Hæstiréttur íslands
Mál nr. 284/2005
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
- Miskabætur
|
|
Fimmtudaginn 26. janúar 2006. |
|
Nr. 284/2005. |
Ákæruvaldið(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari) gegn X (Helgi Jóhannesson hrl. Heimir Örn Herbertsson hdl.) |
Kynferðisbrot. Börn. Miskabætur.
X var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn 10 ára stúlku í húsi að næturlagi þar sem þau voru bæði gestkomandi. Hann neitaði sök. Í dómi héraðsdóms var talið hafið yfir vafa að X væri sá maður, sem stúlkan bar sökum um að hafa áreitt sig. Var framburður ákærða um málsatvik í andstöðu við framburð stúlkunnar og drengs, sem hafði vaknað við grát hennar og bar að hann hefði heyrt X ræða við hana. Þá var vísað til þess að framburður stúlkunnar fengi stoð í framburði drengsins og í framburði konu, sem kvaðst hafa mætt henni um miðja nótt, illa klæddri og snöktandi með mikinn ekka, svo og í framburði móður stúlkunnar. Enn fremur var talið að skýrsla sálfræðings benti til þess að stúlkan hefði orðið fyrir verulegu andlegu áfalli, sem hún tengdi við umrætt atvik. Með hliðsjón af þessu var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafið væri yfir skynsamlegan vafa að X hefði gerst sekur um það brot, sem hann var ákærður fyrir. Varðaði það við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og var hann dæmdur til að sæta fangelsi í fjóra mánuði en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið. Þá var hann dæmdur til að greiða stúlkunni 300.000 krónur í miskabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 14. júní 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu og að ákærði verði dæmdur til að greiða A 900.000 krónur í miskabætur.
Ákærði krefst aðallega sýknu, til vara að refsing verði felld niður og til þrautavara að hann verði dæmdur í lægstu refsingu sem lög leyfa. Þá krefst hann þess að bótakröfu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að hann verði sýknaður af þeirri kröfu.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur að því er varðar sakfellingu ákærða og fjárhæð skaðabóta. Staðfest er einnig refsiákvörðun héraðsdóms en eftir atvikum er rétt að hún verði að öllu leyti skilorðsbundin, eins og nánar er kveðið á um í dómsorði.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun og þóknun réttargæslumanns, sem verða að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í fjóra mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur skal vera óraskað.
Ákærði greiði allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, 1.061.161 krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í héraði, Eiríks Elís Þorlákssonar héraðsdómslögmanns, 373.500 krónur, og fyrir Hæstarétti, Helga Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur, svo og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola í héraði og fyrir Hæstarétti, Ásu Ólafsdóttur hæstaréttarlögmanns, samtals 311.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 9. júní 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 19. maí s.l., er höfðað með ákæruskjali Ríkissaksóknara, útgefnu 22. desember 2004, á hendur X, kt. [...], til heimilis að [...], Reykjavík;
„fyrir kynferðisbrot, með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 15. ágúst 2004, á heimili bróður síns að Z, Þ, þar sem stúlkan A, fædd árið 1993, var gestkomandi, strokið brjóst hennar og kynfæri innanklæða.
Telst þetta varða við 2. mgr. 202 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992 og 4. gr. laga nr. 40/2003.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Bótakrafa: Af hálfu A, kt. [...], [...], Reykjavík, er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur kr. 900.000, auk vaxta skv. 8., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 14. ágúst 2004 þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu, en með dráttarvöxtum skv. 9., sbr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, svo og skaðabóta vegna kostnaðar við bótakröfuna.“
Skipaður verjandi ákærða, Eiríkur Elís Þorláksson hdl., hefur fyrir hönd ákærða aðallega gert þær kröfur í refsiþætti málsins að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að honum verði gerð vægasta refsing er lög leyfa. Hvað bótakröfu varðar krefst verjandi þess aðallega fyrir hönd ákærða að bótakröfunni verði vísað frá dómi, en til vara að ákærði verði sýknaður af kröfunni. Í öllum tilvkum krefst verjandi þess að sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. hæfileg málsvarnarlaun honum til handa.
Skipaður réttargæslumaður, Ása Ólafsdóttir hdl., hefur fyrir hönd B, móður A, gert sömu kröfur og fram koma í ákæru. Þá krefst réttargæslumaður hæfilegrar þóknunar sér til handa.
I.
Samkvæmt rannsóknargögnum lögreglu kom B, móðir A, á lögreglustöðina í Þ, sunnudaginn 15. ágúst 2004, um kl. 11:38. Tilkynnti B lögreglu að nefnd dóttir hennar hefði orðið fyrir kynferðisbroti af hendi bróður mágs tilkynnanda, X, ákærða í máli þessu.
Í frumskýrslu lögreglu er haft eftir B að A hafi átt að gista hjá systur B, C, aðfaranótt sunnudagsins, en um kl. 04:00 hafi A hins vegar birst í tjaldvagni/fellihýsi því sem móðir hennar svaf í ásamt sambýlismanni. Er A hefði vaknað um morguninn hefði hún farið að gráta og væri hún búin að gráta nánast stanslaust síðan. Hún hefði sagt móður sinni að maður sem gisti hjá C og manni hennar, D, hefði verið að strjúka henni í nótt og farið í klofið á henni.
