Hæstiréttur íslands
Mál nr. 629/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaður
- Sératkvæði
|
|
Þriðjudaginn 18. desember 2007. |
|
Nr. 629/2007. |
Sigurður Jón Hjartarson(Ásgeir Þór Árnason hrl.) gegn Heiðargerði 1, húsfélagi (Heimir Örn Herbertsson hrl.) |
Kærumál. Málskostnaður. Sératkvæði.
S kærði úrskurð héraðsdóms þar sem fellt var niður mál sem H hafði höfðað gegn S og tveimur öðrum, sem gerðu réttarsátt við H. Málskostnaður var felldur niður. S krafðist greiðslu málskostnaðar fyrir héraðsdómi. Í dómi Hæstaréttar sagði að þegar fleiri en einn aðili eru sóttir í sama máli og aðeins sumir efna þá skyldu sem þeir eru krafðir um þannig að mál er fellt niður verður ekki talið að sá eða þeir sem eftir standa eigi rétt til málskostnaðar á grundvelli 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hafi málsókn verið á rökum reist. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. nóvember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. nóvember 2007 þar sem fellt var niður mál, sem varnaraðili höfðaði gegn sóknaraðila og tveimur öðrum, og málskostnaður felldur niður. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að varnaraðili greiði honum 250.000 krónur í málskostnað fyrir héraðsdómi, en til vara aðra lægri fjárhæð. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Þegar fleiri en einn aðili eru sóttir í sama máli og aðeins sumir efna þá skyldu sem þeir eru krafðir um þannig að mál er fellt niður verður ekki talið að sá eða þeir sem eftir standa eigi rétt til málskostnaðar á grundvelli 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 hafi málsókn verið á rökum reist.
Í hinum kærða úrskurði kemur fram að sátt hafi verið gerð þess efnis að meðstefndu í héraði féllust á að greiða að öllu verulegu þá kröfu, sem þeir og sóknaraðili voru óskipt krafðir um. Þar segir einnig að um sé að ræða bætur samkvæmt matsgerð, en varnaraðili hafði fengið mat dómkvadds manns, meðal annars um sameiginlegt lagnakerfi fasteignar, sem sóknaraðili hafði umsjón með og talið var ófullnægjandi.
Að þessu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Sératkvæði
Ólafs Barkar Þorvaldssonar
Í máli þessu stefndi varnaraðili sóknaraðila og tveimur öðrum aðilum óskipt til greiðslu skaðabóta eða afsláttar vegna galla í fjölbýlishúsi. Reisti hann kröfu sína á hendur þeim á mismunandi grunni, þannig að annar sá sem stefnt var með varnaraðila skyldi bera ábyrgð sem seljandi og byggingaraðili hússins, en hinn meðstefndi bæri ábyrgð sem byggingarstjóri. Sóknaraðili bæri hins vegar ábyrgð sem pípulagningameistari við byggingarframkvæmdirnar. Í stefnu vísaði varnaraðili til matsgerðar dómkvadds manns til stuðnings kröfu sinni. Sóknaraðili tók til varna og skilaði greinargerð. Gerði hann það meðal annars á þeim grunni að meðstefndu kæmu einir til greina sem ábyrgðaraðilar vegna meintra galla meðal annars á þeim grunni að ekkert réttarsamband væri milli hans og varnaraðila. Eftir að málinu hafði, að ósk meðstefndu, verið frestað nokkrum sinnum gerðu meðstefndu dómsátt við varnaraðila. Þar féllust þeir á að greiða honum höfuðstól stefnukröfu og tilgreinda fjárhæð í málskostnað. Sóknaraðili var ekki aðili að þessari sátt. Í kjölfar sáttarinnar var málið á hendur sóknaraðila fellt niður að kröfu varnaraðila. Krafðist sóknaraðili þá málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Í 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála kemur fram eftirfarandi meginregla: „Stefnanda skal gert að greiða stefnda málskostnað ef máli er vísað frá dómi eða það er fellt niður af annarri ástæðu en þeirri að stefndi efni þá skyldu sem hann er krafinn um í máli.“ Mál þetta var fellt niður af annarri ástæðu en þeirri að sóknaraðili efndi umþrætta skyldu sína gagnvart varnaraðila. Samkvæmt framanrituðu eru engin efni til annars en að verða við kröfu sóknaraðila og dæma varnaraðila til að greiða honum málskostnað. Að virtu umfangi málsins tel ég að málskostnaður eigi að vera ákveðinn 200.000 krónur. Eftir þessum úrslitum tel ég einnig að varnaraðili eigi að greiða sóknaraðila kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. nóvember 2007.
Mál þetta var tekið til úrskurðar 6. nóvember sl. um málskostnaðarkröfu stefnda Sigurðar Jóns Hjartarsonar.
Stefnandi er Húsfélagið Heiðargerði 1, Heiðargerði 1, Vogum.
Stefndu eru Trésmiðja Snorra Hjaltasonar hf., Kirkjustétt 2-6, Reykjavík, Snorri Hjaltason, Ólafsgeisla 11, Reykjavík og Sigurður Jón Hjartarson, Urðarstekk 10, Reykjavík.
Í máli þessu krefst stefnandi þess að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnanda kr. 3.436.314 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. júní 2007 til greiðsludags.
Við fyrirtöku málsins 30. október sl. var lögð fram réttarsátt á milli stefnanda og stefndu Trésmiðju Snorra Hjaltasonar hf. og Snorra Hjaltasonar. Samkvæmt sáttinni samþykkja stefndu, Trésmiðja Snorra Hjaltasonar hf. og Snorri Hjaltason að greiða stefnanda kr. 4.156.314 sem sundurliðast þannig:
Bætur samkvæmt matsgerð kr. 3.436.314
Matskostnaður kr. 220.000
Hluti lögmannskostnaðar kr. 500.000
Alls kr. 4.156.314
Í sáttinni kemur fram að stefnandi falli frá kröfu á hendur stefndu Trésmiðju Snorra Hjaltasonar og Snorra Hjaltasyni um ógreidda dráttarvexti. Stefndu sé kunnugt um að stefnandi hyggist innheimta eftirstöðvar kröfunnar hjá stefnda Sigurði Jóni Hjartarsyni.
Krafðist stefnandi þess að málið yrði fellt niður. Lögmaður stefnda Sigurðar Jóns Hjartarsonar krafðist málskostnaðar úr hendi stefnanda. Lögmaður stefnanda mótmælti kröfunni.
Að virtum atvikum máls þessa þykir rétt að stefndi Sigurður Jón Hjartarson beri sinn kostnað af málinu.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Mál þetta er fellt niður.
Málskostnaður fellur niður.