Hæstiréttur íslands
Mál nr. 459/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Innsetningargerð
- Aðildarhæfi
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Föstudaginn 3. desember 1999. |
|
Nr. 459/1999. |
Stjórn Sjálfseignarfélagsins dýraspítali Watsons (Lára V. Júlíusdóttir hrl.) gegn Sigríði Ásgeirsdóttur (Þorsteinn Einarsson hrl.) |
Kærumál. Innsetningargerð. Aðildarhæfi. Frávísun máls frá héraðsdómi.
Stjórn sjálfseignarfélagsins DW krafðist heimildar til að fá með beinni aðfarargerð gögn úr hendi S, sem stjórnin hafði vikið úr starfi framkvæmdastjóra félagsins. Talið var að félagsstjórn væri ekki persóna að lögum og hana skorti því hæfi til að geta orðið aðili að dómsmáli. Var slíkur galli talinn á málatilbúnaði stjórnar félagsins að óhjákvæmilegt væri að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. nóvember 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. nóvember 1999, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að honum yrði veitt heimild til að fá með beinni aðfarargerð úr höndum varnaraðila bókhaldsgögn Sjálfseignarfélagsins dýraspítali Watsons vegna ársins 1998, eignir Minningarsjóðs Peders J. Steffensen og eignir félagssjóðs dýraspítalans. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að umbeðin aðfarargerð nái fram að ganga, svo og að varnaraðila verði gert að greiða kærumálskostnað.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar um annað en málskostnað, sem hún krefst í héraði ásamt kærumálskostnaði. Kröfu um málskostnað beinir hún aðallega óskipt að Reykjavíkurborg, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum og Hestamannafélaginu Fáki, en til vara að Vilhjálmi Skúlasyni.
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði á málið rætur að rekja til ágreinings innan Sjálfseignarfélagsins dýraspítali Watsons. Haldinn var aðalfundur í félaginu 12. janúar 1999, sem varnaraðili og fleiri félagsmenn telja hafa verið ólögmætan, en þar var kosin sú stjórn þess, sem stendur að sókn þessa máls. Hinn 29. apríl 1999 efndi varnaraðili ásamt nokkrum öðrum, sem skipuðu stjórn félagsins frá árinu 1998, til aðalfundar, þar sem önnur stjórn var kjörin. Af gögnum málsins verður ráðið að varnaraðili hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra félagsins um nokkurt skeið. Félagsstjórnin, sem sótti umboð sitt til aðalfundar 12. janúar 1999, ákvað á fundi 10. mars sama árs að víkja varnaraðila úr því starfi. Á aðalfundinum, sem var haldinn 29. apríl 1999, var á hinn bóginn samþykkt að framlengja ráðningu varnaraðila í starf framkvæmdastjóra. Í málinu byggir sóknaraðili á því að varnaraðila hafi réttilega verið vikið úr starfinu og krefst aðfarargerðar til að fá nánar tiltekna muni félagsins úr hendi hennar.
Í beiðni sóknaraðila um aðfarargerð segir að gerðarbeiðandi sé „stjórn Sjálfseignarfélagsins Dýraspítala Watsons“. Í hinum kærða úrskurði er þess sérstaklega getið að lögmaður sóknaraðila hafi áréttað að sóknaraðilinn sé stjórn félagsins, en ekki félagið sjálft. Félagsstjórn er ekki persóna að lögum, sem getur átt réttindi og borið skyldur að landslögum, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hana skortir því hæfi til að geta orðið aðili að dómsmáli. Fyrst þeir menn, sem telja sig skipa stjórn Sjálfseignarfélagsins dýraspítali Watsons, hafa kosið að láta ekki félagið standa að sókn þessa máls, heldur að gera það sjálfir, var óhjákvæmilegt að þeir kæmu fram í sameiningu og nafngreindir sem sóknaraðilar. Var þeim mun frekar gefið tilefni til þess með því að tveir þeirra, sem kjörnir voru í stjórn félagsins á aðalfundi 12. janúar 1999, hafa ritað undir yfirlýsingu 15. september sama árs, þar sem meðal annars er tekið fram að rekstur þessa máls sé gegn vilja þeirra. Er því slíkur galli á málatilbúnaði sóknaraðila að óhjákvæmilegt er að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti og kemur því þegar af þeirri ástæðu ekki til álita krafa hennar um málskostnað í héraði. Þeir, sem varnaraðili beinir kröfu um kærumálskostnað að, eru ekki aðilar að málinu. Brestur þannig heimild til að dæma málskostnað úr þeirra hendi. Verður kærumálskostnaður því ekki dæmdur.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. nóvember 1999.
