Hæstiréttur íslands
Mál nr. 452/2010
Lykilorð
- Ávana- og fíkniefni
- Vörslur
- Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
- Sératkvæði
|
|
Þriðjudaginn 21. júní 2011. |
|
Nr. 452/2010.
|
Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir settur saksóknari) gegn X(Brynjar Níelsson hrl.) |
Ávana- og fíkniefni. Vörslur. Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Sératkvæði.
X var sakfelld fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa ekið bifreið ófær um að stjórna henni örugglega undir áhrifum ávana- og fíkniefna, sbr., 45. gr. a. sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, og með því að hafa haft í vörslum sínum 18,94 g af kókaíni, 8,47 g af hassi og 1,33 g af tóbaksblönduðu kannabisefni, sem fundust við leit lögreglu í húsnæði þar sem X var gestkomandi. Var refsing ákærðu ákveðin fangelsi í 30 daga, en fullnustu refsingarinnar frestað. Þá var ákærðu gert að greiða 140.000 krónur í sekt og hún svipt ökurétti í 12 mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. júlí 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um sakfellingu ákærðu og um sviptingu og upptöku ávana- og fíkniefna, en að refsing verði þyngd.
Ákærða krefst sýknu af II. kafla í ákæru og mildunar á refsingu.
Með þessum kafla ákærunnar er ákærðu gefið að sök að hafa 7. janúar 2010 „haft í vörslum sínum 18,94 gr. af kókaíni, 8,47 gr. af hassi og 1,33 gr. af tóbaksblönduðu kannabisefni er hún faldi undir stól sem hún sat á og lögregla fann við húsleit á [...], í [...] þar sem hún var gestkomandi.“ Í hinum áfrýjaða dómi kemur fram að ákærða, A, B og C hafi setið í stofu á heimili C að [...] er lögregla kom á vettvang og handtók þau. Neysla fíkniefna átti sér stað í íbúðinni, en öll munu þau hafa verið undir áhrifum slíkra efna. Lögreglan lagði hald á fíkniefnin sem voru á vettvangi. Ákærðu einni, en ekki öðrum þeim sem voru í íbúðinni, er gefið að sök að hafa haft í vörslum sínum þau fíkniefni, sem í ákæru greinir og fundust í poka undir stól þar sem hún sat er lögregla kom á vettvang. Á hinn bóginn er hún ekki ákærð fyrir vörslur á öðrum fíkniefnum sem fundust við húsleitina, en fram er komið að einhverjir af þeim sem þarna voru hafi hlotið refsingu fyrir vörslur þeirra. Af því sem fram er komið í málinu verður ráðið að þeir ákæruhættir, að ákæra ekki fyrir samvörslur, hafi einkum verið reistir á skýrslum hinna handteknu hjá lögreglu og ekki síst skýrslu ákærðu þar sem hún kvaðst að vísu ekki eiga þessi tilgreindu efni, sem hún þó hafi ekki vitað hver voru, og ekki vilja segja hver ætti þau, en hún hafi verið að „geyma þau fyrir vin“ sinn. Svar hennar við spurningu um hvar hún hafi geymt efnin var: „Á sófaborðinu og setti það svo undir stólinn.“ Fyrir dómi kvaðst ákærða vilja draga til baka skýrslu sína hjá lögreglu en vefengdi ekki að hafa borið á þann hátt sem greinir í skýrslu hennar þar. Gaf hún þær skýringar á breyttum framburði sínum að hún hafi verið með innilokunarkennd í fangaklefa lögreglunnar og viljað vernda unnusta sinn, A. Kveðst hún fyrir dómi hafa talið á þeim tíma er lögregla kom á vettvang að A hafi átt umrædd fíkniefni. Síðar hafi hún svo fengið upplýsingar um að B hafi átt þau.
Í héraðsdómi er rakinn framburður B, A og C um að B hafi átt efnin. Framburður þessi samræmist frásögn ákærðu um að hún hafi ekki átt þau. A og C kváðust ekki vita hver hafi sett fíkniefnin undir stólinn þar sem ákærða sat, en ákærðu og B ber ekki saman um það.
