Hæstiréttur íslands
Mál nr. 257/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Sjálfræðissvipting
|
|
Þriðjudaginn 22. maí 2007. |
|
Nr. 257/2007. |
B(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hdl.) gegn A (enginn) |
Kærumál. Sjálfræðissvipting.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að B yrði svipt sjálfræði á grundvelli a. liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 en sjálfræðissviptingunni markaður skemmri tími.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. apríl 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. maí sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 18. apríl 2007, þar sem sóknaraðili var svipt sjálfræði í tíu mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að sjálfræðissviptingu hennar verði markaður skemmri tími. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Fallist er á með héraðsdómara að skilyrði a. liðar 4. gr. lögræðislaga séu fyrir hendi þannig að þörf sé á því að sóknaraðili verði svipt sjálfræði. Í vottorði yfirlæknis á bráðageðdeild Landspítala-háskólasjúkrahúss 14. mars 2007 kemur fram það álit hans að sjálfræðissviptingin ætti ekki að vara skemur en átta mánuði og ekki lengur en tólf mánuði. Læknirinn gaf skýrslu fyrir héraðsdómi og telur að átta mánaða sjálfræðissvipting ætti að duga sem „fyrsta skref“. Verður sóknaraðili því svipt sjálfræði í átta mánuði frá uppsögu hins kærða úrskurðar.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Sóknaraðili, B, er svipt sjálfræði í átta mánuði frá uppsögu hins kærða úrskurðar.
Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar héraðsdómslögmanns, 100.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 18. apríl 2007.
Mál þetta var þingfest 21. mars sl. og tekið til úrskurðar í dag um kröfu sóknaraðila. Sóknaraðili er A, [kt. og heimilisfang]. Varnaraðili er B, [kt. og heimilisfang].
Sóknaraðili krefst þess að varnaraðili verði svipt sjálfræði í tólf mánuði.
Verjandi varnaraðila, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hdl., gerir þá aðalkröfu að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Til vara gerir hann þá kröfu að sjálfræðissviptingunni verði ekki markaður lengri tími en sex mánuðir og til þrautavara að sjálfræðissviptingunni verði ekki markaður lengri tími en átta mánuðir. Þá gera lögmenn kröfu um þóknun sér til handa og að hún verði greidd úr ríkissjóði.
Málsatvik.
Með bréfi dagsettu 16. mars sl. fór sóknaraðili þess á leit við Héraðsdóm Suðurlands að varnaraðili yrði svipt sjálfræði á þann hátt sem að ofan greinir.
Í kjölfar beiðni þessarar var varnaraðila skipaður verjandi, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson héraðsdómslögmaður. Beiðnin var lögð fram á dómþingi þann 21. mars sl.
Þann 21. febrúar sl. var varnaraðili vistuð á deild 32C á Landspítalaháskólasjúkrahúsi. Þann 23. febrúar sl. staðfesti dóms- og kirkjumálaráðuneytið að varnaraðili yrði vistuð nauðungarvistun á sjúkrahúsi á grundvelli 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga. Þann 13. mars sl., fór lögmaður varnaraðila fram á að nauðungarvistunin yrði ógild en með beiðni sóknaraðila til dómsins þann 16. mars sl. framlengdist vistun varnaraðila með vísan til 2. mgr. 29. gr. lögræðislaga og hefur hún verið vistuð á deild 32C á Landspítala Háskólasjúkrahúsi frá 21. febrúar sl.
Fyrir liggur vottorð Þórðar Sigmundssonar, yfirlæknis á deild 32C á Landspítalaháskólasjúkrahúsi, þar sem varnaraðili dvelur, dags. 14. mars 2007.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila.
