Hæstiréttur íslands
Mál nr. 118/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
|
|
Fimmtudaginn 19. febrúar 2015 |
|
Nr. 118/2015. |
A (Leifur Runólfsson hdl.) gegn velferðarsviði Reykjavíkurborgar (Kristbjörg Stephensen hrl.) |
Kærumál. Lögræði.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A var sviptur sjálfræði í sex mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. febrúar 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. febrúar 2015, þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í sex mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærðar úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði og ákveðst hún að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Leifs Runólfssonar héraðsdómslögmanns, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. febrúar 2015.
Með beiðni, sem barst dóminum 23. janúar sl. hefur sóknaraðili, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, Borgartúni 12-14, Reykjavík, krafist þess að varnaraðili, A, kt. [...], [...], verði með vísan til a- liðar 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, sviptur sjálfræði í sex mánuði. Um aðild sóknaraðila vísast til d-liðar 2. mgr. 7. gr. sömu laga.
Af hálfu varnaraðila er því hafnað að krafa sóknaraðila nái fram að ganga. Er á því byggt að lagaskilyrði séu ekki uppfyllt til þess að varnaraðili verði sviptur sjálfræði sínu tímabundið.
Í kröfu um sjálfræðissviptingu kemur m.a. fram að varnaraðili, sem er fæddur [...], sé einhleypur og barnlaus og búi í foreldrahúsum. Hann sé með sögu um vanlíðan frá unglingsárum og hafi fyrst leitað á bráðamóttöku Landspítalans fyrir um tveimur árum vegna depurðar, vanlíðanar og kannabisreykinga. Reynt hafi verið að gefa varnaraðila þunglyndislyf en án árangurs. Frá því í mars á síðasta ári hafi hann verið mjög vanvirkur og að mestu legið fyrir heima hjá sér. Einnig hafi kannabisneysla hans farið vaxandi undanfarna mánuði og þá hafi hann gert tilraunir með annars konar eiturlyf. Hafi ástand hans á tímabili orðið þannig að foreldrar hans hafi neyðst til þess að vísa honum út af heimilinu. Þegar hann hafi snúið aftur á heimili foreldra sinna, um fjórum vikum síðar, hafði hann snúið sólarhringnum við, verið ör og með mikilmennskuranghugmyndir og samsæriskenningar. Þann 2. janúar sl. hafi móðir varnaraðila óskað eftir aðstoð borgarlæknis og lögreglu þar sem varnaraðili hafi verið orðinn mjög veikur og ekki til samvinnu um að þiggja aðstoð foreldra eða annarra. Í kjölfarið hafi hann verið fluttur nauðugur á geðsvið Landspítalans við Hringbraut þar sem tekin var ákvörðun um að hann yrði nauðungarvistaður í 48 klukkustundir. Í kjölfar þess hafi sóknaraðili staðið að beiðni um nauðungarvistun í 21 dag, sbr. 19. gr., sbr. 20. og 21. gr. laga nr. 71/1997, sem samþykkt hafi verið með bréfi innanríkisráðuneytisins 3. janúar sl. Hafi varnaraðili í kjölfarið farið fram á að ákvörðun ráðuneytisins yrði felld úr gildi. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, upp kveðnum 8. janúar sl., hafi ákvörðunin verið staðfest.