Með hliðsjón af áðurnefndri skýrslu ákærðu hjá lögreglu og orðalags í ákæru verður ákæran ekki skilin svo að ætlaðar vörslur ákærðu á fíkniefnunum hafi einungis átt að felast í því að færa þau af sófaborði undir stól sem hún sat í heldur sé ákærðu gefið að sök að hafa, eins og segir í ákærunni, „haft í vörslum sínum“ tilgreind efni er hún faldi undir stól er hún sat á þegar lögregla kom á vettvang. Eins og áður greinir höfðu þeir sem voru í umræddri íbúð verið að neyta fíkniefna er lögregla og gerði efnin upptæk. Játning ákærðu hjá lögreglu um vörslu efnanna var afdráttarlaus og ekkert er fram komið um að játningin hafi verið fengin fram með þeim hætti að hún verði dregin í efa. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur um sakfellingu ákærðu vegna síðari hluta ákærunnar. Fyrri hluti ákærunnar er ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti. Ákærða hefur unnið sér til refsingar. Ákærða verður dæmd í fangelsi í 30 daga, bundið skilorði eins og í dómsorði greinir. Þá verður henni gert að greiða 140.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa að viðlagðri vararefsingu eins og í dómsorði greinir.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku, ökuréttarsviptingu og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærða verður dæmd til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem ákveðinn verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærða, X, sæti fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærða greiði 140.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna, en sæti ella fangelsi í tíu daga.
Ákvæði héraðsdóms um ökuréttarsviptingu ákærðu, upptöku fíkniefna og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærða greiði allan áfrýjunarkostnað málsins 237.710 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti Brynjars Níelssonar, hæstaréttarlögmanns 225.900 krónur.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Ákærða hefur viðurkennt fyrir dómi að hafa, þegar lögregla kom á staðinn, tekið umrædd fíkniefni af sófaborðinu, sem fólkið sat við, og fleygt þeim undir stól sem hún sat í. Ekki er unnt að leggja meira upp úr framburðarskýrslu hennar hjá lögreglu en að hún hafi átt við þessi viðbrögð sín þegar hún kvaðst hafa verið að geyma þetta fyrir vin sinn, enda liggur fyrir að sá sem hún taldi eiga efnin var líka í íbúðinni þegar lögreglu bar að garði. Ákærða kvaðst fyrir dómi hafa ætlað að taka þetta á sig í þágu unnusta síns, sem hún hafi þá talið að ætti efnin. „Ég hélt að hann ætti þetta en hann átti þetta ekki og ég þú veist ég hélt að þetta væri bara ég vissi ekki einu sinni hvað þetta var þegar ég tók þetta á mig.“ Fær þetta nokkra stoð í framburði annarra sem voru í íbúðinni.
Af hálfu ákæruvaldsins virðist við útgáfu ákæru hafa verið litið svo á að þeir einstaklingar, sem í íbúðinni voru, hafi hver um sig haft vörslur tiltekins hluta efnanna, sem þar fundust, í stað þess að telja vörslurnar sameiginlegar, eins og atvik málsins gætu gefið tilefni til að ætla að raunin hafi verið. Grundvöllur þess að saka ákærðu um vörslur þeirra efna, sem í ákæru greinir, virðist vera sá að hún hafi tekið vörslur þeirra, þegar lögregla kom, með því að fleygja þeim undir stólinn sem hún sat í. Bendir orðalag ákæru til þessa og ljóst er að héraðsdómur sakfellir ákærðu á þessum grundvelli. Ég tel ekki unnt að fallast á með ákæruvaldinu að vörslur sem stofnast með fálmkenndum viðbrögðum við afskiptum lögreglu geti talist vörslur í skilningi 2. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Samkvæmt þessu tel ég að sýkna eigi ákærðu af þessum ákærulið. Ekki eru efni til þess að ég taki afstöðu til refsingar vegna þess brots sem ekki er um deilt fyrir Hæstarétti. Ég er sammála meirihluta dómara um upptöku fíkniefna og fjárhæð áfrýjunarkostnaðar en tel að hann eigi að greiðast úr ríkissjóði.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness, mánudaginn 28. júní 2010.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var að aflokinni aðalmeðferð 21. maí sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum, útgefinni 24. mars 2010, á hendur X, kt. [...], [...], [...],
“I. (008-2009-11769)
Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa fimmtudaginn 22. október 2009, ekið bifreiðinni [...], undir áhrifum ávana- og fíkniefna (Tetrahýdrókannabínól í blóði 28 ng/ml) suður Hringbraut í Reykjanesbæ.
Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
II. (008-2010-253)
Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa þann 7. janúar 2010 á [...], í [...], haft í vörslum sínum 18,94 gr. af kókaíni, 8,47 gr. af hassi og 1,33 gr. af tóbaksblönduðu kannabisefni er hún faldi undir stól sem hún sat á og lögregla fann við húsleit á [...] í [...] þar sem hún var gestkomandi.
Telst háttsemi þessi varða við 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001.
Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þess er einnig krafist að ákærða verði dæmd til sviptingar ökuréttar, skv. 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993, 4. gr. laga nr. 57/1997 og 18. gr. laga nr. 66/2006.
Þá er þess krafist að ákærða verði dæmd til að sæta upptöku á 18,94 gr. af kókaíni, 8,47 gr. af hassi og 1,33 gr. af tóbaksblönduðu kannabisefni, samkvæmt heimild í 6. mgr. 5. gr. lag anr. 65/1974, sbr. lög nr. 10/1997 og 68/2001, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglug. nr. 233/2001.”
Af hálfu ákærðu er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og málsvarnarlauna að mati dómsins.
II.
Ákæruliður I.
Ákærða játaði brot sitt samkvæmt I. ákærulið skýlaust fyrir dóminum eins og því er lýst í ákæru. Er um málavaxtalýsingu hvað þennan ákærulið varðar vísað til ákæru.
Ákæruliður II.
Í frumskýrslu lögreglu, sem dagsett er 13. janúar 2010, segir að tilkynning hafi borist lögreglu um að á [...] væri fíkniefnasamkvæmi í gangi, eins og það er orðað í skýrslunni. Lögreglumenn hafi farið á vettvang og séð í gegnum glugga að áhöld til fíkniefnaneyslu voru á stofuborði. Lögreglumenn hafi knúið dyra og til dyranna hafi komið C. Hafi lögreglumenn gengið rakleitt inn í íbúðina og þar hafi verið í stofunni ákærða, A og B. B hafi haldið á kannabisvindlingi og reynt að losa sig við pakkningar af maríjúana með því að leggja þær frá sér við vinstri hlið sófans sem hann hafi setið í. B hafi viðurkennt að vera eigandi þeirra fíkniefna. Tilkynnt hafi verið að þau væru öll handtekin og húsráðandi, C, hafi undirritað húsleitarheimild. Engin fíkniefni hafi fundist á sakborningum en við fætur A, þar sem hann hafi setið í sófanum, hafi fundist poki sem innihaldið hafi maríjúana og hafi hann viðurkennt að vera eigandi þeirra fíkniefna. Við fætur ákærðu hafi fundist poki sem innihaldið hafi tvær kúlur með hvítu dufti og 10 búta af hassi. Búið hafi verið að ýta efnunum undir stólinn sem ákærða sat í. Aðspurð á vettvangi hafi ákærða sagst eiga fíkniefnin en í sérstakri framburðarskýrslu hafi hún sagst hafa verið að geyma efnin fyrir vin sinn. Komið hafi verið með fíkniefnahund á vettvang en engin frekari fíkniefni hafi fundist við þá leit. Í skýrslunni segir að ákærða og A hafi verið færð í fangaklefa í skamma stund á meðan á rannsókn á vettvangi stóð yfir.