Mál þetta var þingfest 12. júlí 1999 og tekið til úrskurðar 27. september 1999 að loknum munnlegum málflutningi.
Gerðarbeiðandi kveðst vera Stjórn Sjálfseignarfélagsins Dýraspítala Watsons, kt. 640177-0209. Gerðarþoli er Sigríður Ásgeirsdóttir, kt. 140427-2849, Fjölnisvegi 16, Reykjavík. Eftirleiðis verður vísað til málsaðila sem sóknaraðila og varnaraðila.
Dómkröfur sóknaraðila eru þær að kveðið verði á um skyldu varnaraðila til að veita sóknaraðila umráð eftirtalinna gagna og eigna Sjálfseignarfélagsins Dýraspítala Watsons:
1. Bókhaldsgögn vegna ársins 1998
2. Minningarsjóð Peder J. Steffensen, kt. 531094-2559
3. Félagssjóð Dýraspítalans, sjálfseignarstofnunar, kt. 640177-0209
Dómkröfur varnaraðila eru þær, að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili þess, að Reykjavíkurborg, kt. 530269-7609, Ráðhúsinu, Reykjavík, Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, kt. 640479-0279, Fitjum, Njarðvík og Hestamannafélagið Fákur, kt. 520169-2969, Víðivöllum, Reykjavík, verði in solidum úrskurðaðir til greiðslu málskostnaðar að viðbættum 24.5% virðisaukaskatti samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi. Verði ekki fallist á kröfu varnaraðila um málskostnað úr hendi fyrrgreindra aðila er þess krafist að Vilhjálmur Skúlason, kt. 061262-4079, Malarási 11, Reykjavík, verði úrskurðaður til að greiða varnaraðila málskostnað að viðbættum 24.5% virðisaukaskatti, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi. Þá krefst varnaraðili þess, ef fallist verður á kröfu sóknaraðila, að úrskurðað verði að kæra úrskurðar héraðsdómara fresti framkvæmd aðfarargerðarinnar.
Málavextir:
Í skipulagsskrá fyrir Sjálfseignarfélagið Dýraspítali Watsons (hér eftir SDW) eru eftirtaldir aðilar tilgreindir sem stofnendur: Reykjavíkurborg, Samtök sveitarfélaga í Reykjanesumdæmi, Dýraverndunarfélag Reykjavíkur, Hundavinafélag Íslands, Hestamannafélagið Fákur og Samband dýraverndunarfélaga Íslands. Þessir aðilar skipa hver um sig tvo menn í félagið til eins árs í senn. Rekstur félagsins er í höndum stjórnar þess, sem kosin er á aðalfundi félagsins ár hvert. Þar skal kjósa formann sérstaklega og varaformann, en auk þess tvo meðstjórnendur og varamenn þeirra.
Ómótmælt er að á framhaldsaðalfundi félagsins hinn 7. maí 1998 hafi eftirtaldir verið kosnir í stjórn félagsins:
