Hæstiréttur íslands
Mál nr. 447/2002
Lykilorð
- Bifreið
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Örorka
- Þjáningarbætur
- Vextir
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 22. maí 2003. |
|
Nr. 447/2002. |
Björn Vignir Björnsson(Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.) gegn Rögnu Hámundardóttur og Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Ingvar Sveinbjörnsson hrl.) og gagnsök |
Bifreiðir. Skaðabætur. Líkamstjón. Örorka. Þjáningabætur. Vextir. Gjafsókn.
B, sem var farþegi í bifreið R, slasaðist þegar bifreiðinni var ekið í veg fyrir bifhjól á árinu 1994. Var bifreiðin skylduvátryggð hjá S hf. Örorkunefnd mat varanlegan miska B 20% og varanleg örorku 20%. Í máli sem hann höfðaði á hendur R og S hf. krafðist hann bóta vegna slyssins. Töldu dómkvaddir matsmenn varanlegan miska B 45% og varanlega örorku 45%. Í tilefni af því fékk S hf. dómkvadda yfirmatsmenn sem komust að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski væri 50%, en varanleg örorku 35%. Tók B við greiðslu frá S hf. á grundvelli yfirmatsgerðarinnar en með fyrirvara og án viðurkenningar á forsendum bótaútreikningsins. Í dómi Hæstaréttar var yfirmatið lagt til grundvallar bótum fyrir þjáningar og tekið fram að almennt verði maður ekki talinn veikur í merkingu áðurgildandi 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga nema hann hafi verið óvinnufær. Þá var yfirmatið lagt til grundvallar bótum fyrir varanlegan miska og varanlega örorku. Var í því sambandi miðað við að B hafi verið í 75% starfi á næstliðnu ári fyrir slysdag, en upplýsingar um lægra starfshlutfall þóttu of óljósar til að unnt væri að leggja þær til grundvallar. Voru B dæmdir 2% ársvextir af kröfu sinni frá slysdegi fram til þess dags að krafan bar dráttarvexti, en sá dagur var miðaður við einn mánuð frá þeim degi að B tilkynnti S hf. um niðurstöðu undirmats. Var S hf. því gert að greiða honum bætur samkvæmt framansögðu að frádregnum greiðslum sem félagið hafði þegar innt af hendi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Hrafn Bragason.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. september 2002. Hann krefst þess að gagnáfrýjendur verði óskipt dæmd til að greiða sér 9.421.363 krónur með 2% ársvöxtum af 9.588.863 krónum frá 25. maí 1994 til 23. desember 1996, af 9.521.363 krónum frá þeim degi til 22. apríl 1997 og af 9.421.363 krónum frá þeim degi til 21. apríl 2000. Frá þeim degi krefst aðaláfrýjandi dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 9.163.413 krónum til 1. júlí 2001 og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 22. ágúst sama árs, en af 9.421.363 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst aðaláfrýjandi jafnframt 2% ársvaxta af 257.950 krónum frá 21. apríl 2000 til 22. ágúst 2001. Frá öllu þessu verði dregnar 7.184.560 krónur, sem greiddar voru 23. janúar 2002. Þá krefst aðaláfrýjandi þess að ákvæði héraðsdóms um málskostnað verði staðfest, en sér dæmdur málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt hér fyrir dómi.
Gagnáfrýjendur áfrýjuðu héraðsdómi fyrir sitt leyti 27. nóvember 2002. Þau krefjast aðallega sýknu af kröfu aðaláfrýjanda og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að hún verði lækkuð og málskostnaður felldur niður á báðum dómstigum.
I.
Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi var aðaláfrýjandi 25. maí 1994 farþegi í bifreið gagnáfrýjandans Rögnu Hámundardóttur er bifreiðinni var ekið til austurs af Hofsósvegi inn á Siglufjarðarveg í veg fyrir bifhjól, sem ekið var til norðurs eftir Siglufjarðarvegi. Bifhjólið rakst á hægri hlið bifreiðarinnar, sem lenti við áreksturinn utan vegar og valt, en við það hlaut aðaláfrýjandi meiðsl. Bifreið gagnáfrýjandans Rögnu var skylduvátryggð hjá gagnáfrýjandanum Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Er bótaskylda á tjóni aðaláfrýjanda viðurkennd af gagnáfrýjendum.
Gagnáfrýjandinn Sjóvá-Almennar tryggingar hf. greiddi aðaláfrýjanda samtals 455.382 krónur í bætur vegna tímabundins atvinnutjóns með þremur greiðslum á árunum 1995 og 1996. Þá greiddi félagið aðaláfrýjanda á árunum 1994 til 1996 samkvæmt gögnum málsins ýmsan kostnað vegna læknisþjónustu, sjúkraþjálfunar, vottorða, sjúkraflutninga og ferða. Þann 23. desember 1996 greiddi félagið aðaláfrýjanda 67.500 krónur í bætur vegna þjáninga og 100.000 krónur „ótilgreint inn á slysið“ 22. apríl 1997.
Gagnáfrýjandinn Sjóvá-Almennar tryggingar hf. óskaði 2. febrúar 1998 eftir áliti örorkunefndar á varanlegri örorku og miskastigi aðaláfrýjanda vegna slyssins. Í álitsgerð nefndarinnar 26. janúar 1999 var varanlegur miski aðaláfrýjanda metinn 20% og varanleg örorka einnig 20%. Aðaláfrýjandi leitaði 6. október 1999 eftir því að dómkvaddir yrðu menn til að meta meðal annars hvert væri tímabil þjáningabóta vegna slyssins og hver væri varanlegur miski hans og varanleg örorka vegna þess. Voru tveir læknar dómkvaddir til matsins 29. sama mánaðar og luku þeir matsgerð 21. janúar 2000. Niðurstaða þeirra varðandi tímabil þjáningabóta var sú að aðaláfrýjandi hafi verið rúmliggjandi frá 25. maí 1994 til 2. júní sama árs og frá 9. september 1996 til 29. nóvember sama árs, en „batnandi án þess að vera rúmliggjandi frá 25.05.1994 til 29.11.1996, að frádregnum tíma er hann telst hafa verið rúmliggjandi.“ Töldu matsmennirnir að varanlegur miski aðaláfrýjanda vegna slyssins væri 45% og varanleg örorka einnig 45%. Með bréfi 21. mars 2000 sendi aðaláfrýjandi gagnáfrýjandanum Sjóvá-Almennum tryggingum hf. matsgerðina og fór þess á leit að félagið tæki afstöðu til þess hvort það gæti fallist á matið til uppgjörs í málinu. Því hafnaði félagið 11. apríl sama árs, en lýsti sig tilbúið til að ganga til uppgjörs á grundvelli fyrrgreinds mats örorkunefndar. Fylgdu í kjölfarið bréfaskipti milli aðaláfrýjanda og félagsins, þar sem meðal annars reis ágreiningur um það við hversu hátt starfshlutfall gagnáfrýjanda í því starfi, er hann gegndi þegar hann varð fyrir slysinu, skyldi miða varðandi útreikning bóta honum til handa vegna varanlegrar örorku. Leiddu þessi bréfaskipti hvorki til samkomulags um uppgjör né til þess að félagið innti frekari greiðslur af hendi til aðaláfrýjanda upp í tjón hans.
Aðaláfrýjandi höfðaði mál þetta 12. febrúar 2001. Með beiðni 25. júní 2001 leituðu gagnáfrýjendur dómkvaðningar yfirmatsmanna til að meta sömu atriði og fyrrgreind undirmatsgerð hafði lotið að. Voru þrír menn, tveir læknar og einn lögfræðingur, dómkvaddir í þessu skyni 27. sama mánaðar. Matsgerð þeirra er dagsett 22. ágúst 2001. Niðurstaða hennar um þá þætti, sem um er deilt í máli þessu, var sú varðandi tímabil þjáningabóta að gagnáfrýjandi hafi verið veikur og rúmfastur frá 24. maí til 2. júní 1994 og frá 9. september til 29. nóvember 1996 eða 90 daga, en veikur hafi hann verið en án þess að vera rúmfastur frá 2. júní til 5. júlí 1994 eða 33 daga. Töldu yfirmatsmenn varanlega miska hæfilega metinn 50%, en varanlega örorku 35%. Gagnáfrýjandinn Sjóvá-Almennar tryggingar hf. sendi aðaláfrýjanda tillögu að uppgjöri á grundvelli yfirmatsins 17. janúar 2002, þar sem boðnar voru bætur að fjárhæð samtals 7.140.810 að viðbættum vöxtum „frá slysdegi í 4 ár“ að fjárhæð 666.632 krónur. Að frádregnum 622.882 krónum, sem félagið hefði áður greitt, en að viðbættri lögmannsþóknun að fjárhæð 386.229 krónur voru samtals boðnar 7.570.789 krónur til lokauppgjörs. Var tilboðið miðað við lánskjaravísitölu í janúar 2002. Aðaláfrýjandi hafnaði þessu tilboði, en félagið greiddi honum umrædda fjárhæð 23. sama mánaðar og tók hann við henni með fyrirvara og án viðurkenningar á forsendum bótaútreikningsins.
