Hæstiréttur íslands

Mál nr. 274/2002


Lykilorð

  • Skaðabótamál
  • Sund- og baðstaðir
  • Öryggisráðstafanir


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. janúar 2003.

Nr. 274/2002.

Lin-Yu-Fu

(Magnús Thoroddsen hrl.)

gegn

Bláa lóninu hf. og

Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til réttargæslu.

(Jakob R. Möller hrl.)

 

Skaðabótamál. Sund- og baðstaðir. Öryggisráðstafanir.

L krafði B hf. um skaðabætur vegna missis framfæranda en eiginkona hans hafði drukknað í Bláa lóninu. Hélt hann því fram að slysið yrði rakið til hættueiginleika baðstaðarins. Þá hefðu fyrirsvarsmenn B hf. ekki farið að fyrirmælum H um að grynnka lónið og að viðvörunarmerki hefðu verið ófullkomin jafnframt sem leitin að eiginkonu hans hefði verið ómarkviss. Talið var ósannað að B hf. hefði ekki farið eftir öllum kröfum þess opinbera aðila sem fór með eftirlit með starfsemi þess. Þá hefði baðstaðurinn verið merktur um hættuleg svæði í afgreiðslu og búningsklefa en sérstök öryggislína greindi að grynnri og dýpri hluta lónsins. Jafnframt hefði starfsfólkið verið þjálfað til að bregðast við hættuástandi en sérstaklega hefði verið óskað eftir því við fararstjóra og leiðsögumenn að varað yrði við hættum lónsins. Með framangreint í huga og þær aðstæður sem sköpuðust við upphaf leitar að eiginkonu L þótti ósannað að B hf. og starfsmenn hans hefðu ekki gert allt sem í þeirra valdi stóð til að koma í veg fyrir að slys sem þetta gerðist og reynt að afstýra því að svo færi sem fór. Var B hf. því sýknað af kröfum L.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir  Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 14. júní 2002. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 4.957.484 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 6. júní 1999 til 21. júlí 2001, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Áfrýjandi höfðaði mál þetta til heimtu skaðabóta samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993 með síðari breytingum vegna missis framfæranda, en eiginkona hans Li-Yu Tsang drukknaði í Bláa lóninu 6. júní 1999. Ferðamannahópur frá Taiwan, sem hún var í, hafði skömmu fyrir slysið komið í lónið beint af Keflavíkurflugvelli. Hópnum fylgdi fararstjóri, sem var samlandi hennar, og á Keflavíkurflugvelli tók á móti þeim íslenskur fararstjóri frá ferðaskrifstofunni Samvinnuferðir-Landsýn, en hann var mæltur á kínversku. Slysið varð þegar Li-Yu Tsang og vinkona hennar voru að vaða í lóninu, en þær voru ósyndar. Höfðu þær farið út fyrir öryggislínu sem afmarkaði þann hluta lónsins sem ætlaður var ósyndum. Botn lónsins var á þessum tíma ósléttur og dýpkaði vatnið skyndilega þar sem þær voru staddar, misstu þær fótanna og fóru á kaf. Þegar vinkonan kom úr kafi sá hún Li-Yu Tsang hvergi og kallaði til félaga sinna um hjálp, en hluti hópsins mun hafa verið skammt frá. Samkvæmt framburði íslenska fararstjórans hafði erlendi fararstjórinn farið í lónið með hópnum. Vinkonan fór síðan og klæddi sig en samlandar þeirra hófu leit í lóninu. Starfsmaður stefnda tók strax eftir því að eitthvað var að hjá þessum ferðamannahópi og kallaði umsvifalaust á aðra starfsmenn með því að þrýsta á neyðarhnapp. Aðrir starfsmenn þustu því á vettvang en samkvæmt framburði þeirra gekk í fyrstu illa að fá greinilegar upplýsingar frá hópnum um hvað gerst hafði. Mun það hafa stafað af tungumálaerfiðleikum og því að félagar í hópnum virtust ekki hafa greinargóðar upplýsingar um atvikið. Fyrstu björgunaraðgerðir urðu af þessum sökum ekki markvissar en fljótlega eftir að ljóst var hvað gerst hafði hófu starfsmenn og sundgestir skipulega leit í lóninu en vatnið er ógegnsætt svo sem kunnugt er. Lögregla og hjálparsveitir voru síðan kallaðar á vettvang svo sem lýst er í héraðsdómi. Konan fannst loks í lóninu við að sundgestur rak fótinn í hana og starfsmaður sem kafaði í lónið gat með hjálp annarra fært hana upp á yfirborðið en hún mun þá hafa verið látin.