1. Sigfríð Þórisdóttir kt. 230459-3499, fulltrúi Sambands dýraverndunarfélaga Íslands, formaður
2. Hlín Brynjólfsdóttir kt. 060853-2079, fulltrúi Hundavinafélags Íslands, varaformaður
3. Gunnar Borg kt. 100942-4109, fulltrúi Hundavinafélags Íslands, meðstjórnandi
4. Sigríður Ásgeirsdóttir kt. 140427-2849, fulltrúi Reykjavíkurborgar, meðstjórnandi
5. Eygló Gunnarsdóttir kt. 200252-3229, fulltrúi Sambands dýraverndunarfélaga Íslands, varastjórn
6. Jóhann Indriðason, fulltrúi Dýraverndunarfélags Reykjavíkur, varastjórn.
Ósætti kom upp meðal stjórnarmanna er líða tók á árið 1998. Samband dýraverndunarfélaga Íslands (SdÍ) sendi Sigfríði Þórisdóttur, sem var annar tveggja fulltrúa félagsins á aðalfundi þá um vorið, símskeyti þann 7. desember 1998. Þar segir svo: ,,Félagsfundur í Sambandi dýraverndunarfélaga Íslands, haldinn 5. desember 1998, lýsir yfir vantrausti á störf þín sem formanns Sjálfseignarfélagsins Dýraspítali Watsons og skorar á þig að segja af þér formennsku nú þegar. Að öðrum kosti dregur Samband dýraverndunarfélaga Íslands til baka skipun þína í Sjálfseignarfélagið Dýraspítali Watsons.” Ályktun fundarins er áréttuð með símskeyti til Sigfríðar Þórisdóttur, sem dagsett er 6. janúar 1999. Símskeytið hljóðar svo: ,,Hér með er ítrekað að þér var vikið úr Sjálfseignarfélaginu Dýraspítali Watson hinn 5. desember sl. og eru öll afskipti þín af Sjálfseignarfélaginu óheimil og óskuldbindandi fyrir félagið.” Sendandi símskeytisins er Hlín Brynjólfsdóttir og titlar hún sig sem formann Sjálfseignarfélagsins Dýraspítali Watsons. Sigfríð Þórisdóttir hafði áður sem formaður SDW boðað til aðalfundar 12. janúar 1999 með bréfi, dagsettu 4. janúar 1999, og gaf þá skýringu í fundarboði að stjórn félagsins væri óstarfhæf. Þann 7. janúar var tilnefningaraðilum í SDW sent bréf undirritað af Hlín Brynjólfsdóttur sem formanni SDW og Gunnari Borg. Í bréfinu lýstu þau yfir, að Sigfríð Þórisdóttir væri ekki lengur formaður félagsins þar sem skipun hennar sem fulltrúa Sambands Dýraverndunarfélaga Íslands hafi verið dregin til baka, Hlín Brynjólfsdóttir hafi tekið við formennsku og Þorleifur Björnsson hafi verið kjörinn fulltrúi SdÍ í SDW í stað Sigfríðar. Í bréfinu var fundarboð Sigfríðar til aðalfundar lýst marklaust og ólögmætt á grundvelli þess, að hún hefði misst umboð sitt sem formaður SDW og vegna þess að í skipulagsskrá SDW segi að stjórn félagsins boði til aðalfundar. Með yfirlýsingu dagsettri 12. janúar 1999 var fundi þessum enn mótmælt sem broti á skipulagsskrá sjálfseignarfélagsins og áréttað, að Sigfríð Þórisdóttir hefði ekki lengur umboð, sem fulltrúi í sjálfseignarfélaginu. Eftirtaldir aðilar undirrituðu þá yfirlýsingu: Hlín Brynjólfsdóttir, Júlía M. Sveinsdóttir, Lúðvík Vilhjálmsson, Þorlákur Björnsson og Sigríður Ásgeirsdóttir. Öll mættu þau sem fulltrúar á svonefndan aðalfund, sem haldinn var 12. janúar 1999 og neittu þar meðal annars atkvæðisréttar við kosningu nýrrar stjórnar. Frá þessum tíma virðast tvær stjórnir hafa verið starfandi, sem hvor um sig telja sig réttbæra til að fara með málefni félagsins. Sigríður Ásgeirsdóttir sem verið hafði framkvæmdastjóri og prókúruhafi fyrir stjórnina frá 1998, hafði eftir sem áður bókhaldsgögn félagsins undir höndum.
