Hæstiréttur íslands
Mál nr. 686/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Fimmtudaginn 22. desember 2011. |
|
Nr. 686/2011. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Stefán Karl Kristjánsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Ólafur Börkur Þorvaldsson hæstaréttardómari og Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson settir hæstaréttardómarar.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. desember 2011 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 17. janúar 2012 klukkan 24. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að úrskurðurinn verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með dómi 18. febrúar 2011 var varnaraðili sakfelldur fyrir þjófnað, nytjastuld og fjársvik. Um var að ræða fjölda brota, sem framin voru á tímabilinu frá mars til nóvember 2010. Var refsing varnaraðila ákveðin fangelsi í 20 mánuði, en þar af var fullnustu 17 mánaða hennar frestað skilorðsbundið til tveggja ára. Varnaraðili hlaut síðan dóm 20. desember 2011 en með honum var varnaraðili meðal annars sakfelldur fyrir fjölda þjófnaðarbrota sem framin voru á tímabilinu frá mars til loka október það ár. Var hinn skilorðsbundni hluti refsingarinnar samkvæmt fyrrgreindum dómi tekinn upp og varnaraðila í einu lagi gert að sæta tveggja ára fangelsi vegna beggja málanna. Við uppkvaðningu dómsins tók varnaraðili sér lögmæltan frest til að ákvörðunar um áfrýjun og í kjölfarið var honum gert að sæta gæsluvarðhaldi með hinum kærða úrskurði.
Varnaraðila var með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands 30. október 2011 gert að sæta gæsluvarðhaldi til 25. nóvember sama ár á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og var sá úrskurður staðfestur með dómi Hæstaréttar 3. nóvember 2011 í máli nr. 588/2011. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 25. nóvember 2011 var varnaraðila á ný á sama grunni gert að sæta gæsluvarðhaldi allt þar til dómur gengi í máli hans en þó eigi lengur en til 22. desember 2011.
Samkvæmt framansögðu verður fallist á það með héraðsdómi að skilyrðum c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt um að varnaraðili skuli sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan áfrýjunarfrestur varir í máli hans, sbr. 3. mgr. 97. gr. sömu laga. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2011.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði x, kt. [...], til að sæta áfram gæsluvarðhaldi á meðan áfrýjunarfrestur stendur í máli hans þó eigi lengur en til þriðjudagsins 17. janúar 2012, kl. 24.00.
Í kröfu lögreglustjóra kemur fram að dómþoli hafi fengið tveggja ára fangelsi með dómi er uppkveðinn var fyrr í dag sbr. S-1836/2011. Dómþoli hefur tekið sér frest til að taka ákvörðun um hvort hann áfrýi dómnum til þriðjudagsins 17. janúar 2012, kl. 24.00.
Í ljósi sakarferils X sé það mat lögreglustjóra að hann muni halda afbrotum áfram gangi hann frjáls ferða sinna. Það sé því afar brýnt að honum verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi.
Með vísan til gagna málsins, c liðar 1. mgr. 95. gr. laga og 3. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga
Með vísan til þess sem fram kemur í kröfugerð lögreglustjórans sem og tilvitnanir lagaákvæða er krafa lögreglustjórans tekin til greina. Hafnað er sjónarmiðum verjanda um að krafan sé ekki á fullnægjandi formi, þótt hún sé handrituð. Verjandi kynnti sér kröfuna rækilega í þinghaldinu.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Dómfelldi, X, kt. [...], skal sæta áfram gæsluvarðhaldi á meðan áfrýjunarfrestur stendur í máli hans þó eigi lengur en til þriðjudagsins 17. janúar 2012 kl. 24.00.