Hæstiréttur íslands

Mál nr. 338/2016

Kjartan Hallgeirsson, Lárus Hrafn Lárusson og Rósa Hallgeirsdóttir (Jóhannes Sigurðsson hrl.)
gegn
Landsbankanum hf. (Bjarni Þór Óskarsson hrl.)

Lykilorð

  • Sameignarfélag
  • Veðréttur
  • Tryggingarbréf
  • Skuldabréf
  • Kröfuréttur

Reifun

Ágreiningur aðila laut að því hvort tryggingarbréf, sem RoL sf. gaf út til L hf. í ágúst 2007, stæði til tryggingar á skuldabréfi félagsins frá mars 2009, en R undirritaði bæði bréfin fyrir hönd RoL sf. Fyrir lá að frá og með mars 2007 var R eini félagsmaðurinn í RoL sf. Með hliðsjón af því og að virtum ákvæðum laga nr. 50/2007 um sameignarfélög var talið ljóst að félaginu hafði sjálfkrafa verið slitið og tilvist þess þar með löngu lokið þegar skuldabréfið var gefið út. Á því tímamarki hefði því enginn verið til þess bær að stofna til fjárskuldbindinga í nafni félagsins þannig að gildi hefði að lögum. Þar sem ekki hefði verið um að ræða gilda stofnun kröfu af hálfu RoL sf. samkvæmt skuldabréfinu var litið svo á að veðréttur samkvæmt tryggingarbréfinu gæti ekki staðið til tryggingar skuld félagsins samkvæmt skuldabréfinu. Þegar af þeirri ástæðu voru K, L og R sýknuð af kröfu L hf. um heimild til að gera fjárnám í fasteign þeirra. Þar sem ekki var á því byggt í málinu af hálfu L hf. að sú fasteign stæði til fullnustu öðrum og gildum skuldbindingum RoL sf. var fallist á kröfu K, L og R um skyldu L hf. til að láta aflýsa tryggingarbréfinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 4. maí 2016. Þau krefjast sýknu af kröfu stefnda og að honum verði gert að aflýsa af fasteigninni Safamýri 52 í Reykjavík tryggingarbréfi útgefnu af RoL, fjárfestingu sf. 28. ágúst 2007 að fjárhæð 3.000.000 krónur. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Samkvæmt gögnum málsins keyptu áfrýjendurnir Lárus Hrafn Lárusson og Rósa Hallgeirsdóttir firmað Eignamiðstöðin sf. á árinu 1997 og breyttu nafni þess í RoL, fjárfestingu sf.  Í tilkynningu til firmaskrár 26. október 2005 kom fram að áfrýjandinn Rósa hefði gengið úr félaginu og á sama tíma hefði Hildur Dagný Kristjánsdóttir gengið í það. Með tilkynningunni fylgdu nýjar samþykktir félagsins dagsettar sama dag og kom þar fram að tilgangur þess væri ýmis fjármálastarfsemi, námskeiðahald, heildsala, smásala, rekstur fasteigna og lánastarfsemi. Væru félagsmenn áfrýjandinn Lárus Hrafn og áðurnefnd Hildur Dagný. Þá kom einnig fram að samningnum um sameignarfélagið gæti hver félagsmaður sagt upp með sex mánaða fyrirvara miðað við áramót og skyldi þá gera upp reikninga félagsins og skipta eignum þess eða skuldum samkvæmt eignahlutföllum félagsmanna. Vildi einhver félagsmanna sem ekki hefði sagt samningnum upp halda starfseminni áfram væri það heimilt gegn því að greiða þeim sem sagt hefði upp hluta hans eða þeirra innan sex mánaða frá dagsetningu reikningsskila. Í tilkynningu til firmaskrár 26. september 2006 sagði að áfrýjandinn Lárus Hrafn hefði gengið úr félaginu en áfrýjandinn Rósa á sama tíma í það. Loks var með tilkynningu til firmaskrár 20. mars 2007 gert kunnugt að Hildur Dagný hefði gengið úr félaginu.  

Eftir úrsögn Hildar Dagnýjar úr RoL, fjárfestingu sf. 20. mars 2007 var áfrýjandinn Rósa samkvæmt framansögðu eini félagsmaðurinn. Rúmum fimm mánuðum síðar eða 28. ágúst sama ár gaf RoL, fjárfesting sf. út tryggingarbréf til Landsbanka Íslands hf. að fjárhæð 3.000.000 krónur og var það undirritað af áfrýjandanum Rósu fyrir hönd félagsins. Í tryggingarbréfinu sagði meðal annars að „til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum skuldum og fjárskuldbindingum mínum/okkar við Landsbanka Íslands hf. ... nú eða síðar, hvort sem þær eru samkvæmt víxlum, lánssamningum, skuldabréfum, yfirdrætti á tékkareikningi, hvers konar ábyrgðum og ábyrgðarskuldbindingum (þar með töldum ábyrgðum, er bankinn hefur tekist eða kann að takast á hendur mín/okkar vegna) eða í hvaða öðru formi sem er, á hvaða tíma sem er og í hvaða gjaldmiðli sem er“ væri Landsbanka Íslands hf. veðsett með 2. veðrétti og uppfærslurétti fasteignin Safamýri 52 í Reykjavík. Áfrýjandinn Kjartan Hallgeirsson undirritaði tryggingarbréfið sem þinglýstur eigandi hinnar veðsettu eignar og að auki áfrýjendurnir Rósa og Lárus Hrafn. Samkvæmt gögnum málsins munu hin síðarnefndu hafa eignast umrædda fasteign með afsali 2. mars 2005  og selt hana áfrýjandanum Kjartani með kaupsamningi 7. sama mánaðar sem var þinglýst sama dag en afsali til hans virðist ekki hafa verið þinglýst.

Bú áfrýjandans Rósu var tekið til gjaldþrotaskipta 20. október 2008 og lauk skiptum 14. janúar 2009. Þann 5. mars 2009 var í nafni RoL, fjárfestingar sf. gefið út skuldabréf án tryggingar til NBI hf., sem nú ber heiti áfrýjanda, að fjárhæð 3.650.000 krónur. Lánstími samkvæmt bréfinu var 15 ár, fjöldi afborgana 180 og fyrsti gjalddagi afborgunar 19. mars 2009. Skuldabréfið undirritaði áfrýjandinn Rósa fyrir hönd félagsins. Samkvæmt því sem greinir í hinum áfrýjaða dómi hefur ekkert verið greitt af skuldabréfinu. Árangurslaust fjárnám var gert fyrir kröfu samkvæmt skuldabréfinu hjá RoL, fjárfestingu sf. 11. mars 2014. Stefndi höfðaði mál þetta 24. nóvember 2014 með þeim dómkröfum sem í hinum áfrýjaða dómi greinir. Ágreiningur aðila lýtur meðal annars að því hvort tryggingarbréfið 28. ágúst 2007 standi til tryggingar skuldabréfinu 5. mars 2009 en á því eru kröfur stefnda reistar. Áfrýjendur halda því á hinn bóginn fram að allar skuldir og fjárskuldbindingar sem tryggingarbréfinu hafi verið ætlað að tryggja hafi verið fallnar niður þegar skuldabréfið var gefið út þar sem tilvist RoL, fjárfestingar sf. hafi þá sjálfkrafa verið lokið.

II

Áfrýjandinn Rósa var eins og áður greinir eini félagsmaðurinn í RoL, fjárfestingu sf. eftir útgöngu Hildar Dagnýjar Kristjánsdóttur úr félaginu 20. mars 2007. Um sameignarfélög gilda nú lög nr. 50/2007 sem öðluðust gildi 1. janúar 2008. Samkvæmt ákvæði í þeim til bráðabirgða gilda reglur laganna um stofnun sameignarfélaga ekki um félög sem stofnuð voru og skráð fyrir gildistöku þeirra. Af þessu leiðir að lögin gilda eftir því sem við getur átt að öðru leyti um sameignarfélög sem voru stofnuð fyrir 1. janúar 2008. Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga nr. 50/2007 telst skráðu sameignarfélagi hafa verið slitið hafi félagsmenn í því verið færri en tveir í sex mánuði og skal fyrirtækjaskrá þá afskrá félagið. Í lögskýringargögnum segir um þetta að komi upp sú staða að allir félagsmenn nema einn séu gengnir úr félaginu sé samstarfinu í raun lokið og félagið hætti að vera til án þess að til formlegra skipta þurfi að koma.