II.
Aðaláfrýjandi krefur gagnáfrýjendur um 200.000 krónur í bætur fyrir annað fjártjón, sbr. 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Rökstyður hann kröfu sína annars vegar með því að hann hafi þurft á mikilli læknishjálp að halda og meðal annars orðið fyrir kostnaði vegna ferða milli heimilis síns á Blönduósi og Akureyrar þegar hann dvaldi þar til endurhæfingar um þriggja mánaða skeið, auk kostnaðar af dvöl og ferðum vegna sjúkraþjálfunar í Reykjavík. Eins og áður greinir hefur gagnáfrýjandinn Sjóvá-Almennar tryggingar hf. þegar greitt aðaláfrýjanda fyrir ýmsan sjúkrakostnað. Hefur aðaláfrýjandi ekki sýnt fram á að hann hafi haft frekari kostnað tengdan sjúkrameðferð sinni en þegar hefur verið endurgreiddur. Hins vegar rökstyður aðaláfrýjandi þessa kröfu sína með því að hagir hans og fjölskyldu hans hafi raskast við slysið, sem hafi valdið gerbreytingu á lífi fjölskyldunnar. Þá hafi aðaláfrýjandi orðið fyrir miklum óbeinum kostnaði af slysinu, til dæmis vegna fjarveru frá vinnu og tíðra vinnuskipta, sem hafi rýrt launakjör hans. Verður ekki fallist á að aðaláfrýjandi geti reist kröfu um bætur fyrir annað fjártjón á þessum grundvelli. Þessum kröfulið hans verður því hafnað.
Aðaláfrýjandi krefst 802.880 króna í þjáningabætur samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga, eins og ákvæðið hljóðaði þegar hann varð fyrir slysinu 25. maí 1994. Hann kveðst miða útreikning kröfu sinnar við lánskjaravísitölu í mars 2000 og þær forsendur að hann hafi verið rúmfastur í 88 daga, en veikur án þess að vera rúmliggjandi í 816 daga. Reisir hann kröfu sína að þessu leyti á niðurstöðu undirmatsgerðarinnar frá 21. janúar 2000. Gagnáfrýjendur telja gagnstætt þessu að miða verði þjáningabætur við niðurstöðu yfirmatsgerðarinnar 22. ágúst 2001, en þar var aðaláfrýjandi sem áður segir talinn hafa verið rúmfastur í 90 daga og veikur án þess að vera rúmfastur í 33 daga. Almennt verður maður ekki talinn hafa verið veikur í merkingu áðurgildandi 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga nema hann hafi verið óvinnufær. Niðurstaða yfirmatsgerðar um þetta efni tók mið af því tímabili, sem aðaláfrýjandi var talinn hafa verið óvinnufær. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða hans að miða beri tímabil þjáningabóta við yfirmatsgerðina. Aðaláfrýjandi á því rétt á samtals 163.860 krónum vegna þessa liðar og er þá miðað við lánskjaravístölu í mars 2000 til samræmis við kröfugerð aðaláfrýjanda.
Ekki er ágreiningur um að miða beri miskabætur handa aðaláfrýjanda við niðurstöðu yfirmatsgerðar um að varanlegur miski hans sé 50%. Aðaláfrýjandi krefst að auki 10% álags á miskabætur á grundvelli heimildarákvæðis áðurgildandi 5. málsliðar 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga. Með vísan til forsendna héraðsdóms, sbr. og dóm Hæstaréttar 13. júní 2002 í málinu nr. 19/2002, verður staðfest sú niðurstaða hans að ekki séu eins og aðstæðum er hér háttað efni til að beita hinni sérstöku lagheimild. Miðað við lánskjaravístölu í mars 2000 á aðaláfrýjandi því rétt á 2.345.000 krónum í bætur fyrir varanlegan miska.
Aðaláfrýjandi krefst þess að sér verði ákveðnar bætur á þeim grunni að varanleg örorka hans af völdum slyssins sé 45%, svo sem komist var að niðurstöðu um í undirmatsgerð. Gagnáfrýjendur telja á hinn bóginn að í þessu efni beri að miða við yfirmatsgerð, en í henni var varanleg örorka aðaláfrýjanda metin 35%. Þar sem niðurstöðu yfirmatsgerðar um þetta efni hefur ekki verið hnekkt verður á henni byggt. Ekki er ágreiningur um að aðaláfrýjandi hafi verið í hlutastarfi á næstliðnu ári fyrir slysið og að árslaun hans, sem óumdeilt er að hafi verið 860.000 krónur auk 6% álags vegna missis lífeyrisréttinda, skuli því metin sérstaklega á grundvelli áðurgildandi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Aðila greinir hins vegar á um það við hvaða starfshlutfall skuli miða framreikning launa. Telja gagnáfrýjendur rétt að miða við 75% starfshlutfall, en krafa aðaláfrýjanda er á því reist að hann hafi verið í 55% starfi. Í hinum áfrýjaða dómi eru raktar þær upplýsingar, sem fyrir liggja í gögnum málsins um starf aðaláfrýjanda hjá Blönduósbæ fyrir slysið. Verður að fallast á það með héraðsdómi að upplýsingar um starfshlutfall hans séu of óljósar til þess að leggja megi til grundvallar að starfshlutfall aðaláfrýjanda hafi verið minna en gagnáfrýjendur telja. Samkvæmt þessu og miðað við lánskjaravísitölu í mars 2000 á aðaláfrýjandi rétt til bóta fyrir varanlega örorku að fjárhæð 3.374.735 krónur.
Aðaláfrýjandi krefst 2% ársvaxta frá slysdegi samkvæmt áðurgildandi 16. gr. skaðabótalaga fram til þess tíma, sem krafa hans geti borið dráttarvexti. Gagnáfrýjendur telja vexti, sem féllu á kröfu aðaláfrýjanda meira en fjórum árum áður en mál þetta var höfðað, fyrnda. Eins og að framan er rakið greiddu gagnáfrýjendur 22. apríl 1997 aðaláfrýjanda 100.000 krónur „ótilgreint inn á slysið“. Með því var skuld þeirra viðurkennd og fyrningarfrestur rofinn, sbr. 6. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Mál þetta var höfðað innan fjögurra ára frá þeirri viðurkenningu. Verður því ekki fallist á með gagnáfrýjendum að hluti vaxtakröfu aðaláfrýjanda sé fyrndur.
Aðaláfrýjandi krefst dráttarvaxta af kröfu sinni frá 21. apríl 2000 og miðar við að mánuður var þá liðinn frá því að hann kynnti gagnáfrýjendum niðurstöðu undirmats, svo sem að framan er rakið. Verður að fallast á þessa kröfu hans með vísan til 15. gr. þágildandi vaxtalaga nr. 25/1987.
Samkvæmt framansögðu verða gagnáfrýjendur dæmd til að greiða aðaláfrýjanda samtölu framangreindra bóta fyrir þjáningar, varanlegan miska og varanlega örorku, eða alls 5.883.595 krónur með vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði, en allt að frádregnum 67.500 krónum, sem greiddar voru 23. desember 1996, 100.000 krónum, sem greiddar voru 22. apríl 1997 og 7.184.560 krónum, sem greiddar voru fyrir annað en lögmannskostnað 23. janúar 2002. Gagnáfrýjendur krefjast þess að frá bótafjárhæðinni verði að auki dregnar þær fjárhæðir, sem greiddar voru upp í tímabundið atvinnutjón aðaláfrýjanda á árunum 1995 og 1996 eins og áður er rakið. Í héraðsdómsstefnu lýsti aðaláfrýjandi því yfir að gagnáfrýjandinn Sjóvá-Almennar tryggingar hf. hafi greitt honum samtals 455.382 krónur í innborganir upp í tímabundið tekjutjón og myndi hann ekki gera kröfu vegna þess þáttar í málinu. Í samræmi við það hafa bætur samkvæmt áðurgildandi 2. gr. skaðabótalaga ekki verið til umfjöllunar í málinu og verður þessari kröfu gagnáfrýjenda því hafnað.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest. Gagnáfrýjendur verða dæmd til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti í ríkissjóð eins og greinir í dómsorði. Um gjafsóknarkostnað aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði segir.
