Hæstiréttur íslands
Mál nr. 376/2005
Lykilorð
- Kjarasamningur
- Vinnusamningur
- Opinberir starfsmenn
- Tómlæti
|
|
Fimmtudaginn 16. febrúar 2006. |
|
Nr. 376/2005. |
Sigurborg Lilja Baldvinsdóttir(Guðni Á. Haraldsson hrl.) gegn Reykjavíkurborg (Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.) |
Kjarasamningur. Vinnusamningur. Opinberir starfsmenn. Tómlæti.
Heimilisfræðikennarinn S hafði notið sérstakrar þóknunar fyrir matarinnkaup á grundvelli samþykktar borgarráðs frá 1981. Við gildistöku nýs kjarasamnings 1. ágúst 2001 felldi R niður umrædda þóknun og taldi greiðslu fyrir umrædd störf felast í föstum mánaðarlaunum hennar eftir þann tíma. Ekki þótti í ljós leitt, að S hafi gert athugasemdir við þetta fyrr en í febrúar 2004. Á þessu tímabili hafði hún á hinn bóginn ritað undir þrjár vinnuskýrslur, þar sem ekki var getið um hina umdeildu þóknun og tekið mánaðarlega við launagreiðslum úr hendi R án þess að gera fyrirvara um kröfu sína. Talið var, að allan þennan tíma hafi S mátt vera ljóst að R taldi sér ekki skylt að greiða þóknunina. S var með tómlæti sínu um svo langan tíma talin hafa glatað rétti til að krefja R um þóknun þessa og var R þegar af þeirri ástæðu sýknuð af kröfu S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. ágúst 2005. Hún krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 695.791 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 15.757 krónum frá 1. október 2001 til 1. nóvember sama ár, af 31.514 krónum frá þeim degi til 1. desember sama ár, af 47.271 krónu frá þeim degi til 1. janúar 2002, af 70.772 krónum frá þeim degi til 1. febrúar sama ár, af 94.273 krónum frá þeim degi til 1. mars sama ár, af 117.774 krónum frá þeim degi til 1. apríl sama ár, af 141.275 krónum frá þeim degi til 1. maí sama ár, af 164.776 krónum frá þeim degi til 1. júní sama ár, af 188.277 krónum frá þeim degi til 1. október sama ár, af 211.778 krónum frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, af 235.279 krónum frá þeim degi til 1. desember sama ár, af 258.780 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2003, af 282.281 krónu frá þeim degi til 1. febrúar sama ár, af 305.782 krónum frá þeim degi til 1. mars sama ár, af 329.283 krónum frá þeim degi til 1. apríl sama ár, af 352.784 krónum frá þeim degi til 1. maí sama ár, af 376.285 krónum frá þeim degi til 1. júní sama ár, af 399.786 krónum frá þeim degi til 1. október sama ár, af 423.287 krónum frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, af 446.788 krónum frá þeim degi til 1. desember sama ár, af 470.289 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2004, af 494.495 krónum frá þeim degi til 1. febrúar sama ár, af 518.701 krónu frá þeim degi til 1. mars sama ár, af 542.907 krónum frá þeim degi til 1. apríl sama ár, af 567.113 krónum frá þeim degi til 1. maí sama ár, af 591.319 krónum frá þeim degi til 1. júní sama ár, af 615.525 krónum frá þeim degi til 1. september sama ár og af 695.791 krónu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Tveimur dögum fyrir munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti óskaði stefndi eftir að leggja fram í málinu tvö ný skjöl, en frestur til gagnaöflunar samkvæmt 1. mgr. 160. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 14. gr. laga nr. 38/1994, var þá löngu liðinn. Áfrýjandi mótmælti framlagningu skjala þessara. Skjölin varða atburði sem áttu sér stað á árinu 2001 og er ljóst að stefndi hefur haft þau undir höndum frá því fyrir þann tíma er mál þetta var höfðað. Með vísan til nefnds lagaákvæðis verður stefnda synjað um að leggja þessi skjöl fram og verður ekki litið til þeirra við úrlausn málsins.
Fyrir liggur að frá og með 1. ágúst 2001 felldi stefndi niður þóknun til áfrýjanda, en hennar hafði hún notið á grundvelli samþykktar borgarráðs 16. júní 1981 sem grein er gerð fyrir í hinum áfrýjaða dómi. Taldi stefndi greiðslu fyrir þessi störf felast í föstum mánaðarlaunum áfrýjanda eftir þennan tíma. Í málinu hefur ekki verið í ljós leitt, að áfrýjandi hafi gert athugasemdir við þetta fyrr en í febrúar 2004. Á þessu tímabili ritaði hún á hinn bóginn undir þrjár vinnuskýrslur, þar sem fram kom áætlun um vinnutilhögun kennsluársins án þess að þar væri getið um hina umdeildu þóknun og tók mánaðarlega við launagreiðslum úr hendi stefnda án þess að gera fyrirvara um kröfu sína. Allan þennan tíma mátti áfrýjanda vera ljóst að stefndi taldi sér ekki skylt að greiða þóknunina. Var stefnda við svo búið rétt að líta svo á að áfrýjandi gerði ekki ágreining um þetta. Með tómlæti sínu um svo langan tíma telst áfrýjandi hafa glatað rétti til að krefja stefnda um þóknun þessa. Þegar af þessari ástæðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um sýknu stefnda af kröfu áfrýjanda og eftir atvikum einnig um að fella niður málskostnað í héraði.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er staðfestur.
Áfrýjandi, Sigurborg Lilja Baldvinsdóttir, greiði stefnda, Reykjavíkurborg, 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júní 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var 23. maí sl., var höfðað 23. september 2004 af Sigurborgu Lilju Baldvinsdóttur, Breiðvangi 48, Hafnarfirði, á hendur Reykjavíkurborg, Ráðhúsinu, Tjarnargötu, Reykjavík.