Hvort heldur sem miðað er við að tilvist RoL, fjárfestingar sf. hafi sjálfkrafa lokið 20. september 2007 þegar liðnir voru sex mánuðir frá útgöngu Hildar Dagnýjar Kristjánsdóttur úr félaginu, það hafi gerst við gildistöku laga nr. 50/2007 hinn 1. janúar 2008 eða 1. júlí 2008 þegar liðnir voru sex mánuðir frá gildistöku laganna, er ljóst að félaginu hafði sjálfkrafa verið slitið og tilvist þess þar með löngu lokið þegar skuldabréfið 5. mars 2009 var gefið út. Á því tímamarki var enginn til þess bær að stofna til fjárskuldbindinga í nafni félagsins þannig að gildi hefði að lögum. Þar sem ekki var um að ræða gilda stofnun kröfu af hálfu RoL, fjárfestingar sf. samkvæmt skuldabréfinu 5. mars 2009 getur veðréttur samkvæmt tryggingarbréfinu 28. ágúst 2007 ekki staðið til tryggingar skuld félagsins samkvæmt skuldabréfinu. Þegar af þeirri ástæðu verða áfrýjendur sýknaðir af kröfu stefnda um heimild til að gera fjárnám í fasteigninni að Safamýri 52 í Reykjavík. Þar sem ekki er á því byggt í málinu af hálfu stefnda að sú fasteign standi til fullnustu öðrum og gildum skuldbindingum RoL, fjárfestingar sf. er fallist á kröfu áfrýjenda um skyldu stefnda til að láta aflýsa tryggingarbréfinu.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni verður stefnda gert að greiða áfrýjendum hverjum fyrir sig málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi á báðum dómstigum eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjendur, Kjartan Hallgeirsson, Lárus Hrafn Lárusson og Rósa Hallgeirsdóttir, eru sýkn af kröfu stefnda, Landsbankans hf.

Stefnda er skylt að aflýsa af fasteigninni Safamýri 52 í Reykjavík tryggingarbréfi að fjárhæð 3.000.000 krónur útgefnu 28. ágúst 2007 af RoL, fjárfestingu sf.  

Stefndi greiði áfrýjendum hverjum fyrir sig samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. febrúar 2016

                Mál þetta, sem var dómtekið 27. janúar sl., er í aðalsök höfðað 24. nóvember 2014 af Landsbankanum hf., Austurstræti 11 í Reykjavík, á hendur Lárusi Hrafni Lárussyni, Safamýri 52 í Reykjavík, Kjartani Hallgeirssyni, Kúrlandi 7 í Reykjavík og Rósu Hallgeirsdóttur, Safamýri 52 í Reykjavík. Aðalsök var þingfest 27. janúar 2015.

                Aðalstefnandi krefst þess í aðalsök að honum verði með dómi heimilað að gera fjárnám inn í veðrétt sem hann á í eignarhlutum gagnstefnenda í fasteigninni að Safamýri 52, Reykjavík, fastanúmer 201-4832, ásamt tilheyrandi hlutdeild í eignarlóðum og öllu því sem eigninni fylgir og fylgja ber, samkvæmt tryggingarbréfi nr. 0115-63-150876, útgefnu 28. ágúst 2007, til tryggingar á skuld RoL fjárfestingar sf. við stefnanda samkvæmt skuldabréfi nr. 0115-74-153750, útgefnu 5. mars 2009, að fjárhæð 7.040.298 krónur. Þá krefst aðalstefnandi málskostnaðar ásamt virðisaukaskatti.

                Gagnstefnendur krefjast sýknu af dómkröfu aðalstefnanda í aðalsök og málskostnaðar með virðisaukaskatti.

                Gagnstefnandi höfðaði gagnsakarmál á hendur aðalstefnanda með stefnu birtri 25. febrúar 2015 og gerir þær kröfur að aðalstefnanda verði gert skylt að aflýsa tryggingarbréfi af fasteigninni Safamýri 52 í Reykjavík, fastanúmer 201-4832, útgefnu 28. ágúst 2007 af RoL fjárfestingu sf. upphaflega að fjárhæð 3.000.000 króna sem tryggt er með 2. veðrétti í fasteigninni. Þá er krafist málskostnaðar að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

                Aðalstefnandi krefst sýknu af kröfum gagnstefnenda í gagnsök, auk málskostnaðar ásamt virðisaukaskatti.

                                                                                              I

                Gagnstefnendur Lárus Hrafn og Rósa keyptu félagið RoL fjárfestingu sf., áður Eignamiðstöðin sf., þann 17. apríl 1997. Nokkrar breytingar urðu á félagsaðild, en með tilkynningu til firmaskrár, dags. 20. mars 2007, sagði Hildur Dagný Kristjánsdóttir sig úr félaginu og eftir það var gagnstefnandi Rósa eini félagsmaðurinn.

                Með tryggingarbréfi nr. 0115-63-150876, útgefnu 28. ágúst 2007 af gagnstefnanda Rósu fyrir hönd RoL fjárfestingar sf. var fasteignin Safamýri 52 í Reykjavík, fastanúmer 201-4832, sett að veði með 2. veðrétti og uppfærslurétti til tryggingar á skuldum útgefanda við Landsbanka Íslands hf. með samþykki allra gagnstefnenda. Réttindi Landsbanka Íslands hf. samkvæmt tryggingarbréfinu fluttust til aðalstefnanda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008. Tryggingarbréfið var upphaflega að fjárhæð 3.000.000 króna, verðtryggt með vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu sem var þá 273,0 stig og stóð til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum skuldum og fjárskuldbindingum útgefenda við Landsbanka Íslands hf., nú eða síðar, hvort sem þær voru samkvæmt víxlum, lánssamningum, skuldabréfum, yfirdrætti á tékkareikningi, hvers konar ábyrgðum og ábyrgðarskuldbindingum eða í hvaða öðru formi sem er, á hvaða tíma sem er og í hvaða gjaldmiðli sem er. Þá náði fjárhæðin einnig til dráttarvaxta, verðbóta, lögbundinna vanskilaálaga, kostnaðar við kröfugerð, innheimtu- og málskostnað, kostnað af fjárnámsgerð og frekari fullnustugerðum, annars kostnaðar sem af vanskilum kann að leiða og aukagreiðslna svo sem útlagðra tryggingariðgjalda vegna hins veðsetta. Uppreiknuð staða tryggingarbréfsins 10. nóvember 2014 var 4.643.956 krónur.