Í beiðni sóknaraðila, sem er móðir varnaraðila, kemur fram að varnaraðili hafi verið greind með geðklofa í mars 2006, þegar hún var lögð inn á bráðaafeitrunardeild LSH, en þá hefði hún verið með ranghugmyndir og önnur sturlunareinkenni, sem ekki hefði verið talið unnt að útskýra að fullu sem fíkniefnaneysluvanda. Varnaraðili hefði þá átt við alvarlegan fíkniefnasjúkdóm að stríða í mörg ár og eigi að baki átta innlagnir á afeitrunardeild 33A á Landspítalaháskólasjúkrahúsi, þá síðustu í desember 2006. Þá hefði varnaraðili lagst bráðainnlögn á deild 32C á Landspítalanum þann 21. febrúar sl., og hefði þá áður dvalið í fimm vikur á meðferðarheimilinu í Krýsuvík þar sem hún hefði haldið sig frá allri fíkniefnaneyslu en þrátt fyrir það fengið vaxandi geðrofseinkenni með miklum ofsóknarranghugmyndum og var því óskað eftir innlögn fyrir hana á geðdeild. Þá hefði varnaraðili ekkert sjúkdómsinnsæi en fljótlega eftir innlögn hefði varnaraðili skaðað sig alvarlega með því að berja höfði sínu við vegg, þannig að hún hafi hlotið heilmikinn áverka. Þá kveður sóknaraðili að varnaraðili neiti geðrofseinkennum og ranghugmyndum og telji sig alheilbrigða og ekki þurfa á meðferð að halda. Þá sé nauðsynlegt að vista varnaraðila í allt að tólf mánuði á viðeigandi sjúkrahúsi til að hún fari að svara meðferð og hægt verði að veita henni lyfja- og atferlismeðferð. Þá byggir sóknaraðili á því að varnaraðili geti farið fram á það við dóminn að fá sjálfræðissviptinguna niðurfellda gangi meðferðin betur en reiknað sé með í dag. Sóknaraðili telur að sjúkdómur varnaraðila sé ekki afleiðing fíkniefnaneyslu en í mars árið 2006 hefði komið í ljós við innlögn á bráðaafeitrunardeild að hún væri með ranghugmyndir og önnur sturlunareinkenni sem ekki voru talin útskýrast að fullu af neysluvanda. Sóknaraðili byggir kröfu sína á a-lið 1. mgr. 4. gr. og 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Málsástæður og lagarök varnaraðila.
Varnaraðili kveðst hafa átt við fíkniefnavanda að stríða frá því hún var sautján eða átján ára gömul og hafa neytt fíkniefna að staðaldri í þrjú ár. Í mars 2006 hefði varnaraðili verið lögð inn á geðdeild með ranghugmyndir og aðrar geðrænar truflanir vegna langvarandi neyslu fíkniefna, aðallega amfetamíns. Varnaraðili hefði áttaði sig á því að við svo búið var ekki lengur unað og ákveðið að reyna að gera alvöru úr því að hætta neyslu fíkniefna alfarið en erfiðlega hefði gengið að feta sig á þeirri braut. Varnaraðili hefði hins vegar ekki neytt fíkniefna á árinu 2007 en telur þrátt fyrir það að hún þurfi aðstoð við að halda sig frá fíkn sinni með fagaðilum, svo sem AA-samtökunum. Varnaraðili gaf skýrslu fyrir dómi og kvaðst ekki haldin neinum geðsjúkdómi heldur eingöngu eiga við fíkniefnavanda að stríða. Hún kvaðst hafa farið á meðferðarheimilið í Krýsuvík af sjálfsdáðum og þar hefði henni liðið vel. Hún kvað sig hafa verið tekna fyrirvaralaust frá Krýsuvík og færða á geðdeild þar sem henni væri nánast haldið fanginni. Hún kvaðst ekki fá að fara út, hún fengi enga sálfræðiaðstoð né aðstoð við að vinna á fíkniefnavanda sínum, hún fengi ekki að hringja í vini sína né að umgangast þá og fengi aðeins rétt að fara út á lítinn gang fyrir utan herbergi sitt. Þá fengi hún enga meðferð, hvorki frá fagaðilum né öðrum nema lyfjagjöf. Þá væri það rangt hjá læknum að hún væri haldin geðsjúkdómi og enginn fótur fyrir því að hún væri haldin ranghugmyndum. Kvaðst varnaraðili hafa klárað eina önn í framhaldsskóla, hún hefði hafið nám í Fjölbrautaskólanum á Sauðárkróki og í Borgarholtsskóla en ekki lokið neinum prófum. Varnaraðili kvað engar forsendur vera til staðar til að heimilt væri að svipta hana sjálfræði. Taldi hún að ef vímuefnavandi hennar væri næg ástæða til að svipta hana sjálfræði þá þyrfti að svipta þúsundir Íslendinga sjálfræði.
Niðurstaða.