Endanleg dómkrafa stefnanda er að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 695.791 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 15.757 krónum frá 1. október 2001 til 1. nóvember s.á., en frá þeim degi af 31.514 krónum til 1. desember s.á, en frá þeim degi af 47.271 krónu til 1. janúar 2002, en frá þeim degi af 70.772 krónum til 1. febrúar s.á., en frá þeim degi af 94.273 krónum til 1. mars s.á., en frá þeim degi af 117.774 krónum til 1. apríl s.á., en frá þeim degi af 141.275 krónum til 1. maí s.á., en frá þeim degi af 164.776 krónum til 1. júní s.á., en frá þeim degi af 188.277 krónum til 1. október s.á., en frá þeim degi af 211.778 krónum til 1. nóvember s.á., en frá þeim degi af 235.279 krónum til 1. desember s.á., en frá þeim degi af 258.780 krónum til 1. janúar 2003, en frá þeim degi af 282.281 krónu til 1. febrúar s.á., en frá þeim degi af 305.782 krónum til 1. mars s.á., en frá þeim degi af 329.283 krónum til 1. apríl s.á., en frá þeim degi af 352.784 krónum til 1. maí s.á., en frá þeim degi af 376.285 krónum til 1. júní s.á., en frá þeim degi af 399.786 krónum til 1. október s.á., en frá þeim degi af 423.287 krónum til 1. nóvember s.á., en frá þeim degi af 446.788 krónum til 1. desember s.á., en frá þeim degi af 470.289 krónum til 1. janúar 2004, en frá þeim degi af 494.495 krónum til 1. febrúar s.á., en frá þeim degi af 518.701 krónu til 1. mars s.á., en frá þeim degi af 542.907 krónum til 1. apríl s.á., en frá þeim degi af 567.113 krónum til 1. maí s.á., en frá þeim degi af 591.319 krónum til 1. júní s.á., en frá þeim degi af 615.525 krónum til 1. september s.á., en frá þeim degi af 695.791 krónu til greiðsludags. Einnig er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að mati réttarins.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Stefnandi er heimilisfræðikennari og hefur kennt við grunnskóla Reykjavíkur frá árinu 1977, þar af við Breiðholtsskóla síðastliðin 18 ár. Með samþykkt borgarráðs 16. júní 1981 var ákveðið að greiða heimilisfræðikennurum þóknun fyrir matarinnkaup samsvarandi tveggja klukkustunda vinnu á viku, en í fundargerð borgarráðs var í því sambandi vísað til erindis heimilsfræðikennara í bréfum þeirra 11. nóvember 1980 og 26. maí 1981. Þessar sérstöku greiðslur hafa ekki verið inntar af hendi af hálfu stefnda eftir 1. ágúst 2001 þegar kjarasamningur Kennarasambands Íslands og launanefndar sveitarfélaga fyrir grunnskóla á því ári hafði tekið gildi.
Stefnandi krefst þess að stefndi greiði henni 10,4 klukkustundir á mánuði á tímabilinu 1. ágúst 2001 til 1. júní 2004 í þóknun fyrir matarinnkaup og aðra umsjón sem ekki teljist til hefðbundinna kennslustarfa eða undirbúnings kennslu. Af stefnda hálfu er því haldið fram að vinna sem þar um ræði og þóknun fyrir hana hafi verið felld inn í kjarasamninginn frá árinu 2001 og því hafi greiðslur þegar verið inntar af hendi. Einnig er því haldið fram af hálfu stefnda að stefnandi hafi með tómlæti fyrirgert rétti til að krefjast umræddra greiðslna en engin krafa hafi komið fram af hennar hálfu vegna þeirra fyrr en með bréfi lögmanns 18. febrúar 2004 þegar farið var fram á að stefndi greiddi heimilisfræðikennurum í Reykjavík yfirvinnu samkvæmt samþykktinni frá 16. júní 1981.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi lýsir málsatvikum þannig að hún hafi útskrifast sem kennari frá Hússtjórnarkennaraskóla Íslands 1973 og hafi sem slík starfað við grunnskóla Reykjavíkur frá árinu 1977. Síðastliðin 18 ár hafi hún unnið við Breiðholtsskóla og kennt heimilisfræði. Hún sé félagsmaður í félagi innan Kennarasambands Íslands (KÍ).
Frá árinu 1981 hafi hluti af launakjörum hennar verið tvær yfirvinnustundir á viku fyrir aukastörf. Á launaseðlum hennar hafi greiðsla þessi verið auðkennd sem tækjagæsla. Greiðslur þessar megi rekja allt til ársins 1981, en þá hafi Félag heimilisfræðikennara sent erindi til Reykjavíkurborgar þess efnis að heimilisfræðikennurum yrði greitt sérstaklega fyrir innkaup og frágang á kennsluefni og innkaup og umsjón með kennsluáhöldum. Á fundi borgarráðs Reykjavíkur 16. júní 1981 hafi eftirfarandi samþykkt verið gerð:
"Borgarstjóri gerði grein fyrir umsögn, er gerð var á fundi borgarstjóra og bæjarstjóra á höfuðborgarsvðinu um erindi frá heimilsfrðikennurum um þóknun fyrir matarinnkaup. Er erindi kennaranna dags. 11. nóv. og 26. maí s.l. Samþykkt var að greiða heimilsfrðikennurum 2 tíma á viku fyrir aukastörf með 3 atkv."
Sambærilegar greiðslur hafi verið teknar upp á sama tíma í nágrannasveitarfélögum stefnda, þ.m.t. Hafnarfirði.
