Hæstiréttur íslands

Mál nr. 526/2009


Lykilorð

  • Líkamstjón
  • Skaðabótamál
  • Börn
  • Vinnuveitendaábyrgð


                                                         

Fimmtudaginn 29. apríl 2010.

Nr. 526/2009.

Dagmar Sif Ásgeirsdóttir

(Kristján Stefánsson hrl.)

gegn

Reykjavíkurborg

(Kristín Edwald hrl.)

Líkamstjón. Skaðabótamál. Börn. Vinnuveitandaábyrgð.

D krafðist þess að viðurkenndur yrði réttur hennar til skaðabóta úr hendi R vegna tjóns sem hún varð fyrir í slysi á leikskólanum B árið 2002. Reisti D viðurkenningarkröfu sína á því að skaðabótaábyrgð hefði stofnast á tjóni hennar á grundvelli reglunni um vinnuveitandaábyrgð. Taldi D að dekkjaróla sú, sem hún slasaðist í, hefði verið vanbúin auk þess sem eftirlit með börnum á leikskólanum þann dag er slysið varð hefði verið ófullnægjandi. Þá hefði engin rannsókn farið fram á slysinu. Hæstiréttur taldi ósannað að gerð og búnaður dekkjarólunnar hefði verið þannig að saknæmt og ólögmætt gæti talist og að eftirliti starfsmanna á leikskólanum með börnunum hefði verið áfátt. Þó að R hefði ekki hlutast til um sérstaka rannsókn á slysinu var talið að atvik væru nægilega upplýst í málinu til þess að slá því föstu að um óhappatilvik hefði verið að ræða, sem hvorki yrði rakið til gerðar eða búnaðar dekkjarólunnar né saknæmrar og ólögmætrar háttsemi starfsmanna á leikskólanum. Var R því sýknuð af kröfu D í málinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. 

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. september 2009. Hún krefst þess að viðurkenndur verði réttur sinn til skaðabóta úr hendi stefnda vegna líkamstjóns er hún varð fyrir á leikskólanum Blásölum 18. september 2002. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málsaðilar deila um ábyrgð á líkamstjóni, sem áfrýjandi varð fyrir framangreindan dag, en stefndi rekur leikskólann Blásali. Áfrýjandi reisir viðurkenningarkröfu sína á því að skaðabótaábyrgð hafi stofnast á tjóni hennar á grundvelli reglunnar um vinnuveitandaábyrgð. Hafi dekkjaróla sú, er hún slasaðist í, verið vanbúin auk þess sem eftirlit með börnum á leikskólanum þann dag sem slysið varð hafi verið ófullnægjandi. Þá heldur hún því fram að engin rannsókn hafi farið fram á slysinu.

Upplýst er að leikskólinn Blásalir hafði verið starfræktur í um tvö ár er slysið varð. Leiktæki, þar með talin dekkjarólan sem áfrýjandi slasaðist í, voru því nýleg. Sannað er, meðal annars með skýrslum tveggja starfsmanna leikskólans fyrir dómi, að gúmmíhulsur voru utan um keðjurnar sem héldu dekkinu uppi. Gúmmíhulsurnar hylja þó ekki samskeytin þar sem keðjan, er liggur frá ránni sem rólan hangir í, skiptist í tvo leggi sem festir eru í dekkið. Ekki voru gerðar athugasemdir við rólurnar eða búnað þeirra við skoðun umhverfis- og heilbrigðissviðs stefnda fyrir og eftir slys eins og grein er gerð fyrir í héraðsdómi. Það athugast þó að reglugerð nr. 942/2002 um öryggi leikvallartækja og leiksvæða og eftirlit með þeim, sem vísað er til í héraðsdómi, hafði ekki öðlast gildi er slysið varð. Samkvæmt framansögðu er ósannað að gerð og búnaður dekkjarólunnar hafi verið þannig að saknæmt og ólögmætt geti talist.

