aðila 3. mars 2008 hafi umsamin laun verið 1.700.000 krónur á mánuði, auk þess sem sóknaraðili hafi notið launaauka sem verið hafi tiltekið hlutfall af tekjustofnum gjaldeyrismiðlunar og verðbréfamiðlunar. Þá skyldi sóknaraðili fá afhentan GSM síma í eigu varnaraðila, sem varnaraðili skyldi greiða notkun af, hafa ótakmörkuð afnot af bifreið sem varnaraðili myndi útvega honum, auk þess sem hann skyldi njóta frekari réttinda samkvæmt kjarasamningi. Uppsagnarfrestur samkvæmt ráðningarsamningnum hafi verið 18 mánuðir og skyldu síma- og bifreiðahlunnindi haldast í 18 mánuði eftir að uppsagnarfresti lyki.
Sóknaraðila hafi verið sagt upp störfum 24. október 2008. Honum hafi hins vegar verið boðið starf í Nýja Glitni hf., nú Íslandsbanka hf., þar sem laun hans hafi verið 1.216.667 krónur á mánuði. Þrátt fyrir samningsbundinn uppsagnarfrest og almennar reglur vinnuréttar hafi sóknaraðili ekki fengið full laun greidd í uppsagnarfresti, þ.e. mismun þeirra launa sem hann fékk frá Nýja Glitni og þeirra sem hann hefði átt að fá greidd frá varnaraðila skv. ráðningarsamningi frá 3. mars 2008.
Í ráðningarsamningi hafi einnig verið kveðið á um að varnaraðili skyldi greiða skólagjöld sóknaraðila í framhaldsnámi. Hann skyldi eiga þess kost að halda 50% af launum meðan á námi stæði. Þessum réttindum haldi sóknaraðili í 18 mánuði eftir uppsögn.
Sóknaraðili kveður kröfur sínar launakröfur sem njóti forgangsréttar í slitabú varnaraðila, skv. 1. til 4. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.
Sóknaraðila hafi verið sagt upp störfum hjá varnaraðila 24. október 2008 eins og fyrr greini og hann eigi rétt á launum í uppsagnarfresti í 18 mánuði frá næstu mánaðamótum eftir uppsögn úr hendi vinnuveitanda síns, varnaraðila í þessu máli, eins og ráðningarsamningur hans kveði á um. Mælt sé fyrir um forgangsrétt slíkra krafna vegna bóta vegna slita á vinnusamningi í 2. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.
Í fundargerð slitastjórnar varnaraðila 24. mars 2010 komi fram að kröfu sóknaraðila um viðurkenningu launakröfu sinnar sem forgangskröfu hafi verið hafnað. Varnaraðili færi ekki fram röksemdir fyrir afstöðu sinni til kröfu sóknaraðila. Taki það bæði til fjárhæðar kröfunnar og afstöðu varnaraðila til stöðu hennar í réttindaröð. Þess vegna áskilji sóknaraðili sér rétt til að koma að málsástæðum og nýjum gögnum á síðari stigum málsins, gefi málatilbúnaður varnaraðila tilefni til þess.
Kröfum um vinnulaun sé skipað í forgangsröð samkvæmt 1. mgr. 112. gr. gjaldþrotalaga sem sé meginreglan um meðferð launakrafna á hendur þrotabúi. Sóknaraðili hafi verið starfsmaður varnaraðila og hafi heyrt undir framkvæmdastjóra varnaraðila. Krafa hans sé því vinnulaunakrafa og 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 eigi ekki við um sóknaraðila.
Krafa sóknaraðila um að viðurkenndur verði forgangsréttur launakrafna hans sé byggð á ráðningarsamningi sem gerður hafi verið af aðilum þessa máls. Í 4. gr. ráðningarsamningsins komi fram launakjör sóknaraðila. Þannig ætti að vera óumdeilt að það sem tilgreint er í gr. 4 í samningnum teljist til launa og annars endurgjalds fyrir vinnu í þágu varnaraðila og njóti stöðu forgangskröfu á grundvelli 1. til 4. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 eins og nánar verði sundurliðað hér á eftir. Sönnunarbyrði um hið gagnstæða hvíli í öllu falli óskoruð á varnaraðila. Orðið „vinnusamningur“ skv. 2. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 geti ekki átt við um annan samning en ráðningarsamning sóknaraðila frá 3. mars 2008.
Það sé meginregla í vinnurétti að við uppsögn skuli greiða starfsmanni það sem hann eigi rétt á samkvæmt ráðningarsamningi út uppsagnarfrest, hvort sem það eru laun í uppsagnarfresti, uppsafnað orlof, áfallinn kaupauki, notkun farsíma eða notkun bifreiðar.
Sóknaraðila hafi verið sagt upp störfum hjá varnaraðila 24. október 2008. Í uppsagnarbréfi sé vísað til þess að sóknaraðili eigi 6 mánaða uppsagnarfrest en ekki 18 mánaða líkt og ráðningarsamningur og viðauki við hann kveði á um.
Af afstöðu varnaraðila til kröfu sóknaraðila virðist mega ráða að varnaraðili telji sig ekki bundinn af skýrum samningum um greiðslu launa umfram 6 mánuði frá starfslokum sóknaraðila. Ekki sé ljóst á hvaða forsendum þessi afstaða varnaraðila sé byggð. Sóknaraðili vísi til ólögfestrar meginreglu samninga- og kröfuréttar um að samninga beri að halda. Skuldbinding varnaraðila samkvæmt ákvæðum ráðningarsamnings og viðauka við hann sem gildi um starfslok sóknaraðila sé skýr. Ekkert hafi komið fram sem hnekki skýrum ákvæðum þeirra samninga.
Eftir breytingu á kröfugerð sem sóknaraðili gerði í þinghaldi 11. apríl sl. sundurliðar hann kröfu sína með eftirfarandi hætti:
|
1) |
Launaauki. |
kr. |
16.573.400 |
|
2) |
Lífeyrissjóðsgreiðslur 6% af öllum launum í 18 mán. |
kr. |
3.176.213 |
|
3) |
Framl. í séreignasjóð 9% af öllum launum í 18 mán. |
kr. |
4.764.320 |
|
4) |
Ógreitt orlof. |
kr. |
668.670 |
|
5) |
Kostnaður vegna trygginga, kr. 40.000 x 18. |
kr. |
720.000 |
|
6) |
Kostnaður vegna síma, kr. 70.000 x 36. |
kr. |
2.520.000 |
|
7) |
Krafa vegna reksturs bifreiðar, kr. 223.745 x 36. |
kr. |
8.054.820 |
|
8) |
Dráttarvextir frá 1. nóvember 2008 til 22. apríl 2009. |
kr. |
2.604.491 |
|
9) |
Skólagjöld skv. ráðningarsamningi ásamt 50% af föstum launum í tvö ár. |
kr. |
24.400.000 |
|
|
Samtals |
kr. |
63.481.914 |
Nánari rökstuðning að baki einstökum töluliðum kröfunnar kveður sóknaraðili vera eftirfarandi:
Sóknaraðili kveður kröfu um launaauka vera í samræmi við gr. 4.3. ráðningarsamningsins og drög að uppgjöri unnið af launadeild Íslandsbanka hf. sem liggi fyrir í málinu.
Að því er varði laun sóknaraðila í formi kaupauka vísi hann til skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, þar sem fjallað sé um launamál starfsmanna Glitnis fyrir hrun bankanna haustið 2008. Í köflum 10.3.2. og 10.3.3. sem fjalli um hvatakerfi og árangurstengingu launa hjá varnaraðila vísi sóknaraðili til nokkra atriða sem þar komi fram og lýsi því launafyrirkomulagi sem verið hafi í gildi í bankanum.