                Þann 5. mars 2009 tók RoL fjárfesting sf. á sig skuld gagnvart aðalstefnanda samkvæmt skuldabréfi nr. 0115-74-153750, nú nr. 0115-36-60210, að fjárhæð 3.650.000 krónur. Lánstími skyldi vera 15 ár, fjöldi afborgana skyldi vera 180, greiðsludagur fyrstu afborgunar og fyrstu vaxtagreiðslu skyldi vera 19. mars 2009, einn mánuður skyldi vera á milli gjalddaga og áttu vextir að reiknast frá útborgunardegi lánsins. Kjörvextir skyldu vera 8,80%, flokkur vaxtaálags nr. 2, vaxtaálag þá 1,50% eða samtals 10,30% ársvextir við undirritun. Grunnvísitala skyldi vera 332,90. Lánið bar að greiða með jöfnum greiðslum afborgana og vaxta. Lánið var bundið vísitölu neysluverðs til verðtryggingar með grunnvísitöluna 332,90 stig, þannig að skuldin breytist í samræmi við breytingar á vísitölunni frá grunnvísitölunni til gjalddaga á hverjum tíma. Þannig skal útgefandi greiða til viðbótar hverri einstakri greiðslu afborgana og vaxta verðuppbót á hverjum gjalddaga sem miðast við hækkun vísitölu frá grunnvísitölunni. Af láninu skyldu greiðast breytilegir vextir, eins og þeir eru ákveðnir á hverjum tíma af bankanum og skyldi það taka jafnt til kjörvaxta og vaxtaálags. Vextirnir skyldu greiðast eftir á, á sömu gjalddögum og afborganir, nema um annað yrði samið. Bankanum var gert heimilt hvenær sem er á lánstímanum að hækka eða lækka vextina, þ.m.t. vaxtaálag, í samræmi við vaxtaákvarðanir bankans á hverjum tíma og/eða færa lánið á milli vaxtaflokka, svo sem ef breytingar yrðu á fjárhagsstöðu og endurgreiðslumöguleikum útgefanda, ef breytingar yrðu á kjörvaxtakerfi bankans eða aðrar aðstæður gæfu tilefni til. Skyldi bankinn ákveða breytingar í samræmi við 2. tölulið, yrði lántaka tilkynnt um það sérstaklega eða með almennri auglýsingu eftir atvikum og ástæður þess tilgreindar. Skyldi lántaki ekki vilja una breytingunni var honum gert heimilt að greiða skuldina upp með því vaxtaálagi sem í gildi var fram að breytingunni, enda hafi hann að fullu greitt skuldina innan 30 daga frá dagsetningu tilkynningar Landsbankans. Útgefandi skuldbatt sig til að greiða á hverjum gjalddaga kostnað af innheimtu hverrar greiðslu af bréfinu samkvæmt gjaldskrá bankans á hverjum tíma. Yrði dráttur á greiðslu afborgana, vaxta og/eða vísitöluálags lánsins var bankanum heimilt að gjaldfella skuldina fyrirvaralaust og án uppsagnar. Kröfuhafi gat þá valið um að viðhalda umsaminni verðtryggingu eftir gjalddaga eða gjaldfellingu, og krefja skuldara um vexti í samræmi við það, eða að skuldin bæri dráttarvexti af gjaldfallinni eða gjaldfelldri upphæð, í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, nema um annað væri sérstaklega samið. Fyrir gjaldfallinni fjárhæð mátti gera aðför hjá útgefanda til fullnustu skuldarinnar, án undangengins dóms eða réttarsáttar, samkvæmt 7. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Auk þess að ná til höfuðstóls skuldarinnar skyldi aðfararheimild þessi ná til vísitöluálags vaxta, dráttarvaxta, máls- og/eða innheimtukostnaðar, kostnaðar af gerðinni sjálfri og væntanlegs kostnaðar af frekari fullnustuaðgerðum.

                Ekkert hefur verið greitt af láninu samkvæmt framangreindu skuldabréfi og elsti ógreiddi gjalddagi er því 19. mars 2009. Gert var árangurslaust fjárnám hjá RoL fjárfestingu sf. 11. mars 2014. Uppgreiðsluverðmæti lánsins 10. nóvember 2014 var 7.040.298 krónur.

                Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 20. október 2008 var bú gagnstefnanda Rósu tekið til gjaldþrotaskipta og var skiptum lokið á skiptafundi 14. janúar 2009.

                                                                                              II

                Stefnandi byggir kröfur sínar á skuldabréfi nr. 0115-74-153750 (nú nr. 0115-36-60210) og tryggingarbréfi nr. 0115-63-150876 og skilmálum þeirra. Skuld samkvæmt skuldabréfinu hafi ekki fengist greidd og aðalstefnanda sé því nauðsynlegt að fá dóm um að honum sé heimilað fjárnám í umræddri fasteign gagnstefnanda að því marki sem veðtryggingin taki til dómkröfunnar samkvæmt ákvæðum tryggingarbréfsins sem hvíli á eignarhluta gagnstefnenda að Safamýri 52 í Reykjavík, með fastanúmer 201-4832, en bréfið sé allsherjarveð og því ekki unnt að fara beint í aðför samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/1989 eða beiðast nauðungarsölu samkvæmt 6. gr. laga nr. 90/1991 á grundvelli þeirra.

                RoL fjárfesting sf. hafi verið í viðskiptum við Landsbanka Íslands hf. frá árinu 2006. Félagsmenn frá þeim tíma hafi verið gagnstefnendur og hjónin Lárus Hrafn og Rósa, auk Hildar Dagnýjar Kristjánsdóttur, dóttur gagnstefnanda Rósu. Í samningi fyrir félagið komi fram að tilgangur þess sé ýmis fjármálastarfsemi, námskeiðshald, heildsala, smásala, rekstur fasteigna og lánastarfsemi. Félagið hafi stofnað tékkareikning nr. 6104 við Breiðholtsútibú Landsbanka Íslands hf. þann 30. ágúst 2006. Gagnstefnandi Lárus Hrafn hafi ritað undir umsóknina fyrir hönd félagsins og í dálkinn „rithandarsýnishorn þeirra sem ávísa/hafa aukakort á reikninginn“ hafi gagnstefnendurnir Lárus Hrafn og Rósa ritað nöfn sín og kennitölur og gagnstefnandi Lárus Hrafn hafi hakað við reitinn „óska eftir korti“. Á yfirliti yfir reikninginn megi sjá að gagnstefnandinn Lárus Hrafn hafi alla tíð verið skráður fyrir reikningnum og fengið send reikningsyfirlit vegna hans. Reikningurinn hafi verið í stöðugri notkun frá stofnun hans allt þar til í mars 2009 þegar yfirdráttarheimild reikningsins hafi verið greidd upp að mestu. Þá hafi gagnstefnandinn Lárus Hrafn jafnframt fengið þær tilkynningar sem hafi verið sendar félaginu um niðurfellingu yfirdráttarheimildar og óheimilan yfirdrátt árin 2007 til 2009.

                Þann 2. febrúar 2007 hafi RoL fjárfesting sf. gert þrjá skuldfærslusamninga þar sem félagið hafi veitt heimild fyrir því að framangreindur reikningur þess nr. 6104 yrði gjaldfærður mánaðarlega vegna úttekta með þremur VISA-greiðslukortum en handhafar kortanna hafi verið gagnstefnendur Rósa og Lárus Hrafn auk Lindu Stefaníu de L Etoile eða Lindu S Etoile. Þessu til staðfestingar hafi gagnstefnandi Lárus Hrafn ritað undir fyrir hönd félagsins auk þess sem handhafar kortanna hafi hver um sig ritað undir sína umsókn.

                Þann 28. ágúst 2007 hafi félagið svo gefið út tryggingarbréf það sem deilt sé um í máli þessu, til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu allra skulda og fjárskuldbindinga sinna við bankann. Með tryggingarbréfinu hafi fasteignin að Safamýri 52 í Reykjavík verið sett að veði, en gagnstefnendur séu allir þinglýstir eigendur eignarinnar, gagnstefnendur Lárus Hrafn og Rósa samkvæmt afsali frá 2. mars 2005 og gagnstefnandi Kjartan, sem sé bróðir og mágur afsalshafa, samkvæmt kaupsamningi frá 7. mars 2005.

                RoL fjárfesting sf. hafi stofnað veltureikning lögaðila nr. 16104 við Breiðholtsútibú Landsbanka Íslands hf. samkvæmt umsókn 4. febrúar 2008. Samkvæmt fylgiskjali með umsókninni „Umboð til úttekta af innlánsreikningi lögaðila“ hafi gagnstefnendur Lárus Hrafn og Rósa verið prókúruhafar. Þau hafi staðfest umboðið með undirritun sem stjórnarmenn félagsins. Reikningurinn hafi verið í notkun allt fram til mars 2009.