Óumdeilt er að mönnun leikskólans var í samræmi við fyrirmæli í III. kafla reglugerðar nr. 225/1995 um starfsemi leikskóla. Starfsmenn voru við eftirlit á útisvæði er slysið varð og einn þeirra staddur þar sem áfrýjandi slasaðist, en var þá að sinna öðru barni. Er ósannað að eftirliti starfsmanna á leikskólanum með börnunum hafi verið áfátt.

Óumdeilt er að stefndi hlutaðist ekki til um sérstaka rannsókn á atvikum að slysi áfrýjanda. Fyllt var samdægurs út slysaskráningareyðublað, sem leikskólastjóri undirritaði. Þar er aðstæðum og atvikum að slysinu lýst. Eru atvik nægilega upplýst til þess að unnt sé að slá því föstu að um hafi verið að ræða óhappatilvik, sem hvorki verður rakið til vanbúnaðar dekkjarólunnar né saknæmrar og ólögmætrar háttsemi starfsmanna á leikskólanum.

Samkvæmt framansögðu, og með vísan til forsendna héraðsdóms að öðru leyti, verður hann staðfestur. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júní 2009.

I

Mál þetta, sem dómtekið var 26. maí 2009, var höfðað 19. nóvember 2008.  Stefnandi er Ásgeir Ásgeirsson fyrir hönd ólögráða dóttur sinnar, Dagmarar Sifjar Ásgeirsdóttur, Vesturási 64, Reykjavík, en stefndi er Reykjavíkurborg, Ráðhúsinu, Reykjavík.  Réttargæslustefndi er Sjóvá-Almennar-tryggingar ehf., Kringlunni 5, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkenndur verði réttur hennar til skaðabóta að fullu vegna tjóns sem hún varð fyrir í slysi á leikskólanum Blásölum hinn 18. september 2002.  Þá krefst hún þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostn­aðar.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað.

Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda og gerir hann engar kröfur í málinu en tekur undir kröfur stefnda.

II

Málsatvik eru þau að hinn 18. september 2002 slasaðist stefnandi er hún var að leik í rólu á leikskólanum Blásölum.  Stefnandi var þá fjögurra ára og voru atvik þannig að hún sat í dekkjarólu og sneri annað barn eða börn upp á róluna með þeim afleiðingum að hún fékk klemmuáverka á löngutöng vinstri handar.  Strax í kjölfarið fór starfsmaður leikskólans, Halla Magnúsdóttir, með stefnanda á slysadeild og kom fram í skýrslu hennar fyrir dómi að hún hefði farið með hana þangað í leigubíl en leikskólastjórinn, Margrét Elíasdóttir, kvað hins vegar annan starfsmann leikskólans hafa ekið Höllu og stefnanda á slysadeild. 

Í sjúkraskrá bæklunarskurðdeildar kemur meðal annars fram að við komu á slysadeild hafi fjærkjúkan verið: „skorin af, og hangir á flexor sin, hinsvegar þokkaleg blóðrás á distal hlutanum og ekki að sjá aðra áverka á hendinni.  Þetta er deyft og sent í rtg. og svar sýnir skábrot með tilfærslu á distal kjúku, sennilega distalt við vaxtalínuna.“  Fór stefnandi í aðgerð í kjölfarið og kemur fram í gögnum frá spítalanum að aðgerðin hafi tekist vel.

Stefnandi kveður að þrátt fyrir að læknum hafi tekist að setja fingurinn aftur á beri hún örmerki vegna slyssins og vaxi nöglin ekki eðlilega.  Þá fái hún reglulega verki í fingurinn og hafi hún eftir þetta leitað ótal sinnum til bæklunarlækna til að fá bót meina sinna.