Stefndi hafi ásamt öðrum sveitarfélögum greitt samkvæmt þessu næstu 20 árin, allt fram til 1. ágúst 2001, en hafi þá fellt þær einhliða niður á þeirri forsendu að allar slíkar aukagreiðslur hefðu verið færðar inn í laun kennara. Það hafi grundvallast á skilningi stefnda og Launanefndar sveitarfélaga (LN) á eftirfarandi yfirlýsingu í kjarasamningi KÍ og LN frá 9. janúar 2001:
"Forsendur kjarasamnings þessa eru þr að ákvarðanir sem teknar hafa verið um viðbótarráðningarkjör sem samið hefur verið um á grundvelli launategunda kjarasamnings, standi til og með 31. júlí 2001 og falli þá úr gildi."
Þannig hafi sveitarfélög haldið því fram að þessar umsömdu persónubundnu greiðslur hefðu átt að falla niður í samræmi við efni yfirlýsingarinnar. Þessu hafi frá upphafi verið mótmælt af stéttarfélagi stefnanda, KÍ. Málið hafi verið lagt fyrir samstarfsnefnd KÍ og LN. Nefndin hafi tekið málið fyrir 16. maí 2002, en málið hafi ekki verið afgreitt þar sem málaferli væru í gangi við Hafnarfjarðarbæ. Í samstarfsnefnd hafi m.a. setið yfirmaður kjaraþróunardeildar Reykjavíkurborgar. Félag grunnskólakennara hafi sent frá sér trúnaðarmannabréf 12. febrúar 2002, þar sem fram komi að viðhald og innkaup væru ekki í verkahring kennara og að við gerð kjarasamnings aðila hafi greiðslur þessar ekki komið til umræðu. Til þess að fá úr þessu skorið hafi verið höfðað mál fyrir Héraðsdómi Reykjaness vegna sérgreinakennara hjá Hafnarfjarðarbæ. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness í málinu nr. E-964/2002, hafi rétturinn fallist á að kennarar í Hafnarfirði hefðu átt rétt á greiðslum þessum og að kjarasamningur gæti ekki fellt niður slík einstaklingsbundin ráðningarkjör. Á þetta hafi Hæstiréttur fallist í málinu nr. 210/2003 með dómi 6. nóvember 2003. Hafnarfjarðarbær hafi nú greitt öllum sínum heimilisfræðikennurum fyrir þessi störf fram að þeim tíma sem bærinn hafi sagt greiðslum þessum sérstaklega upp.
Með bréfi lögmanns KÍ 18. febrúar 2004 hafi stefndi verið krafinn um greiðslur til handa heimilisfræðikennurum er störfuðu hjá stefnda. Þessum kröfum hafi verið hafnað með bréfi stefnda 25. mars s.á. á þeirri forsendu að þær greiðslur er tíðkast hefðu frá árinu 1980 væru nú komnar inn í grunnlaun kennara.
Af hálfu stefnanda sé á því byggt að ákvörðun borgarráðs frá 16. júní 1981 hafi falið í sér viðbót við ráðningarkjör heimilisfræðikennara hjá stefnda og hafi þetta verið hluti af hennar launakjörum. Í raun hafi því verið um að ræða samkomulag um yfirborgun á launum.
Þessi ákvörðun hafi ekki verið hluti af kjarasamningi, enda hafi hún ekki verið tekin upp í kjarasamningi aðila. Á þessum tíma hafi kennarar verið ríkisstarfsmenn og hafi Bandalag starfsmanna ríkis og bæja farið með samningsrétt þeirra, sbr. þágildandi lög nr. 29/1976. Um samningsrétt bæjarstarfsmanna við gerð kjarasamninga hafi farið samkvæmt reglugerð nr. 236/1976. Hvorki stéttarfélag borgarstarfsmanna né BSRB hafi komið að þeirri ákvörðun að greiða heimilisfræðikennurum þær greiðslur er um ræði. Um hafi verið að ræða einhliða ákvörðun borgarráðs án tengsla við kjarasamninga. Þannig hafi í raun verið um samkomulag að ræða við kennara um yfirborgun í formi ákveðins yfirvinnustundafjölda, en ekki kjarasamning.
Um einstaklingsbundin ráðningarkjör sé að ræða sem ekki falli niður sjálfkrafa við það að kjarasamningur sé gerður, heldur verði að segja þeim upp sérstaklega gagnvart hverjum og einum, líkt og Hafnarfjarðarbær hafi nú gert eftir dóm Hæstaréttar. Aðilar kjarasamnings geti ekki samið svo um að persónubundnar greiðslur, er tengdust ráðningarsamningum, falli niður. Einungis þeir sem eigi aðild að samkomulaginu um greiðslur þessar geti fellt það niður, en það séu heimilisfræðikennarar og borgarráð.
Kjarasamningar séu samningar um lágmarkskjör, sbr. 24. gr. laga nr. 94/1986. Með samningum um yfirborgun sé komið út fyrir gildissvið kjarasamnings. Engin uppsögn hafi farið fram á þeim ráðningarkjörum er hér um ræði, en þangað til hún hafi átt sér stað standi sá samningur er ákvörðun borgarráðs feli í sér.
Því sé mótmælt af hálfu stefnanda að yfirlýsing í kjarasamningi milli KÍ og LN 9. janúar 2001, sem koma skyldi til framkvæmda 1. ágúst s.á., geti fellt niður slíkar greiðslur. Í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 210/2003 komi fram að sé í ráðningarsamningi milli starfsmanna og atvinnurekanda eða síðara samkomulagi þeirra á milli samið um betri kjör sé komið út fyrir svið kjarasamnings.