Samkvæmt hvatakerfi Glitnis hafi starfsmenn Markaðsviðskipta fengið greidda launaauka sem byggst hafi á hlutdeild. Hlutdeildarkerfið hafi verið byggt á árangurstengdum greiðslum markaðsviðskipta. Það hafi grundvallast á þeirri hugmynd að starfsmenn fengju beina hlutdeild í þeim tekjum sem orðið hafi af starfsemi deilda eða sviða eftir því sem við hafi átt.
Kaupauki sé órjúfanlegur hluti launa sóknaraðila, sbr. lið 4.3 í ráðningarsamningnum. Fjárhæð þeirrar kaupaukagreiðslu sé alfarið ákveðin af varnaraðila sem hluti af launakjörum sóknaraðila.
Sóknaraðili hafi 10 ára reynslu í fjármálageiranum. Á því tímabili hafi greiðsla kaupauka verið fastur liður í endurgjaldi hans fyrir vinnu í þágu vinnuveitenda sinna. Krafa hans í bú varnaraðila sé því sanngjörn og hafi verið hefðbundin á þessu sviði. Hann hafi eingöngu óskað eftir greiðslu í samræmi við það sem um hafi verið samið varðandi endurgjald hans fyrir vinnu, enda sé greiðsla kaupauka hluti af væntingum sóknaraðila þegar komið hafi verið að endurgjaldi hans fyrir störf í þágu varnaraðila.
Krafa sóknaraðila um kaupaukagreiðslu byggi eins og áður segi á ráðningarsamningi sem hafi verið hefðbundinn fyrir bankastarfsmenn og starfsmenn varnaraðila. Krafan sé reiknuð út miðað við launakerfi sem í gildi hafi verið hjá varnaraðila. Krafan sé reiknuð út samkvæmt hlutdeildarkerfi, eins og áður segi. Sjá megi þetta nánar á dómskjali nr. 9 þar sem launaaukinn sé reiknaður út samkvæmt kerfi Íslandsbanka hf. á grundvelli upplýsinga frá varnaraðila.
Kerfi þetta hafi byggst upp á tekjum Markaðsviðskiptasviðs bankans. Varnaraðili hafi skilað tekjum á þessu sviði í ágúst, september og október 2008. Sóknaraðili eigi því rétt á greiðslum vegna kaupauka fyrir þá mánuði, samtals að fjárhæð 16.573.400 krónur.
Til staðar sé skýr skuldbinding um að sóknaraðili eigi rétt á greiðslu að síðastnefndri fjárhæð eftir slit á ráðningarsamningi hans. Sú krafa falli undir það að vera krafa um bætur vegna slita á vinnusamningi sem hafi átt sér stað á því tímabili sem um ræði í 1. tl.1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, eða eftir frestdag, sbr. 2. tl. 1. mgr. 112. gr. laganna. Krafan sé því forgangskrafa sem falli undir 112. gr. laganna.
Sóknaraðili kveðst gera kröfu um að hann njóti áfram samningsbundinna greiðslna í lífeyrissjóð, þar sem framlag bankans sé 6% af öllum launum eða 3.176.213 krónur. Auk þess skyldi varnaraðili greiða 9% af öllum launum í séreignarsjóð, þ.e. 4.764.320 krónur. Samtals nemi krafa vegna þessa þáttar því 7.940.533 krónur.
Kröfur um gjöld til lífeyrissjóða njóti forgangs skv. 4. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.
Orlofslaun njóti forgangsréttar samkvæmt 3. tl. 112. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili geri kröfu um greiðslu orlofs sem enn sé ógreitt. Sóknaraðili eigi rétt til launa í uppsagnarfresti samkvæmt ráðningarsamningi og samkvæmt lögum nr. 30/1987 um orlof eigi hann rétt til orlofs á sama tíma. Krafa vegna orlofs sé forgangskrafa skv. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Áunnið orlof sóknaraðila nemi 668.670 krónum.
Sóknaraðili kveðst gera kröfu um greiðslu iðgjalds vegna trygginga í uppsagnarfresti, sbr. ákvæði 8. gr. ráðningarsamnings hans og ákvæði kjarasamnings. Samtals sé krafist 720.000 króna vegna trygginga.
Sóknaraðili eigi rétt á greiðslu vegna símakostnaðar á grundvelli ákvæða gr. 4.4. í ráðningarsamningnum, dags. 3. mars 2008. Samtals sé krafist 2.520.000 króna vegna þessa þáttar.
Samkvæmt gr. 4.5 skyldi félagið greiða fyrir rekstur og afnot sóknaraðila af bifreið. Sé kostnaður vegna þessa talinn vera 223.745 krónur á mánuði að öllu meðtöldu, svo sem tryggingum, afnotum, eldsneyti og viðhaldskostnaði. Sóknaraðili hafi uppi kröfu um greiðslu samkvæmt þessum þætti í 36 mánuði frá uppsögn hans.
Samkvæmt gr. 4.5. ráðningarsamnings frá 3. mars 2008 hafi sóknaraðili fengið bifreið til fullra ótakmarkaðra afnota sem varnaraðili hafi útvegað honum að verðmæti 8 milljónir króna. Í samningnum sé sérstaklega tekið fram að ef sóknaraðila sé sagt upp störfum þá haldi hann þessum réttindum í 18 mánuði eftir að uppsagnarfresti ljúki, þ.e. samtals í 36 mánuði eftir uppsögn.
Samkvæmt þessu ákvæði hafi sóknaraðila verið afhent bifreið af tiltekinni gerð til frjálsra afnota og varnaraðili hafi greitt allan rekstrarkostnað samtals 223.745 krónur á mánuði.
Framangreint ákvæði samningsins hafi falið í sér mikilvægan hluta starfskjara sóknaraðila. Bifreiðahlunnindin hafi verið talin til mánaðarlauna á launaseðlum og af þeim greiddur staðgreiðsluskattur. Hlunnindin hafi verið talin að fullu fram til skatts eins og önnur laun. Sóknaraðili hafi haft bifreiðina til fullra einkanota. Undir 1. mgr. 112. gr. gjaldþrotalaga falli endurgjald sem greiða skuli með hlunnindum eða í fríðu og sé þar gerður greinarmunur á kröfum vegna hlunnindagreiðslu fyrir vinnu og endurgjaldskröfum fyrir útlögðum kostnaði.
Laun sóknaraðila hafi verið samsett af launagreiðslum og bifreið til eigin nota o.fl. en þessi háttur á launagreiðslum hafi verið og sé hefðbundinn. Samningur af þessu tagi verði ekki lagður að jöfnu við ökutækjastyrk.
Samkvæmt A-lið 7. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003 séu bifreiðahlunnindi skattskyldar tekjur eins og laun án frádráttar. Ef um kostnaðargreiðslur sé að ræða eins og ökutækjastyrk, sbr. A-lið 30. gr., sé unnt að færa kostnað til frádráttar tekjum. Sóknaraðili hafi ekki fært frádrátt vegna nota í þágu atvinnurekstrar heldur hafi hlunnindin verið skattlögð að fullu sem laun. Ef breyta hefði átt þessu ákvæði samningsins hefði þurft að segja því upp með samningsbundnum fyrirvara. Gera verði ráð fyrir því að varnaraðili hefði greitt sóknaraðila annars konar laun að samsvarandi fjárhæð ef umrætt ákvæði samningsins hefði ekki verið til staðar. Ákvæði 1. tl. 1. mgr. 112. gr., sbr. 2. tl. 1. mgr. 112. gr., sé ótvírætt og nái til launa og annars endurgjalds fyrir vinnu. Varnaraðili beri sönnunarbyrði fyrir því að bifreiðahlunnindi sóknaraðila hafi verið annað en hluti launa og annars endurgjalds fyrir vinnu.
Miðað sé við mánaðarlegar greiðslur vegna bifreiðar sóknaraðila að fjárhæð 223.745 krónur líkt og þær hafi verið áður en sóknaraðila var sagt upp störfum. Samtals sé því krafist 8.054.820 króna vegna þessa þáttar.