Stefnandi byggir á því að hún hafi orðið fyrir tjóni sem stefndi beri ábyrgð á og með bréfi lögmanns stefnanda til lögmanns stefnda 17. júlí 2007 var óskað eftir afstöðu stefnda til kostnaðarþátttöku vegna fyrirhugaðs örorkumats stefnanda.  Í bréfi 20. ágúst 2007 til lögmanns stefnanda óskaði lögmaður stefnda eftir því að fyrirspurnum vegna málsins yrði beint til réttargæslu­stefnda þar sem stefndi hefði frjálsa ábyrgðar­tryggingu hjá félaginu.  Í kjölfarið fóru fram bréfaskipti milli lögmanns stefnanda og réttargæslustefnda.  Með bréfum 12. og 28. nóvember 2007 fór lögmaður stefnanda þess á leit við réttargæslustefnda að hann tæki afstöðu til bótakröfu stefnanda og hvort félagið myndi taka þátt í kostnaði vegna örorkumats.  Með bréfi réttargæslustefnda til lögmanns stefnanda 3. janúar 2008 var bótaskyldu hafnað þar sem félagið taldi að ekki hefði verið sýnt fram á að umrædd róla hafi verið vanbúin á slysdegi heldur væri um óhappatilvik að ræða.

Stefnandi byggir á því að tjón stefnanda verði rakið til saknæms eftirlitsskorts og vanrækslu á umönnunarskyldu starfsmanna stefnda og þess að útbúnaður rólunnar hafi verið ófor­svaran­legur þar sem keðjur þær sem héldu rólunni hefðu verið óvarðar.  Þessu mótmælir stefndi og telur að slys stefnanda hafi verið óhappatilviljun sem engum verði kennt um.

III

Stefnandi kveður að í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, VIII. kafla segi að það sé eitt af hlutverkum sveitarfélaga að reka leikskóla.  Um starfsemi leikskóla sé kveðið á lögum nr. 78/1994, en í 1. gr. þeirra laga segi að um sé að ræða fyrsta skólastigið í skólakerfinu.

Leikskólinn Blásalir sé í umsjón og eigu stefnda.  Í II. kafla laga um leikskóla segi að meginmarkmið með uppeldi í leikskóla sé meðal annars að veita börnum umönnun, búa þeim hollt uppeldisumhverfi og örugg leikskilyrði, að gefa börnum kost á að taka þátt í leik og starfi og njóta fjölbreyttra uppeldiskosta, að rækta tjáningar- og sköpunarmátt barna í þeim tilgangi að styrkja sjálfsmynd þeirra, öryggi og getu til að leysa mál sín á friðsamlegan hátt.  Í lögunum segi að leikskólanefnd fari með málefni  leikskóla í umboði sveitastjórnar, en jafnframt segi að við hvern leikskóla skuli vera leikskóla­stjóri sem stjórni starfi hans með velferð barnanna að markmiði, allt eftir því sem nánar segi í lögunum og reglugerð sem sett sé samkvæmt þeim.  Í samræmi við þetta sé í reglugerð nr. 225/1995 um starfsemi leikskóla meðal annars kveðið á um það í 3. mgr. 5. gr. að leiksvæði leikskóla skuli hannað með áherslu á sem mesta fjölbreytni í leikaðstöðu og að umhirða þess sé auðveld.  Í II. kafla reglugerðarinnar séu ákvæði um stöðugildi leikskólakennara með hliðsjón af fjölda barna og í 28. gr. segi að um byggingu leikskóla og öryggi barna í leikskólum, skuli fara á hverjum tíma eftir gildandi lögum og reglugerðum um meðal annars öryggis-, skipulags- og byggingar­mál.

Í heilbrigðisreglugerð nr. 149/1990, IX. kafla, sem sett hafi verið samkvæmt 2. gr. laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit nr. 81/1988, segi í grein 91.1.11. leiktæki á barnaheimilum og á leikvöllum skuli ávallt þannig gerð og við haldið að ekki hljótist slys við eðlilega notkun þeirra.