Dómsorð:
Gagnáfrýjendur, Ragna Hámundardóttir og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði óskipt aðaláfrýjanda, Birni Vigni Björnssyni, 5.883.595 krónur með 2% ársvöxtum frá 25. maí 1994 til 21. apríl 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 67.500 krónum, sem greiddar voru 23. desember 1996, 100.000 krónum, sem greiddar voru 22. apríl 1997, og 7.184.560 krónum, sem greiddar voru 23. janúar 2002.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.
Gagnáfrýjendur greiði óskipt í ríkissjóð 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Allur gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 400.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2002.
Mál þetta, sem dómtekið var 6. júní sl., er höfðað 12. febrúar 2001 af Birni Vigni Björnssyni, Skúlabraut 21, Blönduósi, á hendur Rögnu Hámundardóttur, Árbraut 35, Blönduósi, og Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess aðallega að stefndu verði dæmd til solidum til greiðslu 9.421.363 króna ásamt 2% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993 af 9.588.863 krónum frá 25. maí 1994 til 23. desember 1996, en af 9.521.363 krónum frá þeim degi til 22. apríl 1997, af 9.421.363 krónum frá þeim degi til 21. apríl 2000, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 3. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 til 1. júlí 2001, en samkvæmt l. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 7.570.789 krónum sem greiddar voru 23. janúar 2002. Til vara er krafist greiðslu 8.086.588 króna ásamt 2% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993 af 8.254.088 krónum frá 25. maí 1994 til 23. desember 1996, af 8.186.588 krónum frá þeim degi til 22. apríl 1997, af 8.086.588 krónum frá þeim degi til 21. apríl 2000, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 3. kafla laga nr. 25/1987 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 7.570.789 krónum 23. janúar 2002. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt málskostnaðarreikningi og 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndu krefjast sýknu og að málskostnaður falli niður en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar og að hver aðila beri sinn kostnað af málinu.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Stefnandi var farþegi í bifreið stefndu Rögnu hinn 25. maí 1994 er bifreiðinni var ekið af Hofsósvegi inn á Siglufjarðarveg í veg fyrir bifhjól sem ekið var eftir Siglufjarðarvegi. Bifhjólið lenti inn í hægri hlið bifreiðarinnar en við það snerist bifreiðin, bæði ökutækin lentu utan vegar og bifreiðin valt.
Stefnandi var farþegi í framsæti bifreiðarinnar. Hann fékk þungt högg við áreksturinn og missti um stund meðvitund. Fram hefur komið að hann hafi fyrst munað eftir sér hangandi í bílbeltinu með höfuðið við mælaborð og að einhver hafi verið að reyna að losa hann. Hann var fluttur á sjúkrahúsið á Sauðárkróki með sjúkrabifreið og var hann þar í 8 daga. Stefnandi hafði eftir því sem fram hefur komið mikil óþægindi í kviðarholi, mikla verki í baki, hægri síðu, öxl, brjóstkassa og mjaðmagrind.
Bifreið stefndu var skylduvátryggð hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf., en bótaskylda vegna tjóns stefnanda hefur verið viðurkennd af hálfu stefndu. Hið stefnda tryggingafélag greiddi stefnanda 622.882 krónur vegna slyssins þannig að greiddar voru 55.382 krónur 24. ágúst 1995 vegna tekjutaps í júlí það ár, 400.000 krónur sem innborgun á tekjutap í september og október 1996, 67.500 krónur í þjáningabætur 23. desember sama ár og 100.000 krónur sem innborgun á örorkutjón 22. apríl 1997. Að auki var greiddur kostnaður, svo sem fyrir vottorð, lyf og sjúkraþjálfun, svo og læknis- og ferðakostnaður. Heildargreiðslur á árunum 1994 til 1998 voru samtals 870.793 krónur.
Með matsbeiðni stefnda Sjóvár-Almennra trygginga hf. hinn 19. nóvember 1997 var óskað álits örorkunefndar um ákvörðun miska- og örorkustigs stefnanda vegna slyssins. Í álitsgerð nefndarinnar frá 26. janúar 1999 er varanlegur miski stefnanda vegna afleiðinga slyssins metinn 20% og varanlega örorka einnig 20%.
Með beiðni lögmanns stefnanda til dómsins, dagsettri 6. október 1999, var óskað eftir að dómkvaddir yrðu matsmenn til að meta varanlegan miska, tímabil þjáningabóta, tímabundið atvinnutjón og örorku stefnanda vegna slyssins. Dómkvaddir voru Atli Þór Ólason bæklunarskurðlæknir og Grétar Sigurbergsson geðlæknir en matsgerð þeirra er dagsett 21. janúar 2000. Samkvæmt henni var varanlegur miski stefnanda metinn 45% og varanleg örorka einnig 45%. Tímabil þjáningabóta var metið þannig að stefnandi hafi verið rúmliggjandi frá 25. maí til 2. júní 1994, en batnandi án þess að vera rúmliggjandi frá 25. maí 1994 til 29. nóvember 1996 að frádregnum þeim tíma er hann taldist vera rúmliggjandi. Tímabundið atvinnutjón stefnanda var talið 100% í þrjá mánuði.
Lögmaður stefnanda óskaði eftir afstöðu tryggingafélagsins til þess hvort það féllist á að nota mat hinna dómkvöddu matsmanna til bótauppgjörs með bréfi dagsettu 21. mars 2000. Með bréfi félagsins, dagsettu 11. apríl 2000, var ekki fallist á það en félagið lýsti sig reiðubúið að gera upp tjónið á grundvelli álitsgerðar örorkunefndar og samþykkti að stefnandi gerði fyrirvara við bótauppgjörið varðandi miska- og örorkustig. Ekki náðist samkomulag um greiðslur.
Eftir að stefnandi höfðaði málið vegna ágreinings málsaðila um uppgjör á bótagreiðslum vegna slyssins óskuðu stefndu eftir að dómkvaddir yrðu þrír yfirmatsmenn til að skoða og meta öll sömu atriði og matsmenn höfðu áður metið með beiðni dagsettri 25. júní 2001. Yfirmatsgerð er dagsett 22. ágúst 2001. Niðurstöður yfirmats eru þær að tímabil tímabundins atvinnutjóns sé frá 24. maí til 5. júlí 1994, tímabil þjáningabóta, þar sem stefnandi hafi verið veikur og rúmfastur, sé fyrst frá 24. maí til 2. júní 1994 og frá 9. september til 29. nóvember 1996, samtals 90 dagar, en tímabil er hann hafi verið veikur en ekki rúmfastur sé frá 3. júní til 5. júlí 1994, 33 dagar. Varanlegan miska telja matsmenn hæfilega metinn 50% og varanlega örorku 35%.
Hið stefnda tryggingafélag greiddi stefnanda 7.570.789 krónur hinn 23. janúar 2002, þar með talinn lögmannskostnað og vexti í fjögur ár frá slysdegi, samkvæmt dómkröfum stefnanda og yfirlitsblaði félagsins frá 17. janúar sama ár. Lögmaður stefnanda tók við greiðslu með fyrirvara og sem innborgun vegna tjónsins án viðurkenningar á forsendum og sundurgreiningu bóta og kostnaðar.
Ágreiningur er um útreikning á tjóni stefnanda vegna varanlegrar örorku. Stefnandi heldur því fram að hann hafi verið í hlutastarfi ári fyrir slysið. Hann telur að miða beri við að hann hafi aðeins verið í 55% starfi en af stefndu hálfu er mótmælt að svo hafi verið. Einnig er deilt um ákvörðun miskabóta svo og um lengd þjáningatímabils við ákvörðun bóta sem stefnandi krefst samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga. Þá er og deilt um vexti og málskostnað.