Samkvæmt ákvæði 4.7 gr. ráðningarsamnings sóknaraðila eigi hann rétt til greiðslu skólagjalda úr hendi varnaraðila, kjósi hann að fara í framhaldsnám. Gildi þetta í 18 mánuði eftir að uppsagnarfresti ljúki (samtals í 36 mánuði frá upphafi uppsagnarfrests). Gjöldin geti numið allt að 4 milljónum króna, auk þess sem sóknaraðili skuli eiga þess kost að halda 50% launa sinna á meðan á náminu standi.
Sóknaraðili telji áðurnefnt ákvæði fela í sér loforð um greiðslu skólagjalda allt að fjárhæð 4 milljóna auk 50% launa á meðan á náminu standi. Sóknaraðili telji að með slitum varnaraðila í kjölfar greiðsluþrots bankans hafi stofnast greiðsluskylda vegna þessa ákvæðis. Eftir uppsögn eigi sóknaraðili þess ekki kost á að nýta sér loforðið líkt og hann hafi hugsað sér. Sóknaraðili telji sig því eiga rétt á greiðslu eins og hann hefði nýtt sér loforð varnaraðila. Samtals 24.400.000 krónur.
Til vara sé krafist bóta að álitum vegna þess að sóknaraðili hafi ekki getað nýtt sér loforð varnaraðila.
Dráttarvaxtakrafa sóknaraðila sé vegna framangreindra krafna frá gjalddaga hverrar kröfu fram til 22. apríl 2009. Vextir sem fallið hafi til fyrir slitameðferð varnaraðila njóti forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 líkt og hinar gjaldföllnu kröfur.
Krafist sé dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 7.736.412 krónum frá 1. nóvember 2008 til 1. desember 2008, en af 20.545.967 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2009, en af 24.931.663 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2009, en af 23.909.805 krónum frá þeim degi til 1. mars 2009, en af 24.301.988 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2009, en af 24.917.466 krónum frá þeim degi til 22. apríl 2009. Dráttarvextirnir nemi því samtals 2.604.491 krónu. Dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, sbr. 12. gr. laga nr. 38/2001.
Um upphafsdag dráttarvaxta vísist til 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, en til vara til 9. gr. sömu laga.
Við breytingu á kröfugerð lækkaði sóknaraðili ekki dráttarvaxtakröfu sína þó hann lækkaði höfuðstólinn. Byggði lögmaður hans á því við munnlegan málflutning að þar sem varnaraðili hefði ekki mótmælt dráttarvaxtakröfu í greinargerð yrði hún væntanlega dæmd eins og krafist væri.
Þá krefst sóknaraðili þess til vara að verði ekki fallist á að launakrafa hans njóti forgangs samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 verði krafan viðurkennd sem almenn krafa með vísan til 113. gr. sömu laga.
Sóknaraðili eigi gilda kröfu á hendur varnaraðila því kveðið sé á um skyldu varnaraðila til greiðslu þeirra krafna sem raktar hafi verið hér að framan með skýrum hætti í ráðningarsamningi og viðauka við hann. Varnaraðili sé bundinn af þeim samningum. Þá liggi fyrir að efndatími umræddra krafna sé kominn og sóknaraðili hafi í einu og öllu staðið við skyldur sínar samkvæmt samningunum.
Verði talið að krafa sóknaraðila, eða einstakir þættir hennar, njóti ekki forgangs samkvæmt 112. gr. gþl. telji sóknaraðili kröfurnar falli í flokk almennra krafna skv. 113. gr. sömu laga.
Til stuðnings kröfum sínum kveðst sóknaraðili vísa til meginreglna um skaðabætur innan samninga, laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum 112. gr. laganna og 3. mgr. 102. gr. og annarra ákvæða XII. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Sóknaraðili byggi ennfremur á almennum reglum og réttarvenjum vinnuréttar, samningaréttar og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og efndir fjárskuldbindinga. Af hálfu sóknaraðila sé vísað til reglna kröfuréttar um skuldajöfnuð og skilyrði hans, sbr. og 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málskostnaðarkrafa sóknaraðila eigi sér stoð í 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991. Auk þess sé vísað til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt á málskostnað.
III
Í greinargerð varnaraðila kemur m.a. fram að varnaraðili hafi hafnað kröfu sóknaraðila þar sem hann hafi þegar fengið greitt vegna sex mánaða uppsagnarfrests eins og sjáist á launaseðlum sem varnaraðili hafi lagt fram. Uppsagnarfrestur hafi verið samþykktur í sex mánuði í stað átján mánaða á grundvelli kjarasamnings Samtaka atvinnulífsins fyrir hönd banka og sparisjóða og Sambands íslenskra bankamanna frá 1. október 2004 og að teknu tilliti til þess hve stutt hafi verið frá því að uppsagnarfrestur sóknaraðila hafi verið lengdur úr þremur mánuðum í átján mánuði. Sóknaraðili hafi haldið bifreiðinni sem hann hafi haft afnot af í tvo mánuði eftir uppsögn og hafi fengið greitt andvirði bifreiðahlunninda sem laun í fjóra mánuði eftir það. Varnaraðili hafi því ekki fallist á greiðslu bifreiðahlunninda þar sem þau hafi þegar verið greidd í formi afnota af bíl og greiðslna í sex mánuði.
Varnaraðili kveðst mótmæla öllum málsástæðum og lagarökum sóknaraðila.
Sóknaraðili hafi byrjað störf hjá varnaraðila á árinu 2000. Upphaflegur ráðningarsamningur hafi verið gerður 14. ágúst 2000 og hafi laun sóknaraðila samkvæmt honum verið 250.000 krónur á mánuði. Uppsagnarfrestur af beggja hálfu hafi verið þrír mánuðir. Samningnum hafi verið breytt 14.03.2001 og 4.10.2004 en breyting á samningnum hafi aðeins falið í sér hækkun á launum sóknaraðila.
Nýr ráðningarsamningur hafi verið gerður við sóknaraðila 3. mars 2008. Með þeim samningi hafi honum veittur átján mánaða uppsagnafrestur í stað þriggja mánaða sem hann hafi áður haft. Á sama tíma hafi uppsagnafrestur tiltekinna lykilstarfsmanna verið lengdur. Þannig hafi útvöldum hópi af rúmlega tvö þúsund starfsmönnum varnaraðila verið veittur lengri uppsagnarfrestur en almennum starfsmönnum varnaraðila. Flestir þessara útvöldu starfsmanna hafi verið í þeirri stöðu að geta haft áhrif á ákvarðanatöku varnaraðila og hafa yfirsýn yfir fjárhagsstöðu hans. Hinn lengdi uppsagnarfrestur sóknaraðila hafi ekki verið í samræmi við það sem tíðkast hafi á þeim tíma þegar um hann hafi verið samið og hafi verið íþyngjandi fyrir varnaraðila. Með þessum samningi hafi sóknaraðili jafnframt verið ráðinn í stöðu forstöðumanns markaðsviðskipta hjá varnaraðila.
Um starf sóknaraðila segi eftirfarandi í 1. gr. ráðningarsamningsins:
„Starfsheiti: Forstöðumaður
Svið/Útibú/deild: Capital Markets Iceland
Starfsheiti næsta yfirmanns: Framkvæmdarstjóri
Starfsmaður er félagsmaður í SÍB.“
Samkvæmt framangreindum ráðningarsamningi skyldu mánaðarlaun sóknaraðila nema 1.700.000 krónum á mánuði. Þá hafi verið tekið fram í samningnum að stefnt skyldi að gerð viðbótarsamnings um árangurstengingu sóknaraðila en fram að því skyldi fyrri bónussamningur gilda. Jafnframt hafi verið samið um önnur hlunnindi, eins og afnot af farsíma og bifreið, greiðslu símakostnaðar, þátttöku í greiðslu skólagjalda vegna hugsanlegs náms sóknaraðila o.fl.
