Hæstiréttur íslands
Mál nr. 279/2017
Lykilorð
- Lánssamningur
- Umboð
- Prókúra
- Dráttarvextir
- Málsástæða
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir landsréttardómari.
Áfrýjendur skutu málinu upphaflega til Hæstaréttar 28. febrúar 2017 en ekki varð af þingfestingu þess 12. apríl sama ár og var því áfrýjað öðru sinni 8. maí 2017.
Áfrýjandi Ístraktor ehf. krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að krafan verði lækkuð og að hún beri ekki dráttarvexti fyrr en frá og með dómsuppsögu eða birtingu stefnu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi Páll Gíslason krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Fyrir Hæstarétti hafa áfrýjendur teflt fram þeirri málsástæðu að umboð áfrýjandans Ístraktors ehf. 5. nóvember 2004 til Elínar Ernu Markúsdóttur til að gera lánssamninga hafi ekki náð til þess að rita undir beiðni 16. þess mánaðar um útborgun eftir lánssamningi frá þeim degi milli áfrýjandans og Landsbanka Íslands hf. Þessi nýja málsástæða kemst ekki að hér fyrir dómi, enda standa ekki til þess lagaskilyrði samkvæmt 2. mgr. 187. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en upphafsdag dráttarvaxta. Gegn andmælum áfrýjenda er ósannað að áfrýjandanum Ístraktor ehf. hafi borist bréf stefnda 9. nóvember 2013 með endurútreikningi kröfunnar. Verða því dráttarvextir ekki reiknaðir mánuði eftir þann dag, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, heldur frá málshöfðun, sbr. 4. mgr. sömu greinar.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en upphafsdag dráttarvaxta.
Dráttarvextir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af fjárkröfu stefnda, Landsbankans hf., á hendur áfrýjandanum Ístraktor ehf. skulu reiknast frá 9. október 2014 og einnig við fjárnám fyrir kröfunni hjá áfrýjandanum Páli Gíslasyni í fasteign hans að Smiðsbúð 2 í Garðabæ.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. desember 2016.
Mál þetta var höfðað 9. október 2014 og dómtekið 9. nóvember 2016.
Stefnandi er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík.
Stefndu eru Ístraktor ehf., Smiðsbúð 2, Garðabæ og Páll Gíslason, Hofakri 1, Garðabæ.
Stefnandi krefst þess að stefndi Ístraktor ehf. verði dæmt til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 44.301.922 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 9. desember 2013 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að honum verði með dómi heimilað að gera fjárnám inn í veðrétt sem stefnandi á í eignarhlut stefnda, Páls Gíslasonar, í fasteigninni Smiðsbúð 2, fastanr. 207-2268, Garðabæ, ásamt tilheyrandi hlutdeild í eignarlóðum og öllu því sem eignunum fylgir og fylgja ber, samkvæmt tveimur tryggingarbréfum, annars vegar bréfi nr. 0111-63-204101, útgefnu 1. nóvember 2004, til tryggingar skuldum stefnda Ístraktors ehf., fyrir samtals 77.038.625 krónum, og hins vegar bréfi nr. 0111-63-204105, útgefnu 15. desember 2004, til tryggingar skuldum stefnda Ístraktors ehf., fyrir samtals 44.356.873 krónum. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndu krefjast aðallega sýknu af kröfum stefnanda. Til vara krefst stefndi Ístraktor ehf. þess að fjárkrafa á hendur honum verði lækkuð og að dráttarvextir verði ekki dæmdir fyrr en frá og með dómsuppsögu eða birtingu stefnu. Þá krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Hinn 13. nóvember 2015 var kröfu stefndu um frávísun málsins hrundið með úrskurði dómsins. Þá var í þinghaldi 19. október 2015 fallið frá fjárkröfu á hendur stefnda, Páli Gíslasyni. Loks leiðrétti lögmaður stefnanda upphafsdag dráttarvaxta í þinghaldi 20. október 2016, á þann veg að dráttarvaxta er nú krafist frá 9. desember 2013.
I.
