Hæstiréttur íslands
Mál nr. 151/2006
Lykilorð
- Bifreið
- Líkamstjón
- Örorka
- Skaðabætur
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 12. október 2006. |
|
Nr.151/2006. |
Þóra Kristín Halldórsdóttir(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.) gegn Verði vátryggingafélagi hf. og Verkþingi ehf. (Kristín Edwald hrl.) |
Bifreiðir. Líkamstjón. Örorka. Skaðabætur. Gjafsókn.
Þ slasaðist í umferðarslysi í mars 1999 með þeim afleiðingum að hún hlaut 15% varanlega örorku. Hún var tvítug að aldri þegar slysið varð og stundaði nám í fjölbrautaskóla, en lauk stúdentsprófi á tilsettum tíma um tveimur mánuðum eftir slysið. V hf. hafði greitt Þ bætur fyrir varanlega örorku samkvæmt þeirri aðferð sem mælt er fyrir um í 8. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og taldi tjón hennar að fullu bætt. K höfðaði mál og byggði í fyrsta lagi á því að bætur fyrir varanlegu örorku skyldu ákveðnar á grundvelli 5.- 7. gr. skaðabótalaga, en ekki 8. gr. sömu laga. Með vísan til skýringa í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi að skaðabótalögum, og dóma Hæstaréttar þar sem tjón ungra námsmanna fyrir varanlega örorku hafði verið bætt samkvæmt 8. gr. skaðabótalaga var fallist á að beita skyldi því ákvæði við ákvörðun bóta handa Þ fyrir varanlega örorku vegna slyssins. Þ krafðist í annan stað bóta vegna kostnaðar við að skipta um starf sem hún taldi falla undir sjúkrakostnað og annað fjártjón samkvæmt 1. gr. skaðabótalaga. Kröfunni var hafnað þar sem ekki hefði verið sýnt fram á að starfsvettvangur Þ hefði orðið annar hefði hún ekki lent í umræddu slysi eða að orsakasamband væri á milli slyssins og náms sem hún hóf um fjórum og hálfu ári síðar. Var V því sýknað af kröfum Þ.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. mars 2006 og krefst þess að stefndu verði dæmdir til að greiða henni óskipt 3.582.531 krónu með 2% ársvöxtum frá 11. mars 1999 til 14. maí 2005, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt fyrir báðum dómstigum.
Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi lenti í umferðarslysi 11. mars 1999 með þeim afleiðingum að hún hlaut 15% varanlega örorku og jafn háan varanlegan miska. Svo sem rakið er í héraðsdómi var hún þá tvítug að aldri og stundaði nám í fjölbrautaskóla. Lauk hún stúdentsprófi á tilsettum tíma um tveimur mánuðum eftir slysið.
Krafa áfrýjanda er í fyrsta lagi reist á því að bætur fyrir varanlega örorku skuli ákveðnar á grundvelli 5.-7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eins og þau voru er slysið bar að höndum, sbr. lög nr. 42/1996, en ekki 8. gr. sömu laga. Stefndu telja sig hins vegar hafa bætt tjónið að fullu samkvæmt þeirri aðferð, sem 8. gr. mælir fyrir um. Vísa þeir um það meðal annars til skýringa í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi að skaðabótalögum og ýmissa dóma Hæstaréttar í málum, sem þeir telja fordæmi við úrlausn þessa máls. Meðal þeirra eru dómar 17. febrúar 2000 í máli nr. 380/1999 og 13. apríl 2000 í máli nr. 291/1999, en í báðum tilvikum hafi ungir námsmenn átt í hlut og tjón þeirra fyrir varanlega örorku verið bætt samkvæmt 8. gr. skaðabótalaga. Jafnframt mótmæla stefndu að unnt sé að líta til dóms Hæstaréttar 22. maí 1998 í máli nr. 311/1997 sem fordæmis, en aðstaða tjónþolans í því máli hafi er slys bar að höndum verið ólík aðstöðu áfrýjanda þessa máls. Þegar gætt er alls þess, sem að framan greinir, verður að fallast á með stefndu að beita skuli 8. gr. skaðabótalaga við ákvörðun bóta handa áfrýjanda fyrir varanlega örorku vegna slyssins. Verður því staðfest niðurstaða héraðsdóms að þessu leyti.