Samkvæmt síðastgreindum ráðningarsamningi hafi föst laun sóknaraðila hækkað rúmlega þrefalt eða úr 559.019 kr. í 1.700.000 kr. þann 1. mars 2008.
Í 1. mgr. 96. gr. laga nr. 21/1991 sé kveðið á um að þrotabú geti sagt upp samningi um leigu eða annað varanlegt réttarsamband með venjulegum hætti eða sanngjörnum fresti þótt lengri uppsagnarfrestur hafi verið ákveðinn í samningnum eða hann óuppsegjanlegur. Af dómaframkvæmd megi ráða að þegar um gagnkvæma samninga sé að ræða hafi gjaldþrota félag heimild til þess að ákveða hvort það taki við réttindum og skyldum samkvæmt gagnkvæmum samningi sem félagið hafi verið aðili að. Þá komi fram í bók Stefáns Más Stefánssonar prófessors, Íslenskur gjaldþrotaréttur bls. 146-147, að ákvæði þágildandi 48. gr. laga um gjaldþrotaskipti ofl. nr. 6/1978, sem samsvari 96. gr. núgildandi gjaldþrotaskiptalaga, taki, auk leigusamninga, m.a. einnig til vinnusamninga. Grundvöllurinn að baki ákvæði 1. mgr. 96. gr. laga nr. 21/1991 sé að forsendur fyrir því að halda viðkomandi samningssambandi áfram umsaminn samningstíma kunni að hafa brostið við gjaldþrotið og að það geti verið andstætt meginreglu laga um gjaldþrotaskipti um jafnræði kröfuhafa að binda gjaldþrota félag af óuppsegjanlegum samningum eða samningum með löngum uppsagnarfresti. Samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli réttarins nr. 278/1989 sé þrotabúi heimilt að segja upp gagnkvæmu samningssambandi vegna ráðningarsamnings og stytta umsaminn uppsagnarfrest. Í dómnum hafi verið staðfest að skiptastjóra væri heimilt að víkja til hliðar ráðningarsamningi á grundvelli sanngirnissjónarmiða.
Með bréfi dagsettu 24. október 2008 hafi sóknaraðila verið sagt upp störfum hjá varnaraðila. Í bréfinu sé vísað til kjarasamnings Samtaka atvinnulífsins og Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja. Lengsti uppsagnarfrestur sem starfsmönnum fjármálafyrirtækja sé tryggður með þeim samningi sé sex mánuðir. Réttarsambandinu hafi því á þeim tíma verið sagt upp með þeim fresti. Samningnum hafi því verið sagt upp m.v.t. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 21/1991.
Ljóst sé að þegar umræddur ráðningarsamningur hafi verið gerður milli sóknaraðila og varnaraðila hafi framtíð varnaraðila verið ótrygg og hafi sóknaraðila mátt vera það ljóst stöðu sinnar vegna. Varnaraðili telji að eðlilegur og sanngjarn uppsagnarfrestur á ráðningu sóknaraðila teljist sex mánuðir en það sé lengsti uppsagnarfrestur sem bankastarfsmönnum sé tryggður samkvæmt kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Sambands íslenskra bankamanna. Enda vísi ráðningarsamningur sóknaraðila til þess kjarasamnings um önnur atriði en fram komi í samningnum sjálfum og því beri að líta til hans þegar kemur að samanburði við aðra starfsmenn varnaraðila.
Á grundvelli framangreinds sé það afstaða varnaraðila að réttur sóknaraðila til launa og launatengdra hlunninda skuli takmarkaður við sex mánaða uppsagnarfrest og varnaraðili sé því einungis bundinn af því að greiða sóknaraðila laun í uppsagnarfresti fyrir tímabilið 1. nóvember 2008 til og með 30. apríl 2009.
Varnaraðili hafi þegar greitt sóknaraðila laun þá sex mánuði sem hann sé talinn eiga rétt á samkvæmt framansögðu. Uppgjör til sóknaraðila sé að finna í launaseðlum sóknaraðila frá varnaraðila nóvember 2008 til og með apríl 2009 sem liggi fyrir í málinu.
Komi til þess að fallist verði á kröfu sóknaraðila um laun í uppsagnarfresti í átján mánuði beri að taka tillit til þeirra launa sem hann hafi fengið frá öðrum á tímabilinu. Sóknaraðili hafi verið skipaður yfirmaður verðbréfasviðs Nýja Glitnis banka í október 2008 í kjölfar þess að innlend starfsemi varnaraðila hafi verið tekin yfir og Nýi Glitnir banki hf. hafi verið stofnaður, sem síðar hafi orðið að Íslandsbanka hf. að nýju. Sóknaraðili hafi látið af störfum hjá Íslandsbanka hf. í september 2009 og hafi fljótlega byrjað störf hjá Saga fjárfestingabanka hf. Sóknaraðili hafi ekki að fullu gert grein fyrir launatekjum sínum á því tímabili sem launakrafa hans nái til. Ljóst sé að hann geti aldrei átt rétt á öðru en mismuni umsaminna launa frá varnaraðila og þess sem hann hafi aflað frá öðrum vinnuveitanda á uppsagnartíma, sbr. dóm Hæstaréttar í máli réttarins nr. 298/2001.
Sóknaraðila beri því að upplýsa um aðrar tekjur sem hann hafi haft yfir það tímabil sem krafa hans nái til og beri að draga þá fjárhæð frá þeim launum sem aðili ætti rétt á hjá varnaraðila.
Varnaraðili hafni alfarið kröfu sóknaraðila um ógreidd laun vegna kaupauka að fjárhæð 16.573.400 krónur Krafa sóknaraðila um kaupauka sé vegna tekna sem sóknaraðili telji svið hans hafa aflað í ágúst, september og október 2008. Útreikningar sóknaraðila byggi á dómskjali nr. 9 sem unnið hafi verið af starfsmönnum Íslandsbanka hf. Í því skjali sé engin skýring á því hvernig stofn fyrir útreikning á kaupaukanum sé fenginn. Í dómskjali 19 sjáist að tap hafi orðið af verðbréfamiðlun Markaðsviðskipta í janúar 2008. Þann 15. febrúar 2008 sendi samstarfsmaður sóknaraðila tölvupóst til launadeildar varnaraðila og greini frá því að við útreikning bónusa skuli færa tap verðbréfamiðlunar í 0 krónur. Af þessu sjáist að dómskjal það sem sóknaraðili leggi fram varðandi sönnun á kaupauka sínum sé að öllu leiti ónothæft til stuðnings kröfu hans. Þá verði að telja harla ólíklegt að á þeim örfáu dögum sem varnaraðili hafi verið starfandi í október 2008 og á tveim mánuðum á undan hafi verið um að ræða tekjur af Markaðsviðskiptum varnaraðila þegar verðmæti hlutabréfa og gengi gjaldmiðla hafi verið mjög óstöðugt og mikið umrót á mörkuðum.
Sóknaraðili vísi til rannsóknarskýrslu Alþingis varðandi kröfu sína um markaðsbónus. Í rannsóknarskýrslunni sé aðeins fjallað um þau kaupaukakerfi sem verið hafi við lýði í varnaraðila en þar sé hins vegar ekki fjallað um eða farið ofan í stofna fyrir útreikning á kaupaukum. Skýrslan styðji því á engan hátt kröfu sóknaraðila um kaupauka.
Að mati varnaraðila hafi sóknaraðili ekki sýnt fram á grundvöll kröfu sinnar á hendur varnaraðila. Sóknaraðili beri sönnunarbyrði fyrir því að hann eigi kröfu á varnaraðila. Sönnun um það hafi ekki tekist og sé grundvöllur kröfunnar með öllu óljós Hvað þetta varði fullnægi kröfulýsing sóknaraðila ekki skilyrðum 117. gr. laga nr. 21/1991. Í ljósi ofangreinds telji varnaraðili að sóknaraðili hafi á engan hátt sýnt fram á grundvöll þessarar kröfu sinnar.