Aðalfund þann, sem Sigfríð Þórisdóttir boðaði, sátu eftirtaldir aðilar skv. framlagðri fundargerð:
Sigurður Valur Ásbjörnsson fyrir Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum
Magnús H. Guðjónsson fyrir Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum
Hrefna Kristjánsdóttir fyrir Samband dýraverndunarfélaga Íslands
Þorleifur Björnsson fyrir Samband dýraverndunarfélaga Íslands
Júlía M. Sveinsdóttir fyrir Samband dýraverndunarfélaga Íslands
Sigfríð Þórisdóttir fyrir Samband dýraverndunarfélaga Íslands
Vilhjálmur Skúlason fyrir Hestamannafélagið Fák
Þórður H. Ólafsson fyrir Hestamannafélagið Fák
Pétur Friðriksson fyrir Reykjavíkurborg
Sigurbjörg Þorsteinsdóttir fyrir Reykjavíkurborg
Gunnar Borg fyrir Hundavinafélag Íslands
Hlín Brynjólfsdóttir fyrir Hundavinafélag Íslands
Lúðvík Vilhjálmsson fyrir Dýraverndunarfélag Reykjavíkur
Sigríður Ásgeirsdóttir fyrir Dýraverndunarfélag Reykjavíkur
Karl Alvarsson lögfræðingur
Lára V. Júlíusdóttir lögfræðingur
Ágúst Jónsson lögfræðingur
Í fundargerð kemur einnig fram, að Lára V. Júlíusdóttir hrl. var samhljóða kjörin fundarstjóri en Ágúst Jónsson var kjörin fundarritari.
Af fundarmönnum lögðu eftirtaldir fram fullnægjandi skipunarbréf sem fulltrúar SDW:
Sigurður Valur Ásbjörnsson fyrir Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum
Magnús H. Guðjónsson, fyrir Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum
Vilhjálmur Skúlason fyrir Hestamannafélagið Fák
Þórður H. Ólafsson fyrir Hestamannafélagið Fák
Pétur Friðriksson fyrir Reykjavíkurborg
Sigurbjörg Þorsteinsdóttir fyrir Reykjavíkurborg
Gunnar Borg fyrir Hundavinafélag Íslands
Hlín Brynjólfsdóttir fyrir Hundavinafélag Íslands
Lúðvík Vilhjálmsson fyrir Dýraverndunarfélag Reykjavíkur
Sigríður Ásgeirsdóttir fyrir Dýraverndunarfélag Reykjavíkur
Þorleifur Björnsson fyrir Samband dýraverndarfél. Ísl.
Júlía M. Sveinsdóttir fyrir Samband dýraverndarfél. Ísl.
Bókuð voru mótmæli við lögmæti fundarins. Fundarstjóri úrskurðaði fundinn lögmætan. Skýrsla formanns var flutt og síðar samþykkt með sjö atkvæðum gegn fimm. Í kjöri til stjórnar var Júlía M. Sveinsdóttir sjálfkjörinn formaður og Vilhjálmur Skúlason varaformaður. Gunnar Borg og Hlín Brynjólfsdóttir voru lýstir rétt kjörnir meðstjórnendur. Varameðstjórnendur voru kjörnir Magnús H. Guðjónsson og Pétur Friðriksson. Endurskoðendur voru kosnir og samþykkt var að fela Halldóri Hróari Sigurðssyni, löggiltum endurskoðanda að ganga frá reikningum fyrir árið 1998 í stað Hauks Gunnarssonar, sem væri tengdasonur Sigríðar Ásgeirsdóttur. Þá var samþykkt að ný stjórn skyldi boða til framhaldsaðalfundar þegar reikningar félagsins lægju fyrir endurskoðaðir, eigi síðar en 1. maí 1999.