Við munnlegan málflutning kom fram að stefndu telji tímabundið atvinnutjón ofbætt og að líta verði til þess við úrlausn málsins. Vísað er í því sambandi til þess að samkvæmt yfirmati, sem aflað var undir rekstri málsins, hafi stefnandi getað byrjað að vinna aftur 5. júlí 1994 en tímabil tímabundins atvinnutjóns telji matsmenn frá 24. maí til 5. júlí 1994. Af stefnanda hálfu hefur hins vegar verið vísað til þess að málið hafi verið rekið á þeim grundvelli að ekki væri ágreiningur um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón enda ekki gerð krafa um þær. Sjónarmið stefndu um að tekið verði tillit til þess að þau telji bætur vegna tímabundins atvinnutjóns ofgreiddar komist því ekki að í málinu. Í greinargerð stefndu segir að stefnanda hafi þegar verið greiddar 455.382 krónur vegna tímabundins örorkutjóns og sé slík krafa ekki til umfjöllunar í málinu.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Af hálfu stefnanda er málsatvikum lýst þannig að eftir slysið hafi hann aðallega verið til meðferðar og eftirlits á Sjúkrahúsi Sauðárkróks, heilsugæslustöðinni á Blönduósi og Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Við slysið hafi hann hlotið mar á nýra og lifur svo og mar og sár víða á líkamanum. Hann hafi haft verki í hálsi, baki og öxl svo og óþægindi frá lið milli hægra viðbeins og brjóstbeins. Röntgenmyndir hafi sýnt los á liðnum án beináverka. Stefnandi sé stirður í hálsi og viðkvæmur auk þess sem hann hafi verki í hægra axlarsvæði og finni fyrir dofatilfinningu niður í upphandlegg sem valdi því að erfitt sé fyrir hann að beita handleggnum. Hann hafi verki í lendahrygg með dofatilfinningu í læri og tilheyrandi óþægindum vegna þess. Í kjölfar slyssins hafi kvíði hrjáð stefnanda, en fyrir slys hafi hann átt við andleg vandamál að stríða, sem hann hafi þó náð sér vel af og hafi hann verið orðinn einkennalaus og hættur á lyfjum á árinu 1993 samkvæmt vottorði læknis.
Stefnandi þurfi að taka verkjalyf daglega. Hann hafi verið í sjúkraþjálfun um langan tíma, bæði á Blönduósi og í Reykjavík. Hann hafi verið til meðferðar og endurhæfingar á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri í september 1996 fram til loka nóvember það ár. Þá hafi hann verið og sé enn til meðferðar hjá geðlækni, bæði í formi viðtala og lyfja. Andleg óþægindi stefnanda séu mikil og þjaki hann mjög enn í dag. Hin andlega vanlíðan hafi einnig veruleg áhrif á verkjaeinkenni. Vísað er til læknisfræðilegra gagna málsins og matsgerða svo og vottorðs heimilislæknis stefnanda frá 6. júní 2000. Þar komi fram að ástand stefnanda sé mjög slæmt vegna viðvarandi verkja og kvíðavandamáls. Orkuskerðing stefnanda, sem rekja megi til slyssins, sé veruleg þrátt fyrir lyfjameðferð, endurhæfingu og stuðningssamtöl.
Örorkunefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski og örorka stefnanda sé 20%. Nefndin hafi talið að þau áfallastreitueinkenni sem fram hafi komið hjá stefnanda eftir slysið muni ekki há honum í þessu tilliti. Stefnandi hafi ekki getað fellt sig við niðurstöðu nefndarinnar þar sem hann hafi talið metna örorku og miska í engu samræmi við hinar alvarlegu afleiðingar slyssins og þá miklu röskun sem hafi orðið á atvinnuhögum hans.
Stefnandi hafi með beiðni 6. október 1999 til dómsins óskað eftir því að dómkvaddir yrðu matsmenn til að meta varanlegan miska og örorku hans, tímabil þjáningabóta og tímabundið atvinnutjón. Hinn 29. október sama ár hafi héraðsdómari kvatt þá Atla Þór Ólason bæklunarlækni og Grétar Sigurbergsson geðlækni til að framkvæma matið. Samkvæmt matsgerð þeirra frá 21. janúar 2000 hafi varanlegur miski og örorka stefnanda verið metin 45% og tímabil þjáningabóta teldist vera frá 25. maí 1994 til 29. nóvember 1996, þar af rúmliggjandi frá 25. maí til 2. júní 1994 og aftur frá 9. september til 29. nóvember 1996. Þá hafi atvinnutjón stefnanda verið metið 100% fyrstu þrjá mánuðina eftir slysið.
Matsgerðin hafi verið kynnt hinu stefnda tryggingafélagi 21. janúar 2000 og óskað hafi verið eftir afstöðu félagsins til uppgjörs á grundvelli niðurstaðna hennar. Hinn 11. apríl 2000 hafi félagið hafnað því að nota matið til uppgjörs á tjóninu. Félagið hafi hins vegar lýst sig reiðubúið til að ganga til uppgjörs á grundvelli álitsgerðar Örorkunefndar með fyrirvara vegna miska- og örorkustigs. Hinn 19. maí sama ár hafi lögmaður stefnanda því sett fram bótakröfu á hendur stefnda miðað við niðurstöðu álitsgerðar Örorkunefndar, en með bréfi, dagsettu 5. júlí sama ár, hafi stefnanda verið gert gagntilboð sem hann hafi ekki getað fellt sig við.
Eftir nokkur bréfaskipti milli lögmanna aðila hafi félagið lýst því yfir að rétt væri að fá skorið úr ágreiningi fyrir dómstólum. Hafi stefnanda jafnframt verið boðin greiðsla ótilgreint inn á tjónið. Lögmaður stefnanda hafi þá aflað vottorða frá fyrrum atvinnurekanda stefnanda þar sem staðfest hafi verið að stefnandi hefði unnið hlutastarf fyrir Blönduóssbæ og af gögnum sem lægju fyrir á bæjarskrifstofunni mætti ráða að starfshlutfall hefði verið 55-65%. Engu að síður hafi félagið án útskýringa haldið sig við fyrra boð um að tekjur fyrir slys miðuðust við 75% starfshlutfall við útreikning viðmiðunartekna.
Hið stefnda félag hafi greitt stefnanda eftirgreindar fjárhæðir, en tekið hafi verið tillit til þess í kröfugerð stefnanda og vaxtaútreikningi:
23. desember 1996 hafi verið greiddar 67.500 krónur, innborgun á þjáningabætur,
22. apríl 1997 hafi verið greiddar 100.000 krónur sem innborgun á örorkutjón.
Þá hafi stefnanda verið greiddar vegna tekjutaps eftirgreindar fjárhæðir, samtals 455.382 krónur:
24. ágúst 1995, 55.382 krónur, innborgun á tekjutap í júlí 1995,
10. september 1996, 200.000 krónur, innborgun á tekjutap vegna Kristnessdvalar,
10. október 1996, 200.000 krónur, innborgun vegna sama.
Hvorki sé ágreiningur um málavexti né bótaábyrgð heldur um hversu víðtækar afleiðingar slysið hafi haft í för með sér með tilliti til lengdar þjáningabótatímabils og um varanlegt miska- og örorkustig stefnanda. Ekki sé ágreiningur um tímabundið atvinnutekjutjón og því séu ekki hafðar uppi kröfur í málinu vegna þess. Hið stefnda félag hafi greitt stefnanda samtals 455.382 krónur sem innborgun á tekjutjón. Af hálfu stefnanda er því mótmælt að til álita komi að verða við kröfu stefndu um að tekið verði tillit til þess sem stefndu haldi fram um að tjón stefnanda vegna tímabundins atvinnutjóns hafi verið ofbætt.
Málið sé byggt á hlutlægu skaðabótareglunni í 1. mgr. 88. gr. laga nr. 50/1988 og almennum reglum skaðabótaréttarins. Um greiðsluskyldu stefnda, Sjóvár-Almennra trygginga hf., er vísað til 1. mgr. 95. gr., sbr. l. mgr. 91. gr. umferðarlaga, og 1. mgr. 97. gr. sömu laga um skyldu til málshöfðunar á hendur þeim sem bótaskyldur sé samkvæmt 90. gr. og vátryggingafélaginu sem hafi ábyrgðartryggt ökutæki hins bótaskylda. Kröfur um tjónbætur byggi stefnandi á skaðabótalögum nr. 50/1993, einkum 1.-7. gr., sbr. 15. og 16. gr. laganna.