Laust eftir hádegi sama dag kom B að nýju á lögreglustöðina í Þ og þá ásamt stúlkunni A. Lýsti A þá því fyrir lögreglu að hún hefði vaknað um kl. 04:00 um nóttina og þá hafi „[X] þessi“ verið að káfa á henni. Taldi stúlkan hann hafa verið mjög drukkinn. Hún sagði hann hafa nuddað kynfæri hennar og sett fingur í leggöng. Jafnframt hefði hann farið með hendur inn undir bol þann sem hún var í og káfað á brjóstum hennar.
Stúlkan upplýsti lögreglu um að hún hefði sofið í sömu fötum og hún var í er hún kom á lögreglustöðina, hvítum Errea íþróttastuttbuxum, nærbuxum og svörtum stuttermabol með KR-merkinu og auglýsingamerkjum.
Fram kom hjá stúlkunni að hún hefði brostið í grát og beðið um að fá að fara til móður sinnar. X hefði boðist til að fylgja henni og hún þegið fylgdina en er þau hefðu verið komin nokkur skref frá húsinu hefði hann snúið við og hún orðið ein eftir úti. Stúlkan kvaðst hafa haldið göngunni áfram en síðan falið sig við hús við verslunina 10-11. Þar hefði kona um þrítugt, lítið hærri en hún sjálf (rúmlega 163 cm), með svart stuttklippt hár, sem verið hefði klædd í svarta síða úlpu eða kápu og rauða skó gengið fram á hana. Kona þessi hefði fylgt henni að fellihýsi móður hennar. Um morguninn hefði stúlkan síðan sagt móður sinni frá þessum atburðum.
Lögregla hófst þegar handa við rannsókn málsins. Mánudaginn 16. ágúst 2004 voru skýrslur teknar af ákærða vegna málsins. Neitaði hann þá alfarið þeim sökum sem A bar hann samkvæmt framansögðu. Sama dag var stúlkan skoðuð á göngudeild Barnaspítala Hringsins af Jóni R. Kristinssyni barnalækni. Ritaði hann læknabréf vegna skoðunarinnar, dags. 31. ágúst 2004, sem liggur fyrir í málinu.
Lögregla ákvað að auglýsa í Fréttablaðinu eftir konu þeirri sem A sagði hafa fylgt henni til móður sinnar um nóttina. Föstudaginn 27. ágúst 2004 gaf sig fram vegna auglýsingarinnar kona að nafni E. Tók lögregla samdægurs skýrslu af konunni.
Að beiðni sýslumannsins í Þ var tekin skýrsla fyrir dómi í Barnahúsi af A þann 23. ágúst 2004. Þá var jafnframt tekin slík skýrsla hinn 9. september sama ár af vitninu F, fæddum 1993, en fram kom í skýrslu A í Barnahúsi að drengurinn hefði er atvik máls gerðust sofið í sömu vistarverum og stúlkan.
Að lokinni rannsókn lögreglu voru gögn málsins send ríkissaksóknara. Ríkissaksóknari höfðaði síðan mál þetta með útgáfu ákæru 22. desember 2004.
II.
Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði aðfaranótt 15. ágúst 2004 gist á heimili bróður síns að Z í Þ. Í húsinu hefði einnig verið tengdafólk bróður hans, meðal annarra mágkona og tengdamóðir. Sérstaklega aðspurður um stúlkuna A sagði ákærði börn hafa verið í húsinu, en nefnda stúlku kvaðst hann ekki þekkja í sjón.
Um miðnætti sagðist ákærði hafa farið einsamall á kaffihús og dvalist þar fram eftir nóttu. Ákærði kvaðst hafa komið til baka að Z einhvern tímann eftir kl.03:00 um nóttina. Þegar inn í húsið var komið hefði hann haldið rakleiðis að rúmi á stigapalli í húsinu, en þar hefði honum fyrr um kvöldið verið tjáð að svefnstaður hans væri. Ákærði kvaðst hafa sest á rúmskörina og hreyft við sænginni. Þá hefði komið í ljós að í rúminu var tengdamóðir bróður ákærða, en ekki sambýliskona ákærða eins og hann hafði haldið. Báðum hefði orðið nokkuð hverft við og konan tekið ákærða heldur illa. Ákærði kvaðst hafa beðist afsökunar og gengið niður stigann og niður í stofu hússins. Hann hefði síðan farið til tengdamóður bróður síns að nýju og ýtt við henni í þeim tilgangi að spyrja hana eftir því hvort hún vissi hvar hann og sambýliskona hans ættu að sofa. Konan hefði tekið ákærða illa og hreytt í hann einhverjum ónotum, hárri röddu. Ákærði kvaðst hafa svarað henni sem svo að óþarfi væri að vekja alla í húsinu, en síðan gengið að herbergi bróður síns í enda gangsins. Er hann hefði opnað herbergishurðina hefði hann séð að bróðir hans og mágkona voru sofandi og því farið án þess að ávarpa þau. Því næst hefði hann lagst í sófa hinum megin í húsinu og sofnað. Einhverju síðar hefði mágkona hans komið og vísað honum á herbergi það sem sambýliskona hans svaf í.