Samkvæmt a-lið 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 er sóknaraðili réttur aðili málsins. Þórður Sigmundsson yfirlæknir gaf út læknisvottorð þann 14. mars 2007. Kemur þar fram að varnaraðili eigi við alvarlegan geðsjúkdóm og fíkniefnasjúkdóm að stríða. Segir svo í vottorðinu: „[B] er tæplega 21 árs gömul kona með alvarlegan geðsjúkdóm og fíkniefnasjúkdóm. Hún lagðist bráðainnlögn á almenna geðdeild 32C Landspítala þann 21. 02.2007. Hún hafði þá dvalið í fimm vikur á meðferðarheimilinu í Krísuvík, þar haldið sig frá allri fíkniefnaneyslu en fengið vaxandi geðrofseinkenni með miklum ofsóknarranghugmyndum og óskað var eftir innlögn fyrir hana á geðdeild. Við komu á deild var hún mjög æst og óróleg. Hélt illa þræði í samtali og í ljós komu ofsóknarranghugmyndir þess eðlis að búið væri að koma fyrir „tækjum“ innvortis í henni til að hafa bein áhrif á hana. Sjúkdómsinnsæi var ekkert.“ Þá segir ennfremur í vottorðinu: „Hún hefur langa sögu um vímuefnaneyslu, aðallega kannabis, kókaín og amfetamín. Hún lagðist fyrst á afeitrunardeild geðsviðs í júní 2005 en hafði áður verið einn sólarhring á meðferðarstöð SÁÁ að Vogi. Hún á að baki átta innlagnir á afeitrunardeild 33A á síðustu tveimur árum, þá síðustu í desember árið 2006. Í mars 2006 kemur í ljós við innlögn á bráðaafeitrunardeild að hún er með ranghugmyndir og önnur sturlunareinkenni sem ekki eru talin útskýrast að fullu af neysluvanda og þá greind með geðklofa. Í desember 2006 er hafin meðferð með geðrofslyfjum í forðasprautum. [B] svaraði þeirri meðferð að hluta en hætti að mæta í sprautur í byrjun janúar. Eftir það vaxandi geðrofseinkenni á ný og engin neysla, sem staðfestir frekar geðklofagreiningu. Í dag (14.03.2007) er [B] mun rólegri en við komu og í viðtali er hún samvinnufús en svarar spurningum stuttaralega. Geðhrif hennar í viðtali eru flöt. Hún neitar kvíða eða þunglyndi. Neitar geðrofseinkennum svo sem ranghugmyndum sem hún hafði við komu. Hún telur sig alheilbrigða og þurfi ekki á meðferð að halda og hefur ekkert sjúkdómsinnsæi.“
Þórður Sigmundsson, yfirlæknir deildar 32C á Landspítala-háskólasjúkrahúsi, gaf símaskýrslu fyrir dóminum og staðfesti það sem kemur fram í vottorði hans. Taldi hann varnaraðila ekki færa um að sjá fótum sínum forráð án þess að vinna bug á sjúkdómi sínum, en hún neitar í dag að hún eigi við geðrænan sjúkdóm að stríða. Kvaðst Þórður sjá varnaraðila á hverjum degi en einu sinni átt formleg samskipti við hana sjálfa þegar hún kom á deildina. Kvaðst hann byggja vottorð sitt á gögnum sem stöfuðu frá lækni í Krýsuvík, Þórarni Hannessyni lækni sem stundaði varnaraðila á bráðaafeitrunardeild Landspítalans, viðtali hans sjálfs við hana og upplýsingum þess geðlæknis sem stundaði hana daglega á spítalanum. Kvað Þórður að einu meðferðina sem gagnaðist sjúklingi eins og varnaraðila, haldin bráðum geðrofssjúkdómi, væri lyfjameðferð, hjúkrun og almennur stuðningur sem varnaraðili fengi nú.
Guðrún Geirsdóttir, geðlæknir á deild 32C á Landspítala-háskólasjúkrahúsi, gaf einnig símaskýrslu fyrir dóminum og staðfesti að varnaraðili ætti við geðklofa að stríða og hefði ekkert sjúkdómsinnsæi. Þá kvað Guðrún að bakslag hefði komið í bata varnaraðila um páskana þegar hún strauk af deildinni. Kvað hún ranghugmyndir varnaraðila aðallega snúast um að starfsfólk deildarinnar væri að ráðast á sig, nauðganir og fleira í þeim dúr auk þess sem hún skaðaði sig og kenndi starfsfólki um. Lýsti Guðrún þeirri atferlismeðferð sem varnaraðili fengi. Þá væri varnaraðili að byrja í lyfjameðferð og væri ekki hægt að meta árangur af frekari meðferð fyrr en lyfin væru farin að hafa áhrif á sjúkdóm hennar. Taldi Guðrún að meðferð við fíkniefnaneyslu væri ekki raunhæft úrræði fyrir varnaraðila því hún þyrfti meðferð og lyf við geðsjúkdómi sínum.