                Þann 5. mars 2009 hafi RoL fjárfesting sf. tekist á hendur skuld samkvæmt skuldabréfi nr. 0115-74-153750 að fjárhæð 3.650.000 krónur. Andvirði skuldabréfsins hafi verið ráðstafað til uppgreiðslu yfirdráttar á framangreindum reikningi félagsins nr. 6104. Trygging fyrir skuldabréfinu skyldi áfram vera tryggingarbréfið sem hafi tryggt m.a. skuld samkvæmt reikningi félagsins nr. 6104. Bréfið hafi upphaflega verið að fjárhæð 3.000.000 króna en við lántökuna hafi það staðið í 3.658.000 krónum. Tryggingarbréfið hafi verið óaðskiljanlegur þáttur í lánveitingunni samkvæmt skuldabréfinu og hefði lánið að öðrum kosti ekki verið veitt. Gagnstefnandi Rósa hafi ritað undir skuldabréfið f.h. félagsins. Vottar að réttri dagsetningu og fjárræði útgefanda hafi verið gagnstefnandi Lárus Hrafn og Hildur Dagný Kristjánsdóttir. Skuldabréfið hafi farið í vanskil 19. mars 2009. Þann 14. september 2009 hafi RoL fjárfestingu sf. og gagnstefnanda Rósu verið birt greiðsluáskorun vegna vanefnda samkvæmt skuldabréfinu og gagnstefnendum öllum hafi verið sent innheimtubréf 16. október 2009. RoL fjárfestingu sf. og gagnstefnanda Rósu hafi aftur verið birt greiðsluáskorun vegna vanefnda samkvæmt skuldabréfinu 5. september 2011 og 26. nóvember 2013. Í kjölfarið hafi verið gert árangurslaust fjárnám hjá RoL fjárfestingu sf. hjá Sýslumanninum í Reykjavík 11. mars 2014. Gagnstefnanda Kjartani hafi alla tíð verið send yfirlit yfir ábyrgðir hans um áramót.

                Með bréfi, dags. 12. febrúar 2014, hafi fyrst borist svar frá lögmanni gagnstefnanda Rósu, fyrir hönd RoL fjárfestingar sf., þar sem þess hafi verið krafist að tryggingarbréfinu yrði aflýst af fasteigninni Safamýri 52. Aðalstefnandi hafi hafnaði því með svarbréfi, dags. 7. mars 2014, og bent á að unnt væri að bera málið undir úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Þann 10. nóvember 2014 hafi gagnstefnendum verið sent innheimtubréf.

                Aðalstefnandi byggi sýknukröfu sína í gagnsök m.a. á því að krafa samkvæmt skuldabréfinu sé ófyrnd. RoL fjárfesting sf. hafi tekið á sig skuld samkvæmt skuldabréfinu 5. mars 2009. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda fyrnist krafa samkvæmt skuldabréfi á 10 árum. Krafan sé því augljóslega ekki fyrnd. Í 1. mgr. 7. gr. sömu laga segi að sé krafa tryggð með ábyrgð eða annarri sambærilegri tryggingu reiknist fyrningarfrestur gagnvart ábyrgðarmanni eftir sömu reglu og um aðalkröfuna. Lögin hafi tekið gildi 1. janúar 2008 eða áður en skuldabréfið hafi verið gefið út. Samkvæmt eldri lögum nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda hafi fyrningartími krafna samkvæmt skuldabréfi einnig verið 10 ár, sbr. 4. gr. laganna.

                Því sé mótmælt að krafan sé fallin niður samkvæmt 118. gr. laga nr. 21/1991 sökum þess að skuldabréfinu hafi ekki verið lýst í þrotabú gagnstefnanda Rósu. Skiptum á búinu hafi lokið 14. janúar 2009 samkvæmt 155. gr. laga nr. 21/1991 án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur. Hugsanleg vanlýsing hafi því engin áhrif á gildi tryggingarbréfsins. Þá hafi lánveitingin samkvæmt skuldabréfinu komið til eftir skiptalok á búi gagnstefnanda Rósu og krafan geti því ekki talist niður fallin á grundvelli þess að bú hennar hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta.

                Samkvæmt 29. gr. laga nr. 50/2007 um sameignarfélög sé löggerningur aðila sem komi fram fyrir hönd sameignarfélags og riti firma þess bindandi fyrir félagið nema hann hafi farið út fyrir takmarkanir á heimild sinni samkvæmt lögunum eða hann hafi farið út fyrir takmarkanir á heimild sinni á annan hátt enda hafi viðsemjandi vitað eða mátt vita um heimildarskortinn og telja verði ósanngjarnt að viðsemjandinn haldi fram rétti sínum.

                Óljóst sé hvenær gagnstefnendur telji að RoL fjárfestingu sf. hafi verið slitið. Af vottorðum fyrirtækjaskrár sé ljóst að félagsmenn hafi ýmist gengið í eða úr félaginu á víxl allt frá stofnun þess. Til að mynda hafi gagnstefnandi Lárus Hrafn verið skráður prókúruhafi félagsins 1. september 2009. Hver einstakur félagsmaður hafi verið í fyrirsvari fyrir félagið og ritað firma þess, sbr. 28. gr. laga nr. 50/2007. Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. sömu laga hvíli sú skylda á öllum félagsmönnun sameignarfélags að tilkynna breytingar á félagssamningi eða öðru því sem tilkynnt hafi verið svo fljótt sem unnt sé í samræmi við 21. gr. firmalaga og eigi síðar en innan mánaðar. Í 2. mgr. ákvæðisins segi að hætti skráð sameignarfélag starfsemi eða uppfylli ekki lengur af öðrum ástæðum skilyrði skráningar í firmaskrá skuli það tilkynnt firmaskrá og afskráð. Tilkynningarskyldan hvíli á öllum félagsmönnum viðkomandi félags, sbr. 48. gr. laganna og skuli firmaskrá fá slíkar tilkynningar birtar í Lögbirtingablaði á kostnað tilkynnanda, sbr. 50. gr. laganna. Um ríka tilkynningarskyldu sé að ræða enda skuli sá sem vanræki tilkynningar til firmaskrár sæta sektum og einnig megi gera sameignarfélagi sekt skv. II. kafla A í almennum hegningarlögum vegna vanrækslu forsvarsmanna á tilkynningum, sbr. 51. gr. laganna. Af málatilbúnaði gagnstefnenda verði ekki annað ráðið en að þeir varpi tilkynningarskyldu sinni yfir á viðsemjanda sinn, aðalstefnanda, þar sem þeir haldi því fram að honum hefði átt að vera ljóst að félagið væri ekki lengur lögaðili.

                Þá sé það áréttað að það varði ekki slit sameignarfélags þótt bú eins félagsmanns þess sé tekið til gjaldþrotaskipta, en samkvæmt 36. gr. laga nr. 50/2007 sé einungis heimilt en ekki skylt að víkja viðkomandi félagsmanni úr félaginu þegar svo ber undir. Ákvörðun um brottvikningu skuli tekin á félagsfundi að kröfu félagsmanns. Gagnstefnandi Lárus Hrafn hafi iðulega komið fram fyrir hönd félagsins gagnvart aðalstefnanda. Ekkert hafi því gefið aðalstefnanda tilefni til að vefengja skuldbindingarheimildir gagnstefnanda Rósu eða ætla að félaginu hafi verið slitið þegar óskað hafi verið eftir láni samkvæmt umræddu skuldabréfi.

                Andvirði skuldabréfsins hafi verið ráðstafað til uppgreiðslu yfirdráttar á reikningi félagsins nr. 6104. Á yfirliti yfir reikninginn komi fram að gagnstefnandi Lárus Hrafn sé skráður í forsvari fyrir félagið allt frá stofnun reikningsins og alla tíð síðan. Þetta komi jafnframt fram á tilkynningum sem félaginu hafi verið sendar vegna niðurfellingar yfirdráttarheimildar og óheimils yfirdráttar. Félagsmenn RoL fjárfestingar sf. hafi aldrei séð ástæðu til að leiðrétta hugsanlegan misskilning bankans á þessu. Það sé áréttað að gagnstefnendur Rósa og Lárus Hrafn séu hjón og hafi sama lögheimili og sameignarfélagið. Birting tilkynningar skv. 1. mgr. 50. gr. um tilgang skráðs félags teljist ein og sér ekki nægileg sönnun þess að viðsemjandi hafi vitað eða mátt vita um heimildarskortinn skv. 2. tölulið 1. mgr. 29. gr. laganna.