Komi til þess að fallist verði á kröfu sóknaraðila um framangreindan kaupauka, telji varnaraðili að krafan geti ekki notið forgangs í bú varnaraðila. Varnaraðili hafi ekki fært fram nein gögn til sönnunar á því hvaða vinnu sóknaraðili hafi átt að inna af hendi fyrir varnaraðila í stað greiðslunnar enda hafi ekkert vinnuframlag verið til staðar. Væri slíkt til staðar bæri sóknaraðili sönnunarbyrði fyrir því. Í dómi Hæstaréttar frá árinu 2003 á bls. 2950 (Þrotabú Brims gegn Rafni F. Johnson) sé tekið fram að greiðslur sem byggist á starfslokasamningi njóti ekki forgangs þar sem ekkert vinnuframlag komi í stað greiðslu. Niðurstaða Hæstaréttar byggi á því að 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 sé undantekningarregla frá meginreglu um jafnræði kröfuhafa og beri að skýra þröngt. Hæstiréttur ítreki afstöðu sína í máli nr. 378/2010 frá 13. ágúst 2010 (Straumur-Burðarás Fjárfestingarbanki hf. gegn Flemming Bendsen) þar sem gengið hafi verið frá því í samningi milli sóknaraðila og varnaraðila að varnaraðili hafi átt að fá ákveðna greiðslu fyrir ráðgjöf. Hæstiréttur hafi fallist á að varnaraðili ætti rétt á lokagreiðslu samningsins. Dómurinn hafi hins vegar ekki fallist á að krafan nyti forgangs skv. 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 þar sem ekki hafi legið fyrir gögn í málinu sem sýnt hafi fram á að greiðslur samkvæmt samningi hafi verið laun eða annað endurgjald fyrir vinnu eða að krafist hafi verið vinnuframlags af hálfu varnaraðila.
Í ljósi ofangreindra dóma sé ljóst að eitt af skilyrðum fyrir því að krafa sem byggi á samningi milli launþega og vinnuveitanda verði talin laun í skilningi 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 sé vinnuframlag launþega. Sé ekki krafist vinnuframlags af hálfu launþega fyrir vinnuveitanda teljist krafa almenn krafa skv. 113. gr. laga nr. 21/1991.
Varnaraðili hafni kröfu sóknaraðila um greiðslu á lífeyrissjóðsgreiðslum á sömu forsendum og hann hafni greiðslu launa umfram sex mánaða uppsagnarfrest. Varnaraðili hafi greitt lífeyrissjóðsgreiðslur sóknaraðila í sex mánuði. Þá mótmæli varnaraðili því að sóknaraðili eigi aðild að kröfu vegna lífeyrissjóðsiðgjalda, sbr. 4. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða gildi lög nr. 129/1997 og reglugerðir sem settar hafi verið með stoð í lögunum. Samkvæmt 2. gr. laganna skuli greiða iðgjöld til lífeyrissjóða. Hvergi í lögunum sé kveðið á um heimild launamanns til að heimta þessar greiðslur beint til sín frá launagreiðanda og raunar myndi launagreiðandi gerast brotlegur við þessi lög ef hann greiddi lífeyrissjóðsgreiðslur, auk mótframlags, beint til launþega eins og sóknaraðili krefjist. Þetta komi skýrt fram í 3. mgr. 7. gr. laganna þar sem segi að launagreiðanda sé skylt að halda eftir launum iðgjaldshluta launþega og standa viðkomandi lífeyrissjóði skil á honum ásamt iðgjaldshluta sínum. Telji varnaraðili því að sóknaraðili eigi ekki aðild að kröfu um lífeyrissjóðsgreiðslur og þegar af þeirri ástæðu skuli hafna kröfum hans í máli þessu sem lúta að greiðslum til lífeyrissjóða.
Varnaraðili kveðst hafna orlofskröfu sóknaraðila. Íslandsbanki hf. hafi yfirtekið orlofsskuldbindingar þeirra starfsmanna varnaraðila sem fengið hafi starf hjá Nýja Glitni, nú Íslandsbanka.
Varnaraðili kveðst hafna með öllu kröfum sóknaraðila um greiðslur vegna símakostnaðar, trygginga og kostnaðar við rekstur og afnot bifreiðar
Varðandi símakostnað segi í ráðningarsamningi málsaðila frá 3. mars 2008 að sóknaraðili skuli fá afhentan GSM síma í eigu varnaraðila og skuli notkun hans greidd af varnaraðila samkvæmt reikningi. Í ráðningarsamningum sé því aðeins samið um greiðslu á útlögðum kostnaði vegna símanotkunar og því ekki um hluta af launum sóknaraðila að ræða. Umræddar greiðslur hafi ekki verið gefnar upp á launaseðlum sóknaraðila sem hlunnindi og því ekki greiddur skattur af þeim. Á þessum grundvelli telji varnaraðili rétt að hafna alfarið kröfu sóknaraðila um greiðslu símakostnaðar eftir starfslok hans, enda hafi þá orðið forsendubrestur fyrir slíkum greiðslum.
Samkvæmt ráðningarsamningi, sbr. gr. 7.4.1 í kjarasamningi hafi varnaraðili greitt iðgjöld fyrir sóknaraðila vegna hóplíftryggingar. Samkvæmt 2.5 gr. vátryggingarskilmálanna falli hóplíftrygging einstakra þátttakanda úr gildi er þeir hætti störfum hjá viðkomandi vátryggingartaka. Hvorki í ráðningarsamningi né í vátryggingarskilmálum sé þess getið að varnaraðili muni greiða iðgjöld fyrir sóknaraðila eftir að hann ljúki störfum, hvorki í uppsagnarfresti né lengur. Beri því að hafna kröfu sóknaraðila um greiðslu tryggingar.
Verði ekki á það fallist af hálfu dómsins krefjist varnaraðili þess að sóknaraðila verði aðeins dæmdur réttur til greiðslu símakostnaðar og trygginga fyrir sama tímabil og hann eigi rétt til launagreiðslna fyrir, þ.e. á sex mánaða uppsagnarfresti, sbr. það sem að framan hafi verið rakið. Varðandi kröfu sóknaraðila um greiðslu símakostnaðar og trygginga í átján mánuði eftir að uppsagnarfresti ljúki skuli vísað til þess sem að framan sé rakið um heimild slitastjórnar samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 21/1991 til að segja upp samningi um leigu eða annað varanlegt réttarsamband. Enda felist í skuldbindingu varnaraðila um greiðslu símakostnaðar og trygginga sóknaraðila eitt og hálft ár eftir að uppsagnarfresti ljúki klárlega íþyngjandi skuldbinding fyrir annan samningsaðilann, þ.e. varnaraðila, sem engar forsendur séu til að efna þann tíma.
Vegna kröfu sóknaraðila um bifreiðahlunnindi þá segi í ráðningarsamningi málsaðila frá 3. mars 2008 að sóknaraðili hafi rétt til fullra ótakmarkaðra afnota af bifreið sem varnaraðili útvegi honum. Á grundvelli þessa hafi varnaraðili lagt sóknaraðila til bifreið til afnota. Sóknaraðili hafi haldið bifreið frá varnaraðila í tvo mánuði og hafi svo fengið greitt andvirði bifreiðahlunninda sem laun í fjóra mánuði eftir það. Þar með telji varnaraðili að hafna skuli kröfu sóknaraðila um greiðslu bifreiðahlunninda þar sem þau hafi þegar verið greidd í formi afnota af bíl og greiðslna í sex mánuði.