Enn hafi ekki verið tekin sú ákvörðun í borgarráði að afnema eða fella niður greiðslur þessar og engin ákvörðun um að greiðslur falli niður 1. ágúst 2001. Meðan svo sé gildi fyrri samþykkt borgarráðs frá 16. júní 1981. Sú staðreynd að LN hafi samþykkt kjarasamning í umboði borgarráðs, geti aldrei talist uppsögn gagnvart hverjum og einum eða uppsögn á persónubundnum yfirborgunum. Að öðru leyti sé vitnað til almennra reglna kröfuréttar. Dómkrafan sundurliðast þannig:
10.4 klst. x 1.514.13 kr. á mánuði frá 1. okt. 2001 til og með 1. des. s.á. 47.271 kr.
10.4 klst. x 2.259.73 kr. á mánuði frá 1. jan. 2002 til og með 1. júní s.á. 141.006 kr. 10.4 klst. x 2.259.73 kr. á mánuði frá 1. okt. 2002 til og með 1. júní 2003 211.509 kr. 10.4 klst. x 2.259.73 kr. á mánuði frá 1. okt. 2003 til og með 1. des. s.á. 70.503 kr. 10.4 klst. x 2.317.52 kr. á mánuði frá 1. jan. 2004 til og með 1. júní s.á. 145.236 kr., samtals 615.525 krónur. Þá sé krafið um 13.04% orlof á laun sem séu samtals 80.264 krónur, en um það sé vitnað til orlofslaga og kjarasamnings KÍ og LN. Dómkrafan sé því samtals 695.791 króna. Í stað þess að miða við 13.8 klukkustundir í yfirvinnu á mánuði, eins og gert hafi verið í stefnu, sé miðað við 10.4 klukkustundir í endanlegri kröfugerð stefnanda.
Málsástæður og lagarök stefnda
Af stefnda hálfu er málavöxtum lýst þannig að stefndi sé sveitarfélag sem starfi á grundvelli sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Sveitarfélögum beri að inna af hendi margvíslegar skyldur sem byggðust á hlutverki þeirra sem staðbundinna stjórnvalda, eins og nánar sé mælt fyrir um í lögum. Á grundvelli laga nr. 66/1995 um grunnskóla sé sveitarfélögum falið að starfrækja grunnskóla fyrir börn á aldrinum 6 til 16 ára. Sveitarfélög hafi tekið yfir starfsemi grunnskóla frá 1. ágúst 1996 en fram að því hafi íslenska ríkið haft starfrækslu grunnskóla með höndum.
Stefnda hafi borist tvö erindi frá Félagi heimilisfræðikennara, 11. nóvember 1980 og 26. maí 1981, þar sem félagið hafi áréttað kröfur um tilteknar greiðslur til heimilisfræðikennara fyrir aukastörf en ella að kennarar muni hætta að sinna þeim, þ.e. a) innkaupum og frágangi á kennsluefni, oft og tíðum viðkvæmra matvæla og b) innkaupum og umsjón með áhöldum og tækjabúnaði í kennslueldhúsi og öðru kennslurými fyrir heimilisfræðikennslu. Í rökstuðningi félagsins í fyrra bréfinu segi að ofangreind störf flokkist ekki undir kennsluundirbúning. Samkvæmt því hafi þess verið krafist að stefndi greiddi heimilisfræðikennurum sérstaklega fyrir störfin. Á þeim tíma hafi íslenska ríkið haft með höndum starfsemi grunnskóla og greitt starfsmönnum laun.
Á fundi borgarráðs 16. júní 1981 hafi verið samþykkt að greiða heimilisfræðikennurum tvo tíma á viku fyrir aukastörf. Allt frá byrjun skólaárs 1981-1982 hafi stefndi greitt þeim laun samkvæmt þessu. Hafi sá háttur verið hafður á að tiltekin reikniregla hafi verið lögð til grundvallar mati á greiðslu yfirvinnu í tengslum við aukastörf. Reiknireglan hafi byggst á því að umfang aukastarfa hafi verið metið þannig að greiddar hafi verið tvær klukkustundir í yfirvinnu á viku fyrir hverjar 28 kennslustundir á viku. Væru kennslustundir fleiri eða færri hafi verið greitt hlutfallslega. Allt frá því að þessar greiðslur hófust hafi mismunandi viðmið fjölda yfirvinnustunda verið lögð til grundvallar launagreiðslum í samræmi við fyrrgreinda reiknireglu. Stefnandi hafi notið greiðslu yfirvinnustunda samkvæmt viðmiði 28 kennslustunda á viku þannig að á skólaárinu 1995-1996 hafi verið greiddar 2,36 yfirvinnustundir á viku, 1996-1997 2,32 yfirvinnustundir á viku, 1997-1998 2,35 yfirvinnustundir á viku, 1998-1999 2,675 yfirvinnustundir á viku, 1999-2000 2,6 yfirvinnustundir á viku en á skólaárinu 2000-2001 3,45 yfirvinnustundir á viku. Mistök hafi átt sér stað við útreikning yfirvinnustunda fyrir skólaárið 2000-2001. Stefnanda hafi einungis borið greiðsla fyrir 2,6 yfirvinnustundir á viku, eða 10,4 á mánuði en ekki 3,45 á viku eða 13,8 á mánuði, eins og stefnandi hafi notið, en fjöldi yfirvinnustunda á viku sé margfaldaður með 4 til að finna heildargreiðslu á mánuði. Á stefnda hafi hvorki hvílt skylda að semja við tiltekna heimilisfræðikennara né þá alla um greiðslur fyrir aukastörf. Greiðslur stefnda til stefnanda fyrir aukastörf hafi verið mismunandi frá einu ári til annars í samræmi við framangreind viðmið. Á launaseðlum stefnanda komi fram að stefndi hafi greitt stefnanda mánaðarlega 10,7 klukkustundir á skólaárinu 1998-1999, 9,4 klukkustundir mánaðarlega á skólaárinu 1997-1998, 10,4 klukkustundir á skólaárinu 1999-2000 og 13,8 klukkustundir á skólaárinu 2000-2001.