Nánar aðspurður neitaði ákærði því að hann hefði átt samskipti við stúlkuna A um nóttina, eða yfir höfuð í annan tíma. Einnig aftók ákærði með öllu að hann hefði um nóttina staðið við hornsófa, sem stúlkan hefði verið í, og hún þá verið grátandi.
Þá neitaði ákærði því alfarið að hafa sett fingur upp í endaþarm G umrædda nótt.
III.
A skýrði svo frá þegar skýrsla var tekin af henni fyrir dómi í Barnahúsi að hún hefði þá nótt er um ræðir ætlað að gista í C móðursystur sinnar, hjá F frænda sínum og jafnaldra.
Stúlkan sagðist um kl. 02:00 hafa farið að sofa í hornsófa í stofunni. Hefði hún verið klædd í KR-bol og hvítar stuttbuxur, auk nærbuxna. F hefði hins vegar sofið á dýnu á gólfinu við sófann. Þá hefði í stofunni einnig sofið lítill frændi hennar, H að nafni. Í húsinu hefðu einnig sofið frænka hennar og frændi, I og J, og við hlið herbergis þeirra hefði amma stúlkunnar sofið á dýnu. Þá hefðu húsráðendur, D og C, sofið í einu herberginu.
Um kl. 04:00 um nóttina kvaðst stúlkan hafa vaknað við að maður, sem hún sagði eiga kínverska konu og vera „maður systir mömmu, þetta var bróðir hans“, og lýsti sem svolítið litlum, með dökkbrúnt hár og gleraugu, hefði staðið við hornsófann og verið kominn inn á hana í klofinu, inn fyrir stutt- og nærbuxurnar, og byrjaður að nudda hana þar. Sagði stúlkan manninn hafa snert kynfæri hennar og náð að fara „alveg inn“. Við þetta hefði hún orðið hrædd og farið að gráta og maðurinn þá farið að káfa á brjóstum hennar, innan klæða. Hann hefði skömmu síðar einnig hætt því og látið sem ekkert hefði gerst.
Fram kom hjá stúlkunni að hún hefði reynt að vekja F frænda sinn, en án árangurs að því er henni virtist. Er hún hefði innt hann eftir því daginn eftir af hverju hann hefði ekki vaknað hefði hann hins vegar svarað „ég vaknaði en ég sagði það bara ekki“.
Þegar maðurinn hefði látið af athæfi sínu kvað stúlkan hann hafa boðið henni kók sem hún hefði þegið. Kom fram hjá stúlkunni að hún hefði grátið og viljað fara til móður sinnar. Hún hefði síðan gert sér upp magaverk og farið á klósettið. Þar hefði hún pissað og við það kennt til eins og hún væri með blöðrubólgu. Er hún hefði komið af klósettinu hefði hún enn viljað fara til móður sinnar og maðurinn þá boðist til að fylgja henni.
Stúlkan sagði manninn fyrst hafa farið inn í bíl þeirra erinda að ná sér í bjór. Hann hafi jafnframt ítrekað boðið henni bjór, en hún afþakkað boð hans. Þau hefðu síðan gengið af stað en er þau hefðu verið komin nokkur skref frá húsinu hefði maðurinn gengið til baka. Stúlkan sagðist þá hafa tekið á rás og hlaupið hraðar en nokkru sinni áður og að húsi ofan við verslun 10-11 í Þ. Hún hefði falið sig við hús þetta þar sem margir ölvaðir menn hefðu verið á ferli.
Um það bil hálftíma síðar hefði borið að konu sem veitt hefði gráti hennar athygli og spurt hana eftir því hvað að væri. Stúlkan kvaðst ekki hafa þorað að segja konunni frá því sem gerst hafði og því gefið þá skýringu að F frændi hennar hefði alltaf verið að vekja hana. Hún hefði síðan upplýst konuna um að móðir hennar væri á tjaldsvæðinu en að hún þyrði ekki að fara til hennar. Konan hefði tjáð henni að hún gæti farið óhrædd með henni þar sem hún væri svo sterk. Í kjölfarið hefði konan fylgt henni til móður hennar.
Stúlkan bar að hún hefði ekki náð að vekja móður sína er hún kom í tjaldið til hennar. Hún hefði því farið undir sæng og sofnað. Þetta hefði verið um kl. 05:00-05:30. Um morguninn hefði hún síðan sagt móður sinni frá því sem gerst hafði.
Stúlkan sagði móður sína fyrst hafa farið eina á fund lögreglu, en um kl.13:00 hefðu þær mæðgur farið saman á lögreglustöðina þar sem hún hefði greint lögreglu frá málsatvikum.
Fram kom hjá stúlkunni að henni hafi liðið illa eftir að umræddir atburðir gerðust og að hún eigi erfitt með að sofa heima hjá sér. Hún geti einungis sofið heima hjá föðurömmu sinni. Heima hjá sér óttist hún að maðurinn sem gerði á hlut hennar komi þangað og endurtaki gjörðir sínar.