Af gögnum málsins má ráða að tvær stjórnir telja sig vera starfandi fyrir SDW upp frá þessum fundi. Fundargerðir annarrar stjórnarinnar eru undirritaðar af Hlín Brynjólfsdóttur sem formanni stjórnar, Gunnari Borg og Sigríði Ásgeirsdóttur. Aðalfundur þeirrar stjórnar var haldinn 29. apríl 1999 og mættu þar fulltrúar Hundavinafélags Íslands, Dýraverndunarfélags Reykjavíkur og Sambands dýraverndunarfélaga Íslands. Á þeim fundi lagði Sigríður Ásgeirsdóttir fram endurskoðaða reikninga síðasta árs fyrir SDW, Minningarsjóð Peders J. Steffensens og Tækjakaupasjóð Dýrin mín stór og smá. Hlín Brynjólfsdóttir var kosin formaður og Sigríður Ásgeirsdóttir varaformaður. Gunnar Borg og Þorleifur Bjarnason eru kosnir meðstjórnendur og Lúðvík Vilhjálmsson og Kristín Albertsdóttir eru kosin varamenn.
Júlía M. Sveinsdóttir, sem kjörin var í stjórn á aðalfundinum í janúar 1999 sagði sig úr stjórn félagsins með bréfi dagsettu 1. febrúar 1999. Vilhjálmur Skúlason, kjörinn varaformaður tók þá við formennsku og Pétur Friðriksson varamaður tók sæti í stjórn. Hlín Brynjólfsdóttir og Gunnar Borg kjörnir meðstjórnendur mættu ekki á stjórnarfundi félagsins, sem haldnir voru eftir ofangreindan aðalfund. Á stjórnarfundi SDW sem haldinn var þann 10. mars 1999 var ákveðið að afturkalla umboð Sigríðar Ásgeirsdóttur sem framkvæmdastjóra félagsins og prókúruumboð hennar fyrir félagið er afturkallað. Þar voru mættir Vilhjálmur Skúlason og Pétur Friðriksson.
Minningarsjóður Peders Jakobs Steffensen var stofnaður með skipulagsskrá þann 1. febrúar 1977. Stjórn sjóðsins skyldu skipa Anna Steinunn Sigurðardóttir og Marteinn Skaftfells, svo lengi sem þeirra nyti við. Eftir að þau létu af stjórn skyldi stjórn Dýraverndunarfélags Reykjavíkur skipa tvo menn í stjórn sjóðsins. Skipulagsskrá sjóðsins var staðfest 25. september 1979 (nr. 463/1979 í B-deild Stjórnartíðinda).
Með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 3. júlí 1995, var tilkynnt sú ákvörðun, með vísan til heimildar í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 19/1988 laga um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, að leggja sjóðinn niður, enda skyldi eignum hans varið til byggingar og stækkunar Dýraspítala Watsons.
Í fundargerð stjórnar SDW frá 21. september 1998, sem undirrituð er af Sigfríð Þórisdóttur, Sigríði Ásgeirsdóttur, Gunnari Borg og Eygló Gunnarsdóttur, var samþykkt tillaga um að afhenda stjórn Minningarsjóðs Peders J. Steffensen aftur minningarsjóðinn til varðveislu vegna óvissu um eignaraðild að nýjum dýraspítala og hvort hann yrði byggður. Á aðalfundi þeirrar stjórnar SDW sem varnaraðili á sæti í var lagður fram ársreikningur minningarsjóðsins fyrir árið 1998. Þar kemur fram að stjórnarmenn eru Sigríður Ásgeirsdóttir og Sveinn Halldórsson (161226-5649, Víðimel 54, Reykjavík). Sigríður Ásgeirsdóttir er jafnframt tilgreind sem vörsluaðili sjóðsins.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila:
Sóknaraðili byggir á því að um sé að ræða löglega kosna stjórn sjálfseignarfélagsins, sem eigi réttilega tilkall til gagna og fjármuna úr höndum fyrrum framkvæmdastjóra og prókúruhafa þess. Nauðsynlegt sé, að stjórn SDW fái umkrafin gögn, svo að starfsemi félagsins geti haldið áfram. Á aðalfundi félagsins þann 12. janúar 1999 hafi verið ákveðið að fela nýjum aðilum endurskoðun reikninga félagsins fyrir 1998, en gerðarþoli hafi ekki afhent umbeðin gögn, þrátt fyrir ítrekuð tilmæli. Því hafi ekki verið hægt að halda framhaldsaðalfund félagsins.