Varnaraðili hafni kröfu sóknaraðila um greiðslu skólagjalda auk 50% launa á meðan námið standi. Sóknaraðili hafi engin gögn lagt fram um að hann hafi farið til náms og lagt út fé til greiðslu skólagjalda. Telji varnaraðili að þegar af þeirri ástæðu geti ekki hafa stofnast krafa um að varnaraðili greiði sóknaraðila skólagjöld og laun meðan á námi stendur samkvæmt ráðningarsamningi málsaðila. Þá beri á það að líta að ákvæði þetta í ráðningarsamningi sóknaraðila feli í sér loforð um greiðslu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Komi til þess að tekin yrði afstaða til þessa þáttar í kröfu sóknaraðila geti slíkt loforð aldrei orðið annað en eftirstæð krafa, sbr. 3. tl. 114. gr. laga nr. 21/1991 en slitastjórn hafi frestað afstöðu til allra slíkra krafna enda fullvíst að almennar kröfur komi ekki til með að greiðast að fullu. Þessu til viðbótar telji varnaraðili augljóst að forsendubrestur hafi átt sér stað er sóknaðili hafi látið af stöfum hjá varnaraðila sem útiloki að varnaraðili taki þátt í greiðslu hugsanlegs náms varnaraðila sem ekki mun nýtast varnaraðila á nokkurn hátt. Um þessa kröfu sóknaraðila gildi sömu rök og sjónarmið og rakin hafi verið um aðrar hlunnindagreiðslur þess efnis að fallist dómurinn ekki á höfnun varnaraðili takmarkist krafa sóknaraðila við sex mánaða uppsagnarfrest, sem nú sé liðinn. Ekkert hafi verið lagt fram til staðfestingar á að sóknaraðili hafi farið til náms á því tímabili og sé því ekki unnt að fallast á neinar kröfur sóknaraðila um þátttöku í skólagjöldum eða greiðslu launa á námstíma vegna mögulegs náms hans í framtíðinni.
Varnaraðili kveðst vísa til laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997 og meginreglna gjaldþrota-, samninga- og kröfuréttar. Kröfu um málskostnað kveðst varnaraðili styðja við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt sé byggð á lögum nr. 50/1988.
IV
Í greinargergð sinni skoraði varnaraðili á sóknaraðila að leggja fram staðfestingu á öllum tekjum sínum fyrir tímabilið 1. nóvember 2008 til 1. maí 2010. Kvað varnaraðili að ekki væri ljóst hvert tjón sóknaraðila hafi verið vegna uppsagnar varnaraðila á ráðningarsamningi hans. Jafnframt kveðst varnaraðili skora á sóknaraðila að sanna fjárhæð kaupaukagreiðslu sinnar enda sé það afstaða varnaraðila að hún eigi ekki rétt á sér. Sóknaraðili beri sönnunarbyrði fyrir ætlaðri kröfu og verði ekki séð að hann geti gert það á annan hátt en með dómkvaðningu matsmanna.
Sóknaraðili varð við áskorun varnaraðila um að leggja fram endurrit úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra vegna ofangreinds tímabils. Sóknaraðili varð ekki við áskorun varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna, en af hans hálfu var lagður fram samningur aðila um greiðslu kaupauka frá árinu 2001, sem lýst er nánar hér að framan. Þá leiddi sóknaraðili nokkur vitni í því skyni að renna frekari stoðum undir kröfu sína um kaupaukagreiðslu.
Eftir að varnaraðili lagði fram greinargerð sína lagði sóknaraðili fram bókun þar sem hann vísaði til þess að í greinargerð varnaraðila kæmu fram fullyrðingar sem væru órökstuddar auk þess að gögn fylgdu þeim ekki. Varnaraðili byggi á því að sóknaraðili beri að leggja fram upplýsingar og gögn sem sóknaraðili hafi ekki aðgang að, en varnaraðili hafi í vörslum sínum. Skorar sóknaraðili í fyrsta lagi á varnaraðila að leggja fram upplýsingar um uppsagnarfrest 24 nafngreindra lykilstarfsmanna varnaraðila árin 2007 og 2008 auk sambærilegra upplýsinga um aðra forstöðumenn, framkvæmdastjóra og lykilstarfsmenn frá 1. janúar 2004 til 1. júlí 2008. Í öðru lagi vísar sóknaraðili til þess að hann hafi lagt fram dómskjal þar sem komi fram sundurliðun tekna markaðsviðskipta vegna gjaldeyrisstýringar, gjaldeyrismiðlunar, verðbréfamiðlunar og afleiðudeildar á árunum 2007 og 2008. Þetta séu rauntölur úr tölvukerfum varnaraðila sem verið hafi grundvöllur launaauka til starfsmanna markaðsviðskipta. Varnaraðili hafi aðgang að öllum bókhaldsgögnum fyrir umrætt tímabil. Ef varnaraðili telji tölur eða framsetningu í umræddu dómskjali ekki rétta sé skorað á varnaraðila að færa fram gögn því til staðfestingar. Þá skorar sóknaraðili í þriðja lagi á varnaraðila að færa fram gögn til stuðnings því að stofn sá til útreiknings kaupauka sem sóknaraðili byggi á sé rangur og upplýsa um raunverulegan stofn til útreiknings kaupauka sóknaraðila vegna ágúst, september og október 2008. Í fjórða lagi skoraði sóknaraðili á varnaraðila að leggja fram yfirlit yfir tekjur úr svokölluðu framlínukerfi Markaðssviðs (Capital Markets Iceland) varnaraðila fyrir ágúst september og október mánuði ársins 2008. Þá skorar sóknaraðili í fimmta lagi á varnaraðila að leggja fram gögn og sundurliðun yfir heildarlaunagreiðslur og önnur launakjör (þ.e. að meðtöldum kaupaukum, bónusum, greiðslum hlunninda og útlagðs kostnaðar o.fl.) 50 launahæstu starfsmanna varnaraðila og greiðslur til félaga í eigu þeirra starfsamanna varnaraðila á árunum 2007 og 2008.
Af hálfu varnaraðila var framangreindum áskorunum svarað með bókun og gagnaframlagningu þannig að varðandi fyrstu áskorun sóknaraðila kvaðst varnaraðili ekki hafa heimild til að leggja fram upplýsingar um uppsagnarfrest einstakra starfsmanna. Varnaraðili lagði hins vegar fram rafbréf frá Ragnari Torfa Geirssyni, yfirmanni launadeildar Íslandsbanka hf. og fyrrverandi yfirmanni launadeildar varnaraðila þar sem Ragnar fjallar almennt um uppsagnarfrest hjá varnaraðila. Varðandi áskoranir í lið tvö og þrjú kveður sóknaraðili að ekki sé unnt að verða við áskorun þar sem að traust gögn liggi ekki fyrir varðandi september og október 2008 og vísar til þess að þetta komi m.a. fram í því dómskjali sem sóknaraðili hafi lagt fram og vísi til varðandi upplýsingar um grundvöll tekjumyndunar. Þá kveður varnaraðili að óþarft sé að leggja fram þau gögn sem fjórði liður áskorunar sóknaraðila tiltaki og varði aðra mánuði en deilda aðila standi um, en fram komi á tekjumælingaskjali því sem sóknaraðili vísi til að erfiðleikum sé bundið að afla réttra gagna vegna september og október 2008 og því ómögulegt að verða við áskoruninni.
Varðandi fimmta lið áskorunarinnar kveður varnaraðili að sér sé óheimilt að tilgreina laun nafngreindra starfsmanna en leggur fram á sérstöku dómskjali upplýsingar um fjárhæð launa launahæstu starfsmanna nafnlaust, utan að nafn sóknaraðila komi þar fram. Komi í ljós að sóknaraðili sé þrettándi launahæsti starfsmaður varnaraðila árið 2008 og sjöundi hæsti árið 2007. Fram kemur í bókun varnaraðili að framangreint dómskjal sé unnið af Ragnari Torfa Geirssyni.
Í bókun varnaraðila kveðst hann ítreka áskorun sína um að sóknaraðili fái dómkvadda matsmenn til að sanna fjárhæð kaupaukagreiðslu sinnar enda sé það afstaða varnaraðila að hún eigi ekki rétt á sér.