Fyrir Hæstarétti reisir áfrýjandi mál sitt á því að slysið verði rakið til hættueiginleika baðstaðarins, lónið sé stórt, vatnið ógegnsætt og of djúpt. Er því haldið fram að fyrirsvarsmenn stefnda hafi ekki farið að fyrirmælum Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja um að grynnka lónið og að viðvörunarmerki hafi verið ófullkomin. Þá er sagt að leitin að konunni hafi verið ómarkviss sem best sjáist af því að konan hafi fundist fyrir tilviljun er baðgestur hafi rekið fótinn í hana.

II.

Fyrir liggur að eftir dauðaslys, sem varð í Bláa lóninu 4. maí 1997, krafði Heilbrigðisnefnd Suðurnesja rekstaraðila lónsins um ákveðnar umbætur, þar á meðal að djúpir staðir lónsins yrðu grynnkaðir svo að dýpi yrði aldrei meira en 160 cm. Einnig átti í samráði við nefndina að setja niður bryggjur til að auðvelda eftirlit með baðgestum og koma upp viðbragðsáætlun vegna slysa, þar á meðal átti að þjálfa starfsfólkið reglubundið. Að ósk rekstaraðilanna var síðar fallið frá því að grynnka lónið á þennan hátt en þá stóð til að breyta sundaðstöðunni í það horf sem nú hefur verið gert. Ekki liggur annað fyrir en að aðrar kröfur heilbrigðiseftirlitsins hafi verið uppfylltar. Þá var í lóninu sérstök öryggislína sem markaði þann hluta lónsins þar sem ætlast var til að ósyndir héldu sig og komið hafði verið upp skiltum á ensku í afgreiðslu og sundklefum um hættur lónsins. Ennfremur höfðu verið gerð kort með öryggisreglum lónsins á fjórum tungumálum. Á þessum kortum var sérstaklega varað við botni lónsins og öðrum hættum þess. Jafnframt höfðu verið útbúnar leiðbeiningar til leiðsögumanna og fararstjóra um hvers bæri að geta við gesti áður en þeir færu í lónið. Íslenski fararstjórinn, sem talaði kínversku, hafði þó ekki sinnt því hlutverki sínu að vara farþegana við hættunum, en ekki liggur fyrir hvort fararstjórinn sem fylgdi hópnum hafi gert það en íslenski fararstjórinn vissi að hann hafði komið þarna áður.

III.

Ósannað er að stefndi hafi ekki farið eftir öllum kröfum þess opinbera aðila, sem fór með eftirlit með starfsemi hans. Baðstaðurinn var merktur um hættuleg svæði í afgreiðslu og búningsklefa þar sem föt Li-Yu Tsang eru sögð hafa fundist. Sérstök öryggislína greindi að grynnri og dýpri hluta lónsins. Starfsfólkið var þjálfað til að bregðast við hættuástandi og sérstaklega hafði verið óskað eftir því við fararstjóra og leiðsögumenn að varað yrði við hættum lónsins. Með framangreint í huga og þær aðstæður sem sköpuðust við upphaf leitar að eiginkonu áfrýjanda, sem að framan er lýst, þykir ósannað að stefndi og starfsmenn hans hafi ekki gert allt sem í þeirra valdi stóð til að koma í veg fyrir að slys sem þetta gerðist og eftir að það varð til þess að reyna að afstýra því að svo færi sem fór. Ber með þessum athugasemdum en annars með skírskotun til forsendna héraðsdóms að staðfesta hann.