Lögmaður sóknaraðila áréttar að sóknaraðili sé stjórn SDW en ekki félagið sjálft.
Kröfu varnaraðila um málskostnað er mótmælt, þar sem tilefni meðferðar máls þessa fyrir dómi sé alfarið af völdum varnaraðila.
Aðalfundur SDW, sem haldinn var í janúar 1999, hafi verið lögmætur. Þar sem brýna nauðsyn hafi borið til hafi formaður einn getað boðað til fundar. Ekki sé rétt að aðalfund megi eingöngu halda í mars eða apríl. Þar sem nauðsyn hafi borið til að kjósa nýja stjórn og árinu 1998 hafi verið lokið hafi mátt halda fundinn í janúar 1999. Dagskrá aðalfundar hafi komið fram í boðun til fundar, eins og gert sér ráð fyrir í skipulagsskrá. Fundarboð hafi verið dagsett átta dögum fyrir fund og allir sem boðaðir voru til fundarins hafi mætt. Minni háttar ágallar á boðun fundar varði ekki ólögmæti hans, þegar allir boðaðir fundarmenn mæti og taki virkan þátt í störfum aðalfundar.
Minningarsjóður Peders J. Steffensen hafi verið lagður niður og þar með orðið að hluta SDW. SDW hafi verið falin varðveisla sjóðsins. Ákvörðun um að afhenda stjórn Minningarsjóðsins fjármuni, sem frá honum stafi, hafi verið markleysa, þar sem sjóðurinn hafi ekki lengur verið til.
Réttur löglega kjörinnar stjórnar til innsetningar í gögn fyrrum framkvæmdastjóra og prókúruhafa sé skýr og ljós.
Málsástæður og lagarök varnaraðila:
Varnaraðili gerir athugasemdir við meinta aðild sjálfseignarfélags Dýraspítala Watsons að málinu, þar sem löglega kosin stjórn þess hafi ekki tekið ákvörðun um málshöfðun. Varnaraðili sé framkvæmdastjóri sjálfseignarfélagsins og stjórnarmaður í félaginu. Af þessum sökum beri að hafna kröfum sóknaraðila og úrskurða þá aðila, sem standi að rekstri málsins til greiðslu málskostnaðar. Ráða megi af framlögðum gögnum sóknaraðila að þrír aðilar standi baki málshöfðuninni; Reykjavíkurborg, Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum og Hestamannafélagið Fákur. Meintur aðalfundur SDW, sem haldinn var í janúar 1999 og Sigfríð Þórisdóttur hafi boðað til, hafi verið ólögmætur.
Hafna beri kröfum meints sóknaraðila, þar sem kröfum í málinu sé ekki beint gegn öllum þeim, er kjörnir voru í stjórn félagsins á aðalfundi þess 29. apríl 1999. Varnaraðili hafi ekki vörslur gagna og eigna sem krafist sé umráða yfir og beri því þegar af þeirri ástæðu að hafna kröfum sóknaraðila. Stjórn félagsins hafi vörslur bókhaldsgagna og félagssjóðs sjálfseignarfélagsins. Stjórnin hafi hins vegar ekki vörslur Minningarsjóðs Peder J. Steffensen og sé sá sjóður nú í vörslu stjórnar þeirrar sjálfseignarstofnunar, sem tveir fulltrúar Dýraverndunarfélags Reykjavíkur skipi. Þá sé rangt að sá sjóður sé í eigu sjálfseignarfélagsins. Þá byggir varnaraðili á því, að nauðsynlegt hefði verið að beina kröfum, jafnframt gegn stjórnarmönnum í Minningarsjóði Peder J. Steffensen. Þar sem öllum stjórnarmönnum í sjálfseignarfélaginu og í Minningarsjóði Peder J. Steffensen hafi ekki átt þess kost að svara til saka í málinu, beri að hafna kröfum meints sóknaraðila, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991.
