Hæstiréttur íslands

Mál nr. 226/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Miðvikudaginn 20

 

Miðvikudaginn 20. júní 2001.

Nr. 226/2001.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

S

(Jóhann Halldórsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

S kærði úrskurð héraðsdóms þar sem henni var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 27. júlí. Var S sökuð um að hafa margsinnis gert tilraun til íkveikju eða haft uppi hótanir um íkveikju. Þá var henni gefið að sök að hafa gert tilraun til manndráps og framið margs konar önnur brot. Talið var að búast mætti við að S héldi áfram brotum fengi hún að ganga laus áður en málum hennar væri lokið. Þá þótti nauðsynlegt að hún sætti gæsluvarðhaldi til að verja aðra fyrir árásum hennar. Var skilyrðum c. og d. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála fullnægt og úrskurður héraðsdóms því staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. júní 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júní 2001, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 27. júlí nk. kl. 16.00. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu um gæsluvarðhald verði hafnað, en til vara að því verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júní 2001.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að S, [...], verði á grundvelli a., c. og d. liða 103. gr. laga nr. 19, 1991 gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 27. júlí 2001 kl. 16:00. Jafnframt er þess krafist að henni verði gert að sæta geðrannsókn.

 Í greinargerð lögreglunnar í Reykjavík kemur fram að  hún hafi nú til rannsóknar og afgreiðslu mörg mál þar sem S liggi undir grun um brot gegn 164. gr., sbr. 20. gr., 211. gr., sbr. 20. gr., 1. mgr. 232. gr., 233. gr. og 257. gr. alm. hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þann 11. desember 2000 hafi Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðað að S skyldi sæta nálgunarbanni samkvæmt 110. gr. a laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 3. gr. laga nr. 94, 2000. Samkvæmt greindum úrskurði hafi henni verið óheimilt að koma að [...] í Reykjavík eða í námunda við heimilið í 6 mánuði þar sem talið var að hún hefði valdið mjög miklu ónæði við heimilið og að starfsmönnum og börnum vistheimilisins stafaði hætta af atferli hennar. Í fyrstu hafi S virt þetta nálgunarbann en hún hafi í þrígang, þ.e. þann 11. febrúar, 1. apríl og 6. júní sl. rofið nálgunarbannið með því koma að heimilinu. Jafnframt því að rjúfa nálgunarbannið liggi fyrir kærur á hendur henni fyrir meint eignaspjöll að [...] og hótanir gegn starfsmönnum heimilisins sömu daga.

Þann 4. maí 2001 hafi leikskólanum [...] borist símbréf frá S þar sem hún hafi hótað að kveikja í leikskólanum og ræna börnum sem þar dvelji

Undanfarnar vikur hafi brot S einkum beinst gegn starfsmönnum B að [...]. Frá 24. mars sl. hafi hún fimm sinnum gert tilraunir til að kveikja í húsinu eða haft í hótunum um að gera það, síðast um kl. 04:30 í morgun. Að morgni miðvikudagsins 13. júní sl. hafi hún verið handtekin á skrifstofum B þar sem hún hafði ógnað fólki með hnífi. Í skýrslu sem tekin hafi verið af S hjá lögreglu sama dag kveðist hún hafa farið þangað með hníf í fórum sínum til að drepa [...] og annað fólk sem hún kynni að hitta þar fyrir. Jafnframt hafi  hún lýst því yfir að hún hefði margsinnis hugsað um það að stela annarra manna börnum og skipta á þeim og sínum eigin börnum sem hefðu verið tekin af henni.

Um hádegisbil í dag hafi S enn verið yfirheyrð hjá lögreglu vegna meintrar tilraunar hennar til íkveikju að [...] snemma í morgun. Viðurkenndi S að hafa borið eld að bréfalúgu og að hafa krotað á dyr og veggi hússins. Jafnframt hafi hún sagt að hún vildi hefna sín á fólki í húsinu og drepa einhvern þar. Hafi hún jafnframt sagt að hún hefði enga stjórn á lífi sínu og það væri „eitthvað” sem fengi hana til að gera slíka hluti.

Brotaferill S sem lýst sé hér að framan hafi hafist þann 5. maí 2000 og stóð til nóvember sama ár og hafi verið tilefni til nálgunarbannsins. Brotaferill hennar hafi hafist að nýju þann 11. febrúar sl. og sé óslitinn síðan. Samkvæmt því sem fram komi í rannsóknargögnum málsins sé ástæða til að ætla að hún muni halda afbrotum áfram gangi hún laus. Þá sé rétt að benda á að viss stígandi hafi verið í afbrotum hennar og ljóst sé að afbrot hennar eru að verða alvarlegri og sýni fram á einbeittan brotavilja.  Rannsóknargögn beri með sér að hún geti verið hættuleg öðrum mönnum og sé því nauðsynlegt að hún sæti gæsluvarðhaldi til að verja aðra fyrir árásum hennar.

Er S hafi verið handtekin þann 13. júní sl. hafi  L, héraðslæknir í Reykjavík, verið kvaddur til að leggja mat á hvort ástæða væri til að hún sætti nauðungarvistun.  Í vottorði L, dags. 14. júní sl., komi fram að hann finni engin sturlunarmerki hjá S og telji ekki forsendur fyrir geð­læknis­meðferð. Þetta mat sitt hafi  hann áréttað í vottorði, dags. í dag, þar sem fram komi að hann hafi skoðað hana í dag og að hann telji ástand hennar óbreytt. Lögreglan telji  hins vegar að nauðsyn beri til að taka af öll tvímæli um sakhæfi S og sé því sett fram krafa um að hún sæti geðrannsókn.

Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og með vísan til a., c. og d.  liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála sé þess krafist að krafa þessi verði tekin til greina eins og hún sé fram sett.

Samkvæmt því sem fram hefur komið í málinu verður að telja að fyrir liggi rökstuddur grunur um að kærða hafi framið brot sem fangelsisrefsing er lögð við.

Kærða er sökuð um  að hafa margsinnis gert tilraun til íkveikju eða hafa í frammi hótanir um íkveikju auk þess sem henni er gefin að sök tilraun til manndráps auk annarra brota á undanförnum vikum.

Það er skoðun dómsins að búast megi við að kærða muni, fái hún að ganga laus, halda áfram brotum meðan málum hennar er ekki lokið.  Þá þykir verða að telja gæsluvarðhald nauðsynlegt til að verja aðra fyrir árásum kærðu. Hins vegar verður ekki talið að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að kærða sæti gæsluvarðhaldi. Samkvæmt því er fullnægt skilyrðum c og d liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála fyrir gæsluvarðhaldi kærðu.  Ber skv. því að taka til greina kröfu lögreglustjórans í Reykjavík  um að kærða sæti gæsluvarðhaldi svo sem nánar greinir í úrskurðarorði.

Þá þykir, í ljósi þess sem fram kemur í gögnum málsins um brot kærðu og afstöðu hennar til þeirra og í ljósi vottorðs héraðslæknis, sem frammi liggur í málinu, ástæða til að draga í efa sakhæfi hennar sbr. 15. og 16. gr. alm. hegningarlaga nr. 19/1940 og er því fallist á kröfu lögreglu um að kærðu verði gert að sæta geðrannsókn sbr. d lið 1. mgr. 71. gr. laga nr. 19/1991.

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærða,  S, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 27. júlí 2001 kl. 16:00.  Jafnframt er henni gert að sæta geðrannsókn.