Málavextir
Málavextir eru í stuttu máli þeir að Landsbanki Íslands hf., sem lánveitandi, og stefndi Ístraktor ehf., sem lántaki, gerðu með sér lánssamning nr. 0111-36-2194 þann 16. nóvember 2004 um fjölmyntalán, upphaflega að jafnvirði 30.000.000 kr. í eftirtöldum myntum og hlutföllum: USD 28%, CHF 50% og JPY 22%. Það athugast að í stefnu og greinargerð segir að lánssamningurinn sé gerður 10. nóvember 2004, en samningurinn er dagsettur 16. nóvember 2004. Lánstími skyldi vera til fimm ára og lánið greiðast með einni afborgun í lok lánstímans 1. september 2009. Vexti skyldi greiða á þriggja mánaða fresti eins og nánar greinir í samningnum. Um dráttarvexti skyldi fara samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, en samkvæmt grein 7.1 í samningnum skyldi bankinn hafa val um það hvort krafist yrði dráttarvaxta af fjárhæðinni í erlendri mynt eða af skuldinni breyttri í íslenskar krónur.
Krafa samkvæmt lánssamningnum var tryggð með tveimur tryggingarbréfum, annars vegar bréfi nr. 0111-63-204101, útgefnu 1. nóvember 2004, upphaflega að fjárhæð 43.000.000 kr., og var fjárhæðin verðtryggð miðað við vísitölu neysluverðs, 235,6 stig, hins vegar bréfi nr. 0111-63-204105, útgefnu 15. desember 2004, upphaflega að fjárhæð 25.000.000 kr., og var fjárhæðin verðtryggð miðað við vísitölu neysluverðs, 237,9 stig. Bæði bréfin voru til tryggingar öllum skuldum og fjárskuldbindingum Ístraktors ehf. og voru tryggð með veði í fasteign stefnda, Páls Gíslasonar, að Smiðsbúð 2 í Garðabæ, með fastanúmerið 207-2268. Uppreiknuð staða fyrrnefnda bréfsins er nú 77.038.625 kr. en þess síðarnefnda 44.356.873 kr. og er í báðum tilvikum miðað við 4. september 2014.
Þann 16. nóvember 2004 barst stefnanda beiðni um útborgun lánsins samkvæmt lánssamningnum og þann 24. sama mánaðar voru greiddar út 29.690.000 kr.
Bæði lánssamningurinn og beiðni um útborgun lánsins voru undirrituð af Elínu Ernu Markúsdóttur, fyrir hönd stefnda, Páls Gíslasonar, sem var stjórnarmaður stefnda, Ístraktors ehf. Páll hafði veitt Elínu Ernu skriflegt umboð, dags. 5. nóvember 2004, ,,til þess að undirrita lánssamninga að fjárhæð kr. 30.000.000 […] til allt að 5 ára annarsvegar […]“. Elín Erna undirritaði fyrrgreind skjöl á stað þar sem var gert ráð fyrir undirritun ,,f.h. Ístraktors ehf.“ með orðunum ,,pr. pr. Ístraktor P.G.“ og ritaði þar undir nafn sitt.
Með bréfi stefnanda frá 28. nóvember 2011 var Ístraktor ehf. tilkynnt að í kjölfar breytinga á lögum nr. 38/2001, sem kvæðu á um endurútreikning lána með ólögmætri gengistryggingu, væri það mat bankans að umrætt lán kvæði á um slíka gengistryggingu. Þá segir í bréfinu að í samræmi við ákvæði laganna hafi eftirstöðvar lánsins verið endurútreiknaðar miðað við lægstu óverðtryggðu vexti sem Seðlabankinn birtir, sbr. 10. gr. laganna, og miðaðist endurútreikningur við 25. nóvember 2011. Eftirstöðvar lánsins eftir endurútreikning námu 58.697.803 kr.
Með bréfi stefnanda frá 9. nóvember 2013 var Ístraktor ehf. tilkynnt, með vísan til dóma Hæstaréttar um að greiðslukvittanir hefðu jafngilt fullnaðarkvittunum og að endurútreikningur lána hefði átt að taka mið af því, að endurútreikningur lánsins hefði verið leiðréttur. Leiðréttingin fór fram með þeim hætti að fram til 9. nóvember 2013 var nýr höfuðstóll reiknaður miðað við efni fullnaðarkvittana. Þá voru eftirstöðvar lánsins leiðréttar vegna greiðslna frá endurútreikningsdegi þar sem það átti við. Eftir þessa leiðréttingu námu eftirstöðvar lánsins 44.301.922 kr.
Stefnda Ístraktor ehf. var sent innheimtubréf þann 16. maí 2014 og hann krafinn um greiðslu skuldarinnar en þær innheimtutilraunir báru ekki árangur.