Beiðni sóknaraðila fylgdi læknisvottorðs B, geðlæknis á bráðageðdeild 32C á Landspítalanum, frá 19. janúar sl. Þar kemur fram að við komu á bráðamóttöku geðsviðs hafi lítið samhengi verið í frásögn varnaraðila. Hafi hann talað um forseta Bandaríkjanna, dauða og dráp. Þegar honum hafi verið tilkynnt um að hann hafi verið nauðungarvistaður hafi hann orðið æstur og neitað að fara á geðdeild. Hafi lögreglan þurft að færa hann þangað í handjárnum. Aðfaranótt 9. janúar sl. hafi borið á miklum geðrofseinkennum þar sem varnaraðili m.a. dreifði mold úr blómapottum á gólf og bar hana einnig á andlit sitt. Þá segir í niðurlagi vottorðs B að varnaraðili hafi staðfesta sögu um fleiri en eina þunglyndislotu á undanförnum árum. Það sé einnig staðfest að hann hafi með hléum um árabil verið í virkri kannabisneyslu sem undanfarna mánuði hafi farið vaxandi, verið dagleg, auk einhverra tilrauna með annars konar eiturlyf. Miðað við lýsingar hafi hann verið ör og með virk geðrofseinkenni í nokkrar vikur fyrir innlögn. Þrátt fyrir innlögn og öfluga geðrofslyfjameðferð að viðbættum jafnvægislyfjum í 18 daga hafi hann enn mikil einkenni þar sem síðast hafi borið á sjón- og snertiofskynjunum 16. janúar sl. og enn beri á óraunhæfu mati hans á eigin getu og takmörkunum. Þá sé innsæi hans í vanda sinn og einkenni á þörf fyrir meðferð takmarkað. Yfirgnæfandi líkur séu á því að hann sé að veikjast af geðrofssjúkdómi, þ.e. að ekki sé hægt að líta á veikindi hans nú sem einungis neyslutengd geðrof. Án áframhaldandi meðferðar þyki sýnt að veikindi hans myndu versna og ekki sé hægt að útiloka að hann gæti orðið sjálfum sér eða öðrum hættulegur. Læknirinn staðfesti vottorð sitt fyrir dóminum. Hann tók fram að varnaraðili væri ekki lengur í hans umsjá þar sem varnaraðili væri nú til meðferðar á endurhæfingardeild spítalans.
Með heimild í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 71/1997 aflaði dómari vottorðs C, sérfræðings í geð- og embættislækningum. Í niðurlagi vottorðs hans, dagsettu 5. febrúar sl., kemur fram að varnaraðili hafi búið við geðsjúkdóm frá því að hann var 14 eða 15 ára gamall. Hann hafi einangrað sig mikið og á köflum verið mjög dapur með sjálfsvígsþanka. Þá hafi hann glímt við mikla félagsfælni. Þá hafi verið til staðar oflæti með talþrýstingi, mikilmennskuhugmyndum, hröðu flæði hugsana sem skv. sögu hafi verið með ofsóknarblæ, til viðbótar þeim mikilmennskublæ sem nú sé. Þá hafi mikill pirringur verið til staðar. Þrátt fyrir að varnaraðili sé búin að vera laus í mánuð við kannabis, sem hafi litað líf hans sl. ár, þá hafi geðrofseinkenni með hækkuðu geðslagi og algjöru innsæisleysi í núverandi sjúkdómsástand haldið áfram. Þau virðast þó, miðað við lýsingu í fyrirliggjandi vottorðum og sjúkraskrá samhliða meðferð með geðrofslyfjum, hafa heldur minnkað og geta varnaraðila til mannlegra samskipta skánaða. Telur læknirinn að miðað við sögu sl. þriggja ára sé ljóst að hætti varnaraðili í meðferð núna, sem sé viðbúið vegna innsæisleysis, þá muni svipað ferli halda áfram og leiddi til nauðungarinnlagnar í upphafi árs. Þetta, miðað við sögu um árekstra og pirring gagnvart öðru fólki sem og vegna sögu um sjálfsvígsþanka, sé til þess fallið að ógna lífi og heilsu varnaraðila og mögulega lífi og heilsu annarra. Í ljósi þessa sé mikilvægt að ljúka greiningarvinnu á eðli þess geðrofssjúkdóms sem hrjái varnaraðila þannig að koma megi við réttri meðferð til frambúðar. Mælir C því með sjálfræðissviptingu til sex mánaða. Við meðferð málsins fyrir dómi gaf læknirinn skýrslu og staðfesti framangreint mat sitt. Hann sagði varnaraðila algerlega innsæislausan í sjúkdóm sinn. Ef hann yrði ekki sviptur sjálfræði færi hann vafalaust í sama farið aftur fljótlega og yrði nauðungarvistaður sem væri ákaflega niðurdrepandi fyrir ungan mann.
