Hæstiréttur íslands
Mál nr. 320/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Kærufrestur
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Mánudaginn 1. september 2003. |
|
Nr. 320/2003. |
Magnús Guðmundsson(Eva B. Helgadóttir hdl.) gegn Magneli ehf. og Útgerðarfélagi Vestmannaeyja hf. (enginn) |
Kærumál. Kærufrestur. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. Var málinu sjálfkrafa vísað frá Hæstarétti þar sem kæra barst eftir að kærufrestur var liðinn.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. júlí 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. ágúst sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 7. júlí 2003, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tiltekin atriði, sem varða mál hans á hendur varnaraðilum. Kæruheimild er í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Sóknaraðili krefst þess að „leitað verði ráðgefandi álits Efta-dómstólsins í málinu um túlkun tilskipunar nr. 1999/70/EB.“
Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Hinn kærði úrskurður var sem áður segir kveðinn upp á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands 7. júlí 2003. Ekki var sótt þing af hálfu aðilanna við uppkvaðningu úrskurðarins, en málið var tekið fyrir á ný í þinghaldi 10. sama mánaðar, þar sem fram kom af hálfu sóknaraðila að hann hygðist kæra úrskurðinn til Hæstaréttar. Sóknaraðili hafði því að minnsta kosti á þeim tíma fengið vitneskju um efni úrskurðarins. Samkvæmt 1. mgr. 144. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994, verður að líta svo á að tveggja vikna frestur sóknaraðila til að kæra úrskurðinn hafi byrjað að líða þann dag. Kæra barst ekki Héraðsdómi Suðurlands fyrr en 28. júlí 2003 og var kærufrestur því liðinn þegar hún kom fram. Samkvæmt því verður málinu sjálfkrafa vísað frá Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 7. júlí 2003.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 25. júní sl., var höfðað 1. október 2002.
Stefnandi er Magnús Guðmundsson, Heiðnabergi 6, Reykjavík.
Stefndi er Magnel ehf., Áshamri 52, Vestmannaeyjum og Útgerðarfélag Vestmannaeyja hf., Flötum 25, Vestmannaeyjum.
Stefnandi krefst greiðslu vangreiddra launa að fjárhæð 610.769 króna úr hendi stefnda, Magnel ehf., ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 af 428.909 krónum frá 15. apríl 2002 og af 610.769 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi staðfestingar á sjóveðrétti í Breka VE-61, sem er í eigu stefnda, Útgerðarfélags Vestmannaeyja hf., fyrir tildæmdum fjárhæðum.
Stefnandi krefst og málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefndu að mati dómsins.
Stefndi, Magnel ehf., krefst sýknu af kröfum stefnanda. Stefndi, Útgerðarfélag Vestmannaeyja hf., krefst þess að kröfur á hendur félaginu verði felldar niður, og til vara sýknu.
Þá krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.
Málavextir.
Stefnandi var ráðinn til starfa um borð í skipinu Breka VE-61, 2. nóvember 2001, en skriflegur ráðningarsamningur var fyrst gerður við stefnanda 23. janúar 2002, þar sem ráðningartímabil var takmarkað við eina veiðiferð. Veiðiferðinni lauk 6. febrúar 2002. Stefnandi fór á bráðamóttöku Landspítala Íslands, 13. febrúar 2002, þar sem gerð var á honum hjartaþræðing og varð hann óvinnufær fram á mitt sumar 2002.
Stefnandi krafði stefnda, Magnel ehf., um laun í veikindum sínum, en stefndi hafnaði kröfum hans.
Varðar ágreiningsefni máls þessa hvort stefnandi eigi rétt á tveggja mánaða launum í veikindum samkvæmt 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, þrátt fyrir að stefnandi hafi einungis verið ráðinn til einnar veiðiferðar í senn, sem lauk áður en stefnandi veiktist.
Í þinghaldi 12. maí sl., kom fram krafa lögmanns stefnanda um að aflað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á því hvort túlka beri ákvæði tilskipunar nr. 1999/70/EB þannig að ráðningarsamningar eins og þeir sem um er að véla í máli þessu gangi gegn ákvæðum tilskipunarinnar. Í kröfu stefnanda kemur fram að í máli þessu reyni á lögmæti runu tímabundinna ráðningarsamninga til einnar veiðiferðar í senn. Evrópuráðið hafi fullgilt rammasamning um tímabundnar ráðningar með tilskipun nr. 1999/70/EB, 28. júní 1999 og samkvæmt b-lið 1. gr. rammasamningsins eigi aðildarríkin að samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til þess að koma í veg fyrir misnotkun sem byggist á endurnýjun tímabundinna ráðningarsamninga eða ráðningarsambanda jafnharðan og þeim ljúki. Þá sé sérstaklega bönnuð mismunun í 4. ákvæði rammsamningsins á starfskjörum tímabundinna og ótímabundinna ráðinna launamanna. Sá aðlögunartími sem aðildarrríkin hafi haft til þess að fylgja fyrirmælum tilskipunarinnar hafi runnið út 10. júlí 2001 og Ísland hafi ekki enn samþykkt nauðsynleg lög eða stjórnsýslufyrirmæli til þess að koma í veg fyrir misnotkun á tímabundnum ráðningarsamningum. Eftirlitsstofnun EFTA hafi 7. febrúar 2003 gert athugasemdir vegna þess að tilskipunin hafi ekki verið innleidd í landsrétt.