F, fæddur í júlí 1993, greindi svo frá við skýrslutöku fyrir dómi í Barnahúsi að umrædda nótt hefði hann sofið í stofunni heima hjá sér að Z í Þ. Í stofunni hefði einnig sofið A frænka hans og mögulega einnig litli bróðir hans. Drengurinn kvað A hafa sofið í sófanum en sjálfur hefði hann sofið á dýnu á gólfinu. Þá bar drengurinn jafnframt að amma hans hefði sofið „á gólfinu rétt hjá herbergjunum“.
Um nóttina sagðist F hafa vaknað við það að A var að „væla“. Hana hefði langað til móður sinnar og sofa hjá henni.
F bar að þegar hann hefði vaknað við vælið í A hefði X frændi hans verið í stofunni rétt hjá sófanum „þar sem [A] var“. Drengurinn sagðist hafa verið með lokuð augun og því ekki séð X, en hann hefði hins vegar heyrt í honum þar sem hann var hjá A. Drengurinn sagðist einungis hafa opnað augun til að líta á klukku og hún þá verið „5 um nótt eða eitthvað“.
F sagði A hafa sagt „[F] vaknaðu“. Hann hefði þá þegar verið vaknaður, en verið með augun lokuð. Hann hefði þó svarað henni með því að segja „hvað“ en hún ekki heyrt svar hans. Það kvaðst F vita þar sem A hefði innt hann eftir því daginn eftir af hverju hann hefði ekki svarað henni.
Aðspurður um hvort það væri rétt skilið hjá yfirheyranda, að þegar hann hefði vaknað þá hefði það verið við vælið í A og þá hefði X frændi hans verið að hugga hana, svaraði F því játandi. Þá bar drengurinn að X hefði beðið A um að hætta að gráta. Jafnframt hefði hann spurt hana hvort hún vildi fara í fellihýsið eða tjaldvagninn sinn og hún svarað játandi. X hefði sagt A að gleyma ekki fötunum og síðan hefði hún farið alein á brott. X hefði hins vegar farið út úr stofunni og að sofa. F kvaðst þá hafa farið aftur að sofa.
E lýsti atvikum máls svo fyrir dómi að hún hefði aðfaranótt 15. ágúst 2005, líklega milli kl. 03:00 og 04:00, mögulega þó eitthvað síðar, verið á leið heim til föður síns þegar hún hefði séð einhvern illa klæddan hlaupa yfir götuna. E kvaðst hafa haldið göngunni áfram og skömmu síðar hefði hún heyrt snökt. Hún hefði stoppað og litast um og þá komið auga á stúlku, sem hún hefði ætlað um 14 ára gamla, vera í hnipri inni í runna skammt frá.
E sagðist hafa kallað til stúlkunnar og beðið hana um að koma fram. Í fyrstu hefði stúlkan ekki viljað það en síðan hefði hún komið til hennar. Stúlkunni hefði augljóslega verið mjög mikið niðri fyrir og hún verið miður sín, snöktandi, með mikinn ekka og vart getað talað. Þá hefði stúlkan verið illa klædd, í stuttbuxum og stuttermabol. E sagðist hafa spurt stúlkuna eftir nafni og aldri en átt erfitt með skilja svör hennar. Þó kvaðst hún telja að stúlkan hefði sagst vera á tólfta ári. E sagðist hafa haldið áfram að tala við stúlkuna og hefði stúlkan þá sagt henni að hún hefði verið í heimahúsi en þar hefði hún ekki fengið næði vegna skemmtanahalds og því væri hún á leið niður á tjaldstæði til móður sinnar. Þangað þyrði hún hins vegar ekki vegna þess hversu mikið þar væri af fólki. E sagðist í kjölfarið hafa fylgt stúlkunni að tjaldvagni móður hennar, en stúlkan hefði ekki verið í neinum vafa um hvar hann væri. E kvaðst hafa hinkrað skamma stund eftir að stúlkan var farin inn í tjaldvagninn en þegar hún hefði heyrt fólk tala þar inni hefði hún farið.
Það næsta sem E sagðist hafa heyrt af málinu hefði verið þegar hún sá auglýsingu í Fréttablaðinu þar sem auglýst var eftir henni.
B greindi svo frá fyrir dómi að umrædda nótt hefði dóttir hennar, A, fengið að gista heima hjá frænda sínum og syni systur B, C, að Z í Þ. B kvaðst sjálf hafa sofið í tjaldvagni á tjaldstæðinu og hefði hún yfirgefið heimili systur sinnar upp úr miðnætti.
Undir morgun sagðist B hafa vaknað við ofboðslegan grát A. Áréttaði B þessa tímasetningu sérstaklega í tilefni af ummælum í frumskýrslu lögreglu um að hún hefði vaknað kl. 04:00. B kvaðst hafa spurt stúlkuna um hvað væri að en stúlkan grátið svo mikið að hún hefði ekki skilið hana. Það eina sem hún hefði skilið hefði verið „karlinn, karlinn“. Hún hefði þá farið yfir í tjald bróður síns og vakið hann. Fljótlega hefði síðan runnið upp fyrir henni hvers kyns væri.