Stefnandi telur jafnframt nauðsynlegt að fá dóm um að honum sé heimilt fjárnám á umræddum eignarhlut stefnda, Páls Gíslasonar, í nefndri fasteign, að því marki sem verðtryggingin taki til dómkröfunnar samkvæmt ákvæðum tryggingarbréfanna. Bréfin séu allsherjarveð og því hvorki unnt að fara í beina aðför á grundvelli þeirra skv. 1. gr. laga um aðför nr. 90/1989, né beiðast nauðungarsölu sbr. 6. gr. laga um nauðungarsölu, nr. 90/1991.
II.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi reisir kröfur sínar á meginreglu kröfu- og samningaréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga. Vísar hann til lánasamnings nr. 0111-36-2194 sem gerður var milli Landsbanka Íslands hf. og stefnda, Ístraktors ehf., þann 16. nóvember 2004. Í stefnu er skilmálum lánssamningsins lýst, m.a. ákvæðum um vexti og útreikning þeirra. Um dráttarvexti skyldi fara samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og stefnandi hafa val um það hvort krafist yrði dráttarvaxta af fjárhæðinni í erlendri mynt eða af skuldinni breyttri í íslenskar krónur. Auk vaxtakostnaðar skyldu stefndu, kæmi til vanefnda, einnig greiða allan kostnað bankans vegna vanefndanna, málsóknar eða annarra réttargjalda, lögmannsþóknun eða annað sem stefnandi þyrfti að greiða vegna innheimtu lánsins. Lántökugjald var 1% samkvæmt samningnum. Það reiknaðist af heildarlánsfjárhæð samningsins og skyldi lántökugjaldið dragast frá láninu við útborgun þess.
Lánið var endurútreiknað tvisvar sinnum og var stefndu sent bréf þess efnis. Hinn 1. desember 2013 hafi skuldin numið 44.301.922 kr. sem sé stefnufjárhæð málsins.
Innheimtubréf hafi verið sent 16. maí 2014, en skuldin ekki verið greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og því nauðsynlegt að höfða mál til heimtu skuldarinnar.
Stefnandi vísar til þess að sér sé nauðsynlegt að fá dóm um að honum sé heimilt fjárnám á umræddum eignarhlutum stefnda, Páls Gíslasonar, í nefndri fasteign að því marki sem veðtryggingin taki til dómkröfunnar samkvæmt ákvæðum tryggingarbréfanna. Þar sem bæði bréfin séu allsherjarveð sé ekki unnt að fara beint í aðför á grundvell þeirra skv. 1. gr. laga um aðför, nr. 90/1989, eða beiðast nauðungarsölu samkvæmt 6. gr. laga um nauðungarsölu, nr. 90/1991, á grundvelli bréfanna.
Lán nr. 2194 hafi verið tryggt með tveimur tryggingarbréfum útgefnum af stefnda Ístraktor ehf. og er þeim nánar lýst hér að framan. Bréfin séu tryggð með veði í Smiðsbúð 2, fastanr. 207-2268, Garðabæ. Eigandi fasteignarinnar sé stefndi, Páll Gíslason. Uppreiknuð staða fyrra bréfsins, sem sé útgefið 1. nóvember 2004, hafi numið 77.038.625 kr. en þess seinna, sem sé útgefið 15. desember 2004, 44.356.873 kr., í báðum tilvikum miðað við 4. september 2014. Krefjist stefnandi dráttarvaxta ár aftur í tímann frá nauðungarsölubeiðni í samræmi við b-lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 75/1997, um samningsveð.
Stefnandi rökstyður aðild sína með því að Fjármálaeftirlitið hafi, með heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga 125/2008, um heimild til fjárfestingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., ákveðið 9. október 2008 að ráðstafa eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf. til stefnanda, sem þá hafi heitið Nýi Landsbanki Íslands hf.
III.
Málsástæður og lagarök stefndu
Stefndu lýsa lögskiptum varðandi lánasamninginn með svipuðu móti og stefnandi en tiltaka sérstaklega að undir lánasamninginn hafi ritað Elín Erna Markúsdóttir með undirrituninni „pr.pr. Ístraktor P.G.“. Samningnum hafi fylgt umboð Elínar Ernu til að undirrita samninginn fyrir hönd stefnda Ístraktor ehf., en prókúru fyrir stefnda Ístraktor ehf. hafi hana þó skort og því sé undirritun hennar ekki skuldbindandi fyrir félagið. Hafi hún einungs haft umboð til þess að rita undir lánasamning fyrir hönd stefnda, Páls Gíslasonar, sem stjórnarmanns. Undirritun Elínar Ernu pr.pr. hafi því ekki verið í samræmi við umboð hennar eða ákvæði laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Þar sem félagið sé ekki skuldbundið af lánasamningnum beri að sýkna stefnda Ístraktor ehf. þá þegar af öllum kröfum stefnanda.