Stefnandi hafi orðið fyrir verulegum og varanlegum áverkum, líkamlegum sem andlegum, við umferðaróhappið. Stefnandi hafi einungis verið 32ja ára á slysdegi, en hann hafi þá unnið hjá Blönduóssbæ. Í starfi hans hafi falist að annast almennan rekstur félagsheimilis bæjarins. Stefnandi hafi rekið félagsheimilið frá árinu 1990 í um það bil hálfu starfi, þar sem hann hafi verið til lækninga vegna kvíða og þunglyndis er tengst hafi óvæntu andláti föður hans á því ári vegna sjaldgæfs en skjótvirks hrörnunarsjúkdóms. Einnig hafi stefnandi sinnt heimilisstörfum og uppeldi fjögurra barna sinna.
Stefnandi hefði náði sér vel af þessum veikindum og hafi hann verið orðinn alveg einkennalaus um það bil ári fyrir slysdag. Að öðru leyti hafi hann verið vel hraustur líkamlega og hefði ekki orðið fyrir líkamstjóni fyrir slysið. Stefnandi hafi tekið virkan þátt í íþróttum og íþróttastarfi og hann hafi undirbúið sig af kappi fyrir komandi maraþonhlaup í Reykjavík þá um sumarið.
Stefnandi hafi við slysið hlotið alvarlega fjöláverka og hafi hann allt frá slysdegi átt við vandamál að etja vegna afleiðinga þess. Í málinu liggi fyrir fjölmörg vottorð meðferðarlækna stefnanda sem öll bendi til þess að afleiðingar slyssins hafi haft mjög alvarleg áhrif á líkamlega og andlega heilsu stefnanda. Slysið hafi valdið honum verulega tjóni og muni fyrirsjáanlega verða svo, enda langt um liðið síðan slysið varð. Stefnandi hafi verið og sé enn undir læknishöndum, auk þess sem hann hafi þurft mjög mikla endurhæfingu og þurfi enn.
Stefnandi krefjist þess að stefndu greiði tjónbætur í samræmi við ákvæði skaðabótalaga og niðurstöður dómkvaddra matsmanna, annars vegar samkvæmt matsgerð frá 21. janúar 2000 vegna þjáninga og varanlegrar örorku og hins vegar samkvæmt yfirmatsgerð frá 22. ágúst 2001 vegna varanlegs miska. Matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna sé mjög ítarleg, byggð á nákvæmri skoðun matsmanna og viðtali við stefnanda, öfugt við verklag í álitsgerð Örorkunefndar. Hjá nefndinni hafi stefnandi verið skoðaður af Magnúsi Ólasyni lækni einum, er jafnframt hafi tekið viðtal við stefnanda. Aðrir nefndarmenn hafi ekki verið viðstaddir matsfund, þó að þeir standi einnig að álitinu. Ekki væri heldur að sjá að nefndin hafi leitað til eða aflað álits geðlæknis, sem þó hafi verið full ástæða til að gera. Þá geri nefndin enga tilraun til að skýra út eða leiða líkur að því hvers vegna hún álíti að áfallastreitueinkenni stefnanda muni ekki há honum, þ.e. ekki skerða aflahæfi hans, þrátt fyrir að fyrirliggjandi vottorð meðferðarlækna, þ.m.t. geðlæknis, hafi að geyma gagnstætt álit. Samkvæmt vottorði geðlæknisins frá 16. janúar 1998 telji hann að stefnandi hafi orðið fyrir djúpstæðri og langvarandi geðröskun af völdum slyssins. Mat Örorkunefndar sé svo meingallað að á því verði í engu byggt í málinu, hvorki um bótauppgjör né aðra þætti.
Krafa stefnanda um annað fjártjón sé byggð á því að við slysið hafi staða og hagir stefnanda raskast verulega, en stefnandi sé fjölskyldumaður með fjögur börn á heimili sínu. Slysið hafi valdið gerbreytingu á lífi stefnanda og fjölskyldunnar. Mikið álag sé á eiginkonu stefnanda og staða fjölskyldunnar sé mjög bág vegna beinna afleiðinga slyssins, sérstaklega fjárhags- og atvinnulega séð.
Stefnandi hafi orðið fyrir gríðarmiklum beinum og óbeinum kostnaði sem tengdist slysinu. Langvarandi fjarvera frá vinnu og óvinnufærni hafi valdið því að stefnandi hafi margsinnis þurft að skipta um vinnu í viðleitni sinni til að framfæra fjölskylduna, en ör vinnuskipti hafi komið illa niður á launum hans, þar sem byrjunarlaun reyndust ætíð lág en hækkuðu með auknum starfsaldri, aukinni ábyrgð og reynslu. Slíkra eðlilegra hækkana á starfskjörum hafi stefnandi ekki notið.
Stefnandi hafi þurft á mikilli læknishjálp að halda, m.a. viðtölum við geðlækna og aðra lækna, auk endurhæfingar á Blönduósi, Akureyri og í Reykjavík. Þegar stefndi hafi um þriggja mánaða skeið verið til endurhæfingar á Akureyri, hafi hann þurft að aka á milli um helgar um það bil 400 km leið í hvert skipti. Hann hafi dvalið í Reykjavík í þrjár vikur til sjúkraþjálfunarmeðferðar á MT-stofunni með tilheyrandi kostnaði við uppihald og ferðir.
Vísað er til meðferðarsögu stefnanda og þeirra víðtæku áhrifa og afleiðinga, beinna og óbeinna, sem slysið hafi haft fyrir hann. Því er haldið fram að krafa hans um 200.000 krónur vegna annars fjártjóns sé mjög í hóf stillt og hrökkvi fráleitt til að bæta að fullu þann kostnað sem stefnandi hafi haft við að leita sér nauðsynlegra lækninga og endurhæfingar, svo ekki sé talað um þá gríðarlegu röskun sem orðið hafi á heimilisaðstæðum hans.
Krafa stefnanda um greiðslu þjáningabóta sé byggð á 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og niðurstöðum matsmanna um tímabil bótanna. Bætur skuli greiða þar til ekki sé að vænta frekari bata, 1.300 krónur á dag þann tíma sem tjónþoli sé rúmfastur og 700 krónur fyrir hvern dag sem tjónþoli sé veikur án þess að vera rúmliggjandi. Í matsgerð dómkvaddra matsmanna komi fram hvenær stefnandi hafi verið veikur en allan þann tíma hafi hann sannanlega verið veikur í skilningi laganna. Veikindi hans umræddan tíma séu augljós þegar litið sé til framlagðra vottorða og tilrauna hans til að stunda vinnu. Hann hafi vart ráðið við að sinna starfi sínu sem húsvörður frá hausti 1994, en eiginkona hans hafi þá séð um öll þrif og erfiðari verkefni. Vorið 1995 hafi hún tekið við starfinu þegar stefnandi hafi talið sér alls ófært að sinna því. Hann hafi gert tilraun til að vinna við umsjón íþróttavallar þá um sumarið sem ekki hafi gengið upp og hafi endað með nokkurra vikna meðferð hjá sjúkraþjálfara í Reykjavík í júlí 1995. Um haustið hafi stefnandi reynt fyrir sér hjá Kaupfélagi Héraðsbúa í hlutastarfi, en hann hafi gefist upp vorið 1996 og hafi hann verið sendur í endurhæfingu á Kristnes í tæpa þrjá mánuði. Stefnandi hafi misst vinnuna í kjölfarið. Í janúar 2000 hafi hann byrjað sem afgreiðslumaður hjá Esso í fullu starfi, en eftir þriggja mánaða starf hafi hann neyðst til að lækka starfshlutfallið í 50%. Stefnandi vinni þar enn í hálfu starfi. Tímabil þjáningabóta sé síst of langt en áverkar hans hafi verið þess eðlis að bati hafi verið hægur og meðferðartími óhjákvæmilega langur og mikill, m.a. vegna hinna flóknu andlegu einkenna eftir slysið. Stefndu telji þjáningatímabil nema þremur mánuðum þrátt fyrir óyggjandi gögn um mun lengri meðferðartíma stefnanda og óvinnufærni er beinlínis megi rekja til slyssins.
Miskabótakrafa stefnanda sé byggð á niðurstöðu yfirmats um 50% varanlegan miska og reiknireglu 4. gr. skaðabótalaga, uppfært miðað við lánskjaravísitölu frá gildistöku laganna í júlí 1993 til mars 2000, sbr. 15. gr. laganna. Forsendur matsins séu skýrar en Örorkunefnd hafi í engu reynt að greina eðli og umfang líkamstjóns stefnanda út frá læknisfræðilegu sjónarmiði, þ.e. áhrif hvers áverka á líkamlegt ástand stefnanda svo og þá erfiðleika sem afleiðingar tjónsatviks valdi í lífi hans.
