Hæstiréttur íslands

Mál nr. 456/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti


                                     

Þriðjudaginn 10. september 2013.

Nr. 456/2013.

Ákæruvaldið

(Ólafur Þ. Hauksson sérstakur saksóknari)

gegn

X

(Óttar Pálsson hrl.)

Y

(Helgi Birgisson hrl.)

Z og

(Gestur Jónsson hrl.)

Þ

(Bjarni Eiríksson hdl.)

Kærumál. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X, Y, Z og Þ um að lagt yrði fyrir ákæruvaldið að veita verjendum þeirra aðstöðu til að kynna sér öll gögn sem aflað var og eftir atvikum lagt hald á í tengslum við rannsókn málsins. Þar sem heimild brast til kæru úrskurðarins var málinu vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.

Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 1. júlí 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2013. Með þeim úrskurði var hafnað kröfu varnaraðila um að lagt verði fyrir ákæruvaldið að veita verjendum þeirra aðstöðu til að kynna sér öll gögn sem aflað var og eftir atvikum lagt hald á í tengslum við rannsókn máls þessa, þar með talin hvers kyns skjöl, rafræn gögn, svo sem tölvupóstar og upptökur símtala. Um kæruheimild vísa varnaraðilar aðallega til c. liðar 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en til vara d. liðar sömu málsgreinar. Varnaraðilar krefjast þess að áðurgreind krafa þeirra verði tekin til greina. 

Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Í hinum kærða úrskurði er rakið efni bréfs allra verjenda varnaraðila til sérstaks saksóknara 29. apríl 2013, svarbréfs sérstaks saksóknara til verjendanna 16. maí 2013 og sameiginlegrar bókunar varnaraðila sem verjendurnir lögðu fram í þinghaldi 25. júní sama ár, en hún hafði meðal annars að geyma svofellda kröfugerð: „Þess er krafist að verjendur fái aðstöðu til að kynna sér öll gögn sem aflað var og eftir atvikum lagt hald á í tengslum við rannsókn málsins, þ.m.t. hvers kyns skjöl, rafræn gögn, svo sem tölvupósta, svo og upptökur símtala.“ Í bókuninni var um lagagrundvöll kröfunnar vísað til 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008, sbr. einnig 3. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannfrelsis og mannréttinda, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Málið var flutt um kröfu verjenda 25. júní 2013 og með hinum kærða úrskurði sem kveðinn var upp 28. sama mánaðar var kröfunni hafnað.

Eins og áður greinir vísa varnaraðilar um kæruheimild aðallega til c. liðar 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 en til vara d. liðar sömu málsgreinar. Í 1. mgr. 192. gr. laganna eru taldir með tæmandi hætti þeir úrskurðir héraðsdómara sem kærðir verða til Hæstaréttar á grundvelli laganna áður en aðalmeðferð sakamáls hefst. Í c. lið málsgreinarinnar kemur fram að kæru til Hæstaréttar sæti synjun um að láta af hendi afrit af gögnum eða veita leyfi til að hlýða á upptöku úr þinghaldi. Beiðni ákærðu lýtur að því að fá hjá sérstökum saksóknara aðstöðu til að kynna sér öll gögn sem aflað var og eftir atvikum lagt hald á í tengslum við rannsókn máls ákærðu, þar með talin hvers kyns skjöl, rafræn gögn, svo sem tölvupóstar og upptökur símtala. Úrskurður héraðsdómara þar sem slíkri beiðni er hafnað felur hvorki í sér synjun um að láta af hendi afrit af gögnum í skilningi ákvæðisins né um leyfi til að hlýða á upptöku úr þinghaldi. Fellur synjun héraðsdómara í máli þessu því hvorki undir orðalag ákvæðisins né verður henni jafnað til þess sem þar kemur fram. Verður úrskurði héraðsdómara í máli þessu því ekki skotið til Hæstaréttar með vísan til c. liðar 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008. Í d. lið sömu málsgreinar kemur fram að kæru til Hæstaréttar sæti úrskurðir héraðsdómara um atriði varðandi réttindi sakbornings, verjanda hans eða lögmanns við rannsókn máls, svo og skipun verjanda eða synjun um skipun hans. Úrskurður héraðsdómara í máli þessu fellur hvorki undir efni né orðalag d. liðar 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 og verður heldur ekki kærður til Hæstaréttar með vísan til þess ákvæðis. Kæruheimild er því ekki fyrir hendi og verður málinu af þeim sökum vísað frá Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júní 2013.

