Hæstiréttur íslands
Mál nr. 186/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Mánudaginn 17. mars 2014. |
|
Nr. 186/2014. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Atli Már Ingólfsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi samkvæmt a. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og einangrun meðan á því stæði.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. mars 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. mars 2014, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 18. mars 2014 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að honum verði ekki gert að sæta einangrun meðan á því stendur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Uppfyllt eru skilyrði þess að varnaraðila verði gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga nr. 88/2008. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. mars 2014.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], [...],[...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til fimmtudagsins 20. mars nk., kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Kærði krefst þess að kröfu lögreglustjóra verði hafnað.
I
Lögreglustjóri vísar til þess að í gærkvöldi hafi lögregla handtekið kærða, sem og annan sakborning, vegna gruns um stórfelldan þjófnað á eldsneyti frá A. Starfsmaður A hafi kallað lögreglu til er hann kom að mönnunum í gærkvöldi þar sem þeir voru að dæla eldsneyti á tunnur sem staðsettar voru inni í bifreiðinni [...]. A hafi tveimur dögum áður borist ábending frá íbúa í umræddu hverfi um grunsamlegt athæfi tveggja manna við eldsneytisdælingu á nefnda bifreið. Hafi viðkomandi veitt því athygli að mennirnir opnuðu dæluna að neðanverðu og hófu dælingu eldsneytis eftir það. Hið sama hafi vitnið sagt hafa gerst fyrir tveimur til þremur vikum. Mennirnir hafi neitað að tjá sig en kærði hafi engu að síður framvísað lykli við lögreglu sem hann hafi staðfest að væri að stjórnborði dælunnar.
Athugun starfsmanna tæknideildar A hafi leitt í ljós að til séu myndbönd af mönnunum vegna fyrri atvika þar sem þeir komu á fyrrgreindri bifreið og dældu eldsneyti á tunnur í bifreiðinni. Í gærkvöldi hafi eldsneyti verið keypt fyrir 1.000 krónur sem skuldfært hafi verið af debetkorti. Í ljós hafi komið að viðkomandi kort hafi verið notað í 182 skipti á stöðvum A á tímabilinu febrúar 2013 til mars 2014. Yfirleitt hafi verið dælt fyrir 1.000 krónur í hvert skipti, stundum fyrir lægri fjárhæð, en aldrei yfir 2.000 krónur.
Við skoðun starfsmanna A á dælum við [...] hafi mátt greina hvar innsigli á magnmæli eldsneytis hafði verið rofið, skrúfur fjarlægðar og aðrar losaðar, en með því muni vera hægt að hægja á eða stöðva alveg teljara. Dælan telji því ekki nema brot af því magni sem fari í gegn í dælingunni. Tekur lögreglustjóri fram að dæla dæli um 35-40 lítrum á mínútu, ef um venjulega dælingu sé að ræða, en allt að 80 lítrum ef valin sé hraðdæling sem hægt sé að gera þegar dísilolíu sé dælt.
Sem fyrr segi hafi flestar dælingar sem skuldfærðar hafi verið á umrætt debetkort verið fyrir um 1.000 krónur, sem geri um 4 lítra af eldsneyti. Augljóst sé að slík dæling ætti eingöngu að taka nokkrar sekúndur. Á myndbandsupptökum frá A megi hins vegar sjá að dæling hafi tekið allt að 15 mínútum hvert skipti. Á þeim grundvelli hafi A áætlað að tjón þess gæti, gróflega áætlað, numið 80.000.000 krónum vegna ætlaðrar auðgunar kærða og samverkamanns hans.
II
Með vísan til framangreinds og gagna málsins telur lögreglustjóri rökstuddan grun fyrir hendi um að kærði hafi í félagi við annan mann, í auðgunartilgangi, valdið A stórfelldu fjárhagslegu tjóni. Slík háttsemi varði við 2. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Lögreglustjóri vísar til þess að kærði hafi verið yfirheyrður vegna málsins fyrr í dag. Við yfirheyrslur hafi kærði borið að allt frá því honum var sagt upp störfum hjá A hafi kærði stolið eldsneyti, í upphafi þó eingöngu í litlum mæli. Kærði hafi hins vegar orðið gjaldþrota á síðasta ári og þá hafi brot hans tekið á sig nýja mynd og orðið mun umfangsmeiri. Hafi kærði selt eldsneytið til annarra aðila og þannig orðið sér út um fjármuni. Kvað kærði ætlaðan samverkamann sinn hafa haft fulla vitneskju um þjófnaðinn og hafa aðstoðað sig við framkvæmdina. Kærði kvaðst jafnframt hafa selt eldsneytið á hálfvirði til fjölda nafngreindra kaupenda sem haft hefðu um það fulla vitneskju að um þýfi væri að ræða.
Lögreglustjóri kveður rannsókn málsins á algjöru frumstigi. Enn sé ekki að fullu upplýst hversu umfangsmikil ætluð brot sakborninganna séu. Ekki hafi gefist tími til þess að ræða við ætlaða kaupendur, fara í húsleitir og bera undir kaupendur framburð kærða. Fyrir liggi að skoða þurfi ýmis gögn til að rekja slóð sakborninga og sannreyna framburð þeirra. Þá eigi lögregla eftir að framkvæma húsleitir hjá kærða og samverkamanni, sem og hjá ætluðum hlutdeildarmönnum samkvæmt áðursögðu.
Það sé mat lögreglustjóra að ef kærði verði látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að hafa samband við vitorðsmenn, koma undan brotaandlagi eða með öðrum hætti hylja slóð sína. Lögregla telji það brýnt fyrir framgang málsins að fallist verði á framkomna kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna til að koma í veg fyrir að sakborningur geti spillt rannsókn málsins sem eðli málsins samkvæmt sé á frumstigi. Af framangreindum ástæðum sé einnig farið fram á að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.
Meint sakarefni segir lögreglustjóri vera brot gegn 2. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn ákvæðinu varði allt að 6 ára fangelsi. Um heimild til gæsluvarðhalds vísist til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Um heimild til einangrunar á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur vísist til b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga.
III
Með vísan til alls framanritaðs, svo og gagna málsins, er fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við. Fyrir liggur að kærði hafi nafngreint fjölda kaupenda sem keypt hafi af honum eldsneyti á hálfvirði, vitandi að um þýfi væri að ræða að sögn kærða.
Rannsókn málsins er á algeru frumstigi. Eðli málsins samkvæmt hefur lögregla ekki haft svigrúm til þess að yfirheyra ætlaða kaupendur og þannig staðreyna framburð kærða. Gangi kærði laus má ætla að hann muni torvelda rannsókn málsins með því að skjóta undan munum og/eða hafa áhrif á mögulega samseka, sem og vitni. Samkvæmt þessu telst skilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála fullnægt til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Er krafa lögreglustjóra því tekin til greina eins og hún er sett fram og nánar greinir í úrskurðarorði.
Með vísan til framangreinds er jafnframt fallist á kröfu um að kærða verði gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldsvist hans stendur, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Kristinn Halldórsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 18. mars nk., kl. 16:00.
Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.