Áfrýjandi krefst í annan stað bóta vegna sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns, svo sem nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða að sýkna stefndu af þessum lið bótakröfu áfrýjanda.
Samkvæmt þessu verður héraðsdómur staðfestur, þar með talin ákvæði hans um málskostnað og gjafsóknarlaun. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Þóru Kristínar Halldórsdóttur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 350.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2005.
Mál þetta var höfðað 24. ágúst 2005 og dómtekið 12. þ.m.
Stefnandi er Þóra Kristín Halldórsdóttir, Kristnibraut 91, Reykjavík.
Stefndu eru Vörður vátryggingafélag hf., Skipagötu 9, Akureyri og Verkþing ehf., Kaplahrauni 22, Hafnarfirði.
Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir til að greiða sér 3.582.531 krónu með 2% ársvöxtum frá 11. mars 1999 til 14. maí 2005 en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en stefnanda voru veitt gjafsóknarleyfi gegn hvorum hinna stefndu um sig 14. október og 10. desember 2004..
Stefndu krefjast sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hennar.
I
Stefnandi lenti í hörðum árekstri þann 11. mars 1999 á mótum Listabrautar og Kringlumýrarbrautar í Reykjavík. Slysið vildi til með þeim hætti að stefnandi var ökumaður bifreiðarinnar YT-516 og hafði numið staðar við götuvita á gatnamótunum er bifreiðinni VS-947 var ekið aftan á bifreiða hennar. Stefndi, Verkþing ehf., var eigandi bifreiðarinnar VS-947 og hafði keypt lögbundna ábyrgðartryggingu vegna hennar hjá stefnda, Verði vátryggingafélagi hf.
Samkvæmt sameiginlegri beiðni aðila mátu Júlíus Valsson læknir og Ingvar Sveinbjörnsson hæstaréttarlögmaður afleiðingar slyssins. Matsgerð þeirra er dagsett 14. júlí 2004. Stefnandi var skólanemi er slysið varð og átti eftir um tvo mánuði til stúdentsprófs. Í matinu er segir frá námi, störfum og fjölskylduhögum stefnanda : “Þóra Kristín er fædd og uppalin í Keflavík. Foreldrar eru á lífi og við góða heilsu og á Þóra Kristín 3 alsystkini. Var í sambúð í nokkur ár sem upp úr slitnaði 2003 og á hún eitt barn með fyrrverandi sambýlismanni sínum og er barnið fætt 09.01.2002. Flutti til Reykjavíkur þar sem hún býr á stúdentagörðum ásamt barni sínu. Lauk grunnskóla og er stúdent (1999) frá Fjölbrautarskóla Suðurnesja á tungumálabraut. Tók sér frí frá námi og var au-pair í Danmörku 1995-1996. Vann lítillega með námi og á sumrin. Eftir að hún lauk stúdentsnámi hefur hún unnið hjá Flugleiðum við innritun og þjónustu við farþega, við kennslu, í leikskóla o. fl. Hefur frá slysi ekki getað unnið fulla vinnu og hefur verið í 50-70 % starfi auk þess sem hún var í fæðingarorlofi um tíma. Hún getur ekki sinnt erfiðari heimilisstörfum. Haustið 2003 hóf hún nám í Kennaraháskóla Íslands og stefnir að því að verða leikskólakennari. Hefur lokið 1. árinu en á nokkra áfanga eftir sem hún stefnir að taka í ágúst n.k. Er nú í sumar að vinna hjá Vallarvinum sem er vaktavinna. . .” Niðurstöður matsins eru þær að heilsufar stefnanda teljist hafa orðið stöðugt 11. mars 2000, tímabundin óvinnufærni sé engin, tímabil þjáninga teljist þrír mánuðir án rúmlegu og varanlegur miski og varanleg örorka hvortveggja 10 %.
Á grundvelli framangreinds mats setti lögmaður fram kröfu gegn hinu stefnda tryggingafélagi með bréfi 10. ágúst 2004. Krafist var bóta vegna þjáninga, varanlegs miska og varanlegrar örorku, samtals að fjárhæð 3.199.620 krónur. Af bréfaskiptum, sem fylgdu, kemur fram að stefndi féllst ekki á kröfugerð stefnanda um að tekjuviðmið færi eftir 5.-7. gr. skaðabótalaga heldur skyldi fara eftir 8. gr. laganna. Bótauppgjör fór fram 9. september 2004 með því að stefndi greiddi stefnanda skaðabætur að upphæð 1.552.868 krónur, þ.m.t. 677.460 krónur vegna varanlegrar örorku. Lögmaður stefnanda tók við bótunum með fyrirvara.