Rétt er að hver aðila beri sinn kostnað af áfrýjun málsins. 

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. mars 2002.

Mál þetta, sem dómtekið var 4. mars sl., er höfðað hinn 11. júní 2001 af Lin Yu-Fu, Si Yuen 97, 128 Section 1, Taipai, Taiwan, á hendur Bláa lóninu hf., Svartsengi, Grindavík, og Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík, til réttar­gæslu.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði dæmt til greiðslu skaðabóta, samtals að fjárhæð 4.957.484 krónur, auk 4,5% ársvaxta frá 6. júní 1999 til 21. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Einnig krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt málskostnaðar­reikningi.

Af hálfu stefnda er krafist sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

Engar kröfur eru gerðar á hendur réttar­gæslu­stefnda og af hans hálfu eru engar kröfur gerðar í málinu.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Sunnudaginn 6. júní 1999 drukknaði Li-Yu Tsang í Bláa lóninu sem stefndi rekur. Hún var þar í hópi ferðafólks frá Taiwan sem hafði komið í lónið síðdegis umræddan dag. Í lögregluskýrslu er haft eftir Tsai Su. Fang, sem hafði verið með hinni látnu, að þær hafi gengið saman um lónið og haldist í hendur. Vatnið hafi náð þeim í handarkrika. Skyndilega hafi lónið dýpkað og hafi þær þá fallið fram fyrir sig, farið á kaf og misst handtakið sem þær höfðu á hvor annarri. Tsai Su. Fang kvaðst hafa náð að komast upp úr dýpinu og hafi hún svipast um eftir Li-Yu Tsang en hvergi séð hana. Hún hafi þá kallað á hjálp til hópsins sem hafi verið skammt frá þeim. Hún hafi farið í land á meðan leitað var að Li-Yu Tsang.

Baðvörður lónsins tók eftir því að eitthvað var að hjá hópnum og kallað þegar á aðstoð annarra starfsmanna með því að ýta á neyðarhnapp. Þegar í ljós kom að konunnar var saknað hófst strax leit að henni í lóninu og um það bil tíu mínútum síðar, þegar leitin hafði ekki borið árangur, hringdi starfsmaður stefnda á lögreglu. Tveir lögreglumenn komu fljótlega á vettvang en þá var klukkan 1745. Þeir höfðu þá þegar kallað til sjúkrabifreið og björgunarsveit sem kom á staðinn um kl. 1800. Um kl. 1810 fannst konan við botn lónsins á um það bil 160 cm dýpi, nokkrum metrum fyrir utan öryggislínu, en í um það bil 20 m fjarlægð frá landi. Farið var með konuna í land og síðan á sjúkrahús í Keflavík en hún var þá látin.

Stefnandi var eiginmaður hinnar látnu og krefur hann stefnda um skaðabætur fyrir missi framfæranda samkvæmt 6. gr., 7. gr., 12. gr. og 13. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Hann telur stefnda bera skaðabótaábyrgð á dauða eiginkonu sinnar vegna óforsvaran­legra og hættulegra aðstæðna á baðstaðnum á þessum tíma og vegna þess að björgunaraðgerðir hafi verið ófullnægjandi.

Af hálfu stefnda er bótaábyrgð mótmælt en stefndi telur að slysið verði ekki rakið til atvika er hann beri ábyrgð á. Því er og mótmælt að aðstæður í Bláa lóninu hafi verið óforsvaran­legar, hættulegar eða björgunaraðgerðir ófullnægjandi.

Enginn tölulegur ágreiningur er í málinu. Stefndi mótmælir því þó að dráttar­vextir verði reiknaðir fyrr en frá uppkvaðningu endanlegs dóms.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi reisir skaðabótakröfuna á því að stefndi reki baðstaðinn Bláa lónið og selji almenningi aðgang að honum. Þess vegna beri stefnda að sjá til þess að öryggi gesta sé ekki hætta búin en þeirri skyldu hafi ekki verið fullnægt. Við­vörunar­skilti gagnvart ósyndum hafi verið ófullnægjandi. Þau hafi verið of fá og aðeins á ensku. Hin látna hafi verið ósynd. Öryggislína á baðvatninu, sem hafi átt að vara ósynda við dýptinni, hafi verið ómerkt.