Málið er höfðað með ákæru sérstaks saksóknara, útgefinni 12. desember 2012, á hendur X, Y, Z og Þ og aðallega er ákært fyrir umboðssvik. Málið var þingfest 7. þ.m. þar sem ákærðu neituðu allir sök.

Við fyrirtöku málsins 11. febrúar sl. var því frestað til gagnaöflunar að ósk verjenda. Verjendur hafa óskað eftir aðgangi að gögnum hjá lögreglu. Bréfasamskipti vegna þessa verða nú rakin. Í bréfi verjenda allra ákærðu, dagsettu 29. apríl 2013, til sérstaks saksóknara segir m.a.

,,Við þingfestingu málsins þann 7. janúar sl. var af hálfu ákæruvaldsins lagt fram umtalsvert magn skjala. Af skýrslu lögreglu um rannsókn málsins, sbr. dskj. nr. 20, má þó ráða að ýmis rannsóknargögn séu ekki meðal dómskjala og hafi heldur ekki verið afhent verjendum á rannsóknarstigi málsins. Af þeim sökum er þess nú óskað að undirritaðir fái aðstöðu til að kynna sér öll gögn sem aflað var og eftir atvikum lagt hald á í tengslum við rannsókn málsins, þ.m.t. hvers kyns skjöl, rafræn gögn, svo sem tölvupósta, svo og upptökur símtala. Um lagagrundvöll erindis þessa vísast til 1. mgr. 37. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sbr. einnig 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár nr. 33/1994. Þá vísa undirritaðir, til hliðsjónar, til 1. gr. samskiptareglna dómstóla, ákæruvalds og verjenda við meðferð stórra efnahagsbrotamála fyrir héraðsdómstólum, sbr. tilkynningu dómstólaráðs nr. 2/2012.“

                Með bréfi sérstaks saksóknara, dagsettu 16. maí 2013, var kröfu verjenda hafnað. Bréfið hljóðar svo:

,,Vísað er til bréfs ykkar dags. 29. apríl sl. þar sem óskað er eftir aðstöðu til að kynna sér öll gögn sem aflað var og eftir atvikum lagt hald á í tengslum við rannsókn málsins, þ.m.t. hvers kyns skjöl, rafræn gögn svo sem tölvupósta, svo og upptökur símtala. Varðandi lagarök var vísað til 1. mgr. 37. gr.  laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 sbr. einnig 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög nr. 62/1994 og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár nr. 33/1944 auk vísunar í 1.gr. samskiptareglna dómstóla, ákæruvalds og verjenda við meðferð stórra efnahagsbrotamála fyrir dómstólum, sbr. tilkynning dómstólaráðs nr. 2/2012.

Beiðninni eins og hún er sett fram um ótakmarkaðan aðgang að öllum upptöldum gögnum er hér með hafnað með eftirgreindum rökstuðningi:

Skv. 52. gr. sakamálalaga nr. 88/2008 er rannsókn sakamála í höndum lögreglu nema öðruvísi sé fyrir mælt í lögum. Skv. 53. gr. laganna skulu þeir sem rannsaka sakamál vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós og horfa þar jafnt til þess sem horfir til sýknu og sektar. Lögregla getur beitt tilteknum lögbundnum þvingunarráðstöfunum við rannsóknir sakamála og aflað þannig gagna, en gerir aðeins þau gögn sem málið varða að rannsóknargögnum máls.

Þegar kemur að því að ákæra er gefin út ákveður ákærandi hvaða gögn hann leggur fram í málinu, sbr. 154. gr. sakamálalaga. Fylgja ekki öll rannsóknargögn málinu, heldur einungis þau gögn sem ákæruvaldið byggir málið á. Hafa saksóknarar við embætti sérstaks saksóknara beitt þeirri aðferð að yfirstrika í skjalaskrá þau rannsóknargögn sem ekki eru lögð fram, þannig að ákærðu sjái hvaða rannsóknargögn það eru sem ekki eru lögð fram. Þau gögn geta verjendur yfirfarið hjá sækjanda eftir þingfestingu, sbr. 1. gr. samskiptareglna við meðferð stórra efnahagsbrotamála, sem þið vitnið til í áðurnefndu bréfi ykkar, og gert kröfu um að þau verði lögð fram.