Af framangreindum ákvæðum laga nr. 78/1994, sbr. reglugerð nr. 225/1995 verði að leggja til grundvallar að helsta markmið stefnda sem rekstraraðila Blásala, sé að stuðla að velferð þeirra barna sem þar dvelji hverju sinni.  Beri stefnda í ljósi eðlis starfsem­innar að gæta fyllsta öryggis við allan reksturinn og fara eftir settum reglum í hvívetna. 

Það slys sem stefnandi hafi orðið fyrir megi rekja til eftirlitsskorts starfsmanna leik­skólans.  Ekki sé um að ræða skyndilegt atvik eins og fall úr leikkastala heldur sé um það að ræða að stefnandi hafi verið í rólu sem annað barn sneri þannig að fingur hennar klemmdust á milli.  Til að snúa rólu þannig að járnkeðjur geti klemmt hendi barns, þurfi umtalsverða krafta og/eða drjúgan tíma.  Hefði eftirlit verið með viðun­andi hætti hefði eftirlitsaðila átt að gefast tími til afskipta.

Útileiksvæði Blásala sé mikið notað og stór hluti af starfsemi leikskólans fari þar fram.  Sé til þess að líta að leikur barna sé þeim nauðsynlegur fyrir líkamlegan og andlegan þroska, en með því læri þau að þroska með sér færni til að takast á við lífið.  Megi segja að nefndir leikir á leikskólum snúist meðal annars um það að taka áhættu í vernduðu umhverfi með það að markmiði að læra að bregðast við hættu.  Alþekkt sé hins vegar að börn leiki sér ekki alltaf á hefðbundinn hátt og noti ekki áhöld og leiktæki eins og haft sé í huga við hönnun og uppsetningu þeirra.  Í fyrrgreindri heil­brigðis­­reglugerð nr. 149/1990, sem í gildi hafi verið er umrætt tjón varð, segi að leiktæki skuli ávallt vera þannig gerð og við haldið að ekki hljótist slys við eðlilega notkun þeirra.  Hvort það að snúa upp á rólu teljist eðlileg notkun sé álitamál.  Það kunni að vera þegar umbúnaður rólu sé þannig að hættan sé lítil, sbr. gúmmíhulsur verji járnkeðjur sem haldi rólunni.  Þannig hafi útbúnaður rólunnar hins vegar ekki verið umrætt sinn.  Hafi því ytra og innra eftirlit með öryggi rólanna verið óviðunandi og hafi þær verið búnar óþarfa hættueiginleikum.  Þá hafi starfsmenn leikskólans sýnt af sér gáleysi í starfi sem leiði til skaðabótaskyldu stefnda.

Auk þeirra lagaraka sem að framan séu rakin byggi stefnandi kröfur sínar á meginreglum skaðabótalaga nr. 50/1993, lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála og lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

IV

Stefndi kveður að um ábyrgð hans fari samkvæmt almennu skaðabótareglunni.  Sýknukröfu sína byggi hann á því að umrætt óhapp verði ekki rakið til saknæmrar háttsemi stefnda eða starfsmanna hans eða aðstæðna sem hann beri ábyrgð á.  Sé því alfarið mótmælt að frágangi umræddrar dekkjarólu hafi verið ábótavant.  Stefnandi, sem beri sönnunarbyrðina um orsök tjóns, hafi ekki sannað að stefndi beri skaðabóta­ábyrgð á meintu tjóni hennar.

Í fyrsta lagi sé byggt á því að slys stefnanda hinn 18. september 2002 hafi verið óhappa­tilviljun sem engum verði kennt um.  Slysið  hafi viljað til með þeim hætti að barn hafi farið að snúa dekkjarólu þannig að keðjur hennar hafi fallið hvor að annarri og snúist saman.  Í sömu mund virðist sem stefnandi hafi sett fingurna inn á milli þannig að vísifingur vinstri handar hafi klemmst.  Umrædd atburðarrás hafi gerst á svipstundu og því hafi verið erfitt að koma í veg fyrir óhappið.  Stefndi byggi á því að aldrei sé hægt að búa svo um hnútana að leikur barna í leiktækjum sé hættulaus.  Óhapp stefnanda sé fyrst og fremst óhappatilvik en í skaðabótarétti gildi sú megin­regla að tjón sem verði vegna óhappatilviks sé ekki bótaskylt á grundvelli sakar­reglunnar. 