Eftir dauðaslys í Bláa lóninu hinn 4. maí 1997 hafi Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja gert ýmsar öryggiskröfur til rekstraraðila staðarins í bréfi dagsettu 7. sama mánaðar, m.a. að dýpi lónsins yrði ekki meira en 160 cm. Ekki hefði verið farið eftir þessu daginn sem Li-Yu Tsang drukknaði en hún hafi verið 153 cm á hæð.

Björgunaráætlunum hafi verið áfátt og sömuleiðis þjálfun starfsfólks til björgunar­­starfa. Því hafi björgunaraðgerðir ekki verið nægilega mark­vissar og árangurs­ríkar er í óefni var komið. Vatnið í lóninu sé dökkt á litinn og sjáist því ekki til botns. Þetta geri alla leit í vatninu of tímafreka og setji baðgesti í lífshættu þegar óhapp hendi, svo sem raunin hafi orðið í þessu máli. Leitin hafi tekið of langan tíma. Konan hafi verið látin er hún fannst. Það auki og á hættueiginleika baðstaðarins að gufur, er stígi upp úr vatninu, byrgi mönnum sýn við eftirlit með baðgestum.

Framangreint sýni að baðstaðurinn hafi enn verið hættulegur bað­gestum á þessum tíma. Þessir hættueiginleikar hafi leitt til þess að Li­-Yu Tsang drukknaði. Á þeim dauða beri stefndi skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda samkvæmt 12. gr. skaðabóta­laga, sbr. 13. gr. sömu laga. Krafan nemi samtals 4.957.484 krónum og sundurliðist þannig:

1.

Hin látna hafi verið 46 ára er hún lést. Samkvæmt 6. gr.

 

 

skaðabótalaga sé stuðullinn því 9,014 x 1.511.883,

 

 

miðað við vísitöluna 4135 stig í júní 2001,

 

 

þ.e. 13.628.113 krónur en 30% af þeirri fjárhæð

 

 

samkvæmt 13. gr. laganna sé

4.088.434  krónur

2.

Útfararkostnaður

    350.000  "

3.

Ferðakostnaður stefnanda og dóttur,

 

 

Ms. Belle Lin, frá Taiwan til Íslands og til baka,

 

 

2 x 229.525 krónur

     459.050  "

4.

Uppihaldskostnaður stefnanda ogdóttur á

 

 

Íslandi í tvo daga, 15.000 krónur á dag

      60.000  "

 

               Samtals:

4.957.484  krónur

Krafist er 4,5% ársvaxta samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga af fjárhæðinni frá 6. júní 1999 til 21. júlí 2001, en dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Um málskostnaðarkröfu er vísað til 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök stefnda

Bláa lóninu er af hálfu stefnda lýst þannig að þar hafi verið rekinn baðstaður í allmörg ár í hrauninu í námunda við orkuveitu Hitaveitu Suðurnesja en síðustu árin hafi stefndi rekið staðinn. Aðstaðan hafi verið byggð upp smám saman og í því efni hafi verið fylgt fyrirmælum Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja sem annist eftirlit með staðnum. Farið sé eftir reglugerð nr. 457/1998 en samkvæmt II. kafla hennar fari heilbrigðisnefndir með eftirlit. Reglu­gerðin gildi ekki um sjóböð og náttúrulaugar, sbr. 3. mgr. 1. gr., en að undanförnu hafi nefnd verið að störfum á vegum umhverfis­ráðuneytis til þess að undirbúa setningu reglugerðar um hollustuhætti og öryggi á náttúrulegum baðstöðum og liggi drög slíkrar reglugerðar fyrir. Baðstaðurinn sé ekki lengur á þeim stað í lóninu þar sem hann hafi verið þegar slysið varð. Allur búnaður þar hafi verið tekinn niður og verði því um staðhætti að treysta á gögn úr fórum lögreglunnar og stefnda.