                Því sé með öllu vísað á bug að félaginu hafi á einhverjum tímapunkti verið slitið og/eða að starfsmönnum aðalstefnanda hafi getað verið kunnugt um slíkt enda sé engar tilkynningar um slit félagsins að finna í Lögbirtingablaði. Gagnstefnendur Lárus Hrafn og Rósa hafi verið vel kunnug atvinnurekstri enda hafi þau samhliða félaginu rekið einkahlutafélagið Icelandic Clothing Company ehf. Þá hafi birst tilkynning í Lögbirtingablaði um að Hildur Dagný Kristjánsdóttir hafi gengið úr félaginu. Af því verði ekki annað ráðið en að félagsmönnum hafi verið að fullu ljós tilkynningarskylda sín. Fullyrðingar gagnstefnenda um að félaginu hafi verið slitið þegar það hafi tekist á hendur skuldbindingu samkvæmt skuldabréfinu séu haldlausar. Þá hafi þau ekki sýnt fram á að gagnstefnandi Rósa hafi ekki haft fulla heimild til að skuldbinda félagið. Ekki hafi verið ætlunin með lögum um sameignarfélög að leggja skyldur á herðar viðsemjenda þeirra enda væri slík niðurstaða ótæk og til þess fallin að ógna öryggi viðsemjenda slíkra félaga. Sýslumaðurinn í Reykjavík hafi gert árangurslaust fjárnám hjá félaginu 11. mars 2014, mörgum árum eftir að gagnstefnendur haldi því fram að félaginu hafi verið slitið. Ljóst sé að sýslumaður líti ekki svo á að félaginu hafi verið slitið á þeim tíma og hafi ekkert séð fjárnámi hjá því til fyrirstöðu. Þá hafi öllum félagsmönnum verið kunnugt um löggerninginn, enda riti bæði gagnstefnandi Lárus Hrafn og Hildur Dagný Kristjánsdóttir undir skuldabréfið sem vottar að réttri dagsetningu og fjárræði útgefanda.

                Aðalstefnandi mótmæli því að krafan sé fyrnd samkvæmt bráðabirgðaákvæði 165. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldrotaskipti o.fl., sbr. lög nr. 142/2010. Þótt litið yrði svo á að félagið hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta um leið og bú gagnstefnanda Rósu sé augljóst að bráðabirgðaákvæðið eigi ekki við þegar hinn gjaldþrota aðili sé fyrirtæki. Í greinargerð Alþingis varðandi bráðabirgðaákvæðið segi: „Með því móti er þeim einstaklingum sem teknir hafa verið til gjaldþrotaskipta en bera áfram ábyrgð á skuldum sem ekki hafa fengist greiddar við gjaldþrotaskiptin auðveldað að koma fjármálum sínum á réttan kjöl.“ Ákvæðið hafi því aðeins verið sett til hagsbóta einstaklingum sem teknir séu til gjaldþrotaskipta. RoL fjárfesting sf. hafi verið stofnað utan um atvinnurekstur og félagsmönnum hafi verið greidd laun fyrir störf sín í þess þágu.

                Þá bendi aðalstefnandi á að í 3. mgr. 165. gr. laganna komi fram að hafi kröfuhafi fengið tryggingaréttindi fyrir kröfu sinni í eign þrotamanns áður en frestur skv. 2. mgr. var á enda fyrnist krafa hans þó ekki að því leyti sem fullnusta fæst á henni á síðari stigum vegna þeirra tryggingaréttinda. Ekki verði séð að kröfuhafar sem tryggi kröfur sínar í upphafi lánveitinga eða áður en bú sé tekið til gjaldþrotaskipta eigi að standa verr en þeir sem eignist tryggingu eftir að gjaldþrotaskiptum ljúki.

                Samkvæmt 27. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda hafi fyrning kröfu ekki áhrif á veðrétt og haldsrétt og standi slík tryggingaréttindi óhögguð þótt krafan, sem þau eigi að tryggja, falli niður fyrir fyrningu.

                Því sé mótmælt að 36. gr. og/eða 36. gr. a-d í lögum nr. 7/1936 eigi við. Gagnstefnendur hafi ekki leitast við að rökstyðja í hverju aðstöðumunur aðila eigi að hafa falist eða hvaða áhrif hann hafi haft við samningsgerðina eða hvers vegna það sé ósanngjarnt af hálfu aðalstefnanda að bera samninginn fyrir sig. Ekki sé heldur leitast við að sýna fram á að það stafi af einhverjum þeim atriðum sem tilgreind séu í 2. mgr. 36. gr. laganna.

                Áður en lánið samkvæmt skuldabréfinu hafi verið veitt hafi tryggingarbréfið staðið til tryggingar skuld félagsins samkvæmt reikningi nr. 6104. Gagnstefnendur hafi verið meðvitaðir um lánveitinguna sem og að umrædd eign stæði henni til tryggingar. Gagnstefnendur hafi því á engan hátt sýnt fram á að ósanngjarnt sé að bera samninginn fyrir sig, hvað þá að önnur skilyrði 36. gr. laga nr. 7/1936 séu uppfyllt.

                Allir löggerningar og annað sem starfsmenn Landsbanka Íslands hf. og síðar aðalstefnanda hafi annast fyrir gagnstefnendur, þ. á m. skuldabréfið og tryggingarbréfið, hafi í einu og öllu verið unnið samkvæmt samningi aðila. Því sé mótmælt að bankinn hafi verið í yfirburðastöðu gagnvart gagnstefnendum þannig að komið hafi niður á þeim á einhvern hátt. Gagnstefnendunum Rósu og Lárusi Hrafni hafi verið skuldbinding félagsins samkvæmt umræddu skuldabréfi vel kunnug enda hafi þau óskað eftir og undirritað skuldabréfið, auk þess sem andvirði skuldabréfsins hafi verið ráðstafað inn á reikning félagsins nr. 6104. Engin óeðlileg samningsákvæði hafi lagt þyngri byrðar á félagið eða ábyrgðamenn þess og ljóst sé að félagið og félagsmenn þess hafi haft hagsmuni af lánveitingunni. Þá verði ekki annað séð en að lánveitingin, sem hafi verið skuldbreyting á láni samkvæmt yfirdráttarheimild sem hafi verið gjaldfallin, hafi verið eðlilegur gerningur í rekstri félagsins.

                Því sé þannig mótmælt að Landsbanki Íslands hf. eða aðalstefnandi hafi ekki í einu og öllu staðið með eðlilegum hætti að samskiptum við gagnstefnendur og fylgt í einu og öllu þeim kröfum, sem gerðar séu og unnið í samræmi við þær reglur sem við eigi, þ. á m. hafi verið gætt réttilega að allri skjalagerð.

                Verði litið svo á að RoL fjárfesting sf. sé ekki skuldbundið af samningi sínum um umrætt skuldabréf sökum heimildarskorts og að tryggingarbréfið standi því ekki til tryggingar láni samkvæmt skuldabréfinu byggi aðalstefnandi á því að tryggingarbréfið tryggi eftir sem áður þá skuld sem vakni aftur ef uppgreiðsla yfirdráttarlánsins gengur til baka. Þá sé um að ræða peningalán, sbr. 1. málslið 2. mgr. 5. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, sem fyrnist á 10 árum og væri krafan samkvæmt því ekki fyrnd. Samkvæmt eldri lögum nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda hafi fyrningartími peningalána einnig verið 10 ár og gildi það sama um ábyrgð á kröfunni. Bæri því samt sem áður að sýkna aðalstefnanda í gagnsök.

                Því sé hafnað að aðalstefnandi beri hallann af því hafi gagnstefnendur vísvitandi komið villandi fram gagnvart honum. Samkvæmt fundargerð skiptastjóra vegna skiptafundar í þrotabúi gagnstefnanda Rósu hafi skiptastjóri tekið skýrslu af þrotamanni og eiginmanni hennar, gagnstefnanda Lárusi Hrafni. Samkvæmt þrotamanni sé „RoL sf. ...félag sem rak Stasíu fram í apríl 2008 og er nú gjaldþrota og verðlaust“. Verði ekki annað ráðið en að skiptastjóra hafi verið gefnar rangar upplýsingar hvað þetta varði, enda hafi gagnstefnendur ekki sýnt fram á að félagið hafi verið gjaldþrota þegar skiptastjóri hafi tekið af þeim skýrslu. Þrotamaðurinn segist enn fremur ekki eiga neinar eignir. Þau hjónin hafi greinilega látið þess ógetið að þau hafi verið afsalshafar að fasteigninni að Safamýri 52. Þessar upplýsingar hafi bæði verið rangar og til þess fallnar að gefa skiptastjóra ekki tilefni til frekari afskipta eða könnunar.