Sýknu af veðkröfu styður stefndi, Páll Gíslason, sömu rökum og að framan eru rakin varðandi óskuldbindandi undirritun prókúrulauss aðila.
Stefndu telja enn fremur að endurútreikningur hafi ekki verið sannanlega sendur, enda virðist framlögð óundirrituð bréf um endurútreikning, dags. 28. nóvember 2011 og 9. nóvember 2013, og innheimtubréf, dags. 16. maí 2014, aðeins vera útprentanir úr tölvukerfum en ekki afrit bréfa sem hafi verið send. Þá sé ekki unnt að krefjast dráttarvaxta nema frá þeim tíma sem aðilar hafi sannanlega verið krafðir um greiðslu, og því sé dráttarvaxtakröfu sérstaklega mótmælt og þess krafist af hálfu stefndu að dráttarvöxtum verði markaður skemmri tími.
Í kjölfar framlagningar stefnanda á gögnum er sýndu forsendur endurútreikninga lánssamningsins miðað við 9. desember 2013, svo og útreikninga sem sýndu stöðu lánsins, væri miðað við óverðtryggða stöðu féll stefndi Ístraktor ehf. frá málsástæðum varðandi forsendur útreiknings lánsins.
IV.
Niðurstaða
Í máli þessu er óumdeilt að lán stefnanda til stefnda var lán með ólögmætri gengistryggingu sem síðar var endurútreiknað í tvígang. Ágreiningur málsins snýst í stuttu máli um það hvort stefndi Ístraktor ehf. skuldi stefnanda 44.301.922 kr. ásamt dráttarvöxtum. Af hálfu stefndu er því borið við að undirritun lánasamningsins, sem deila aðila er sprottin af, sé marklaus þar sem Elín Erna Markúsdóttir, sem ritaði undir samninginn og beiðni um útborgun sem prókúruhafi, hafi ekki haft prókúru til að skuldbinda stefnda, Ístraktor ehf. Þá er deilt um viðmiðunardag dráttarvaxta.
Samkvæmt framlögðu útprenti úr hlutafélagaskrá er stjórn stefnda Ístraktors ehf. skipuð stefnda, Páli Gíslasyni, sem stjórnarmanni, og Elínu Erlu Markúsdóttur sem varamanni, samkvæmt fundi dags. 4. nóvember 1994. Þá er stefndi, Páll Gíslason, með prókúruumboð fyrir hið stefnda félag, en ekki verður ráðið af umræddu útprenti hvenær honum var veitt prókúran. Með umboði, dags. 5. nóvember 2004, veitti stefndi Páll fyrrnefndri Elínu Erlu umboð fyrir hönd stefnda Ístraktors ehf. ,,til þess að undirrita lánssamninga að fjárhæð kr. 30.000.000 […] til allt að 5 ára annarsvegar […]“ milli Landsbanka Íslands hf. og stefnda Ístraktors ehf. Eins og áður greinir ritaði Elín Erla síðan undir lánssamninginn, á stað þar sem var gert ráð fyrir undirritun ,,f.h. Ístraktors ehf.“, með nafni sínu og orðunum ,,pr. pr. Ístraktor P.G.“.“
Stefndu byggja ekki á því að með undirritun sinni hafi Elín Erna farið út fyrir umboð sitt, heldur að undirritun hennar hafi að formi til ekki verið í samræmi við umboðið. Með umræddu umboði var Elínu Erlu ekki veitt prókúra, sbr. 25. gr. laga nr. 42/1903, um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð. Var Elínu Erlu því ekki rétt að rita stafina pr. pr. við undirritun lánssamningsins, enda er föst venja fyrir því að slík skammstöfun merki að sá sem undirritar sé með prókúru fyrir umbjóðanda sinn, sbr. 28. gr. laga nr. 42/1903. Fram hjá því verður þó ekki litið að Elín Erla var með skýrt umboð til að undirrita lánssamninginn og gerði það með því að rita nafn sitt þar sem gert var ráð fyrir undirritun fyrir hönd stefnda Ístraktors ehf. Er stefndi Ístraktor ehf. því bundinn við samninginn, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Getur það ekki haggað gildi undirritunar Elínar Erlu þótt hún hafi einnig ritað skammstöfun sem virðist hafa átt að gefa til kynna að hún væri með umboð til undirritunar samningsins.