Hækkun miskabóta um 25% byggðist á heimildarákvæði 5. ml. 1. mgr. 4. gr. laganna þar sem kveðið sé á um að þegar sérstaklega standi á sé heimilt að hækka bætur um allt að 50%. Aðstæðum stefnanda sé þannig háttað að skilyrðum sé fullnægt til að beita lagagreininni. Stefnandi hafi hlotið margvíslega áverka á líkama og sál. Andlegt ástand hans sé viðkvæmt og slysið muni fyrirsjáanlega hafa þau áhrif að hefta hann mjög verulega til hvers konar starfa og leiks. Líkamsáverkar séu fjölþættir og samspil þeirra og hinna andlegu áverka, sem stefnandi hafi hlotið, réttlæti hækkun fjárhæðar miskabóta, þótt læknisfræðilegar afleiðingar slyssins til stiga kunni að vera réttar samkvæmt matsgerðinni.
Krafan um bætur fyrir örorkutjón sé byggð á niðurstöðu matsgerðar dómkvaddra matsmanna um 45% varanlega örorku. Matsgerðin sé skýr um mat á þessu atriði. Útilokað sé fyrir stefnanda að vinna líkamlega erfið störf, en slík vinna standi einatt ófaglærðu fólki til boða. Meiðsl hans muni þannig einnig takmarka verulega val hans og möguleika til hvers konar starfa, þ.m.t. vinnumagn, en andlegt ástand hans sem og líkamlegt hamli verulega getu hans til allra álags- og átaksvinnu, hvort heldur slík vinna reyni á líkamlegt eða andlegt atgervi.
Við mat á viðmiðunartekjum stefnanda sé byggt á skattframtölum, ráðningarsamningi og yfirlýsingu atvinnurekanda um starfshlutfall. Stefndu miði við að framtaldra tekna sé aflað í 75% vinnu þar sem fram hafi komið hjá atvinnurekanda stefnanda að eftirmaður stefnanda í starfinu hafi verið skilgreindur í 75% starfi. Eiginkona stefnanda hafi tekið við starfinu en við það hafi samsetning þess breyst þar sem leikfélagið á staðnum hafi tekið við umsjón með húsinu. Starfshlutfall hafi þá verið aukið að hennar kröfu með tilheyrandi launahækkunum vegna aukinna verkefna. Vísað er til bréfs bæjarstjórans á Blönduósi frá 28. ágúst 2000 þar sem óyggjandi komi fram að starfshlutfall stefnanda hafi verið um 55-65%. Stefnandi telur að hið lægra viðmiðunarmark sé nær sanni, enda hafi verið um það rætt við þáverandi bæjarstjóra við ráðningu stefnanda að um væri að ræða um það bil hálft starf og út frá því gengið þegar samið var um launakjör stefnanda. Við munnlegan málflutning var af hálfu stefnanda vísað til þess að stefnandi hafi unnið hálft starf á heimilinu og hálft starf utan heimilis eins og fram komi í yfirmatsgerð.
Aðalkrafa stefnanda byggi á útreikningi samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga um þjáningabætur og bætur fyrir varanlega örorku í samræmi við niðurstöðu undirmatsgerðar um lengd þjáningabótatímabils og mats á varanlegu örorkustigi, en á yfirmatsgerð varðandi varanlegan miska. Í varakröfu sé byggt á niðurstöðu undirmatsgerðar varðandi lengd þjáningarbóta, en yfirmatsgerð varðandi mat á varanlegu miska- og örorkustigi.
Við útreikning á örorkutjóni stefnanda sé um tekjuviðmiðun samkvæmt 7. gr. skaðabótalaga miðað við að tekjur stefnanda samkvæmt skattframtölum og launaseðlum næstliðið ár fyrir slys sýni raunverulegar tekjur fyrir 55% starfshlutfall. Þær tekjur væru síðan uppfærðar miðað við fullt starf og væru því heildarvinnutekjur.
Samkvæmt upplýsingum, sem liggi fyrir í skattframtölum stefnanda, komi fram að meðalárstekjur hans fyrir slys, miðað við 55% starfshlutfall, hafi numið um 860.000 krónum, sem þýði að mögulegar heildarvinnutekjur hefðu þá numið um 1.567.000 krónum, auk 6% framlags atvinnurekanda í lífeyrissjóð, 94.020 króna, eða samtals 1.661.020 krónur miðað við slysdag. Bætur séu svo uppfærðar miðað við lánskjaravísitölu frá slysdegi (3340) til mars 2000 (3848) í samræmi við 15. gr. laga nr. 50/1993. Margföldunarstuðull sé 7,5 samkvæmt 6. gr. sömu laga.
Aðalkrafa:
Annað fjártjón 200.000 krónur
Þjáningabætur skv. 3. gr. 1.520 x 88 dagar 133.760 “
820 x 816 dagar 669.120 “
Miskabætur skv. 4. gr.4.690.000 x 10% 2.345.000 “
Hækkun skv. 4. gr. 2.110.500 x 10% 234.500 “
Örorkubætur skv. 5. og 6. gr. 1.661.020 x 45% 5.605.943 “
Uppfærsla bóta skv. 15. gr. 5.605.943 x
(3848/3340) 852.640 “
Fyrning skv. 9. gr. (7%) - 452.100 “
Áður innborgað - 167.500 “
Samtals stefnufjárhæð 9.421.363 “
Varakrafa:
Annað fjártjón 200.000 “
Þjáningabætur skv. 3. gr. 1.520 x 88 dagar 133.760 “
820 x 816 dagar 699.120 “
Miskabætur skv. 4. gr. 469.000 x 50% 2.345.000 “
Hækkun skv. 4. gr. 2.110.500 x 10% 234.500 “
Örorkubætur skv. 5. og 6. gr. 1.661.020 x 35% 4.360.177 “
Uppfærsla bóta skv. 15. gr. 5.605.943 x 35%
(3848/3340) 663.165 “
Fyrning skv. 9. gr. (7%) - 351.634 “
Áður innborgað - 167.500 “
Samtals stefnufjárhæð 8.086.588 “
Til frádráttar komi síðan í báðum tilvikum 7.570.789 krónur er greiddar hafi verið 23. janúar 2002 undir rekstri málsins.
Vaxta sé krafist í samræmi við ákvæði 16. gr. skaðabótalaga frá tjónsdegi, en dráttarvaxta einum mánuði eftir að matsgerð dómkvaddra matsmanna hafi verið kynnt stefndu, sbr. ákvæði laga nr. 25/1987.
Krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé byggð á lögum nr. 50/1988 en stefnandi sé ekki skattaðili í skilningi laganna og beri honum því nauðsyn að fá tekið tillit til skattskyldu málflutningsþóknunar við ákvörðun hennar.
Málsástæður og lagarök stefndu
Af hálfu stefndu hefur komið fram að ekki sé um það deilt í málinu að stefnanda beri að fá tjón sitt bætt að lögum vegna slyssins sem hann varð fyrir 25. maí 1994 samkvæmt 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Ágreiningsefnið varði fyrst og fremst umfang tjóns hans og útreikninga á því.
Sýknukrafa stefndu er byggð á því að tjón stefnanda hafi þegar verið bætt að fullu. Við útreikninga á tjóni vegna varanlegrar örorku hafi verið miðað við að stefnandi hafi verið í 75% starfi er hann varð fyrir slysinu. Viðmiðunarlaunin séu því töluvert hærri en tekjureynsla stefnanda fyrir slysið sýni en í ráðningarsamningi sé tekið fram að tekjur stefnanda hjá Blönduóssbæ vegna starfs hans hafi miðast við 100% starfshlutfall. Gögn málsins styddu ekki staðhæfingar stefnanda um að starfshlutfall hans hafi verið 55%. Stefndu mótmæla þeirri tekjuviðmiðun sem stefnandi hafi notað við útreikning á kröfu hans í málinu og telja enga lagaheimild fyrir því að reikna honum hærri laun en gert hafi verið af hálfu tryggingafélagsins. Mótmælt er einnig að stefnandi hafi stundað heimilisstörf en það komi ekki fram í gögnum málsins nema í yfirmati en þar séu þessar upplýsingar hafðar eftir stefnanda sjálfum. Mótmælt er að við úrlausn málsins verði lagðar til grundvallar upplýsingar sem fram komi í bréfi eiginkonu stefnanda. Þá er og mótmælt að mat dómkvaddra matsmanna á örorku stefnanda verði lagt til grundvallar við dómsúrlausnina. Vísað er til þess að örorkunefnd hafi ekki talið að áfallastreitueinkenni muni hafa áhrif á getu stefnanda til öflunar vinnutekna í framtíðinni.