Stefndi kveður ekkert í gögnum málsins benda til að umrædd dekkjaróla við leikskólann Blásali hafi á slysdegi verið vanbúin.  Þvert á móti bendi staðreyndir málsins til þess að aðbúnaður hafi verið allur hinn besti.  Leikskólinn hafi á þessum tíma aðeins starfað í tvö ár og hafi öll leiktæki verið ný.  Samkvæmt 11. gr. reglugerðar nr. 942/2002 um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim hafi heilbrigðisnefndir eftirlit með því að farið sé að ákvæðum reglugerðarinnar varðandi leikvallatæki í notkun og öryggi leiksvæða.  Ljóst sé að stefndi hafi farið í öllu eftir tilvitnuðu ákvæði.  Hinn 5. júní 2001 hafi farið fram reglubundið eftirlit á vegum Umhverfissviðs Reykjavíkurborgar á leiksólanum Blásölum. Hafi eftirlitið farið þannig fram að heilbrigðisfulltrúi hafi skoðað húsnæði og lóð skólans í fylgd leikskólastjóra.  Í eftirlitsskýrslu Gunnars Kristinssonar heilbrigðisfulltrúa hafi ekki komið fram neinar athugasemdir við umbúnað dekkjarólanna í leikskólanum.  Þremur mánuðum eftir óhapp stefnanda, hinn 19. desember 2002, hafi verið farin önnur eftirlitsferð á vegum heilbrigðisfulltrúa.  Í skýrslu sem gerð hafi verið af því tilefni hafi ekki komið fram neinar athugasemdir við rólurnar að því slepptu að möl vantaði undir þær.  Staðfesti skýrslur þessar að engar athugasemdir hafi verið gerðar við aðbúnað rólanna á leikskólanum sem snert hafi þær keðjur sem stefnandi klemmdi sig á.  Þá sé því sérstaklega mótmælt að keðjurnar hafi ekki verið klæddar í gúmmíhulsu á slysdegi.  Umræddar keðjur hafi verið klæddar gúmmíhulsum enda þótt þær kunni að hafa færst til að einhverju marki við snúninginn.

Í öðru lagi sé byggt á því að ósannað sé að óhapp stefnanda megi rekja til saknæms eftirlitsskorts og/eða vanrækslu á umönnunarskyldu starfsmanna stefnda.  Á leik­skólanum Blásölum hafi á slysdegi verið starfandi fjórar deildir.  Hafi gilt sú regla að tveir starfsmenn á hverri deild skyldu fylgja börnum út á leiksvæðið.  Hafi mönnun leikskólans að öllu leyti verið í samræmi við III. kafla reglugerðar nr. 225/1995 um starfssemi leikskóla.  Í máli þessu liggi ekki annað fyrir en að starfsmenn stefnda hafi í umrætt sinn unnið starf sitt í samræmi við reglur og þær kröfur sem eðlilegt sé að gera til þeirra. 

Telji stefndi ljóst að slys stefnanda hafi verið að rekja til óhappatilviljunar sem engum verði kennt um.  Leikir barna séu eðlilegur þáttur í uppeldi þeirra og þeim nauð­synlegir fyrir líkamlegan og andlegan þroska.  Það sé hins vegar ljóst að aldrei verði hægt að fyrirbyggja með öllu að leikir barna kunni að hafa einhverja hættu í för með sér.  Ekkert sé framkomið um að starfsmenn stefnda hafi sýnt af sér saknæman eftirlitsskort og/eða vanrækslu á umönnunarskyldu er þeir fylgdust með leik stefnanda og annarra barna umræddan dag.  Sönnunarbyrði um slíkan saknæman eftirlitsskort hvíli alfarið á stefnanda og séu ekki skilyrði til að víkja frá þessari meginreglu og leggja sönnunarbyrðina á stefnda. 