Þá gaf skýrslu fyrir dóminum D, geðlæknir á endurhæfingardeild Landspítalans en sóknaraðili er nú vistaður á deildinni. Í framburði hans kom fram að varnaraðili væri enn hátt stemmdur. Þá væri hann enn haldinn ranghugmyndum, t.d. um að eitrað hefði verið fyrir honum á spítalanum og að hann væri einhvers konar guð þannig að hann þyldi t.d. betur eld, væri „eldheldur“. Hann væri algerlega innsæislaus og skildi ekki af hverju hann hefði verið lagður inn. Hann væri rólegur og kurteis og stæði sig vel. Vegna innsæisleysis hans væri hins vegar líklegt að hann útskrifaði sig sjálfur og hæfi aftur neyslu. Kvaðst læknirinn styðja framkomna beiðni. Ekki sé enn ljóst hvað nákvæmlega hrjái varnaraðila og hverjar horfur hans séu. Hann hafi verið í kannabisneyslu lengi og það taki tíma að vinda ofan af því. Í versta falli sé hann að koma sér upp alvarlegum geðrofssjúkdómi, t.d. geðklofa, en í besta falli sé þetta neyslutengt. Varnaðaraðili þurfi á meðferð að halda sem felist í því að hann taki inn geðrofslyf, honum sé haldið frá neyslu og hann fái endurhæfingu. Læknirinn taldi að vegna innsæisleysis varnaraðila væri afar hæpið að meðferð utan deildar gengi upp.
Varnaraðili talaði máli sínu fyrir dóminum. Hann kvað sig fullfæran um að sjá um sig sjálfur. Hann hafi ekki farið í neitt geðrof. Honum hafi liði vel áður en hann hafi verið lagður inn. Hann hafi fengið andlegt áfall við innlögnina og í fyrsta skipti í langan tíma fengið sjálfvígshugsanir. Hann væri ósammála því mati lækna að það þyrfti að svipta hann sjálfræði. Hlutir væru teknir úr samhengi í læknisvottorðum. Spurður að því hvort hann teldi sig þurfa á frekari meðferð á halda svaraði hann „já og nei“. Hann væri fullfær til þátttöku í samfélaginu en eftir „allt þetta áreiti“ þyrfti hann að fá að dvelja lengur á endurhæfingardeildinni og taka þátt í starfseminni þar. Á sama tíma myndi hann hugsa um hvað hann hefði áhuga á að gera í framhaldinu. Hann vildi trappa sig niður í lyfjagjöf en hann hann teldi sig í raun ekki þurfa á lyfjum að halda.
Niðurstaða:
Eins og að framan er rakið hefur varnaraðili farið í geðrof en því fylgdu m.a. sjón- og ofskynjanir. Þótt ekki sé unnt að staðreyna nákvæmlega hvað hrjái varnaraðila er ljóst af vætti þriggja geðlækna að hann á við geðsjúkdóm að etja sem þarfnast meðhöndlunar. Var framburður læknanna afdráttarlaus um að þörf væri á tímabundinni sjálfræðissviptingu varnaraðila til þess að unnt væri að veita honum fullnægjandi meðferð. Vegna innsæisleysis hans myndi göngudeildarmeðferð, ein og sér, ekki duga. Með hliðsjón af framangreindu telur dómurinn því að sýnt hafi verið fram á að uppfyllt séu skilyrði a-liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 hvað varðar getu varnaraðila til að ráðstafa persónulegum hagsmunum sínum. Er því óhjákvæmilegt að svipta varnaraðila sjálfræði tímabundið svo tryggja megi honum viðeigandi læknismeðferð. Verður því fallist á kröfu sóknaraðila um að varnaraðili verði sviptur sjálfræði í sex mánuði.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997 ber að greiða úr ríkissjóði allan kostnað málsins, þar með talda þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Leifs Runólfssonar hdl., eins og nánar er kveðið á um í úrskurðarorði. Við ákvörðun þóknunar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
ÚRSKURÐARORÐ:
Varnaraðili, A, er sviptur sjálfræði í sex mánuði.
Kostnaður af málinu, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Leifs Runólfssonar hdl., 150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.