A beiðni stefnanda voru þann 17. desember 2004 dómkvaddir matsmenn, þeir Torfi Magnússon taugalæknir og Páll Sigurðsson prófessor, til að meta afleiðingar umrædds slyss. Matsgerð þeirra er dagsett 4. apríl 2005 og staðfestu matsmennirnir hana fyrir dómi. Þar segir m.a.: “Matsbeiðandi kveðst nú stefna að því að gerast leikskólakennari að réttindanáminu loknu (væntanlega vorið 2006). Hún kveðst ekki reikna með því að hún muni, heilsu sinnar vegna, ráða við fulla (100%) vinnu “inni á deildum” í leikskóla, en þó kveðst hún hafa hugleitt að vinna í hlutastarfi inni á deild en bæta síðan við einhverju starfi í viðkomandi leikskóla, á öðru verksviði, t.d. við sérkennslu þar, og auka þannig starfshlutfallið, heildstætt séð.” Á grundvelli skattframtala eru raktar tekjur stefnanda m.a. sem hér greinir: 1998: 629.388 kr., 1999: 1.457.724 kr., 2000: 1.823.230 kr., 2001: 1.637.704 kr., 2002: 1.147.801 kr., 2003: 785.732 kr. Í þeim kafla matsgerðarinnar, sem lýtur að varanlegri örorku, segir m.a.: “Matsmenn telja að í kjölfar slyssins, allt frá tímamarki stöðugleika í skilningi skaðabótalaga, búi matsbeiðandi við þrekskerðingu (af völdum þreytu og verkja sem standa í beinu orsakasambandi við slysið) sem sé til þess fallin að draga úr getu hennar til að stunda krefjandi starf af nær hverjum toga sem er. Að áliti matsmanna má ljóst vera að af þessum sökum hafi starfsval matsbeiðanda, hvað varðar störf á almennum vinnumarkaði, þrengst til munna frá því sem var áður en hún varð fyrir umræddu slysi. . .” og að lokum: “. . . Miðað við þær upplýsingar, sem fyrir liggja í málinu, telja matsmenn hins vegar rétt að miða matsniðurstöðu, hvað örorku varðar, einkum við það að matsbeiðandi muni ljúka réttindanámi sínu til leikskólakennara áður en sérlega langt um líður og að meiri líkur séu á því en minni að hún muni síðan starfa sem leikskólakennari fram til eðlilegra starfsloka eða a.m.k. fram á sjötugsaldur. Telja matsmenn að hún eigi að geta ráðið við það starf heilsu sinnar vegna enda þótt ekki sé unnt að reikna með því að hún muni hafa fullt vinnuþrek eða skila fullri (100%) vinnu þegar til lengri tíma er litið. Má reikna með að henni muni best henta hlutastarf inni á deildum í leikskóla en að það starfshlutfall geti hún síðan hækkað með því að vinna jafnframt því hlutastarf við aðra þætti leikskólastarfsemi, svo sem við sérkennslu smábarna inni á leikskóla. Ljóst er að áliti matsmanna að matsbeiðandi býr við nokkra skerðingu á getu til heimilisstarfa í kjölfar umrædds umferðarslyss.”
Niðurstöður matsins eru þær að varanleg örorka stefnanda sé réttilega metin 15% sem og varanlegur miski; tímabundið atvinnutjón teljist ekkert og um þjáningabótatímabil að stefnandi hafi ekki verið rúmliggjandi vegna afleiðinga slyssins og verið “batnandi” í þrjá mánuði.