                Gagnstefnendur verði að bera hallann af aðgerðaleysi sínu í þau fimm ár frá útgáfu skuldabréfsins og sjö ár frá útgáfu tryggingarbréfsins sem þau hafi ekki gert neinar athugasemdir við skuldbindingar sínar og hafi glatað rétti til að halda kröfum sínum uppi. Bendi þetta eindregið til þess að gagnstefnendur hafi talið sig hafa heimild til að skuldbinda félagið samkvæmt skuldabréfinu og að umrætt tryggingarbréf hafi staðið skuldabréfinu til tryggingar rétt eins og það hafi staðið til tryggingar skuld samkvæmt tékkareikningi nr. 6104. Enda hefði skuld félagsins samkvæmt yfirdráttarheimildinni að öðrum kosti ekki verið greidd og væri þá grundvöllur dómkröfu aðalstefnanda.

                Háttsemi gagnstefnenda bendi til þess að þau hafi haft sama skilning á samningi aðila og aðalstefnandi. Það að enginn gagnstefnenda hafi gert athugasemdir við heimild gagnstefnanda Rósu til að skuldbinda félagið með lántökunni 5. mars 2009, þ.e. ekki fyrr en gert hafi verið árangurslaust fjárnám hjá félaginu árið 2014, bendi eindregið til þess að gagnstefnendur hafi verið meðvitaðir um og samþykkir lánveitingunni. Í öllu falli hafi þau sýnt af sér verulegt tómlæti með því að gera ekki athugasemd vegna þessa fyrr.

                Sýknukrafa aðalstefnanda í gagnsök byggist jafnframt á ólögfestri reglu kröfuréttar um óréttmæta auðgun. Það sé almennt viðurkennt að við tilteknar aðstæður verði þeim sem hafi án réttmætrar ástæðu öðlast verðmæti sem tilheyri öðrum og þannig auðgast á hans kostnað gert að skila eiganda eða þeim sem hafi orðið fyrir tjóni andvirði þeirrar auðgunar. Það sé skilyrði að um tjón annars sé að ræða og að auðgun hins sé í beinum tengslum við það tjón. Ljóst sé að verði fallist á aflýsingu tryggingarbréfsins eignist gagnstefnendur verðmæti sem með réttu tilheyri aðalstefnanda og hagnist því á kostnað hans. Það sé eðlilegt að lánastofnanir leitist við að tryggja lán sín. Tryggingarbréfið hafi verið óaðskiljanlegur hluti af lánveitingum til félagsins. Veðsetningin hafi þannig verið forsenda fyrir lánveitingunni. Verði fallist á kröfu gagnstefnenda um aflýsingu tryggingarbréfsins liggi fyrir að aðalstefnandi muni tapa því veðandlagi sem sé eina trygging hans fyrir greiðslu lánsins þar sem búið sé að gera árangurslaust fjárnám hjá RoL fjárfestingu sf. og félagsmönnum þess.

                                                                                              III

                Gagnstefnendur Lárus Hrafn og Rósa byggja sýknukröfu sína einkum á aðildarskorti þar sem þau eigi ekki rétt til fasteignarinnar að Safamýri 52 sem sé veðandlag tryggingarbréfsins og krafist sé heimildar til að gera fjárnám í. Þau hafi selt  gagnstefnanda Kjartani fasteignina með kaupsamningi 7. mars 2005. Söluverðið, 17.900.000 krónur, hafi verið greitt með andvirði skuldabréfs frá Íslandsbanka sem hafi verið gefið út sama dag. Kaupsamningshafi hafi innt af hendi allar skyldur sínar samkvæmt kaupsamningnum en afsal hafi ekki verið gefið út þar sem tryggingarbréfinu hafi ekki verið aflýst. Gagnstefnandi Kjartan hafi því fullan eignar- og ráðstöfunarrétt yfir fasteigninni.

                Gagnstefnandi Kjartan krefjist sýknu á þeim grundvelli að honum hafi fyrst verið tilkynnt um greiðslufall skuldar RoL fjárfestingar sf. og gagnstefnandans Rósu 10. nóvember 2014 eða um fimm og hálfu ári eftir greiðslufall aðalskuldara 19. mars 2009. Gagnstefnandi Kjartan teljist ábyrgðarmaður í skilningi laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. beri lánveitanda skylda til að senda ábyrgðarmanni skriflegar tilkynningar svo fljótt sem kostur er um vanefndir lántaka, ef veð eða aðrar tryggingar eru ekki lengur tiltækar, um andlát lántaka eða að bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta, og eftir hver áramót með upplýsingum um stöðu láns sem ábyrgð stendur fyrir og yfirliti yfir ábyrgðir.

                Aðalstefnandi hafi ekki sinnt framangreindri skyldu. Fyrsta tilkynning um greiðslufall hafi ekki borist fyrr en um fimm og hálfu ári eftir greiðslufall aðalskuldara. Þá hafi engar tilkynningar borist um gjaldþrotaskipti eða tilkynningar um stöðu krafna sem stóðu að baki ábyrgðinni. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skuli ábyrgðarmaður vera skaðlaus af vanrækslu lánveitanda á tilkynningarskyldu skv. 1. mgr. og ef vanræksla er veruleg skuli ábyrgð falla niður. Gagnstefnandi Kjartan byggi á því að vanræksla aðalstefnanda hafi verið veruleg og því sé ábyrgðin fallin niður.

                Gagnstefnendur byggi jafnframt sýknukröfu sína og kröfu í gagnsök, um aflýsingu tryggingarbréfsins, á því að allar kröfur á hendur gagnstefnanda Rósu og þar með RoL fjárfestingu sf. hafi fyrnst 22. desember 2012 tveimur árum eftir gildistöku laga nr. 142/2010 um breytingu á lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Því geti engar kröfur verið að baki tryggingarbréfinu. Fram komi í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 21/1991 að ekki sé litið á sameignarfélög sem sjálfstæða lögaðila í skilningi íslensks gjaldþrotaréttar en þar komi fram að sameignarfélag verði ekki tekið til gjaldþrotaskipta nema svo hafi verið um bú allra félagsmanna þess. Það sé þannig útilokað að lögin geti tekið sjálfstætt til sameignarfélaga í ljósi þeirrar ótakmörkuðu ábyrgðar sem hvíli á félagsmönnum sameignarfélaga.

                Bú gagnstefnanda Rósu hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 20. október 2008. Þá hafi allar skuldir hennar og RoL fjárfestingar sf. fallið sjálfkrafa í gjalddaga, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991. Kröfu á grundvelli skuldabréfsins hafi ekki verið lýst í búið og hún hafi því fallið niður, sbr. 118. gr. laganna. Skiptum hafi lokið 14. janúar 2009.

                Samkvæmt 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 beri þrotamaður ábyrgð á skuldum sínum sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskipti. Jafnframt komi þar fram að kröfur, hvort sem þeim var lýst við gjaldþrotaskiptin eða ekki, fyrnist á tveimur árum frá skiptalokum nema þær fyrnist fyrr af öðrum ástæðum. Þetta gildi jafnframt um þrotabú þar sem skiptum lauk fyrir gildistöku laga nr. 142/2010 og miðist upphaf frestsins þá við gildistökudag laganna, sbr. 2. gr. Þar sem skiptum á þrotabúi gagnstefnanda Rósu, eina félagsmanns RoL fjárfestingar sf., hafi lokið fyrir gildistöku laganna hafi allar kröfur á hendur þeim báðum verið fyrndar tveimur árum eftir gildistöku laganna 22. desember 2012.

                Sá veðréttur sem deilt sé um í málinu miðist eingöngu við ófyrndar kröfur þar sem tryggingarbréfið, útgefið 28. ágúst 2007, hafi verið sett til tryggingar ótilgreindum fjölda krafna sem aðalstefnandi kynni að eignast á hendur skuldara og að um veðsetningu af hálfu þriðja manns hafi verið að ræða. Samkvæmt framangreindu sé ljóst að allar skuldir og skuldbindingar að baki tryggingarbréfinu hafi fallið niður 22. desember 2012 eða að tryggingarréttindi skv. tryggingarbréfinu hafi fallið niður vegna vanlýsingar.