Stefnandi segir í kröfu sinni að þótt íslenska ríkið hafi vanrækt skyldu til þess að innleiða tilskipunina í landsrétt skipti hún máli við túlkun landsréttar til samræmis við tilskipunina eftir að hún hafi tekið gildi, sbr. 3. gr. EES samningsins, sem lögfestur hafi verið með lögum nr. 2/1993. Samkvæmt ákvæði 3. gr. EES-samningsins skuli samningsaðilar gera allar viðeigandi almennar eða sérstakar ráðstafanir til að tryggja að staðið verði við þær skuldbindingar sem af samningnum leiði og þar með túlka landsrétt í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar. Engin fordæmi séu til staðar um það hvernig ofangreind tilskipun hafi verið túlkuð, hvorki hjá EFTA-dómstólnum né hjá dómstólum landsins, en tilskipunin hafi í máli þessu augljósa þýðingu.
Lögmaður stefnda mótmælti því ekki að leitað yrði ráðgefandi álits, en taldi þess þó ekki þörf.
Ofangreind krafa lögmanns stefnanda var tekin til úrskurðar í þinghaldi 24. júní sl.
Niðurstaða.
Í 1. gr. tilskipunar Evrópuráðsins 1999/70/EB frá 28. júní 1999 kemur fram að markmið tilskipunarinnar sé að koma í framkvæmd rammasamningi um tímabundna ráðningarsamninga frá 18. mars 1999. Í 2. gr. tilskipunarinnar segir að aðildarríkin skuli samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipuninni eigi síðar en 10. júlí 2001, en fyrir liggur að það hefur ekki verið gert af Íslands hálfu.
Í 5. ákvæði rammasamningsins sjálfs kemur fram að til að koma í veg fyrir misnotkun sem byggist á endurnýjun tímabundinna ráðningarsamninga eða ráðningarsambanda jafnharðan og þeim ljúki, skuli aðildarríkin að höfðu samráði við aðila vinnumarkaðarins og í samræmi við landslög, kjarasamninga eða venjur, og/eða aðila vinnumarkaðarins samþykkja eina eða fleiri af eftirfarandi ráðstöfunum, ef ekki er kveðið á um sambærilegar ráðstafanir í lögum til að koma í veg fyrir misnotkun, með þeim hætti að tekið sé tillit til þarfa í tilteknum greinum og/eða meðal tiltekinna hópa launamanna:
a) setja ákvæði um hlutlægar ástæður sem réttlæta endurnýjun slíkra samninga eða sambanda;
b) setja ákvæði um hámark fyrir heildartíma ráðningarsamninga eða -sambanda og endurnýjun þeirra
c) setja ákvæði um hversu oft megi endurnýja slíka samninga eða sambönd.
Samkvæmt ofangreindri tilskipun Evrópuráðsins um rammasamning um tímabundna ráðningu er aðilum vinnumarkaðarins í aðildarríkjunum gefið allmikið svigrúm til þess að gera slíka samninga í samræmi við landslög, kjarasamninga eða venjur, en í máli þessu reynir á lögmæti slíks tímabundins ráðningarsamnings. Í ljósi þess svigrúms verður ekki séð að ofangreind tilskipun hafi þá þýðingu fyrir niðurstöðu máls þessa að nauðsyn beri til að leita álits EFTA dómstólsins á ofangreindu álitaefni, sbr. 1. gr. laga nr. 21/1994 og 34. gr. samnings EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Kröfu stefnanda um öflun ráðgefandi álits EFTA dómstólsins er því hafnað.
Ingveldur Einarsdóttir, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Hafnað er kröfu stefnanda um öflun ráðgefandi álits EFTA dómstólsins á því hvort túlka beri ákvæði tilskipunar nr. 1999/70/EB þannig að ráðningarsamningur eins og þeir sem um er að ræða í máli þessu, gangi gegn ákvæðum tilskipunarinnar.