Framburðarskýrsla ákærðu ber yfirskriftina “vettvangsskýrsla vegna fíkniefnamisferlis” og er á stöðluðu formi, þ.e. spurningar eru forprentaðar og svörin handrituð inn á skýrsluna. Þar er eftir ákærðu haft að efnið í pokanum, sem fundist hafi hjá henni, sé ekki hennar eign, en hún vilji ekki tjá sig um það hver eigandi efnisins sé. Þá segir að hún sé ekki viss um hvaða efni þetta sé og ekki hafa hugmynd um hversu mikið magn sé um að ræða. Við spurningunni: “Hvar fékkst þú efnið?” er bókað eftirfarandi svar ákærðu: “Var að geyma þetta fyrir vin minn.” Við spurningunni: “Hvar geymdir þú efnið?” er bókað eftirfarandi svar ákærðu: “Á sófaborðinu og setti það svo undir stólinn.”
Í sams konar framburðarskýrslu B sagðist hann hafa átt um 22 g af maríjúana og sagðist hann hafa fundið efnið úti. Hann sagðist hafa haldið á efninu og látið það falla við hliðina á sófanum.
Í framburðarskýrslu A sagðist hann hafa sett poka með kannabis á gólfið þegar lögregla kom, en það hafi fundist og hann verið handtekinn. Sagðist hann eiga þetta efni, sem væri 7 g af kannabis. Hann sagðist hafa geymt efnið á borðinu.
Ákærða neitaði sök fyrir dóminum að því er varðar II. lið ákæru. Hún sagði að lögreglan hefði ruðst inn í íbúðina í greint sinn án viðvörunar. Við leit í íbúðinni hefði lögreglan fundið fíkniefni undir stólnum, sem hún hafði setið í. Sagðist hún hafa tekið þessi fíkniefni af borðinu þegar lögreglan kom inn og hent þeim undir stólinn. Sagðist hún hafa gert þetta í fljótfærni og hafa haldið að kærastinn sinn, A, ætti þessi fíkniefni. Enginn hefði viðurkennt að eiga fíkninefnin og sagðist hún hafa haldið að hún væri að gera kærastanum sínum greiða með því að segjast eiga þessi fíkniefni, en hið rétta væri að B hefði átt efnin. Aðspurð sagðist hún hafa verið undir áhrifum kannabisefna í umrætt sinn. Hún sagði að auk hennar hefðu A, B og C verið í íbúðinni. Þau hefðu setið í sófa og stól við stofuborð í stofunni og sjálf hefði hún setið í stólnum. Ákærða staðfesti að rétt væri eftir henni haft í framburðarskýrslu hjá lögreglu, en ekki væri hins vegar rétt að hún hefði verið að geyma efnin fyrir vin sinn.
A kaus að gefa skýrslu fyrir dóminum sem vitni, en hann sagðist vera í sambúð með ákærðu. Hann sagði að lögreglan hefði ruðst inn í íbúðina með látum í greint sinn og tilkynnt að þau væru öll handtekin. Einhver fíkniefni hefðu fundist við leit í íbúðinni og sagðist hann hafa átt hluta af þeim, þ.e. efnin sem fundist hefðu við fætur hans. Sagðist hann hafa setið í sófanum og verið með um 7 g af kannabisefnum í höndunum þegar lögreglan kom inn, en þá hefði hann sett þau á gólfið. Þessi efni hefðu fundist á gólfinu við hliðina á honum. Aðspurður sagðist hann hafa setið í sófanum og ákærða við hliðina á honum á sófastól. Hann sagðist ekki hafa séð hvað ákærða gerði þegar lögreglan kom inn. Þegar lögreglan hefði komið inn hefðu tóbaksblöndur verið á borðinu. Fyrr um kvöldið sagðist hann einnig hafa séð kókaín og fleiri efni á borðinu og sagðist hann hafa vitað af þeim í húsinu. Ákærða hefði tjáð honum síðar að hún hefði tekið þessi fíkniefni og sett þau undir stól þegar lögregla kom inn. Sjálfur hefði hann ekki orðið vitni að því. Sagðist hann halda að ákærða hefði ætlað að vernda hann með því að fela fíkniefnin. Hann sagði að B hefði átt öll fíkniefnin sem fundist hefðu við fætur ákærðu, þ.e. 18,94 g af kókaíni, 8,47 g af hassi og 1,33 g af tóbaksblönduðu kannabisefni. Sagðist hann vera búinn að ljúka sínu máli með sektargreiðslu.