Þá verður ekki heldur litið fram hjá því að stefndi Ístraktor ehf. tók athugasemdalaust við lánsfénu og verður ekki séð að stefndu hafi gert athugasemdir við undirritun lánssamningsins fyrr en við framlagningu greinargerðar í máli þessu 29. janúar 2015, eða meira en tíu árum eftir undirritun lánssamningsins. Á lokasíðu lánssamningsins kemur þó fram að samningurinn sé gerður í tveimur samhljóða eintökum og haldi hvor samningsaðili einu eintaki, en ekki er á því byggt að stefndu hafi ekki fengið undirritað eintak lánssamningsins í hendur.
Samkvæmt framangreindu komst á bindandi lánssamningur milli forvera stefnanda, Landsbanka Íslands hf., og stefnda, Ístraktors ehf., en stefnandi hefur nú tekið við sem kröfuhafi lánsins. Bar stefnda Ístraktor ehf. að greiða lánið til baka 1. september 2009, auk vaxta sem fyrr greinir. Lánið var endurreiknað í tvígang vegna ólögmætrar gengistryggingar og bera gögn málsins með sér að stefndi Ístraktor ehf. skuldi stefnanda 44.301.922 kr., sem er stefnufjárhæðin.
Stefndu halda því fram að ósannað sé að bréf um endurútreikning, dags. 28. nóvember 2011 og 9. nóvember 2013, og innheimtubréf, dags. 16. maí 2014, hafi verið send. Bréfin um endurútreikning eru stíluð á heimilisfang stefnda Ístraktors ehf. og innheimtubréfið er í tveimur eintökum, annað stílað á heimilisfang stefnda, Ístraktors ehf., en hitt á heimilisfang stefnda, Páls Gíslasonar. Bera bréfin ekki annað með sér en að þau hafi verið send á þessi heimilisföng þá daga sem þau eru dagsett og skiptir ekki máli þótt bréfin séu óundirrituð. Verður því að leggja til grundvallar að stefndu hafi borist umrædd bréf. Með bréfinu, dags. 9. nóvember 2013, var stefndi Ístraktor ehf. krafinn um greiðslu stefnufjárhæðarinnar. Í samræmi við 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, reiknast dráttarvextir því frá 9. desember 2013. Verður krafa stefnanda á hendur stefnda Ístraktor ehf. því tekin til greina að öllu leyti.
Sýknukrafa stefnda, Páls Gíslasonar, byggir einungis á því að undirritun Elínar Erlu á umræddan lánssamning hafi verið óskuldbindandi fyrir stefnda Ístraktor ehf. Þar sem dómurinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að stefndi Ístraktor ehf. sé bundinn við samninginn verður krafa stefnanda á hendur stefnda, Páli Gíslasyni, jafnframt tekin til greina. Heimild stefnanda til að fá gert fjárnám í fasteign stefnda, Páls Gíslasonar, getur þó aðeins náð til þeirrar fjárhæðar sem stefndi Ístraktor ehf. er dæmdur til að greiða stefnanda, eins og nánar greinir í dómsorði.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þykir því rétt að málskostnaður falli niður milli stefnda Páls Gíslasonar og stefnanda.
Málskostnaður milli stefnanda og stefnda Ístraktors ehf. ákveðst 900.000 kr. Við ákvörðun hans var tekið tillit til skyldu stefnanda að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp þennan dóm.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Ístraktor ehf., greiði stefnanda, Landsbankanum hf., 44.301.922 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 44.301.922 krónum frá 9. desember 2013 til greiðsludags.
Stefnanda er heimilt að fá gert fjárnám í fasteign stefnda, Páls Gíslasonar, að Smiðsbúð 2, Garðabæ, fastanúmer 207-2268, samkvæmt tryggingarbréfi nr. 0111-63-204101, með þinglýsingarnúmer 436-X-006128/2004, tryggðu með 1. veðrétti í eigninni, og samkvæmt tryggingarbréfi nr. 0111-63-204105, með þinglýsingarnúmer 436-Z-006811/2004, tryggðu með 2. veðrétti í eigninni, til tryggingar greiðslu á 44.301.922 krónum, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 44.301.922 krónum frá 9. desember 2013 til greiðsludags.
Málskostnaður fellur niður milli stefnanda og stefnda, Páls Gíslasonar.
Stefndi, Ístraktor ehf., greiði stefnanda 900.000 krónur í málskostnað.