Loks hafni stefndi með öllu þeim málatilbúnaði stefnanda að brotið hafi verið með einhverjum hætti gegn ákvæðum laga nr. 78/1994 um leikskóla, reglugerðar nr. 225/1995 um starfsemi leikskóla eða heilbrigðisreglugerðar nr. 149/1990.

Um lagarök vísar stefndi til almennra reglna skaðabótaréttar, einkum um sönnun tjóns, sönnunarbyrði og orsakatengsl.  Þá vísar hann til laga nr. 78/1994 um leikskóla.  Um málskostnaðarkröfu vísar stefndi til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einka­mála.

V

Óumdeilt er í máli þessu að stefnandi slasaðist 18. september 2002 er hún var að leik í dekkjarólu í leikskólanum Blásölum.  Stefnandi kveðst hafa orðið fyrir tjóni vegna slyssins, en hún hafi ör á fingrinum, nöglin vaxi ekki eðlilega auk þess sem hún fái reglulega verki í fingurinn.  Ekki liggja fyrir í máli þessu læknisfræðileg gögn um hverjar afleiðingar slysið hefur haft fyrir stefnanda en í máli þessu er eingöngu fjallað um hvort stefndi beri bótaskyldu á meintu tjóni stefnanda.

Stefnandi byggir á því að slys stefnanda verði rakið til þess að umbúnaði rólunnar hafi verið áfátt þar sem keðjur þær sem halda henni hafi verið óvarðar.  Dómari og lögmenn fóru á vettvang og skoðuðu umrædda rólu sem er enn í notkun.  Við skoðun á rólunni blasti við að keðjan er varin með gúmmíhulsum á því svæði þar sem hún er fest í dekkið og töluvert langt upp eftir keðjunni, þannig að þegar barn situr í rólunni heldur það utan um varða keðjuna.  Stefndi heldur því fram að svona hafi rólan verið útbúin frá upphafi og staðfestu vitnin Margrét Elíasdóttir leikskólastjóri og Halla Magnús­dóttir, fyrrverandi starfsmaður leikskólastjórans, að svo hafi verið.

Fyrir liggur að fingur stefnanda varð á milli þegar rólunni var snúið með þeim afleið­ingum að fremsti hluti hans fór næstum af.  Ekki liggur fyrir með óyggjandi hætti hvers vegna áverkinn var með þessum hætti og því ósannað að áverkinn út af fyrir sig sýni fram á að keðjan hafi verið óvarin.  Fyrir dómi kvað vitnið Halla Magnúsdóttir að stefnandi hefði stungið fingrinum inn í keðjuna.  Nánar spurð út í þetta dró hún úr þeirri fullyrðingu en kvað að sig minnti að þetta hafi verið svona og að í umræðum eftir slysið hafi verið dregin sú ályktun að líklega hefði stefnanda tekist að stinga fingrinum inn í keðjuna þar sem gúmmíhulsan hefði færst til.  Framburð þennan verður að meta í því ljósi að starfsmaðurinn varð ekki vitni að slysinu og verður ekki annað séð en að hann byggi á getgátum einum.

Fyrir liggur að leikskólinn Blásalir hafði aðeins starfað í tvö ár þegar slysið varð og voru öll leiktæki því nánast ný.  Samkvæmt 11. gr. reglugerðar nr. 942/2002 um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim, hafa heilbrigðisnefndir eftirlit með því að farið sé að ákvæðum reglugerðarinnar varðandi leikvallatæki í notkun og öryggi leiksvæða.  Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að stefndi hafi farið i einu og öllu eftir tilvitnuðu ákvæði en fyrir liggur að Gunnar Kristinsson heilbrigðis­fulltrúi fór í reglubundið eftirlit á leikskólann í júní 2001 og svo aftur í desember 2002.  Voru í hvorugt skiptið gerðar athugasemdir við umbúnað rólunnar samkvæmt fyrrgreindum skýrslum eftirlitsaðila en í þeirri síðari var aðeins bent á að möl vantaði undir rólur.