B kvaðst fyrst hafa farið einsömul á lögreglustöðina í Þ en þær mæðgur síðan farið þangað saman stuttu síðar. Eftir það hefði hún ætlað til systur sinnar en A þá harðneitað og sagt karlinn vera þar. Hún hefði tjáð dóttur sinni að hún skyldi gæta hennar og þær síðan farið að Z. Þar hefði allt verið í uppnámi og móðir hennar „kolvitlaus“ og sagt frá því að ákærði hefði farið með fingur í rassinn á henni.
B sagði dóttur sína hafa sagt sér það um umrætt atvik að maðurinn hefði meitt hana, káfað á brjóstum hennar og hún farið að gráta. Þá hefði maðurinn ítrekað boðið henni bjór. B sagði dóttur sína hafa verið vissa um hvaða mann hefði verið að ræða og vísað til þess að það hefði verið maður kínversku konunnar/útlensku konunnar.
Fram kom hjá B að dóttur hennar hefði fyrir umrætt atvik liðið vel og henni gengið vel í skóla. Á þessu hefði orðið mikil breyting. Hjá henni hefði gætt ótta við að „maðurinn“ kæmi. Þá gæti nú hjá stúlkunni sinnuleysis hvað varðar útlit, hún sé mjög þung andlega og hana skorti gleði.
G bar fyrir dómi að umrædda nótt hefði hún gist á heimili dóttur sinnar, C, að Z í Þ. Í húsinu hefði gist nokkuð af fólki, meðal annarra ákærði og kona hans.
G sagðist hafa sofið á dýnum á gangi í húsinu, í námunda við stiga sem liggi að/frá hornsófa í sjónvarpsholi samkvæmt framlögðum myndum, en myndirnar voru bornar undir G fyrir dómi. Í sófanum kvaðst G hafa vitað að til hefði staðið að F og A svæfu um nóttina. Hún hefði hins vegar ekki veitt því athygli er hún hefði lagst til hvílu hvort sú ráðagerð hefði gengið eftir.
Fram kom hjá G að um nóttina hefði hún vaknað við að ákærði „var kominn í endaþarminn á mér“. Ákærði hefði gefið þá skýringu á þessu athæfi sínu að hann hefði tekið feil á henni og sambýliskonu sinni. G sagðist hafa brugðist reið við og í kjölfarið komið til stuttra orðaskipta milli hennar og ákærða, sem beðið hefði hana um að hafa ekki hátt.
Eftir lýst samskipti þeirra ákærða kvaðst G hafa heyrt ákærða rápa „út og inn“, en vitnið sagði vel heyrast þegar gengið sé upp og niður tröppur þær sem liggi upp á ganginn þar sem hún svaf. Var á G að skilja að hún hefði síðan sofið nokkuð slitrótt til morguns.
G upplýsti að hún hefði skerta heyrn og sérstaklega heyrði hún illa með öðru eyranu. Hún væri með heyrnartæki í því eyra en tækið fjarlægði hún ávallt úr eyranu fyrir svefninn.
Ennfremur bar G að hún hefði fyrst heyrt af atviki því er A varðaði eftir hádegi daginn eftir. Ákærði hefði þá verið farinn úr húsinu.
IV.
Að beiðni ríkissaksóknara, dags. 5. apríl 2005, ritaði Ólöf Ásta Farestveit, uppeldis- og afbrotafræðingur, skýrslu um viðtalsmeðferð A. Skýrsla Ólafar Ástu er dagsett 6. maí 2005 og í upphafi skýrslunnar kemur fram að ósk um meðferðarviðtölin hafi komið til hennar með beiðni barnaverndarnefndar Reykjavíkur, dags. 30. ágúst 2004.
Í skýrslunni kemur meðal annars fram að Ólöf Ásta hafi hitt A í 11 skipti frá 26. ágúst 2004 til 24. febrúar s.l. og hafi flest viðtölin farið fram í skóla stúlkunnar.
Í fyrsta viðtalinu segir skýrsluhöfundur A hafa verið mjög beygða og klökka og hún átt erfitt með að tjá sig. Hún hafi talað um hversu erfið skýrslutakan hafi reynst henni og hversu illa henni hafi liðið meðan á henni stóð og á eftir. Fyrstu vikurnar hafi hún hugsað mikið um það sem gerðist í Þ og verið föst í þeim hugsunum og þær oft haldið fyrir henni vöku. Stúlkan hafi hræðst að sofa ein og alltaf sofið uppi í rúmi hjá móður sinni, en það hafi hún ekki lagt í vana sinn áður. Þá hafi hún hræðst mjög meintan geranda eftir að hún sagði frá.
Í skýrslunni kemur fram að samkvæmt niðurstöðum Kovacs spurningarlistans, sem lagður hafi verið fyrir stúlkuna, beri hún engin merki um þunglyndi.
Þá segir skýrslunni að stúlkan hafi kvartaði yfir ítrekuðum höfuðverkjum og almennri vanlíðan, án þess að læknisfræðileg skýring fyndist. Verkirnir hafi oft komið í kjölfar mikillar hræðslu sem stúlkan hafi fundið fyrir með reglulegu millibili. Hún hafi ávallt verið hræddust um að ákærði kæmi á heimili hennar og verið sannfærð um að það myndi hann gera einn daginn þegar hún væri ein heima. Þessi hræðsluviðbrögð hafi aukið mjög á álagið á stúlkunni og hún ítrekað brotnað niður yfir lærdómnum ef hann krafðist einhvers af henni og hún þá grátið mikið í kjölfarið.