Þegar slysið varð hafi verið í gildi starfsleyfi stefnda frá júlí 1997 eins og fram komi í bréfi framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja til þáverandi lögmanns stefnanda frá 10. ágúst 1999. Í bréfinu komi fram að fallið hefði verið frá skilyrði um að mesta dýpt í lóninu væri 160 cm, enda yrðu gerðar sérstakar flotbryggjur. Í bréfinu komi einnig fram að þegar starfsleyfið var veitt í júlí 1997 hafi stefndi uppfyllt allar kröfur sem heilbrigðisnefnd hafi sett um ráðstafanir til að forðast slysahættu og þjálfun starfsmanna í björgun og slysahjálp.

Vísað er til útprentunar af bréfi sem sent hafi verið til allra ferðaskrifstofa á árinu 1998 með leiðbeiningum til leiðsögumanna og hópstjóra. Komi þar m.a. fram þær leiðbeiningar, sem fararstjórar hafi átt að brýna fyrir baðgestum sem komi í lónið, þar með talið að leiðsögu­menn ættu að benda á að öryggislína markaði grunn og djúp svæði. Ljós­myndir í gögnum málsins sýni aðstöðuna í lóninu og margvísleg aðvörunarskilti og kort séu m.a. í afgreiðslu, sem sýni hitastig og dýpt lónsins, og aðvörunarskilti séu um að ósyndir megi ekki fara út fyrir öryggislínu. Í lóninu sjáist skýrlega öryggislína með flotholtum. Í gögnum málsins sé einnig áætlun um neyðar­hjálp en allir starfsmenn stefnda hafi fengið þjálfun samkvæmt henni.

Umræddan dag hafi lögreglunni verið tilkynnt að erlendrar konu væri saknað í lóninu. Tveir lögreglu­menn hafi verið í nágrenninu og hafi þeir þegar farið á vettvang en um kl. 1800 hafi björgunarsveitarmenn komið á staðinn. Þegar lögreglan kom þangað hafi starfsfólk stefnda verið við leit í lóninu ásamt baðgestum sem hafi byrjað u.þ.b. tíu mínútum áður. Hin látna hafi verið nokkrum metrum utan við öryggislínuna þegar hún fannst en línan marki dýpri hluta lónsins frá hinum grynnri. Kínverskur fararstjóri hafi verið með hópnum sem konan var í, en nafn hans komi ekki fram og ekki hafi verið tekin lögregluskýrsla af honum, og íslenskur leiðsögumaður hafi einnig verið með hópnum. Samkvæmt frásögn Tsai Su. Fang, sem hefði verið með hinni látnu, hefðu þær verið í lóninu um það bil 15-20 mínútur. Hefðu þær farið saman um lónið og haldist í hendur en skyndilega hafi vatnið dýpkað og þær fallið fram fyrir sig, hún hafi misst handtakið og þær báðar farið á kaf í vatnið. Tsai Su. hafi sagst orðið mjög hrædd enda báðar ósyndar. Hún hafi náð að komast upp úr vatninu og kallað á hjálp þegar hún hafi hvergi séð vinkonu sína. Hún hafi síðan farið upp úr lóninu á meðan leitin fór fram. Hún hafi sagt leiðsögumanninn engar aðvaranir hafa gefið um hættur í lóninu og hún hafi ekki orðið vör við neinar viðvaranir á svæðinu. Starfsmenn stefnda hafi brugðist við samkvæmt neyðaráætlun A, sem notuð sé þegar alvarleg atvik beri að höndum. Vörðurinn hafi strax ýtt á neyðarhnapp, sem m.a. kveði alla starfsmenn til lónsins til hjálpar. Í lóninu hefðu verið allt að 200 baðgestir, þar af 20-30 í taiwanska hópnum.