Að mati undirritaðs er augljóst að í umræddri 1. gr. samskiptareglna um meðferð stórra efnahagsbrotamála er ekki átt við öll gögn sem haldlögð hafa verið við húsleit, alla tölvupósta sem haldlagðir hafa verið eða öll símtöl sem hlustuð hafa verið við rannsókn máls hjá lögreglu. Þessi gögn eiga það sameiginlegt að hafa verið aflað á grundvelli lögbundinna þvingunarúrræða lögreglu og innihalda iðulega viðkvæmar persónulegar upplýsingar sem varða rannsókn málsins ekki á nokkurn hátt og eðlilegt er að leynt fari. Lögreglan fer því í yfir umrædd gögn og gerir þau gögn að rannsóknargögnum máls sem málið varða, en önnur ekki. Er í þessu sambandi bent á 53. gr. sakamálalaga, um þá ríku hlutlægnisskyldu sem á lögreglu hvílir við rannsókn sína. Þá hvílir rík og lögbundin þagnarskylda á bæði lögreglu og ákæruvaldi, sbr. annars vegar 22. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og hins vegar 18. gr. sakamálalaga nr. 88/2008, sem tryggir að viðkvæm persónuleg málefni sem koma fram í umræddum gögnum eða annað sem eðlilegt er að leynt fari verði ekki gert opinbert. Ef ákærandi eða lögreglumaður brýtur gegn þessum ákvæðum getur það varðað refsingu skv. 136. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Allt aðrar skyldur hvíla á verjendum. Hlutverk verjanda er ekki að vera hlutlaus heldur þvert á móti að draga fram það í málinu sem verða má skjólstæðingi hans til sýknu eða hagsbóta og gæta réttar hans í hvívetna. Þá er verjanda heimilt, skv. 4. mgr. 37. gr. sakamálalaga að láta skjólstæðingi sínum í té eintak af gögnum máls sem hann fær aðgang að. Augljóst er að ef sakborningur fengi með þessum hætti upplýsingar um viðkvæma einkahagi annarra sakborninga eða vitna, eða annað sem leynt á að fara samkvæmt lögum, er mikil hætta á að hann myndi misnota slíkar upplýsingar til að reyna að hafa áhrif á viðkomandi aðila og framgang málsins í heild sinni.

Þið vísið, um þennan meinta rétt ykkar til að kynna ykkur öll haldlögð gögn, öll símtöl sem hlustuð hafa verið við rannsókn og alla tölvupósta sem haldlagðir hafa verið vegna rannsóknar máls, til 37. gr. sakamálalaga. Þar kemur hins vegar skýrt fram að um sé að ræða rétt til að kynna sér „gögn í málinu“. Haldlögð gögn, símtöl og tölvupóstar sem ekki varða mál og hafa ekki verið gerð að  rannsóknargögnum í máli falla augljóslega ekki þar undir.“

                Við fyrirtöku málsins 25. þ.m. lögðu verjendur fram sameiginlega kröfugerð sem hljóðar svo:

                ,,Við þingfestingu málsins þann 7. janúar sl. var af hálfu ákæruvaldsins lagt fram umtalsvert magn skjala. Af skýrslu lögreglu um rannsókn málsins, sbr. dskj. nr. 20, má þó ráða að ýmis rannsóknargögn séu ekki meðal dómskjala og hafi heldur ekki verið afhent verjendum á rannsóknarstigi málsins.

Erindi verjenda til sérstaks saksóknara þar sem þess var óskað að verjendur fengju aðstöðu til að kynna sér öll gögn málsins hefur verið hafnað, sbr. bréf verjenda, dags. 29. apríl 2013, og svarbréf sérstaks saksóknara, dags. 16. maí 2013. Er þess nú krafist að dómari leysi úr ágreiningnum með úrskurði sbr. 2. mgr. 181. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Kröfugerð ákærðu:

Þess er krafist að verjendur fái aðstöðu til að kynna sér öll gögn sem aflað var og eftir atvikum lagt hald á í tengslum við rannsókn málsins, þ.m.t. hvers kyns skjöl, rafræn gögn, svo sem tölvupósta, svo og upptökur símtala.