Skýrsluhöfundur kveður stúlkuna ennfremur hafa uppfyllt ýmis einkenni áfallastreitu. Hún hafi truflandi minningar um atvikið og af þeim sökum átt erfitt með að sofna á kvöldin. Hana hafi ítrekað dreymt atvikið og upplifað kvíða og hræðslu vegna ytra og innra áreitis sem minnt hafi hana á það. Stúlkan hafi einnig haft hliðranir við hugsunum og tilfinningum sem og fólki sem minnt hafi hana á atvikið. Jafnframt hafi hún átt með að einbeita sér.
Í skýrslunni segir að stúlkan hafi átt það til að yfirfæra gjörðir ákærða á aðra karlmenn sem truflað hafi hana í daglegu lífi og breytt mynd hennar af samfélaginu. Hún hafi verið uppfull af hugsunum um hvort og hvaða menn hafi misnotað börn. Þá telji hún menn með skegg á neðri vör alla gerendur í kynferðisbrotum, en þannig hafi hún séð meintan geranda fyrir sér.
Að lokum segir í skýrslunni að í lok febrúar s.l. hafi líðan stúlkunnar verið orðin nokkuð góð enda hafi hún þá fengið upplýsingar um að ákærði væri fluttur af landi brott, en við það hafi hræðsla hennar minnkað til muna. Af þeim sökum hafi verið tekin ákvörðun um að gera hlé á meðferðarviðtölum, en í maí s.l. hafi síðan verið ákveðið að hefja meðferð að nýju vegna aukinnar vanlíðunar stúlkunnar.
Ólöf Ásta Farestveit kom fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og staðfesti og skýrði framanrakta skýrslu sína. Fram kom hjá Ólöfu Ástu að hún hefði í upphafi meðferðarinnar einungis fengið upplýsingar um hvað fyrir stúlkuna hefði komið. Gögn eða upplýsingar um líðan og ástand stúlkunnar fyrir þann tíma hefði hún ekki fengið.
Jón R. Kristinsson barnalæknir ritaði læknabréf vegna skoðunar sem hann framkvæmdi á A þann 16. ágúst 2004. Í bréfi læknisins segir meðal annars að við almenna, líkamlega skoðun hafi komið fram marblettir til hliðar og aftan á ofanverðum lærum. Óljóst væri hvernig marblettirnir væru til komnir, en stúlkan borið að hún hafi rekið sig á. Önnur ytri áverkamerki hafi ekki fundist við skoðunina.
Hvað kynþroska varðaði segir í bréfi læknisins að stúlkan væri með brjóstaþroska, stig III-IV samkvæmt stigum Tanners, en þroski ytri kynfæra stig I-II, sem væri rétt byrjandi hárvöxtur. Hún væri ekki farin að hafa á klæðum.
Kynfæri stúlkunnar eru sögð hafa verið eðlileg við skoðun, engin áverkamerki að sjá, slímhimnur eðlilegar og meyjarhaft órofið. Endaþarmssvæði eðlilegt. Þvagsýni hafi verið tekið í ræktun og PCR fyrir Chlamydiu og hafi það ekkert óeðlilegt leitt í ljós. Í niðurlagi bréfsins tekur læknirinn fram að þó svo engin áverkamerki hafi fundist á kynfærum stúlkunnar útiloki það alls ekki að hún hafi orðið fyrir kynferðislegu áreiti.
Jón R. Kristinsson kom fyrir dóm og staðfesti og skýrði tilvitnað læknabréf sitt.
V.
Ákærði hefur frá upphafi alfarið neitað sök í málinu. Einnig hefur hann neitað að hafa átt nokkur samskipti við stúlkuna A umrædda nótt.
Í kafla III hér að framan er rakinn framburður A fyrir dómi í Barnahúsi. Fram kom hjá stúlkunni að hún hefði um kl. 04:00 vaknað við að maður stóð við hornsófa þann sem hún svaf í og hefði maðurinn verið kominn inn á hana í klofinu, inn fyrir stutt- og nærbuxur, og byrjaður að nudda hana þar. Sagði stúlkan manninn hafa snert kynfæri hennar. Stúlkan kvaðst við þetta hafa orðið hrædd og farið að gráta. Þá sagði stúlkan manninn einnig hafa káfað á brjóstum hennar innan klæða. Mann þennan sagði stúlkan hafa verið „maður systir mömmu, þetta var bróðir hans“. Jafnframt sagði hún manninn eiga kínverska konu.
Fyrir liggur að ákærði er bróðir D, en kona D er C, systir B, móður stúlkunnar A. Þá er einnig upplýst í málinu að sambýliskona ákærða er kínversk. Að þessu virtu þykir hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði sé sá maður sem A ber þeim sökum að hafa áreitt hana á framangreindan hátt.