Að því virtu sem nú hefur verið rakið þykir stefnandi ekki hafa lagt fram haldbær gögn um að umbúnaði rólunnar hafi verið áfátt eða að hún hafi verið búin óþarfa hættueiginleikum og verður hún að bera hallann af þeim sönnunarskorti. 

Stefnandi byggir einnig á því að eftirliti starfsmanna leikskólans hafi verið áfátt þar sem ekki hafi verið um að ræða skyndilegt atvik, heldur hafi rólunni verið snúið og til þess hafi þurft umtalsverðan kraft og/eða drjúgan tíma.  Fyrir liggur í málinu að á því svæði sem margnefnd róla er staðsett, var annar starfsmaður að sinna barni í rólu við hliðina og sneri hún baki í stefnanda þegar slysið varð.  Á vettvangsgöngu þegar rólan var skoðuð var barn að leik í rólunni og tók annað barn upp á því að snúa henni og var ekki annað að sjá en að það væri því barni auðvelt.  Þetta gerðist snöggt og áður en viðstaddir náðu að stöðva leikinn.  Hvort sem eitt eða fleiri börn sneru rólunni þegar stefnandi slasaðist þykir með engu móti sýnt fram á að til þess þurfi umtalsverða krafta eða drjúgan tíma svo sem stefnandi heldur fram og verður því ekki séð að starfsmenn stefnda hafi sýnt af sér gáleysi með því að eftirliti hafi verið ábótavant umrætt sinn.  Þá hefur stefnandi ekki sýnt fram á að mönnun leikskólans á þessum tíma hafi ekki verið í samræmi við reglugerð nr. 225/1995 um starfsemi leikskóla.

Þá eru fullyrðingar stefnanda, um að starfsmenn stefnda hafi vanrækt umönnunar­skyldu sína, engum rökum studdar og allsendis óljóst á hvaða hátt starfsmenn stefndu eiga að hafa brugðist þessari skyldu sinni umrætt sinn.  Þá verður af málatilbúnaði stefnanda ekki ráðið hverju hann telji hafa breytt ef kallað hefði verið á sjúkrabíl eða lögreglu tilkynnt um slysið en ekki verður séð að skylda hafi borið til þess.

Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið verður ekki annað séð en að stefndi og starfsmenn hans hafi fyllilega sinnt skyldum sínum samkvæmt lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga og þágildandi lögum nr. 78/1994 um starfsemi leikskóla, og þeim skyldum sem lagðar eru á hann í reglugerð nr. 225/1995 um starfsemi leik­skóla og heilbrigðisreglugerð nr. 149/1990.

Samkvæmt öllu framanröktu er ósannað að umbúnaði rólunnar eða skorti á eftirliti og umönnun verði kennt um slys stefnanda.  Hefur stefnandi því ekki leitt sönnur að því að slysið verði rakið til sakar stefnda þannig að leiði til skaðabótaábyrgðar hans heldur verður að telja að slysið verði alfarið rakið til óhappatilviks sem enginn beri sök á.  Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.

Eftir atvikum þykir þó rétt að fella málskostnað niður.

Af hálfu stefnanda flutti málið Stefán Karl Kristjánsson hdl. en hálfu stefnda og réttargæslustefnda flutti málið Guðjón Ármannsson hdl.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Reykjavíkurborg, er sýknaður af öllum kröfum stefnanda, Ásgeirs Ásgeirs­sonar fyrir hönd ólögráða dóttur, Dagmarar Sifjar Ásgeirsdóttur.

Málskostnaður fellur niður