                Gagnstefnendur reisi kröfur sínar einnig á því að allar skuldir og skuldbindingar að baki tryggingarbréfinu séu fallnar niður þar sem tilvist RoL fjárfestingar sf. hafi verið liðin undir lok þegar skuldabréfið hafi verið undirritað 5. mars 2009. Aðalstefnanda hafi mátt vera ljóst að tilvist félagsins hafi lokið í síðasta lagi 1. júní 2008 þar sem því hafi þá sjálfkrafa verið slitið, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga nr. 50/2007 um sameignafélög þar sem fram komi að ef félagsmenn í skráðu sameignarfélagi hafi verið færri en tveir í sex mánuði teljist félaginu slitið og skuli fyrirtækjaskrá þá afskrá það. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða gildi ákvæðið einnig um sameignarfélög sem stofnuð hafi verið fyrir gildistöku laganna. RoL fjárfestingu sf. hafi verið sjálfkrafa slitið sex mánuðum eftir að Hildur Dagný Kristjánsdóttir gekk úr félaginu og gagnstefnandi Rósa hafi orðið eini félagsmaðurinn 20. september 2007, eða 29. desember 2007, sex mánuðum eftir auglýsingu í Lögbirtingablaðinu um úrsögn Hildar. Í öllu falli hafi félaginu verið slitið 1. júní 2008, sex mánuðum eftir gildistöku laga nr. 50/2007.

                Samkvæmt framangreindu hafi RoL fjárfesting sf. ekki verið sjálfstæður lögaðili sem hafi getað borið réttindi og haft skyldur þegar tryggingarbréfið hafi verið undirritað 28. ágúst 2007. Þegar af þeirri ástæðu sé ljóst að tryggingarbréfið hafi ekki getað skapað neinn rétt og því beri að aflýsa því. Það sama gildi um veðskuldabréfið frá 5. mars 2009. Það hafi því ekki getað skapað rétt eða skyldu gagnvart RoL fjárfestingu sf. eða gagnstefnendum.

                Þá byggi gagnstefnendur á því að víkja eigi veðskuldabréfinu og tryggingarbréfinu til hliðar með vísan til 36. gr. og/eða 36. gr. a-d í lögum nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga þar sem umgjörð og meðferð málsins hafi verið svo ábótavant af hálfu aðalstefnanda að samningarnir teljist ósanngjarnir og andstæðir góðri viðskiptavenju.

                Gagnstefnendur séu neytendur en aðalstefnandi fjármálastofnun með yfirburðaþekkingu og samningsstöðu. Gera verði þá kröfu til aðalstefnanda að hann gefi skýrar upplýsingar um samninga og það sem liggi að baki þeim. Stuðst hafi verið við stöðluð samningsform frá aðalstefnanda og hann beri hallann af því ef eitthvað er óskýrt eða óljóst í samningunum. Aðalstefnandi virðist ekki hafa aflað neinna upplýsinga um félagið eða stöðu þess við gerð skuldabréfsins og tryggingarbréfsins. Hann hafi mátt vita að félagið væri ekki lengur lögaðili. Af skjalagerðinni megi ráða að ekki hafi verið staðið faglega að henni og sé í því sambandi m.a. vísað til þess að skuldabréfið og tryggingarbréfið séu ekki undirrituð af starfsmanni aðalstefnanda, auk þess sem ekkert samhengi sé á milli undirskrifta á tryggingarbréfinu þar sem gagnstefnandi Rósa hafi skrifað undir sem maki þinglýsts eiganda, gagnstefnanda Kjartans, bróður hennar og eiginmaður hennar, gagnstefnandi Lárus Hrafn, skrifi undir yfirlýsingu þess efnis að hann sé ekki í hjúskap. Bréfið sé undirritað fyrir hönd útgefanda RoL fjárfestingar sf. og hafi því einungis getað tryggt skuldir þess útgefanda en ekki gagnstefnanda Rósu eins og aðalstefnandi virðist halda fram í bréfi frá 7. mars 2014. Slík skuldbinding hefði auk þess verið fyrnd gagnvart gagnstefnanda Rósu.

                                                                                              IV

                Aðalstefnandi krefst þess að honum verði heimilað að gera fjárnám inn í veðrétt sinn í fasteign gagnstefnenda að Safamýri 52 í Reykjavík samkvæmt tryggingarbréfi sem tryggir skuld RoL fjárfestingar sf. gagnvart aðalstefnanda samkvæmt skuldabréfi. Gagnstefnendur krefjast þess að aðalstefnanda verði gert að aflýsa tryggingarbréfinu af fasteigninni.

                Sýknukrafa gagnstefnenda í aðalsök byggist í fyrsta lagi á því að um aðildarskort gagnstefnenda Lárusar Hrafns og Rósu sé að ræða. Þau hafi selt fasteignina gagnstefnanda Kjartani sem hafi uppfyllt allar skyldur sínar samkvæmt kaupsamningi. Samkvæmt veðbókarvottorði fyrir fasteignina eru gagnstefnendur allir eigendur hennar. Gagnstefnendur Lárus Hrafn og Rósa eru afsalshafar og gagnstefnandi Kjartan kaupsamningshafi. Eiga þau því óskiptan rétt til fasteignarinnar og bar aðalstefnanda að stefna þeim öllum í málinu.

                Gagnstefnandi Kjartan krefst einnig sýknu af þeim sökum að aðalstefnandi hafi ekki sinnt tilkynningarskyldu sinni samkvæmt 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Samkvæmt ákvæðinu skal lánveitandi senda ábyrgðarmanni skriflega, svo fljótt sem kostur er, tilkynningu um vanefndir lántaka, um að veð eða aðrar tryggingar séu ekki lengur tiltækar og um andlát lántaka eða hvort bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Þá skal lánveitandi eftir hver áramót senda upplýsingar um stöðu láns sem ábyrgð stendur fyrir og yfirlit yfir ábyrgðir. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skal ábyrgðarmaður vera skaðlaus af vanrækslu lánveitanda á tilkynningarskyldu skv. 1. mgr. og ef vanræksla er veruleg skal ábyrgð falla niður. Gagnstefnandi kveðst ekki hafa fengið tilkynningu um greiðslufall RoL fjárfestingar sf. fyrr en um 5½ ári síðar, eða með innheimtubréfi dags. 10. nóvember 2014. Aðalstefnandi hefur lagt fram afrit tilkynninga sem hann kveðst hafa sent gagnstefnendum. Er þar m.a. að finna innheimtubréf, dags. 6. október 2009, 17. október 2014 og 10. nóvember 2014, til gagnstefnanda Kjartans þar sem tilkynnt er að tryggingarbréfið sé í vanskilum. Þá er þar að finna yfirlit ábyrgða frá upphafi árs 2011, 2012 og 2013, lokum árs 2013 og upphafi árs 2015. Í þeim öllum kemur fram að gagnstefnandi hafi veitt lánsveð í fasteigninni að Safamýri 52 og hver ábyrgðarfjárhæðin er. Framangreindar tilkynningar bera með sér að hafa verið sendar gagnstefnanda. Ekki eru gerðar kröfur til þess í lögunum að tilkynningar séu sendar með sannanlegum hætti. Er því ekki unnt að fallast á það með honum að hann hafi ekki fengið neinar tilkynningar fyrr en í nóvember 2014. Þótt framangreind ábyrgðaryfirlit greini frá því að ekki sé um vanskil RoL fjárfestingar sf. að ræða er til þess að líta að fyrirvari er gerður við villur í útskriftinni. Þá mátti gagnstefnanda vera ljóst að félagið var í vanskilum við aðalstefnanda enda liggur fyrir að afsali hans vegna fasteignarinnar fékkst ekki þinglýst vegna skuldarinnar, en líkt og gagnstefnendur hafa greint frá hafði gagnstefnandi Kjartan uppfyllt allar skyldur sínar samkvæmt kaupsamningi 7. mars 2005. Hvað sem líður mögulegri vanrækslu aðalstefnanda á tilkynningarskyldu sinni verður að telja að hún geti ekki leitt til þess að ábyrgð gagnstefnanda yrði að fullu felld niður.

                Gagnstefnendur reisa kröfur sínar á því að krafa aðalstefnanda samkvæmt skuldabréfinu hafi fyrnst 22. desember 2012 og því sé engin krafa að baki tryggingarbréfinu. Sameignarfélag sé ekki sjálfstæður lögaðili í skilningi laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þar sem bú gagnstefnanda Rósu hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 20. október 2008 hafi allar skuldir félagsins fallið sjálfkrafa í gjalddaga. Þar sem kröfu á grundvelli skuldabréfsins hafi ekki verið lýst í búið hafi hún fallið niður fyrir vanlýsingu. Þá fyrnist kröfur á tveimur árum frá skiptalokum, sbr. 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991.