A bar einnig að hún hefði reynt að vekja frænda sinn og jafnaldra, F, sem sofið hefði á dýnu á gólfinu við áðurnefndan hornsófa. Hélt stúlkan í fyrstu að það hefði henni ekki tekist. Daginn eftir sagði hún F hins vegar hafa tjáð sér að hann hefði vaknað. Í tilefni þessara orða stúlkunnar var skýrsla tekin af F í Barnahúsi. Þar staðfesti drengurinn að hann hefði sofið á dýnu á gólfinu í sama herbergi og stúlkan. Drengurinn bar jafnframt að um nóttina hefði hann vaknað við að A var að „væla“. Kom fram hjá drengnum að þegar hann hefði vaknað hefði X frændi hans verið í stofunni rétt hjá sófanum „þar sem A var“. Vafalaust er að samkvæmt framburði drengsins heyrði hann stúlkuna og ákærða ræða saman. Af framburði drengsins verður hins vegar ekki skýrlega ráðið hvernig hann vissi að um ákærða var að ræða, en framburður hans var allt að einu afdráttarlaus um að svo hefði verið.
A bar að hún hefði eftir að ákærði lét af athæfi sínu haldið áfram að gráta og viljað fara til móður sinnar. Hið sama kom fram hjá F. Stúlkan sagði ákærða í framhaldinu hafa fylgt henni nokkur skref áleiðis frá húsinu við Z en hann síðan snúið við. Hún hefði þá tekið á rás en síðan staðnæmst við hús ofan við verslun 10-11 í Þ. Þar hefði hún falið sig. Um það bil hálftíma síðar hefði borið að konu sem veitt hefði gráti hennar athygli og ávarpað hana. Konan hefði í kjölfarið fylgt henni að svefnstað móður hennar. Lögreglan í Þ auglýsti í Fréttablaðinu eftir umræddri konu. Gaf sig þá fram E. Fyrir dómi bar E að líklega milli kl. 03:00 og 04:00 umrædda nótt, mögulega þó eitthvað síðar, hefði hún rekist á illa klædda stúlku skammt frá tjaldstæðinu í Þ. Stúlkunni sagði E hafa verið mjög mikið niðri fyrir og hún verið miður sín, snöktandi og með mikinn ekka. E kvaðst hafa átt erfitt með að skilja stúlkuna en henni þó skilist á stúlkunni að hún hefði farið úr húsi í bænum þar sem henni hefði ekki verið vært þar vegna skemmtanahalds. E sagðist í framhaldinu hafa fylgt stúlkunni að tjaldvagni sem stúlkan hefði fullyrt að móðir hennar svæfi í, stúlkan síðan farið inn í tjaldvagninn, og er E hefði heyrt fólk tala inni í tjaldvagninum hefði hún farið á brott.
A bar að hún hefði ekki náð að vekja móður sína er hún kom inn til hennar um nóttina. Hún hefði því farið undir sæng og sofnað. Um morguninn hefði hún síðan sagt móður sinni frá því sem gerst hefði. Móðir stúlkunnar, B bar fyrir dómi að hún hefði undir morgun vaknað við ofboðslegan grát dóttur sinnar. Hún hefði í fyrstu lítið skilið af orðum dótturinnar annað en „karlinn, karlinn“. Þegar á leið hefði stúlkan hins vegar náð að koma því til skila að maður kínversku/útlensku konunnar hefði meitt hana, káfað á brjóstum hennar og hún við það farið að gráta.
Framburður ákærða um málsatvik umrædda nótt er samkvæmt framansögðu í algerri andstöðu við framburð A. Þá er hann einnig í andstöðu við framburð F að því leyti að drengurinn, líkt og A, sagði ákærða hafa verið við sófa þann sem stúlkan svaf í þegar hann vaknaði um nóttina við grát hennar og hefðu orðaskipti átt sér stað milli stúlkunnar og ákærða. Að auki ber ákærða og G ekki saman um hver samskipti þeirra hafi verið um nóttina. Framburður A fær hins vegar stoð í framburði F, E og móður stúlkunnar, B. Þá bendir skýrsla Ólafar Ástu Farestveit, sem reifuð er í IV. kafla dómsins, eindregið til þess að stúlkan hafi orðið fyrir verulegu andlegu áfalli, sem Ólöf Ásta bar fyrir dómi að stúlkan hefði í þeirra samtölum tengt beint við meint brot ákærða.
Fyrir því eru fjölmörg fordæmi Hæstaréttar Íslands að leggja vitnaskýrslur, sem teknar eru fyrir dómi með þeim hætti er skýrslur af A og F voru teknar, til grundvallar sakfellingu í opinberu máli. Að því virtu þykir sannað með trúverðugum framburði stúlkunnar A og þeim gögnum og vitnaframburðum sem honum eru til stuðnings samkvæmt ofansögðu, svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, að ákærði hafi framið brot það sem honum er gefið að sök í ákæru. Brot ákærða varðar við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
VI.
A.
B gerir kröfu um miskabætur fyrir hönd dóttur sinnar, A, brotaþola í málinu, að fjárhæð 900.000 kr., auk vaxta skv. 8. sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. ágúst 2004 til 2. janúar 2005, en með dráttarvöxtum skv. 9., sbr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Um rökstuðning fyrir bótakröfunni er vísað til þess að um sé að ræða kynferðisbrot sem ákærði beri skaðabótaábyrgð á samkvæmt ákvæðum 26. gr. laga nr. 50/1993, sbr. 170. gr. laga nr. 19/1991. Er því haldið fram að við kynferðisbrot verði brotaþoli alltaf fyrir miskatjóni. Við mat á fjárhæð bótanna beri að líta til þess hversu alvarlegt brotið sé, hvert sakarstig ákærða sé, þá sé litið til huglægrar upplifunar brotaþola og umfangs tjónsins.