Þá lítur varnaraðili einnig svo á, að hafna beri kröfum sóknaraðila, þar sem ekki standi að málsókninni allir þeir aðilar sem kjörnir voru í stjórn félagsins á meintum aðalfundi í félaginu þann 12. janúar 1999. Enda þótt litið verði svo á, að sú stjórn, sem þá var kosin, teljist lögmæt, liggi ekki fyrir lögmæt ákvörðun þeirrar stjórnar um málshöfðun, enda hafi Gunnar Borg og Hlín Brynjólfsdóttir ekki verið boðuð til fundar til að taka ákvörðun um málshöfðun, a.m.k. leiki mikill vafi á að heimilt sé að reka málið í nafni SDW.
Þá byggir varnaraðili á því að krafa sóknaraðila uppfylli ekki ófrávíkjanleg skilyrði 78. gr. laga nr. 90/1989 um skýrleika kröfu, þar sem verulegur vafi leiki á um lögmæti aðalfundar er haldinn var þann 12. janúar 1999 og hver sé löglega kjörin stjórn félagsins.
Málskostnaðarkröfu sína beinir varnaraðili að Reykjavíkurborg, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum og Hestamannafélaginu Fáki. Varnaraðili byggir þá kröfu á því að þessir aðilar hafi falið lögmanni sóknaraðila að reka málið og beri þeir því ábyrgð á heimildarlausri málssókn í nafni sjálfseignarfélagsins. Verði ekki fallist á þetta er til vara krafist málskostnaðar úr hendi Vilhjálms Skúlasonar, enda sé óumdeilt að hann hafi falið lögmanni að reka mál þetta á hendur varnaraðila.
Vísað sé til fundargerðar stjórnar SDW frá 21. september 1998 varðandi Minningarsjóð Peders J. Steffensen, en þar hafi verið tekin sú ákvörðun að afhenda stjórn minningarsjóðsins sjóðinn á ný. Varnaraðili hafi því ekki þennan sjóð undir höndum.
Því er haldið fram að dómurinn geti ekki fjallað um það, hver sé stjórn SDW, enda sé þar margt óljóst.
Forsendur og niðurstaða:
Samkvæmt 78. gr. laga um aðför nr. 90/1989 (afl.) sbr. 83. gr. s.l., er heimilt að krefjast innsetningar án undangengins dóms eða réttarsáttar ef manni er með ólögmætum hætti aftrað að neyta réttinda, sem hann tjáir sig eiga og telur svo ljós, að sönnur verði færðar fyrir þeim með sýnilegum sönnunargögnum, greinargerð og munnlegum málflutningi. Af 3. mgr. 83. gr. afl. má ráða að hafna skuli að jafnaði aðfararbeiðni, ef varhugavert verður talið að gerðin nái fram að ganga á grundvelli framkominna gagna. Réttur gerðarbeiðanda verði að vera skýlaus og ótvíræður til að innsetningargerð skv. 78. gr. afl. nái fram að ganga og unnt sé að sýna fram á þann rétt með þeim takmörkuðu sönnunargögnum sem heimilt er að beita.
Mál það, sem hér er til úrlausnar, krefst þess að afstaða verði tekin til þess, hvor af tveimur mögulegum stjórnum geti talist lögmæt stjórn Sjálfseignarfélagsins Dýraspítala Watsons (SDW). Ljóst er af gögnum málsins, að verulegur ágreiningur var í stjórn félagsins er leið að lokum ársins 1998. Sigfríð Þórisdóttir, kjörin stjórnarformaður, hafði verið svipt umboði því, sem henni var veitt af þeim, sem hana tilnefndu. Draga má í efa lögmæti og réttmæti þeirrar ákvörðunar. Ekki liggur ótvírætt fyrir, að aðstæður hafi verið með þeim hætti, að nauðsynlegt og óhjákvæmilegt hafi verið að boða til sérstaks aðalfundar hinn 12. janúar 1999. Af 10. gr. samþykkta félagsins má ráða að aðalfund skuli halda í fyrsta lagi mars ár hvert. Þar segir: ,,Allar tillögur um breytingar á samþykktum félagsins skulu tilkynntar í fundarboði aðalfundar. Breytingartillögur frá einstökum félagsmönnum skulu hafa borist stjórn félagsins fyrir 1. mars.” Aðalfundurinn í janúar 1999 virðist því hafa grundvallast á neyðarréttarsjónarmiðum, en upplýsingar skortir til að slá því föstu að sú hafi verið raunin og sönnunarfærsla, sem leitt gæti það í ljós, er óheimil í málum, sem rekin eru samkvæmt 78. gr. aðfararlaga. Á aðalfundinum komu fram mótmæli um lögmæti fundarins, en fundarstjóri úrskurðaði hann lögmætan, eins og áður er getið. Ekki er að sjá, að sú ákvörðun hafi verið borin undir atkvæði fundarins til samþykktar eða synjunar.