Launanefnd sveitarfélaga annars vegar og Kennarasamband Íslands hins vegar hafi ritað undir kjarasamning 9. janúar 2001 með gildistíma frá 1. janúar það ár til 31. mars 2004. Í kjarasamningnum hafi falist verulegar breytingar frá fyrri samningi, m.a. þær að sveitarfélög keyptu af kennurum vinnutíma en ekki ákveðin verk. Föst mánaðarlaun kennara hafi hækkað verulega, sbr. gr. 1.1.1. í kjarasamningnum, og hafi viðbótargreiðslur verið fluttar inn í föst mánaðarlaun. Í kjarasamningnum hafi verið fjallað um fyrirhugaðar kerfisbreytingar. Af kjarasamningnum hafi leitt margvíslegar breytingar, m.a. á hlutverki skólastjóra. Í gr. 2.1.6.2. segi að vinnuskylda kennara sé 1800 stundir á ári. Skólastjóri ráðstafi vinnu kennara til þeirra faglegu starfa og verkefna sem starfsemi grunnskólans kalli á. Til vinnuskyldu kennara heyri öll fagleg störf kennara, s.s. kennsla, undirbúningur undir kennslu, mat á námsárangri, námsefnisöflun, umsjón með stofu og tækjum, skólanámsskrárvinna, gerð kennsluáætlana, gerð einstaklingsnámskráa, innra mat á skólastarfi, foreldrasamstarf, innbyrðis samstarf kennara og samstarf þeirra við aðra sérfræðinga, þátttaka í vinnuteymum og öðru innra starfi skólans.
Ákvæði kjarasamningsins hafi komið til framkvæmda 1. ágúst 2001, þ.e. í upphafi skólaárs 2001-2002. Skólastjóri hafi farið yfir með stefnanda breytingar á fyrirkomulagi starfa og launagreiðslna þegar í upphafi. Hann hafi upplýst stefnanda um að greiðslur fyrir aukastörf, eins og þær hefðu verið greiddar á síðustu árum, myndu falla niður á skólaárinu. Jafnframt hafi hann upplýst að verkþættir, sem áður hafi talist til aukastarfa og stefndi hefði greitt stefnanda sérstaklega fyrir, rúmuðust nú innan venjubundinnar skilgreiningar á störfum kennara sem heimilt hafi verið að fela þeim sem hluta af verkstjórnarþætti skólastjóra samkvæmt ákvæðum kjarasamningsins. Þannig hafi verkþættir þessir ekki lengur talist til aukastarfa sem hafi verið forsenda samþykktar borgarráðs fyrir greiðslum samkvæmt samþykkt frá 16. júní 1981. Þá hafi skólastjóri upplýst stefnanda um að hún fengi launaflokk úr svonefndum launapotti vegna þessara starfa. Stefndi hafi gætt þess í hvívetna gagnvart stefnanda að tryggja að nægjanlegur hluti skilgreinds vinnutíma væri til ráðstöfunar fyrir verkefnin sem nú sé krafist sérstakra viðbótargreiðslna fyrir. Til að tryggja það hafi skólastjóri m.a. leyst stefnanda undan öðrum tilteknum skyldum.
Í ljósi svo umfangsmikilla breytinga á launakerfi og launauppbyggingu samkvæmt kjarasamningnum hafi orðið miklar umræður um fyrirkomulag og framkvæmd þeirra. Launanefnd sveitarfélaga og Kennarasamband Íslands starfræki á grundvelli ákvæðis greinar 11.1. í kjarasamningnum sérstaka samstarfsnefnd, skipaða tveimur fulltrúum frá hvorum aðila, sem fjalli um ágreining, sem upp kunni að koma út af honum. Í framkvæmd hafi það verið svo að samstarfsnefnd hafi sameiginlega fjallað um álitaefni og gefið sameiginlegar yfirlýsingar til hlutaðeigandi vegna tilgreindra fyrirspurna. Verkefnisstjórn, vegna kjarasamnings aðila, sem í hafi setið fulltrúar launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands, hafi fjallað um og afgreitt álitaefni sambærileg því sem um sé deilt í máli þessu. Samstarfsnefndin hafi staðfest umræddar afgreiðslur verkefnisstjórnar og séu þær ígildi kjarasamnings. Um eftirtaldar afgreiðslur sé að ræða:
„Hvernig skilgreinið þið umsjón með stofu, verkfærum og efni?
Umsjón með stofu telst til faglegra starfa kennara og tími til þeirra starfa kemur úr verkstjórnarþætti skólastjórans (9,14 klst.).”
„Hvað má fela kennurum innan verkstjórnarþáttar og hvað ekki? - dæmi óskast.
Öll fagleg störf. Dæmi: Kennarafundir, umsjón með nemendum, samstarf kennara, umsjón með stofu og tækjum, gerð kennsluáætlana, foreldrasamstarf, skólanámskrárvinna, innra mat á skólastarfi, samstarf við sérfræðinga utan skóla o.fl. (2.1.6.2.).”
„Innkaup: 2.1.6.2 Er rétt skilið hjá mér að undir þessa grein falli öll fagleg störf þ.m.t. innkaup og tækjagæsla verkgreinakennara og þar með sé eðlilegt að allar sérgreiðslur vegna þessa falli niður (hvort sem þær eru skv. fyrri hefðum frá ríki eða sveitarfélagi)? Sé þetta svo geri ég ráð fyrir að skólastjóri verði að skilgreina þessa vinnu sem hluta af verkstjórnarþættinum. Ég les þessa grein þannig að skólastjóri geti skilgreint alla þá verkþætti sem þarna eru undir sem hluta af verkstjórnarþætti eða falið kennurum vinnu að þessum þáttum á vinnudögum kennara, annaðhvort utan skólatíma eða á dögunum 5 á starfstíma skóla. Er þetta rétt?”
„Þetta er rétt skilið. Þessar greiðslur voru allar færðar inn í grunnlaun kennara.”