Til stuðnings miskabótakröfunni er nánar vísað til þess að brotaþoli hafi verið ungur að árum og á viðkvæmu skeiði í kynferðisþroska þegar brotið var framið og reynslan því verið henni afar þungbær. Atburðurinn sæki mjög á stúlkuna og trufli daglegt líf hennar og hún meðal annars af þeim sökum þurft að leita sér sérfræðiaðstoðar. Þá hafi stúlkan skömmu eftir brotið verið lögð inn á Landsspítalann vegna verkja í kviðarholi. Við skoðun hafi komið í ljós að verkirnir yrðu ekki skýrðir á annan hátt en þann að þeir væru af sálrænum toga. Stúlkan hafi jafnframt fundið fyrir stífleika í öxlum eftir brotið og af þeim sökum þurft á meðferð sjúkraþjálfara að halda. Ennfremur hafi brot ákærða haft í för með sér neikvæð áhrif á geðheilsu og félagslega aðlögun stúlkunnar og jafnframt leitt til neikvæðrar sjálfsmyndar hennar. Hún hafi ekki getað sofið ein eftir að umrætt atvik átti sér stað og þá fari hún ekki lengur í sund. Þá sé stúlkan sífellt hrædd um að ákærði muni leita hana uppi og vilji því ekki vera ein heima. Einbeiting hennar hafi minnkað, bæði heima við og í skóla. Hún finni fyrir mikilli andlegri vanlíðan, fái grát- og kvíðaköst og sýni af sér hegðun sem ekki hafi verið til staðar fyrir brotið. Einnig vantreysti hún öllum karlmönnum og vilji ekki umgangast þá.
Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið er því haldið fram að brot ákærða hafi valdið brotaþola miklum miska sem bæta skuli eftir því sem sanngjarnt þyki samkvæmt ákvæðum 26. gr. laga nr. 50/1993, sbr. 170. gr. laga nr. 19/1991.
B.
Brotaþoli á rétt til miskabóta úr hendi ákærða vegna þeirrar ólögmætu meingerðar sem í broti hans fólst, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Háttsemi eins og sú sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir er almennt til þess fallin að valda þeim er fyrir verður andlegum erfiðleikum. Í skýrslu Ólafar Ástu Farestveit, en hún fékk brotaþola til viðtalsmeðferðar þann 26. ágúst 2004, kemur meðal annars fram að stúlkan hafi eftir brot ákærða verið þjökuð af mikilli hræðslu, svefntruflunum, einbeitingarskorti og sýnt ýmis einkenni áfallastreitu. Einnig hafi brot ákærða breytt samfélagsmynd stúlkunnar og hún verið uppfull af hugsunum um hvort og hvaða menn hafi misnotað börn. Samkvæmt öllu þessu þykir sannað að brot ákærða hafi valdið stúlkunni verulegum miska.
Við mat á miska þykir auk framangreindra atriða einnig mega líta til hins unga aldurs brotaþola, en stúlkan var einungis 10 ára er ákærði framdi brot sitt. Að öllu þessu athuguðu þykja miskabætur til handa brotaþola hæfilega ákvarðaðar 300.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. ágúst 2004 til 2. janúar 2005, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga, sbr. 9. gr. laganna, frá þeim degi til greiðsludags, en ákærða var samkvæmt rannsóknargögnum lögreglu birt bótakrafan þann 2. desember 2004.
VI.
Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærða ekki áður verið gerð refsing. Að broti ákærða virtu þykir refsing hans hæfilega ákveðin 4 mánaða fangelsi. Eftir atvikum og með vísan til þess að ákærði á engan sakaferil að baki þykir með heimild í 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 mega fresta fullnustu 2 mánaða af refsingu ákærða og skal sá hluti refsingarinnar falla niður að liðnum 3 árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Með vísan til niðurstöðu dómsins hér að framan, sbr. 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, þykir rétt að ákærði greiði allan kostnað sakarinnar, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Eiríks Elís Þorlákssonar hdl., og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Ásu Ólafsdóttur hdl., bæði á rannsóknarstigi málsins og fyrir dómi, en málsvarnarlaunin og þóknunin þykja hæfilega ákveðin svo sem í dómsorði greinir.
Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson, settur héraðsdómari, sem dómsformaður, ásamt héraðsdómurunum Símoni Sigvaldasyni og Skúla Magnússyni.
D Ó M S O R Ð:
Ákærði, X, sæti 4 mánaða fangelsi en fresta skal fullnustu 2 mánaða af refsingu hans og skal sá hluti refsingarinnar falla niður að liðnum 3 árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði A 300.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. ágúst 2004 til 2. janúar 2005, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. nefndra laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði allan kostnað sakarinnar, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Eiríks Elís Þorlákssonar hdl., 300.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns, Ásu Ólafsdóttur, 170.000 krónur.