Bótaskyldu er mótmælt enda hafi ekkert komið fram í málinu um að umbúnaður á staðnum, viðbúnaður eða viðbrögð starfsmanna beri vitni um ásetning eða gáleysi stefnda eða starfsmanna hans sem valdið geti bóta­skyldu. Þvert á móti hafi komið fram í málinu að stefndi hafi farið eftir öllum kröfum opinbers aðila sem fari með eftirlit með starfsemi stefnda. Baðstaðurinn hafi verið kyrfilega merktur um hættuleg svæði og gestir varaðir við, einkum ósyndir. Kort með öryggisreglum á fjórum tungumálum hefðu verið gefin út fyrir gesti og ferðaskrifstofum sendar leiðbeiningar um hvers bæri að geta við gesti fyrir komu. Á baðstaðnum sjálfum hafi verið öryggis­lína, sem hafi greint að grynnri og dýpri hluta lónsins. Starfsfólkið hafi allt verið þjálfað samkvæmt sérstakri áætlun sérfróðs manns. Engar opinberar reglur hafi verið í gildi um hvernig hátta skyldi starfsemi náttúrulegra baðstaða, en stefndi hafi farið eftir reglugerð nr. 457/1998 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum, eftir því sem við hafi átt. Stefndi hafi gætt allra eðlilegra öryggisráðstafana. Til stefnda verði ekki gerðar kröfur um einstaklingsbundnar leiðbeiningar við hvern baðgest. Fyrirsvarsmenn ferða­manna, sem komi á staðinn, verði að rækja þá skyldu að leiðbeina hópum, en stefndi geti ekki komið í þeirra stað og sinnt skyldum þeirra. Slysið hafi orðið vegna óvarkárni hinnar látnu eða mistaka hennar og vinkonu hennar og/eða hugsanlegs skorts á leiðbeiningum af hálfu hópstjóra taiwanska hópsins. Á stefnanda hvílir sú byrði m.a. að sanna atvik að slysinu, bótagrundvöll og orsakasamhengi þessa. Stefnanda hafi ekki tekist sú sönnun og beri því að sýkna stefnda af kröfum hans.

Stefndi hafi ekki brugðist þeirra skyldu að sjá til þess að öryggi gesta væri ekki hætta búin. Á staðnum hafi verið góður aðbúnaður og starfsmenn stefnda hafi verið þjálfaðir, hættur merktar og fararstjórum hafi verið leiðbeint um hvers yrði að gæta. Í stefnu sé þess í engu getið hvað hafi brugðist hjá stefnda, einungis fullyrt án raka að skyldu hefði ekki verið fullnægt. Andlát konunnar leiði ekki sjálfkrafa til bótaskyldu stefnda. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að stefndi hafi brugðist skyldum sínum og að sá brestur hafi leitt til andlátsins.

Því er mótmælt að viðvörunarskilti hafi verið ófullnægjandi. Enska sé alþjóðlegt tungumál. Erlendir gestir sem komi á baðstað stefnda séu af tugum þjóðerna og tungu­mál þeirra að minnsta kosti jafnmörg. Sú krafa verði ekki gerð til stefnda að hann hafi uppi aðvörunarskilti á öllum þeim tungumálum sem gestir kunni að hafa að móður­máli. Þess vegna sé lögð sú skylda á fararstjóra að upplýsa ferðafélaga sína um hættuleg atriði. Þótt ekki liggi fyrir óyggjandi upplýsingar um það hvort hin látna talaði og las ensku hafi vinkona hennar, sem var með henni þegar slysið varð, talað ensku. Í afgreiðslu þar sem allir gestir fari um hafi verið skýr og skilmerkileg skilti og kort.

Öryggislína hafi verið kyrfilega merkt með flotholtum og vandséð hvernig merkja hefði átt hana öðruvísi. Til gesta verði gerð sú krafa að þeir geri sér grein fyrir því að lína sem liggi um náttúrulegan baðstað hafi tilgang sem beri að gæta að.