Stefnanda hafi þegar verið greiddar 455.382 krónur vegna tímabundins örorkutjóns. Af hálfu stefndu var því haldið fram við munnlegan málflutning að tjón stefnanda sé með því ofbætt og er í því sambandi vísað til úrlausnar yfirmatsmanna á því hvenær stefnandi hafi getað hafið vinnu að nýju. Beri því að taka tillit til þess við úrlausn málsins að tjónið hafi að þessu leyti verið ofbætt.
Kröfu stefnanda um annað fjártjón er mótmælt sem órökstuddri en engin gögn hafi verið lögð fram um það. Einnig er kröfu vegna þjáningabóta mótmælt. Tímalengd sé ekki í samræmi við læknisfræðileg gögn málsins, en í mati hinna dómkvöddu matsmanna virtist lengd þjáningabótatímabilsins taka mið af stöðugleikapunktinum, þ.e. þegar ekki sé að vænta frekari bata. Slík viðmiðun sé ekki rétt að lögum.
Þá er því mótmælt að miski verði hækkaður umfram það sem 4. gr. skaðabótalaga geri almennt ráð fyrir. Skilyrðum "þegar sérstaklega stendur á..." sé ekki fullnægt varðandi miska stefnanda. Örorka stefnanda sé ekkert óvenjulegri en hjá öðrum sem lendi í alvarlegum slysum.
Vöxtum eldri en fjögurra ára er mótmælt sem fyrndum og einnig upphafstíma dráttarvaxta sem stefndu telja að eigi að miða við dómsuppkvaðningu. Þá er málskostnaðarreikningi stefnanda mótmælt sem allt of háum.
Niðurstaða
Hið stefnda tryggingafélag hefur greitt ýmsan kostnað stefnanda vegna slyssins sem hann varð fyrir, þar með talinn sjúkra- og ferðakostnað vegna meðferðar og þjálfunar sem stefnandi þurfti að sækja fjarri heimili sínu á árunum 1994 til mars 1996. Stefnandi krefst 200.000 króna skaðabóta úr hendi stefndu fyrir annað fjártjón sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna slyssins. Fram hefur komið að stefnandi hafi þurft að aka heim á Blönduós frá Akureyri og til baka um helgar þegar hann var þar í um það bil þriggja mánaða endurhæfingu haustið 1996. Þá hefur komið fram að miklar breytingar hafi orðið á högum stefnanda vegna slyssins. Ætla verður að stefnandi hafi haft ýmsan kostnað af meðferð og þjálfun sem hann hefur þurft að stunda til að ná aftur heilsu eftir slysið. Þykir rétt með vísan til þess og 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 að stefndu greiði stefnanda bætur fyrir annað fjártjón sem þykja hæfilega ákveðnar 100.000 krónur. Krafa stefnanda um skaðabætur fyrir annað fjártjón kom fyrst fram í bréfi lögmanns stefnanda, dagsettu 19. maí 2000, til hins stefnda tryggingafélags. Þykir rétt að krafan beri dráttarvexti samkvæmt 15. gr., sbr. og III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 19. júní 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Stefnandi telur að hann hafi verið veikur í skilningi 3. gr. skaðabótalaga frá slysdegi til 29. nóvember 1996 eins og fram komi í matsgerð dómkvaddra matsmanna frá 21. janúar 2000. Í gögnum málsins kemur fram að stefnandi hafi byrjað að vinna aftur eftir slysið 5. júlí 1994. Einnig kemur fram að hann hafi átt erfitt með að stunda vinnu, en hann hafi ítrekað þurft á meðferð og læknishjálp að halda á því tímabili sem hann telur sig hafa verið veikan. Í yfirmatsgerð frá 22. ágúst 2001 segir að lagt hafi verið mat á hvaða tímabil eigi að telja stefnanda veikan, þó ekki lengur en fram til þess tímamarks þegar ekki var að vænta frekari bata, eins og réttilega ber að gera samkvæmt þágildandi 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Varanlegur miski er síðan metinn miðað við ástand tjónþola eins og það er þegar ekki er að vænta frekari bata, sbr. þágildandi 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga, og eru bætur ákveðnar í samræmi við það. Niðurstaða yfirmatsmanna er sú að stefnandi hafi ekki verið veikur í skilningi þágildandi 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga án þess að vera rúmliggjandi nema þann tíma sem hann hafi verið heima frá 2. júní til 5. júlí 1994. Í mati dómkvaddra matsmanna frá 21. janúar 2000, sem stefnandi vísar til, er við mat á þjáningabótum litið til þess tíma er stefnandi var til meðferðar á spítalastofnunum en heildarlengd þjáningatímabils miðist við fjölbreytt, margþætt og flókin andleg og líkamleg einkenni og mikla meðferðarþörf. Í matinu er ekki tekin nægilega skýr afstaða til þess hvenær stefnandi hafi verið veikur. Yfirmatsmenn telja hins vegar að stefnandi hafi verið veikur og rúmliggjandi í 90 daga en veikur án þess að vera rúmliggjandi í 33 daga. Ber að leggja yfirmatið til grundvallar við ákvörðun á þjáningabótum stefnanda samkvæmt tilvitnaðri lagagrein. Stefnandi fékk greiddar þjáningabætur úr hendi hins stefnda tryggingafélags í samræmi við yfirmatið 23. janúar 2002, samtals 185.160 krónur, en 23. desember 1996 hafði hann fengið greiddar 67.500 krónur sem innborgun á þjáningabætur. Með vísan til þessa verður krafa stefnanda um greiðslu þjáningabóta umfram það sem honum hefur þegar verið greitt ekki tekin til greina. Hins vegar ber að dæma stefndu til að greiða stefnanda 2% vexti af þjáningabótum samkvæmt þágildandi 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga frá slysdegi, 25. maí 1994, en vexti ber að reikna frá slysdegi þrátt fyrir að fjárhæðir samkvæmt 3. skaðabótalaga taki verðlagsbreytingum samkvæmt 15. gr. laganna. Fyrir liggur að bótaskylda af hálfu hins stefnda tryggingafélags hefur verið viðurkennd. Kröfur stefnanda um þjáningabætur og bætur fyrir varanlegan miska og örorku hafa einnig verið viðurkenndar þótt deilt hafi verið um miska- og örorkustig, útreikning viðmiðunartekna stefnanda og þjáningatímabil. Einnig verður að líta svo á að viðurkennd hafi verið skylda til að greiða lögboðna vexti af framangreindum kröfum stefnanda vegna hins bótaskylda atviks. Með vísan til þessa og 1. mgr. 1. gr. laga um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905 verður ekki fallist á að vextir eldri en fjögurra ára hafi fallið niður fyrir fyrningu. Með vísan til 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu þykir rétt að dráttarvextir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga greiðist frá 22. ágúst 2001, þegar yfirmat sem stefndu óskuðu eftir lá fyrir, til greiðsludags, 23. janúar 2002.
Stefnandi hefur fengið greiddar bætur úr hendi hins stefnda tryggingafélags fyrir 50% varanlegan miska í samræmi við niðurstöður yfirmatsgerðar. Með vísan til þess sem fram kemur í yfirmatsgerðinni ber að leggja það til grundvallar við ákvörðun á bótum stefnanda fyrir varanlegan miska. Í heimildarákvæði 4. gr. skaðabótalaga, sem stefnandi vísar til, er miðað við að sérstaklega þurfi að standa á til að unnt sé að ákveða hærri bætur en lagagreinin gerir almennt ráð fyrir. Í yfirmatsgerð kemur fram að stefnandi hafi auk líkamlegra einkenna fengið veruleg geðræn einkenni í kjölfar slyssins. Þrátt fyrir meðferð hafi ekki tekist að slá á þau að neinu marki. Þvert á móti virtist vinnufærni stefnanda halda áfram að skerðast. Fram kemur einnig að streituröskun eftir áfall geti verið mjög hamlandi. Varanlegur miski er í yfirmatinu metinn vegna líkamlegra einkenna og andlegra svo og með tilliti til þeirra erfiðleika sem þau hafi í för með sér fyrir stefnanda. Verður ekki fallist á að lagaskilyrði séu til þess að ákveða stefnanda hærri bætur en þegar hafa verið greiddar fyrir varanlegan miska. Hins vegar ber á sama hátt og með sömu rökum og vextir og dráttarvextir af þjáningabótum hafa verið dæmdir að dæma stefndu til að greiða stefnanda 2% vexti af 2.641.000 krónu, sem eru greiddar bætur fyrir varanlegan miska, frá 25. maí 1994 til 22. ágúst 2001 og dráttarvexti frá þeim degi til 23. janúar 2002.