Þá liggja ekki fyrir fullnægjandi upplýsingar um það, hvort sú stjórn sem kosin var á aðalfundinum 12. janúar 1999 hafi staðið með löglegum hætti að ákvarðanatöku eða starfað með lögformlegum hætti. Ljóst er, að meðstjórnendur sem kjörnir voru á fundi SDW þann 12. janúar 1999 mættu ekki á stjórnarfundi SDW. Gögn málsins gefa enga vísbendingu um það, hvort þeir hafi verið boðaðir á stjórnarfundi í félaginu.
Enda þótt varnaraðili kunni að hafa þau gögn undir höndum, sem sóknaraðili gerir tilkall til í máli þessu, sem ekki hefur verið leitt í ljós með óyggjandi hætti, byggjast vörslur hennar á umboði því, sem meint stjórn félagsins, sem kosin var á aðalfundi 29. apríl 1999 veitti henni. Því er fallist á þá málsástæðu varnaraðila, að beina hefði þurft málinu á hendur öllum þeim, sem kosnir voru til stjórnarsetu á síðastnefndum aðalfundi. Sú mynd, sem dregin er upp í gögnum þeim, sem málsaðilar hafa lagt fyrir dóminn, er ófullnægjandi og ekki nægjanlega skýr til að uppfylla skilyrði 78. gr. afl.
Vitnaskýrslna og/eða aðilaskýrslna er þörf til að fá úr því skorið, hvort sóknaraðili eigi þann rétt, sem hann gerir tilkall til og málsókn hans byggist á.
Að því er varðar kröfu sóknaraðila til að fá afhent bókhaldsgögn og fjárreiður Minningarsjóðs Peders J. Steffensen ber allt að sama brunni. Eins og að framan er rakið, var ákveðið á fundi í stjórn SDW hinn 21. september 1998, að afhenda fjárreiður Minningasjóðs Peders J. Steffensens aftur til stjórnar sjóðsins. Lögmæti þessarar ráðstöfunar má draga í efa, en að henni stóð réttkjörin stjórn SDW. Á aðalfundinum 29. apríl 1999 kom fram, að varnaraðili er vörslumaður minningasjóðsins og átti sæti í stjórn hans ásamt Sveini Halldórssyni, eins og áður er lýst. Telja verður, að rétt hefði verið að beina kröfum um afhendingu sjóðsins að báðum stjórnarmönnum hans.
Með vísan til framangreindra forsendna þykir sóknaraðili ekki hafa sýnt fram á með nægilega skýrum hætti, að hann eigi rétt til að fá afhent þau gögn, sem hann gerir kröfu til með beinni aðfarargerð á grundvelli 78. gr. aðfararlaga.
Rétt þykir, eins og mál þetta er vaxið að hvor málsaðili beri sinn kostnað af málinu.
Skúli J. Pálmason kvað upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, stjórnar Sjálfseignarfélagsins Dýraspítala Watsons, um að honum verði með beinni aðfarargerð veitt heimild til að krefjast umráða bókhaldsgagna og eigna Sjálfseignarfélagsins Dýraspítala Watsons vegna ársins 1998, minningarsjóðs Peders J. Steffensen, kt. 531094-2559 og félagssjóðs Dýraspítalans, sjálfseignarstofnunar kt. 640177-0209 úr höndum varnaraðila Sigríðar Ásgeirsdóttur.
Málskostnaður fellur niður.