Varnaraðili neitaði fyrir dómi að hún ætti við geðsjúkdóm að stríða og taldi sig alheilbrigða utan að hún ætti við fíkniefnavanda að stríða. Taldi varnaraðili að hún gæti best unnið á fíkn sinni með aðstoð AA-samtakanna og meðferð í Krýsuvík eða í Hlaðgerðarkoti. Fyrir liggur að varnaraðili strauk frá Landspítalanum föstudaginn langa og hvarf í tvo sólarhringa. Eftir að lýst hafði verið eftir henni gaf hún sig fram við lögreglu. Kvaðst hún hafa verið að kalla eftir hjálp með þessari hegðan sinni en henni væri haldið gegn vilja sínum á geðdeild.
Með læknisvottorði, sem fyrir liggur í málinu, útgefnu af Þórði Sigmundssyni yfirlækni, staðfestingu hans fyrir dómi og vitnisburði Guðrúnar Geirsdóttur geðlæknis, sem umgengst varnaraðila daglega, hefur verið sýnt fram á, svo óyggjandi sé, að varnaraðili er haldin geðsjúkdómi sem ekki tengist fíkniefnavanda hennar eingöngu þó svo að draga megi þá ályktun að fíkniefnaneysla hennar hafi haft einhver áhrif á framvindu sjúkdóms hennar. Þá þykir dóminum ljóst, bæði með neitun varnaraðila fyrir dóminum um að hún sé haldin geðsjúkdómi og staðfestingum tveggja lækna að varnaraðili hafi ekki innsæi í sjúkdóm sinn, að varnaraðili muni ekki þiggja þá meðferð sem sjúkdómur hennar þarfnast, fái hún sjálf að ráða. Hún telur vanda sinn eingöngu stafa af fíkniefnaneyslu en ekki geðrofseinkennum. Hún neitar því að hafa átt við ranghugmyndir að stríða og kvað það „kjaftasögur“ hjá læknum að telja hana haldna ofsóknarranghugmyndum. Telja læknar að það sé eingöngu tíminn og lyfja- og atferlismeðferð sem geti gefið árangur við meðhöndlun á sjúkdómnum. Þá kom fram hjá Þórði Sigmundssyni yfirlækni að búið væri að sækja um fyrir varnaraðila á endurhæfingardeild þar sem ítarlegri meðferð fari fram.
Að öllu þessu virtu verður að telja nægjanlega fram komið að varnaraðili sé haldin slíkum geðsjúkdómi að skilyrði a-liðar 4. gr. lögræðislaga séu uppfyllt og rétt sé að svipta varnaraðila sjálfræði.
Sóknaraðili krefst sjálfræðissviptingar í tólf mánuði. Í læknisvottorði Þórðar Sigmundssonar yfirlæknis kemur fram að hann telji að sjálfræðissviptingin ætti ekki að vara skemur en átta mánuði og ekki lengur en tólf mánuði. Fyrir dómi taldi Þórður að átta mánuðir væru í það skemmsta en hugsanlega mætti ná fram bata á þeim tíma. Guðrún Geirsdóttir geðlæknir taldi að árangur myndi ekki nást á skemmri tíma en tólf mánuðum en taldi möguleika á að ná tilsettum árangri á skemmri tíma. Sjálfræði manna eru grundvallarmannréttindi og því ber að gera strangar kröfur við ákvörðun um sviptingu þeirra réttinda. Þó verður sú skerðing sem felst í sjálfræðissviptingu að vera þannig að hún tryggi þeim sem verða fyrir henni, þann árangur sem vænst er að náist með aðgerðum í hverju tilviki. Í þessu tilfelli er markmið sviptingarinnar að hjálpa varnaraðila að fá viðeigandi meðferð við alvarlegum sjúkdómi, sem hún neitar að viðurkenna, svo hún geti í framtíðinni notið þeirra lífsgæða sem hún nú fer á mis við. Að þessu virtu þykir rétt að taka kröfu sóknaraðila til greina eins og segir í úrskurðarorði.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar, héraðsdómslögmanns, og skipaðs talsmanns sóknaraðila, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur, héraðsdómslögmanns, úr ríkissjóði, en hún þykir hæfilega ákveðin 150.000 krónur, til handa hvoru um sig.
Úrskurð þennan kveður upp Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
B, [kt. og heimilisfang], er svipt sjálfræði í tíu mánuði frá úrskurðardegi.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar, héraðsdómslögmanns, og skipaðs talsmanns sóknaraðila, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur, héraðsdómslögmanns, 150.000 krónur til handa hvoru um sig, greiðist úr ríkissjóði. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.