B gaf skýrslu fyrir dóminum. Hann sagðist neyta kannabisefna daglega með smáhléum. Hann sagðist muna vel eftir atvikum máls þessa. Hann sagði að bankað hefði verið á dyrnar og tveir menn komið inn í íbúðina. A hefði verið handtekinn og farið með hann á lögreglustöð. Síðar hefðu hann og ákærða einnig verið færð á lögreglustöð. Þá hefði verið leitað í íbúðinni, m.a. með fíkniefnahundi.
Aðspurður sagðist hann hafa setið í sófanum við hliðina á A þegar lögreglan kom og verið með kannabisefni í höndunum. Sagðist hann einnig hafa átt kannabisefni og kókaín, sem fundist hefðu undir stólnum sem ákærða sat í. Sagðist hann hafa sett efnin þar löngu áður en lögreglan kom og sagðist hann ekki vita hvort ákærða vissi af þeim undir stólnum. Hann sagði að ákærða hefði sest í stólinn eftir að hann setti fíkniefnin undir stólinn. Ekki væri rétt að ákærða hefði sjálf sett fíkniefnin undir stólinn. Þegar honum var kynnt að ákærða hefði borið um það hafa sett þessi fíkniefni undir stólinn sagði hann að sig minnti að hann hefði sett fíkniefnin undir stólnum þar sem þetta hefðu verið efni frá honum. Hann sagði að ákærða væri vinkona sín.
C gaf einnig skýrslu fyrir dóminum. Hann sagði að ákærða væri vinkona sín og kærasta vinar síns, A. Hann sagði að lögreglan hefði bankað og síðan ruðst inn í íbúðina. Þá hefði lögreglan skipað honum að undirrita húsleitarheimild. Þeir hefðu síðar komið með fíkniefnahund til að leita í búðinni. Í íbúðinni hefði verið eitthvað af fíkniefnum, s.s. möllu, grasi og kókaíni. Auk hans hefðu ákærða, A og B verið í íbúðinni og öll verið að reykja fíkniefni. Þau hefðu setið í sófa og stól við stofuborð í stofunni. Sjálfur hefði hann setið í tveggja manna sófa, A næst honum í stóra sófanum, við hliðina á honum hefði B setið og síðan ákærða í stólnum. Hann sagði að fíkniefni hefðu fundist undir stólnum, sem ákærði sat í. Aðspurður sagðist hann ekki hafa séð hana meðhöndla þessi fíkniefni, sem hefðu verið í eigu B. B hefði komið með þessi fíkniefni og verið að sýna þeim þau. Hann hefði síðan gengið frá efnunum en sagðist ekki hafa séð hvar hann setti þau. Hann sagðist fyrst hafa séð efnin undir stól þegar lögreglan fann þau og sagðist ekki vita hver setti þau þar.
Halldór Sigurbergur Sveinsson lögreglumaður sagði að lögreglan hefði fengið tilkynningu um fíkniefnaneyslu að [...] í [...] í umrætt sinn. Þegar þeir hefðu komið á vettvang hefðu þeir séð hasslón í gegnum glugga á íbúðinni. Þeir hefðu bankað upp á og C komið til dyra. Þeir hefðu gert honum grein fyrir hvers vegna þeir væru þarna og síðan gengið inn í íbúðina. Þar hefðu verið auk húsráðanda, ákærða, kærasti hennar A og þá B. Þau hefðu öll verið handtekin. B hefði haldið á kannabisvindlingi og reynt að losa sig við einhver efni við hliðina á sófanum. Sófinn hefði verið beint á móti þeim þegar þeir komu inn og hefði B setið hægra megin í honum, en A vinstra megin. Vinstra megin við sófann hefði ákærða setið í sófastól. Hægra megin við sófann hefði verið tveggja sæta sófi, sem enginn hefði setið í. Næst hefðu fundist efni við fætur A og þá undir sófastólnum sem ákærða sat í. Öll hefðu þau gengist við því að eiga þessi efni. Hann sagði að sig minnti þó að í framburðarskýrslu hefði ákærða dregið þann framburð til baka og sagst hafa verið að geyma efnin fyrir vin sinn.