Á grundvelli framangreinds mats sendi lögmaður stefnanda lögmanni stefndu kröfubréf, dags. 13. apríl 2005, þar sem um bætur fyrir varanlega örorku var miðað við 5.-7. gr. skaðabótalaga og sett fram krafa um bætur fyrir annað fjártjón samkvæmt 1. gr. s.l. Að auki var krafist bóta vegna varanlegs miska og endurgreiðslu matskostnaðar. Kröfunni var svarað með bréfi 18. apríl 2005. Þar segir að sem lokagreiðsla á tjóni stefnanda greiðist 1.293.241 króna. Af þeirri fjárhæð voru 434.170 krónur vegna 5% viðbótarörorku, 290.550 krónur vegna 5% viðbótarmiska, greiðsla vaxta í fjögur ár af báðum framantöldum bótaliðum nemur 55.087 krónum, útlagður kostnaður 426.550 krónum og innheimtuþóknun 86.884 krónum. Í bréfinu segir um afstöðu hins stefnda tryggingafélags að hún sé óbreytt að því leyti að greiðsla bóta vegna varanlegrar örorku stefnanda eigi að fara eftir 8. gr. skaðabótalaga svo og að kröfu um annað fjártjón sé hafnað.
II
Krafa stefnanda á hendur stefndu byggist á ábyrgðartryggingu ökutækisins VS-947 en stefndi, Verkþing ehf., hafi verið eigandi bifreiðarinnar þegar henni var ekið á bifreið stefnanda þann 11. mars 1999. Stefndi hafi keypt ábyrgðartryggingu samkvæmt 88., 90. og 91. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 hjá stefnda, Verði vátryggingafélagi hf. Um vaxtakröfu segir að hún sé byggð á 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eins og þau hafi verið í gildi á slysdegi. Vaxta sé krafist frá slysdegi, 11. mars 1999, en dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. maí 2005 er mánuður hafi verið liðinn frá því að lögmaður stefnanda krafði stefnda bréflega um greiðslu skaðabóta enda hafi þá legið fyrir öll nauðsynleg gögn sem stefnda hafi verið þörf á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta.
Af hálfu aðila er tekið fram að ágreiningur sé ekki um grundvöll bótaábyrgðar stefndu enda hafa bótagreiðslur tvívegis verið inntar af hendi. Stefnandi kveður sér hafa verið nauðsynlegt að höfða málið þar sem hið stefnda tryggingafélag hafi neitað að greiða frekari bætur.
Sýknukrafa stefndu er byggð á þeirri málsástæðu að með greiðslum til stefnanda séu lögmætar kröfur hennar vegna slyssins að fullu greiddar og beri hún sönnunarbyrði um ætlað frekara tjón. Í kröfu stefndu um sýknu felist varakrafa um lækkun bóta komi til þess að ekki þyki rétt að sýkna stefndu að öllu leyti.
Ágreiningur aðila er í meginatriðum tvíþættur; annars vegar um það hvort ákvarða eigi bætur vegna varanlegrar örorku á grundvelli 5.-7. gr. skaðabótalaga eða 8. gr. þeirra g hins vegar um skyldu stefndu til greiðslu á sjúkrakostnaði og öðru fjártjóni.
1
Af hálfu stefnanda er á því byggt að bætur fyrir varanlega örorku skuli reiknaðar á grundvelli 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga þar sem segir að þegar óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi hjá tjónþola að því er varðar tekjur eða starf eða annars stendur sérstaklega á skuli ákveða árslaun til ákvörðunar bóta eftir mati. Regla 8. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 42/1996, um útreikning bóta til barna eða tjónþola sem að verulegu leyti nýti vinnugetu sína þannig að þeir hafi engar eða takmarkaðar vinnutekjur sé undantekningarregla sem skýra beri þröngt í samræmi við það og eigi ekki við í þessu tilviki. Á því er byggt að sé fyrirsjáanlegt að tjónþoli muni ljúka því námi, sem hann sé í þegar hann slasist, skuli bætur til hans fara eftir 5..-7. gr. skaðabótalaga og árslaun í þeim tilvikum ákvörðuð sérstaklega samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna. Það hafi ekki aðeins verið fyrirsjáanlegt að stefnandi mundi útskrifast úr Fjölbrautarskóla Suðurnesja þegar hún slasaðist heldur hafi það verið því sem næst öruggt. Hún hafi einungis átt eftir að ljúka stúdentsprófum og gert það tveimur mánuðum eftir slysið.