Þótt Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hafi upphaflega gert þá kröfu að dýpi yrði hvergi meira en 160 cm hafi það fallið frá þeirri kröfu að uppfylltum öðrum kröfum sem stefndi hafi uppfyllt.

 Því er mótmælt að björgunaráætlunum og þjálfun starfsfólks hafi verið áfátt. Við­brögð starfsmanna hafi verið rétt og í samræmi við þjálfun. Allir hafi brugðist strax við en leit hafi hafist strax og hafi hún verið skipuleg.

Bláa lónið sé náttúrulegur baðstaður í hrauni sem noti heitt jarðvatn til baða. Þetta sé það sem baðgestir sækist eftir, tugþúsundum saman á hverju ári. Til slíkra staða þurfi að gera strangar kröfur um öryggisviðbúnað, merkt skilti um hættulega staði og þjálfun starfsfólks. Stefndi hafi uppfyllt allar eðlilegar slíkar kröfur. Til stefnda verði hins vegar ekki gerðar kröfur um að hann sjái til þess að vatnið á hinum náttúrulega baðstað sé jafntært og í sápulausu baðkari. Ráðstafanir stefnda geti heldur ekki komið í stað eðlilegrar árvekni gesta.

Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að stefndi hafi brugðist skyldum sínum. Slys verði ekki án mistaka eða óhappatilviljana. Hafi mistök verið gerð hafi þau ekki verið af völdum stefnda eða starfsfólks hans.

Verði stefndi dæmdur til greiðslu bóta er af hans hálfu talið að dráttarvextir verði ekki lagðir á kröfu stefnanda fyrr en frá uppsögu endanlegs dóms í málinu þar sem stefndi hafi meira en uppfyllt allar kröfur opinbers eftirlitsaðila og því hafi ekki verið unnt að sjá slysið fyrir, atvik máls séu of óljós og bótaskylda að minnsta kosti mjög óviss.

Niðurstaða

Af því sem fram hefur komið og hér að framan er rakið má ráða að þær Li-Yu Tsang og Tsai Su. Fang hafi ekki gert sér nægilega grein fyrir að aðstæður í Bláa lóninu gátu verið hættulegar, einkum þeim sem voru ósyndir, en konurnar voru ósyndar og náðu ekki til botns á slysstað. Stefndi hafði sett öryggislínu á vatnsyfir­borðið en fyrir utan hana dýpkaði vatnið og var hin látna þar þegar hún fannst á botni lónsins. Á ljósmyndum sjást öryggislínur greinilega þrátt fyrir að þær séu ekki sérstaklega merktar. Merkingar voru við dyrnar að búningsklefa kvenna um að ósyndir mættu ekki fara út fyrir línurnar en ekki liggur annað fyrir en að hin látna hafi farið í þann klefa enda fundust föt hennar þar. Í afgreiðslu voru kort sem sýndu hitastig og dýpt lónsins. Stefndi sendi öllum helstu ferðaskrifstofum leið­beiningar um öryggis­reglur og aðrar upplýsingar sem ætlast var til að komið yrði til baðgesta sem komu í lónið á vegum ferðaskrifstofanna. Þar er meðal annars farið fram á að leiðsögumenn eða hópstjórar segi gestum, sem þeir komi með í lónið, frá helstu öryggisatriðum áður en gestir fari til baða. Um þessi öryggisatriði segir í leið­beiningunum að dýfingar séu bannaðar, varað skuli við oddhvössu grjóti á botni, öryggislína marki grunn og djúp svæði og vara beri við misheitum straumum. Sömu tilmælum er beint til fararstjóra. Fram hefur komið að íslenskur leiðsögu­maður, sem var með hópnum og talaði kínversku, veitti upplýsingar um dýpt lónsins en óljóst er hverjar upplýsingar kínverskur fararstjóri veitti ferðamönnunum í hópnum. Af því sem fyrir liggur verður að telja óupplýst hvernig leiðbeiningum var að öðru leyti háttað í umræddu tilviki.