Marteinn Jóhannes Sigurðsson lögreglumaður gaf einnig skýrslu fyrir dóminum og skýrði frá á sama veg og lögreglumaðurinn Halldór Sigurbergur.
III.
Niðurstaða
Ákæruliður I.
Með játningu ákærðu sem á sér stoð í gögnum málsins þykir sannað að ákærða hafi gerst sek um þá háttsemi sem ákært er fyrir í I. lið ákæru og er brot ákærðu rétt heimfært til refsiákvæða í ákærunni.
Ákæruliður II.
Eins og fram hefur komið fundust 18,94 g af kókaíni, 8,47 g af hassi og 1,33 g af tóbaksblönduðu kannabisefni undir stól, sem ákærða sat í þegar lögregla kom inn í íbúðina í greint sinn. Viðurkenndi ákærða á vettvangi að eiga fíkniefnin, en í framburðarskýrslu sem var tekin á lögreglustöð nokkru síðar sagðist hún hafa verið að geyma efnin fyrir vin sinn, sem hún vildi ekki segja hver væri. Engir aðrir, sem voru í íbúðinni í greint sinn, viðurkenndu að eiga þessi fíkniefni eða að hafa verið með þau í vörslum sínum, hvorki á vettvangi né í framburðarskýrslu á lögreglustöð.
Hér fyrir dómi sagðist ákærða hafa tekið umrædd fíkniefni af sófaborðinu þegar lögregla kom inn í íbúðina og hent þeim undir stólinn, sem hún sat í. Sagðist hún hafa gert þetta í fljótfærni þar sem hún hefði haldið að kærasti sinn, A, ætti fíkniefnin, en eigandi þeirra hefði hins vegar verið B. Fær þessi framburður ákærðu nokkurn stuðning í framburði vitnisins A hér fyrir dómi og samrýmist einnig framburði ákærðu hjá lögreglu. Framburður vitnisins B samræmist hins vegar ekki framburði ákærðu. Framburður þess vitnis er óstöðugur og þykir ótrúverðugur.
Með hliðsjón af því að umrædd fíkniefni fundust undir sófastólnum, sem ákærða sat í þegar lögregla kom inn og með því að ákærða hefur viðurkennt að hafa tekið áðurgreind fíkniefni af sófaborðinu og hent þeim undir stólinn sem hún sat í þegar lögregla kom í því skyni að fela þau fyrir lögreglu verður að telja að efnin hafi verið í vörslum hennar í greint sinn í skilningi 2. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Breytir það ekki niðurstöðu þessari þótt vitni hafi borið um að hún hafi ekki verið eigandi efnanna. Er ákærða því sakfelld fyrir háttsemi þá er greinir í ákærulið II og þykir háttsemin réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Ákærða, sem er fædd árið 1990, hefur ekki áður gerst sek um refsiverða háttsemi. Þykir refsing hennar hæfilega ákveðin 30 daga fangelsi. Með hliðsjón af ungum aldri ákærðu og því að hún hefur ekki áður gerst brotleg þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og ákveða að hún falli niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærða almennt skilorðs 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærða er svipt ökurétti í 12 mánuði frá birtingu dómsins að telja.
Þá ber að fallast á upptökukröfu ákæruvaldsins og eru gerð upptæk 18,94 g af kókaíni, 8,47 g af hassi og 1,33 g af tóbaksblönduðu kannabisefni.
Loks er ákærðu gert að greiða 289.218 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., sem þykja hæfilega ákveðin 188.250 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Dóm þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari. Uppkvaðning dómsins hefur dregist vegna embættisanna dómara.
Dómsorð:
Ákærða, X, sæti fangelsi í 30 daga, en fullnustu refsingarinnar er frestað og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærða er svipt ökurétti í 12 mánuði frá birtingu dómsins.
Upptæk eru gerð 18,94 g af kókaíni, 8,47 g af hassi og 1,33 g af tóbaksblönduðu kannabisefni.
Ákærða greiði 289.218 krónur sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., 188.250 krónur.