Af hálfu stefnanda er vísað til þess að slysárið 1999 hafi hún haft 1.457.724 krónur í tekjur en eðli málsins samkvæmt aðeins verið í vinnu hluta ársins þar sem hún hafi verið í skóla fyrri hluta þess. Árið 2000, fyrsta heila starfsár stefnanda eftir útskrift,hafi hún haft 1.823.230 krónur í tekjur. Byggir stefnandi á því að þessi árslaun séu mjög raunhæfur mælikvarði á framtíðartekjur hennar og þar með framtíðartekjutap. Því til stuðnings er bent á að tekjur hennar eftir útskrift árið 1999 hafi numið því sem næst sömu fjárhæð, fjárhæðin sé mjög nálægt lágmarkslaunum skaðabótalaga, sem lögfest hafi verið rúmlega tveimur mánuðum eftir slys stefnanda, og sé jafnhá meðaltekjum verkafólks á 1. ársfjórðungi 1999 sem hafi verið 1.843.200 krónur. Verði því stuðst við árslaun stefnanda árið 2000 sem viðmiðunartekjur samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Að teknu tilliti til framlags atvinnurekanda í lífeyrissjóð nemi árslaunaviðmið stefnanda 1.932.624 krónum. Bætur reiknist 1.932.624 x 15% x 10 = 2.898.936 krónur sem samkvæmt þágildandi 2. mgr. 15. gr. skaðabótalaga skuli umreikna samkvæmt breytingum á lánskjaravísitölu frá því tjón varð og þar til bótafjárhæð sé ákveðin. Bætur fyrir varanlega örorku hafi endanlega verið ákvarðaðar í kröfubréfi lögmanns stefnanda, dags. 14. apríl 2005, og nemi samkvæmt því: 2.898.936 kr. x 4768/3643 = 3.794.161 krónum. Hið stefnda tryggingafélag hafi þegar greitt stefnanda samtals 1.111.630 krónur vegna varanlegrar örorku sem dragist frá kröfu stefnanda sem samkvæmt þessu sé að höfuðstól 2.682.531 króna.
Af hálfu stefndu er á því byggt að 8. gr. skaðabótalaga eigi beinlínis við um stefnanda samkvæmt orðalagi þess: “Bætur til barna og tjónþola, sem að verulegu leyti nýta vinnugetu sína þannig að þeir hafi engar eða takmarkaðar vinnutekjur, skal ákvarða á grundvelli . . .” Til að fallist verði á kröfu stefnanda um frekari bætur vegna varanlegrar örorku verði að líta framhjá orðalagi skaðabótalaga og sjónarmiðum sem sett séu fram í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögunum.
2
Stefnandi krefst bóta vegna sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns samkvæmt 1. gr. skaðabótalaga en til sjúkrakostnaðar teljist m.a. kostnaður við að skipta um starf. Í því felist að tjónþoli, sem geri sér með réttu grein fyrir því að sér sé ómögulegt að sinna því starfi sem hann hafi menntað sig til að gegna eða hann hafi sinnt fram að tjónsatviki og ákveður að fara í nám og undirbúa sig þannig undir annað og léttara framtíðarstarf, geti talið þann kostnað sem hann hafi af því til sjúkrakostnaðar. Skilyrði þess að slíkur kostnaður teljist sjúkrakostnaður sé að mat á varanlegri örorku sé miðað við skerðingu á vinnugetu í því starfi sem tjónþoli undirbúi sig fyrir síðar og leiði til minni skerðingar á vinnugetu enda verði örorkumatið lægra fyrir vikið.
Þegar stefnandi hafi verið búin að vera úti á vinnumarkaði í rúmlega fjögur ár frá slysdegi hafi henni orðið ljóst að vegna afleiðinga slyssins hafi hún ekki með góðu móti getað sinnt þeim störfum sem henni stóðu til boða. Á þeim tíma hafi hún unnið mest við innritun flugfarþega sem hafi reynt töluvert á líkamann vegna kyrrsetu o.fl. Stefnandi hafi því ákveðið að fara í háskólanám til að takmarka það tekjutap sem hún hafi orðið fyrir vegna afleiðinga slyssins. Með frekari menntun hyggist stefnandi njóta því sem næst sömu kjara og áður en við léttari störf og í minna starfshlutfalli. Hún hafi því innritast í Kennaraháskóla Íslands, leikskólakennaraskor, haustið 2003 og stefni að því að ljúka námi vorið 2006. Ljóst sé að örorkumat stefnanda miðist við störf, sem hún hafi undirbúið sig fyrir með síðara námi sínu, og hafi afleiðingar slyssins minni áhrif á starfsgetu hennar í þeim en í þeim störfum sem hún hafi sinnt og henni stóðu til boða eftir slysið. Með því hafi stefnandi gætt tjónstakmörkunarskyldu sinnar. Leikskólakennaranám sé þriggja ára nám. Til að gæta allrar sanngirni verði látið sitja við að krefjast greiðslu sömu fjárhæðar og Hæstiréttur hafi ákvarðað tjónþolum vegna tafa á námi, þ.e. 300.000 króna vegna hvers árs. Með vísun til 1. gr. skaðabótalaga og umfjöllunar í greinargerð sé því krafist 900.000 króna vegna sjúkrakostnaðar/ við að skipta um starf.