Óumdeilt er að í lóninu voru hættur eins og við er að búast þar sem vatn er. Ekki hefur komið fram að öryggis­reglur hafi verið brotnar af hálfu stefnda varðandi merkingar og aðvaranir eða annan aðbúnað og aðstæður á baðstaðnum. Stefndi hafði starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja sem veitt var á fundi 22. júlí 1997 til 22. júlí 2001. Þrátt fyrir að í bréfi Heilbrigðiseftirlitsins frá 6. maí 1997 hafi þess verið krafist að dýpt lónsins væri hvergi meiri en 160 cm var því ekki haldið til streitu þar sem fallist var á þau rök stefnda að nægilegt væri að setja tvær flotbryggjur út í dýpsta hluta lónsins og strengja varnarlínur, sem afmörkuðu dýpstu hluta þess, eins og fram kemur í bréfi framkvæmdastjóra Heilbrigði­seftirlitsins frá 10. ágúst 1999 og í lögregluskýrslu sem tekin var af honum 23. ágúst sama ár. Öryggis­kröfur, sem gerðar verða að öðru leyti til stefnda, hljóta að miðast við aðstæður. Sama á við um aðgæslu baðgesta og fararstjórn en slíkt verður að miða við aðstæður allar. Dómurinn telur að ráða megi af málsatvikum og öðrum upplýsingum, sem fyrir liggja í málinu, að slysið verði að mestu rakið til þess að hin látna hafi ekki sýnt næga aðgæslu í lóninu. Þegar það er virt og annað, sem fram hefur komið og hér að framan hefur verið greint frá, verður ekki fallist á þau rök stefnanda að slysið verði rakið til þess að stefndi hafi ekki tryggt öryggi gesta nægilega þannig að til bótaskyldu leiði.

Í framburðum vitna hefur komið fram að baðvörður hringdi neyðarbjöllu þegar í ljós kom að þörf var á aðstoð sem aðrir starfsmenn stefnda brugðust strax við. Lýsingar þeirra á atvikum gefa ekki tilefni til að ætla að viðbrögð þeirra hafi verið röng eða ómarkviss. Ekki verður heldur annað séð en að aðgerðir starfsmannanna hafi verið eðlilegar og í samræmi við fyrirliggjandi neyðaráætlun svo og að björgunar­aðgerðum hafi verið hagað með tilliti til þess sem aðstæður gáfu tilefni til. Starfsmenn höfðu fengið þjálfun reglulega í björgunaraðgerðum, skyndihjálp og til leita í lóninu. Skýringar þeirra á því að leitin í lóninu tafðist í umræddu tilviki voru þær að mjög erfitt hafi verið að fá upplýsingar um hvað hafði komið fyrir, hvort konunnar væri í raun saknað og hvar síðast hefði sést til hennar. Starfsmenn hófu við fyrsta tilefni leit að konunni í lóninu og skipulagða leit hófu þeir skömmu síðar. Þeir kölluðu síðan fljótlega eftir aðstoð lögreglu sem kallaði björgunarsveitina strax til aðstoðar. Ekki er í ljós leitt að mistök hafi verið gerð við leitina, sem stefndi beri ábyrgð á, og ósannað er að leitin að konunni hafi ekki verið nægilega markviss eða að þjálfun starfsfólks stefnda og björgunaráætlunum hafi verið áfátt. Þótt ekki hafi tekist að bjarga lífi konunnar verður ekki dregin sú ályktun af því að björgunaráætlunum og þjálfun starfsfólks stefnda hafi verið áfátt og að það hafi leitt til dauða hennar.  

Af framangreindu leiðir að slysið verður hvorki rakið til sakar stefnda né starfsmanna hans og ber stefndi því ekki bótaábyrgð á dauða Li-Yu Tsang samkvæmt almennu skaðabótareglunni. Ber með vísan til þess að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.

Rétt þykir með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 að málskostnaður falli niður.

Dóm þennan kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari. 

DÓMSORÐ:

Stefnda, Bláa lónið hf., skal sýkn vera af kröfum stefnanda, Lin Yu-Fu, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.