V
Ágreiningur aðila er tvíþættur. Er annarsvegar um að ræða kröfu sóknaraðila um greiðslu launauka sem hann kveðst eiga rétt á vegna starfa sinna í þágu varnaraðila og hins vegar krafa sóknaraðila vegna launa og annarra greiðslna á uppsagnarfresti á grundvelli ráðningarsamnings aðila frá 3. mars 2008.
Verður fyrst vikið að kröfu sóknaraðila vegna launaauka. Krafa hans er sögð vegna launaauka sem miðaðist við nánar tilgreindar tekjur Markaðsviðskiptasviðs varnaraðila mánuðina ágúst, september og október 2008. Samtals að fjárhæð 16.573.400 krónur. Varnaraðili byggir á að krafa þessi sé vanreifuð og að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að hún eigi rétt á sér. Hluti af kröfunni er launaaukagreiðsla vegna ágústmánaðar sem samkvæmt samningi átti að greiða út 1. október 2008. Af staðgreiðsluskrá sem sóknaraðli hefur lagt fram sem og yfirliti frá varnaraðila um launagreiðslur til sóknaraðila verður ekki annað séð en að umræddur launaauki hafi verið greiddur út með öðrum launum sóknaraðila á gjalddaga 1. október 2008, enda sá dagur nokkrum dögum áður en skilanefnd tók yfir stjórn varnaraðila. Hefur sóknaraðili ekki gert grein fyrir grundvelli þessa þáttar kröfu sinnar eða rökstutt með fullnægjandi hætti af hverju varnaraðili ætti að greiða hana. Telst krafa hans að þessu leyti vanreifuð og verður ekki tekin til greina.
Öðru máli gegnir um kröfu sóknaraðila um launaaukagreiðslur vegna september (9.266.000 krónur) og október (2.342.600 krónur) sem samtals nema 11.608.600 krónum. Í málinu liggja fyrir útreikningar sem stafa frá fyrrum starfsmönnum launadeildar varnaraðila þar sem fyrrnefndar tölur eru staðfestur. Komu þau fyrir dóminn, Ragnar Torfi Geirsson fyrrum forstöðumaður launadeildar varnaraðila og núverandi forstöðumaður launadeildar Íslandsbanka hf. og Borghildur Kr. Magnúsdóttir fyrrum starfsmaður launadeildar varnaraðila og núverandi starfsmaður launadeildar Íslandsbanka hf. Staðfestu þau bæði að niðurstöðutölur vegna bónusútreiknings hafi borist þeim vegna fyrrnefndra mánaða með sama hætti og tíðkast hafi frá því launaaukakerfið var tekið upp. Ragnar Torfi staðfesti að þær tölur sem komi fram í kröfugerð sóknaraðila komi heim og saman við það sem launadeildin hafi reiknað út sem hlutdeild sóknaraðila í kaupauka umræddra mánaða. Þá kom fyrir dóminn fyrrum starfsmaður varnaraðila, Finnur Reyr Stefánsson, sem hafði haft veg og vanda af því að koma umræddu kerfi á fót og lýsti með almennum hætti hvernig kerfið væri upp byggt.
Varnaraðili byggir einkum á að umræddar kröfur sóknaraðila verði að teljast vanreifaðar og grundvöllur þeirra ósannaður þar sem varnaraðila hafi verið ómögulegt að sannreyna þær vegna þess að bókhald varnaraðila hafi verið í miklum ólestri í september og október 2008. Tölurnar sem launadeildin hafi stuðst við eigi uppruna hjá starfsmönnum Markaðsviðskiptasviðs og því beri að horfa fram hjá þeim. Hefur varnaraðili meðal annars lagt fram afrit tölvupóstsamskipta sem hann telur að renni stoðum undir það að þessar tölur geti ekki talist reistar á traustum útreikningum.
Sóknaraðili máls þessa byggir kröfu sína um greiðslu launaauka á gögnum sem eiga uppruna sinn hjá varnaraðila. Hefur ekkert verið fært fram fyrir dóminn sem hefur gert það með einhverjum hætti líklegt að hann hafi verið í aðstöðu til að hagræða þeim tölum. Þá varða tölvupóstar sem varnaraðili hefur lagt fram þar sem rætt er um útreikninga ekki þau tímabil sem hér eru til skoðunar. Þá er ekki að sjá að sóknaraðili hafi komið að þeim samskiptum. Er að mati dómsins ekki unnt að fallast á að sóknaraðili máls þessa verði látinn bera hallan af bókhaldsóreiðu sem varnaraðili telur vera fyrir hendi umrædda mánuði og verður að telja að í samræmi við almennar sönnunarreglur standi það varnaraðila nær að sýna fram á að þau gögn úr tölvukerfum hans sem sóknaraðili byggir kröfu sína á eigi ekki við rök að styðjast. Eins og mál þetta liggur fyrir dómnum eru því ekki efni til annars en telja sóknaraðila hafa fært fram nægilega haldbær rök og sannanir fyrir kröfu sinni að þessu leyti, sem varnaraðila hefur ekki tekist að hnekkja. Þegar af þeim ástæðum verður krafa sóknaraðila vegna launaauka að fjárhæð 11.608.600 krónur tekin til greina.
Launaauki þessi er reiknaður út með því að veita hverjum starfsmanni fyrir sig umsamda hlutdeild í nánar skilgreindum sölutölum Markaðsviðskiptasviðs varnaraðila. Var því um það að ræða að sóknaraðili, eins og aðrir starfsmenn sem gert höfðu sambærilega samninga, naut hlutdeildar í heildartekjum sviðsins en launaaukinn var ekki tengdur hans persónulega árangri sérstaklega eða bundinn sjálfstætt við vinnuframlag hans með öðrum hætti. Verður því ekki fallist á að launaauki þessi geti talist endurgjald fyrir vinnu í skilningi 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Er þegar af þeirri ástæðu hafnað kröfu sóknaraðila um að krafa hans njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt því ákvæði laga nr. 21/1991, en fallist á að hún njóti stöðu samkvæmt 113. gr. sömu laga.
Liggur þá fyrir að fjalla um kröfur sóknaraðila sem lúta að greiðslum á uppsagnarfresti hans. Í málinu liggur fyrir að sóknaraðila var sagt upp störfum með bréfi slitastjórnar í lok októbermánaðar 2008 og var um uppsagnarfrest vísað til kjarasamnings. Liggur fyrir samkvæmt gögnum málsins að sóknaraðili fékk greiðslur frá varnaraðila vegna mismunar á launum sem varnaraðili þáði í nýju starfi hjá Nýja Glitni banka hf. í samtals sex mánuði en það var sá uppsagnarfrestur sem sóknaraðili naut. Þá er ómótmælt af hálfu sóknaraðila að hann hafi haft afnot bifreiðar í tvo mánuði eftir starfslok og að hafa síðan fengið greitt vegna bifreiðahlunninda sinna í fjóra mánuði eftir það. Eiga fullyrðingar varnaraðila um þetta einnig stoð í gögnum málsins.
Í greinargerð sinni vísar varnaraðili til þess að honum hafi verið heimilt á grundvelli 1. mgr. 96. gr. laga nr. 21/1992 að segja upp ráðningarsamningi við sóknaraðila. Telur varnaraðili að sex mánaða uppsagnarfrestur sem sóknaraðili naut verði að teljast sanngjarn í ljósi gjaldþrots varnaraðila sem og þess að stutt var síðan uppsagnarfrestur sóknaraðila var lengdur úr þremur mánuðum í 18 og laun hans hækkuð úr 559.019 krónur í 1.700.000 krónur. Sóknaraðili hefur byggt á því að ekki geti talist sanngjarnt að hann sæti umræddri skerðingu launatekna og vísar til þess að í tveimur dómum Hæstaréttar 4. júní 1991 í máli nr. 278/1989 og 15. apríl 2011 í máli nr. 177/2011 hafi einkum verið litið til þess að launamanni hafi mátt vera ljóst að staða vinnuveitanda hafi verið slæm þegar ráðningarsamningur hafi verið gerður og í því ljósi hafi verið talið sanngjarnt að stytta uppsagnarfrest. Þetta eigi ekki við um sóknaraðila.