Af hálfu stefndu er á því byggt að við tjónsatburðinn hafi stefnandi stundað nám við Fjölbrautaskóla Suðurnesja og lokið því eftir slysið. Tjónsatvikið, þ.e. slysið, hafi því engin áhrif haft til breytinga á störfum stefnanda enda hafi hún nýtt vinnugetu sína einkum til náms þegar slysið varð. Þá mótmæla stefndu því sem ósönnuðu að stefnandi hafi farið í frekara nám beinlínis vegna afleiðinga slyssins. Bent er á að langur tími hafi liðið frá slysi þar til stefnandi hóf nám við KHÍ. Þá sé rétt að líta til þess að ekki geti talist óeðlilegt að stefnandi hafi menntað sig eftir hefðbundið framhaldsskólanám heldur beinlínis eðlilegt. Af þessum sökum séu ósönnuð orsakatengsl milli slyssins og hins ætlaða tjóns vegna sjúkrakostnaðar. Þá liggi ekkert fyrir um að það starf, sem stefnandi kveðist stefna á að gegna, skerði vinnugetu hennar síður en þau störf sem hún hafi sinnt rétt fyrir og eftir slysið. Ennfremur verði, að teknu tilliti til náms hennar, að telja að hún eigi tilkall til hærri launa en ella eins og algengt sé eftir að fólk mennti sig. Þá er á það bent að ekki geti komið til þess að hugsanlegt tjón við skiptingu starfa hafi þýðingu í þessu máli þegar af þeirri ástæðu að um bætur vegna varanlegrar örorku stefnanda fari eftir miskastigi sbr. 8. gr. skaðabótalaga en ekki fjárhagslegu mati í skilningi 5.-7. gr. laganna. Loks er á því byggt að tjón vegna námsiðkunar sé ósannað sem og þær fjárhæðir sem að þessum kröfulið lúta.
3
Til vara krefjast stefndu lækkunar á kröfum stefnanda.
Verði fallist á að bætur vegna varanlegrar örorku skuli fara eftir 5.-7. gr. en ekki 8. gr. skaðabótalaga er þess krafist að bætur verði lækkaðar. Því er mótmælt að tekjur stefnanda árið eftir slys sé réttur mælikvarði á tekjur hennar í framtíðinni. Þá er því mótmælt að skilyrði undantekningarákvæðis 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga eigi við í málinu.
Krafist er lækkunar á kröfu stefnanda um sjúkrakostnað og annað fjártjón. Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir fjárhæð þess tjóns sem hljótist af því að skipta um starf og hafi engar upplýsingar verið lagðar fram um fjárhæð þess.
Vaxtakröfu stefnanda er mótmælt. Vextir eldri en fjögurra ára séu fyrndir. Ekki séu lagaskilyrði til að reikna 2% vexti samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga af öðru fjártjóni og sjúkrakostnaði. Dráttarvaxtakröfu stefnanda er mótmælt sem og upphafsdegi kröfunnar.
III
Ágreiningslaust er að greiðslur, sem inntar hafa verið af hendi til stefnanda vegna varanlegrar örorku, séu rétt útreiknaðar eftir 8. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eftir breytingar með lögum nr. 42/1996 en fyrir breytingar með lögum nr. 37/1999.
Í 7. gr. 2. mgr. og 8. gr. skaðabótalaga getur undantekninga frá hinni almennu reglu, sem fram er sett í 5.-7. gr. laganna, um ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku.