Í ljósi framangreindra málsatvika, einkum í ljósi sameiginlegrar og afdráttarlausrar niðurstöðu samstarfsnefndar, hafi legið ótvírætt fyrir að ekki hafi verið tilefni af stefnda hálfu til að greiða sérstaklega fyrir vinnu við aukastörf eftir gildistöku ákvæða kjarasamnings 1. ágúst 2001.
Sýknukröfur stefnda séu m.a. byggðar á því að stefndi hafi nú þegar greitt stefnanda að fullu og öllu það sem honum beri og því beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Borgarráð hafi á fundi 16. júní 1981 ákveðið að fela starfsmönnum aukastörf eftir þörfum og greiða sérstaklega fyrir þau í formi launa. Stefndi hafi í samræmi við þá ákvörðun falið stefnanda aukastörf á starfstíma, allt til upphafs skólaárs 2001-2002. Þetta hafi stefndi gert í samræmi við tiltekin viðmið um þarfir og án sérstakrar skyldu þar að lútandi gagnvart hverjum og einum kennara. Í ljósi þeirra breytinga, sem gerðar hafi verið á skilgreiningu vinnutíma og starfa í kjarasamningi og tóku gildi 1. ágúst 2001, hafi engin aukastörf verið fyrir hendi sem stefndi hafi talið þörf á að fela stefnanda eða öðrum heimilisfræðikennurum. Eðli máls samkvæmt hafi því slíkt ekki verið gert og hafi stefnandi samkvæmt því enga kröfu eignast á hendur stefnda vegna þessa.
Málatilbúnaði stefnanda sé alfarið mótmælt og þá einkum þeim rangfærslum sem felist í umfjöllun um samþykkt borgarráðs frá 16. júní 1981. Mótmælt sé að í samþykkt borgarráðs hafi falist umsamdar persónubundnar greiðslur, yfirborganir eða viðbót við ráðningarkjör stefnanda. Í samþykktinni hafi einvörðungu falist yfirlýsing stefnda um þá ákvörðun að greiða starfsmönnum sérstaklega fyrir aukastörf að svo miklu leyti sem þörf væri fyrir þau og að svo miklu leyti sem starfsmönnum kynnu að vera falin slík störf á hverjum tíma. Samkvæmt því sé fráleitt að halda því fram að í samþykkt borgarráðs hafi falist samkomulag um yfirborgun á launum eða samkomulag um einstaklingsbundin ráðningarkjör eins og stefnandi haldi fram. Umræddir starfsmenn hafi raunverulega verið starfsmenn íslenska ríkisins en ekki starfsmenn stefnda og því fráleitt að ætla að stefndi hafi samið um „yfirborganir” eða „viðbótarráðningarkjör” þeim til handa. Af bréfum hlutaðeigandi starfsmanna til stefnda verði ráðið að þeir hafi aldrei farið fram á sérstakar yfirborganir eða þess háttar heldur einungis greiðslur fyrir aukastörf sem þeir hafi sannanlega innt af hendi. Stefndi hafi því ekki þurft að segja áðurnefndum greiðslum sérstaklega upp eins og um ráðningarbundin kjör stefnanda hafi verið að ræða.
Í reynd hafi gr. 2.1.6.2. í kjarasamningnum verið breytt á þann veg að störf, sem hafi verið utan skilgreiningar á vinnuskyldu fyrir gildistöku kjarasamnings og því aukastörf, hafi eftir gildistöku kjarasamningsins verið felld inn í skilgreiningu á störfum og vinnutíma. Frá þeim tíma hafi því ekki verið um að ræða sérstök aukastörf í skólum á vegum stefnda sem fela hafi þurft stefnanda. Fráleitt sé af stefnanda hálfu að halda því fram að samningur hafi falist í ákvörðun borgarráðs sem standi þar til uppsögn á ráðningarkjörum hafi farið fram. Í reynd megi halda því fram að samþykkt borgarráðs standi áfram eins og frá henni hafi verið gengið og hún framkvæmd, þ.e. stefndi greiðir hér eftir sem hingað til starfsmönnum fyrir aukastörf eins og þau væru skilgreind á hverjum tíma. Engin breyting hafi verið gerð á þessu við gildistöku kjarasamnings á árinu 2001 önnur en sú að skilgreining á störfum, sem falli undir ákvæði kjarasamnings annars vegar og á störfum sem teljist til aukastarfa hins vegar, hafi breyst. Af samanburði verkþátta, sem samþykkt borgarráðs hafi grundvallast á og krafist sé sérstakrar greiðslu fyrir í máli þessu, ákvæðum kjarasamnings, sbr. einkum gr. 2.1.6.2., svo og samþykktum samstarfsnefndar, sé óumdeilt að umræddir verkþættir hefðu verið felldir undir skilgreiningu á störfum og starfssviði stefnanda.
Stefndi byggi sýknukröfur enn fremur á því að skólastjóri hafi í upphafi skólaárs 2001-2002 upplýst stefnanda um breytingar sem yrðu á launum og vinnufyrirkomulagi. Hann hafi upplýst að greiðslur, sem áður höfðu verið inntar af hendi fyrir aukastörf, féllu niður frá sama tímamarki og stefnandi nyti m.a. vegna hlutaðeigandi verkþátta greiðslna í formi 9,14 klukkustunda verkstjórnarþáttar á viku auk launaflokks úr launapotti. Stefndi hafi gætt þess í hvívetna gagnvart stefnanda að tryggja að nægjanlegur hluti skilgreinds vinnutíma hafi verið til ráðstöfunar fyrir verkefni sem nú sé krafist sérstakra viðbótargreiðslna fyrir. Stefnandi hafi því innt vinnuskyldu af hendi vegna hlutaðeigandi verkþátta á vinnutímabilinu sem hann hafi þegar fengið greidd laun fyrir. Stefndi hafi samkvæmt því viðhaft nauðsynlegar ráðstafanir gagnvart stefnanda og greitt honum nú þegar laun fyrir þessa verkþætti. Beri því að sýkna stefnda af dómkröfum stefnanda.