                Samkvæmt 5. gr. laga nr. 21/1991 verður félag, þar sem félagsmenn bera ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum, aðeins tekið til gjaldþrotaskipta ef bú þess manns eða þeirra sem bera ábyrgð á skuldbindingum félagsins eru áður tekin til gjaldþrotaskipta. Bú slíks félags verður hins vegar ekki tekið til gjaldþrotaskipta sjálfkrafa þótt bú félagsmanna þess verði tekin til skipta. RoL fjárfesting sf. er enn skráð á fyrirtækjaskrá og hefur ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta. Þá er það skuldabréf sem deilt er um í málinu gefið út eftir lok skipta í þrotabúi gagnstefnanda Rósu. Getur því ekki verið um vanlýsingu að ræða eða fyrningu vegna gjaldþrotaskipta á búi hennar.

                Gagnstefnendur byggja jafnframt á því að skuld samkvæmt skuldabréfinu sé fallin niður þar sem tilvist RoL fjárfestingar sf. hafi verið liðin undir lok við útgáfu þess, en félaginu hafi verið slitið sjálfkrafa, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga nr. 50/2007, í síðasta lagi 1. júní 2008. Í framangreindu ákvæði segir að hafi félagsmenn í skráðu sameignarfélagi verið færri en tveir í sex mánuði teljist félaginu slitið. Skuli fyrirtækjaskrá þá afskrá félagið. Hildur Dagný Kristjánsdóttir gekk úr félaginu 20. mars 2007 og birtist tilkynning um það í Lögbirtingablaði 29. júní sama ár. Frá þeim tíma var eini félagsmaðurinn gagnstefnandi Rósa. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 50/2007 segir um 37. gr. að ef sú staða kemur upp að allir félagsmenn nema einn séu gengnir úr félaginu sé samstarfinu í félaginu í raun lokið og félagið hætti að vera til án þess að til formlegra skipta þurfi að koma. Þá kemur fram að á síðasta félagsmanni hvíli sú skylda skv. 47., sbr. 48. gr. laganna að tilkynna að hann sé orðinn einn eftir í skráðu sameignarfélagi. Hafi félagsmaður ekki óskað eftir afskráningu innan sex mánaða kæmi í hlut sýslumanns, nú fyrirtækjaskrár, að afskrá félagið af sjálfsdáðum. Fyrir liggur að félagið hefur ekki verið afskráð. Með hliðsjón af afdráttarlausu orðalagi ákvæðisins verður að telja að til þess hafi ekki þurft að koma til þess að félaginu teldist slitið. Skuld samkvæmt skuldabréfinu fellur hins vegar ekki niður við það heldur tekur síðasti félagsmaður félagsins við öllum eignum og skuldum þess. Stendur tryggingarbréfið, sem var samþykkt af gagnstefnendum eftir að Hildur Dagný Kristjánsdóttir gekk úr félaginu, því óhaggað.

                Gagnstefnendur telja að víkja eigi skuldabréfinu og tryggingarbréfinu til hliðar með vísan til 36. gr. og/eða 36. gr. a-d laga nr. 7/1936 þar sem þau teljist ósanngjörn og andstæð góðri viðskiptavenju. Verulegur aðstöðumunur hafi verið á aðilum þar sem gagnstefnendur séu neytendur en aðalstefnandi hafi yfirburðaþekkingu og samningsstöðu. Aðalstefnandi hafi mátt vita að félagið RoL fjárfesting sf. væri ekki lengur lögaðili. Þá hafi ekki verið staðið faglega að skjalagerðinni og er þar einkum vísað til undirritunar gagnstefnenda á tryggingarbréfið.

                Að mati dómsins er ekkert fram komið um að slíkur aðstöðumunur hafi verið á aðilum að það hafi haft þau áhrif á samninga þeirra að ósanngjarnt sé að bera þá fyrir sig. Er þá m.a. horft til þess að gagnstefnendur Lárus Hrafn og Rósa höfðu reynslu af fyrirtækjarekstri og gagnstefnandi Kjartan þekkir vel til samningsgerðar vegna starfa hans sem löggiltur fasteignasali um árabil. Sú skylda verður ekki lögð á aðalstefnanda að rannsaka stöðu félagsins og kanna hvort efni væru til að afskrá það, en félagið var skráð í fyrirtækjaskrá. Þá verður talið að þótt gagnstefnandi Rósa hafi undirritað tryggingarbréfið sem „maki þinglýsts eiganda“ og gagnstefnandi Kjartan um „staðfesting þinglýsts eiganda um að hann sé ekki í hjúskap“ hafi þeim verið fullljós sú veðsetning sem var um að ræða og hafi með undirritun sinni samþykkt veðsetninguna fyrir sitt leyti. Liggur enda fyrir að enginn gagnstefnenda hreyfði mótmælum við henni fyrr en eftir að innheimta vegna hennar hófst. Þá verður ekki séð að önnur atvik valdi því að veðsetningin sé ósanngjörn eða andstæð góðri viðskiptavenju. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður ekki talið að gagnstefnendur hafi sýnt fram á einhver þau atvik sem leiði til þess að talið verði ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera samning aðila fyrir sig, sbr. 36. gr. og 36. gr. a-d laga nr. 7/1936.

                Við aðalmeðferð málsins var af hálfu gagnstefnenda vísað til þess að gagnstefnanda Kjartani hefði ekki verið kynntur upplýsingabæklingur um ábyrgðir og að ekki hafi verið framkvæmt greiðslumat á aðalskuldara í samræmi við ákvæði samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001 sem Samtök banka og verðbréfafyrirtækja, Samband íslenskra sparisjóða, Neytendasamtökin og viðskiptaráðherra stóðu að. Því bæri að ógilda ábyrgðina á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Aðalstefnandi mótmælti framangreindri málsástæðu sem of seint fram kominni. Samkvæmt 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skulu málsástæður koma fram jafnskjótt og tilefni verður til. Að öðrum kosti má ekki taka slíkar yfirlýsingar til greina nema með samþykki gagnaðila. Ekki er unnt að fallast á það með gagnstefnendum að fyrst hafi verið tilefni til þess að koma fram með þessa málsástæðu við aðalmeðferð málsins. Kemur hún því ekki til álita í málinu. Þá var af hálfu gagnstefnanda byggt á því að fasteignin að Safamýri 52 hefði verið seld sumarið 2015. Engin gögn um þá sölu liggja frammi í málinu og eru fullyrðingar gagnstefnenda um slíkt því þýðingarlausar.

                Með hliðsjón af öllu framangreindu verður fallist á kröfu aðalstefnanda um að honum verði heimilað fjárnám í veðrétt hans í fasteigninni að Safamýri 52, en hafnað kröfu gagnstefnenda um aflýsingu tryggingarbréfsins.

                Með hliðsjón af málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verða gagnstefnendur dæmdir til að greiða aðalstefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 750.000 krónur.

                Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

                                                                              D Ó M S O R Ð :

                Aðalstefnanda, Landsbankanum hf., er heimilt að gera fjárnám inn í veðrétt sem hann á í eignarhlutum gagnstefnenda, Lárusar Hrafns Lárussonar, Kjartans Hallgeirssonar og Rósu Hallgeirsdóttur, í fasteigninni Safamýri 52 í Reykjavík, fastanúmer 201-4832, ásamt tilheyrandi hlutdeild í eignarlóðum og öllu því sem eigninni fylgir og fylgja ber, samkvæmt tryggingarbréfi nr. 0115-63-150876, útgefnu 28. ágúst 2007, til tryggingar á skuld RoL fjárfestingar sf., við aðalstefnanda samkvæmt skuldabréfi nr. 0115-74-153750, útgefnu 5. mars 2009, að fjárhæð 7.040.298 krónur.

                Aðalstefnandi er sýkn af kröfu gagnstefnenda í gagnsök.

                Gagnstefnendur greiði aðalstefnanda óskipt 750.000 krónur í málskostnað.