Í athugasemdum með frumvarpi, sem varð að skaðabótalögunum, segir m.a. um 5. gr. að það, sem ráði úrslitum við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku samkvæmt greininni, sé hvort tjónþoli tapi tekjum til frambúðar. Oft sé miklum erfiðleikum bundið að meta vinnutekjutjón vissra hópa tjónþola, þ.e. barna, ungs fólks í skóla og þeirra sem vinni heimilisstörf. Því sé lagt til í 8. gr. frumvarpsins að örorkubætur til tjónþola, sem nýti starfsgetu sína að verulegu leyti til annars en að afla vinnutekna, skuli ákveðnar eftir miskastigi skv. 4. gr. Þess vegna skuli ekki meta örorku þessara einstaklinga á grundvelli örorkustigs samkvæmt 5. gr. Í athugasemdunum segir um 8. gr. að reglum hennar skuli beitt um ungt námsfólk þótt það afli tekna í vinnu með námi og án tillits til tekna af þess konar vinnu, svo framarlega sem nemandinn stundi í reynd nám með eðlilegum hætti. Í athugasemdum um 7. gr. í frumvarpinu segir: . . . Stundi tjónþoli nám þegar líkamstjón ber að höndum og þiggi laun í tengslum við það, t.d. iðnnám, verður venjulega að miða árslaun við tekjur sem tjónþoli mundi hafa haft ef hann hefði verið nýbúinn að ljúka námi. Um tjónþola, sem ekki fá laun í tengslum við nám, fer eftir ákvæðum 8. gr. frumvarpsins. Þar eru sérstakar reglur um útreikning bóta til barna, unglinga í skóla og þeirra sem vinna heimilisstörf. Þörf er á þeim vegna þess að ekki er unnt að miða við árslaun þegar þessir tjónþolar eiga hlut að máli.”
Þegar slys það varð, sem um ræðir í málinu, var stefnandi 20 ára nemandi í fjölbrautarskóla og átti um tvo mánuði eftir til stúdentsprófs sem hún lauk á tilsettum tíma. Starfsréttinda er almennt ekki aflað með stúdentsprófi enda er ekki fram komið að stefnandi hafi gegnt störfum sem gerðu slíkt próf að áskilnaði. Í málinu nýtur ekki nærlægrar viðmiðunar við árslaun til að bætur fyrir varanlega örorku verði ákvarðaðar samkvæmt 5.-7. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt þessu hefur tjón stefnanda vegna varanlegrar örorku þegar verið að fullu bætt.
Í 1. gr. skaðabótalaga er kveðið á um að sá, sem bótaábyrgð beri á líkamstjóni, skuli greiða skaðabætur fyrir atvinnutjón, sjúkrakostnað og annað fjártjón sem af því hlýst og enn fremur þjáningabætur. Bótaréttur vegna sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns er samkvæmt því óháður því eftir hvaða reglum bætur fyrir atvinnutjón eru ákvarðaðar. Samkvæmt því, sem segir í greinargerð með skaðabótalögunum, geta útgjöld vegna þess að tjónþoli þurfi að skipta um starf eftir slys fallið undir hugtakið sjúkrakostnaður.
Stefnandi var ekki í starfi er hún slasaðist heldur námi. Ekkert er fram komið um að starfsvettvangur hennar eftir slysið hefði orðið annar hefði hún ekki orðið fyrir umræddu slysi. Þá er ekki sýnt fram á orsakasamband slyssins og náms sem hún hóf hálfu fimmta ári síðar til öflunar starfsréttinda sem leikskólakennari. Af þessu leiðir að ekki verður fallist á kröfu stefnanda um bætur vegna sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns samkvæmt 1. gr. skaðabótalaga.
Samkvæmt framangreindu er niðurstaða dómsins sú að sýkna beri stefndu af kröfum stefnanda.
Ákveðið er að málskostnaður skuli falla niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málsflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Gríms Sigurðssonar héraðsdómslögmanns, 300.000 krónur.
Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndu, Vörður vátryggingafélag hf. og Verkþing ehf., eru sýknir af kröfum stefnanda, Þóru Kristínar Halldórsdóttur.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns hennar, Gríms Sigurðssonar héraðsdómslögmanns, 300.000 krónur.