Um lagagrundvöll erindis þessa vísast til 1. mgr. 37. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sbr. einnig 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár nr. 33/1994.

Þess er óskað að ákærðu verði gefinn kostur á að skýra og rökstyðja mál sitt nánar munnlega í sérstöku þinghaldi.“

Við fyrirtöku málsins 25. þ.m. voru verjendur inntir eftir því hvort unnt væri að takmarka kröfugerðina með því að vísa til ákveðinna skjala sem vísað var til í dskj. nr. 20, en verjendur vísa til þess dómskjals í kröfugerð sinni. Fram kom hjá verjendum að þetta væri ekki unnt þar sem ekki lægi fyrir í málinu um hvaða gögn væri að ræða, en ráða mætti af nefndu dómskjali að ýmis rannsóknarskjöl væru fyrir hendi sem ekki væru hluti dómskjala málsins. Eftir þetta var ljóst að ekki væri unnt að ná sáttum um að ákæruvaldið gæfi verjendum tækifæri til að skoða nánar tilgreind gögn, en ákæruvaldið lýsti sig fúst til þess. Var málið eftir þetta flutt um ofangreinda kröfugerð verjenda.

Verjendur vísuðu til meginreglu 1. mgr. 37. gr. sakamálalaga og þeirra lagaákvæða sem vísað er til í kröfugerðinni sem tekin er upp að framan.

Ákærandinn krefst þess að kröfu verjanda verði hafnað. Ákæruvaldið reifaði sjónarmið sem fram koma í ofangreindu bréfi, dagsettu 16. maí 2013. Fram kom hjá sækjandanum að kröfugerð verjenda væri svo víðtæk að ómögulegt væri að verða við henni. Mál þetta hafi á rannsóknarstigi tengst öðrum málum og fjölda einstaklinga sem ekki séu undir ákæru í þessu máli. Ýmislegt sem aldrei hafi orðið rannsóknargögn í máli þessu og tengist öðrum málum t.a.m. hljóðrituð símtöl sem skipti þúsundum og fjöldi tölvuskeyta hlaupi á milljónum.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. sakamálalaga skal verjandi jafn skjótt og unnt er fá afrit af öllum skjölum máls sem varða skjólstæðing hans svo og aðstöðu til að kynna sér önnur gögn í málinu.

Ákæruvaldið hefur lagt fram þau sýnilegu sönnunargögn sem það hyggst leggja fram, sbr. 154. gr. sakamálalaga. Fyrir liggur að ákæruvaldið hefur boðið verjendum að yfirfara þau gögn sem ekki voru lögð fram við þingfestingu málsins og eru yfirstrikuð í skjalaskrá lögreglu. Tekur þetta mið af þeim gögnum sem voru merkt rannsóknargögn undir rannsókninni. Skjöl máls í skilningi 1. mgr. 37. gr. sakamálalaga eru þau skjöl sem gerð hafa verið að rannsóknargögnum. Það er í verkahring lögreglu að meta það undir rannsókn hvaða gögn það eru en hlutlægnisskyldan er tryggð í 53. gr. sakamálalaga og ber ákæruvaldið hallann af því ef gögn skortir. Hluti rannsóknargagna sem skjalmerkt voru undir rannsókninni hefur ekki verið lagður fram eins og rakið er í ofangreindu bréfi sérstaks saksóknara. Hins vegar geta verjendur kynnt sér þau gögn og þar með öll gögn sem hafa verið rannsóknargögn málsins í skilningi laga. Önnur gögn eru ekki skjöl máls í skilningi laganna. Skjalaframlagning í þessu máli og aðgangur verjenda að þeim er eins og tíðkast hefur og svo sem lög áskilja. Samkvæmt því skortir kröfugerð verjenda f.h. ákærðu lagastoð og eru ekki efni til að verða við henni. Af því leiðir að sú niðurstaða fer í engu gegn ákvæðum 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eða 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar sem vitnað er til í kröfugerð verjenda.

Samkvæmt þessu er kröfugerð verjenda í málinu hafnað.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Ofangreindri kröfu ákærðu í málinu er hafnað.