Ákvörðun um kaup á vinnuframlagi hafi einungis gilt fyrir eitt skólaár í einu og hafi ekki framlengst sjálfkrafa. Í upphafi sérhvers skólaárs hafi verið undirrituð yfirlýsing á milli málsaðila, svonefnd vinnuskýrsla kennara, sem hafi verið endurnýjuð árlega án sérstaks fyrirvara af hálfu stefnanda. Skýrslan teljist ígildi samkomulags um tilgreind samningsbundin kjör á tilteknu skólaári, en breytingar á vinnuskýrslu á skólaárinu verði ekki gerðar nema til komi samþykki beggja eða með lögmætum uppsagnarfresti. Stefnda beri ekki að greiða neinar viðbótargreiðslur enda sé hver yfirlýsing afdráttarlaus og án fyrirvara um aðra verkþætti og/eða önnur kjör vegna þess tímabils sem dómkrafa taki til.
Sýknukröfur byggi stefndi enn fremur á því að stefnandi hafi með tómlæti sínu og háttalagi að öðru leyti í reynd fallist á framangreint fyrirkomulag og breytingar á greiðslum í kjölfar gildistöku nýs kjarasamnings. Stefnandi hafi ekki haft uppi kröfur á hendur stefnda um greiðslur fyrr en með bréfi lögmanns 18. febrúar 2004, en þá hafi verið liðnir u.þ.b. 30 mánuðir frá því stefndi felldi greiðslur niður. Stefnandi hafi fyrir það tímamark engan reka gert að því að öðlast viðurkenningu á umræddum kröfum þrátt fyrir að stefndi hafi hætt greiðslum eftir 1. ágúst 2001. Hafi stefnandi talið sig eiga rétt til slíkra greiðslna hafi henni borið að hafa uppi kröfu, eftir atvikum með höfðun dómsmáls. Staðhæfingum stefnanda þess efnis að hún hafi beðið niðurstöðu í öðrum dómsmálum sé mótmælt sem röngum og máli þessu óviðkomandi. Kröfur og málsatvik þessa dómsmáls séu eðlisólík því máli sem þegar hafi verið dæmt, en auk þess hafi ekki legið fyrir sú afstaða stefnda að bíða úrlausnar annarra ágreiningsmála. Engin gagnkvæmur samningur liggi til grundvallar meintum kröfum stefnanda á hendur stefnda í máli þessu eins og verið hafi í Hæstaréttarmáli nr. 210/2003. Þá hafi málsaðilar ítrekað undirritað nýjar vinnutímaskýrslur kennara, m.a. eftir 1. ágúst 2001, án nokkurs fyrirvara eða athugasemda af hálfu stefnanda. Stefnandi hafi með tómlæti sínu og háttalagi að öðru leyti firrt sig rétti til að hafa uppi frekari kröfur á hendur stefnda og beri því að sýkna stefnda. Við mat á tómlætisáhrifum og öðru háttalagi stefnanda verði að líta til þess að skólastjóri hafi upplýst stefnanda um breytingar þegar í upphafi skólaárs 2001-2002, eins og áður hafi verið rakið.
Verði ekki fallist á framangreindar málsástæður og sjónarmið byggi stefndi sýknukröfur jafnframt á því að líta beri svo á að niðurstaða samstarfsnefndar varðandi túlkun á ákvæðum kjarasamnings teljist í reynd kjarasamningur eða ígildi kjarasamnings. Samstarfsnefnd hafi verið skipuð fulltrúum viðsemjenda, þ.e. Kennarasambands Íslands og launanefndar sveitarfélaga. Niðurstaða hennar feli í sér bindandi niðurstöðu um túlkun kjarasamnings. Hún sé samhljóða og afdráttarlaus og upphefji og felli undir greiðsluákvæði kjarasamnings allar greiðslur fyrir tilgreint vinnuframlag sem áður hafi verið greitt fyrir sérstaklega. Þetta gildi eðli máls samkvæmt, m.a. í ljósi annarra ákvæða kjarasamnings varðandi forsendur hans.
Verði ekki fallist á að stefndi hafi einhliða tekið ákvörðun um greiðslur þær sem um ræði í máli þessu og honum hafi verið heimilt að fella slíkar greiðslur niður eins og gert var, sé byggt á því að stefnandi hafi ekki átt aðild að umræddri ákvörðun borgarráðs. Stefndi hafi ekki gert um slíkar greiðslur gagnkvæmt skriflegt samkomulag við einstaka starfsmenn. Stefnda hafi, eins og á stóð, verið heimilt að fella greiðslur niður enda hafi þær ekki grundvallast á gagnkvæmum samningi aðila. Eftir gildistöku kjarasamnings á árinu 2001 hafi aukastörf, sem borgarráð hefði áður samþykkt að greiða sérstaklega fyrir, ekki lengur verið skilgreind sem aukastörf heldur hafi þau fallið innan skilgreindrar vinnuskyldu kennara, sbr. gr. 2.1.6.2. Forsendur fyrir greiðslu aukastarfa til heimilisfræðikennara hafi því ekki verið lengur fyrir hendi frá 1. ágúst 2001 að telja. Yfirlýsing í formi kjarasamnings hafi því talist nægjanlegur grundvöllur niðurfellingar aukagreiðslna. Vísist um það atriði m.a. til fulls og ótakmarkaðs umboðs launanefndar sveitarfélaga til að gera kjarasamning f.h. stefnda án sérstaks fyrirvara. Um röksemdir fyrir framangreindum málsástæðum vísi stefndi enn fremur til ákvæða 18. gr. laga nr. 72/1996 um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda.