Tilvitnuð fordæmi Hæstaréttar fela að mati dómsins ekki í sér þá fordæmisreglu að það sé skilyrði þess að 1. mgr. 96. gr. laga nr. 21/1991 verði beitt um vinnusamninga að launamanni hafi mátt vera kunnugt um erfiða stöðu vinnuveitanda síns þegar samningur var gerður. Er einsýnt að líta verður til fleiri atriða og meta aðstæður í hverju máli fyrir sig enda gefur orðalag umrædds lagaákvæðis ekki til kynna að það beri að skilja með svo þröngum hætti. Í máli þessu liggur fyrir að laun sóknaraðila voru hækkuð verulega með hinum nýja samningi en að uppsagnarfrestur var einnig lengdur í 18 mánuði. Hefur komið fram í málinu að slíkur uppsagnarfrestur var ekki almennur meðal starfsmanna varnaraðila, en að nokkrir samningar með slíkum fresti hafi verið gerðir á svipuðum tíma og sá sem hér um ræðir.
Í nefndri 1. mgr. 96. gr. laga nr. 21/1991, sem gildir einnig um slitameðferð varnaraðila, sbr. 1. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, er mælt fyrir um heimild skiptastjóra/slitastjórnar til að segja upp gagnkvæmum samningi sem þrotamaður/eða fjármálafyrirtæki í slitameðferð hefur gert við annan aðila. Ákvæði þetta á m.a. við um vinnusamninga. Heimildin er fortakslaus en gæta skal að því að uppsagnarfrestur sé sanngjarn, en tekið fram að hann megi vera styttri en mælt hafi verið fyrir um í viðkomandi samningi. Fyrir liggur að varnaraðila neytti þessarar heimildar og sagði upp ráðningarsamningi við sóknaraðila með sex mánaða uppsagnarfresti. Er fallist á með varnaraðila að slíkur frestur verði eins og hér stendur á að teljast sanngjarn, enda í samræmi við það sem lengst gerist samkvæmt kjarasamningi sem gilti um ráðningarsamband sóknaraðila við varnaraðila. Er þá horft til þess að telja verður að með rekstrarstöðvun varnaraðila hafi brostið veruleg forsenda fyrir samningsgerð hans við sóknaraðila. Þá verður og að hafa í huga að skammur tími var liðinn frá því samningur var gerður með þessu efni, að uppsagnarfrestur sá sem ákveðinn var er verulega lengri en kjarasamningar mæla fyrir um og ekki er sýnt að hann hafi á þeim tíma sem samningurinn var gerður getað talist almennur í rekstri varnaraðila. Þegar af þeim ástæðum sem hér hafa verið raktar er það mat dómsins að ráðningarsamningi sóknaraðila hafi verið sagt upp með sanngjörnum fresti í skilningi 1. mgr. 96. gr. laga nr. 21/1991. Þá er það mat dómsins að eðli máls samkvæmt nái uppsögn með þessum hætti til allra þátta samningsins og nái því einnig til þeirra réttinda sem kveðið var á um að skyldu halda sér í allt að 36 mánuði.
Samkvæmt gögnum málsins verður ekki annað séð en að varnaraðili hafi þegar staðið sóknaraðila skil á þeim vinnulaunum, orlofi og verðmæti bílahlunninda sem hann átti rétt á samkvæmt samningi aðila frá 3. mars 2008, að teknu tilliti til styttingar uppsagnarfrestsins og greiðslna frá Nýja Glitni banka hf. sem óumdeilt er að koma skuli til frádráttar kröfu hans.
Verður og að telja að draga beri frá orlofskröfu áunnið orlof hjá öðrum vinnuveitanda með sama hætti og áunnin vinnulaun. Þá er krafa sóknaraðila um greiðslu orlofs lítt reifuð, en aðeins er vísað til þess að sóknaraðili eigi rétt á orlofi á uppsagnarfresti og tilgreind fjárhæð án þess að frekari grein sé gerð fyrir reiknigrundvelli hennar. Verður kröfu sóknaraðila vegna orlofs því hafnað.
Þá verður ekki talið að sóknaraðili eigi rétt til sérstakrar greiðslu vegna kjarasamningsbundinna tryggingaréttinda enda liggur fyrir að hann hóf störf hjá annarri bankastofnun strax eftir uppsögn og hefur því væntanlega notið sambærilegra tryggingaréttinda á grundvelli vinnusamnings við þann vinnuveitanda. Þá er krafa þessi einnig vanreifuð. Verður henni því hafnað.
Í ráðningarsamningi aðila er kveðið á um að sóknaraðili skuli fá afhentan GSM síma og varnaraðili skuli greiða kostnað vegna hans samkvæmt reikningi. Sóknaraðili hefur enga símareikninga lagt fram og er krafa hans því ekki í samræmi við ákvæði ráðningarsamnings aðila og verður henni hafnað þegar af þeirri ástæðu.
Þá hefur sóknaraðili engin gögn lagt fram um að hann hafi stundað nám eða lagt út fé vegna slíks. Þá hefur hann heldur ekki rökstutt með fullnægjandi hætti af hverju honum hefði verið ómögulegt að nýta loforð varnaraðila eins og hann byggir á. Eru því engin efni til að fallast á kröfu sóknaraðila að þessu leyti og eru heldur engin efni til að meta bætur að álitum vegna missis þeirra réttinda sem viðkomandi ákvæði ráðningarsamnings aðila mælir fyrir um.
Með vísan til þess sem að framan greinir er hafnað öllum kröfum sóknaraðila vegna vangoldinna launa- og hlunnindagreiðslna á uppsagnarfresti.
Krafa sóknaraðila lýtur einnig að viðurkenningu á greiðslu iðgjalda í lífeyrissjóð og séreignalífeyrissjóð. Slíkum gjöldum ber varnaraðila lögum samkvæmt skylda til að standa viðkomandi lífeyrissjóðum skil á og hefur sóknaraðili ekki sýnt fram að hann geti átt aðild að slíkri kröfu, sbr. dómur Hæstaréttar 21. mars 2011 í máli réttarins nr. 114/2011. Verður kröfu sóknaraðila um þennan kröfulið því hafnað.
Í samræmi við það sem að framan greinir er fallist á kröfu sóknaraðila um greiðslu launaauka að fjárhæð 11.608.600 krónur. Þykir og mega fallast á dráttarvaxtakröfu sóknaraðila að því er þessa fjárhæð varðar og verða dráttarvextir ákveðnir frá gjalddögum umræddra launaaukagreiðslna til 22. apríl 2009 og njóta vextirnir sömu stöðu í skuldaröð og undirliggjandi krafa, allt eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Með úrskurði þessum er fallist á greiðslu að fjárhæð 11.608.600 krónur en krafa sóknaraðila samkvæmt greinargerð var samtals að fjárhæð 81.881.910 krónur. Krafan var lækkuð undir rekstri málsins og nam 63.481.914 þegar málið var tekið til úrskurðar. Með hliðsjón af því að krafa sóknaraðila er hér aðeins tekin til greina að hluta þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Krafa sóknaraðila, Inga Rafnars Júlíussonar, að fjárhæð 11.608.600 krónur er viðurkennd við slitameðferð varnaraðila, Glitnis hf., ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 9.266.000 krónum frá 1. nóvember 2008 til 1. desember 2008 en af 11.608.600 krónum frá þeim degi til 22. apríl 2009. Krafan ásamt dráttarvöxtum nýtur stöðu í skuldaröð sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferðina.
Staðfest er sú niðurstaða slitastjórnar varnaraðila að hafna öðrum kröfum sóknaraðila.
Hvor aðili skal bera sinn kostnað af málinu.