Óumdeilt er að stefnandi stundaði hlutastarf þegar hann varð fyrir slysinu. Stefnandi heldur því fram að við útreikninga á varanlegri örorku hans vegna slyssins beri að miða við að hann hafi verið í 55% starfi árið fyrir slysið. Í gögnum málsins kemur ekki skýrt fram hvert starfshlutfall stefnanda var í starfi hans hjá Blönduóssbæ en þar hafði hann unnið frá árinu 1991 samkvæmt því sem fram kemur í yfirmatsgerð. Engar ályktanir verða heldur dregnar af skattframtölum stefnanda um raunverulegt starfshlutfall hans á þeim tíma sem hér skiptir máli við ákvörðun árslauna hans. Sama er að segja um vinnu hans á heimilinu. Þótt samkomulag hafi verið með þeim hjónum um að stefnandi sinnti heimilinu að hluta og stundaði vinnu utan heimilis að hluta gefur það ekki ótvíræðar upplýsingar um raunverulegt starfshlutfall stefnanda í hinu launaða starfi. Í ráðningarsamningi kemur fram að stefnandi hafi verið í 100% starfi en fram hefur komið sú skýring á því að greitt hafi verið fyrir starfið samkvæmt tilteknum launaflokki í kjarasamningi. Í bréfi bæjarstjóra Blönduós frá 28. ágúst 2000 segir að af gögnum, sem fyrir liggi á bæjarskrifstofunni, megi leiða líkur að því að starfshlutfall stefnanda hafi verið 55-65%. Þá kom fram í framburði fyrrverandi bæjarstjóra fyrir dóminum, sem réði stefnanda til starfans, að ekki hafi verið farið nákvæmlega út í það hvert starfshlutfall stefnanda hjá Blönduóssbæ væri en það hafi verið rúmlega hálft starf eða um það bil 50, 60 eða 70%. Samið hafi verið um að stefnandi tæki að sér ákveðin verkefni fyrir ákveðin laun. Ekki hafi verið metið hve mörgum vinnustundum stefnandi hafi átt að skila og viðveruskyldan hafi verið breytileg. Samkvæmt þessu verður að telja upplýsingar um starfshlutfall stefnanda árið fyrir slysið of óljósar til þess að unnt verði að leggja til grundvallar við mat á því hver árslaun hans hafi verið að hann hafi aðeins verið í 55% starfi.
Stefnandi hefur fengið greiddar bætur úr hendi hins stefnda tryggingafélags fyrir varanlega örorku samkvæmt 5. og 6. gr., sbr. 9. gr. skaðabótalaga, samtals 3.859.268 krónur. Miðað er við laun í 12 mánuði fyrir slys, sem reiknast 1.580.857 krónur með vísitöluhækkun, sbr. 2. mgr. 15. gr. sömu laga, og 35% varanlega örorku samkvæmt yfirmati. Yfirmatsgerðin er byggð á læknisfræðilegum gögnum, skattframtölum stefnanda og upplýsingum um persónulega og félagslega hagi stefnanda og sögu, þar með talið atvinnuþátttöku. Af því sem fram kemur í yfirmatinu má ráða að yfirmatsmenn hafa haft ítarlegar upplýsingar um stefnanda og að tillit hefur verið tekið til þeirra atriða sem skipta máli við mat á því hverja skerðingu stefnandi hefur hlotið vegna slyssins á getu til að afla vinnutekna og við mat á tjóni hans vegna varanlegrar örorku. Í yfirmatinu er meðal annars tekið tillit til þess að skerðingin hafi á ákveðnu tímabili verið minni en ella og gerð er grein fyrir ástæðum þess. Í matsgerðinni frá 21. janúar 2000, sem stefnandi vísar til, kemur ekki fram að tekið hafi verið tillit til sömu atriða og gert er í yfirmatinu. Verður að telja yfirmatsgerðina traustari heimild um tjón stefnanda vegna varanlegrar örorku hans vegna slyssins en matsgerðina sem stefnandi vísar til. Af því sem fram hefur komið verður að telja að álit Örorkunefndar, þess efnis að áfallastreitueinkenni sem stefnandi hefur haft eftir slysið muni ekki há honum við öflun vinnutekna í framtíðinni, standist ekki. Með vísan til þessa og þess sem fram kemur í yfirmatsgerðinni að öðru leyti ber að miða við að stefnandi hafi hlotið 35% varanlega örorku í umræddu slysi. Stefnandi hefur fengið tjónið bætt í samræmi við það eins og þegar hefur komið fram. Stefndu verða því sýknuð af þessum kröfulið stefnanda en dæma ber þá til að greiða stefnanda vexti á sama hátt og með sömu rökum og vextir og dráttarvextir af þjáningabótum og bótum fyrir varnalegan miska hafa verið dæmdir. Samkvæmt því ber stefndu að greiða stefnanda 2% vexti af 3.859.268 krónum frá 25. maí 1994 til 22. apríl 1997, þegar greiddar voru 100.000 krónur sem innborgun á örorkutjón stefnanda, en af 3.759.268 krónum frá þeim degi til 22. ágúst 2001 og dráttarvexti frá þeim degi til 23. janúar 2002.
Hið stefnda tryggingafélag greiddi stefnanda samtals 666.632 krónur í vexti 23. janúar 2002 en heildargreiðslan sem þá var innt af hendi var 7.807.442 krónur að frádregnum 622.882 krónum sem áður höfðu verið greiddar. Af síðasttöldu fjárhæðinni höfðu verið greiddar 400.000 krónur vegna tímabundins atvinnutjóns stefnanda. Í greinargerð stefndu segir að stefnanda hafi þegar verið greiddar 455.382 krónur vegna tímabundins örorkutjóns en 55.382 krónur voru greiddar 24. ágúst 1995 vegna tímabundins atvinnutjóns eins og áður hefur komið fram. Bætur fyrir tímabundið atvinnutjón stefnanda eru því ekki til umfjöllunar í málinu enda er ekki gerð krafa um þær hér. Breytir engu í því sambandi þótt í yfirmati komi fram að tímabil sem yfirmatsmenn telji að geti talist til tímabundins atvinnutjóns hafi verið frá 24. maí til 5. júlí 1994. Með vísan til þess verður ekki tekið tillit til greiðslunnar úr hendi hins stefnda tryggingafélags til stefnanda við úrlausn málsins eins og krafist er að gert verði af hálfu stefndu. Frádráttur tryggingafélagsins er því samkvæmt ofangreindu oftalinn um 400.000 krónur og ber að taka tillit til þess þegar vaxtagreiðslur stefndu eru dregnar frá dæmdum vöxtum. Réttilega verða því aðeins dregnar 266.632 krónur frá dæmdum vöxtum eins og fram kemur í dómsorði.
Samkvæmt þessu ber að dæma stefndu til að greiða stefnanda 100.000 krónur in solidum ásamt vöxtum og dráttarvöxtum í samræmi við það sem að ofan greinir og nánar kemur fram í dómsorði.
Rétt þykir að stefndu greiði stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 1.000.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts og þess að stefnandi hefur samkvæmt því sem fram hefur komið þegar fengið greitt úr hendi hins stefnda tryggingafélags samtals 386.229 krónur vegna lögmannsþóknunar.
Dóm þennan kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.
DÓMSORÐ:
Stefndu, Ragna Hámundardóttir og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði stefnanda, Birni Vigni Björnssyni, 100.000 krónur in solidum ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 19. júní 2000 til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Einnig ber stefndu að greiða stefnanda in solidum 2% ársvexti af 6.685.428 krónum frá 25. maí 1994 til 23. desember 1996, af 6.617.928 krónum frá þeim degi til 22. apríl 1997, af 6.517.928 krónum frá þeim degi til 22. ágúst 2001, en dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 23. janúar 2002 að frádregnum 266.632 krónum.
Stefndu greiði stefnanda 1.000.000 krónur in solidum í málskostnað, þar með talinn virðisaukaskattur.