Varakröfu sína byggi stefndi á því að krafa stefnanda sé allt of há. Fallist hafi verið á að greiða heimilisfræðikennurum tvær klukkustundir á viku vegna aukastarfa á árinu 1981. Sundurliðun dómkröfu sé óljós og ósamræmis gæti þar á. Verði fallist á réttmæti dómkröfu stefnanda krefjist stefndi þess að fjárhæð verði lækkuð á þann hátt að samsvari að hámarki tveimur klukkustundum á viku eins og samþykkt borgarráðs kveði á um. Á sama hátt gerir stefndi kröfu um að fjárhæð dómkröfu verði lækkuð í ljósi þess að óumdeilt sé að stefnandi hafi þegar fengið greidd laun fyrir þá verkþætti sem greiðslum fyrir aukastörf hafi verið ætlað að koma fyrir. Verkþættir hafi óumdeilanlega verið komnir inn í ákvæði kjarasamnings, sbr. ákvæði gr. 2.1.6.2. Því sé hvorki ástæða né tilefni til að tvíborga hlutaðeigandi greiðslur en óumdeilt sé að stefnandi hafi notið greiðslna vegna verkþátta í formi 9,14 klukkustunda verkstjórnarþáttar á viku auk launaflokks úr launapotti. Þá byggi stefndi kröfu um lækkun dómkröfu á því að túlka beri tilkynningu skólastjóra í upphafi skólaárs 2000-2002 sem uppsögn á hlutaðeigandi greiðslum. Uppsagnarfrestur hafi verið þrír mánuðir og beri samkvæmt því að lækka dómkröfur þannig að samsvari einungis slíkum rétti stefnanda til handa.
Stefndi krefjist þess að kröfu stefnanda um greiðslu dráttarvaxta verði hafnað, þó þannig að slík krafa komi einungis til álita frá þingfestingu máls. Stefnanda hafi verið bæði rétt og skylt að halda rétti sínum fram með eðlilegum hætti og leggja mál til úrlausnar dómstóla þegar synjun stefnda hafi komið fram. Hún hafi sýnt af sér tómlæti og háttalag sem firri hana rétti. Þar sem stefnandi hafi ekki gætt þessa beri að hafna kröfu hennar um greiðslu dráttarvaxta.
Stefndi vísi til ákvæða laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, meginreglna samningaréttar um skuldbindingagildi samninga, kröfuréttar og vinnuréttar. Þá vísi stefndi til meginreglna um tómlæti og réttaráhrif þess á kröfur. Stefndi vísi enn fremur til ákvæða 18. gr. laga nr. 72/1996 um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda. Um málskostnaðarkröfu vísi stefndi til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Samþykkt borgarráðs 16. júní 1981 um að greiða heimilisfræðikennurum tvær klukkustundir á viku fyrir matarinnkaup var gerð í tilefni af því að þeir höfðu farið fram á að fá sérstaka þóknun fyrir það eins og hér að framan er rakið. Stefnandi vísar til þess að með dómi Hæstaréttar 6. nóvember 2003 í máli nr. 210/2003 hafi niðurstaðan orðið sú að segja hafi þurft upp samningi sem gerður var milli Hafnarfjarðarbæjar og myndmenntakennara á árinu 1980 um greiðslur fyrir innkaup á efni og áhöldum fyrir kennslu og eftirlit með áhöldum og kennslustofu. Samþykkt borgarráðs sem hér um ræðir verður ekki jafnað til slíks samnings og verður því ekki fallist á að segja hafi þurft samþykktinni upp líkt og um samning hafi verið að ræða. Telja verður að eftir að kjarasamningurinn tók gildi og stefndi hætti að greiða stefnanda 1. ágúst 2001 samkvæmt samþykktinni hafi það jafngilt því að ákvörðun hafi verið tekin um að samþykktin ætti ekki lengur við þar sem vinnan sem þar um ræðir hafi verið felld inn í vinnuskyldu kennara með grein 2.1.6.2. í kjarasamningnum og þar með hafi verið greitt fyrir hana með mánaðarlaunum.
Af gögnum málsins verður ekki ráðið að ágreiningur hafi verið milli málsaðila um það hvort stefnda hafi verið rétt að fella umrædda þóknun niður, eins og gert var frá 1. ágúst 2001, fyrr en á árinu 2004. Stefnandi undirritaði vinnuskýrslur sem giltu fyrir hvert skólaár á tímabilinu sem hér um ræðir án þess að nokkrir fyrirvarar kæmu fram af hennar hálfu varðandi vinnutíma og yfirvinnustundir. Verður að telja að stefnanda hafi borið að krefjast þess án ástæðulausra tafa að stefndi greiddi áfram samkvæmt samþykktinni frá gildistöku kjarasamningsins til þess að eiga ekki á hættu að talið yrði að hún hefði með tómlæti fyrirgert þeim rétti og til að stefndi gæti brugðist við því með viðeigandi hætti. Í því sambandi þykir ekki skipta máli þótt dómsmál hafi verið rekið milli Hafnarfjarðarbæjar og myndmenntakennara þar í bæ á tímabilinu sem um ræðir. Allt of langur tími leið því þar til krafa stefnanda kom fram sem var ekki fyrr en á árinu 2004. Með því hefur stefnandi glatað rétti sem hún kann að hafa átt til að fá sérstaklega greitt samkvæmt samþykktinni eins og hér er krafist eftir 1. ágúst 2001. Ber þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.
Rétt þykir með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála að málskostnaður falli niður.
Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.
DÓMSORÐ:
Stefnda, Reykjavíkurborg, skal sýkn vera af kröfum stefnanda, Sigurborgar Lilju Baldvinsdóttur, í málinu.
Málskostnaður fellur niður.